fbpx

NÁTTFATAHELGI

2023LÍFIÐOUTFITSAMSTARF

Góðan daginn, vonandi hefur þú það ótrúlega gott í dag.

Þetta er staðan á mér. Sófakartafla í náttfötum, með bók & kaffi. Ég tel það vera fullkomlega nauðsynleg helgi fyrir mig að vera frú sófakartafla. Stundum er staðan bara þannig og þá á maður að hlusta á það.

Ég er búin að vera rosalega þreytt undanfarið. Þannig að þessi helgi verður algjör slökun til að ná upp orku. Náttfatahelgi getum við kallað þetta 👌🏻☁️💤  Ég er ennþá að lesa It ends with us eftir Colleen Hoover. Þið vitið Tiktok trend bókin. & já bók nr 2 á árinu. Markmiðið er að klára 5 bækur. Lestrarhelgi verður þetta svo ég nái að komast eitthvað áfram í þessu markmiði mínu.

Samstarf 

Þessi fínu náttföt sem þið eruð búin að forvitnast um eftir að ég deildi mynd í story áðan eru frá Ginatricot. Ég mun mjög líklega koma til með að nota þau líka fínt við hæla…

Ég læt fylgja linka á vörurnar hér fyrir neðan:
Náttbuxur hér.
Náttskyrta hér.

ArnaPetra (undirskrift)

LANGT SÍÐAN SÍÐAST

2023LÍFIÐ

Góðan daginn, langt síðan síðast …

Eftir mesta flakk lífs míns (fyrir utan heimsreisuna) þá er ég loksins komin aftur heim til svíþjóðar í rútínu. Ég er búin að taka mér góðan tíma til að komast aftur í hversdagsleikann hér úti og ó það er svo gott. En mig langar samt að fara aðeins yfir síðustu vikur því þær eru búnar að vera ótrúlega viðburðaríkar & margir hafa verið forvitnir um Barcelona ferðina.

Ég fór til Barcelona með skólanum sem er partur af okkar praktík (starfsnám). Þar var markmiðið að prófa og að læra að vinna með kúnna frá A-Ö. Þarna á maður ekki að mynda eftir sínum stíl heldur hvað er það sem kúnninn vill og fara eftir þeirri ósk, en auðvitað koma með fleiri hugmyndir & uppástungur sem getur bætt lokaútkomuna á herferðinni. Okkur var skipt niður í hópa, tveir ljósmyndarar og einn eða tveir photo designers. Allir hópar fengu ólík verkefni og áskoranir.

Okkar hópur var svo heppinn að fá víngarðinn Can Roda sem er rétt fyrir utan Barcelona. Það tekur aðeins hálftíma að komast í þessa paradís sem ég mæli með að heimsækja. Hér koma nokkrar myndir frá tökudögunum …

Á meðan ferðinni stóð var ég á self mastery námskeiði með Reykjavík Ritual sem ég verð bara að fá að nefna af því að mér finnst námskeiðið hafa hjálpað mér ótrúlega mikið. Ég gæti ekki mælt meira með, ég fékk að kynnast sjálfri mér á allt öðru plani. Þetta krefst vinnu & tíma sem mér finnst að allir eiga að gefa sjálfum sér. Gjöf til sín. Þú getur lesið betur um námskeiðið hér. Næsta byrjar 5. maí.

Eftir Barcelona fór ég heim til svíþjóðar alveg að missa mig úr spennu að hitta fjölskylduna mína. Við eyddum páskunum í gullfallegri sænskri stuga eins og það kallast hér úti. Við nutum í botn í einni fjölskylduklessu.

Síðan var ferðinni haldið til íslands í vinnuferð.

 Ég tók að mér verkefni með Verma til að mynda fyrir Stuckies sem er sænskt fyrirtæki stofnað af mömmu sem vildi gera sokka sem haldast á barninu sínu. Hver hefur ekki lent í því að eyða of miklum tíma af deginum í að leita af hinum sokknum. Ég sýni ykkur meira frá því síðar.

Allavega, þá voru þetta örfáir mjög svo brjálaðir dagar. Það var mikið að gera, en svo gaman. Við Emilía flugum síðan heim þar sem Tómas varð eftir vegna vinnu.

Ég ætla ekki að fara að ljúga að ykkur. Ég var gjörsamlega búin á því þegar við komum heim. Og mitt sociala batterí var lööööngu orðið batteríslaust. Kveðja introvert sem var búin að vera innan um fólk í of langan tíma. Eins yndislegt og það er þá finn ég bara að ég get gefið lítið af mér þegar ég hef ekki fengið tíma til að anda með sjálfri mér. Þannig hleð ég mín batterí.

Þangað til næst,
takk fyrir að lesa <33

ArnaPetra (undirskrift)

LÍFIÐ & LJÓSMYNDUN

LÍFIÐSAMSTARFSVÍÞJÓÐ

LÍFIÐ & LJÓSMYNDUN
eða lífið er ljósmyndun …

Eins og einhverjir hafa mögulega tekið eftir þá er ég að njóta mín í botn hér í Svíaríki. Ég hef lítið verið að gefa update af mér sjálfri sem er búið að vera frekar næs verð ég að viðurkenna. Þar sem að ég er djúpt sokkin í ljósmyndun & er í algjörri ljósmyndabúbblu. Ég er spennt að vakna alla morgna til að fara í skólann og svo er það líka búið að vera extra skemmtilegt uppá síðkastið þar sem Emilía vaknar súper hress og vill helst fá mömmu og pabba fram strax til að borða morgunmat öll saman.

Litlu hlutirnir sem gleðja, hversdagsleikinn & rútínan er best <3

Bakstur & súrdeig …

Það hefur gengið upp & niður get ég sagt ykkur. Ég er smá heltekin eða ég er allavega að reyna að baka súrdeigsbrauð. Það er bara ekki svo auðvelt. Þess vegna hef ég verið ogguponsu galin þegar kemur að súrdeigsbakstri.

Til þess að baka brauðið er mælt með að nota svokallaðan dutch oven (steypujárnssett sem má fara inn í ofn) sem er eins og þetta sett sem þið sjáið á myndunum. Ég læt það fylgja með hér. Eftir að ég eignaðist þetta fína lífstíðar pottasett þá missti ég mig ogguponsulítið af því að mér finnst það svo fallegt. Ég settist niður, planaði heila myndatöku, skissaði hvernig ég vildi hafa myndirnar, fór í búðina og handvaldi hvert einasta grænmeti. Fann til fínt props sem myndi passa við moodboardið og fékk tvær stelpur úr bekknum mínum til að hjálpa mér með að ná þeim myndum sem ég vildi.

Hér getið þið skoðað myndirnar & ég er ekkert smá glöð með útkomuna & hlakka til að gera meira svona:

 

Þið sem viljið eignast svona sett getið tekið þátt í leiknum sem er núna í gangi hér. Taktu endilega þátt – það er ekkert smá gaman að sjá hvað það er góð þáttaka á nýja ljósmyndainstagramminu 💛

LEIKUR 👇🏻💛🥘🥬

Núna er það bara að plana næstu myndatöku sem er í næstu viku, kvöldinu verður eytt í það. Takk fyrir að lesa & ef þú tekur þátt í leiknum þá bara megi heppnin vera með þér 🤞🏻

ArnaPetra (undirskrift)

LÆRÐI Í FRAKKLANDI & HEFUR NÚ OPNAÐ VÍNBAR Á AKUREYRI

VIÐTÖL
Guðbjörg Einarsdóttir er uppalin á Akureyri og elti drauminn sinn til Frakklands, opnaði síðan vínbar og bistro með kærastanum sínum hér á Íslandi. ELSKA fólk sem hendir sér í djúpu laugina, upplifir ævintýri & eltir nákvæmlega það sem þeim langar að gera. Hún er gott dæmi um það.
Kynnumst Guðbjörgu betur …
Við hvað starfar þú? 
Ég hef unnið við allskonar störf á mínum 27 árum en það sem ég geri í dag er að ég er í sjálfstæðum rekstri með kærastanum mínum Einari Hannessyni þar sem við stofnuðum og opnuðum í apríl Eyju vínstofu & bistro í miðbæ Akureyrar. Okkur fannst vanta huggulegan vínbar á Akureyri þar sem maður gæti sest niður í fallegu og notalegu umhverfi, fengið sér gott vín og gourmet mat. Draumahúsið Hafnarstræti 90 fór á sölu vorið 2021 og þá fór boltinn að rúlla.
 

Finnst þér þín menntun hafa nýst þér í því sem þú ert að gera í dag?

Að opna veitingarstað er klárlega það mest krefjandi sem ég hef tekið mér fyrir hendur þrátt fyrir að hafa rekið gistiheimili 19 og 20 ára gömul. Ég kláraði BA í frönsku frá Háskóla Íslands og Université Lumière Lyon 2 í júní 2020 og byrjaði í MA námi í alþjóðasamskiptum haustið eftir sem ég kláraði í október 2022 🧑🏻‍🎓 Ég stundaði námsannir bæði í Lyon og París í Frakklandi og þær dvalir hafa leyft mér að kynnast franskri menningu enn betur og það var einmitt þar sem áhugi minn á vínum og vínbörum kviknaði🍷 BA gráðan í frönsku hefur klárlega hjálpað mér á vínbarnum þar sem ég þarf að lesa efni á frönsku tengt vínum og þess háttar. Einnig hefur það nýst mér við að tala við franska ferðamenn og starfsmenn sem koma til okkar. Ég hef einnig trú á að BA námið muni nýtast mér vel þegar ég fer að búa til frönsk viðskiptatengsl í framtíðinni.

MA gráðan í alþjóðarsamskiptum hefur hjálpað mér ómeðvitað á marga vegu, sérstaklega í tengslum við enskuna þar sem að allt námið var kennt á akademískri ensku sem ég var ekkert sérstaklega sterk í áður en ég byrjaði. Ég byrjaði í náminu í COVID-19 þannig allt fór fram á netinu sem var mjög krefjandi. Ég þurfti einhvern vegin að þróa með mér aga sem var erfitt vegna alls áreitisins sem kemur frá tölvunni og símanum. Sá agi hefur hjálpað mér mikið í allri tölvuvinnunni tengt fyrirtækinu í dag. Þrátt fyrir að ég er búin að mennta mig ágætlega þá var held ég ekkert sem hefði getað undirbúið mig fyrir það að stofna og reka fyrirtæki í veitingarekstri. Það er einn mesti skóli sem ég hef upplifað án þess að lasta menntastofnunum. Reynslan sem ég hef öðlast er afar dýrmæt þrátt fyrir að hver mistök geta verið dýr. Ég held að mistökin sem að ég og Einar höfum gert í veitingarekstrinum hafa gefið okkur þá þekkingu og reynslu sem við búum að í dag, vegna þess að þá gerum þau ekki aftur og verðum ennþá betri í að tækla allskonar mál sem koma uppEinnig hafa ráð og leiðsögn frá vinum okkar sem eru reynsluboltar í veitingargeiranum verið ómetanleg í rekstri fyrirtækisins síðustu mánuði. Þetta eru afar mikilvæg ráð sem ég mun búa að í framtíðinni. Tengslanetið sem ég og Einar höfum búið til á stuttum tíma með því að hafa byrjað þennan rekstur er orðið stórt og mun 100% nýtast okkur í þeim verkefnum sem við munum framkvæma seinna meir. Ég er búin að kynnast svo mikið af allskonar frábæru fólki sem ég hefði annars aldrei kynnst 🖤

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?

Vinnudagarnir hjá mér eru aldrei eins. Þar sem ég er í nýjum sjálfstæðum rekstri gerir maður flesta hluti sem hægt er að gera sjálfur. Það er allt frá því að ryksuga og skúra, sjá um markaðssetningu, sitja fundi, panta inn vörur, ráðast í framkvæmdir á fasteigninni, þróa og búa til mat- og vínseðla, vinna og þjóna á staðnum, sjá um starfsmannamál o.s.frv. Þegar fyrirtækið stækkar og þróast þá fær maður meira svigrúm til þess að ráða inn fólk í allskonar verkefni. Þessi vinna er mjög skemmtileg en auðvitað krefjandi á köflum ⚡️

Hvað gerirðu eftir vinnu? 
Eftir vinnu finnst mér gott að hitta vini og fjölskyldu til þess að kúpla mig út frá öllu áreiti og stressi. Þá er maður einhvern vegin í núinu og fær orku og hvatningu. Ég er ótrúlega heppin með vini og vinkonur sem styðja mig í einu og öllu og eru alltaf til staðar þegar þörf er á. Mamma og pabbi eiga líka fallegt heimili inn í Eyjafjarðarsveit þar sem ég ólst upp og mér finnst ég alltaf ná að hvílast og fá ró þegar ég kíki til þeirra. Einnig finnst mér mjög notalegt og næs að skella mér í sumarbústaðinn í Vaðlaheiðinni sem tengdafjölskyldan mín á.
Á kvöldin þegar það gefst tími elska ég líka að horfa á bíómyndir eða þætti með kærastanum mínum með vel völdu snarli. Það fær mig einnig til að kúpla mig út og fá innblástur 🍿
Hvað kemur þér í gott skap?
Það sem kemur mér í gott skap er tilfinningin að vera búin að þrífa heimilið þannig að það er tandurhreint og fínt 🫧
Mér finnst svo góð tilfinning að eiga fallegt heimili þar sem mér líður vel að eyða tíma og hlakka ég til að taka það hægt og rólega í gegn í framtíðinni 🛠️ Það er svo mikið potential í íbúðinni sem við búum í og það er erfitt að ráðast ekki strax í allar framkvæmdir en það er ekki alveg í boði núna þegar maður er að koma nýju fyrirtæki á fótinn. Við búum fyrir ofan veitingastaðinn okkar í 5 herbergja íbúð á besta stað í miðbænum. Ég er svo heppin að kærastinn minn er framkvæmdaglaður og handlaginn og við erum með svipaðar hugmyndir um hvað við viljum gera við íbúðina þannig það verður spennandi að sjá hvernig hún mun líta út eftir ca. 3 ár ✨
 
Hvað er það allra leiðinlegasta sem þú gerir? 
Það allra leiðinlegasta sem ég geri er að keyra eða fara í matvörubúð. Ég held samt að mér þyki búðarferðirnar leiðinlegri. Oft eru vörur sem manni vantar ekki til, þannig maður þarf að prófa nokkrar búðir í von um að finna þær. Ég veit ekki hversu oft ég hef lent í því. Ég veit ekki hvort þetta sé meira landsbyggðavandamál en þetta getur oft verið mjög þreytandi. Sérstaklega þegar maður er á hraðferð. Þetta hefur nú skánað eftir að Krónan opnaði fyrir norðan en á sama tíma er maður oft lengi að finna vörurnar, fara heim með þær og ganga síðan frá þeim o.s.frv 🛍️
 Hvar sækirðu innblástur?

Í lífinu sem og heimilinu sæki ég mikinn innblástur frá Frakklandi og Skandinavíu. Ég hef einnig verið að fá innblástur frá fólki úr allskonar áttum. Sérstaklega fólki sem ég er búin að kynnast eftir að við opnuðum Eyju, fastakúnnum og kollegum sem manni er farið að þykja vænt um og lítur upp til 🫶🏻 Einnig finnst mér mikilvægt að skipta reglulega um umhverfi því þá næ ég að sjá hlutina í öðru ljósi og fá innblástur til að tækla verkefnin.

Ef það er einhver þarna úti sem vill vinna við eða mennta sig í því sama, ertu með einhver skilaboð, ráð eða tips? 

Veldu eitthvað nám sem þér finnst áhugavert því þá er líklegra að þú endist í náminu. Á sama tíma held ég að hvaða nám sem þú ferð í, muni alltaf koma þér að gagni. Ég veit að margir skildu ekki afhverju ég valdi frönsku í BA, sumum fannst það jafnvel tilgangslaust og vera tímaeyðsla, en ég vissi nákvæmlega hvað ég var að gera og það hefur opnað á mörg atvinnutækifæri fyrir mig hingað til. Ef ég vil búa í Frakklandi í framtíðinni og sækja um starf hjá t.d. stofnun eða sendiráði þá gæfi þetta mér alltaf forskot á að fá starfið því að það er oft frekar ráðið einhvern með góða menntun sem getur talað frönsku heldur en einhvern annan með góða menntun en talar einungis ensku. Þannig tungumál eru mjög mikilvæg og opna á allskonar tækifæri og atvinnumöguleika.

Mitt ráð er að hlusta ekki á aðra ef þú ert í sömu sporum og ég var í, gerðu það sem þig langar! 🙌🏻  En í mínu tilviki finnst mér námin sem ég er búin með vera ákveðin öryggisnet fyrir mig, þau gagnast mér að vissu marki í því sem ég er að gera í dag en opna á fleiri tækifæri á allskonar störfum í framtíðinni. Ég er með mörg stór markmið og hugmyndir sem ég vil að verði að veruleika seinna meir og ég er þakklát fyrir að hafa klárað BA og MA gráðurnar. Mig langar t.d. til þess að stofna ferðaþjónustufyrirtæki samhliða veitingarekstrinum þegar ég mun hafa meiri tíma.

En þau ráð sem ég get gefið fólki er að taka þátt í nemendafélögum, nefndum og samkomum innan skólans. Það hjálpar manni að búa til tengslanet, hafa gaman og eignast vini🫱🏻‍🫲🏼 En fyrst og fremst var það mikilvægast fyrir mig að fara í skiptinám því það gaf mér svo mikið sjálfstraust og sjálfstæði. Það voru fyrst og fremst námsdvalirnar erlendis sem mótuðu mig hvað mest á mínum námsferli en ég fór fyrst 17 ára í skiptinám til Parísar í eitt ár 🥐🇫🇷. Ég þroskaðist svo mikið, opnaðist og blómstraði eftir að ég kom heim því að þetta voru svo krefjandi tímar og mikill sigur þegar allt gekk upp. Á endanum er mikilvægt að reyna hafa gaman að því sem maður er að gera, það auðveldar allt ferlið og hjálpar manni að ná markmiðunum!
Fylgist betur með hér:
Guðbjörg Einarsdóttir: instagram
Eyja WineBar: instagram
ArnaPetra (undirskrift)

VELDU ÞANN SEM ÞÉR ÞYKIR BESTUR

SAMSTARF

Úllen dúllen doff …

Hvaða jakki finnst þér flottastur? Þú velur.

Í samstarfi við Wodbuð ætlum við að gefa einum heppnum fylgjanda yfirhöfn að eigin vali. Úrvalið í Wodbuð hefur aldrei verið flottara! Þess vegna varð ég að sýna frá nokkrum vel völdum hér fyrir ofan.

Yfirhöfnin sem varð fyrir valinu hjá mér er þessi fína úlpa frá uppáhalds sænska merkinu Aim’n. Það er einnig hægt að taka beltið. Þið getið skoðað úlpuna betur hér ásamt öðrum fínum.

Taktu þátt í leiknum hér. Megi heppnin vera með þér 🤞🏻

ArnaPetra (undirskrift)IG @arnapetra

BIRTA HLÍN GERIR ÞAÐ GOTT Í DANMÖRKU

VIÐTÖL

Það var ekkert smá gaman að fá að taka viðtal við hana Birtu Hlín sem er hreint út sagt snillingur í því sem hún er að gera. Eftir að ég byrjaði að fylgja henni fyrir ekki svo löngu þá hefur mig í fyrsta lagi langað að flytja til Danmerkur, kaupa mér kött … eða ræna hennar & byrja að versla meira second hand. Ég mæli hiklaust með að fylgjast með henni á öllum ólíkum miðlum. En áður en þú gerir það þá skulum við kynnast henni betur …

Við hvað starfar þú? Ertu búin að mennta þig í einhverju ef svo er þá hverju og er það að nýtast þér í þínu starfi? 

Ég hóf nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík árið 2019 og flutti til Danmerkur ári seinna til að fara í skiptinám við CBS, viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Ég gjörsamlega féll fyrir borginni og langaði að búa hér áfram. Ég athugaði möguleikann á að skipta um skóla til að geta búið áfram í Köben en það var því miður ekki hægt og því ákvað ég að setja námið á smá pásu. Í mars 2021 hóf ég störf sem „influencer manager“ á markaðsskrifstofu hér í Köben og vann þar í heilt ár þangað til ég ákvað að segja upp störfum til að fara á fullt með samfélagsmiðlana mína. Á þeim tíma var ég búin að byggja upp góðan fylgjendahóp á Instagram og TikTok sem gaf mér þann möguleika að lifa á tekjunum sem mynduðust þar.

            Ég tel að viðskiptafræðin passi ágætlega við áhugasvið mitt en ég hef klárlega lært töluvert meira um stafræna markaðssetningu við að vinna á markaðsskrifstofu og að starfa sem áhrifavaldur. Auðvitað nýtist námið að hluta til en þar sem stafræn markaðssetning breytist ört, þá tel ég mun verðmætara að vera „hands on“ á samfélagsmiðlum og öðlast reynslu við að nota þá á vinnumarkaði. Ef ég þyrfti að velja nám í dag, þá myndi ég líklegast velja eitthvað nám sem býður upp á meiri sköpun í bland við viðskiptafræðina og þar sem starfsnám er einnig partur af náminu.

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér? 

Það er enginn dagur alveg eins hjá mér en venjuleg vinnuviku samanstendur af mismunandi verkefnum. Stærsti hluti starfsins míns er „content creation“ þar sem ég tek upp myndbönd og myndir, vinn efnið og birti það síðan á samfélagsmiðlunum mína. Ég er með frjálsar hendur þegar kemur að búa til efni fyrir miðlana mína en svo inn á milli geri ég kostuð samstörf þar sem ég auglýsi vörur fyrirtækja.

Áður en ég fer í það að taka upp efnið, þá er yfirleitt svolítil vinna sem liggur að baki. Ég þarf að skipuleggja verkefnin, hvernig ég vil útfæra þau og allar pælingarnar sem því fylgja. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með hvað er að gerast á miðlunum og hvað er „heitt“ hverju sinni. Það er gott að notast við innblástur en ég tel afar mikilvægt að útfæra efnið á sinn hátt og í samræmi við sinn stíl.

Það fylgja þessu auðvitað líka verkefni á borð við email samskipti við fyrirtæki og bókhald. Það fer mikill tími í að svara emailum varðandi samstörf t.d. komast að samkomulagi varðandi myndefni, greiðslu o.fl. Af og til er mér boðið á viðburði hjá fyrirtækjum, þar sem oft á tíðum er verið að kynna nýjungar. Á þessum viðburðum fæ ég tækifæri til að kynnast fólki í sama bransa og það finnst mér afar skemmtilegt. Það fylgir mikið frelsi með vinnunni minni og ég get unnið hvenær og hvar sem er. Það geta komið upp alls konar hlutir sem gera hvern dag eða viku einstaka, en það er það sem ég nýt mest við að vera sjálfstætt starfandi.

Hvað gerirðu eftir vinnu? 

Ég á satt að segja pínu erfitt með að svara þessari spurningu þar sem línan milli vinnu og frítíma getur oft á tímum verið óskýr. Það getur verið krefjandi að vera sjálfstætt starfandi í þessum geira og vita hvenær maður á að taka sér frí frá vinnu. Ég gæti ákveðið einhvern ákveðinn tíma sem ég hætti að vinna en þar sem velgengni rekstursins er undir mér komið, þá getur maður dottið í það að vera að vinna lengi og mikið. Ég tek t.d. oft upp TikTok myndbönd á kvöldin þegar ég og unnusti minn erum að elda og ég nýti oft kvöldstundir að klippa myndbönd og pósta efni á miðlana mína.

Ég er þvílíkt heppin því unnusti minn hefur mikinn áhuga á þessu líka. Hann styður mig í öllu og hjálpar mér mikið að taka upp efni og pælingarnar sem fylgja því. Þegar við erum að taka upp þá líður okkur ekki beint eins og við séum í vinnunni þar sem okkur þykir þetta bæði spennandi og skemmtilegt. Það er alls engin kvöð fyrir mig þegar ég „þarf“ að vinna á kvöldin og um helgar. Ég elska vinnuna mína og gæti ekki verið þakklátari að starfa við þetta. Það er þó mikilvægt að passa að vinna ekki yfir sig og kunna taka sér frí. Þegar ég er ekki að vinna þá finnst mér yndislegt að vera umkringd uppáhalds fólkinu mínu, borða góðan mat, rölta um göturnar í Köben og FaceTime-a fjölskylduna mína heima á Íslandi.

Hvað kemur þér í gott skap? 

Það er margt sem kemur mér í gott skap. Ég elska fátt meira heldur en sólríkan dag í Köben þar sem ég hitti vini, hjóla um, nýt sólarinnar og borða góðan mat. Aftur á móti er ég einnig mikil kósý kona og finnst voða notalegt að leggjast uppí sófa með góða bíómynd og nammi.

Hvað er það allra leiðinlegasta sem þú gerir? 

Ég held að email samskipti og bókhald sé það sem mér líkar síst við vinnuna mína. Oft dragast samskipti í gegnum email á langinn og það getur verið pínu þreytandi. Bókhald er einnig eitthvað sem mér finnst ekkert sérlega skemmtilegt þótt ég hafi tekið þónokkra bókfærslu áfanga, bæði í Verzló og háskóla. Það er margt sem þarf að hugsa um þegar maður er sjálfstætt starfandi s.s. virðissaukaskattur, skattar, reikningar o.fl. Oft á tíðum eru upplýsingarnar ekkert auðfundnar en ég er heppin að unnusti minn er klár í þessum hlutum og hann hjálpar mér mikið með þetta allt saman.

Hvar sækirðu innblástur?

Ég sæki innblástur á mörgum mismunandi stöðum, hvort sem það er að skrolla á TikTok og fá innblástur fyrir mitt næsta myndband eða skrolla á Pinterest til að fá hugmyndir í hverju ég gæti klæðst um áramótin. Það er líka nóg að ganga um götur hér í Köben og fylgjast með hverju fólk klæðist, ég dýrka tískuna hér og ég fæ oft margar hugmyndir frá fólki út á götu.

Ef það er einhver þarna úti sem vill vinna við eða mennta sig í því sama, ertu með einhver skilaboð?

Fyrst og fremst, trúa á sjálfan þig og láta skoðanir annarra ekki hafa áhrif á þig. Ég tel einnig mikilvægt að vera þú sjálfur og leyfa persónuleikanum að skína í gegn, leyfa fólki að kynnast þér og sýna ófullkomnu útgáfuna af lífi þínu. Ég áttaði mig sjálf á því, hvers vegna mér þótti skemmtilegt að fylgja ákveðnum stelpum á samfélagsmiðlum og ástæðan var alltaf sú sama, vegna þess að mér fannst þetta vera vinkonur mínar og mér fannst ég þekkja þær svo vel.

Ef þú hefur áhuga á að feta þig áfram á samfélagsmiðlum þá þarftu í rauninni bara að hoppa í djúpu laugina og vera óhrædd/ur að búa til efni og deila því með heiminum. Það eru alls kyns leiðir til að byrja að byggja upp fylgjendhóp en það sem ég mæli með að gera er að vera persónulegur, pósta meira heldur en minna, sýna núverandi fylgjendum athygli, láta fullkomnunaráráttuna ekki flækjast fyrir og síðast en ekki sýst, ekki gefast upp!

Þið getið fylgst betur með Birtu hér:
Instagram: hér.
Tiktok: hér.
YouTube: hér.

Takk kærlega fyrir spjallið elsku Birta❣️

ArnaPetra (undirskrift)

LÍFIÐ SEM STÍLISTI/ÚTSTILLINGAHÖNNUÐUR OG BLAÐAMAÐUR

VIÐTÖL

Það var ekkert smá gaman að taka viðtal við hana Elvu sem er svo jákvæð, lausnamiðuð, ævintýragjörn og virkilega klár í því sem hún er að gera. Ég vona að ég fái einhverntíman að vera svo heppin að vinna með henni.

Kynnumst Elvu betur …

Portrait: Elva Hrund Ágústsdóttir
Photograph: Aldís Páls.

Við hvað starfar þú? Og hvað felst í þínu starfi?
Ég er allra handa, ef svo mætti segja. Ég er sjálfstætt starfandi stílisti/útstillingahönnuður og blaðamaður.

Að starfa sem stílisti eða við útstillingar er margþætt – því það er að mörgu að huga. Ég hef komið að svo mörgum ólíkum verkefnum og hvert og eitt hefur sinn sjarma og sitt hlutverk. Ég starfaði eitt sinn hjá Húsum og híbýlum sem blaðamaður og stílisti og sá um svokallaða ‘myndaþætti’ í blaðinu. Þá byrjar maður á því að sækja sér hugmyndir, fara síðan í nokkrar verslanir til að fá lánaðar vörur og stilla þeim upp í stúdíoinu. Stundum leitaði ég út fyrir rammann og fann áhugaverð rými út í bæ til að mynda vörurnar í. 

Ég var að klára tökur í síðustu viku á jólablaði fyrir Mbl og Hagkaup, þar sem ég stíliseraði þrjú mismunandi matarborð – öll ólík út af fyrir sig en þó með rauðum þræði sem tengir þau saman. Þar fékk ég lánaðar vörur sem ég vel sjálf, en ég held að fólk átti sig ekki almennilega á því hvað felst mikil vinna á bak við eina mynd. Það geta verið miklar pælingar varðandi liti, áhöld, bakgrunna og fleira sem þarf að tóna saman. Síðan þarf að fara á stúfana til að leita að því sem maður hefur í huga, fá lánað og skila að tökum loknum – og hér er ég að stikla á stóru, því það er fullt af litlum díteilum sem þarf að haka við áður en mætt er á tökustað. Og allt þetta getur tekið óratíma því stundum er ekki til það sem maður fer eftir og þá þarf að hugsa í lausnum.  

Í slíkum verkefnum, þá vinnur maður náið með ljósmyndara og oft er gott að vera búinn að taka samtalið um heildar hugmyndina, finna út réttu lýsinguna sem maður vill ná og fjölda mynda – þá geta allir verið vel undirbúnir fyrir daginn er mætt er á tökustað til að forðast alla lausa enda. Því það er enginn tími til að stökkva frá og græja hitt og þetta þegar mætt er í tökur.  

Að starfa sem blaðamaður er aftur á móti allt annar vængur. Því þar getur þú setið með tölvuna eina að vopni hvar sem er í heiminum og skilað þinni vinnu án vandræða og því mjög þægilegt vinnuumhverfi ef því er að skipta. Það kvartar enginn yfir því að hamra á lyklaborðið á suðrænum slóðum. 

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?
Það er vart hægt að lýsa venjulegum vinnudegi þar sem dagarnir eru oftar en ekki eins og óráðið púsluspil. Ég get verið einn daginn fyrir framan tölvu og næsta dag að stilla upp fyrir myndatöku eða skissa upp hugmyndir að spennandi rými, skoða litaprufur eða sækja innblástur. Allt mjög lifandi og fjölbreytt – sem er að mínu skapi. 

Hvað er það mikilvægasta að hafa í huga áður en maður stíliserar verkefni?
Ég myndi segja að það væri að fullklára hugmyndina áður en lagt er af stað, kynna sér viðskiptavininn vel og vanda valið á því propsi sem þarf að sækja. Eins er gott að tímastilla sig. Þú þarft að vera skipulagður varðandi tíma sem fer í undirbúning, í verkið sjálft og svo eftirfylgni. Þarna getur tíminn auðveldlega hlaupið frá manni ef maður heldur ekki rétt á spöðunum. 

Hvað er það furðulegasta sem hefur komið fyrir í vinnunni?
Það er margt sem gerist og ég gæti skrifað stutta bók um allskyns upplifanir. En það sem mér dettur fyrst í hug er þegar ég mætti í innlit heim til huggulegrar konu fyrir Hús og híbýli og það lágu tvær óhreinar nærbrækur á gólfinu – sem við að sjálfsögðu mynduðum framhjá. Eins fór ég eitt sinn í mjög blint innlit í miðbæ Reykjavíkur, en konan sem þar bjó hafði sjálf samband við tímaritið og sagðist vera með gullfallega íbúð í nýju húsi sem við mættum mynda. Þegar þangað var komið var ekkert í íbúðinni nema eitt rúm og einn skápur. Því var lítið fyrir okkur að mynda þann daginn, en konan sem þar bjó reyndist andlega veik. Og eitt sinn var ég að hengja upp fullt af stórum ljósum inni í Magasin í Danmörku, þegar loftið hrundi niður á mig þar sem ég stóð í stiganum með ljós í fanginu – en við komum ósködduð út úr þessu, ég og ljósið.

Hvað gerirðu eftir vinnu?
Þetta er mjög góð spurning sem flókið er að svara, því vinnutíminn er mjög sveigjanlegur. Stundum er frítíminn á morgnanna, seinnipartinn eða á kvöldin. Í raun ræð ég því nokkuð vel sjálf hvernig ég haga dögunum mínum. En auðvitað koma tarnir þar sem lítill tími gefst í eitthvað dekur – en það er partur af þessu öllu saman. Annars reyni ég að nýta frítímann í að upplifa eitthvað nýtt, það heldur sköpunargleðinni gangandi. 

Hvað kemur þér í gott skap?
Tónlist kemur mér í gott skap – það er fátt sem jafnast á við góða hljóma sem fá taugarnar til að dilla sér. Ég syng hrikalega falskt en læt það sannarlega ekki stoppa mig undir stýri í bílnum (þeir vita það sem hafa tekið rúntinn með mér).

Hvað er það allra leiðinlegasta sem þú gerir?
Að ákveða hvað eigi að vera í matinn og fara út í búð að versla. Eitt sinn var ég uppspretta af hugmyndum fyrir framan eldavélina þegar börnin mín voru yngri og ég hafði meiri tíma til að sýsla í pottunum – en í seinni tíð og í breyttum heimilisaðstæðum, þá hefur eldabuskuhjartað eitthvað dregið sig til hlés. 

Hvar sækirðu innblástur?
Ég fæ innblástur alls staðar að, það getur þess vegna verið í göngutúr um hverfið, þáttur í sjónvarpinu eða litríkt skilti ef því er að skipta. Nýir og framandi staðir eru mér þó mesta uppsprettan þar sem form, litir og áferðir í öllu umhverfinu eru eins og góður hugmyndakokteill. 

Ef það er einhver þarna úti sem vill vinna við eða mennta sig í því sama, ertu með einhver skilaboð eða ráð?
Fylgja eigin innsæi og umfram allt hafa gaman. Því ef við höfum ekki gaman af því sem við erum að gera – þá hefur það áhrif á heildarútkomuna.

Ég varð að fá að bæta þessum myndum við sem voru teknar fyrir Reykjavík Letterpress. Þar sem þú varst stílisti fyrir tökuna og við hjá Letterpress vorum svo ánægð. Ekkert smá vel heppnað.

Þið getið fylgst með Elvu hér.
Takk kærlega fyrir spjallið ❣️

ArnaPetra (undirskrift)

LÍFIÐ SEM FORSTÖÐUMAÐUR Í FÉLAGSMIÐSTÖÐ & TVEGGJA BARNA FAÐIR

2022VIÐTÖL

HVERSDAGSLEIKINN HJÁ HJÖLLA
Hjörleifur Steinn, kallaður Hjölli er unnusti Fríðu Karenar sem er systir Tómasar sem er kærasti minn.

Var þetta nokkuð flókið??

Ég á nefnilega oft erfitt með svona … þið ættuð að sjá svipinn á mér ef einhver segir svipað & þetta: já þetta er vinur bróður systur mömmu pabba 😂

En allavega, þá er ég búin að þekkja hann Hjölla í mörg ár & mér fannst tilvalið að fá að spjalla við hann þar sem hann vinnur við ótrúlega skemmtilegt starf & svo á hann líka virkilega skemmtilega & fallega fjölskyldu.

Kynnumst Hjölla betur …

Við hvað starfar þú & hvað felst í þínu starfi?

Ég er búinn með BA í félagsráðgjöf & starfa sem forstöðumaður í félagsmiðstöð þar sem ég ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd félagsmiðstöðvar fyrir börn og unglinga á aldrinum 10 – 16 ára. Ég held utan um starfsmennina & sé um skipulag sem getur verið margvíslegt eins og til dæmis opið starf og eða hópastarf. Ég hef verið með margvísleg hópastörf eins og til dæmis fjölmiðla hópa þar sem unglingarnir eru að læra að taka upp, klippa myndbönd, skrifa fréttir og fleira. Helsta markmiðið er að vinna með félagsfærni og að valdefla unglingana. Ég er síðan í miklum samskiptum við helstu samstarfsaðila sem er skólinn, foreldrar og í okkar tilviki bókasafn og sundlaugar.

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?

Það er einmitt eitt það skemmtilegasta við vinnuna mína og enginn dagur er nákvæmlega eins. Ég byrja alla mína daga á því að fara með töskuna inná skrifstofu og heilsa upp á yndislega fólkið sem deilir með okkur skrifstofurými. Ég fæ mér síðan einn kaffibolla og vinn í tölvunni sem er afar fjölbreytt eins og plana vaktir, setja saman auglýsingar og dagskrár, samþykkja reikninga og alls konar skrifstofu stöff. Dagbókin mín er síðan mjög pökkuð af alls konar fundum. Þetta eru stöðufundir með samstarfsfélögum og einnig húsfundir.

Ég var til dæmis fenginn með í þróunarverkefni þar sem við erum að vinna að heildrænni fræðslunálgun fyrir unglinganna, starfsfólk og foreldra sem er mjög áhugavert og skemmtilegt verkefni. En skemmtilegasti partur vinnunnar er að vera í opnun. Hvort sem það er með 10-12 ára aldrinum eða unglingunum að þá er svo gaman að vera á gólfinu og eiga í samskiptum við hress og skemmtileg börn, unglinga og auðvitað samstarfsfélagana líka.

Hvað gerirðu eftir vinnu?
Þegar ég er búinn að vinna þá fer ég beint heim í dýrmæta samverustund með fjölskyldunni. Ég reyni yfirleitt að troða inn likamsrækt áður en ég mæti í vinnu svo ég geti einmitt notið þess að vera heima með yndisfögru unnustu minni og orkumiklu drengjunum mínum tveim. Þegar ég er á kvöldvakt þá fer ég einstöku sinnum í tölvuna og tek 2-3 Fifa leiki, enda mikill tölvuleikja unnandi.

Hvað kemur þér í gott skap?
Það er rosalega margt sem kemur mér í gott skap. Góður félagsskapur, skemmtileg tónlist, SÓL og sumar (eins gott að það sé ekki það eina miðað við veðrið). Ég reyni að hafa áhrif á skapið mitt þar sem það er allt miklu auðveldara og skemmtilegra þegar maður er rétt stemmdur!

Hvað er það allra leiðinlegasta sem þú gerir?
Ömurlega lélegt svar en mér finnst mjög fátt leiðinlegt – auðvitað sumir hlutir misskemmtilegir en ég tel að þetta sé allt rosalega mikið hugarfar. Ef ég ætti samt að velja eitthvað eitt að þá finnst mér örugglega leiðinlegast að sópa upp perlur.

Hvar sækirðu innblástur?
Ég sæki innblástur héðan og þaðan – frá samstarfsfélagar mínum bæði núverandi og fyrrverandi. Frá pabba mínum en það er einstaklingur með stórt hjarta og er alltaf tilbúinn til þess að veita hjálparhönd. Unnusta mín veitir mér einnig mikinn innblástur með dugnaði sínum og samviskusemi.

Ég sæki líka innblástur í það hversu mikil áhrif ég get haft á fólkið í kringum mig. Bæði heima og í vinnunni er ég í þeirri stöðu að ég get gefið af mér og gert daginn hjá fólkinu mínu kannski aðeins betri. Ég fyllist innblæstri af þeirri vitneskju og reyni alltaf mitt besta að hafa jákvæð áhrif. Vona að þetta meiki sens, stutta svarið VERTU BARA NÆS!

Ef það er einhver þarna úti sem vill vinna við eða mennta sig í því sama, ertu með einhver skilaboð, ráð eða Tips?

Það sem ég hef alltaf unnið út frá bæði með unglingum og svo samstarfsfólki er að vinna með öllum á jafningagrundvelli og vera góður hlustandi. Þannig myndast traust tengsl og virðing og það er góður grunnur fyrir allt annað sem gæti komið upp, jákvæðar og skemmtilegar stundir eða erfið samtöl og þannig.

Komdu þér svo bara reglulega út fyrir þægindarammann og reyndu aðeins á þig, það heldur mér allavegana á tánum og svo kem ég mér bara á óvart hversu megnugur maður er og ramminn stækkar.

Takk Hjölli fyrir gott spjall ❣️

Þið getið fylgst betur með Hjölla Hér.

ArnaPetra (undirskrift)

LISTVÍETTUR – TIL STYRKTAR GÓÐU MÁLEFNI

2022

 

Hér höfum við Ólöfu Birnu Garðarsdóttur og Birnu Einarsdóttur eigendur Reykjavík Letterpress. Snillingar, fagurkerar og hæfileikabúnt! Kynnumst Letterpress betur í léttu spjalli og nýjasta samstarfverkefninu þeirra við Epal og Leif Ými … 

Reykjavík Letterpress varð 12 ára nú í haust og það er gaman að minnast þess að alveg frá upphafi höfum við leikið okkur með servíettuformið á ótrúlega fjölbreyttan og skemmtilegan hátt. Fyrir fyrstu jólahátíðina prentuðum við t.d. 20 mismunandi brot úr vinsælum jólalögum og röðuðum í pakka þannig að enginn við matarborðið fékk sama textabútinn. Ósjálfrátt brast fólk í söng og þá reyndi á að muna restina af textanum! Fyrir áramótin vorum við síðan með nokkurs konar áramótauppgjör, aftur voru það 20 mismunandi servíettur með texta sem hjálpaði til við að rifja upp ýmislegt frá árinu sem var að líða. Þá fékk hver og einn miða til að skrifa hjá sér markmið fyrir komandi ár – allt á léttu nótunum gert og við erum ennþá að hitta fólk sem segir þessa áramótamiða vera orðna ómissandi hluta af hátíðinni.

,,Hér um ræðir serví­ett­ur sem þjóna tvenns kon­ar til­gangi – ann­ars veg­ar í nota­gildi og hins veg­ar til að styrkja gott mál­efni, og það kunn­um við vel að meta. ” 
mbl: hér
Það hefur færst mikið í vöxt undanfarin misseri að við fáum beiðnir um að sérhanna og prenta servíettur fyrir hin ýmsu tilefni. Þessi látlausa og nytsama vara virðist henta sérstaklega vel í hverskonar fjáröflunartilgangi. Í því samhengi má nefna að fyrir síðustu jól tókum við höndum saman, Epal og Letterpress, og prentuðum hátíðarservíettur fyrir jólahátíðina og rann ágóðinn af þeirri sölu til Barnaspítala Hringsins. Virkilega vel heppnað og gjöfult samstarf sem fékk okkur til að færa hugmyndina á næsta stig og að þessu sinni fengum við til liðs við okkur myndlistamanninn Leif Ými sem er sannarlega listamaður orðaleiksins. Leif­ur út­skrifaðist frá Lista­há­skól­an­um og hef­ur haldið ótal sýn­ing­ar hér heima og er­lend­is. Eins hef­ur hann hlotið viður­kenn­ing­ar fyr­ir störf sín og eru verk hans í eigu safna og fjölda ein­stak­linga. Hann gefur verk sitt til málefnisins og tengir munnþurrkuna við þann skemmtilega leik að mata börn.
 
Hin fullkomna gleðigjöf sem gefur áfram …
Þú færð servíetturnar í epal & netverslun þeirra – hér.
Til hamingju með þessa nýju vöru.