fbpx

ÞÆGILEGUR SUNNUDAGUR

OUTFITTÍSKA

Ég hef tileinkað mér ‘þægindi í fyrirrúmi’ dress eftir að ég átti Mána. Það skiptir mig miklu máli að líða vel þegar ég er að dúllast með Mána mínum en það er auðveldlega hægt að setja saman þægileg en flott outfit. Sjá dæmi hér að neðan. Joggingbuxur frá mínu uppáhalds merki, Aim’n, svartur klæðilegur blazer og svo batt ég peysu utan um axlirnar sem setur punktinn yfir i-ið að mínu mati.

Blazer : Zara
Buxur : Aim’n, fást í Wodbúð
Peysa : Zara
Skór : Nike
Sólgleraugu : Le Specs

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

VEGLEGUR GJAFALEIKUR Í SAMSTARFI VIÐ HEBA STORE

BÖRNSAMSTARF

Þið sem lásuð færsluna um vörurnar frá Heba Store hér, þá kemur það kannski ekki á óvart þegar ég segi að við fjölskyldan erum miklir aðdáendur. Nagdýrin hafa hjálpað viðkvæmum góm í tanntöku og baðvörurnar hafa gert baðferðir skemmtilegar. Ég er því ansi glöð að geta sagt ykkur frá gjafaleik sem ég og Heba Store ákváðum að setja saman í sameiningu. Einn heppinn fylgjandi vinnur einstaklega veglegan pakka af vörum frá Matchstick Monkey ásamt sparkbíl – speedster að eigin vali frá Baghera! 🐒🚙

Þið getið tekið þátt með því að smella hér eða á myndina hér fyrir neðan.

Svo vill ég enn og aftur minna á afsláttarkóðann Anna15 sem gefur ykkur 15% afslátt af öllum vörum inn á www.hebastore.is til 1. september!

Megi heppnin vera með ykkur!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

VÖRUR FYRIR KRÍLIN SEM HAFA SLEGIÐ Í GEGN Á OKKAR HEIMILI

BÖRNMÁNISAMSTARF

Fyrr á árinu fengum við Máni fallegan pakka til okkar. Pakkinn innihélt fallegt nagdót í björtum, heillandi litum frá margverðlaunaða merkinu Matchstick Monkey. Við höfum verið aðdáendur síðan enda hafa dýrin slegið í gegn á okkar heimili, sérstaklega í tanntökunni. Dótinu hefur heldur betur fjölgað hjá okkur og leikur Máni sér nánast einungis með dótið frá Matchstick Monkey. Mér finnst það ekki skrýtið enda eru litirnir heillandi, dýrin eru mjúk viðkomu og gott að bíta í. Nagdótið nuddar vel góminn og er einstaklega sniðugt til þess að æfa tannburstun. Vöruúrvalið er fjölbreytt en það er m.a. hægt að fá apa í 12 litum, allskonar dýr sem gott er að naga, þ.á.m. ref, hákarl, gírafa og svín, baðdót sem er algjör snilld til þess að gera baðtímann skemmtilegan og svo eru matarstell nýjasta viðbótin. Vörurnar örva hreyfiþroska og eru léttar og meðfærilegar. Allar vörurnar frá Matchstick Monkey eru BPA-fríar, eiturefnalausar og innihalda þær allar biocote sem er leiðandi í vörn gegn bakteríum, veirum og myglu. Ég mæli tvímælalaust með því að frysta nagdýr og leyfa kríli í tanntöku að leika sér með dótið og kæla góminn í leiðinni. Algjört foreldrahax!

Við fengum nýlega baðpakka af vörum frá Matchstick Monkey og Máni elskar nú að fara í bað og busla með apana sína. Það er hægt að nota baðvörurnar áhyggjulaust þar sem að þær eru holulausar og því fyllast vörurnar ekki af vatni. Efst á óskalistanum er rennibrautin sem hægt er að festa við bað eða á sturtuvegg. Ég er alveg viss um að hún muni slá í gegn þegar Máni verður eldri. Við erum mjög spennt að prófa matarlínuna en þessa dagana eyðum við mestmegnis af deginum í eldhúsinu að prófa okkur áfram með allskonar mat. Það mun því koma sér vel að fá fallegt og flott matarstell frá Matchstick Monkey. Það er líka kjörin babyshower- eða skírnargjöf. Matarstell og nagdýr í pakkann frá Matchstick Monkey, það hljómar eins og hin fullkomna gjöf fyrir mér!

Helstu sölustaðir Matchstick Monkey eru Fífa, Móðurást, Epal, As We Grow, Bíum Bíum, Ohana Store, Tvö Líf, Póley, Heba Store og Duty Free. Tilvalið að næla sér í nag- eða baðdót fyrir útlandaferðina!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

 

SKÓGARBÖÐ OG ORKUHLEÐSLA FYRIR NORÐAN

ANNA MÆLIR MEÐFERÐALÖGÍSLANDSUMAR

Við fjölskyldan vorum meira og minna á flakki allan júlí, við ætlum að taka águst í ró hér í Reykjavík en förum svo erlendis í lok mánaðarins. Eitt af því sem stóð upp úr á flakkinu okkar voru Skógarböðin á Akureyri. Þvílík dásemd! Við Atli vorum svo heppin að fá pössun fyrir strákana okkar og nýttum því tækifærið og gerðum okkur ferð þangað. Ég mæli tvímælalaust með, aðstaðan er ein sú flottasta sem ég hef séð. Það er ótrúlegt hvað smá foreldrafrí gerir mikið fyrir mann, bara fáeinir klukkutímar skipta sköpum!

Ég mun klárlega heimsækja Skógarböðin aftur. Þarna er gott að sækja sér orku og fyllast vellíðan.

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

MÖMMUSPJALL Á MBL

FÆÐINGARORLOFIÐMÁNIMEÐGANGAPERSÓNULEGT

Ég vil byrja á því að óska þessum besta miðli sem ég held svo upp á, til hamingju með 10 árin! Ég er búin að blogga hér inn á síðan vorið 2018 og er afar þakklát að vera partur af þessu stórkostlega teymi.

En að öðru.. Ég fór í smá mömmuspjall á MBL á dögunum. Þar ræddum við meðgönguna, fæðinguna og mömmuhlutverkið, bæði það erfiða og dásamlega sem því fylgir. Ég fékk að deila ráðum sem ég vona að nýbakaðir foreldrar munu nýta sér, ég kom inn á brjóstagjöfina og af hverju ég ákvað að hætta með Mána á brjósti. Andleg heilsa númer eitt, tvö og þrjú – ég hef nú þegar fengið góðar undantektir frá mæðrum í sömu sporum og vona að þú kæri lesandi munir njóta að lesa þetta stutta og skemmtilega spjall.

 

Þið getið nálgast viðtalið í heild sinni hér. Ég vona að þið hafið gaman af lestrinum. 🥰

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

BEIGE FRÁ TOPPI TIL TÁAR Í UPPÁHALDI

OUTFITTÍSKA

Beige frá toppi til tár, sumarlegt en áhættusamt með litla krílið mitt sem er byrjað að borða. Ég hef undanfarið verið að reyna að bæta við litum í fataskápinn og hafa beige flíkur oftar en ekki verið fyrir valinu, sjá hér. Ég fer varla úr gallabuxunum hér að neðan en þær eru líklega flottustu og þægilegustu gallabuxur sem ég hef átt. Ég mæli með að poppa upp fataskápinn með slíkum buxum eða reyna að klæðast litríkari fatnað – það kemur mér allavega í gott skap!

Trench kápa – Zara
Buxur – Zara
Sólgleraugu – Le Specs, sjá hér
Taska – Stella McCartney
Skór – Adidas

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

ENDURNÆRÐ Í SVEITINNI // BEIGE DRESS

OUTFITSUMARTÍSKA

Við Atli vorum svo heppin að fá pössun fyrir strákana okkar og gerðum okkur því ferð í Skógarböðin hér fyrir norðan. Við komum bæði tvö endurnærð og fersk til baka. Það er ótrúlegt hvað falleg náttúra, kyrrð og góður félagsskapur gerir mikið fyrir mann. Ég ætla að gera sér færslu um ferðalagið okkar og hvað við höfum verið að bralla síðustu daga og vikur en ætla því í staðinn að deila með ykkur hvaðan fötin hér fyrir neðan eru. Ég er nánast aldrei í svona ljósum fötum enda finnst mér það vera aðeins of hættulegt, ég er nefnilega algjör klaufi og náði einmitt að sulla kaffi á fínu peysuna mína í lok dags. Það er lítið hægt að gera í því annað en að hlæja og reyna að ná kaffinu úr. 😅☕️

 

Peysa – Massimo Dutti
Hlýrabolur –
Mango
Buxur – Zara
Sólgleraugu – Le Specs, sjá hér
Skór – Birkenstock

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

NÝ RÆKTARFÖT Í FATASKÁPINN // GJAFALEIKUR MEÐ WODBÚÐ

HEILSAHREYFINGSAMSTARF

Það er búið að vera vægast sagt erfitt að koma mér í gang eftir meðgönguna. Mér hefur fundist erfitt að finna tíma fyrir hreyfingu og svo hefur mig sárvantað hvatningu. Ég var því mjög glöð þegar Wodbúð hafði samband við mig en ég vissi að það var akkúrat hvatningin og innblásturinn sem ég var að leita af. Ég gerði mér ferð í fallegu búðina þeirra í Faxafeninu og mátaði heilan helling. Ég fékk meðgöngubuxur frá þeim þegar ég var ólétt af Mána og notaði þær óspart á meðgöngunni. Þær uxu með mér og bumbunni minni og notaði ég þær alveg þangað til að Máni fæddist. Þær voru frá merkinu Aim’n svo ég ákvað að skoða það merki extra vel þegar ég heimsótti Wodbúð. Að lokum nældi ég mér í beige-litað sett frá LUXE línunni frá Aim’n. Ég hef alltaf verið í svörtum íþróttafatnaði svo mér fannst tilvalið að breyta til og bæta við beige-tónum í fataskápinn. Buxurnar eru saumalausar með góðu aðhaldi, þær eru mjúkar og ekki gegnsæjar. Ég gjörsamlega dýrka þær! Ég valdi topp með miklum stuðningi en hann hvorki kremur né tosar. Hann er einstaklega þægilegur og sé ég fram á að nota hann líka hversdags. Þið getið skoðað buxurnar hér og toppinn hér.

Elska þetta sett! Ég nældi mér líka í joggingpeysu frá sama merki, einnig í beige. Hugsa að ég verði að fá mér buxur í stíl, þægilegur jogginggalli er must í fæðingarorlofinu!

Svo verð ég að deila með ykkur gjafaleiknum sem ég og Wodbúð erum með á Instagram. Ég mun draga út tvo heppna aðila sem vinna sitthvort 20.000 kr. gjafabréfið í Wodbúð. Þeir heppnu geta dressað sig upp til þess að koma sér í gang eins og ég eða einfaldlega hresst upp á fataskápinn! Wodbúð er með tryllt úrval af fallegum ræktarfötum en líka fötum sem hægt er að nota hversdags. Ég mæli eindregið með heimsókn. 🥰

Þið getið tekið þátt í gjafaleiknum hér eða með því að smella á myndina hér fyrir neðan.

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

Á FERÐ OG FLUGI

BörnFÆÐINGARORLOFIÐFerðalögLÍFIÐMÁNIUncategorized

Stutt check-in .. Við fjölskyldan erum stödd á Tenerife og verðum hér næstu daga. Ferðalagið gekk vonum framar og Máni stóð sig eins og hetja í flugvélinni! Ég var búin að undirbúa mig fyrir það allra versta en það var algjör óþarfi. Máni var algjört gull og ég er ekki frá því að honum hafi fundist ferðalagið bara frekar skemmtilegt. Yndislegt og algjört draumaferðalag! Fyrstu dagarnir hér á Tenerife hafa verið dásamlegir, við ákváðum að leigja okkur íbúð á Costa Adeje en mér finnst algjört must að komast í þvottavél og gott eldhús þegar maður er með ungbarn. Fjölskyldufólkið tengir líklega, ég geri fátt annað en að setja í þvottavélar og að sjóða snuð og pela 😆 Hér eru allir með sitt eigið svenherbergi svo það er nóg rými fyrir okkur öll, mjög þægilegt og ég mæli klárlega með því.

Ég var búin að undirbúa ferðina vel, keypti m.a. nokkra sniðuga hluti á Amazon fyrir ferðalagið sem er að hjálpa heilan helling. Þar á meðal viftu sem hægt er að festa við allar kerrur, algjör snilld þegar það er mikill hiti. Sjá hér

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en ég mun klárlega segja ykkur betur frá ferðalaginu.

FÆÐINGARSAGAN OKKAR

MÁNIPERSÓNULEGT

Ég er búin að mana mig upp í að skrifa þessa færslu í dágóðan tíma núna en Máni er orðinn 4,5 mánaða svo ég held að það sé alveg orðið tímabært að ná þessari upplifun okkar niður á ‘blað’ – í þessu tilfelli í rafrænu dagbókina mína. Meðgangan mín var bæði upp og niður, ég varð rosalega veik á fyrsta þriðjung og fór í veikindaleyfi í vinnunni í nokkra daga. Við tók annar þriðjungur sem byrjaði vel en endaði svo með innlögn á kvennadeildina þar sem að ég fékk sýkingu í nýrun. Ég vonaðist til að þriðji og síðasti þriðjungurinn myndi vera þægilegur en svo var ekki. Ég sem betur fer byrjaði snemma í fæðingarorlofi en ég hætti að vinna þegar ég var komin 36 vikur á leið. Ég fékk rosalegan bjúg rétt fyrir jól, aðallega á fæturnar og komst ekki í neina skó nema risastóra inniskó – mér til mikillar gleði. Ég byrjaði í auknu eftirliti hjá mæðravernd og fór í skoðun tvisvar í viku. Ég var hræddust um að ég myndi fá meðgöngueitrun og var því glöð að fá aukið eftirlit. Eftir áramót byrjaði mér að líða verr, ég varð rosalega þreytt, með stöðugan höfuðverk og bjúgurinn skelfilegur. Þá var ég send upp á spítala í skoðanir og var þá greind með háþrýsting sem útskýrði höfuðverkinn. Háþrýstingurinn varð til þess að það var send inn beiðni um gangsetningu, þá var ég gengin 39 vikur. Nokkrum dögum síðar var ég greind með meðgöngueitrun, Máni var skoðaður bak og fyrir í sónar og það var ljóst að eitrunin hafði sem betur fer engin áhrif á hann. Á þessum tímapunkti var ég gengin 39 vikur og 3 daga og beið eftir að fá símtal um gangsetningu en vegna covid var mikið álag upp á kvennadeild og var því smá bið.

Laugardaginn 22. janúar þegar ég var komin 39 vikur og 5 daga fór ég í skoðun upp á kvennadeild. Sú skoðun endaði með því að ég fékk leyfi til þess að bruna heim, pakka í töskur, knúsa Atla og bruna svo aftur upp á deild. Ég átti að fara í gangsetningu sama dag. Ég var sem betur fer löngu búin að pakka í töskur og undirbúa allt. Ég kom heim, tók allt saman, knúsaði Emmu mína og við Atli fengum okkur kók í gleri. Ég mun líklega aldrei gleyma þessu mómenti, við tvö drekkandi kók með tár í augunum, vitandi það að næst þegar við kæmum heim þá væri engillinn okkar með. Þegar við Atli fórum út í bíl byrjaði lagið ‘Skál fyrir þér’ með Frikka Dór, það toppaði þetta móment og ég mun aldrei gleyma þessu enda brosum við alltaf hringinn þegar við heyrum lagið.

Ég var komin upp á deild um kl 16 þann 22. janúar og fór í allskonar skoðanir. Þá var tekin sú ákvörðun að ég myndi byrja á því að taka gangsetningartöflur, ein á 2ja klukkustunda fresti. Atli fékk að koma í heimsókn til mín um kvöldið en á þessum tíma máttu makar ekki vera með fyrr en að virk fæðing væri farin af stað. Ég fékk smá verki útaf töflunum en annars var lítið að frétta svo ég reyndi að nýta tímann til þess að slaka á og hvíla mig fyrir komandi átök. Morguninn eftir hélt ballið áfram, ég tók töflurnar og horfði á Desperate Housewives þess á milli. Ég fór í langa sturtu í hádeginu en þá var ég einungis komin með 1 í útvíkkun, líkaminn minn var sko ekkert að drífa sig. Eftir góða sturtuferð var ég ný sest aftur upp í spítalarúmið þegar ég heyrði háan smell og við það missti ég vatnið. Þetta var eins og í bíómynd, það var ALLT í vatni og ég horfandi á Despó. Hríðarverkirnir byrjuðu nánast strax svo ég fékk leyfi til þess að hringja í Atla og hann brunaði upp á spítala. Við vorum færð í fæðingarherbergi og ég fór beint í glaðloftið, þessi elsku besta gríma var besta vinkona mín á þessum tímapunkti! Þar sem að ég var með svo háan blóðþrýsting þá var mér ráðlagt að fá mænudeyfingu sem allra fyrst svo að blóðþrýstingurinn myndi lækka. Ég samþykkti það að sjálfsögðu og var afar glöð því verkirnir voru orðnir mjög miklir. Blóðþrýstingurinn komst í jafnvægi og ég gat loksins hvílt mig aðeins. Við tók löng bið eftir litla kallinum mínum. 12 klukkustundum eftir að ég missti vatnið var ég komin með 7 í útvíkkun. Við höfðum það samt sem áður mjög huggulegt, hlustuðum á rólega tónlist og vorum með lága lýsingu. Þetta umhverfi varð til þess að mér leið vel, ég var róleg og tilbúin í átökin framundan. Ég fékk mikinn hita og bakverki um nóttina og var því sett á pensilín og hitalækkandi í æð. Ég fékk líka dreip í æð sem átti að auka samdrættina. Um klukkan 5 um morguninn var ég komin með 10 í útvíkkun, þá þurfti ég að skoppa á bolta til þess að koma elsku drengnum mínum neðar. Klukkan 7 voru vaktaskipti og þá byrjaði sko partýið. Hann var kominn neðar og var því kominn tími til að rembast. Tveimur tímum seinna, klukkan 08:58 þann 24. janúar fæddist elsku fallegi Máninn minn. 50 cm og 14 merkur af fegurð og við foreldrarnir vorum við það að springa úr ást. Atli setti lagið okkar, ‘Skál fyrir þér’ með Frikka Dór í gang og við grétum saman með dásamlega drenginn okkar í fanginu. Ég hefði ekki getað þetta án Atla, vá hvað það skiptir miklu máli að hafa gott klapplið með sér í fæðingu. Þrátt fyrir langan og strangan aðdraganda og 2ja klukkustunda rembing þá gekk fæðingin mjög vel. Ég gat farið strax á salernið og leið mjög vel. Við fórum niður á sængurlegu og knúsuðum elsku Mána okkar.

Ég vildi óska þess að ég gæti sagt ykkur að við höfum farið heim daginn eftir og að allt hafi gengið vel en það var ekki rauninn. Þegar Máni var nokkurra klukkustunda gamall þá fór mér að líða verr. Mér byrjaði að svima og leið eins og ég gæti ekki haldið meðvitund. Atli kallaði á hjálp og eftir stutta skoðun var kallað á allar lausar hendur og það var brunað með mig í bráðaaðgerð. Elsku Atli var skilinn eftir með Mána í fanginu, hann vissi ekkert hvað hafði gerst og vissi ekkert hvenær ég myndi koma til baka. Ég man sem betur fer lítið eftir þessu en man vissulega eftir því að vera keyrð upp á skurðstofu. Fyrst var haldið að hluti af fylgjunni hafi verið eftir í leginu en við nánari skoðanir var það ekki staðan. Legið dróg sig einfaldlega ekki nóg saman sem varð til þess að það blæddi inn á það og ég missti því 1,5 lítra af blóði. Ég vaknaði stuttu síðar á vökudeild og vildi að sjálfsögðu komast strax til Mána og Atla. Ég mun aldrei gleyma svipnum á Atla þegar ég var keyrð inn í herbergið okkar, besta tilfinning í heimi að komast aftur til strákanna minna. Við tók mikil hvíld og reglulegar skoðanir. Máni stóð sig eins og hetja og tók brjóstð strax. Við fengum að fara heim tveimur dögum síðar og síðan þá hefur lífið okkar umturnast til hins betra. Máni er ljósið í lífinu okkar og hefur gert okkur að fjölskyldu. Elsku besti, fallegi strákurinn okkar.

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið dásamlegir og ég elska að sjá Mána vaxa og dafna. Ég get einfaldlega ekki beðið eftir framtíðinni með honum. Ég vona að þið hafið gaman af persónulegum færslum eins og þessum, ég allavega elska að lesa fæðingarsögur hjá öðrum konum. Þetta er líklega mín persónulegasta færsla til þessa og ég hlakka til að lesa hana aftur og aftur og rifja upp þegar Máni kom í heiminn. ❤️

Knús,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann