OUTFIT Í CANNES

FRANCELífiðMANGOMONKIOUTFITPRADASUMMERZARA

Jæja núna gefst mér loks smá tími til þess að skrifa færslu, seinustu dagar hafa verið æðislegir hér í Nice og á ég nokkra daga eftir þangað til að ég fer aftur til Milan. Í gær ákváðum við að gera okkur ferð til Cannes sem er yndisleg borg hér á frönsku riveríunni. Cannes er þekktust fyrir frægu kvikmyndahátíðina, Cannes Film Festival ásamt því að vera vinsæll áfangastaður hjá hinum ríku og frægu.
Ég læt nokkrar myndir fylgja af því sem ég klæddist í gær en ég mun að sjálfsögðu gera sér færslu fyrir Frakklands ævintýrið sem mun innihalda margar skemmtilegar myndir.Blússa : Zara
Pils : Monki
Sandalar : Zara
Taska : Prada
Sólgleraugu : Mango

Ég er dolfallin yfir þessum sandölum sem ég fékk á útsölunni í Zöru á dögunum, elska öll litlu smáatriðin á þeim. Ég hef verið að sjá mikið af skóm með þessu detail-i í kringum stóru tá, svokallað ‘toe strap’.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra að þessu sinni, það er kominn tími á sólbað og rölt um Nice!

Þangað til næst,
Anna Bergmann x
Instagram: annasbergmann

SEINUSTU DAGAR ..

FRANCELífiðNICEOUTFITPRADASUMMERY.A.S

Góðan daginn kæru lesendur,
Mig langaði að koma aðeins hingað inn og koma með update af mér. Ég ætlaði að vera miklu duglegri að deila færslum en stundum tekur lífið mann eitthvert allt annað. Mér bauðst það tækifæri að fara til Nice í Frakklandi þar sem að frændfólk mitt var á leiðinni þangað frá Milano. Ég átti erfitt með að neita því boði og ákvað því að taka skyndiákvörðun, pakka í töskur og keyra yfir til Frakklands með þeim – og Emma að sjálfsögðu með, hún er orðin svo ferðavön að það er hreint út sagt ótrúlegt.
Því erum við núna staddar í Nice í miklum hita og 70% raka, en það er nú ekki hægt að kvarta og erum við því að njóta lífsins í botn! Seinustu daga höfum við eytt á ströndinni, rölt um ‘gömlu Nice’ og borðað góðan mat.Ekki annað hægt en að brosa út að eyrum yfir þessu yndislega lífi ..

Samfestingur : Y.A.S – ég fjallaði um hann hér
Skór : Nike Mayfly Woven
Taska : Prada
Belti : Zara

En núna er ég að leggja í hann til Cannes og ætlum við að eyða deginum þar.
Þangað til næst,
Anna Bergmann x
Instagram: annasbergmann

TUSCANY

ItalyLífiðSUMMERTuscany

Jæja þá er ég komin heim til Milano eftir æðislega daga á flakki, fyrst til Sikileyjar og svo í sveitina í Tuscany. Þetta eru búnar að vera yndislegar tvær vikur og algjörlega ómissandi að fá að eyða tíma með fjölskyldunni. Það sem ég er þakklát fyrir þau, heilsuna og lífið – ég þarf að vera dugleg að minna mig á hversu heppin ég er.

En að Tuscany ævintýrinu ..
Frá Sikiley flugum við til Bologna og keyrðum þaðan í rúma 3klst í Tuscany héraðið, húsið sem ég var búin að leigja var í þorpinu Gailoe in Chianti. Við að sjálfsögðu viltumst þvílíkt þar sem að húsið var ekki merkt á korti, né vegurinn sem liggur að því. En að lokum fundum við það og við okkur blasti þvílík náttúrufegurð. Það var staðsett í miðjum skóginum, umkringt náttúru, fuglum, fegurð og ró. Það er eitthvað við að vera ‘in middle of nowhere’ í náttúrunni og að heyra einungis í fuglunum syngja, vá hvað það er róandi – enda held ég að ég sé orðin eins zen og hægt er .. eða allavega nálægt því!
Flesta dagana byrjuðum við daginn við sundlaugina og lágum þar í mikilli leti. Eftir hádegi nýttum við eftirmiðdaginn í skoðunarferðir og heimsóttum við marga skemmtilega staði. Við fórum bæði í Prada outlet sem ég sagði ykkur frá hér og risa outlet sem heitir ‘The Mall’ og fyrir utan Flórens. The Mall er meira eins og lítið þorp með öllum þeim luxury merkjum sem hægt er að hugsa sér. Við fórum í bæinn Castellina in Chianti sem er yndislegur lítill bær í Tuscany héraðinu. Þar er mikið af sætum veitingastöðum, litlum búðum og almenn rólegheit yfir öllu og öllum. Einnig gerðum við okkur ferð til Lucca en margir kannast nú við þá borg. Ég var mjög hrifin af borginni en náði ekki að skoða eins mikið og ég vildi vegna mikils hita – að rölta í borg og reyna að njóta í 40° gráðum er fljótara sagt en gert.
Það sem stóð uppúr hjá mér í ferðinni var þegar við fórum í vín og ólífuolíusmökkun hjá víngerðinni Cantalici sem var í 15 mínútna keyrslu frá húsinu okkar. Þar smakkaði fjölskyldan allskonar vín en þar sem að ég drekk ekki þá var ég spenntust yfir ólífuolíunni, enda er ég mikill olíu unnandi og hefur það áhugamál þróast mikið eftir að ég flutti til Ítalíu.
Við vorum dugleg að nýta flottu eldhúsaðstöðuna sem húsið bauð uppá en við fórum einnig oft á litla sæta veitingastaði sem voru í kring í sveitinni, umhverfið var draumi líkast og maturinn ekki síðri.
En jæja nóg af blaðri, ég ætla að leyfa myndunum hér að neðan að tala sínu máli!
 

Yndislegir dagar í Tuscany og minningar sem munu ylja mér um hjartarætur um ókomna tíð. 

Kveðjur frá Milano,
Anna Bergmann x
Instagram: annasbergmann

NEW IN // PRADA LOAFERS Á HÁLFVIRÐI

Mig langar að deila með ykkur góðum kaupum sem ég gerði í Prada outletti hér í Tuscany héraðinu. Við fjölskyldan gerðum okkur ferð í risastórt Prada outlet og sáum sko aldeilis ekki eftir þeirri ákvörðun. Ég er búin að vera að leita mér að fínum leður loafers sem hægt er að nota við allt og til allra hamingju fann ég fullkomið par! Þeir eru svartir leður loafers og passa við bókstaflega allt hvort sem það er við buxur, pils, kjóla eða dragtir – algjört must í öll skósöfn að mínu mati. Ekki nóg með að hafa fundið fullkomið par þá voru þeir líka seinasta parið og á hálfvirði!! Ég tók því að sjálfsögðu sem merki að ég yrði að taka þá.. Þvílíkt og annað eins sem maður er stundum heppin!

Ég leyfi myndunum að tala sínu máli en mamma mín og systir fengu sér einnig skó frá Prada og fékk ég leyfi frá þeim til þess að sýna ykkur þá. Mér finnst þeir allir mjög fallegir og mikið notagildi í þeim.


Skórnir sem að mamma og systir mín fengu sér


Og mínir!

Ég er ekkert smá ánægð með þessi kaup og hlakka til að deila með ykkur outfit færslum!

Kveðjur frá Tuscany,
Anna Bergmann x
Instagram: annasbergmann

Sicilia

ItalyLífiðSikileySUMMER

Góðan daginn kæru Trendnet lesendur,

Ég vil afsaka bloggleysið en ég er á smá ferðalagi um Ítalíu, ég ætlaði að vera voðalega dugleg að blogga en það hefur lítill sem enginn tími gefist í það og þar að auki hefur netið ekki verið að leika með okkur .. sem er reyndar góð tilbreyting sem ég væri alveg til í að tileinka mér.
Eins og er er ég stödd í yndislegu húsi í Tuscany héraðinu á Ítalíu, þegar þessi færsla er skrifuð sit ég úti á verönd í 35° gráðum og vildi ég óska þess að vera hér að eilífu – hér er bara ró og næði.
Í júní kom fjölskyldan til okkar Emmu til Milan og ferðuðumst við saman til Sikileyjar. Við fjölskyldan þekkjum fáa sem hafa komið til Sikileyjar og vissum því lítið við hverju við mættum búast. Leiðin að húsinu var ævintýri líkust. Við okkur blöstu hálf kláruð og jafnvel yfirgefin hús. En að lokum enduðum við í fallegu húsi í miðri sveit. Við gistum á gistiheimilinu Le Chiuse di Guadagna, sem ég verð að mæla með en fyrir áhugasama er hægt að skoða það hér. Það er staðsett rétt fyrir utan borgina Modica á suður Sikiley. Þessi partur af eyjunni einkennist af miklum þurrki en það er lítið um grænt þar í kring. Aftur á móti er landslagið mjög fallegt og eitthvað sem maður hefur aldrei kynnst. Svo þarf varla að minnast á bragðgóða matinn en þar sem að við vorum 18 saman þá elduðum við oft heima og nýttum okkur fersk ítölsk hráefni í tætlur. Það jafnast ekkert á við ítölsku tómatana og hvað þá kryddin sem við týndum í bakgarðinum, ég gæti auðveldlega lifað á þessum einfalda en góða mat.
En þar sem myndir segja meira en þúsund orð þá læt ég hér nokkrar vel valdnar fylgja með.

Í næstu færslu mun ég fjalla um Tuscany og hlakka ég mikið til að deila með ykkur fleiri myndum.
Þangað til vil ég benda ykkur á Instagram aðganginn minn en ég reyni að vera dugleg þar!

Takk fyrir að lesa og þangað til næst,
Anna Bergmann x
Instagram: annasbergmann

OUTFIT POST

NÝTTOUTFITPRADASUMMERY.A.SZARA

Góða kvöldið kæru lesendur,

Mig langar að deila með ykkur outfitinu sem ég klæddist í kvöld. Mér hlotnaðist sá heiður að vera valin sem meðlimur af svokölluðum samfélagsmiðla hóp fyrir hönd Istituto Marangoni, sem er háskólinn minn hér í Milano. Það var haldin risastór tískusýning fyrir útskriftarnemendur af fatahönnunarbrautinni, sýningin var haldin í Teatro Del Verme sem er mjög fallegt leikhús í miðborginni. Leikhúsið var byggt árið 1872 og er ákaflega heillandi – eins og flest önnur gömul ítölsk húsnæði.

En að því sem ég klæddist, ég er nýbúin að kaupa mér þennan fína samfesting sem er fullkominn fyrir sumarið. Hann er frá merkinu Y.A.S. og býst ég við að nota hann heilan helling á næstu mánuðum!
Hér fylgja nokkrar myndir, þið verðið að afsaka sólargretturnar ..Samfestingur – Y.A.S.
Skór – ZARA
Taska – PRADA

Takk fyrir að lesa og þangað til næst,
Anna S. Bergmann x
Instagram: annasbergmann

 

NÝJAR STUTTBUXUR FYRIR SUMARIÐ

ANNA MÆLIR MEÐNÝTTSUMMERZARA

Góða kvöldið kæru lesendur,

Ég vil byrja á því að þakka Trendnet fjölskyldunni fyrir að bjóða mig velkomna og fyrir vægast sagt frábærar undantektir eftir að ég deildi minni fyrstu færslu í gær. Það er yndislegt þegar fólkið í kringum mann samgleðst og er stolt af manni – fyrir mér er það ansi dýrmætt.

Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur flík sem ég í rauninni keypti í algjöru flýti, ég var handviss um að ég myndi enda á því að skila þeim. Það lítur allt út fyrir að þetta sé ein bestu kaup sem ég hef gert og því finnst mér það vera skylda mín að deila með ykkur! Um er að ræða svokallaðar ‘tailored bermuda’ stuttbuxur. Sniðið á þeim er fallegt og síddin passleg, þær eru alls ekki of stuttar eins og svo margar stuttbuxur geta verið. Mér hefur aldrei þótt gallastuttbuxur þægilegar og eru þessar því fullkomnar fyrir komandi mánuði. Í lok maí fór hitinn hér í Milano upp úr öllum völdum og hef ég því ekki getað verið í síðbuxum síðan, en það er nú varla eitthvað til þess að kvarta yfir.. Einnig hefur það varla farið framhjá neinum hversu yndislegt veður er á Íslandi, ég held áfram að senda ykkur sól og hita yfir hafið!

Ég læt hér nokkrar myndir fylgja en ég sé fram á að geta notað þær ansi mikið í sumar, bæði við stuttermaboli og ‘poppa’ þær upp með sætri blússu eins og hér að neðan.


Stuttbuxur : Zara
Blússa :
Zara

Takk fyrir að lesa og þangað til næst x
Anna Bergmann

IG : annasbergmann

 

HALLÓ TRENDNET

Lífið

Kæru lesendur Trendnet,

Anna S. Bergmann heiti ég og er nýr bloggari hér á Trendnet. Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu nýja ævintýri og þykir mér það vera mikill heiður að fá að vera hluti af þessu flotta teymi sem Trendnet saman stendur af. Mig langar hinsvegar að byrja á því að kynna mig. Ég er 23ja ára og er uppalin í Garðabænum, síðastliðinn ágúst flutti ég búslóðina mína til stórborgarinnar Milano á Ítalíu. Þar er ég að stunda nám við hinn þekkta listaháskóla, Istituto Marangoni. Ég er nýbúin með annað árið mitt og mun ég því næstkomandi haust byrja á 3ja og seinasta árinu mínu í Fashion Business, Communication and New Media. Eins og nafnið á kúrsinum gefur til kynna þá hef ég mikinn áhuga á tísku og heillast af öllum hliðum tískuiðnaðarins.


Hér á Trendnet mun ég fjalla um ansi fjölbreytt viðfangsefni, allt frá tískuheiminum yfir í mat og andlega heilsu.
Ég hef sérhæft mig í kjöt- og mjólkurlausri eldamennsku og mun ég því koma til með að deila fjölbreyttum, hollum og einföldum uppskriftum með ykkur. Einnig er ég dugleg að iðka allskyns æfingar sem stuðla að andlegu jafnvægi en ég hef verið að kljást við kvíða í mörg ár og þarf því að huga vel að andlegu hliðinni. Andlega heilsan á það til að gleymast en hún er ekki síður mikilvæg rétt eins og líkamlega heilsan okkar. Mér þykir því Trendnet vera fullkominn vettvangur til þess að deila með ykkur ráðum og frá persónulegri reynslu.

Þar sem að ég er svo lánsöm að búa erlendis þá mun ég nýta mér þau forréttindi og deila með ykkur mínum uppáhalds veitingastöðum hér í Milano, segja ykkur frá ítölsku tískunni og frá ýmsum földnum perlum hér í borginni. Ég er einnig dugleg að ferðast, bæði hér í kringum Milano og til annarra landa. Ég mun að sjálfsögðu deila með ykkur þeim ævintýrum.
Fyrir ykkur sem viljið skoða mig betur þá bendi ég á Instagram aðganginn minn, en ég reyni mitt besta að vera virk þar.

Ég er full af innblæstri fyrir þessum nýja kafla hjá mér og hlakka ég til að deila með ykkur fjölbreyttu efni!

Takk fyrir að lesa og þangað til næst,

Anna S. Bergmann x
Instagram: annasbergmann