fbpx

AUKIN ORKA MEÐ GEOSILICA?

HEILSASAMSTARF
   Þessi færsla er unnin í samstarfi við GeoSilica

Ég má til með að segja ykkur frá mjög spennandi fyrirtæki sem ég kynntist fyrir ekki svo löngu. Um er að ræða íslenska fyrirtækið, GeoSilica. Frumkvöðullinn og ein af mínum fyrirmyndum, hún Fida Abu Libdeh stofnaði fyrirtækið ásamt teymi sínu og þróaði framleiðsluferlið GeoStep. Það er byltingarkennt ferli þar sem hreinn kísill er sóttur djúpt úr jarðveginum á íslensku jarðhitasvæði án þess að notast við skaðleg efni.

En af hverju kísill?

Jú því kísill er eitt algengasta steinefni jarðar og finnst bæði í jarðvegi og í mannslíkamanum. Hann getur auðveldað líkamanum upptöku á öðrum steinefnum og því geta bætiefni GeoSilica hjálpað líkamanum á óteljandi vegu. Allar vörur GeoSilica eru 100% náttúrulegar, hreinar og framleiddar á sjálfbæran hátt ásamt því að vera framleiddar á Íslandi og hafa þær allar hlotið vegan vottun. Þessar staðreyndir heilla mig og finnst mér það því vera á minni ábyrgð að kynna ykkur fyrir þessu íslenska, fyrirmyndar fyrirtæki og miðla minni reynslu af vörunum þeirra til ykkar, kæru lesendur.

Vörurnar þeirra eru PURE, RENEW, REPAIR, RECOVER og REFOCUS.
Ég fékk að velja mér vöru frá þeim og valdi ég mér nýjustu vöruna þeirra, REFOCUS sem inniheldur 100% náttúrulegan jarðhitakísil með viðbættu járni og D vítamíni. Varan á að stuðla að eðlilegri heilastarfsemi, vinna gegn langvarandi þreytu og gefa aukna orku ásamt því að stuðla að heilbrigðu ónæmiskerfi. Ég valdi mér REFOCUS því ég hef verið í vítahring varðandi þreytu lengi. Ég er alltaf á snúning í stórborginni, hlaupandi í tíma, á æfingu, hugsandi um Emmu og heimilið og vinn í tölvunni þess á milli. Dagarnir mínir geta því verið ansi þungir og á ég í þokkabót erfitt með nætursvefn, því hef ég safnað upp langvarandi þreytu.
Ég er því mjög spennt fyrir því að sjá hvort ég finni fyrir mun eftir reglulega inntöku REFOCUS. Ég fékk þriggja mánaða skammt frá GeoSilica og mun ég koma til með að deila með ykkur minni reynslu, hvort ég finni fyrir mun og í heildina minni reynslu af bæði vörunum og fyrirtækinu.


Fyrir ykkur sem langar að öðlast meiri þekkingu á þessu flotta, fyrirmyndar fyrirtæki þá er vefsíða GeoSilica hér.

Einnig ætla ég að bjóða ykkur uppá 10% afslátt með kóðanum anna10.
Þessi kóði gefur ykkur 10% afslátt af öllum vörum GeoSilica. Hægt er að nýta sér afsláttinn hér.

Styrkjum íslensk fyrirtæki !!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

EMMA WATSON PRÝÐIR FORSÍÐU DESEMBER ÚTGÁFU VOGUE

Leikkona, fyrirmynd og jafnréttissinni eru aðeins hluti af þeim fjölda orða sem mér dettur í hug við tilhugsunina um Emmu Watson. Hún er mikil fyrirmynd fyrir okkur kvenþjóðina og sjálf lít ég mikið upp til hennar, bæði vegna allra afreka hennar og starfa sem hún hefur gegnt t.d. fyrir UN Women. Eins og fyrirsögnin gefur til kynna þá prýðir fröken Watson forsíðu desember útgáfu breska Vogue, það er mikill heiður og finnst mér það sjálfsagt að afrekskona og fyrirmynd líkt og Emma prýði hana.


Ég vil benda á viðtal við hana sem ég hlustaði og horfði á en Paris Lees, aðgerðarsinni og dálkahöfundur hjá breska Vogue tók viðtalið við Emmu í tengslum við desember útgáfuna. Þar ræðir hún kvíða, kynjajafnrétti, að verða þrítug og að vera hamingjusöm og einhleyp. Ótrúlega skemmtilegt, áhugavert og hvetjandi viðtal sem ég mæli með að allir horfi á.

Svo að lokum vil ég benda á annað myndskeið sem margir hafa séð nú þegar en það er af Emmu Watson flytja frægu ræðuna sína á viðburði UN Women vegna herferðarinnar HeForShe. Ég fylltist innblæstri þegar ég horfði á þetta myndskeið og þrátt fyrir að vera frá 2014 þá finnst mér það enn viðeigandi og mun skipta máli, alltaf.

Þangað til næst,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

DRAUMA YFIRHÖFN FRÁ GANNI

Á ÓSKALISTANUM

Ég má til með að deila með ykkur yfirhöfn sem ég er mjög skotin frá Ganni. Um er að ræða tech/ullarkápu sem hægt er að nota á tvenna vegu. Tveir fyrir einn, er það ekki frekar hagstætt..? ;)


Algjör draumur að mínu mati og fullkomin yfirhöfn fyrir komandi vetur. Ég er mjög hrifin af fallegum detail-um, líkt og á þessari kápu er beltið og kraginn algjörlega að gera punktinn yfir i-ið. Skoðið betur hér.
Ég hef aðeins verið að fylgjast með Ganni og þeirra þróun frá sumarlínunni yfir í vetrarlínuna og ég verð að segja, ég er mjög hrifin. Kápurnar, stígvélin og peysurnar frá merkinu eru algjör draumur og langar mig í allt frá þeim. Kannski verð ég svo heppin að næla mér í eitthvað fallegt frá þeim, það er aldrei að vita!

Takk fyrir að lesa,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

LÍFIÐ Í MILANO

LífiðMilan

Ég vil byrja á því að afsaka skort á færslum frá mér en seinustu daga hef ég verið mjög upptekin. Ég hef loksins búið mér til góða rútínu og er nú þegar byrjuð að undirbúa lokaskil fyrir þessa önn í skólanum. Ég er að koma heim til Íslands eftir rúmar tvær vikur og finnst mér því mikilvægt að vinna mig upp til þess að geta verið róleg heima og notið þess að vera á klakanum góða.

En mig langar að deila með ykkur viðtali á MBL sem þau tóku við mig á dögunum fyrir ferðalaga dálkinn þeirra. Þar fjallaði ég um Milano, líf mitt og Emmu í borginni, mælti með veitingastöðum og öðrum stöðum sem er ómissandi að sjá.

Hægt er að lesa greinina hér.
Ég hef áður fjallað um mína uppáhalds veitingastaði í Milano hér á Trendnet en hægt er að lesa þá færslu hér

Mig langar svo að forvitnast og sjá hvort að það sé áhugi fyrir svipuðum færslum hér á Trendnet, t.d. segja frá leyndum perlum í Milano, mínum uppáhalds búðum, kaffihúsum, hvað er hægt að gera hér í kring o.s.frv. Endilega skiljið eftir athugasemd hér fyrir neðan eða gerið ‘like’ ef þið hafið áhuga á færslum frá mér í þeim dúr.

Hlakka til að heyra frá ykkur,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

LEÐURBUXUR Í VETUR

TÍSKA

Hvað er ég að sjá útum allt, á samfélagsmiðlum, í blöðum og á götum Milano? .. leðurbuxur !
Mér finnst leðurbuxur og vetur passa ótrúlega vel saman, sérstaklega ef þær eru vel fóðraðar. Þær passa við allt hvort sem það er við hlýja peysu, silki skyrtu eða stuttermabol – og við hvaða tilefni sem er, sem þýðir MIKIÐ notagildi.
Við elskum það ekki satt?

Hér koma nokkrar myndir frá tískuvikunni fyrir Fall/Winter ’19, sem gaf svo sannarlega til kynna að við ættum von á leðurbuxum-

Þær koma í öllum gerðum, síðar, stuttar, þröngar og víðar – það ættu allir að finna par sér við hæfi!
Hér eru nokkrar hugmyndir á aðeins viðráðanlegra verði,


Þessar eru á mínum óskalista, faux leðurbuxur frá Stellu McCartney.

Sjálf átti ég góðar leðurbuxur sem ég keypti í Galleri 17 fyrir ábyggilega góðum 6 árum, þær komu með mér til London og núna til Milano. Því miður gáfu þær sig í seinustu viku og fór ég því í neyðarverslunarleiðangur í Zöru.
Hér eru þær sem komu með mér heim,

Veður fyrir leður ;)

Þangað til næst,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

BACK TO SCHOOL OUTFIT

OUTFIT

Þá er mitt þriðja og síðasta ár í háskólanum hér úti í Milan gengið í garð. Ég tók að vísu fyrsta árið mitt í London en einhvern veginn líður mér eins og ég hafi alltaf verið hér, að stunda nám við Istituto Marangoni í þessari fallegu borg.
Ítalinn er ekki þekktur fyrir að stressa sig og kemur það því fáum á óvart að ég hafi byrjað í tímum í skólanum í seinustu viku, fyrstu vikuna í október! Persónulega finnst mér það alltof seint og ég var meira en tilbúin til þess að byrja loksins aftur.

Þar sem að ég er að læra í tískuháskóla þá líður mér stundum eins og ég sé stödd á tískusýningu. Það er algjör óþarfi að kíkja í búðir þar sem að allt það nýjasta er hægt að sjá á skólagöngunum .. mjög fyndið og á köflum einfaldlega sjokkerandi! Ég ákvað samt frá byrjun skólagöngu minnar að halda í mitt auðkenni og vera alltaf ég sjálf, bæði þegar kemur að tísku og framkomu. Því finnst mér tilvalið að deila með ykkur því sem ég klæddist í dag en það er mjög ‘Önnu-legt’. Ég á ansi gott safn af fallegum blazerum en mér finnst að hinn fullkomni blazer ætti hvað mest að eiga heima í öllum fataskápum, hjá bæði konum og körlum. Þá er hægt að nota við allt og dressa upp og niður, við öll tilefni – hin fullkomna flík kannski?
Blazer : Zara
Bolur : Victoria Beckham
Buxur : & Other Stories
Skór : Dr Martens
Belti : Zara

Þangað til næst,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

CITRON // JACQUEMUS X KASPIA

ANNA MÆLIR MEÐFRANCEMaturPARIS

Jæja ég er búin að ætla að deila þessari færslu alltof lengi, ég fékk margar spurningar varðandi kaffihús sem ég heimsótti þegar ég var í París. Umtalað kaffihús heitir Citron sem var gert í sameiningu af Simone Porte Jacquemus og Caviar Kaspia. Citron var opnað fyrr á árinu og er staðsett í Galeries Lafayette við Champs-Élysées.
Það eru flestir, ef ekki allir í tískuheiminum sem kannast við nafnið Simone Jacquemus þar sem að hann er eigandi merkisins Jacquemus. Merkið hefur svo sannarlega verið áberandi síðustu misseri og þrá allflestir í tískubransanum að eignast tösku eða flík frá Jacquemus. Það sem hefur einkennt merkið undanfarið eru töskurnar sem bera nafnið Le Chiquiti og koma í öllum stærðum, svo litlar að þær eru notaðar sem armbönd .. Mjög skemmtilegar pælingar á bakvið hönnunina og ég verð að viðurkenna, ég er heilluð og væri alveg til í að eignast eina svona litla ;)
En að kaffihúsinu .. Á seinasta deginum okkar Emmu í París ákvað ég að nýta tækifærið og heimsækja þetta fræga kaffihús sem hefur verið fjallað um á flestum tískufréttaveitum. Ég var svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Citron er ‘mjög Jacquemus’ og minnir á bæjartorg í Suður-Frakklandi. Staðurinn er skreyttur hátt og lágt með sítrónum, fallegum stórum kerum sem innihalda sítrónutré og húsgögnum í ljósum við. Á matseðlinum er hægt að finna rétti sem eru hannaðir út frá matarmenningunni í París. Þar á meðal kökur og sætabrauð frá bakaríinu Stohrer, konfekt og sælgæti frá A La Mère de Famille, brauð frá Anthony Courteille og fersk hráefni frá Les Bergers St Eustache svo eitthvað sé nefnt. Matseðilinn er mjög franskur og hefðbundinn, en ég fór að sjálfsögðu beinustu leið í kökurnar ..
Þau hafa hannað svokallaða ‘sítrónuköku’ sem lítur út eins og sítróna. Hún er hörð að utan og þarf maður að brjóta hana til þess að komast að innihaldinu, sem var í mínu tilfelli ljúffeng heslihnetumús. Ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina um þennan góða eftirrétt, matgæðingurinn í mér skein sínu skærasta !

Ég tók nokkrar myndir og ætla leyfa þeim að tala sínu máli,

Spottið Emmu .. Ég mæli með að þið gerið ykkur ferð á þetta sérlega fallega og skemmtilega kaffihús ef þið eruð á leiðinni til Parísar!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

TEDx REYKJAVÍK

ANNA MÆLIR MEÐ

TEDx Reykjavík fagnar 10 ára afmæli sínu nk. sunnudag, 13. október. Í tilefni þess verður haldin viðburður með þemanu
‘Breyttir tímar’. Helstu frumkvöðlar og hugsuðir landsins munu stíga á svið ásamt erlendum ræðumönnum og munu þau deila hugmyndum sínum að betra umhverfi og bættri framtíð til áhorfenda.

Sjálf er ég að koma til landsins um helgina og var svo heppin að fá miða á viðburðinn sem fer fram í Háskólabíó frá kl 10 til 15. Ég er mjög spennt að fá tækifærið til þess að hlusta á þessa frábæru ræðumenn sem eru svo sannarlega fjölbreyttir og munu þau hvert og eitt fjalla um mikilvæg málefni.

Ræðumennirnir sem við munum heyra frá á TEDxReykjavík eru:

Edda Björgvinsdóttir – Humour and Happiness – A Dead Serious Matter
Eunsan Huh – Illustrating Language: Iceland in Icons
Guðjón Már Guðjónsson – Building Purpose-driven Businesses
Hafdís Hanna Ægisdóttir – Training Leaders to Restore a Planet in Crisis
Logan Lee Sigurðsson – Human Trafficking: Our Community, Our Problem
Michelle Spinei – Can Adventure Travel Change You?
Sigursteinn Róbert Másson – Making Manic Depression My Strength
Tanit Karolys – My Burnout Success Story – How Changing Your Thoughts Can Change Your Life
Vanda Sigurgeirsdóttir – Kids With Kids
Ýmir Vigfússon – You Should Learn How To Hack

 

Kaupið miða á TEDxReykjavík hér

Hvar : Háskólabíó
Hvenær : Sunnudaginn 13. október 
Klukkan hvað : Frá kl. 10.00 – 15.00

Reykjavík Street Food mun sjá um hádegisverðinn en hann er innifalinn í miðaverðinu!
Ég mæli með að fjárfesta í miða og svo sjáumst við á sunnudaginn :)

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest!

Takk fyrir að lesa,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

HÚÐRÚTÍNAN MÍN

HÚÐUMHIRÐA

Ég hef verið beðin um ð deila húðrútínunni minni og sérstaklega vörunum frá The Ordinary sem ég hef verið að nota í rúmt hálft ár núna. Húðrútínan mín er loksins orðin fullkomin að mínu mati og hefur húðin mín aldrei verið jafn góð eins og núna. Ég nota margar mismunandi vörur og eru þær misflóknar. Ég mæli með að finna húðrútínu sem hentar ykkar húðtegund og prufa ykkur áfram með vörur. Það er ekki víst að vörur sem henta minni húð munu henta þinni svo að ég myndi lesa mig til um þær fyrir notkun, sérstkalega þær sem innihalda sýrur.

Hér er húðrútínan mín –

Á morgnana
1. Andlitshreinsir
Ég hreinsa húðina með mildum hreinsi frá Neutrogena. 

2. Andlitsvatn (tóner)
Það er mikilvægt að nota góðan tóner þegar búið er að hreinsa húðina til þess að loka svitaholunum.
Ég nota mildan tóner frá Simple.

3. Serum
Ég nota Buffet serum-ið frá The Ordinary alltaf á morgnana. Buffet er margþætt peptíð serum, hannað til þess að vinna á öldrun húðarinnar. Serumið jafnar út húðlit, vinnur á skemmdum (t.d. örum) og eykur kollagen framleiðslu húðarinnar. Einnig inniheldur Buffet aminó- og hýalúrónsýrur sem nærir híuðina og gefur henni extra raka.

4. Augnserum
Ég hef verið að nota caffein solution frá The Ordinary í nokkra mánuði núna og sé þvílíkan mun.
Varan er hönnuð til þess að vinna á ‘puffy’ og dökkum augnsvæðum. Caffein solution inniheldur 5% koffín og grænt te.

5. Niacinamide
Sterk vítamín- og steinefnablanda sem inniheldur B3 vítamín sem dregur úr dökkum blettum, er bólgueyðandi og minnkar roða í húðinni.

6. Rakakrem
Milt og gott rakakrem frá MyClarins. 

7. Sólarvörn
Ég er nýbúin að kaupa mér þessa andlitssólarvörn frá Paula’s Choice. Hún er mjög létt og alls ekki olíukennd, hún inniheldur smá tint (lit) sem jafnar húðlitinn og gefur frá sér fallegan ljóma. Ég nota andlitssólarvörn á hverjum degi þótt ég sé ekki að fara í sólbað, því útfjólubláir geislarnir sem eru orsök sólskemmda húðarinnar og húðkrabbameina eru alltaf til staðar þrátt fyrir rigningu og ský. Dagleg notkun sólarvarnar skilur húðina eftir heilbrigða og ljómandi.

Á kvöldin
1. Andlitshreinsir

2. Andlitsvatn (tóner)

3. Serum með 2% granactive retinoid
Granactive retinoid er tegund af retinólsýru.  Þetta serum er með miklum styrk en er samt sem áður lítið sem ekkert ertanti fyrir húðina. Því er þetta fullkomin retinólsýra fyrir byrjendur. Varan er hönnuð til þess að vinna á fínum línum, litabreytingum og ‘endurlífgar’ húðina með því að vinna á móti öldrun hennar.

4. Andlitsolía og rúlla
Ég hef verið að nota þessa frábæra olíu frá The Ordinary. Hún er 100% kaldpressuð jómafrúarolía unnin úr marula trjám. Hún er full af andoxunarefnum og er bæði fyrir húð og hár. Rakagefandi og gjörsamlega vökvar húðina af góðri olíu. Svo nota ég þessa rúllu frá The Body Shop til þess að auka blóðflæði húðarinnar.

Á 7-10 daga fresti
Sýrumaski
Sýrumaski frá The Ordinary sem er hannaður til þess að láta húðina endurnýja sig, jafnar áferð hennar og skilur hana eftir geislandi og fallega. Það er mjög mikil virkni í þessum maska svo ekki láta ykkur bregða ef þið verðið smá rauð – það er bara sýran að vinna sína vinnu! Ég er með viðkvæma húð og nota því þennan maska á 7-10 daga fresti en The Ordinary segir að það megi nota hann max. 2x í viku, ég myndi samt byrja á að nota hann á 10 daga fresti og leyfa húðinni að venjast. Ekki er mælt með að nota aðrar sýruvörur á sama tíma og þessi vara er notuð. Svo er mjög mikilvægt að nota sólarvörn daginn eftir að varan er notuð!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

MÍN VEGFERÐ AF SJÁLFSVINNU OG SJÁLFSÁST EFTIR ÁFALL

Lífið

Seinastliðin 2 ár og 2 mánuði hefur líf mitt einkennst af sjálfsvinnu og sjálfsást. Ég kvaddi áfengi úr lífi mínu og tók að mér stærsta og mikilvægasta verkefni sem ég hef tekið að mér, að finna sjálfa mig uppá nýtt og að endurbyggja mitt musteri. Mitt musteri er ég, bæði líkamlega og andlega – við eigum að koma fram við okkur sem slíkt. Ég er mitt dýrmætasta musteri sem þarf oftar en ekki á aðhlynningu að halda.
Líf mitt hefur einkennst af mikilli sjálfsvinnu undanfarið og er ég loksins komin á rétta braut, braut sem hentar mér vel og ég er loksins orðin hamingjusöm og heil. En af hverju þurfti ég á þessari sjálfsvinnu á að halda?
Jú ég er nefnilega þolandi kynferðisofbeldis. Sjálf er mér ekki vel við orðið ‘þolandi’ og vil ég frekar nota orðið ‘sigurvegari’ því í dag, eftir þessa erfiðu sjálfsvinnu stend ég uppi sem sigurvegari og kynferðisofbeldið skilgreinir mig ekki sem manneskju.
Eftir þetta áfall greindist ég með ofsakvíða, alvarlegt þunglyndi og áfallastreituröskun, en með hjálp sálfræðinga, geðlækna, fjölskyldu og vina hefur mér aldrei liðið betur, bæði andlega og líkamlega. En ég vil samt sem áður gefa sjálfri mér bikarinn því ég vann útúr mínu áfalli eins og sigurvegari og í dag snýst líf mitt um mikla sjálfsást og sjálfsvinnu – því hún endar aldrei!

Mig langar að deila með ykkur hvaða verkfæri fyrir utan faglega aðstoð hafa hjálpað mér að halda niðri kvíðanum, hvernig ég tæklaði svefnvandamál og hvernig ég lærði að elska sjálfa mig uppá nýtt.

Hugleiðsla og öndun,
Hugleiðsla og öndun eru klárlega þau verkfæri sem ég nota oftast. Ég er auðvitað misdugleg og stundum ‘gleymi’ ég að hugleiða en þetta er æfing eins og svo margt annað. Mitt næsta verkefni er að gera hugleiðsluna hluta að rútínunni minni. Ég hef verið að notast við öppin Shine og Headspace. Shine hefur verið í algjöru uppáhaldi en þar eru margar æfingar sem henta við mismunandi aðstæður. Ég hef verið að taka morgunæfingar sem koma mér af stað í daginn, með bros á vör og full af jákvæðni. Einnig hef ég gert sérstakar æfingar sem einblína á kvíða eða stressandi aðstæður, þær æfingar hafa hjálpað mér alveg rosalega. Ég á stundum erfitt með svefn og hef ég því verið að hugleiða fyrir svefninn og notast þá oftast við sérstakar svefnhugleiðslur. Þær hugleiðslur einblína bæði á hljóð t.d. sjóhljóð, fuglahljóð og rigningarhljóð ásamt æfingum sem einblína á djúpöndun. Þessi aðferð hefur hjálpað mér að ná góðum svefni með frábærum árangri, ég hef ekki átt svefnlausa nótt í mjög langan tíma.

Núvitund,
Að læra að vera í núinnu er mikil kúnst. Ég get gleymt mér í pælingum um framtíðina, fortíðina og á samfélagsmiðlum. Ég hef slökkt á öllum tilkynningum frá samfélagsmiðlum sem hefur hjálpað mér að minnka símanotkunina. Svo finnst mér voðalega gott að taka mér pásur af og til frá samfélagsmiðlum, ég hef brennt mig á að bera mig saman við aðra og þá skellur yfir mig vanlíðan. Ég veit að ég er ekki sú eina sem ofhugsar fortíðina og framtíðina. Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur velt sér uppúr því sem maður getur ekki stjórnað. Núna er ég að einbeita mér að því að taka einn dag í einu og njóta hvers dags, að njóta augnabliksins og að njóta litlu hlutanna. Njóttu góða kaffibollans sem þú sýpur á, hlustaðu á fuglahljóðin, horfðu á fallega bláa himininn og andaðu að þér ferska loftinu – þetta er núvitund, að læra að njóta augnabliksins og að anda að sér deginum í dag.

Quote sem ég lifi eftir

Ég umkringdi sjálfa mig af góðu og heilsteyptu fólki, sem vildi mér einungis vel
Það var og er mikilvægt í mínu bataferli að hafa fólk í kringum mig sem vill mér vel og hjálpaði mér með þetta erfiða verkefni. Það er svo mikilvægt að hafa fólk í kringum sig sem gefur frá sér góða orku og nærveru. Aldrei vanmeta fjölskyldu ykkar og vini. Það er hreint ótrúlegt hvað fólkið mitt er sterkt, þegar eitthvað bjátar á rétta allir fram hjálparhönd. Ég stend í eilífðar þakkarskuld við þau. Takk fyrir að vera hér góða fólk.

Mamma og pabbi, fólk sem myndi vaða eld og brennistein fyrir mig

Ég setti sjálfa mig í fyrsta sæti,
Það er þvert á móti eigingjarnt að setja sjálfan sig í fyrsta sæti, í rauninni eigum við alltaf að vera númer 1. Því ef við fúnkerum ekki hvernig getum við þá sinnt fólkinu í kringum okkur? Eftir mitt áfall fann ég fyrir miklu sjálfshatri sem ég þurfti að snúa yfir í ást. Það var erfiðara en að segja það en eftir mikla sjálfsvinnu og tíma sem ég tók fyrir sjálfan mig þá er ég loksins komin á rétta braut varðandi sjálfsást. Þú. Ert. Númer. Eitt.

Ég kvaddi áfengi útúr lífi mínu,
Stór partur af mínu bataferli var að kveðja áfengi. Það er ótrúlegt hvað það er létt að deyfa sig með áfengi og að flýja raunveruleikann, sem er nákvæmlega það sem ég gerði. Fyrir 26 mánuðum ákvað ég að leggja áfengið á hilluna og lifa vímuefnalausu lífi – þvílíkt frelsi. Tilfinningin að hafa fullkomna stjórn á sjálfum sér, alltaf, er ólýsandi. 

Ég borða hollan mat og hreyfi mig, 
Mataræði og hreyfing hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og það er ekkert leyndarmál að hreyfing og mataræði helst í hendur við andlega heilsu. Svo finnst mér öll útivera vera rosalega frelsandi, það einfaldlega jafnast ekkert á við að anda að sér fersku lofti í fallegu umhverfi.

Hreyfing, útivera og hollt mataræði eru bestu meðölin fyrir vanlíðan

Þakklætisbókin,
Að lokum verð ég að segja ykkur frá bók sem hefur hjálpað mér, hún heitir ‘Five Minute Journal’. Þar skrifa ég í byrjun dags hvað ég er þakklát fyrir, hvað myndi gera daginn minn stórkostlegan, daglegar staðhæfingar um sjálfa mig svo í lok dags skrifa ég hvað gerðist í dag sem gerði daginn frábæran og hvað hefði gert hann enn stórkostlegri. Þessi bók er frábær og svo einföld en það að telja upp hvað maður er þakklátur fyrir kveikir á eitthverju í undirmeðvitundinni. Ég loka bókinni alltaf brosandi og þakklát.

Það sem ég skrifaði 04/10/19

Í lokin langar mig að minna á hversu mikilvæg sjálfsvinna er, hvort sem að þú hefur lent í áföllum, tekið að þér erfið verkefni eða ekki. Sjálfsvinna er holl fyrir okkur öll og fyrir mér er hún lífsnauðsynleg. Við lifum bara einu lífi og með sjálfsvinnu og sjálfsást getum við gert líf okkar fullt af hamingju, ást, gleði og innri ró.

Ég vona innilega að þessi færsla muni hjálpa eitthverjum sem er að vinna í sjálfum sér eða er að taka fyrstu skrefin.

Takk fyrir að lesa,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann