fbpx

Á FERÐ OG FLUGI

BörnFÆÐINGARORLOFIÐFerðalögLÍFIÐMÁNIUncategorized

Stutt check-in .. Við fjölskyldan erum stödd á Tenerife og verðum hér næstu daga. Ferðalagið gekk vonum framar og Máni stóð sig eins og hetja í flugvélinni! Ég var búin að undirbúa mig fyrir það allra versta en það var algjör óþarfi. Máni var algjört gull og ég er ekki frá því að honum hafi fundist ferðalagið bara frekar skemmtilegt. Yndislegt og algjört draumaferðalag! Fyrstu dagarnir hér á Tenerife hafa verið dásamlegir, við ákváðum að leigja okkur íbúð á Costa Adeje en mér finnst algjört must að komast í þvottavél og gott eldhús þegar maður er með ungbarn. Fjölskyldufólkið tengir líklega, ég geri fátt annað en að setja í þvottavélar og að sjóða snuð og pela 😆 Hér eru allir með sitt eigið svenherbergi svo það er nóg rými fyrir okkur öll, mjög þægilegt og ég mæli klárlega með því.

Ég var búin að undirbúa ferðina vel, keypti m.a. nokkra sniðuga hluti á Amazon fyrir ferðalagið sem er að hjálpa heilan helling. Þar á meðal viftu sem hægt er að festa við allar kerrur, algjör snilld þegar það er mikill hiti. Sjá hér

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en ég mun klárlega segja ykkur betur frá ferðalaginu.

FÆÐINGARSAGAN OKKAR

MÁNIPERSÓNULEGT

Ég er búin að mana mig upp í að skrifa þessa færslu í dágóðan tíma núna en Máni er orðinn 4,5 mánaða svo ég held að það sé alveg orðið tímabært að ná þessari upplifun okkar niður á ‘blað’ – í þessu tilfelli í rafrænu dagbókina mína. Meðgangan mín var bæði upp og niður, ég varð rosalega veik á fyrsta þriðjung og fór í veikindaleyfi í vinnunni í nokkra daga. Við tók annar þriðjungur sem byrjaði vel en endaði svo með innlögn á kvennadeildina þar sem að ég fékk sýkingu í nýrun. Ég vonaðist til að þriðji og síðasti þriðjungurinn myndi vera þægilegur en svo var ekki. Ég sem betur fer byrjaði snemma í fæðingarorlofi en ég hætti að vinna þegar ég var komin 36 vikur á leið. Ég fékk rosalegan bjúg rétt fyrir jól, aðallega á fæturnar og komst ekki í neina skó nema risastóra inniskó – mér til mikillar gleði. Ég byrjaði í auknu eftirliti hjá mæðravernd og fór í skoðun tvisvar í viku. Ég var hræddust um að ég myndi fá meðgöngueitrun og var því glöð að fá aukið eftirlit. Eftir áramót byrjaði mér að líða verr, ég varð rosalega þreytt, með stöðugan höfuðverk og bjúgurinn skelfilegur. Þá var ég send upp á spítala í skoðanir og var þá greind með háþrýsting sem útskýrði höfuðverkinn. Háþrýstingurinn varð til þess að það var send inn beiðni um gangsetningu, þá var ég gengin 39 vikur. Nokkrum dögum síðar var ég greind með meðgöngueitrun, Máni var skoðaður bak og fyrir í sónar og það var ljóst að eitrunin hafði sem betur fer engin áhrif á hann. Á þessum tímapunkti var ég gengin 39 vikur og 3 daga og beið eftir að fá símtal um gangsetningu en vegna covid var mikið álag upp á kvennadeild og var því smá bið.

Laugardaginn 22. janúar þegar ég var komin 39 vikur og 5 daga fór ég í skoðun upp á kvennadeild. Sú skoðun endaði með því að ég fékk leyfi til þess að bruna heim, pakka í töskur, knúsa Atla og bruna svo aftur upp á deild. Ég átti að fara í gangsetningu sama dag. Ég var sem betur fer löngu búin að pakka í töskur og undirbúa allt. Ég kom heim, tók allt saman, knúsaði Emmu mína og við Atli fengum okkur kók í gleri. Ég mun líklega aldrei gleyma þessu mómenti, við tvö drekkandi kók með tár í augunum, vitandi það að næst þegar við kæmum heim þá væri engillinn okkar með. Þegar við Atli fórum út í bíl byrjaði lagið ‘Skál fyrir þér’ með Frikka Dór, það toppaði þetta móment og ég mun aldrei gleyma þessu enda brosum við alltaf hringinn þegar við heyrum lagið.

Ég var komin upp á deild um kl 16 þann 22. janúar og fór í allskonar skoðanir. Þá var tekin sú ákvörðun að ég myndi byrja á því að taka gangsetningartöflur, ein á 2ja klukkustunda fresti. Atli fékk að koma í heimsókn til mín um kvöldið en á þessum tíma máttu makar ekki vera með fyrr en að virk fæðing væri farin af stað. Ég fékk smá verki útaf töflunum en annars var lítið að frétta svo ég reyndi að nýta tímann til þess að slaka á og hvíla mig fyrir komandi átök. Morguninn eftir hélt ballið áfram, ég tók töflurnar og horfði á Desperate Housewives þess á milli. Ég fór í langa sturtu í hádeginu en þá var ég einungis komin með 1 í útvíkkun, líkaminn minn var sko ekkert að drífa sig. Eftir góða sturtuferð var ég ný sest aftur upp í spítalarúmið þegar ég heyrði háan smell og við það missti ég vatnið. Þetta var eins og í bíómynd, það var ALLT í vatni og ég horfandi á Despó. Hríðarverkirnir byrjuðu nánast strax svo ég fékk leyfi til þess að hringja í Atla og hann brunaði upp á spítala. Við vorum færð í fæðingarherbergi og ég fór beint í glaðloftið, þessi elsku besta gríma var besta vinkona mín á þessum tímapunkti! Þar sem að ég var með svo háan blóðþrýsting þá var mér ráðlagt að fá mænudeyfingu sem allra fyrst svo að blóðþrýstingurinn myndi lækka. Ég samþykkti það að sjálfsögðu og var afar glöð því verkirnir voru orðnir mjög miklir. Blóðþrýstingurinn komst í jafnvægi og ég gat loksins hvílt mig aðeins. Við tók löng bið eftir litla kallinum mínum. 12 klukkustundum eftir að ég missti vatnið var ég komin með 7 í útvíkkun. Við höfðum það samt sem áður mjög huggulegt, hlustuðum á rólega tónlist og vorum með lága lýsingu. Þetta umhverfi varð til þess að mér leið vel, ég var róleg og tilbúin í átökin framundan. Ég fékk mikinn hita og bakverki um nóttina og var því sett á pensilín og hitalækkandi í æð. Ég fékk líka dreip í æð sem átti að auka samdrættina. Um klukkan 5 um morguninn var ég komin með 10 í útvíkkun, þá þurfti ég að skoppa á bolta til þess að koma elsku drengnum mínum neðar. Klukkan 7 voru vaktaskipti og þá byrjaði sko partýið. Hann var kominn neðar og var því kominn tími til að rembast. Tveimur tímum seinna, klukkan 08:58 þann 24. janúar fæddist elsku fallegi Máninn minn. 50 cm og 14 merkur af fegurð og við foreldrarnir vorum við það að springa úr ást. Atli setti lagið okkar, ‘Skál fyrir þér’ með Frikka Dór í gang og við grétum saman með dásamlega drenginn okkar í fanginu. Ég hefði ekki getað þetta án Atla, vá hvað það skiptir miklu máli að hafa gott klapplið með sér í fæðingu. Þrátt fyrir langan og strangan aðdraganda og 2ja klukkustunda rembing þá gekk fæðingin mjög vel. Ég gat farið strax á salernið og leið mjög vel. Við fórum niður á sængurlegu og knúsuðum elsku Mána okkar.

Ég vildi óska þess að ég gæti sagt ykkur að við höfum farið heim daginn eftir og að allt hafi gengið vel en það var ekki rauninn. Þegar Máni var nokkurra klukkustunda gamall þá fór mér að líða verr. Mér byrjaði að svima og leið eins og ég gæti ekki haldið meðvitund. Atli kallaði á hjálp og eftir stutta skoðun var kallað á allar lausar hendur og það var brunað með mig í bráðaaðgerð. Elsku Atli var skilinn eftir með Mána í fanginu, hann vissi ekkert hvað hafði gerst og vissi ekkert hvenær ég myndi koma til baka. Ég man sem betur fer lítið eftir þessu en man vissulega eftir því að vera keyrð upp á skurðstofu. Fyrst var haldið að hluti af fylgjunni hafi verið eftir í leginu en við nánari skoðanir var það ekki staðan. Legið dróg sig einfaldlega ekki nóg saman sem varð til þess að það blæddi inn á það og ég missti því 1,5 lítra af blóði. Ég vaknaði stuttu síðar á vökudeild og vildi að sjálfsögðu komast strax til Mána og Atla. Ég mun aldrei gleyma svipnum á Atla þegar ég var keyrð inn í herbergið okkar, besta tilfinning í heimi að komast aftur til strákanna minna. Við tók mikil hvíld og reglulegar skoðanir. Máni stóð sig eins og hetja og tók brjóstð strax. Við fengum að fara heim tveimur dögum síðar og síðan þá hefur lífið okkar umturnast til hins betra. Máni er ljósið í lífinu okkar og hefur gert okkur að fjölskyldu. Elsku besti, fallegi strákurinn okkar.

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið dásamlegir og ég elska að sjá Mána vaxa og dafna. Ég get einfaldlega ekki beðið eftir framtíðinni með honum. Ég vona að þið hafið gaman af persónulegum færslum eins og þessum, ég allavega elska að lesa fæðingarsögur hjá öðrum konum. Þetta er líklega mín persónulegasta færsla til þessa og ég hlakka til að lesa hana aftur og aftur og rifja upp þegar Máni kom í heiminn. ❤️

Knús,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

 

SÓLGLERAUGU FRÁ LE SPECS

NÝTTTÍSKA

Ég nældi mér í ný sólgleraugu á dögunum. Það er ferðalag framundan og vonandi fleiri sólríkir dagar á Íslandinu góða svo að það var kominn tími á nýtt par í safnið. Þau sem voru fyrir valinu voru falleg sólgleraugu frá franska merkinu Le Specs. Ég hef lengi fylgst með þeim og sólgleraugun frá þeim eru hver önnur fallegri og á viðráðanlegu verði. Ég mæli með að fylgja Le Specs á Instagram.

Þessi eru svo á óskalistanum:

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

 

HINN FULLKOMNI NUDE VARALITUR

Förðun

Það er nær ómögulegt að vita það fyrirfram hvort að varalitur fari manni vel, ég þarf allavega að prófa og sjá áður en ég kaupi. Ég hef lengi leitað af fallegum hversdags varalit svo ég ákvað að taka af skarið og bætti við varalitnum Honey Bun frá Huda Beauty í körfuna á Cult Beauty. Vá (!!) hvað ég er ánægð með hann. Liturinn hentar mér vel enda hef ég notað hann nánast daglega síðan að sendingin kom til landsins. Varaliturinn er mjúkur og kremaður og kornar ekki sem mér finnst vera stór plús. Ég sé fram á að nota hann mikið, bæði hversdags og við fínni tilefni.

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

HELGARBOLLINN

ANNA MÆLIR MEÐFÆÐINGARORLOFIÐ

Helgarbollinn var tekinn á Hygge, tiltölulega nýju kaffihúsi á Seljavegi. Ég bý reyndar í næsta húsi svo ég er tíður gestur á þessu notalega kaffihúsi, við Máni kíkjum þangað nokkrum sinnum í viku. Þar er nóg pláss fyrir vagninn og ansi gott bakkelsi með kaffinu. Mæli með!

Buxur – Envii
Stuttermabolur – Axel Arigato, fæst í Andrá
Blazer – Zara

Mér þótti það ákveðið afrek þegar ég náði loksins að naglalakka mig, lúrarnir hans Mána fara í að þrífa, senda tölvupósta eða eitthvað allt annað en að naglalakka mig. Ég gat ekki staðist það þegar ég fékk nýtt naglalakk frá Essie að gjöf í litnum Blooming Friendship. Það er fallega blátt og birtir upp dökkan klæðnað eins og ég klæðist í á myndunum hér að ofan. Love it!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

STRIGASKÓR FYRIR SUMARIÐ

Á ÓSKALISTANUMSKÓR

Jæja núna er kominn tími til þess að fjárfesta í nýjum strigaskóm fyrir sumarið og í tilefni þess tók ég saman hvíta strigaskó sem ég væri alveg til í að eignast. Það er fátt sumarlegra en hvítir strigaskór og fallegt sumardress. Svo er hægt að nota flotta hvíta strigaskó við öll tilefni, hægt að klæða bæði upp og niður og er því góð fjárfesting. Jebb ég er búin að selja mér þessa hugmynd, næsta verkefni er að velja mér par. Hvaða par finnst ykkur flottast?

Frá Ganni, fást m.a. á Boozt

Frá Veja, fást í Andrá Reykjavík

Frá Nike, fást í H-Verslun

Frá Axel Arigato, fást í Andrá Reykjavík

Frá Filling Pieces, fást í Húrra Reykjavík

Sumargjöf frá mér til mín? Það held ég nú ☀️

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

GLEÐILEGT SUMAR

LÍFIÐ

Gleðilegt sumar kæru lesendur Trendnet. Ég ætlaði að setja þessa færslu inn á fimmtudaginn en Máni minn á alla athyglina mína svo það gleymdist að sjálfsögðu. Ég verð að viðurkenna að ég er ansi glöð að finna fyrir meiri dagsbirtu, sól og smá hlýju – það er svo gott fyrir sálina. Það er loksins komið frábært veður fyrir göngutúra en það var ansi erfitt í byrjun árs. Ég og Máni höfum því verið að fara daglega út. Hann stækkar svo hratt og er orðinn vanur því að hanga með mér á kaffihúsum og vera í kringum mikið af fólki. Hann einfaldlega elskar það! Sumarið okkar mun einmitt einkennast af því, kaffihús og göngutúrar. Það eru bjartir og skemmtilegir tímar framundan, ég get ekki beðið!

Sumarkveðja,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

KÆRKOMIÐ PÁSKADEIT

FÆÐINGARORLOFIÐMATURREYKJAVÍK

Við Atli vorum svo heppin að fá pössun fyrir Mána okkar í eina kvöldstund. Við Atli höfum verið dugleg að gefa hvor öðru einstaka fríkvöld, ég hef farið að hitta vinkonur, hann að hitta vini og svo höfum við fengið pössun fyrir Mána í nokkur skipti. Það er svo mikilvægt að fá smá pásu og rækta sjálfan sig og jú sambandið. Ég ákvað það strax að ég ætlaði ekki að gleyma sjálfri mér, ég er orðin mamma en ég er samt ennþá einstaklingurinn ég. En nóg um það .. Við Atli fórum nú ekki langt en Héðinn varð fyrir valinu. Við búum hliðin á svo það hentaði vel að trítla þar yfir á deitnight. Maturinn þar veldur aldrei vonbrigðum og svo finnst mér stemningin ekki skemma fyrir. Ég mæli með tígirsrækjusalatinu en ég vel mér það nánast alltaf. Við ákváðum svo að kíkja í drykk á Uppi Bar, einstaklega huggulegur staður og fullkominn fyrir deit.

Ég fékk spurningu út í buxurnar svo ég fæ að svara því hér. Þær eru nýjar og eru frá merkinu Envii. Sé fram á að nota þær einstaklega mikið, þær eru bæði klæðilegar og hægt að dressa bæði upp og niður. Við elskum mikið notagildi ekki satt!?

Buxur – Envii
Toppur – Nasty Gal
Skór – JoDis by Andrea Röfn
Taska – Prada

Gleðilega páska,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

 

Sunnudagur

FÆÐINGARORLOFIÐLÍFIÐ

Stúss, kaffi og samvera með mínum nánustu einkenndi sunnudaginn minn. Ég byrjaði daginn á því að fylla á básinn minn í Extraloppunni en við mæðgurnar erum með bás númer 45. Mæli með að gera sér ferð í Smáralind og gera góð kaup! Við fjölskyldan kíktum svo í kaffi á okkar uppáhalds kaffihús, Bakabaka, og fengum okkur kaffi og meððí. Það er orðið hálf vandræðalegt ég fer svo oft þangað, svona er það víst að vera í orlofi 🙈 Að lokum voru páskablómin keypt og svalirnar þrifnar, allt að verða tilbúið fyrir vorið.

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

TÍMBÆR BREYTING

HÁR

Mér finnst mjög skemmtilegt að breyta til um klippingu enda er ég mjög dugleg að prófa nýtt. Ég hef verið með svart, svokallað ombre, strípur, þvertopp, hliðartopp, axlarsítt og svo lengi mætti telja. Það var því kominn tími á breytingu en ég er búin að leyfa hárinu að vaxa í dágóðan tíma. Ég var komin með mjög sítt hár sem óx rosalega hratt á meðgöngunni og ég komst að því að það er ekkert voðalega þægilegt að vera með sítt hár með barn á brjósti. Máni elskar að rífa í hárið mitt og ég vaknaði með stóra flóka eftir næturgjafir. Mig langaði því að stytta það töluvert og fá meiri hreyfingu í það. Ég fann mynd á Pinterest og bað Tótu mína sem hefur verið klipparinn minn undanfarin ár að gera sambærilega klippingu. Hún gat svo sannarlega farið eftir óskum mínum og ég er svo ánægð með útkomuna! Ah það er svo gott að breyta til .. ég mæli með því fyrir alla. 😍

Nýklippt mamma með kaffibolla við hönd á meðan unginn sefur, nýja núið. Ég mæli með að vera djarfur og prófa nýjar greiðslur, það er bara svo skemmtilegt!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann