OUTFIT

AÞENA RÖFNOUTFIT

Við litla fjölskyldan kíktum til Kaupmannahafnar í fyrradag. Þetta var þriðja skiptið okkar mæðgna þar á einni viku, það er bara svo auðvelt að fara á milli, meira að segja með barn og allt sem því fylgir. Við kíktum aðeins í búðir og á kaffihús og Aþena Röfn naut sín í botn í magapokanum framan á pabba sínum. Hún stefnir í ansi góðan heimsborgara enda alltaf á flakki með foreldrum sínum. Svo er þetta hennar uppáhaldssvipur þessa dagana:

Buxur: Won Hundred
Jakki: Libertine Libertine // Húrra Reykjavík
Skyrta: Norse Projects // Húrra Reykjavík
Skór: Nike
Taska: Chanel

Ég er svo heppin með þessi tvö að ég á erfitt með að koma því í orð <3

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

SKÍRN AÞENU RAFNAR

AÞENA RÖFNPERSÓNULEGT

Við foreldarnir nýttum tækifærið í nýliðinni Íslandsheimsókn til að skíra Aþenu Röfn. Sunnudaginn 9. júní gafst loksins tími milli landsleikja hjá Arnóri og við buðum fjölskyldu og vinum til veislu. Sólin skein hátt á himni og í samráði við prestinn ákváðum við á síðustu stundu að færa skírnina út á pall. Þetta var svo falleg stund, full af hamingju, gleði og sólargeislum. Aþena Röfn var svo róleg og afslöppuð og kærði sig að sjálfsögðu ekki um að vera haldið á eins og ungabarni, enda orðin 3 og hálfs mánaðar gömul og vildi fá að horfa á allt fólkið sem var mætt til að fagna henni. Séra Anna Sigríður Pálsdóttir skírði og systkini okkar voru skírnarvottar.

Við vorum með veitingar og kökur.. fallegustu kökur sem ég hef á ævi minni séð. Ég hef fylgst með báðum bökurunum lengi og ég sver það, þetta eru þeirra fallegustu kökur hingað til!
Hvíta kakan er gerð af Unu Dögg @una_bakstur og blómin eru ekta! Svo stílhrein og falleg og dásamlega bragðgóð.
Bleika kakan er frá Brynju Bjarna @brynjabjarna og er algjört listaverk, nákvæmlega eins og ég hafði hugsað hana nema bara 100x fallegri.

Skírnarkjóllinn er saumaður af ömmu minni heitinni sem ég hefði svo innilega viljað að Aþena myndi kynnast. Hún mun í staðinn fá að heyra ófáar sögur af henni í framtíðinni.

Í lok veislunnar var mín dama svo komin í örlítið einfaldari föt, þennan guðdómlega kjól og sokka frá Petit.is og spariskó frá Minilux.is. Kjóllinn minn er frá Hildi Yeoman (minni allra bestu!) og Arnór var klæddur frá toppi til táar í Suitup Reykjavík, en ég fékk ófáar spurningar út í dressið hans. Hann hafði svo fataskipti og skartaði glæsilega landsliðsgallanum áður en hann hélt aftur til vinnu.

Þessi dagur var dásamlegur í alla staði – takk fyrir okkur elsku fjölskylda og vinir.

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

SATURDAY

AÞENA RÖFNOUTFITPERSÓNULEGT

Sumarið er loksins mætt til Malmö og við fjölskyldan nutum veðurblíðunnar í dag. Við röltum niður í bæ – eða ég rölti með vagninn og Arnór leigði sér rafmagnshlaupahjól. Þessi hjól eru úti um alla borg, maður leigir þau með appi og skilur svo eftir hvar sem manni sýnist, fyrir utan heima hjá sér þess vegna. Algjör snilld, sérstaklega fyrir fótboltamann sem er að spila leik á morgun :-) Seinni partinn fór ég svo á æfingu með nokkrum kærustum og eiginkonum úr liðinu. Við æfum saman utandyra tvisvar í viku með styrktarþjálfara frá Malmö. Ég er að fara mjög rólega af stað en það gerir ekkert smá mikið fyrir mig að vera byrjuð að sprikla smá á ný.

Outfit dagsins:

Kápa: HOPE Stockholm
Kjóll: Ganni
Skór: Louis Vuitton
Sólgleraugu: Han Kjobenhavn Aþena Röfnin mín. Tjúllast yfir þessu dressi frá Petit.is <3

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

WISHLIST

ONLINE SHOPPINGÓSKALISTINNSNEAKERS

 

 

Ég tók saman lista af hlutum sem mér finnast fallegir þessa stundina. Það verður að viðurkennast að ég hef ekki verið sú metnaðarfyllsta í að setja saman outfit og stæla mig upp síðustu vikurnar, enda nóg að gera að hugsa um Aþenu Röfn og svo er líka skemmtilegra þessa dagana að dressa hana! En hérna eru nokkrir hlutir sem ég gæti hugsað mér að klæðast í sænska sumrinu.

Eyrnalokkar: Maria Black // Húrra Reykjavík – hér

Buxur: Acne Studioshér

T-shirt: Heron Preston // Húrra Reykjavík – hér

Gleraugu: Mig langar svo í ný gleraugu og þessi umgjörð er klassík frá Oliver Peoples. Ég hef ekki hugmynd um hvort hún fari mér en eitthvað í þessum dúr heillar mig þessa stundina. – hér

Skór: JW Anderson x Converse. Ég elska glimmer, ég elska Converse og ég elska neon. Þessir skór eru eiginlega hannaðir fyrir mig! – hér

Töskur: Simon Miller bucket bag – hér

Andrea Röfn

AÞENA RÖFN

AÞENA RÖFN

Takk takk takk fyrir viðbrögðin við síðustu færslu. Fæðingarsagan er klárlega persónulegasta færslan sem ég hef sett hérna inn og það er yndislegt hvað ég hef fengið góð viðbrögð og fallegar kveðjur í kjölfarið!

Dóttir okkar hefur fengið nafnið Aþena Röfn Arnórsdóttir

Fljótlega eftir að við vissum kynið fórum við Arnór að hugsa um nafn á dóttur okkar. Ég vissi að mig langaði að halda Röfn nafninu í fjölskyldunni þar sem mér þykir óendanlega vænt um það nafn. Þegar ég var skírð Röfn voru aðeins tvær aðrar Rafnir, þar af ein þeirra náskyld frænka mín. Lengi vel vorum við þær einu sem báru nafnið, en dag eru 31 Rafnir samkvæmt Íslendingabók, og Aþena Röfn því sú 32. í röðinni. Þar sem nafnið er heldur óalgengt hafa því í gegnum tíðina fylgt margar spurningar út í hvaðan það kemur og hvaða merkingu það hefur. Nafnið er í höfuðið á afa mínum heitnum sem hét Hannes Rafn og í dag á hann þrjár afastelpur og eina langafastelpu sem heita Röfn.

Aþena var síðan nánast eina nafnið sem við ræddum og í hreinskilni sagt man ég varla önnur nöfn sem komu upp í umræðuna. Nafnið hefur mikla merkingu fyrir okkur bæði þar sem við bjuggum í Aþenu og við ræðum það reglulega hvað okkur leið vel þar. Minningarnar okkar frá þessum tíma eru svo góðar og dýrmætar. Nafnið Aþena kemur úr grískri goðafræði en Aþena var gyðja skynsemi og handiðnar, auk þess sem hún var stríðsgyðja. Daginn fyrir fæðinguna leitaði ég uppi merkingu nafnsins í fyrsta sinn og minnti mig svo á í gegnum fæðinguna að lítil stríðsgyðja væri á leiðinni í heiminn og við myndum gera þetta saman, ég og hún. Ég og Aþena Röfn.

Við fengum síðan ótrúlega fallega gjöf frá AGUSTAV eftir fæðinguna – ALIN, mælieiningu í fæðingarlengd. Alin er úr gegnheilum við, með áletruðu nafni, fæðingardegi, þyngd og fæðingartíma grafið í hliðina. Ég er svo ástfangin af þessari hönnun og finnst þetta fullkominn gripur til að varðveita þessar dýrmætu upplýsingar um Aþenu Röfn. Planið er svo að hengja Alin upp á vegg ásamt myndum af henni nýfæddri. Hér getið þið séð meira um Alin sem er falleg hugmynd að sængur- eða skírnargjöf. Á síðunni er svo að finna fleiri vörur frá AGUSTAV – ég er hrifin af svo miklu fleiru frá þeim og efst á mínum óskalista eru speglarnir þeirra og bekkur í anddyrið.    

Aþenan mín. Röfnin mín.

<3

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

HALLÓ HEIMUR – FÆÐINGARSAGA

AÞENA RÖFNPERSÓNULEGT

Dóttir okkar kom í heiminn í Malmö þann 20. febrúar eftir 41+5 daga meðgöngu. Hún vó 3585 grömm og var 50 cm. Hjörtun okkar hafa stækkað margfalt síðan þá og hún hefur fyllt líf okkar af eintómri hamingju og ást síðustu 6 vikurnar.

Ég er búin að byrja á þessari færslu allt of oft og hafa skjalið opið í næstum því tvær vikur án þess að ná að klára eða vera nógu sátt með textann. Hvernig nær maður að koma þessari upplifun í orð? Fæðingarsagan mín finnst mér vera svo miklu meira en bara það sem gerðist á fæðingardeildinni eftir að ég fór af stað. Aðdragandanum fylgdi mikil spenna og óvissa þar sem fótboltinn hjá Arnóri spilaði stóran sess.

Síðast þegar ég bloggaði, 8. febrúar, var settur dagur runninn upp. Daginn eftir kom Arnór heim frá Spáni þar sem hann hafði verið í æfingaferð í 10 daga. Á meðan hann var í burtu var mamma hjá mér, vafði mig í bómull og við pössuðum að gera ekki of mikið á hverjum degi svo ég færi nú ekki af stað. Þrátt fyrir að algengt sé að ganga lengra en 40 vikur með fyrsta barn gátum við með engu móti vitað hvernig það yrði í okkar tilfelli og til öryggis vorum við með tímasetningar á hverju einasta flugi frá Spáni á kristaltæru, þennan tíma sem hann var í burtu. Léttirinn við að fá Arnór heim var rosalegur. Þá vorum við svo handviss um að ég færi af stað hvað og hverju, fyrst okkur tókst að komast í gegnum þessa æfingaferð áfallalaust. Hérna í Svíþjóð eru konur helst ekki settar af stað fyrr en sléttum tveimur vikum eftir settan dag, ef allt er í standi og konunni líður vel. Mér leið ótrúlega vel undir lok meðgöngunnar og hefði þess vegna getað verið ólétt í nokkrar vikur til viðbótar (segi ég núna!). En tíminn leið og ekkert bólaði á dótturinni sem naut sín voðalega vel í móðurkviði. Arnór spilaði heimaleik við Chelsea í Evrópudeildinni 14. febrúar og á þeim tímapunkti voru báðir foreldrar okkar beggja öll hérna úti. Talandi um hentuga tímasetningu fyrir barnabarnið að koma í heiminn. En áfram lét hún bíða eftir sér, fram yfir afmælið mitt þann 15. febrúar, greinilega ekkert spennandi að deila afmælisdegi með mömmu sinni.

Seinni leikurinn gegn Chelsea átti svo að fara fram í London fimmtudaginn 21. febrúar og við höfðum ekki einu sinni pælt í möguleikanum að þurfa að hafa „áhyggjur“ af honum í sambandi hvenær fæðingin færi af stað. Að sjálfsögðu vorum við ákveðin í því að Arnór færi ekki í leikinn ef fæðingin myndi lenda á sama degi. Hins vegar vildum við bæði að hann spilaði leikinn ef hann gæti. Á sunnudeginum, 17. feb, fannst okkur við komin heldur nálægt þessari dagsetningu og ákváðum því að fara upp á fæðingardeild til að kanna stöðuna á mér. Þá var ekkert að frétta, útvíkkunin 1,5 og þeim fannst engin ástæða til að setja mig af stað miðað við mína líðan. Á þriðjudeginum tókum við aftur stöðuna uppi á deild en hún var óbreytt frá sunnudeginum.

Nóttina eftir, aðfararnótt miðvikudagsins 20. feb, vaknaði ég svo um kl. 2 með verki sem duttu niður um 7 leytið. Verkirnir voru frekar óþægilegir en sársaukafullir og komu á 5-6 mínútna fresti en ég náði að dorma í gegnum þá. Þegar við vöknuðum ákváðum við þó að fara upp á deild og athuga málið og vorum komin þangað 7:50. Líkt og kvöldið áður mældist ég með 1,5 í útvíkkun. Verkirnir hins vegar fóru að ágerast það hratt að við fórum ekkert aftur heim. Við komum okkur í staðinn fyrir á fæðingarstofunni, fengum morgunmat og kaffi og tókum því eins rólega og við gátum.

Klukkan 10 var ég komin með harðar hríðir og fór í bað til verkjastillingar. Baðið var ótrúlega gott til að byrja með en svo fóru verkirnir að versna og 90 mínútum síðar fannst mér það ekki virka lengur sem verkjastilling og var orðin þreytt á hitanum. Þegar ég fór upp úr um 11:50 mældist útvíkkunin 4. Þá fékk ég glaðloft og tók hverja hríð standandi og hallandi mér fram á rúmið. Í næstu mælingu, kl. 14, mældist útvíkkunin 8. Þetta hafði því gengið frekar hratt fyrir sig og verkirnir eftir því. Þarna var ég orðin þreytt á glaðloftinu sem var hætt að virka jafn vel fannst mér. Ég þáði mænurótardeyfingu eftir að ljósmóðirin bauð mér að fá annað hvort hana eða morfín. VÁ hvað það var góð ákvörðun, ég lofsyng þessa deyfingu sem gjörsamlega bjargaði mér á þessum tímapunkti. Ég gat aðeins slakað á, borðað, safnað orku og spjallað við Arnór. Mér fannst þessi ákvörðun líka ‘meant to be’ þegar það var íslenskur læknir sem kom og lagði deyfinguna. 14:45 eða 45 mínútum síðar var ég komin með fulla útvíkkun. Rembingurinn hófst rúmlega klukkutíma síðar eða kl. 16 og endaði með því að ég var klippt. Klukkan 16:50 kom hún í heiminn, dóttir okkar, litla fallega og guðdómlega dóttir okkar. 50 cm og 3585 grömm. Til í þetta líf, með langar neglur og fullt af hári. Fljótlega eftir að ég var saumuð og gat sest upp fann hún svo brjóstið, sem hefur síðan þá verið hennar uppáhalds staður. Á miðnætti vorum við litla fjölskyldan svo komin heim til okkar. Þakklát, hrærð og hamingjusöm með lífið eftir mögnuðustu upplifun lífs okkar.

Eftir fæðinguna höfðu ljósmæðurnar orð á því hversu gott teymi við Arnór mynduðum í fæðingunni. Ég gæti hreinlega ekki verið heppnari og þakklátari með hann og það sýndi sig svo sannarlega í öllu þessu ferli. Daginn eftir flaug hann svo til London, spilaði þennan risastóra leik og stóð sig eins og hetja. Um kvöldið var hann kominn heim til stelpnanna sinna. Mamma var hérna á meðan en hún hafði akkurat átt flug til okkar daginn sem ég átti. Ég var lengi að ákveða hvort ég ætti að láta þetta fótboltaævintýri fylgja fæðingarsögunni en svona var þetta hreinlega og mig langar ekkert að skafa af því hversu stóran sess fótboltinn spilar í okkar lífi. Það er að sjálfsögðu hægt að hlæja að þessu í dag og ég get ekki ímyndað mér ef Arnór hefði farið með liðinu þennan miðvikudagsmorgun. En hann var aldrei á leiðinni í það flug og við vitum það bæði undir niðri. Allt er gott sem endar vel.

Fyrstu 3 dagarnir..

<3

Andrea Röfn

MEÐGANGAN: SPURT OG SVARAÐ

MEÐGANGAN

Mynd: Tóta Kristjáns www.totakristjans.com

Ég setti inn spurningaglugga í Instagram stories um daginn og hvatti fylgjendur til að senda inn spurningar tengdar meðgöngunni sem ég myndi síðan svara hér og á Instagram. Ég fékk fjöldan allan af spurningum og margir höfðu áhuga á því sama. Hérna eru helstu spurningarnar!

Settur dagur: 8. febrúar.. Í DAG

Hvar og hvenær komust þið að óléttunni? Sama dag og Arnór fór á HM! Líkaminn var búinn að „hinta“ að eitthvað væri í gangi í nokkra daga. Þannig að kvöldið áður en hann hélt til Rússlands tók ég óléttupróf og svo annað um morguninn. Þau voru bæði svo óskýr að við þorðum ekki að taka mark á þeim og kvöddumst því eftir morgunmat á Hilton án þess að vera alveg klár á því hver staðan væri. Ég tók svo annars konar próf sama dag sem var augljóslega jákvætt. Þegar Arnór var lentur í Rússlandi stoppaði ég í vegarkanti á leið í útskrift til að segja honum fréttirnar. Mér fannst þetta samt svo súrrealískt allt saman að næstu vikuna tók ég samtals 9 próf og spurði meira að segja hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni hvort það hafi einhvern tímann gerst að 9 óléttupróf væru gölluð. Þið getið ímyndað ykkur glottið sem kom á hana.

Nafnið: Langflestar spurningarnar voru hvort við værum búin að ákveða nafn á dóttur okkar. JÁ! Við erum komin með nafn og höfum eiginlega verið með sama nafnið í huga frá því að við vissum kynið. Þegar við erum bara tvö „mátum“ við það á hana og við erum enn sem komið er ákveðin með þetta nafn. Svo sjáum við hvort það passi henni þegar hún er komin í heiminn, en ég hef sáralitlar áhyggjur af því að það passi ekki. Ég býst síðan við því að við látum ekki of langan tíma líða áður en hún fær nafnið sitt, þar sem fyrstu 2-3 mánuðina verðum við bara í rólegheitum hér í Svíþjóð og fáum okkar nánustu í heimsókn. Það er ekkert svakalega spennandi tilhugsun að halda nafninu leyndu þangað til við skírum hana á Íslandi í vor/sumar.

Mun barnið læra íslensku og sænsku? Það veltur allt á því hvar við verðum búsett þegar hún byrjar að tala eða í leikskóla. Ef Arnór verður ennþá leikmaður Malmö þá munum við búa hérna áfram og allar líkur á því að hún læri sænsku til viðbótar við íslenskuna.

Fyrstu 12 vikurnar? Það var mikill áhugi um líðan mína í byrjun meðgöngunnar. Viku eftir að við komumst að óléttunni fór ég til Rússlands þar sem HM ævintýrið fór fram, þá var ég komin tæpar 6 vikur. Á öðrum degi úti byrjaði sturluð ógleði sem varði frá morgni til kvölds. Fyrst hélt ég að ég hefði tekið svona svakalega vel á því á æfingu hjá Kristbjörgu en þegar liðið var á kvöldið áttaði ég mig á því að þetta hlyti að vera ótengt þessari annars góðu æfingu. Við tóku vikur þar sem mér var óglatt 24/7 en blessunarlega kastaði ég ekki mikið upp. Að vera stödd í Rússlandi þar sem maturinn var gjörólíkur því sem ég er vön var mjög krefjandi. Ég var oft 2-3 klst að koma mér af stað á morgnanna, var við það að líða út af á Ísland-Nígería og náði alls ekki að njóta eins og mig langaði. En þrátt fyrir þetta lít ég á HM sem eitt það magnaðasta sem ég hef fengið að upplifa enda umkringd yndislegum hópi af gullkonum. Eftir HM fórum við nánast strax heim til Malmö og áfram hélt ógleðin, en ég var þó í mínu umhverfi og gat borðað meira. Á 11-12 viku fór þetta ástand svo að líða hjá.

Hvernig sögðuð þið foreldrum ykkar? Okkur langaði að segja þeim í persónu og þar sem Arnór var farinn til Rússlands ákváðum við að bíða með að segja þeim þangað til eftir HM. En þegar ógleðin byrjaði var hún það slæm að við gátum ekki staðið í neinu leikriti og sögðum þeim á Facetime þegar ég heimsótti Arnór á hótelið í Volgograd. Allt öðruvísi en við höfðum hugsað okkur en það var ótrúlega gott að vera loksins búin að segja þeim.

Netverslanir með barnaföt sem senda til Íslands? Mín uppáhalds verslun heima og á netinu er Petit.is. Fyrir utan hana hef ég pantað nokkrum sinnum af Babyshop.com og mæli líka mikið með þeirri netverslun.

Cravings á meðgöngunni? Mjólkurvörur! Alla meðgönguna hef ég verið sjúk í nánast allar mjólkurvörur, morgunkorn með mjólk, jógúrt, skyr, rjóma og ég veit ekki hvað. Það væri aðeins hentugra craving ef ég væri ekki með mjólkuróþol. Annars hef ég líka fengið alls kyns mini cravings í stutt tímabil, aðallega í appelsínur, epli og perur.

Ertu búin að æfa eitthvað á meðgöngunni? Ég æfði lítið sem ekkert á meðgöngunni og var ekkert að stressa mig á því. Áður en ég varð ólétt var ég í sæmilegri æfingarútínu en hef oft verið í miklu meiri rútínu. Við fórum mjög mikið í golf í sumar og haust sem gaf mér ágætis hreyfingu og svo labba ég mjög mikið. En fyrir utan það kallaði líkaminn minn hreinlega ekki á hreyfingu og ég hlustaði á hann.

Ertu í sambandi við einhverjar aðrar mömmur í Malmö? Því miður klikkaði ég alveg á því að koma mér í samband við aðrar mömmur hérna úti. Hins vegar á ég tvær vinkonur hérna sem tengjast fótboltanum sem eiga stráka, 6 mánaða og 3 mánaða, þannig við munum eflaust vera mikið saman með börnin.

Ég fékk svo góða vinkonu í heimsókn frá Kaupmannahöfn í síðustu viku þegar ég var gengin tæpar 39 vikur. Tóta Kristjáns, www.totakristjans.com, er algjör snillingur með myndavélina og festi svo dýrmæt moment á filmu. Ég ætla að gera sér bloggfærslu með myndunum, en ég má til með að mæla með henni fyrir þá sem eru búsettir í Köben eða nærumhverfi og eru að leita sér að ljósmyndara fyrir hin ýmsu tilefni.

Annars finnst mér alltaf gaman að fá spurningar á instagram út í meðgönguna og bara lífið sjálft! Endilega fylgið mér þar og ekki hika við að senda á mig ef það er eitthvað sem þið eruð forvitin um.

instagram: @andrearofn

Andrea Röfn

HEIMA: DRAUMAMOTTAN

HEIMA

Loksins, loksins, er hún komin heim til sín, elsku tyrkneska mottan mín. Já og loksins, loksins, er þessi bráðabirgða farin! Ég er búin að hafa augun á þessari mottu í langan tíma en það var eins með hana og allt annað hjá mér, ég þarf alltaf að hugsa hlutina fram og til baka nokkrum sinnum áður en ég tek ákvörðun. Mottan heitir GRI og er frá Kara Rugs sem flytur inn guðdómlegar tyrkneskar mottur, bæði hand- og vélargerðar. GRI passar fullkomlega hér inn og litirnir á henni, sófanum og sófaborðinu spila fallega saman. Snilldin við þessi kaup er sú að við gátum brotið mottuna saman og pakkað henni í ferðatösku sem mamma kom svo með hingað út.

Ég ætla að leyfa myndunum að tala sínu máli..

     

Fleiri mottur eru væntanlegar til Kara Rugs og þið getið skoðað úrvalið á instagram: @kararugs

Sófinn og sófaborðið eru bæði frá Bolia.com

Andrea Röfn

2018 MOMENTS

ANDREA RÖFNPERSÓNULEGT

Árið sem var að líða var viðburðaríkt, svo vægt sé til orða tekið, og það allra besta hingað til. Þetta var stórt ár hjá okkur Arnóri og okkar nánustu, fullt af uppákomum og stórum stundum. Allar þessar stundir eru festar á rafræna filmu og geymdar vel í tækjunum okkar, en það er svo auðvelt að gleyma sér og taka sér ekki tíma til að líta yfir farinn veg og rifja þessi moment upp. Hér er ég með fullkominn miðil til að rekja árið í máli og myndum – fyrir mig og mína og öll ykkar sem hafið áhuga á.

Nýtt heimili

Við fluttum til Malmö fyrir sléttu ári og við tók búseta á hóteli á meðan íbúðaleit stóð. Að lokum fundum við draumaíbúðina okkar í fallegu fjölskylduhverfi í göngufæri við miðbæinn. Á þessu eina ári erum við búin að koma okkur vel fyrir og eiga ógleymanlegan tíma hérna, sérstaklega á svölunum sem eru klárlega okkar uppáhalds staður á heimilinu eins og fylgjendur mínir hafa eflaust tekið eftir. Meira HÉR.

Útskrift

Ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í febrúar eftir 3 og hálfs árs nám. Um kvöldið hélt ég svo party og fagnaði með vinum og fjölskyldu. Það toppaði daginn að fá betri helminginn fljúgandi frá Florida þar sem hann var í æfingaferð og náði því að fagna áfanganum með mér og mínum nánustu. Meira HÉR.

HM í Rússlandi

Þessari minningu er erfitt að koma í orð. Tilfinningin þegar Arnór var valinn á HM var ólýsanleg, hvað þá að sjá og upplifa heimsmeistaramótið í heild sinni. Félagsskapurinn var af allra bestu gerð og dýrmæt vinkonusambönd mynduðust á meðan við eltum liðið til þriggja borga í Rússlandi. Endilega lesið HM færslurnar – nr. 1 HÉR og nr. 2 HÉR.

Á þessum tíma var ég að vísu nýbúin að komast að því að ég væri ólétt og á öðrum degi ferðarinnar hófst sturluð ógleði sem varði frá því ég vaknaði og þangað til ég lagðist á koddann á kvöldin. Þetta setti sitt strik í reikninginn enda erfitt að vera ekki í sínum þægindaramma og kunna ekkert á matinn í landinu. Þannig nú get ég játað að vínglösin sem sáust á myndum úr ferðinni eru fengin að láni eða einfaldlega full af trönuberjasafa og sódavatni :-)

9 óléttuprófum síðar

Sama dag og Arnór hélt til Rússlands með landsliðinu komumst við að því að ég væri ólétt. Næstu vikuna pissaði ég á 9 óléttupróf því mér fannst þetta eitthvað svo óraunverulegt og fannst jafnvel líklegt að öll prófin væru gölluð, að þau sýndu vitlausa niðurstöðu (lol). Ég ætla að skrifa sér færslu um meðgönguna frá byrjun til enda en hér eru nokkrar myndir.

Mamma sextug

Þann 7. október fagnaði mamma mín sextugsafmæli sínu. Veisluna hélt hún á Port 9, okkar uppáhalds vínbar, en ég fékk mjög mikið af spurningum út í staðinn þegar ég setti nokkrar myndir í story úr veislunni. Við fjölskyldan gáfum henni svo golfbíl í afmælisgjöf, þar sem hún og pabbi spila mikið golf og geta keyrt á honum úr bústaðnum á golfvöllinn í sumar.

Eruð þið annars að sjá hvað þessi sextuga kona er stórglæsileg? Ég á henni mikið að þakka og get ekki beðið eftir því að sjá hana rúlla upp ömmuhlutverkinu.

It’s a girl!

Í heilan mánuð héldum við kyninu á litlu dömunni leyndu. Eins og ég skrifaði í færslunni HÉR, sem er mesta stríðnisfærsla sem ég hef nokkurn tímann sett hérna inn (sorry!), langaði okkur að greina frá kyninu í návist okkar nánustu eftir að hafa tilkynnt nánast öllum um óléttuna í gegnum facetime. Tækifærið gafst loks í landsliðsfrítíma í október og ég er ótrúlega ánægð að hafa átt þetta moment með okkar fólki. En guð, ég held ég muni aldrei aftur nenna að halda svona leyndarmáli jafn lengi. Fleiri myndir HÉR.

Babyshower

Vinkonur mínar komu mér á óvart í desember með óvæntri babyshower veislu. Ég hélt ég væri á leiðinni í indverskan og kosykvöld með fáum vinkonum en á móti mér tóku mun fleiri, enginn indverskur en í staðinn dásamlegar veitingar og gjafir. Arnór hafði skipulagt þetta með þeim bakvið tjöldin og var meira að segja búinn að kaupa stóru gjafirnar frá þeim hérna í Malmö. Ég mun lifa svo lengi á þessari minningu, þetta var fyrsta óvænta veislan sem hefur verið haldin fyrir mig og ég skemmti mér svo vel!

Trúlofun

Arnóri tókst að toppa árið, sem ég hélt að yrði ekki toppað, með bónorði 22. desember í fullkomnu sólsetri. Eins og með margt sem gerðist á árinu 2018 er ég ennþá hálf orðlaus yfir þessu. Minning sem mun lifa að eilífu. Hann fullkomnar mig og sér til þess að ég sé hamingjusamasta kona í heimi á hverjum einasta degi. Það er enginn spenntari fyrir litlu dömunni en hann og ég veit að pabbahlutverkið verður sniðið honum á alla vegu. Svo er ég handviss um að stelpan okkar verður algjör pabbastelpa. Meira HÉR.

Florida

Árinu var slúttað í golf- og fjölskylduferð til Florida þar sem við fögnuðum jólum og áramótum. Þið sem fylgist með mér á samfélagsmiðlum hafið eflaust tekið eftir því hvað við Arnór erum með mikla golfdellu, þá sérstaklega hann, og því nutum við þessa frís í botn. Að vísu gat ég ekki spilað, líkaminn hefur ekki alveg þrek í slíkt þessa dagana, en í staðinn spiluðu hinir tvöfalt og ég keyrði golfbílinn í staðinn. Dýrmætt frí með fjölskyldu og vinum í sól og hita.

Vinir og fjölskylda..

2018 var síðan fullt af góðum stundum með vinum og fjölskyldu. Við fengum fjölmargar heimsóknir til Malmö og ég heimsótti Ísland þónokkrum sinnum. Þegar maður rennir yfir myndir frá árinu ýtir það enn frekar á mann að halda áfram að vera duglegur að taka myndir, tilefnin þurfa ekki að vera þau merkilegustu því það eru oft ljúfustu minningarnar, þegar ekkert sérstakt er á dagskrá annað en gæðastundir með góðu fólki. Hér er samansafn af alls kyns myndum með fólkinu sem ég á.

..

Megi 2019 færa ykkur hamingju og fullt af góðum minningum!

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

JÁ ♡

ANDREA RÖFNPERSÓNULEGT

Ég svíf um á bleiku skýi þessa dagana. Við Arnór trúlofuðum okkur þann 22. desember eftir fullkomið bónorð í sólsetrinu. Auðveldasta JÁ lífs míns. Ég myndi segja já við hann á hverjum degi og hverja einustu stund svo lengi sem ég lifi. Framtíðin ber margt í skauti sér hjá okkur og við ætlum að byrja á nýju hlutverki strax í febrúar þegar dóttir okkar kemur í heiminn. Lífið er fallegt og ég er hálf orðlaus akkurat núna ♡

// We got engaged on Dec 22nd after the perfect proposal in the sunset. The easiest YES of my life. Next up is taking on a new role as parents when our daughter enters the world in February ♡

Annars er staðan svona núna. Hiti, sól og sólsetur í Florida með fjölskyldunni. Nóg af golfi en ég með 34 vikna bumbuna læt mér nægja að keyra golfbílinn þessa dagana!

// Status these days. Sun and sunsets in Florida with the family. A lot of golf, and a lot of driving the golf cart for me and the 34 week baby bump!

Gleðilegt nýtt ár elsku lesendur og takk fyrir þau gömlu. Njótið kvöldsins í faðmi fólksins ykkar!

Happy new year! 

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram @andrearofn