fbpx

FÆÐINGARSAGAN OKKAR

MÁNIPERSÓNULEGT

Ég er búin að mana mig upp í að skrifa þessa færslu í dágóðan tíma núna en Máni er orðinn 4,5 mánaða svo ég held að það sé alveg orðið tímabært að ná þessari upplifun okkar niður á ‘blað’ – í þessu tilfelli í rafrænu dagbókina mína. Meðgangan mín var bæði upp og niður, ég varð rosalega veik á fyrsta þriðjung og fór í veikindaleyfi í vinnunni í nokkra daga. Við tók annar þriðjungur sem byrjaði vel en endaði svo með innlögn á kvennadeildina þar sem að ég fékk sýkingu í nýrun. Ég vonaðist til að þriðji og síðasti þriðjungurinn myndi vera þægilegur en svo var ekki. Ég sem betur fer byrjaði snemma í fæðingarorlofi en ég hætti að vinna þegar ég var komin 36 vikur á leið. Ég fékk rosalegan bjúg rétt fyrir jól, aðallega á fæturnar og komst ekki í neina skó nema risastóra inniskó – mér til mikillar gleði. Ég byrjaði í auknu eftirliti hjá mæðravernd og fór í skoðun tvisvar í viku. Ég var hræddust um að ég myndi fá meðgöngueitrun og var því glöð að fá aukið eftirlit. Eftir áramót byrjaði mér að líða verr, ég varð rosalega þreytt, með stöðugan höfuðverk og bjúgurinn skelfilegur. Þá var ég send upp á spítala í skoðanir og var þá greind með háþrýsting sem útskýrði höfuðverkinn. Háþrýstingurinn varð til þess að það var send inn beiðni um gangsetningu, þá var ég gengin 39 vikur. Nokkrum dögum síðar var ég greind með meðgöngueitrun, Máni var skoðaður bak og fyrir í sónar og það var ljóst að eitrunin hafði sem betur fer engin áhrif á hann. Á þessum tímapunkti var ég gengin 39 vikur og 3 daga og beið eftir að fá símtal um gangsetningu en vegna covid var mikið álag upp á kvennadeild og var því smá bið.

Laugardaginn 22. janúar þegar ég var komin 39 vikur og 5 daga fór ég í skoðun upp á kvennadeild. Sú skoðun endaði með því að ég fékk leyfi til þess að bruna heim, pakka í töskur, knúsa Atla og bruna svo aftur upp á deild. Ég átti að fara í gangsetningu sama dag. Ég var sem betur fer löngu búin að pakka í töskur og undirbúa allt. Ég kom heim, tók allt saman, knúsaði Emmu mína og við Atli fengum okkur kók í gleri. Ég mun líklega aldrei gleyma þessu mómenti, við tvö drekkandi kók með tár í augunum, vitandi það að næst þegar við kæmum heim þá væri engillinn okkar með. Þegar við Atli fórum út í bíl byrjaði lagið ‘Skál fyrir þér’ með Frikka Dór, það toppaði þetta móment og ég mun aldrei gleyma þessu enda brosum við alltaf hringinn þegar við heyrum lagið.

Ég var komin upp á deild um kl 16 þann 22. janúar og fór í allskonar skoðanir. Þá var tekin sú ákvörðun að ég myndi byrja á því að taka gangsetningartöflur, ein á 2ja klukkustunda fresti. Atli fékk að koma í heimsókn til mín um kvöldið en á þessum tíma máttu makar ekki vera með fyrr en að virk fæðing væri farin af stað. Ég fékk smá verki útaf töflunum en annars var lítið að frétta svo ég reyndi að nýta tímann til þess að slaka á og hvíla mig fyrir komandi átök. Morguninn eftir hélt ballið áfram, ég tók töflurnar og horfði á Desperate Housewives þess á milli. Ég fór í langa sturtu í hádeginu en þá var ég einungis komin með 1 í útvíkkun, líkaminn minn var sko ekkert að drífa sig. Eftir góða sturtuferð var ég ný sest aftur upp í spítalarúmið þegar ég heyrði háan smell og við það missti ég vatnið. Þetta var eins og í bíómynd, það var ALLT í vatni og ég horfandi á Despó. Hríðarverkirnir byrjuðu nánast strax svo ég fékk leyfi til þess að hringja í Atla og hann brunaði upp á spítala. Við vorum færð í fæðingarherbergi og ég fór beint í glaðloftið, þessi elsku besta gríma var besta vinkona mín á þessum tímapunkti! Þar sem að ég var með svo háan blóðþrýsting þá var mér ráðlagt að fá mænudeyfingu sem allra fyrst svo að blóðþrýstingurinn myndi lækka. Ég samþykkti það að sjálfsögðu og var afar glöð því verkirnir voru orðnir mjög miklir. Blóðþrýstingurinn komst í jafnvægi og ég gat loksins hvílt mig aðeins. Við tók löng bið eftir litla kallinum mínum. 12 klukkustundum eftir að ég missti vatnið var ég komin með 7 í útvíkkun. Við höfðum það samt sem áður mjög huggulegt, hlustuðum á rólega tónlist og vorum með lága lýsingu. Þetta umhverfi varð til þess að mér leið vel, ég var róleg og tilbúin í átökin framundan. Ég fékk mikinn hita og bakverki um nóttina og var því sett á pensilín og hitalækkandi í æð. Ég fékk líka dreip í æð sem átti að auka samdrættina. Um klukkan 5 um morguninn var ég komin með 10 í útvíkkun, þá þurfti ég að skoppa á bolta til þess að koma elsku drengnum mínum neðar. Klukkan 7 voru vaktaskipti og þá byrjaði sko partýið. Hann var kominn neðar og var því kominn tími til að rembast. Tveimur tímum seinna, klukkan 08:58 þann 24. janúar fæddist elsku fallegi Máninn minn. 50 cm og 14 merkur af fegurð og við foreldrarnir vorum við það að springa úr ást. Atli setti lagið okkar, ‘Skál fyrir þér’ með Frikka Dór í gang og við grétum saman með dásamlega drenginn okkar í fanginu. Ég hefði ekki getað þetta án Atla, vá hvað það skiptir miklu máli að hafa gott klapplið með sér í fæðingu. Þrátt fyrir langan og strangan aðdraganda og 2ja klukkustunda rembing þá gekk fæðingin mjög vel. Ég gat farið strax á salernið og leið mjög vel. Við fórum niður á sængurlegu og knúsuðum elsku Mána okkar.

Ég vildi óska þess að ég gæti sagt ykkur að við höfum farið heim daginn eftir og að allt hafi gengið vel en það var ekki rauninn. Þegar Máni var nokkurra klukkustunda gamall þá fór mér að líða verr. Mér byrjaði að svima og leið eins og ég gæti ekki haldið meðvitund. Atli kallaði á hjálp og eftir stutta skoðun var kallað á allar lausar hendur og það var brunað með mig í bráðaaðgerð. Elsku Atli var skilinn eftir með Mána í fanginu, hann vissi ekkert hvað hafði gerst og vissi ekkert hvenær ég myndi koma til baka. Ég man sem betur fer lítið eftir þessu en man vissulega eftir því að vera keyrð upp á skurðstofu. Fyrst var haldið að hluti af fylgjunni hafi verið eftir í leginu en við nánari skoðanir var það ekki staðan. Legið dróg sig einfaldlega ekki nóg saman sem varð til þess að það blæddi inn á það og ég missti því 1,5 lítra af blóði. Ég vaknaði stuttu síðar á vökudeild og vildi að sjálfsögðu komast strax til Mána og Atla. Ég mun aldrei gleyma svipnum á Atla þegar ég var keyrð inn í herbergið okkar, besta tilfinning í heimi að komast aftur til strákanna minna. Við tók mikil hvíld og reglulegar skoðanir. Máni stóð sig eins og hetja og tók brjóstð strax. Við fengum að fara heim tveimur dögum síðar og síðan þá hefur lífið okkar umturnast til hins betra. Máni er ljósið í lífinu okkar og hefur gert okkur að fjölskyldu. Elsku besti, fallegi strákurinn okkar.

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið dásamlegir og ég elska að sjá Mána vaxa og dafna. Ég get einfaldlega ekki beðið eftir framtíðinni með honum. Ég vona að þið hafið gaman af persónulegum færslum eins og þessum, ég allavega elska að lesa fæðingarsögur hjá öðrum konum. Þetta er líklega mín persónulegasta færsla til þessa og ég hlakka til að lesa hana aftur og aftur og rifja upp þegar Máni kom í heiminn. ❤️

Knús,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

 

SÓLGLERAUGU FRÁ LE SPECS

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Arna Petra

    12. June 2022

    🫶🏻🥹💗 falleg færsla!