fbpx

Hildur Rut

TACO Í SALATBLÖÐUM MEÐ QUINOA OG RISARÆKJUM

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Taco í salatblöðum er einfaldur, hollur og góður réttur sem ég gerði í samstarfi við Danól. Í þessum rétti nota ég salatblöð í staðinn fyrir tortillur og fylli þær með spicy mexican quinoa, avókadó, kokteiltómötum, risarækjum, chili mayo, fetaosti og granateplum. Ég hef verið að prófa nýja vöru frá Danól sem heitir Express quinoa frá vörumerkinu Quinola Mothergrain og vá hvað það er gott! Þetta er eldað quinoa sem er tilbúið til neyslu, lífrænt ræktað, glúten frítt, vegan og ofboðslega gott. Þetta er fáanlegt í fjórum mismunandi bragðtegundum og fæst í Nettó, Hagkaup, Fjarðarkaupum og Samkaupum. Einnig er gott að bera það fram sem meðlæti með fiski, kjúkling o.sfrv. Ég mæli hiklaust með þessu! 

Taco fyrir einn
Ég mæli með þremur taco á mann
9 risarækjur, óeldaðar
1 hvítlauksrif, pressað
Chili explosion
Salt og pipar
Ólífuolía
3 kálblöð, best að nota romaine salat
Express quinoa með spicy mexican
1 lítið avókadó
6 litlir tómatar
Safi úr ¼ lime
Chili mayo eftir smekk
Stappaður fetakubbur eftir smekk
Granatepli eftir smekk

Aðferð

 1. Blandið saman risarækjum, ólífuolíu, hvítlauksrifi, chili explosion, salti og pipar
 2. Steikið á pönnu upp úr ólífuolíu þar til rækjurnar eru fulleldaðar og bleikar (tekur nokkrar mínútur).
 3. Smátt skerið avókadó og tómata. Kreistið lime safa yfir og blandið saman.
 4. Raðið á kálblöðin quinoa, avókadó- og tómatablöndunni, risarækjunum, chili mayo, stöppuðum fetakubb og granatepli.

Og munið að mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

SUMARFRÍ Á ÍSLANDI

PERSÓNULEGT

Síðustu daga hef ég verið í fríi með fjölskyldunni og á ferðalagi um landið. Veðrið hefur leikið við okkur, maturinn ljúffengur og umhverfið svo fallegt! Fyrsta stopp var Akureyri og við gistum í tvær nætur á hótel KEA. Þaðan fórum svo til Siglufjarðar og gistum eina nótt á Sigló Hótel. Allt svo geggjað!

Við mættum til Akureyrar og fórum beint á RUB23 í sushi. Það var svo gott að ég gleymdi að taka myndir! Við borðuðum einnig á Strikinu  og namm! Ég mæli með humartaco og bláskelinni, sjúklega gott! Við fórum m.a. tvisvar í sund, skoðum fallegu göngugötuna, skáluðum í sólinni við Hof og áttum dásamlegar stundir.

Listigarðurinn stendur alltaf fyrir sínu. Svo fallegur!

Við heimsóttum Kaffi kú. Vöffluborgararnir eru sjúklega góðir! Eddu minni fannst sko ekki leiðinlegt að kíkja í fjósið og heilsa uppá kýrnar og kálfana.

Siglufjörður tók vel á móti okkur með glampandi sól og yndislegu veðri.

Við gistum eina nótt á Sigló Hótel sem er staðsett við höfnina og vá hvað það er geggjað hótel! Herbergið okkar var stórt og fallegt með útsýni yfir Siglufjörð. Get ekki mælt meira með Sigló Hótel! (ekki samstarf)

Yndislegt að sitja í heitum potti og njóta fallegs útsýnis!

Ljúffengar pizzur á Kaffi Rauðku! Kartöflupizzan var sjúk!

Morgunbollin tekinn í herberginu.

Þetta var dásamlegt sumarfrí sem endaði í bústað á Snæfellsnesinu.

Vonandi eruð þið búin að hafa það gott yfir verslunarmannahelgina! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

PÍTA MEÐ HUMRI, BEIKONI OG BASIL SÓSU

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Humar og beikon í brauði með guðdómlegri sósu, þarf eitthvað að segja meira? Í samstarfi við Hatting þá nota ég þetta dásamlega góða pítubrauð frá þeim og það er frábært að eiga það til í frystinum. Þessi píta er ein sú allra besta sem ég hef smakkað ef pítu má kalla! Innblásturinn að uppskriftinni er samloka sem fékkst á Rabbarbarnum en sá staður er því miður hættur og verður sárt saknað.

Fyrir 3-4
Pítubrauð frá Hatting
500 g skelflettur humar, frosinn
2-3 msk fersk steinselja, söxuð
2 lítil hvítlauksrif, pressuð
1 msk ferskur sítrónusafi
1-2 msk Ólífuolía
Salt og pipar
Smjör til steikingar
8-12 sneiðar af beikoni (eftir smekk)
Kokteiltómatar, skornir í sneiðar
Klettasalat  

Basil sósa
2-3 dl fersk basilka
4 msk majónes, ég notaði frá Hellmanns
2 msk sýrður rjómi
1 msk hunang
1-2 msk safi úr ferskri sítrónu
Salt og pipar 

Aðferð

 1. Veltið humrinum uppúr steinselju, hvítlauk, sítrónusafa, ólífuolíu, salti og pipar. 
 2. Bakið beikonið í 8-10 mínútur við 200°C eða þar til beikonið er orðið vel stökkt.
 3. Á meðan beikonið er að bakast þá steikið þið humarinn uppúr smjöri, tekur örfáar mínútur.
 4. Hitið Hatting pítubrauðið í ofninum eða í brauðristinni.
 5. Útbúið basil sósuna. Ég blanda öllu saman með töfrasprota en það er ekkert mál að saxa basilikuna smátt og blanda öllu saman með skeið.
 6. Fyllið pítubrauðið með sósunni, klettasalati, tómötum, beikonsneiðum og humrinum eftir smekk.

Og munið að mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

GRILLUÐ SMÁKAKA MEÐ KARAMELLUSÓSU

EFTIRRÉTTIR & KÖKURSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Hér kemur ein súper einföld uppskrift sem ég gerði í samstarfi við Kötlu. Grilluð smákaka með heitri karamellusósu og borin fram með ís og ferskum berjum. Það er frábær hugmynd að taka tilbúið deig í útileguna eða sumarbústaðinn og smella á grillið. Eina sem þarf er smákökudeig frá Kötlu, álbakki og bökunarpappír. Svo er hægt að prófa sig áfram með meðlæti, rjómi, ís, ber, ávextir o.s.frv. Smákökudeigin frá Kötlu eru öll mjög ljúffeng og eru til í þremur bragðtegundum. Þau fást í Nettó, Hagkaup, Melabúðinni, Fjarðarkaup, Kjörbúðinni, Krambúðinni og Heimkaup.is. Þið getið lesið meira um þau hér.

1 Súkkulaði smákökudeig frá Kötlu
Karamellusósa
Fersk ber
Ís

Aðferð

 1. Hitið grillið og stillið á vægan hita.
 2. Takið smákökudeigið úr pakkningunni. Dreifið smákökudeiginu í eina stóra smáköku á álbakka sem þakinn er bökunarpappír.
 3. Grillið smákökuna í 10-15 mínútur eða þar til hún er tilbúin.
 4. Gott að bera fram með karamellusósu, ferskum berjum og ís eða hverju því sem hugurinn girnist.

EIGIÐ YNDISLEGA VERSLUNARMANNAHELGI & VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

KJÚKLINGA- OG GRÆNMETIS GRILLSPJÓT

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Núna er verslunarmannahelgin á næsta leiti og klárlega tíminn til að grilla. Þessa girnilegu uppskrift gerði ég í samstarfi við Innnes. Kjúklingaspjót í sinneps-og hvítlauks kryddlegi, grænmetisspjót og dásamleg köld sinnepssósa með sætu sinnepi frá Heinz. Sumarlegur og gómsætur réttur sem allir geta gert og passar sérlega vel með köldu hvítvíni. Ég notaði spjót úr stáli sem ég keypti í Kokku um daginn og þau eru afar þægileg en auðvitað er hægt að nota tréspjót (sem fást í matvöruverslunum) en þá þarf að muna að láta þau liggja í bleyti áður en þau eru notuð.

Fyrir 3-4
Kjúklingaspjót
6-7 spjót
6-7 úrbeinuð kjúklingalæri
1-2 msk Heinz sinnep mild
Safi úr ½ sítrónu
3 msk ólífuolía
2 hvíltauksrif, pressuð
2-3 msk steinselja, smátt söxuð
Salt og pipar

Grænmetisspjót
6 spjót
8-10 sveppir
2 ferskir maísstönglar
5 litlar piemento paprikur
1 kúrbítur
1 rauðlaukur
3 msk ólífuolía
Safi úr ½ sítrónu
1 hvítlauksrif, pressað
3 msk steinselja, smátt söxuð
Cayenne pipar
Salt og pipar

Sósa
3 msk Heinz majónes
2 msk sýrður rjómi
Safi úr ¼ sítrónu
2 msk steinselja, smátt söxuð
1 ½ msk Heinz sinnep, sætt

Aðferð

 1. Snyrtið kjúklinginn og blandið saman ólífuolíu, mildu Heinz sinnepi, sítrónusafa, hvítlauksrifi, steinselju, salti og pipar í skál. Bætið kjúklingnum saman við og látið liggja í kryddleginum í klukkustund til nokkrar klukkustundir.
 2. Þræðið kjúklingabitana upp á grillspjót. Ég set einn kjúklingabita á hvert spjót.
 3. Grillið spjótin þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Passið að snúa þeim reglulega á grillinu.
 4. Skerið maísstöngla, piemento paprikur, kúrbít og rauðlauk í bita (þarf ekki að skera sveppina ef þeir eru litlir) í svipað stóra bita.
 5. Blandið saman ólífuolíu, sítrónusafa, hvítlauksrifi, steinselju, cayenne pipar, salti og pipar í skál. Bætið öllu grænmetinu saman við kryddlögin og látið standa í klukkustund.
 6. Þræðið grænmetið upp á grillspjót og grillið á vægum hita. Passið að snúa reglulega á grillinu.
 7. Blandið öllu hráefninu í sósuna saman og berið fram með kjúklingnum og grænmetinu. Einnig er mjög gott að bera þetta fram með kartöflum.

NJÓTIÐ DAGSINS & VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

HEIT OSTAÍDÝFA MEÐ JALAPENO

FORRÉTTIR & LÉTTIR RÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIRVEISLUR

Ég gerði þessa ofur gómsætu ostaídýfu í samstarfi við Innnes en hún inniheldur Philadelphia rjómaost með graslauk, sýrðan rjóma, parmigiano reggiano, jalapeno og cheddar ost! Svakalega góð og passar sérlega vel með köldum drykk og tortillaflögum í sólinni eða sem snarl á kósýkvöldi með uppáhalds þættinum ykkar. Ég mæli með að bæta við jalapeno eftir smekk, fer eftir því hversu sterkt þið viljið hafa þetta. Svo er algjör snilld að setja ídýfuna á grillið í ferðalögum, þá er gott að nota steypujárnspönnu eða annað ílát sem má fara á grill.

200 g Philadelphia rjómaostur með graslauk
1½ dl sýrður rjómi
3 dl rifinn cheddar ostur
½ dl rifinn parmigiano reggiano
1 dl smátt skorinn jalapeno (eða minna ef þið viljið ekki sterkt)

Toppa með:
35 g smör
½ dl rifinn parmigiano reggiano
⅔ dl panko raspur
Steinselja smátt skorin

Tortillaflögur með ostabragði frá Maarud

Aðferð

 1. Blandið saman rjómaosti, sýrðum rjóma, cheddar osti, parmigiano og jalapeno. Dreifið blöndunni í eldfast mót eða steypu járnspönnu.
 2. Bræðið smjör í potti, bætið parmigiano og raspi saman við og hrærið vel saman.
 3. Dreifið raspinum yfir ídýfuna og bakið í ofni við 190°C á blæstri í 20 mínútur eða þar til ídýfan er orðin gyllt og stökk. Það er einnig mjög gott að grilla ídýfuna.
 4. Dreifið steinseljunni yfir í lokin og berið fram með tortillaflögum.

NJÓTIÐ DAGSINS & VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

FYLLTAR SÆTAR KARTÖFLUR MEÐ INDVERSKU ÍVAFI

AÐALRÉTTIRGRÆNMETIS- & VEGANRÉTTIRUPPSKRIFTIR

Sætar kartöflur eru ljúffengar og passa vel með indverskum kryddum. Hér eru þær fylltar með brokkólí og blómkáli í tikka masala kryddblöndu og bakaðar í ofni með fetaosti. Toppaðar með raita sósu og kóríander. Það er líka gott að bæta kjúklingi við í fyllinguna. Mér finnst síðan ómissandi að hafa naan brauð með og hér kemur einnig uppskrift af ofureinföldu naan brauði úr tortillum.

Fyrir 1
1 sæt kartafla
Lítill blómkálshaus (eða ½ – ¼ stór blómkálshaus)
Lítill brokkólíhaus (eða ½ -¼ stór brokkólíhaus)
2-3 msk tikka masala paste
1 dl ólífuolía eða önnur góð olía
Salt og pipar
2-3 msk stappaður fetaostur
Ferskur kóríander, skorinn smátt (má sleppa)

Raita sósa
1 dós hrein jógúrt (170g)
4-5 msk smátt skorin gúrka
1/4 tsk garam masala
1/4 tsk salt

Ofureinfalt naan brauð
1 tortilla
Smjör
1 hvítlauksrif, pressað
Salt
Ferskt kóríander

Aðferð

 1. Skerið sætu kartöfluna til helminga, penslið opnu hliðina með ólífuolíu og dreifið smá salti yfir. Leggið hana á bökunarplötu þakta bökunarpappír og snúið opnu hliðinni niður. Bakið í ca. 30 mínútur við 190°C.
 2. Á meðan kartaflan bakast þá undirbúið þið fyllinguna. Skerið blómkál og brokkólí smátt. Blandið saman tikka masala paste og olíu og blandið saman við blómkáls- og brokkólíblönduna. Steikið blönduna á pönnu í ca. 10 mínútur.
 3. Þegar sæta kartaflan er fullbökuð þá takið þið innan úr henni með skeið en passið að skilja smá lag eftir í henni. Blandið innihaldinu saman við blómkáls- og brokkólíblönduna. Saltið og piprið fyllinguna eftir smekk. Fyllið kartöfluna með henni og dreifið fetaosti yfir.
 4. Bakið í 8-10 mínútur við 190°C. Dreifið að lokum raita sósunni og kóríander yfir fylltu kartöfluna.

Ofureinfalt naan brauð

 1. Smyrjið tortilluna með smjöri og dreifið hvítlauksrifi vel yfir. Saltið og piprið og dreifið ferskum kóríander yfir allt.Bakið í ofni í ca. 10 mínútur við 190°C.

NJÓTIÐ DAGSINS & VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

LITLAR TOBLERONE PAVLOVUR

EFTIRRÉTTIR & KÖKURSAMSTARFUppskriftirVEISLUR

Ég gerði þessar undursamlegu pavlovur í samstarfi við Innnes. Það besta við þessar pavlovu er Toblerone súkkulaði! Ég dreifi því yfir pavlovurnar áður en ég baka þær. Svo gott! Pavlovurnar eru svo toppaðar með rjóma, brómberjum, bláberjum, ástríðu ávexti og söxuðu Toblerone. Mæli með að bera þetta fram sem eftirrétt og það mun pottþétt slá í gegn! 

Uppskrift að 10 litlum pavlovum
4 eggjahvítur
200 g sykur
1 tsk borðedik
1¼-1½  Toblerone
3-4 dl þeyttur rjómi
Brómber eftir smekk
Bláber eftir smekk
1-2 ástríðu ávöxtur

Aðferð

 1. Þeytið eggjahvíturnar í nokkrar mínútur eða þar til þær eru byrjaðar að þykkna.
 2. Bætið sykrinum saman við í fjórum skömmtum og þeytið vel á milli.
 3. Bætið svo edikinu saman við í lokin og þeytir þar til marengsinn er orðinn stífur.
 4. Mótið pavlovurnar með tveimur skeiðum í tíu kökur og dreifið á tvær ofnplötur þaktar bökunarpappír.
 5. Bræðið eitt Toblerone súkkulaði yfir vatnsbaði (skálin má ekki snertai vatnið fyrir neðan).
 6. Dreifið súkkulaðibráðinu (passið að það sé ekki of heitt) yfir pavlovurnar. Ca. 1 tsk af súkkulaði á hverja og eina pavlovu. Hrærið varlega í súkkulaðinu með skaftinu á skeið eða einhverju öðru mjóu sem þið finnið.
 7. Bakið í 40-45 mínútur við 120°C á blæstri. Slökkvið á ofninum og látið kólna í 30 mínútur eða lengur með ofnhurðina opna. Gott að gera þetta kvöldinu áður og leyfa þeim að kólna í ofninum yfir nóttina.
 8. Þeytið rjómann. Skerið berin smátt og takið innan úr ástríðu ávextinum. Skerið ¼ – ½ Toblerone smátt.
 9. Dreifið pavlovurnar með rjómanum, berjunum, ástríðu ávextinum og Toblerone.

Og munið að mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið!

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & GÓÐA HELGI!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

HELGARKOKTEILLINN : TYRKISK PASSOA

DRYKKIRSAMSTARF

Það er svo gaman að bjóða uppá girnilega kokteila á sumarkvöldum. Að þessu sinni er helgarkokteillinn ekki af verri endanum en hann bragðast eins og besta sælgæti! Ég gerði hann í samstarfi við Innnes og hann minnir á brjóstsykurinn góða sem er bleikur og svartur að lit og hefur verið vinsæll lengi. Passoa, romm, trönuberjasafi, klakar og tyrkisk peber er mjög góð blanda og gerir þennan kokteil hættulega góðan! Ég ætla klárlega að skála í þessum um helgina.

Uppskrift að einum kokteil
3 cl Passoa
3 cl romm (ég notaði Brugal blanco supremo)
1 dl trönuberjasafi
2 dl mulinn klaki
½ poki Tyrkisk peber brjóstsykur (dugar í nokkra kokteila)
Ástríðuávöxtur (dugar í nokkra kokteila)

Aðferð

 1. Byrjið á því að mylja tyrkisk peber í matvinnsluvél eða með því að setja í poka og renna kökukefli yfir.
 2. Hellið brjóstsykursmulningnum á disk og hellið vatn í skál. Skreytið glas með því að dýfa því fyrst í vatnið og láta það svo leka af í nokkrar sekúndur. Dýfið svo glasinu í brjóstsykurinn og þekjið brúnina á því með Tyrkisk peber.
 3. Hellið passoa, rommi, trönuberjasafa og klaka í kokteilahristara og hristið vel í ca. 15 sekúndur.
 4. Hellið í skreytta glasið og skreytið með einni sneið af ástríðuávexti. 

Og munið að mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & GÓÐA HELGI!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

 

RISARÆKJUR MEÐ AVÓKADÓ, TÓMÖTUM & PARMESAN

AÐALRÉTTIRFORRÉTTIR & LÉTTIR RÉTTIRUPPSKRIFTIR

Þetta er of auðvelt og of gott til að láta þetta framhjá sér fara. Bæði gott sem forréttur eða léttur kvöldmatur. Risarækjur, avókadó, tómatar og parmesan er ljúffeng blanda sem klikkar ekki. Ég nota risarækjur mikið í eldamennskunni minni. Mér finnst æðislegt að eiga þær til í frystinum og eru þær nánast alltaf til á mínu heimili.

Uppskrift fyrir 2
400 g risarækjur, hráar
2 hvítlauksrif, kramin
Chiliflögur, eftir smekk
Salt og pipar
Ólífuolía
2 avókadó
10 kokteiltómatar (eða 2-3 stærri tómatar)
3 msk fersk steinselja
Rifinn parmesan ostur
Aðferð:
 1. Veltið risarækjunum upp úr hvítlauknum, chiliflögum, salti, pipar og ólífuolíu. Skerið avókadó, kokteiltómata og steinselju smátt.
 2. Steikið risaækjurnar upp úr ólífuolíu í ca. 3-5 mín, þar til þær eru fulleldaðar. Dreifið parmesan osti yfir rækjurnar þegar þær eru ennþá heitar og hrærið saman.
 3. Blandið risarækjunum við avókadóið, tómatana og steinseljuna. Dreifið svo að lokum meiri parmesan osti yfir allt saman.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars