Dagurinn er 11.11.22, óneitanlega ein flottasta tala sem dagatalið hefur gefið okkur. Ef ég væri með leg og eggjastokka hefði ég mögulega gert mitt allra besta til að splæsa í barn bara í þeirri von að ég geta gefið barninu fallegasta afmælisdag fyrr og síðar. Næsti möguleiki hefði verið að splæsa í giftingu, sem jóga-tísku-wellness-Rvk Ritual drottning landsins gerði. Ef ég bara gefði nælt mér í Pétur fyrr, þá hefði verið auðveldara að múta honum með mér í hið heilaga. Það var þó næstum því jafn ánægjulegt vitandi það að náin og algjörlega stórkostleg vinkona gerði það.
Þessi dagur og þetta brúðkaup situr enn í mér og lifir mjög sterkt í mér eftir fögnuðinn svo ég gerði mér lítið fyrir og tók viðtal við Dagnýju og Davíð.
„Dagsetningin var aðalatriðið fyrir mig og maðurinn minn var ánægður með hana enda auðvelt að muna en fyrir mér eru 11.11.22 englatölur sem tengjast góðri orku. Við trúlofuðum okkur áramótin 2018 og búin að langa lengi að gifta okkur og fagna með vinum og fjölskyldu.” segir Dagný Berglind Gísladóttir en hún og Davíð Rafn Kristjánsson giftu sig 11 nóvember síðastliðinn.
mynd: Saga Sig
Það var eitthvað svo draumkennt að labba inní Ásmundarsafn þar sem athöfnin fór fram, þar átti tónlistin einnig stóran þátt ásamt staðsetningunni, þetta blandaðist allt svo fallega saman. Ég held að við vorum flest farin að halda inni andanum að bíða eftir að Dagný mundi labba niður stigann.
„Við ákváðum að halda athöfnina í Ásmundasafni sem er uppáhalds húsið okkar, þar sem við búum í Laugardalnum og erum bæði miklir listunnendur. Það er líka einstakur hljóðburður í húsinu og listaverk Ásmundar í miklu uppáhaldi hjá okkur. Við vorum líka svo heppinn að Unndór Egill Jónsson myndlistarmaður var einmitt með sýningu þessa dagana í rýminu og verkin hans úr íslensku birki fullkomnuðu umhverfið.” segir Dagný
mynd: Saga Sig
Jara Karlsdóttir vinkona brúðhjónanna, tónlistarkona og stjörnuspekingur og tónlistarmaðurinn Thorasius fluttu lag þegar Dagný gekk inn með móður sinni og var það ótrúlega töfrandi stund. Athöfnina leiddi kær vinur Davíðs og Dagnýjar, Magnús Björn Ólafsson rithöfundur af einskærri snilld og gaf brúðhjónin saman.
mynd: Saga Sig
mynd: Saga Sig
„Okkur langaði að hafa athöfnina eins einlæga og mögulegt væri og hleypa vinum og fjölskyldu inn í ástina og söguna okkar. Við vissum að Maggi vinur okkar myndi skapa töfrandi stund fyrir alla sem hann vissulega gerði” sagði Davíð
Brúðhjónin fóru með einlæg heit til hvors annars og þá flutti Mugison lag og leiddi inn hringaberanna, 3 ára son brúðhjónanna Börk Atlas og dóttur vina þeirra hana Nóru Sól.
mynd: Saga Sig
En hvaðan er kjóllinn, fylgihlutir og föt brúðgumans?
„Ég hef aldrei getað ímyndað mér að vera í hefðbundnum brúðarkjól og var því heppin að fá Andreu Ósk Margrétardóttur fata- og textílhönnuð til að hanna kjólinn og skapa heildar konseptið fyrir lúkkið. Ég var þó til að vera í hvítu útfrá jógafræðunum, vegna þess að það er sagt stækka áruna sem er tilvalið á svona degi. Ferli í hönnun skiptir mig miklu máli og var dásamlegt og að vinna með svona hæfileikabúnti eins og Andreu og var hvert skref, einskær gleði. Ég lét hana til dæmis fá tónlistina úr uppáhalds vídjóverkinu okkar eftir Ragnar Kjartansson sem var líka fyrsta stefnumótið okkar og þar hófst hönnunarferlið hennar. Hún gerði teikningar og moodboard og ákvað svo að vefa sjálf efnið í kjólinn úr silki og bambus þráðum á vefstól. Kjólinn er handofinn með þeirri hugsun að skapa fegurð með hverjum þræði sem fór í kjólinn. Fókusinn á heildar útkomunni var að skapa jafnvægið milli tærra silkiþráða og ófullkomnum lausum þráðum, á milli kvennlegra lína í sniðinu og háum stígvélum.”
mynd: Saga Sig
„Ég var í hvítum stígvélum frá íslenska skómerkinu Kalda við kjólinn sem ég var í skýjunum með og með slör úr einstöku haute couture efni. Slörið er með bræddu gulli á yfirborðinu svo að það glitrar þegar ljós skín á það en Anna Gulla Eggertsdóttir hattagerðarmeistari og hönnuður gerði það handa mér og bjó einnig til gólfsítt hvítt kápu vesti úr hvítri íslenskri ull og var alveg fullkomið fyrir vetrarbrúðkaup og eitthvað sem ég mun nota mikið áfram. Taskan sem kláraði heildarlúkkið heklaði Eva Dögg Rúnarsdóttir vinkona mín, samstarfskona og fatahönnuður úr endurunnum textíl, með bláum tónum til að tikka í boxin “old, new, borrowed, blue”. segir Dagný.
„Svo sá Kolbrún Vignis um make up og hár og var andlegur stuðningur á deginum og dásamleg í alla staði.
„Davíð lét sérsníða á sig smóking frá Suit Up og var í skóm frá Herragarðinum og fékk sér fersk blóm í barminn. Við leigðum svo smóking á 3 ára son okkar svo að hann yrði í stíl við pabba sinn og þeir voru glæsilegir í alla staði.“
mynd: Saga Sig
mynd: Saga Sig
Hvernig var að skipuleggja veisluna, skreytingar og boðslista?
Veislustjórinn var Jóhann Alfred Kristinsson grínisti og leysti það verkefni fagmannlega og hélt veislugestum glöðum og kátum.
„Boðslistinn var að okkar mati erfiðasti parturinn því manni þykir vænt um svo marga en höfðum alltaf viljað frekar lítið brúðkaup. Svo að við buðum þeim sem eru næstir okkur í dag og héldum okkur við allra nánustu fjölskyldu og vini sem endaði að vera rúmlega 75 manns.“
„Við erum umkringd hæfileika fólki og varð því dagurinn framar vonum og allir til í að nördast í smáatriðunum með okkur. Eva Dögg var yfir skreytingarmeistari og sá um að salurinn Kornhlaðan sem BakaBaka er með á Bankastræti væri fullkominn ásamt herliði af vinkonum mínum. Erna Bergmann fatahönnuður gerði svo blómvöndinn minn og skreytingar í veisluna sem voru guðdómlegar. Við vorum að vinna mikið með skeljar í skreytingum af því að við elskum að nota fallega hluti úr náttúrunni til að skreyta með og var smjörið til dæmis framsett á skeljum.“ segir Dagný
„BakaBaka sá um allar veitingar, mat, drykki og Ágúst Fannar Einþórsson konditor og eigandi BakaBaka gerði brúðkaupstertuna sem var rosalega góð. Við vorum með ítalskan brag á matnum en lögðum mikið upp úr að maturinn væri úr geggjuðum hráefnum eins og þeir kunna vel á BakaBaka og gætum ekki verið ánægðari með matinn. Þeir voru til í að gera vel bæði við kjötætur og vegana svo að allir yrðu vel saddir og sáttir. Við vorum svo með hvítt, rautt, bjór og smá sterkt þegar leið á kvöldið en einnig úrval af óáfengu víni og Sparkling Tea frá Ákkúrat svo að allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi.”
„Tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon, sem er í miklu uppáhaldi hjá hjónunum, kom og spilaði nokkur lög og fyrir fyrsta dansi og listamaðurinn Snorri Ásmundsson vinur hjónanna var með gjörning sem vakti lukku.
Hvar gistuð þið svo um kvöldið?
„Um klukkan eitt röltum við svo skælbrosandi í góðu veðri yfir á Edition sem var punkturinn yfir I-ið. Við gistum þar í gullfallegri svítu og þau tóku svo fallega á móti okkur og gerðu upplifunina einstaka. Við nutum okkur vel þar að lesa kort og opna gjafir í fallegu umhverfi með sjávarútsýni. Um morgunin tókum við því svo rólega og fórum í bröns á Tides og nutum okkar á bleika skýinu.“
TIL HAMINGJU BESTU BRÚÐHJÓN! <3