fbpx

Hildur Rut

HELGARKOKTEILLINN : PUMPKIN SPICE STROH KAFFI 

DRYKKIRUPPSKRIFTIR

Halló langþráða helgarfrí! Helgarkokteillinn er svo sannarlega ekki af verri endanum. Haustlegur kokteill sem yljar manni, afar ljúffengur og minnir aðeins á jólin. Heitur kaffidrykkur með Stroh, flóaðri mjólk, pumpkin spice, hrásykri og toppaður með þeyttum rjóma. Ég ætla klárlega að skála í þessum drykk um helgina.

Fyrir einn
1 espresso skot kaffi eða ½ dl sterkt kaffi
1 msk hrásykur
¼ tsk pumpkin spice + auka til að skreyta
2-4 cl Stroh 60
Þeyttur rjómi

Pumpkin spice kryddblanda
2 tsk kanill
½ tsk múskat
½ tsk malaður negull
½ tsk malað engifer

Aðferð:

 1. Byrjið á því að útbúa pumpkin spice kryddblönduna. Blandið öllum hráefnunum saman í skál eða krukku. Gott að geyma svo í krukku upp í skáp til að eiga. Mér finnst t.d. gott að strá smá pumpkin spice út í kaffið eða útbúa haustlegt hnetumix.
 2. Blandið saman heitu kaffi, hrásykri og pumpkin spice í bolla eða glas. Hrærið vel saman þar til sykurinn leysist upp.
 3. Hellið Stroh saman við og hrærið.
 4. Hitið mjólkina í potti eða í mjólkurflóara, hellið saman við kaffiblönduna og hrærið.
 5. Að lokum toppið kokteilinn með þeyttum rjóma, stráið pumpkin spice yfir og njótið!

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! ;)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & GÓÐA HELGI!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

 

PIZZA MEÐ BUTTERNUT SQUASH

AÐALRÉTTIRGRÆNMETIS- & VEGANRÉTTIRUppskriftir

Við fjölskyldan erum dugleg að útbúa heimagerðar pizzur á föstudögum eða um helgar og mér finnst svo gaman að prófa eitthvað nýtt og öðruvísi á pizzuna. Við prófuðum pizzu með graskeri síðustu helgi og mmm hvað hún var góð! Pizza með butternut squash, sveppum, lauk, hvítlauksmjöri, nóg af osti og borið fram með klettasalati. Ég krydda butternut squash með norður afrísku kryddblöndunni Ras el hanout sem setur punktinn yfir i-ið. Kryddið er frá Kryddhúsinu og fæst t.d. í Hagkaup. Ég hvet ykkur til að prófa ef að þið viljið eitthvað öðruvísi og gómsætt!

Uppskrift að einni pizzu
Pizzadeig  (ég notaði uppskrift frá Ljúfmeti nema ég setti spelt í staðinn fyrir hveiti)
½ butternut squash
Ólífuolía
Ras el hanout
Salt & pipar
1 lítill laukur
5-7 sveppir
2 hvítlauksrif, pressuð
3-4 msk smjör
Rifinn cheddar ostur
Rifinn mozzarella ostur
Philadelphia rjómaostur
Klettasalat

Aðferð:

 1. Skerið hýðið af graskerinu og skerið það í litla bita. Blandið bitunum saman við ólífuolíu, Ras el hanout, salti og pipar
 2. Setjið graskerið í eldfast mót eða á bökunarplötu þakta bökunarpappír og bakið við 190°C í 25-30 mínútur eða þar til graskerið er orðið mjúkt. Hrærið 1-2 sinnum í því á meðan það er að bakast.
 3. Skerið laukinn í sneiðar og sveppina í fjóra báta og steikið upp úr smjöri. Hrærið hvítlauknum saman við í lokinn og saltið og piprið.
 4. Fletjið deigið út og dreifið smjörblöndunni með lauknum og sveppunum yfir.
 5. Dreifið mozzarella ostinum, cheddar ostinum og rjómaostinum yfir.
 6. Að lokum dreifið butternut squash bitunum yfir og bakið inn í ofni í 12-15 mínútur við 220°C eða þar til osturinn er bráðnaður og pizzabotninn bakaður.
 7. Berið fram með klettasalati og sýrðum rjóma fyrir þá sem vilja.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

LJÚFFENGIR HAUSTDRYKKIR

SAMSTARF

Hæ kæru lesendur! Í samstarfi við Pennann Eymundsson langar mig að deila með ykkur nýju haustdrykkjunum sem voru að koma á kaffihúsin. Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá vinn ég mikið fyrir Pennann Eymundsson og tók myndirnar af nýju haustrdykkjunum. Ég var líka svo heppin að fá að smakka þá alla. Nammi namm, þeir eru hver öðrum betri! Það gerist varla huggulegra en að njóta stundarinnar og sötra á ljúffengum heitum drykk í haustveðrinu. Vel er passað upp á sóttvarnir og fjöldatakmarkanir á kaffihúsunum en einnig er góð hugmynd að taka með sér kaffidrykkinn í umhverfisvænu pappamáli. Annars er mitt allra besta kombó að fá mér gott kaffi & skoða tímarit á notalegu kaffihúsi! Kaffihúsin eru staðsett í Austurstræti, á Laugavegi 77, Skólavörðustíg 11, Akureyri og Vestmannaeyjum.

Endilega fylgið Pennanum Eymundsson á instagram en þar erum við dugleg að deila myndum, tilboðum og skemmtilegum gjafaleikjum.

Haustdrykkir:

Pumpkin spice latte – epresso, mjólk, pumpkin spice sýróp, rjómi og pumpkin spice krydd

Ginger chai latte – chai duft, mjólk, engifer sýróp og kanill

Turmeric latte – mjólk, túrmerik, engifer sýróp og kanill

Túrmerik fappó – klakar, mjólk, túrmerik, engifer sýróp og kanill

Bláberja hvítt súkkulaði – Butterfly pea powder, mjólk, hvítt súkkulaði, bláberja sýróp og rjómi

Pönnuköku latte – Espresso, mjólk, smjör, hlynsýróp og rjómi

Reykjavík fog – te, mjólk og birki sýróp

Mínir uppáhalds drykkir er Pumpkin spice latte, Ginger chai latte og Bláberja hvítt súkkulaði. Mæli með að þið smakkið og endilega látið mig vita hvað ykkur finnst. Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ;)

NJÓTIÐ DAGSINS Í BOTN! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

DJÚSÍ OSTABRAUÐSTANGIR

FORRÉTTIR & LÉTTIR RÉTTIRUPPSKRIFTIR

Ef að þið viljið gera eitthvað djúsi og súper gott þá eru þessar ostabrauðstangir algjörlega málið! Mæli með að borða þær volgar og rífa parmesan ost yfir þær þegar þær eru nýkomnar úr ofninum. Tilvalið til að baka um helgina! ;)

Deig
2 dl mjólk
50 g smjör
1 pkn þurrger (12 g)
1/2 egg
1 tsk salt
1 tsk sykur
Spelt

Fylling
1 pkn Philadelphia rjómaostur með graslauk (180 g)
200 g rifinn mozzarella
Parmesan ostur
Salt & pipar

Skraut
Steinselja
Parmesan ostur
Cayenne pipar

Aðferð

 1. Bræðið smjör og blandið saman við mjólk. Blandan á að vera um 37°C. Bætið þá þurrgerinu við og hrærið.
 2. Þeytið egg og hellið helmingnum af egginu við gerblönduna. Bætið sykri og salti við.
 3. Að lokum bætið speltinu út í smátt og smátt þangað til að deigið verður mjúkt og smá blautt. Breiðið viskustykki yfir skálina með deiginu og látið hefast í kringum 30 mínútur.
 4. Þegar deigið hefur náð að hefast, bætið þá örlitlu spelti saman við og fletjið það út.
 5. Smyrjið rjómaostinum á deigið, dreifið mozzarella og rífið parmesan eftir smekk. Kryddið og skerið deigið í minni kassa (ég nota pizzahníf). Rúllið svo í ostastangirnar. Að því loknu, penslið þær með restinni af egginu.
 6. Rífið parmesan ost yfir, dreifið steinselju og kryddið með cayenne pipar ofan á stangirnir. Bakið við 200°C í 20 mínútur. Takið brauðstangirnar út og rífið meiri parmesan yfir þær.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ HELGARINNAR! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

FLJÓTLEGUR BRÖNS: BLÁBERJAPÖNNUKÖKUR OG EGGJASALAT

MORGUNMATUR & BRÖNSSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Á tímum sem þessum er gott að gera extra vel við sig og svona ljúfur bröns hjálpar svo sannarlega til við það! Bláberjapönnukökurnar eru svo góðar en ég gerði þær í samstarfi við Kötlu. Eina sem ég nota er pönnukökumix frá Kötlu, bláber, mjólk og vanilludropar. Eggjasalatið er líka afar fljótlegt og rosalega bragðgott en ég nota soðin egg, cheddar ost, steinselju, salt og pipar. Hver elskar ekki svona einfalt og gott?

Bláberjapönnukökur
1 pönnukökumix frá Kötlu
4 dl mjólk
1 tsk vanilludropar
1 dl bláber, skorin í minni bita

Aðferð

 1. Byrjið á því að skera bláberin í minni bita.
 2. Blandið pönnukökumixinu, mjólk og vanilludropum saman í skál.
 3. Blandið bláberjunum saman við í lokin.
 4. Steikið pönnukökurnar á pönnu samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Ég hef þær frekar stórar.
 5. Gott að bera fram með smjör, sírópi, ferskum ávöxtum og berjum.

Eggjasalat með cheddar osti
4 medium soðin egg
1 dl rifinn cheddar ostur
Salt og pipar
Fersk steinselja

Aðferð

 1. Sjóðið eggin þar til þau verða miðlungs soðin og rauðan er aðeins blaut.
 2. Takið skurnina af eggjunum og skerið þau í bita á meðan þau eru ennþá heit. Það er mikilvægt að þau séu heit svo að osturinn bráðni.
 3. Hrærið cheddar ostinum saman við eggin og saltið og piprið. Toppið svo með steinselju.
 4. Gott að bera fram með hrökkbrauði og ristuðu súrdeigsbrauði.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið!

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

HOLLT OG HAUSTLEGT HNETUMIX

EFTIRRÉTTIR & KÖKURFORRÉTTIR & LÉTTIR RÉTTIRUPPSKRIFTIR

Hollustu nammi sem er unaðslega gott, sykurlaust og krönsí. Pekanhnetur, möndlur, pistasíur og graskersfræ í pumpkin spice kryddblöndu og stevíu sírópi. Nammi! Ég elska að eiga eitthvað svona sem er hollt og gott til að fá mér sem millimál með kaffinu. Mæli mikið með!

2 dl pekanhnetur
1½ dl möndlur
1 dl pistasíur
1 dl graskersfræ
½ dl ólífuolía
1 dl stevíu síróp
1 tsk kanill
¼ tsk múskat
¼ tsk negulnaglar, duft
¼ tsk engifer, duft
½ tsk saltflögur

Aðferð

 1. Blandið saman kanil, múskati, negulnöglum, engifer og salti. 
 2. Hrærið út í ólífuolíu og sírópi. 
 3. Blandið pekanhnetum, möndlum, pistasíum og graskersfræjum saman í skál og hrærið kryddblöndunni saman við.
 4. Drefið hnetublöndunni á bökunarplötu þakta bökunarpappír og bakið í 15-20 mínútur við 190°C. Hærið í blöndunni reglulega og passið að hún brenni ekki.
 5. Geymið í lokuði íláti og njótið.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið!

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ! :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

LÍFIÐ Í HAUSTINU

PERSÓNULEGT

Hæ elsku lesendur! Það er orðið langt síðan að ég gerði færslu á persónulegu nótunum en síðustu mánuðir hafa verið fljótir að líða og allt í einu er langt liðið á haustið og búmm, samkomubann skollið aftur á. Núna er því um að gera að taka því rólega og reyna að gera eitthvað skemmtilegt með sínum nánustu. Það er svo mikilvægt að horfa á það jákvæða og reyna að njóta lífsins og leika sér aðeins.

Hér koma síðustu tveir mánuðir í myndum. Vonandi hafið þið gaman að sjá aðeins hvað ég er að bralla dagsdaglega.


Við máluðum svalirnar hvítar og vá hvað ég er ánægð með útkomuna! Við vorum búin að hugsa mikið um það hvað við vildum gera eins og flísaleggja, mála osfrv. og þetta var lokaniðurstaðan. Við máluðum þær með hvítri skipamálningu frá Sérefni. Svalirnar eru lokaðar og ég nota þær mikið þegar ég tek myndir – mitt litla mini studio.


Við settum upp gardínur í stofunni. Við erum með screen rúllugardínur en mig langaði alltaf í fallegar gardínur á brautum. Við vissum ekki hvað við vildum nákvæmlega og vorum við að hugsa um að láta sérsauma þær en svo rakst ég á þessar gardínur í H&M home. Mér finnst þær geggjaðar! Ódýr og sniðug lausn!

Herbergið hennar Eddu fékk líka smá upplyftingu. Við fluttum inn fyrir meira en ári síðan og ég er ennþá að vinna í því að gera fínt. Keyptum þessar skúffueiningar fyrir dótið hennar í Ikea og mér finnst þær koma mjög vel út.

Fullt af nýjum plöntum sem fara í bað vikulega.


Bústaðar huggulegheit í nýja bústaðnum hjá tengdó.


Foreldrafrí með góðum vinum í haustlitunum í bústað við Þingvallavatn. Dásamleg ferð þar sem við spiluðum, borðuðum, drukkum og höfðum það notalegt inni í rigningunni.


Vinna fyrir Pennann Eymundsson og margir kaffibollar með því. Ég er svo mikil kaffikona að mér finnst það sko heldur betur ekki leiðinlegt.

Ný haustföt fyrir börnin úr uppáhalds versluninni Bíumbíum. Þessi verslun og vörumerki eru í miklu uppáhaldi hjá mér.

Edda byrjaði í dansfjöri í Plié listdansskólanum. Mikil krúttlegheit! Núna verður smá pása í samkomubanninu en við bíðum bara spennt eftir að mæta aftur fljótlega.

Ég byrjaði í skóla en ég stefni á að klára ljósmyndun í Tækniskólanum á næstu árum og er í fjarnámi með vinnu.


Edda varð 2 ára 12. september og buðum við nánustu fjölskyldu í veislu sem heppnaðist mjög vel. Afmæliskakan var svo góð en hér er uppskriftin.

Takk fyrir að lesa & reynið að njóta í rólegheitum næstu vikur :)

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

PÍTA MEÐ KJÚKLINGI

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Hér kemur uppskrift að ó svo ljúffengri pítu sem ég gerði í samstarfi við Hatting. Tilvalinn sem fljótlegur réttur á virkum degi! Það er mjög þægilegt að eiga frosið pítubrauð frá Hatting í frystinum. Ég gríp það oft í hversdagsleikanum þegar það er mikið að gera og mig langar að gera eitthvað fljótlegt og gott. 

Uppskrift fyrir 1
Pítubrauð frá Hatting
Smá rauðkál, skorið í þunnar ræmur
Smá hvítkál, skorið í þunnar ræmur
1-2 dl rifinn kjúklingur eða oumph
1/2 avocado, smátt skorið
Tómatar, smátt skornir
Rauðlaukur, smátt skorinn
Fetakubbur, stappaður
Toppað með radísuspírum
Sósa
3 msk majónes
2 msk sýrður rjómi
2 msk kóríander, smátt skorinn
2 tsk safi úr lime
2 msk jalapeno úr krukku, smátt skorinn (má sleppa)
Salt og pipar

Aðferð:

 1. Hitið pítubrauðið í ofni eða einfaldlega setjið í brauðristina.
 2. Hrærið kálinu, kjúklingnum, avocado-inu, tómötunum, rauðlauknum, fetaostinum og sósunni saman í skál.
 3. Skerið gat á pítubrauðið og fyllið með blöndunni. Einfaldara gerist það ekki.

Og munið að mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! ;)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

BURRITO MEÐ KJÚKLINGI, KÍNÓA & GUACAMOLE

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Mexíkóskur matur er svo góður og burrito er einn af þeim réttum sem ég held mikið uppá. Í samstarfi við Danól gerði ég dásamlega burrito uppskrift með kjúklingi, kínóa og osti borið fram með sýrðum rjóma og guacamole með cheddar osti. Afar fljótlegur og gómsætur réttur sem krakkarnir elska líka! Uppskriftin var í Fréttablaðinu í dag ásamt viðtali við mig um vörumerkið Quinola. Quinola er nýtt vörumerki á Íslandi og er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þau eru með foreldað kínóa sem er bæði dásamlega gott og hollt og til í fjórum bragðtegundum. Ég er svo hrifin af þessu vörumerki en fyrirtækið stundar viðskiptahætti sem bæta umhverfið og samfélögin í kringum sig. Þið getið lesið viðtalið hér.

Fyrir 4
Mæli með 1-2 burrito á mann
600 g kjúklingalundir (má nota kjúklingabringur eða annað)
1 lítill laukur, skorinn í strimla
2 msk ólífuolía
½ lime
¼ tsk cayenne pipar
½ tsk cumin
1 tsk salt
½ tsk pipar

Stórar tortillur
Express quinoa spicy mexican frá Quinola
Rjómaostur
Rifinn cheddar ostur
Sýrður rjómi

Guacamole með cheddar osti
2 avókadó
1 dl rifinn cheddar ostur
½ lime
1 msk ferskur kóríander (má sleppa)
Salt og pipar
Cayenne pipar
1-2 msk rauðlaukur
2 tómatar

Aðferð

 1. Snyrtið kjúklinginn og skerið í minni bita.
 2. Blandið saman ólífuolíu, safa úr lime, cayenne pipar, cumin, salti og pipar og veltið kjúklingnum upp úr blöndunni.
 3. Steikið kjúklinginn og laukinn upp úr ólífuolíu þar til hann verður eldaður í gegn.
 4. Smyrjið rjómaosti á tortillurnar, dreifið 2-3 msk quinoa á þær, kjúklingi og rifnum cheddar osti.
 5. Rúllið tortillunum upp í burrito, penslið með ólífuolíu og bakið í 10 mínútur við 180°C.
 6. Berið fram með gucamole og sýrðum rjóma.

Guacamole með cheddar osti

 1. Blandið avókadó, cheddar osti, safa úr lime, kóríander, salt og pipar með töfrasprota (það er líka gott að stappa þessu saman ef þið eigið ekki töfrasprota).
 2. Skerið rauðlauk og tómata smátt og blandið saman með skeið.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

ENCHILADAS MEÐ OSTASÓSU OG AVÓKADÓ

AÐALRÉTTIRSAMSTARFUPPSKRIFTIR

Uppskrift að fljótlegum og ljúffengum enchiladas sem ég gerði í samstarfi við Innnes. Tortillur fylltar með nautahakki (eða vegan hakki), Philadelphia rjómaosti og blaðlauki, rúllaðar upp og bakaðar inn í ofni. Punkturinn yfir i-ið er að bera þetta fram með heimagerðri ostasósu, avokadó og sýrðum rjóma ásamt nachosflögum. Ég nota frábæru Mission tortillurnar í réttinn sem eru bæði stórar og bragðgóðar og henta því vel. Svo er stór plús að rétturinn er barnvænn,  svona réttir slá alltaf í gegn hjá börnunum  mínum. Ég elska að gera mat sem öllum finnst góður á heimilinu! Þetta er algjört lostæti og ég mæli með að gera þetta um helgina!

Fyrir 3
6 Mission tortillur með grillrönd
400-500 g nautahakk (eða vegan hakk)
1 lítil krukka salsasósa
Krydd (Cayenne pipar, cumin, laukduft, salt og pipar)
1 Philadelphia rjómaostur
4 msk blaðlaukur, smátt skorinn
2-3 msk sýrður rjómi
Chili explosion
2-3 tómatar, smátt skornir
Rifinn cheddar ostur
Rifinn gratín ostur eða annar rifinn ostur (má sleppa)
Ferskur kóríander (má sleppa)

Avókadóstappa
2 stór avókadó (eða meira eftir smekk)
Safi úr ½ lime
Salt og pipar

Ostasósa
2 msk smjör
1 msk hveiti
2 dl nýmjólk
5 dl rifinn cheddar ostur
Cayenne pipar
Smá salt

Aðferð

 1. Steikið hakkið á pönnu, kryddið með cayenne pipar, cumin, laukdufti, salti og pipar og hrærið salsasósunni saman við.
 2. Smyrjið tortillurnar með rjómaosti. Dreifið blaðlauknum yfir og því næst dreifið nautahakki yfir eftir smekk (mér finnst ekki gott að hafa of mikið).
 3. Rúllið upp tortillunum og raðið í eldfast form sem er smurt eða spreyið með Pam olíu.
 4. Smyrjið yfir þær sýrðum rjóma og kryddið með chili explosion. Dreifið tómötunum yfir og stráið rifnum osti yfir allt saman.
 5. Bakið í 15-17 mínútur við 190°C eða þar til osturinn er orðinn gylltur.
 6. Toppið enchiladas með ostasósunni, avókadóstöppunni og ferskur kóríander.

Avókadóstappa

 1. Stappið avókadó og keistið safa úr lime yfir. Saltið og piprið.

Ostasósa

 1. Bræðið smjörið í pott við vægan hita. Hrærið hveitinu saman við og blandið því næst mjólkinni út í.
 2. Hrærið þar til blandan hefur þykknað og bætið cheddar ostinum við. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað og kryddið eftir smekk.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & GÓÐA HELGI!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars