fbpx

SAMSTÖÐUBOLUR CHILD REYKJAVÍK

OUTFIT

Samstöðubolur íslenska fatamerkisins CHILD Reykjavík fór í sölu á dögunum. Allur ágóði af sölu bolsins rennur óskiptur til Kvennaathvarfsins. „Samtökin um kvennaathvarf vinna það mikilvæga starf að hýsa og styðja við konur og börn sem geta ekki búið inná eigin heimili sökum ofbeldis. Töluverð aukning tilkynninga um heimilisofbeldi hefur orðið vegna aðstæðna í samfélaginu.“ Þetta er sorglegur raunveruleiki og ég hvet ykkur til að festa kaup á samstöðubolnum og styrkja í leiðinni það góða og mikilvæga starf sem Kvennaathvarfið stendur fyrir. Bolurinn fæst hér.

<3

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

MÍN UPPÁHALDS HLAÐVÖRP

ANDREA RÖFNHLAÐVARP

Góðan og gleðilegan föstudag. Föstudagar eru í algjöru uppáhaldi hjá mér eins og ég hef oft nefnt hérna á blogginu. Á því er engin breyting á þessum tímum þrátt fyrir að flestir dagar geti verið frekar líkir. Mér finnst svo mikilvægt að gera greinarmun á því hvaða dagur er, þannig lærir maður að meta enn frekar litlu hlutina eins og pizzu á föstudögum, notalega sunnudagsmorgna og rútínu á mánudögum svo eitthvað sé nefnt.

Annars langaði mig til að deila með ykkur mínum uppáhalds hlaðvörpum. Ég hlusta mikið á þau úti á röltinu, meðan ég elda og þegar ég æfi. Mér finnst þau frábært meðal fyrir andlegu hliðina sem þarf reglulega á upplyftingu að halda þessa dagana.

Mín uppáhalds hlaðvörp, ekki í neinni sérstakri röð!

Normið 

The Snorri Björns podcast show

Í ljósi sögunnar

Hismið

Helgaspjallið

Kraftbirtingarhljómur guðdómsins

Þarf alltaf að vera grín?

Skoðanabræður

Laugardagskvöld með Matta

Bara við

Þegar ég verð stór

Málið er

Grínland

Fæðingarcast

Þokan

Vonandi fáið þið innblástur frá þessum lista og hlustið á eitthvað skemmtilegt með helgarbakstrinum, æfingunni, tiltektinni eða bara uppi í sófa með góðan kaffibolla. Góða helgi!

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn

Á ÓSKALISTANUM

ÓSKALISTINN

Góðan daginn og gleðilegan föstudag. Ég elska föstudaga, það mikið að þó að flestir dagar séu eins á þessum tímum fer ég undantekningarlaust í sérstakan fíling og betra skap á föstudögum.

Ég tók saman óskalista yfir alls kyns hluti sem mér þykja fallegir. Hann er innblásinn af því sem ég væri til í að klæðast þegar lífið fer að ganga sinn vanagang á ný, heimilisvörum og húsgögnum, snyrtivörum og skartgripum. Mig klæjar í fingurna að breyta til hérna heima en það hefur staðið til í langan tíma að mála og skipta nokkrum húsgögnum út. Ég held að við vindum okkur í þetta sem fyrst, þangað til nýti ég tímann í hugleiðingar og leit að innblæstri. Allt á listanum fæst í íslenskum verslunum – að frátöldum Marni söndulunum. Nokkra hluti á ég sjálf en setti þá með, einfaldlega til að miðla því til ykkar hvað ég elska þá mikið og í leiðinni mæla með!

// 66 North Flot kápa – ég er svo hrifin af þessari kápu. Army grænn er einn af mínum uppáhalds litum og ég fíla sniðið í tætlur.
// Won Hundred – Húrra Reykjavík. Ég á þessar buxur sjálf og fíla þær svo mikið að ég varð að hafa þær með. Ekki týpískar svartar niðurþröngar heldur er smá grár tónn í þeim. Hef ofnotað mínar síðan ég eignaðist þær.
// AGUSTAV high mirror – íslenska hönnunarteymið AGUSTAV eiga meðal annars hönnunina að Alin mælieiningunni sem ég skrifaði um hér. Hönnunin þeirra höfðar mikið til mín og þessi spegill er ansi ofarlega á lista hjá mér.
// Chanel – Le Volume De Chanel maskari. Einn af mínum uppáhalds og alltaf til í minni snyrtitösku.
// Tekla fabrics – Rúmföt sem fást m.a. í Norr11 á Hverfisgötu.
// Marni Fussbett sandalar – svooo fallegir.
// Pallo vasi Skruf Glasfabrik – Haf Store – sænsk hönnun sem ég sé víða hérna úti. Fullkomlega stílhreinn og tímalaus.

// Maria Black – Húrra Reykjavík
// Adidas EQT – Húrra Reykjavík – þau ykkar sem hafa fylgt mér lengi vitið hvað ég er veik fyrir silfri og glimmeri. Og auðvitað sneakers, Helst stórum og „miklum“. Þessir kalla því á mig.
// Stussy – Húrra Reykjavík – aldrei of mikið af hvítum t-shirts.
// Simonett – Yeoman Reykjavík – sjúk í þennan topp frá Simonett sem fæst í Yeoman, Skólavörðustíg. Skal sko alveg klæðast honum við fyrsta tilefni að loknu kósýgallatímabilinu mikla.
// String – Epal – ég er mikið að pæla í stofunni okkar og hvernig hillur myndu passa vel inn. Núna erum við með svartar Ikea hillur sem áttu ekki að koma með frá Grikklandi en komust með í sendiferðabílinn og hafa í kjölfarið staðið í stofunni í tvö ár, haha. Ég er bæði hrifin af String systeminu en Montana hillur eru einnig ofarlega á listanum.
// Won Hundred – Húrra Reykjavík – fullkominn sumarkjóll.
// HUGG stjörnumerkjaplakat – við erum með plaköt uppi á vegg með stjörnumerkjum okkar Arnórs. Ég bloggaði um þau hérna – falleg hönnun og hugsjón HUGG er til fyrirmyndar en fyrir hvert selt plakat gróðursetja þau eitt tré.
// HAY crinkle rúmteppi – Epal

Góða helgi og farið vel með ykkur <3 

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn

LÍFIÐ Í SVÍÞJÓÐ

HREYFINGPERSÓNULEGTSVÍÞJÓÐ

Góðan daginn og gleðilegan sunnudag. Er ég ein um að finnast tíminn líða hratt þrátt fyrir ástand dagsins í dag? Við erum að vísu með eins árs orkubolta á heimilinu sem heldur okkur svo sannarlega á tánum frá morgni til kvölds, og lætur tímann bókstaflega fljúga. Eins og ég kom inn á í síðustu færslu eru aðgerðir sænska kerfisins við Covid-19 faraldrinum gjörólíkar aðgerðum annarra landa og eru skiptar skoðanir á þeim um allan heim. Allt er opið og úti á götu er varla að sjá að heimsfaraldur gangi yfir. Við Arnór tökum aðstæðunum að sjálfsögðu alvarlega og förum mjög varlega í einu og öllu.

Aþena Röfn er á svo skemmtilegu tímabili sem er á sama tíma það mest krefjandi hingað til. Hún hefur svo ótrúlega sterkar skoðanir á öllu án þess að geta tjáð þær með orðum og því eru skapsveiflurnar nokkuð miklar þessa dagana. Hún labbar um alla íbúð, ýtir á hvern einasta takka sem á vegi hennar verður og opnar allar skúffur sem hún kemst í. Svo er hún með radar á mömmu sinni sem má helst ekki vera of langt undan þessa dagana, og leitar bókstaflega að mér á heimilinu ef hún hefur ekki séð mig í smá tíma. Síðustu tvær vikur höfum við síðan notið þess að hafa Arnór heima á meðan æfingar hjá liðinu voru settar á hold.

Ég get ímyndað mér að þetta ástand reyni mikið á marga, það reynir allavega á okkur þrátt fyrir að við séum vön því að vera töluvert mikið heima fyrir. Hjá langflestum eru aðstæðurnar breyttar sem kallar á endurskipulagningu og aðlögun að deginum eins og hann er í dag. Það eru nokkur atriði sem ég hef tileinkað mér síðustu vikur og datt í hug að deila með ykkur.

Halda rútínu – Ég er með vekjaraklukku sem heitir Aþena Röfn og vekur mig alla morgna milli 6 og 6:30 með því að segja ‘HÆ’og brosa mjög skært til mín. Einhver ykkar hafa eflaust tekið eftir ‘HÆ’ þemanu á instagram hjá mér þessa dagana. Að vera með barn í rútínu gerir það töluvert einfaldara fyrir mig að halda henni sjálf, en önnur atriði eins og húðrútína og matarvenjur sitja ekki á hakanum þrátt fyrir breyttar aðstæður. Mér finnst mikilvægt að gera skil á dögunum, klæða mig á morgnanna (eins og Andrea talaði um hér) og reyna að halda hversdagsleikanum við þó að allir dagar séu svolítið eins og sunnudagar núna.

Heimaæfingar – Ég hef ekki æft neitt af viti síðan fyrir meðgöngu og var orðin ansi þyrst í hreyfingu þegar faraldurinn skall á. Þegar loka þurfti líkamsræktarstöðvunum heima hóf Indíana vinkona mín, sem er með GoMove Iceland, fjarþjálfun að heiman sex sinnum í viku fyrir hópana sem æfðu hjá henni í World Class. Allar æfingarnar eru settar þannig upp að auðvelt er að gera þær heima og án nokkurra áhalda. Ég æfi langoftast samferða live útsendingunni hennar og finnst mikil hvatning í því að vita á morgnanna klukkan hvað ég sé að fara að æfa og skipuleggja daginn þá í kringum æfinguna. Þessi veirufaraldur hefur allavega haft eitthvað jákvætt í för með sér fyrir mitt leyti, mér finnst loksins gaman að æfa aftur og ætla að lofa sjálfri mér að missa ekki dampinn þegar heimurinn kemst aftur í eðlilegt horf. Það er ennþá hægt að skrá sig hjá Indíönu fyrir áhugasama – sendið henni bara línu á instagram.

Útivera – langir göngutúrar og golf með Aþenu sofandi í vagninum var helst á dagskrá í síðustu viku sem gaf okkur mikla orku og gerði það að verkum að dagarnir flugu hjá. Þetta er auðvitað ekki í boði alls staðar og ég hugsa mikið til landanna þar sem er útgöngubann og einungis leyfilegt að fara í litla göngutúra innan 1 km radíuss frá heimilinu sínu. Við njótum á meðan þetta er í boði hjá okkur.

Andlega hliðin – Þessar aðstæður reyna töluvert á hjá flestum og mér finnst alveg jafn mikilvægt að huga að andlegu hliðinni eins og þeirri líkamlegu. Hjá mér er oft stutt í kvíðann yfir engu og öllu, en ég tek stuttar hugleiðslur reglulega yfir daginn þar sem ég stilli mig af, huga að önduninni og nefni í hljóði það sem ég er þakklát fyrir. Hugleiðsla þarf ekki að vera heilög eða taka langan tíma en getur gert svo mikið fyrir mann. Annað sem gerir mikið fyrir mig andlega er að heyra í fjölskyldu og vinum og þessa dagana er ég þakklátari en nokkru sinni áður fyrir tæknina.

Að lokum langar mig að minna ykkur á að detta ekki í samanburð við aðra á þessum tímum. Við sjáum svo lítinn part af heildinni hjá þeim sem við fylgjum á samfélagsmiðlum og þó að einn sé að baka, sá næsti að taka heimaæfingu og sá þriðji að taka til í geymslunni þýðir það ekki að þú verðir að gera slíkt hið sama! Öll erum við í mismunandi aðstæðum og með mismikla orku og tíma á höndum okkar. Margir tala um að nú sé tíminn til að gera það sem okkur hefur alltaf langað til en aldrei gefið okkur tíma í að gera, það er frábær áminning en á ekki við um alla akkurat núna, og það er líka bara allt í lagi.

Farið vel með ykkur!

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn

OUTFIT

OUTFIT

Við litla fjölskyldan röltum niður í bæ um helgina, alls ekki til að umkringja okkur fólki (!), heldur til að kaupa almennilega skó á Aþenu Röfn sem er farin að ganga um allt! Miðbærinn var svipað mikið pakkaður af fólki og hvern annan laugardag, ótrúlegt en satt miðað við ástandið í heiminum í dag. Þarna sást skýrt og greinilega að Svíar eru að taka allt öðruvísi á Covid-19 faraldrinum en löndin í kringum okkur – en það er efni í heila færslu sem ég er ekkert viss um að þið hafið áhuga á að lesa! Eina sem við getum gert sjálf er að passa okkur vel og treysta því og vona að yfirvöldin hérna viti hvað þau eru að gera.

Kápa: Libertine Libertine // Húrra Reykjavík
Bolur og peysa: & Other Stories 
Buxur: gamlar Weekday
Skór: New Balance
Taska: Christian Dior

Farið vel með ykkur <3 // Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

 

HEIMA: PERSÓNULEG ÍSLENSK-DÖNSK HÖNNUN

HEIMAINTERIOR
Færslan er unnin í samstarfi við HUGG

Við höfum verið búsett erlendis í nokkur ár og í þremur mismunandi löndum. Þrátt fyrir flutninga milli landa á þessum tíma og líklega fleiri á komandi árum finnst okkur ótrúlega mikilvægt að líða eins og heima hjá okkur, að eiga okkar eigin húsgögn og muni. Þegar ég bæti við nýjum hlutum og hönnun inn á heimilið finnst mér alltaf skemmtilegt ef það hefur persónulega merkingu eða tekur mig á heimaslóðir, líkt og íslensk hönnun gerir.

HUGG er glænýtt vörumerki sem fór í sölu fyrir helgi. HUGG selur stjörnumerkjaplaköt með íslenskum lýsingarorðum um hvert stjörnumerki, en hönnunin og hugverkið eru íslensk-dönsk. Vörumerkið leggur áherslu á sjálfbærni með því að gróðursetja eitt tré fyrir hvert selt plakat ásamt því að prenta plakötin innanlands í umhverfisvottaðri prentsmiðju.

HUGG teymið samanstendur af kærustuparinu Sunnevu og Oliver, sem búsett eru í Kaupmannahöfn. Þau skipta með sér verkum á þann hátt að Oliver er lærður multimedia designer og hefur mikinn áhuga á grafískri hönnun, á meðan Sunneva er meira á viðskipta-hliðinni með mastersgráðu frá CBS í strategic market creation. Einhver ykkar hafið örugglega fattað það nú þegar en um ræðir mína bestu vinkonu, sem hefur ósjaldan brugðið fyrir hér á blogginu og á instagram hjá mér. Hún hefur alltaf verið uppátækjasöm og frumleg, og lýsti fyrir mér hugmyndinni á bakvið HUGG:

Oliver hefur alltaf haft frekar mikinn áhuga á stjörnuspeki. Ég byrjaði á því að skissa upp plakat sem mig langaði að gefa honum sjálf í afmælisgjöf. Svo náði ég í Illustrator og fór á Youtube og lék mér eitthvað með þetta, sem á endanum kom svona vel út fannst mér og hann var ekkert smá glaður með gjöfina. Svo við pældum í því hvort þetta væri mögulega eitthvað sem aðrir hefðu líka áhuga á. Í kjölfarið varð þetta í rauninni verkefni hjá okkur tveim og hann gaf plakötunum flottara útlit og náði auðvitað að gera alla hönnunina á þessu mikið betri.

Við Arnór erum komin með okkar merki upp á vegg heima hjá okkur. Ég hef mjög gaman af stjörnuspeki og finnst hvert einasta orð á plakatinu eiga við um mig, vatnsberann, og það sama má segja um nautið hann Arnór. Mér finnst síðan mjög skemmtilegt lúkk að hafa annað plakatið hvítt og hitt svart.

HUGG er fáanlegt í vefversluninni – hér, og einnig í verslunum Epal.

Hér er svo hægt að lesa og hlusta á viðtal við Sunnevu!

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn

SVEFNVENJUR OG SKRÝTNIR TÍMAR

Eru ekki allir, sem hafa möguleika á, að halda sig heima hjá sér að mestu leyti? Hvort sem það er með vinnuna við eldhúsborðið, í leik með börnunum, með púsl á borðinu eða góða bók uppi í sófa. Þetta eru svo sannarlega skrýtnir tímar sem við erum að upplifa en ég hvet ykkur til að taka veiruna alvarlega svo hlutirnir versni ekki um of og um leið sýnum við þeim virðingu sem eru í hættu á að verða mikið veikir. Við fjölskyldan áttum bókaða ferð í austurrísku alpana fyrr í mánuðinum en hættum við að fara, ákvörðun sem við sjáum ekki eftir og vonandi getum við átt bara það inni að fara öll saman að ári. Hér í Svíþjóð er staðan svipuð og heima á Íslandi, gerðar hafa verið ráðstafanir á öllum sviðum en verið er að reyna að halda hversdagsleikanum gangandi eins mikið og mögulegt er. Arnór æfir ennþá þó að deildinni hafi verið frestað og úti á götu er töluvert um fólk. Svíar hafa verið gagnrýndir fyrir að taka ekki hlutina fastari tökum, en það eina sem maður sjálfur getur gert er að passa sig og sína vel, treysta á að stjórnvöld séu að taka réttar ákvarðanir og svo bíða og sjá hvað tíminn leiðir í ljós. Ég er þakklát fyrir að komast út í göngutúra með Aþenu Röfn og hugsa til landanna þar sem fólk má hreinlega ekki fara út úr húsi.

Annars hefur síðasta vika farið í að taka svefninn hennar Aþenu föstum tökum, sem hefur tekið á en er strax farið að skila sér í betri svefni fyrir alla. Hún hefur alla tíð verið mikið brjóstabarn, drukkið í tíma og ótíma og ekki spurt um stað né stund. Fyrsta árið hennar sofnaði hún í 99% tilfella á brjóstinu og var þar af leiðandi mikið að vakna á nóttunni í leit að brjóstinu, það var einfaldlega hennar leið til að róa sig og sofna aftur. Þetta ágerðist mjög þegar hún varð 11 mánaða og hætti sjálfviljug með snuð á svipstundu og vildi ekki sjá það ef ég bauð henni – viðbrögðin voru eins og hún hefði aldrei séð snuð áður í lífinu! Þessi aðferð, að svæfa hana á brjóstinu, var auðvitað mjög þægileg og auðveld fyrstu mánuðina en þegar leið á og næturvaknanir orðnar allt of margar (og þreytan nánast óbærileg) fór okkur að langa að breyta til. Arnór var sömuleiðis, skiljanlega, farinn að þrá að hafa stærra hlutverk í uppeldinu. Tækifærin til að taka slaginn voru ekki á hverju strái enda útileikur hjá honum eða Íslandsferð hjá okkur einhvern veginn alltaf á næsta leyti. Ég taldi það um daginn en Aþena fór 25 sinnum í flug fyrsta árið sitt. Ásamt tímaleysinu var ég líka svo óákveðin með hvaða aðferð væri best í að venja hana af næturgjöfinni og aftengja brjóstagjöf og svefn. Ef það er eitthvað sem ég hef lært af því að eiga barn er það að það eru til endalausar aðferðir í uppeldi og allir hafa mismunandi skoðun á ÖLLU. Að lokum skiptir langmestu máli að fylgja hjartanu í einu og öllu og að gera hlutina þegar maður er sjálfur tilbúinn til þess.

Okkar aðferð var frekar hefðbundin, Arnór baðaði og klæddi Aþenu Röfn, hún fékk að drekka hjá mér frammi í stofu og svo fóru þau saman inn í herbergi að skoða bók og hún sofnaði svo hjá honum, en ég svaf í gestaherberginu. Hún vaknaði nokkrum sinnum fyrstu nóttina með tilheyrandi gráti, sem mér fannst mjög erfitt en minnti mig á það allan tímann að hún væri hjá pabba sínum og alls ekki illa haldin, meira bara rugluð á því að hlutirnir væru öðruvísi. Næsta nótt gekk mun betur og núna viku síðar rumskar hún 1-2 sinnum frá kl. 20 til 6:30 en sofnar yfirleitt strax aftur. Eftir að við byrjuðum á þessum breytingum hefur hún svo verið mjög mikil mömmustelpa á daginn og reynt hvað hún getur að lyfta bolnum mínum í leit að sopa. Ég fann hvað hún var rugluð að fá þegar hún vildi á daginn en ekkert að nóttu til og við höfum því breytt dögunum líka og núna fær hún þrisvar að drekka á dag. Ég er ekki mikil reglumanneskja og hef hingað til verið mjög afslöppuð með það hvenær og hversu oft hún fær að drekka og því er þetta alveg nýtt fyrir mér. En eftir nokkra daga af þessari reglusemi gæti ég hins vegar ekki verið ánægðari með ákvörðunina og finn mikinn mun á Aþenu, hún er öruggari með sig og orðin duglegri að borða mat, sem hefur verið krefjandi verkefni hingað til.

Einhvern veginn endaði þetta sem nákvæm færsla um breytingarnar á þessu heimili. Núna gæti verið fullkominn tími til að nýta tækifærið og breyta til ef þið hafið verið að hugsa út í það en ekki enn tekið slaginn. Margir foreldrar eru að vinna heima þessa dagana og hafa jafnvel tækifæri til að sofa örlítið lengur eða leggja sig yfir daginn, og þurfa ekki að mæta eldsnemma í vinnu daginn eftir krefjandi nótt. Þessar næturvaknanir trufluðu mig ekkert stórkostlega allan þennan tíma en guð minn góður hvað ég er samt þakklát fyrir að sofa loksins vel. Ég var búin að gleyma því hvað það gerir mikið fyrir mann.

Farið vel með ykkur <3

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

ÞRENNT Á ÞRIÐJUDEGI

ÓSKALISTINNOUTFIT

Á rölti mínu um verslanir Kaupmannahafnar á dögunum setti ég saman þetta draumadress í huganum. Ég mátaði ekki neitt en í mínum augum passar þetta fullkomlega saman. Núna vantar mig bara eitthvað tilefni til skoða þetta nánar gera mér ferð til að máta! Kjóllinn kemur einnig í dökkbláum lit sem mér finnst alls ekki síðri.

Kjóll: Kenzo / Hælar: Stine Goya / Taska: Sandro Paris

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn

AFMÆLISHELGIN MÍN

PERSÓNULEGT

Hamingjukast á sunnudagskvöldi eftir dásamlega afmælishelgi, en í gær varð ég 28 ára. Ég vaknaði við afmælissöng og pönnukökulykt og átti fullkomna morgunstund með Arnóri og Aþenu Röfn. Eftir hádegi fékk ég svo yndislegar vinkonur í afmæliskaffi og er búin að hugsa það alla helgina hversu heppin ég er að eiga svona nánar vinkonur búsettar í nærumhverfinu mínu, allar í Köben nema ein sem býr í næstu götu við mig (!) hérna í Malmö. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar bankað var á dyrnar hjá mér og fyrir utan stóð Denise besta vinkona mín sem býr í Hong Kong. Hún kom mér svo mikið á óvart að ég æpti og skríkti af hamingju. Stelpurnar sátu hjá mér fram yfir kvöldmatarleyti og fylltu heldur betur á gleðibankann hjá afmælisbarninu. Á meðan spilaði Arnór leik í bikarnum sem þeir rúlluðu upp og um kvöldið áttum við svo pizzu og rauðvínsdeit hérna heima eftir að Aþena Röfn sofnaði, jafn glöð og ég með gestagang dagsins. Frábær afmælisdagur og gjörólíkur þeim sem ég átti fyrir ári síðan, gengin 41 viku.Ég fékk nokkrar spurningar út í kjólinn en hann er frá Acne Studios

Sjáiði hvað ég fékk fína afmælisgjöf!! Ég æfði á píanó í mörg mörg ár þegar ég var yngri og langar svo stundum að geta gleymt mér um stund við að rifja upp og læra ný lög. Hljómborð er fullkomið þangað til við kaupum okkur píanó á framtíðarheimilið.

Fyrir kaffihúsadeit dagsins með Malmö vinkonunum sem gáfu mér þennan guðdómlega blómvönd. Næst á dagskrá er svo EINS ÁRS afmæli grallarans míns eftir aðeins fjóra daga. Ég skil núna hvað fólk meinar þegar það vill hægja aðeins á tímanum!

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn