fbpx

LÍFIÐ SEM STÍLISTI/ÚTSTILLINGAHÖNNUÐUR OG BLAÐAMAÐUR

VIÐTÖL

Það var ekkert smá gaman að taka viðtal við hana Elvu sem er svo jákvæð, lausnamiðuð, ævintýragjörn og virkilega klár í því sem hún er að gera. Ég vona að ég fái einhverntíman að vera svo heppin að vinna með henni.

Kynnumst Elvu betur …

Portrait: Elva Hrund Ágústsdóttir
Photograph: Aldís Páls.

Við hvað starfar þú? Og hvað felst í þínu starfi?
Ég er allra handa, ef svo mætti segja. Ég er sjálfstætt starfandi stílisti/útstillingahönnuður og blaðamaður.

Að starfa sem stílisti eða við útstillingar er margþætt – því það er að mörgu að huga. Ég hef komið að svo mörgum ólíkum verkefnum og hvert og eitt hefur sinn sjarma og sitt hlutverk. Ég starfaði eitt sinn hjá Húsum og híbýlum sem blaðamaður og stílisti og sá um svokallaða ‘myndaþætti’ í blaðinu. Þá byrjar maður á því að sækja sér hugmyndir, fara síðan í nokkrar verslanir til að fá lánaðar vörur og stilla þeim upp í stúdíoinu. Stundum leitaði ég út fyrir rammann og fann áhugaverð rými út í bæ til að mynda vörurnar í. 

Ég var að klára tökur í síðustu viku á jólablaði fyrir Mbl og Hagkaup, þar sem ég stíliseraði þrjú mismunandi matarborð – öll ólík út af fyrir sig en þó með rauðum þræði sem tengir þau saman. Þar fékk ég lánaðar vörur sem ég vel sjálf, en ég held að fólk átti sig ekki almennilega á því hvað felst mikil vinna á bak við eina mynd. Það geta verið miklar pælingar varðandi liti, áhöld, bakgrunna og fleira sem þarf að tóna saman. Síðan þarf að fara á stúfana til að leita að því sem maður hefur í huga, fá lánað og skila að tökum loknum – og hér er ég að stikla á stóru, því það er fullt af litlum díteilum sem þarf að haka við áður en mætt er á tökustað. Og allt þetta getur tekið óratíma því stundum er ekki til það sem maður fer eftir og þá þarf að hugsa í lausnum.  

Í slíkum verkefnum, þá vinnur maður náið með ljósmyndara og oft er gott að vera búinn að taka samtalið um heildar hugmyndina, finna út réttu lýsinguna sem maður vill ná og fjölda mynda – þá geta allir verið vel undirbúnir fyrir daginn er mætt er á tökustað til að forðast alla lausa enda. Því það er enginn tími til að stökkva frá og græja hitt og þetta þegar mætt er í tökur.  

Að starfa sem blaðamaður er aftur á móti allt annar vængur. Því þar getur þú setið með tölvuna eina að vopni hvar sem er í heiminum og skilað þinni vinnu án vandræða og því mjög þægilegt vinnuumhverfi ef því er að skipta. Það kvartar enginn yfir því að hamra á lyklaborðið á suðrænum slóðum. 

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?
Það er vart hægt að lýsa venjulegum vinnudegi þar sem dagarnir eru oftar en ekki eins og óráðið púsluspil. Ég get verið einn daginn fyrir framan tölvu og næsta dag að stilla upp fyrir myndatöku eða skissa upp hugmyndir að spennandi rými, skoða litaprufur eða sækja innblástur. Allt mjög lifandi og fjölbreytt – sem er að mínu skapi. 

Hvað er það mikilvægasta að hafa í huga áður en maður stíliserar verkefni?
Ég myndi segja að það væri að fullklára hugmyndina áður en lagt er af stað, kynna sér viðskiptavininn vel og vanda valið á því propsi sem þarf að sækja. Eins er gott að tímastilla sig. Þú þarft að vera skipulagður varðandi tíma sem fer í undirbúning, í verkið sjálft og svo eftirfylgni. Þarna getur tíminn auðveldlega hlaupið frá manni ef maður heldur ekki rétt á spöðunum. 

Hvað er það furðulegasta sem hefur komið fyrir í vinnunni?
Það er margt sem gerist og ég gæti skrifað stutta bók um allskyns upplifanir. En það sem mér dettur fyrst í hug er þegar ég mætti í innlit heim til huggulegrar konu fyrir Hús og híbýli og það lágu tvær óhreinar nærbrækur á gólfinu – sem við að sjálfsögðu mynduðum framhjá. Eins fór ég eitt sinn í mjög blint innlit í miðbæ Reykjavíkur, en konan sem þar bjó hafði sjálf samband við tímaritið og sagðist vera með gullfallega íbúð í nýju húsi sem við mættum mynda. Þegar þangað var komið var ekkert í íbúðinni nema eitt rúm og einn skápur. Því var lítið fyrir okkur að mynda þann daginn, en konan sem þar bjó reyndist andlega veik. Og eitt sinn var ég að hengja upp fullt af stórum ljósum inni í Magasin í Danmörku, þegar loftið hrundi niður á mig þar sem ég stóð í stiganum með ljós í fanginu – en við komum ósködduð út úr þessu, ég og ljósið.

Hvað gerirðu eftir vinnu?
Þetta er mjög góð spurning sem flókið er að svara, því vinnutíminn er mjög sveigjanlegur. Stundum er frítíminn á morgnanna, seinnipartinn eða á kvöldin. Í raun ræð ég því nokkuð vel sjálf hvernig ég haga dögunum mínum. En auðvitað koma tarnir þar sem lítill tími gefst í eitthvað dekur – en það er partur af þessu öllu saman. Annars reyni ég að nýta frítímann í að upplifa eitthvað nýtt, það heldur sköpunargleðinni gangandi. 

Hvað kemur þér í gott skap?
Tónlist kemur mér í gott skap – það er fátt sem jafnast á við góða hljóma sem fá taugarnar til að dilla sér. Ég syng hrikalega falskt en læt það sannarlega ekki stoppa mig undir stýri í bílnum (þeir vita það sem hafa tekið rúntinn með mér).

Hvað er það allra leiðinlegasta sem þú gerir?
Að ákveða hvað eigi að vera í matinn og fara út í búð að versla. Eitt sinn var ég uppspretta af hugmyndum fyrir framan eldavélina þegar börnin mín voru yngri og ég hafði meiri tíma til að sýsla í pottunum – en í seinni tíð og í breyttum heimilisaðstæðum, þá hefur eldabuskuhjartað eitthvað dregið sig til hlés. 

Hvar sækirðu innblástur?
Ég fæ innblástur alls staðar að, það getur þess vegna verið í göngutúr um hverfið, þáttur í sjónvarpinu eða litríkt skilti ef því er að skipta. Nýir og framandi staðir eru mér þó mesta uppsprettan þar sem form, litir og áferðir í öllu umhverfinu eru eins og góður hugmyndakokteill. 

Ef það er einhver þarna úti sem vill vinna við eða mennta sig í því sama, ertu með einhver skilaboð eða ráð?
Fylgja eigin innsæi og umfram allt hafa gaman. Því ef við höfum ekki gaman af því sem við erum að gera – þá hefur það áhrif á heildarútkomuna.

Ég varð að fá að bæta þessum myndum við sem voru teknar fyrir Reykjavík Letterpress. Þar sem þú varst stílisti fyrir tökuna og við hjá Letterpress vorum svo ánægð. Ekkert smá vel heppnað.

Þið getið fylgst með Elvu hér.
Takk kærlega fyrir spjallið ❣️

ArnaPetra (undirskrift)

LÍFIÐ SEM FORSTÖÐUMAÐUR Í FÉLAGSMIÐSTÖÐ & TVEGGJA BARNA FAÐIR

Skrifa Innlegg