fbpx

HEIMSÓKN : RÓM, MATUR, TÍSKA

FERÐALÖGItalyLífiðMatur

Í seinustu færslu sagði ég ykkur frá því að systir mín væri í heimsókn. Við áttum yndislega daga saman og ferðuðumst m.a. til Rómar, borðuðum helling af góðum mat og héldum uppá afmælið hennar.
Við fórum á nokkra vel valdna veitingastaði hér í Milano, m.a. Penelope a Casa, Canteen og einn allra besti pizzastaður sem ég hef farið á, Napiz. Sá staður opnaði hliðiná mér fyrir rúmu ári síðan en ég hef einhvernveginn aldrei pælt mikið í honum. Síðan hann opnaði hefur meira og minna verið röð út og staðurinn hefur verið fullbókaður kvöld eftir kvöld. Ég þurfti því að prufa og , ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Þunnbotna pizzur eru einfaldlega það besta í heimi! Sammála?
Einn af þeim mörgu kostum við að búa á Ítalíu er hversu auðvelt og ódýrt það er að ferðast á milli borga og jafnvel landa. Ferðin frá Milano til Rómar tók okkur rúmar 3 klukkustundir með lest, þvílíkt þæginlegt – Emma kom að sjálfsögðu með í ferðalagið og fékk 10 í einkunn fyrir hegðun, hún svaf allan tímann þessi elska. Við gistum á Hotel Nazionale sem er staðsett á besta stað, alveg í miðborginni og í göngufæri á alla helstu túristastaðina. Ég hef farið til Rómar áður og hef séð flest öll kennileiti en systir mín vildi að sjálfsögðu sjá helstu staðina. Við röltum að Colleseoum, fengum okkur ís að kvöldi til við Fontana di Trevi og borðuðum helling af pizzu og pasta. Við gistum aðeins í tvær nætur en mér fannst það alveg nóg. Róm er umfangsmeiri en Milano og verður maður því auðveldlega þreyttur á allri göngunni og auðvelt að týnast í mannhafinu.


Þegar við komum til baka frá Róm þá átti Júlía bara tvo daga eftir hjá okkur Emmu. Við plönuðum dagana vel og nutum þeirra í botn. Júlía á afmæli 15. febrúar og ákvað ég því að halda smá uppá það hérna í Milano, ég laumaðist að þjóni á Canteen og sagði að það væri afmælisstelpa með í för – hann að sjálfsögðu kippti í nokkra spotta og Júlía fékk því köku, stjörnuljós og meððí! Mér finnst fátt skemmtilegra en að fara út að borða í tilefni afmælis, sérstaklega hérna úti – það er alltaf gert mikið í því og allir syngja og klappa fyrir afmælisbarninu. Julia, buon compleanno in anticipo!!Ég fékk spurningar varðandi bolinn og hárspöngina og deili því hér.
Bolur : & Other Stories
Spöng: H&M

Ég vona að þið hafið gaman af þessu myndaflóði mínu!

Þangað til næst,
Anna Bermgann
IG:@annasbergmann

KALDUR DAGUR Í STÓRBORGINNI // OUTFIT

LífiðMilanOUTFITTÍSKA

Það var ekki skortur á sólskini í stórborginni í dag þrátt fyrir mikinn kulda. Ég hef verið að upplifa óþæginlega óvissu á morgnana þegar ég er að gera mig til fyrir daginn. Það er erfitt að segja til um hvernig ég á að klæða mig hverju sinni og hversu mikið eða jú lítið. Það er kalt en samt sól, svo að það er alveg ágætlega heitt en bara þegar sólin skín .. æ þið fattið, smá lúxus vandamál ;)
Allavega þá er systir mín er komin í heimsókn til okkar Emmu og verður til mánudags. Við ætlum að kíkja til Rómar á morgun og vera í tvær nætur, þar ætlum við að njóta í botn. Seinustu dagar hafa verið vægast sagt æðislegir en mér finnst alltaf svo gott að fá íslenskar heimsóknir, það hjálpar við heimþránna.
Ég ætla að deila með ykkur því sem ég klæddist í dag en ég byrjaði daginn í skólanum og hitti svo Júlíu systur niðrí bæ. Við fórum á Il Salumaio di Montenapoleone í hádegismat en hann er einn af mínum allra uppáhalds stöðum hér í Milano. Svo tók við bæjarrölt og að sjálfsögðu kíktum við í garðinn okkar en þar elskar Emma mín að vera.

Ég er loksins komin með minn eigin einkaljósmyndara sem nennir að taka myndir af mér .. Takk Júlía mín x
Í því tilefni ætla ég að deila með ykkur myndum af mér frá því í dag, þar sjáiði hverju ég klæddist.Army jakki : Spúútnik
Loðvesti : Zara
Gallabuxur : Weekday 
Stígvél : Louis Vuitton
Sólgleraugu : Tom Ford
Leðurhanskar : Hugo Boss

Ég er alveg afskaplega hrifin af þessu loðvesti, það er extra djúsí útaf kraganum sem nær alveg upp að eyrum ef ég vil.
Í þessum skrifuðu orðum er ég að fara að gera mig tilbúnna fyrir næstu máltíð en við systurnar ætlum að gera okkur fínar og fara á annan af mínum uppáhalds stöðum, Penelope a Casa. Þið sem lásuð afmælisfærsluna mína munið kannski eftir honum, hann er í miklu eftirlæti og ætla ég að klæðast nýjum buxum sem ég fékk í vikunni. Það er aldrei að vita nema að ég deili með ykkur kvöldinu og því sem ég klæðist hér á Trendnet!

Takk fyrir að lesa og þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

 

 

 

 

 

 

IRINA SHAYK FYRIR MARS ÚTGÁFU VOGUE

Ofurfyrirsætan Irina Shayk prýðir mars útgáfu Vogue. Þar ræðir hún við Edward Enninful um að vera einhleyp móðir, að vera frá Sovétríkjunum og öll þau áföll sem hún hefur gengið í gegnum og sigrast á. Sjálfri finnst mér alltaf gott að lesa svona persónuleg viðtöl við þessar frægu, fallegu konur sem okkur langar öllum að vera. Þær eru mannlegar rétt eins og við og ganga í gegnum áföll, tækla fjölskylduvandamál og hversdagslífið á hverjum degi.Myndir frá Vogue

Myndirnar að ofan eru þær sem búið er að birta frá Vogue. Ég ætla að næla mér í breska Vogue þegar það kemur út en við ættum að búast við því á blaðastöndum í lok janúar.
Irina er mikill Íslandsvinur en hún heimsótti landið okkar eftir skilnaðinn við Bradley Cooper. Hún var mjög hrifin af landinu okkar og var m.a. í tökum hér fyrir ítalska merkið Falconeri sem var skotið við Jökulsárlón. Hluta af myndunum frá Falconeri má sjá hér fyrir neðan.Myndir frá Falconeri

Ég veit ekki með ykkur en ég er spennt að næla mér í nýjasta Vogue og lesa um hversdagslífið hennar Irina. Það er svo gott að sjá þetta fræga fólk sem mannlega einstaklinga sem við getum litið upp til.

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

VEGAN LASAGNE

UPPSKRIFTIR

Eitt að því sem ég ‘saknaði’ hvað mest eftir að ég hætti að borða kjöt var gúrme lasagne og það er í rauninni alls ekki langt síðan að ég fattaði að það einfaldlega þarf ekki kjöt og ost til þess að það sé gott. Mig langar því að deila með ykkur lasagne uppskrift sem ég hef gert mörgum sinnum eftir að ég flutti til Milano en henni breyti ég léttilega eftir því hvað ég á til í ísskápnum hverju sinnu.
Það sem er svo þægilegt við lasagne gerð er að það er hægt að nota nánast hvaða grænmeti sem er og er því fullkomið að nýta grænmeti sem er að syngja sitt seinasta. Til þess að gera lasagne-að extra matarmikið þá mæli ég með að nota baunir eða sætar kartöflur, eða bæði! Í þetta skipti notaði ég linsubaunir og helling af góðu grænmeti og kryddum.
Uppskriftina finnur þú hér fyrir neðan,

Hráefni
1x stór flaska af passata (einnig hægt að nota 2-3 stóra tómata)
2x laukur
5x hvítlauksrif
5x stórar gulrætur
1x dós linsubaunir
1x lúka steinselja
1x zucchini
9x lasagneplötur
1x ferna vegan bechamel (einnig hægt að gera sína eigin: uppskrift)
1x poki vegan mozzarella (ég notaði vegan parmessan)
auka krydd: salt og pipar, chili flögur, cayenne pipar, origano.

Aðferð
1. Laukur og hvítlaukur skorinn smátt og bætt á pönnu með góðri olíu. Á meðan laukurinn er að steikjast þá leggjum við lasagne plöturnar í bleyti. Muna að leggja þær lárétt og lóðrétt til skiptis svo að þær festist ekki saman.
2. Gulrætur skornar smátt og bætt á pönnuna.
3. Næst er baununum bætt við.
4. Bætum við tómötunum sem er í þetta skipti passata á pönnuna ásamt steinseljunni og leyfum þessu að malla saman í amk 10 mínútur við lágan hita. Bætum við auka kryddum (salt og pipar, chili flögum, cayenne og origano – magn eftir smekk)
5. Núna er komið að því að raða í lasagne hæðarnar. Grunnlagið er alltaf tómat-grænmetisblandan sem við erum búin að búa til, síðan raðaði ég zucchini og lagði þrjár lasagne plötur yfir. Svo sletti ég smá af bechamel sósunni og mozarella á plöturnar og byrjaði svo aftur á skrefi eitt. Ég náði að gera þrjár hæðir koll af kolli, tómatblanda – zucchini – lasagne plötur – bechamel – mozarella. Passið að enda alltaf á tómatblöndu og mozarella, annars er hætta á að plöturnar brenni.
(Ég átti ekki til vegan mozarella svo að ég notaði vegan parmessan sem smakkaðist alveg jafn vel en með mozarella verður rétturinn meira djúsí.)
6. Rétturinn fer svo inní ofn við 180°C í 35-40 mínútur.

Bechamel sósan og parmesan osturinn sem ég notaði, bæði vegan!
Leyfum grænmetinu að malla vel og lengi
Fyrsta lagið er alltaf grænmetisblandanFullkominn réttur með heimagerðu hvítlauksbrauði og góðu salati.

Namm namm namm !! Ég mæli tvímælalaust með þessum einfalda lasagne rétti.

Buon appetito,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

TOPP 6 MASKAR

ANNA MÆLIR MEÐHÚÐUMHIRÐASAMSTARF

Húðin er okkar stærsta líffæri og ber okkur skylda til þess að hugsa vel um hana. Ég tek mér góðan tíma bæði á morgnana og kvöldin og þríf húðina mína vel og undirbý hana fyrir daginn / nóttina. Mikilvægt skref í húðumhirðu eru góðir andlitsmaskar og lifum við svo lukkulega að í dag eru í boði óteljandi maskar frá mismunandi merkjum. Ef ég væri að fara að kaupa minn fyrsta maska í dag þá yrði ég alveg ringluð og myndi líklegast ekki hafa hugmynd um hvaða maska ég ætti að velja fyrir mína húð. Því hef ég ákveðið að deila hér með ykkur mínum 6 uppáhalds möskum. Ég hef verið að nota þá alla í dágóðan tíma og er mjög ánægð með þá alla.


British Rose Fresh Plumping Mask frá The Body Shop.
Þennan hef ég hef haldið uppá í mörg ár.
Hann frískar uppá andlitið og skilur húðina eftir vel nærða, ljómandi og ferska.
Maskinn er vegan og inniheldur rósablöð, rósakjarna, rósaberjaolíu og lífrænt aloe vera.
Fæst í : The Body Shop


Yfirnáttúrulegur djúphreinsi maski frá Ástralska merkinu Eco by Sonya.
Hann inniheldur lífrænt grænmeti þ.e. sellerí, spínat, spirulínu og chiafræ ásamt grænum leir og er því stútfullur af vítamínum og andoxunarefnum sem stuðlar að heilbrigðari húð. Ég sá þvílíkan mun á húðinni minni eftir að hafa prófað þennan maska í fyrsta skipti. Það er mikil virkni í honum svo ekki láta ykkur bregða ef húðin verður smá rjóð og viðkvæm eftir fyrstu skiptin. Þetta er einn besti hreinsimaski sem ég hef prófað, hann djúphreinsar og nærir húðina á sama tíma.
Fæst í : Maí 


Burt’s Bees, Intense Hydration.
Frábær rakamaski sem ég nota oft á næturnar.
Þessi maski er fullkominn yfir vetrartímann þegar húðin er þurr og vantar aukinn raka.
Fæst í: Hagkaup


Ginzing peel off maski frá Origins.
Þessi peel off maski er stútfullur af koffíni frá kaffibaunum og ginseng rót.
Hann tekur burt dauða húð og óhreinindi og skilur húðina eftir hreina og geislandi.
Fæst í : Hagkaup


Sýrumaski frá The Ordinary.
Þessi maski er  hannaður til þess að láta húðina endurnýja sig, jafnar áferð hennar og skilur hana eftir geislandi og fallega.
Eins og í maskanum frá Eco By Sonya þá er einnig mikil virkni í þessum maska svo ekki láta ykkur bregða ef þið verðið smá rauð – það er bara sýran að vinna sína vinnu! Þar sem að þessi maski er gerður úr sýrum þá er mjög mikilvægt að muna að nota sólarvörn daginn eftir að varan er notuð, hvort sem að um sólríkan dag sé að ræða eða ekki.
Fæst í : Maí


Seinast en ekki síst, Clear Improvement frá Origins.
Hann inniheldur kol og hunang sem stuðlar að hreinni og næringaríkri húð.
Þessi maski er í rauninni eins og ‘detox’ fyrir húðina,
hann djúphreinsir hana og kemur í leiðinni í veg fyrir dýpri myndun svitahola.
Fæst í : Hagkaup

Gleðilega húðumhirðu!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

SÍÐUSTU DAGAR Í MÁLI OG MYNDUM

LífiðMILANO

Ég er loksins komin til Milano og komin með litlu Emmu mína í fangið. Við vorum búnar að vera aðskildar í rúman mánuð sem er mjög langur tími fyrir okkur ‘mæðgur’. Það er gott að vera komin í hálfgerða rútínu aftur og hlakka ég til að takast á við hversdagslífið hér í stórborginni. Ég á bara nokkra mánuði eftir í Milano og ætla ég því að njóta lífsins hér á meðan ég get. Þessi tími kemur ekki aftur og eru það mikil forréttindi að fá að búa erlendis, kynnast nýrri menningu og  stunda nám. Svo tekur einhvað allt annað við þegar ég flyt heim – meira um það síðar, það er ennþá smá óljóst ;)
Ég hef verið að gera fátt spennandi síðustu daga fyrir utan að koma mér fyrir í íbúðinni minni og reyna að halda henni heitri, Ítalinn fær ekki hæstu einkunn fyrir að hita upp húsin sín ..
Milano Fashion Week Mens F/W 2020 er að tröllríða borginni og hef ég verið að spotta þekktar karlkyns fyrirsætur á götum borgarinnar. Ég elska að sjá hvað borgin umturnast og er ég vægast sagt spennt fyrir tískuvikunni í næsta mánuði. Vonandi fer ég á einhverja skemmtilega viðburði og get deilt þeim með ykkur.

Hér koma myndir frá síðustu dögum –

Ég fékk mér þessa fallegu túlípana hjá blómamanninum á horninu ;)

Það er kalt í Milano þessa stundina og er því mikilvægt að layera.
Stuttermabolur : Victoria Beckham
Síðermabolur : Monki

Ég kynntist reformer pilates í fyrra og er gjörsamlega húkt !
Ég ætla að koma því í æfingarútínuna mína að fara í pilates 2x í viku,
árangurinn er vægast sagt ótrúlegur eftir nokkrar vikur. Vöðvarnir lengjast og styrkjast. 

Sólargeislinn minn hún Emma, hún á hug minn og hjarta. 

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

NÝTT ÁR, NÝR KAFLI

LífiðSJÁLFSVINNA
Ljósmynd : Hlín Arngrímsdóttir

Árið 2019 var ansi viðburðaríkt, ég kynntist fólki sem er mér afar mikilvægt, efldi sambönd mín við vini og fjölskyldu en sérstaklega samband mitt við sjálfa mig. Það er ekki hægt að undirstrika það of oft hversu mikilvægt það er að vinna stöðugt í sjálfum sér, hafið það hugfast að sjálfsvinna er það besta sem við gætum eytt tímanum okkar í. Því þegar við erum í jafnvægi og okkur líður vel þá breiðum við góðri orku út frá okkur og höfum jákvæð áhrif á fólkið í kringum okkur. Á þennan máta eflast sambönd og fólk dregst að okkur. Við drögumst öll að góðri og fallegri orku.

Núna er komið nýtt ár og því fylgir ný markmið og áramótaheit. Mig langar að fara aðeins yfir mín markmið fyrir 2020 og vonandi geta einhverjir tekið upp þau sömu eða sambærileg markmið. Mér hefur alltaf þótt það gott að skrifa niður markmið og það sem ég er að manifesta hverju sinni. Um leið og orðin eru komin niður á blað, í tölvuna eða jafnvel í símanum þá hef ég komið orðunum og því sem ég óska mér, það sem ég þrái og allar mínar langanir út í kosmósið. Þá er komið að umheiminum að hjálpa mér að láta óskir mínar rætast. Því það sem ég þrái mest dreg ég til mín en að sjálfsögðu tekur það líka vinnu og áminningar.

Hér eru mín markmið fyrir 2020 –

1. Morgunrútína
Ég ætla að gera mér góða morgunrútínu sem mun samanstanda af hugleiðslu, stóru vatnsglasi, þrífa húðina vel og hlusta á tónlist sem lætur mér líða vel. Hvernig við byrjum daginn okkar segir svolítið til um hvernig restin af deginum verður, því finnst mér það mikilvægt að byrja daginn vel og þá sérstaklega með sjálfsvinnu, ró og næði.

2. Manifest
“We can’t create what we want if we don’t know what we want.”
Ég ætla að halda áfram að manifesta það sem ég þrái mest í þessum heimi, hvort sem að það sé starf eða hamingja, í rauninni bara hvað sem er.

3. Sjálfsvinna
Ég ætla að halda áfram að gefa mér tíma í sjálfsvinnu því hún hættir aldrei. Sjálfsvinnan mín mun innihalda það að æfa þakklæti, hugleiðsla, einbeita mér að öndunaræfingum, hollt og gott mataræði, dagleg hreyfing að einhverju tagi ásamt því að gera mér markmið hverju sinni rétt eins og ég er að gera í þessari færslu. Ég vil halda mér í góðu jafnvægi og stöðug sjálfsvinna mun koma mér á þann stað.

4. Gefa frá mér góða orku og hjálpa öðrum
Mér finnst þetta mjög mikilvægt markmið. Ég hef tamið mér að reyna eins og ég get að vera jákvæð, brosmild og með góða nærveru en auðvitað upplifi ég daga sem að það er ekki hægt. Ég vil halda áfram að hjálpa þeim sem hafa lent í áföllum eins og ég, þeim sem hafa upplifað andleg veikindi eins og ég og þeim sem vilja vinna í sjálfum sér rétt eins og ég geri á hverjum degi.

5. Hollt mataræði
Ég ætla mér að byrja að borða betri mat þ.e. hollan, góðan og hreinan. Ég er ekki vegan en ég borða ekki kjöt né mjólkurvörur og langar að vinna ennþá betur í því, t.d. með því að velja mér nokkra daga í viku þar sem að ég borða einungis vegan máltíðir.

6. Ég ætla að taka mig á þegar kemur að því að vera tímanlega
Ég hef alltaf haft lélegt tímaskyn og hef því miður tamið mér það að vera oft aðeins sein. Mér finnst þetta rosalega leiðinlegur vani og langar að þroskast uppúr honum.

7. Ég ætla að hlaupa hálf maraþon í Ágúst
Ég hljóp 10km í Ágúst í Reykjavíkur Maraþoninu. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel og hef því ákveðið að slá til og byrja að undirbúa mig fyrir 21,5 km. Ég hef lítið hlaupið síðan í sumar og þarf ég því að æfa upp þolið og að koma mér í ágætis hlaupaform.

Þetta eru þau markmið sem ég hef sett mér fyrir árið og ætla ég að vinna í þeim á hverjum einasta degi.
Ég vona að ég hafi hjálpað einhverjum sem er í markmiðasetningu eða vantar einfaldlega smá innblástur fyrir árið.

Gleðilega sjálfsvinnu !
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

ÁRAMÓT

ÍSLANDLífiðOUTFIT

Gleðilegt nýtt ár kæru Trendnet lesendur. Ég átti heldur óhefðbundin áramót í ár. Við fjölskyldan höfum seinastliðin ár verið annaðhvort erlendis eða verið bara við fjögur heima en í ár ákváðum við að breyta smá til. Við slógum til með tveimur öðrum fjölskyldum úr Garðabænum og héldum áramótin saman. Allir komu með eitthvað á boðstólinn og kom ég að sjálfsögðu með vegan wellington, sveppasósuna mína og pikklað rauðkál. Það sló í gegn ;) Uppskriftirnar finnið þið hér.
Mér hefur alltaf fundist áramótin vera ofmetin og í gegnum árin hef ég fundið annan tilgang með þeim frekar en partýstand. Mér finnst yndislegt að taka þessum tímamótum rólega með þeim sem ég elska mest, borða góðan mat, rifja upp gamla tíma og hlæja mikið ásamt því að njóta flugeldana sem ég er að vísu mjög hrædd við.

Ég tók nokkrar myndir um kvöldið en gleymdi myndavélinni, þið verðið því að afsaka símagæðin ..Ég klæddist:
Satin buxur : Munthe
Glimmer bolur : Monki
Skór : Zara
Kápa : Vintage

Ég vona að þið hafið öll átt yndisleg áramót í faðmi ykkar nánustu. Ég sendi góða strauma út í kosmósið og hef það á tilfinningunni að 2020 verði frábært ár. Ég er allavega mjög spennt fyrir komandi tímum og þeim breytingum sem verða í mínu lífi, en meira um það seinna! Ég á aðeins nokkra daga eftir í fríi hér á klakanum en fer svo í næstu viku aftur til Milano og sæki Emmu litlu loksins á hundaleikskólann, þar er hún búin að vera í rúmar fjórar vikur og söknuðurinn er vægast sagt orðinn mikill. Ég hlakka til að komast í góða skólarútínu og massa seinasta árið mitt, það er nefnilega útskrift í Júní og verða næstu mánuðir því frekar strempnir en mér þykir það bara krefjandi og skemmtilegt.

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

VEGAN JÓLAMATUR FRÁ GRUNNI

ANNA MÆLIR MEÐMaturUPPSKRIFTIR

Gleðilega hátíð Trendnet lesendur, ég vona að þið séuð búin að hafa það yndislegt með ykkar nánustu!
Ég er búin að eiga æðislega daga heima í Garðabænum, ég hef loksins náð að slaka á og borgað til baka þann svefn sem ég skuldaði ;) Ég elska fátt jafn mikið og að dunda mér í eldhúsinu og nýtti mér það svo sannarlega um jólin. Við erum tvær í fjölskyldunni sem borðum ekki kjöt og tók ég það því að mér að matreiða grænmetisrétti á aðfangadagskvöld. Réttirnir voru bæði kjöt- og mjólkurlausir og útkoman var vægast sagt frábær. Ég ætla að útbúa sömu rétti á áramótunum, þeir slógu það mikið í gegn!

Ég gerði vegan wellington steik, pikklað rauðkál ásamt sveppasósu úr kasjúrjóma – þvílíkt lostæti sem ég má til með að deila með ykkur.

Vegan wellington steik
Hráefni

 • Vegan smjördeig (ég notaði 4 plötur)
 • 2 msk kínóa + 5 msk vatn
 • ½ laukur
 • 3 gulrætur
 • 200 gr blómkál
 • 3 sellerí stilkar
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 1 tsk timían
 • 1 tsk salvía
 • 1 grein af rósmarín
 • 250 gr sveppir
 • 1.5 msk tamari sósa
 • 1 dós af kjúklingabaunum
 • ¾ bolli af valhnetukjörnum
 • ½ bolli af panko brauðmylsna (meira ef þarf)
 • 2 msk tómatpaste
 • 1.5 msk vegan worchestershire sósa
 • Salt
 • Pipar
 • 1 msk vegan smjör

Aðferð

 1. Forhita ofn við 200°C
 2. Hellið kínóa í skál og bætið vatninu við, leyfið því að standa í 15-20 mínútur þar til að kínóað hefur dregið í sig allt vatnið.
 3. Hitið olíu á pönnu og bætið við niðurskornum lauk, sellerí, gulrótum og blómkáli. Steikið í u.þ.b 6-8 mínútur eða þar til allt grænmetið er orðið mjúkt.
 4. Bætið við hvítlauk, timían, salvíu og rósmarín.
 5. Skerið sveppina smátt og bætið síðan við á pönnuna. Leyfið því að steikjast saman í 5-7 mínútur.
 6. Bætið við tamari sósunni og steikið í 1-2 mínútur. Slökkvið svo undir pönnunni og leyfið blöndunni að kólna í góðar 10 mínútur.
 7. Hellið kjúklingabaununum í skál og maukið með kartöflumaukara. Ég átti ekki maukara og notaði því kaffipressu sem virkaði fínt. Passið ykkur að yfir-mauka ekki, við viljum skilja eftir mikla áferð á kjúklingabaununum en ekki enda með hummus.
 8. Bætið öllu við baunirnar þ.e. blöndunni sem var verið að steikja, brauðmylsnu, valhnetukjörnum (skornum niður í smátt), kínóa, worchestershire sósu, tómat paste ásamt salt og pipar. Blandið vel saman, best er að gera það með höndunum eða góðri sleif. Við viljum ekki hafa blönduna of blauta, bætið við meiri brauðmylsnu ef þess þarf.
 9. Núna er kominn tími á að móta ‘steikina’. Mótið með höndunum í breiða lengju.
 10. Mótið smjördeigið þannig að steikin passi í miðjuna og hægt sé að breiða deigið vel yfir steikina. (sjá mynd)
 11. Penslið með bráðnuðu smjöri svo hægt sé að loka deiginu vel.
 12. Snúið steikinni við og penslið hliðarnar og ofaná steikinni með smjörinu.
 13. Ég notaði eina smjördeigsplötu í ‘skraut’ og skar það í þunnar lengjur og skreytti í X. (Sjá mynd) Muna að pensla með smjöri.
 14. Bakið í 30-30 mínútur eða þar til að deigið er orðið fallega ljósbrúnt. Leyfið steikinni að standa í 10 mínútur áður en byrjað er að skera í hana.

Ég notaði aðferðina hér að ofan til þess að loka steikinni með smjördeiginu.  

Sveppasósa úr kasjúrjóma
Hráefni

 • 2 msk vegan smjör
 • 1 msk olía
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 tsk timían
 • 300 gr niðurskornir sveppir
 • 200 ml grænmetiskraftur í vökvaformi
 • 2 fernur af kasjúrjóma
 • Salt & pipar

Aðferð

 1. Bætið smjörinu og olíunni á pönnu og leyfið því að hitna.
 2. Bætið við hvítlauk og timían.
 3. Bætið við sveppunum og leyfið blöndunni að steikjast vel eða þar til að sveppirnir eru orðnir mjúkir og dökkir.
 4. Bætið við grænmetiskraftinum og kasjúrjómanum. Blandið vel saman og lækkið hitann.
 5. Bætið við salt og pipar.
 6. Leyfið sósunni að malla í góðar 10-15 mínútur eða þar til að hún er orðin ljósbrún og þykk.

Pikklað rauðkál

Hráefni

 • Hálft rauðkálshöfuð, niðurskorið í litlar ræmur
 • 1 bolli epla edik
 • 1 bolli vatn
 • 2 tsk sjávarsalt
 • 1 msk sykur (má nota hvernig sem er)
 • lime sneiðar
 • pipar og kúminfræ

Aðferð

 1. Hellið ediki, vatni, sjávarsalti, sykur, pipar og kúminfræum í pott. Látið sjóða í 2 mínútur.
 2. Bætið rauðkáli við og sjóðið í aðrar 2 mínútur. Blandið öllu vel saman.
 3. Slökkvið á hitanum og leyfið rauðkálinu að kólna.
 4. Hellið í krukkur sem er nógu stór fyrir rauðkálið og passið að ediksblandan nær yfir allt kálið. Bætið við lime sneiðum.
 5. Leyfið rauðkálinu að kólna við herbergishita áður en krukkunum er lokað.
 6. Best er að leyfa rauðkálinu að pikklast í nokkra daga jafnvel viku. En nokkrir klukkutímar eru líka nóg.

Njótið !Endilega látið mig vita ef þið prufið þessar uppskriftir, ég mæli allavega tvímælalaust með þeim!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

HEIÐARLEGT ÁLIT Á GEOSILICA & GJAFALEIKUR

ANNA MÆLIR MEÐHEILSASAMSTARF
Þessi færsla er unnin í samstarfi við GeoSilica

Þið munið kannski eftir færslunni minni fyrir rúmum 6 vikum síðan um GeoSilica og þeirra vörum, en ég fékk að gjöf frá þeim þrjár flöskur af REFOCUS til þess að prófa. Ég ákvað að taka mér góðan tíma í að prófa mig áfram með vörurnar og sjá hvort að ég myndi finna fyrir einhverjum breytingum. Ég hef alltaf tamið mér að vera heiðarleg þegar ég segi frá vörum og myndi ég aldrei mæla með vörum sem mig líkar ekki við. En að GeoSilica og minni skoðun á REFOCUS .. ég mæli með og í rauninni finnst mér að þessar vörur ættu að vera til á öllum heimilum.

Ég sá nánast strax breytingu á húð og hári. Hárið byrjaði að vaxa hratt og er orðið heilbrigt og glansandi eftir að hafa verið nánast ónýtt eftir pakkalitun. Mér hefur þótt það vera mjög ‘dull’ í langan tíma og hef ég ekki breytt um hárvörur svo að það er greinilega kísilsteinefnið sem er að gefa hárinu þennan fallega glans. Svo hefur húðin mín hefur haldist nánast vandamálalaus, bæði með góðri húðrútínu og REFOCUS.

“REFOCUS er náttúrulegt kísilsteinefni með viðbættu járni og D vítamíni. Það stuðlar að eðlilegri heilastarfsemi, vinnur gegn langvarandi þreytu og gefur aukna orku ásamt því að stuðla að heilbrigðu ónæmiskerfi.”

Þessir punktar heilluðu mig og var ég því mjög spennt að sjá hvort að varan myndi hafa áhrif á mína síþreytu og gefa mér aukna orku. Það var ekki fyrr en í lok fyrstu flöskunnar að ég byrjaði að finna fyrir árangri. Það getur verið ótrúlega persónubundið hvenær hver og einn byrjar að finna fyrir mun og ég hef því verið í seinnalagi. En þegar ég var við það að klára fyrstu flöskuna þá var ég ómeðvitað hætt að drekka orkudrykki og búin að minnka daglegu kaffibollana úr 3-4 niður í 1-2. Þetta þykir mér ótrúlegt því ég hef verið nánast háð allskyns orkudrykkjum og kaffi, sérstaklega yfir vetrartímann. REFOCUS hentaði mér einnig vel yfir lokaskil í skólanum en ég náði að halda góðri einbeitingu þrátt fyrir bæði athyglisbrest og kvíða.
Útaf þessum staðreyndum þá get ég ekki annað gert en að gefa REFOCUS og GeoSilica mín allra bestu meðmæli. Kísilsteinefnið er orðið að daglegri inntöku hjá mér og mun ég halda áfram að fá mér daglegan sopa. Ég hlakka mikið til að sjá hvort að ég muni finna fyrir enn meiri mun og taka eftir ennþá meiri árangri.

Þar sem að ég er svo ánægð með þessar vörur þá langar mig að gleðja nokkra Instagram fylgjendur mína. Í samstarfi við GeoSilica ætla ég að draga út einn heppinn einstakling (+þann sem er taggaður) og munu viðkomandi fá tvær flöskur að eigin vali frá GeoSilica. Hægt er að taka þátt í leiknum hér.

Reglurnar eru eftirfarandi:
– Fylgdu mér @annasbergmann og @geosilica á Instagram
– Merktu vin í athugasemd undir póstinn á Instagramminu mínu (því fleiri, því hærri eru vinningslíkurnar).

Vörurnar sem hægt er að velja úr:
Refocus: Fyrir huga og orku.
Renew: Fyrir hár, húð og neglur.
Recover: Fyrir vöðva og taugar.
Repair: Fyrir liði og bein.
Pure: 100% náttúrulegt kísilsteinefni.
Allar vörurnar frá GEOSILICA eru 100% náttúrulegar og vegan.

Ég mæli með að taka þátt í leiknum því það er svo sannarlega til mikils að vinna. Hvað er betra en flaska af einbeitingu, orku og góðu steinefni í jólagjöf? ..  frá mér til þín. :)

Þangað til næst,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann