Aldís Arnardóttir er 26 ára Selfyssingur en býr í Reykjavík og er í sambúð með Kára Steini Karlssyni hlaupara. Aldís starfar sem rekstrar- og sölustjóri verslunarsviðs 66° norður. Ég fylgi Aldísi á Instagram þar sem hún deilir oft afar skemmtilegum myndum sem snúa að heilsu og hreyfingu og það er óhætt að segja að hún veitir manni svo sannarlega innblástur til að huga enn betur að hreyfingu sem og heilsunni. Mig langaði að skyggnast eilítið inn í týpíska æfingaviku hjá Aldísi og deila henni með ykkur.
Fyrir þá sem langar til að fylgjast með henni á Instagram þá heitir hún: Aldisarnar eða instagram.com/aldisarnar
“Þar sem ég er mjög oft upptekin við vinnu þarf ég að skipuleggja allan minn tíma mjög vel og þar á meðal hreyfingu. Ég fylgi vanalega ekki neinu sérstöku æfingarplani heldur geri bara það sem hentar hverju sinni og ég er í stuði fyrir. Hreyfing, sama í hvaða formi hún er, skiptir mig miklu máli og hefur svo mikið að segja um andlega líðan, ég er engin öfgamanneskja og fyrir mér er hreyfing fyrst og fremst til að hafa gaman af. Ég hef helst verið að stunda hlaup og hot yoga en byrjaði núna fyrir stuttu að bæta hjólaæfingum við. Ég tek æfingar annað hvort fyrir vinnu á morgnana eða seinni partinn eftir vinnu. Það er mismunandi hvað ég geri hvaða daga en ég reyni að hreyfa mig fimm sinnum í viku”.
Hlaup: a.m.k. þrisvar í viku
Aldís segist hlaupa að minnsta kosti þrisvar sinnum í viku “Hlaupin eru alveg ótrúlega skemmtileg hreyfing sem gefa manni svo mikið til baka, hérna er ég kannski ekki alveg hlutlaus þar sem kærastinn er búinn að smita mig svona líka af hlaupadellunni. Annars hafa hlaupin marga kosti, t.d að það er hægt að stunda þau hvar og hvenær sem er sem hentar mér mjög vel þar sem ég er óþarflega oft í tímaþröng. Ég hef verið að fara töluvert á hlaupabretti núna í vetur og þá helst út af hálkunni sem liggur yfir öllu en persónulega finnst ekkert voðalega gaman að renna eftir stígunum. Annars er ég líka í hlaupahóp Vals og reyni að mæta með þeim þegar tími gefst. Það er frábær félagsskapur að vera í skokkhóp og sömuleiðis eru æfingarnar hjá þeim fjölbreyttar og krefjandi”.
Hot Yoga – a.m.k. tvisvar í viku
Samhliða hlaupunum segist Aldís fara í Hot Yoga allavega tvisvar í viku “Ég fór í fyrsta hot yoga tímann minn í byrjun árs 2013 og hef ekki getað hætt síðan. Áður en ég byrjaði datt mér ekki í hug hvað yoga gæti gert manni gott, bæði andlega og líkamlega. Á sama tíma og þetta er hellings púl er þetta líka góð slökun, maður nær að kúpla sig út og losa sig við stress. Ég er búin að styrkjast mikið síðan ég byrjaði og sömuleiðis orðin mikið liðugri en ég var. Ég fer alltaf til hennar Maríu í World Class en hún er alveg æðisleg og frábær kennari”.
Hjólaæfingar – tvisvar í viku
“Ég fékk hjól frá kærastanum í jólagjöf sem ég er alveg ótrúlega ánægð með. Planið er því að bæta hjólaæfingunum við á þessu ári og þar sem ég og kærastinn höfum bæði mikinn áhuga á nýju hjólunum okkar ætlum við að vera dugleg að fara saman í hjólatúra næsta sumar. Ég er strax farin að æfa mig og búin að koma hjólinu fyrir inni í stofu. Þetta er götuhjól (e. racer) sem hentar því ekki vel yfir vetrartímann á Íslandi en fram á vor verð ég dugleg að æfa mig fyrir framan sjónvarpið, sem er reyndar afar ljúft”.
Takk fyrir að deila með okkur æfingaplaninu þínu Aldís, mér finnst alltaf jafn gaman að forvitnast um heilsuplön annarra og læra af þeim.
Skrifa Innlegg