fbpx

AÐ KLÆÐA SIG Á MEÐGÖNGUNNI

MEÐGANGANOUTFIT

Ein af áskorunum þess að fylgjast með líkamanum sínum stækka með hverri vikunni er að á sama tíma fækkar þeim flíkum í fataskápnum sem passa. Það gefur auga leið að flestar ef ekki allar buxurnar manns þurfa að bíða betri tíma og margir bolir fara að líta hálf skringilega út á manni.

Hingað til hef ég keypt mér afar lítið af meðgöngufatnaði. Mér var bent á góðar meðgöngugallabuxur í Tvö Líf, eitthvað sem ég hélt að ég myndi mögulega aldrei kaupa mér, heldur bara vinna með teygju-trixið (hárteygju í gegnum tölugatið og svo teygja hana yfir töluna sjálfa, haha) á mínar eigin gallabuxur. En guð, ég er svo ánægð með þessar gallabuxur og eftir að ég keypti þær hef ég getað notað miklu meira af mínum ‘venjulegu’ flíkum sem passa ekki endilega við æfingabuxur eða leggings, eins og skyrtur og peysur. Til viðbótar við gallabuxurnar hef ég keypt mér sokkabuxur og gjafahaldara sem ég er þegar farin að nota. Þá eru öll meðgöngufötin upptalin.

Þessa ullarpeysu frá Hildi Yeoman hef ég notað mörgum sinnum í viku síðan ég fékk hana að gjöf frá Hildi. Hún er svo fallega sniðin og stækkar með bumbunni, ég mun nota hana fram á síðasta dag meðgöngunnar og að sjálfsögðu þegar barnið er komið í heiminn <3 Peysan fæst einnig í fleiri fallegum litum – meira hér. Gallabuxurnar fást síðan hér.

 1. Nike æfingabuxur – voru mjög góðar fram að sirka 20. viku eða þangað til þær fóru að þrengja of mikið að – fást hér en buxurnar fékk ég að gjöf frá H verslun. Dúnvestið er gjöf frá 66°North og er mikið notað þessa dagana – fæst hér.
 2. Blanche ss18 pils úr teygjanlegu gallaefni
 3. Meðgönguflík lífs míns, sem er samt ekki meðgönguflík, samfestingur frá uppáhalds Mads Nørgaard. Glöggir lesendur muna kannski eftir því þegar ég klæddist honum í opnun Húrra Reykjavík women 2016. Ég hef varla farið úr honum síðustu vikurnar!
 4. & 5.  Kjólinn fann ég í Lindex og hef notað hann óspart undir peysur, hettupeysur eða bara einan og sér – fæst hér. Ég bjóst við því að eignast fullt af svipuðum kjólum og nota þá mikið á meðgöngunni en ég hef ekki fundið marga sem ég fíla enn sem komið er.

Mér finnst engin nauðsyn að eignast of mikið af fötum sem ég get notað í svona takmarkaðan tíma. Að sjálfsögðu eru ákveðnar flíkur praktískari en aðrar og þá hef ég ekkert á móti því að kaupa mér þær, til dæmis ef þær gera það að verkum að ég get parað þær við meira af því sem ég átti áður. Svo finnst mér nú líklegt að þegar ég stækka enn meira og ef ég passa varla í neitt sem ég á muni ég kaupa mér nokkrar meðgönguflíkur. Ég ætla að taka saman smá óskalista og birta hérna á blogginu á næstu dögum sem mun innihalda bæði meðgönguföt og önnur föt sem gætu hentað vel á meðgöngunni.

Annars þótti mér ótrúlega vænt um viðbrögðin við síðustu færslu bæði hér og á instagram. Ég fékk fullt af skilaboðum og alls kyns hugmyndum og hvatningu sem mun klárlega skila sér á mína miðla hér eftir.

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

25 VIKUR & PERSÓNULEGAR PÆLINGAR

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

 1. Fanney Ingvars

  2. November 2018

  Ég tengi svo ólýsanlega við hvert orð. Þetta er nánast eins og talað úr mínum munni á meðgöngunni, pínu fyndið haha. Mest notuðu buxurnar mínar voru einmitt þessar svörtu meðgöngubuxur úr Tvö líf sem ég var svooo fegin að finna. Ég man að ég varð oft svo þreytt á að geta ekki klætt mig í mín venjulegu föt og sérstaklega undir lokin. Seinustu vikurnar kom alveg stundum smá bugun yfir mig bara út af fatnaði. Mér fannst ég alltaf eins klædd og svo þegar maður er orðin stór og þreyttur nennir maður heldur ekki að klæðast neinu öðru en því allra þægilegasta. Svo er svo fyndið að hugsa um þennan tíma í dag því að orðið “bumbusakn” er eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei láta út úr mér eftir að dóttir mín kom í heiminn, en ég finn alveg fyrir því stundum. Eins finnst manni ekkert í heiminum fallegra en óléttar konur, sama hvernig þær eru klæddar. Þetta er mikil áskorun fyrir “tískukonur” varðandi klæðaburð og ég tengi ótrúlega við það – þú ert allavega búin að rokka þennan part hingað til! Njóttu þessa tíma því áður en þú veist af verður kraftaverkið komið. <3

  • Andrea Röfn

   5. November 2018

   <3