fbpx

LJÓSIN SEM MIG LANGAR AÐ SAFNA…

HönnunKlassíkÓskalistinn

Ef það er eitthvað sem ég fæ aldrei nóg af þá eru það fallega hönnuð ljós – skartgripir heimilisins eins og ég kýs að kalla það. Fallegt ljós getur algjörlega umbreytt heimilinu og gert stemminguna ómótstæðilega, því fleiri falleg ljós því betra. Loftljós, borðlampar, vegglampar, gólflampar… Ég á auðvelt með að láta hugann reika að fallegum ljósum sem ég hef áhuga á að eignast í safnið mitt sem nú þegar inniheldur nokkur klassísk ljós úr hönnunarsögunni sem munu fylgja heimilinu mínu um ókomna tíð. Ég tók saman mín uppáhalds ljós úr versluninni Lumex sem sérhæfir sig í ljósum og lýsingarhönnun og langar mig að deila þeim með ykkur. Nokkur “íkon” má finna á listanum en ég heillast mikið af klassískri hönnun sem stenst tímans tönn – sumir safna listaverkum, ég safna ljósum ♡

Flos – IC

Hönnuður : Michael Anastassiades, 2014

“IC línan er innblásin af hreyfingu mismunandi efna og jafnvægi þeirra á milli. Þau eru stílhrein, einstök hönnun nánast eins og skúlptúr. Ljósin eru úr handblásnu gleri og veita góða almenna birtu.” IC er eitt af minni uppáhalds hönnun, ég er með tvö IC loftljós á mínu heimili sem ég elska og gæti hugsað mér að bæta við fleirum.

Nuura – Liila

Hönnuður : Sofie Refer, 2018

“Stílhrein og falleg skandinavísk hönnnun þar sem einfaldleikinn fær að njóta sín. Kúpullinn er handblásinn og innrammaður með  möttum málm hring. Ljósið veitir mjúka, almenna stemmingslýsingu og prýðir vel vegg eða loft.” Mjög skemmtileg lýsing sem kemur frá þessu og verður hálfgert listaverk á veggnum.

 

Model 2065

Hönnuður : Gino Sarfatti, 1950

“Stílhreint, sporeskjulagað ljós svífur í loftinu og dreifir hlýrri, náttúrulegri og jafnri birtu um rýmið. Gino Sarfatti er þekktur fyrir tilraunastarfsemi með form og efnisval. Þetta ljós engin undartekning og hér er léttleikinn er undirstrikaður.

Ljósið var upprunalega hannað fyrir ítalska lýsingarfyrirtækið Arteluce í eigu Gino Sarfatti. Barnabarn hans kom því aftur á markaðinn í samvinnu við Flos sem keypti réttinn á verkum Sarfatti fyrir aldamót.” Þau gerast varla klassískari en þetta ljós, hrikalega smart en látlaust á sama tíma.

Hermann Miller – Bubble lamp

Hönnuður : George Nelson, 1952

“Tímalaus og stílhrein hönnun, þar sem einfaldleikinn og efnisviður fá að njóta sín. Ljósið dreifir mjúkri birtu jafnt yfir herbergið. Hentar sem ljósgjafi í stofu, borðstofu jafnt sem anddyri.” Þetta ljós er mjög ofarlega á listanum þessa stundina – algjör klassík sem ég gæti hugsað mér í svefnherbergið – barnaherbergið.

Flos – 265

Hönnuður : Paolo Rizzatto, 1973

“Einstakt veggljós með snúru, hreyfanlegum armi og skermi með slökkvara sem hægt er að snúa í 360 gráður. 265 lampinn er með beinni lýsingu, góðri vinnulýsingu og er því tilvalinn í stofuna eða svefnherbergið sem dæmi.” Hrikalega smart vegglampi sem fer öllum heimilum vel.

Mirror Ball

Hönnuður : Tom Dixon, 2002

“Þetta stílhreina ljós sækir innblástur frá íkoníska formi geimfarahjálsins ásamt diskókúlum. Spegilsáferð ljóssins endurspeglar umhverfið sem það er staðsett í.” Ég er með Mirror Ball silfur í svefnherberginu núna en þetta gyllta er algjör draumur.

Astep – Model 548

Hönnuður : Gino Sarfatti, 1951/2013

“Íkonískur borðlampi frá Sarfatti og hið mesta stofudjásn. Hér fær einfaldleikinn og jafnvægi á milli forma að njóta sín í samspili við einstaka birtu. Model 548 er endurútgáfa á upprunalegu hönnuninni frá Gino Sarfatti, fyrir ítalska lýsingarfyrirtækið Arteluce árið 1951. Barnabarn hans kom Model 548 aftur í framleiðslu með LED lýsingu, ásamt öðrum ljósum eftir Sarfatti í samvinnu við Flos sem keypti réttinn á verkum hans fyrir aldamót.” Hvað er hægt að segja meira um þennan lampa en VÁ!

Flos – Snoopy

Hönnuður : Achille & Pier Giacomo Castiglioni, 1967

“Einn af þekktari lömpum hönnunarsögunnar. Castiglioni bræðurnir fengu innblástur af ástkæra teiknimynda karakterinum Snooby. Borðlampinn er með beina lýsingu og dimmer. Tilvalið sem stofudjásn eða í svefnherbergið.” Snoopy er gífurlega eftirsóttur og prýðir reglulega blaðsíður hönnunartímarita, hrikalega smart.

Flos – Taccia

Hönnuður : Achille & Pier Giacomo Castiglioni, 1962

“Einn af þekktari lömpum hönnunarsögunnar. Castiglioni bræðurnir fengu innblástur af ljósakrónu á hvolfi. Dimmanlegur borðlampi með óbeina lýsingu en hægt er að staðsetja kúpulinn að þörfum hvers og eins.” Taccia er eins og fullkomið listaverk, algjörlega ómótstæðilegur.

DCW éditions – Mantis BS2

Hönnuður : Bernard Schottlander, 1951

“Árið 1952 sækir Bernard Schottlander innblástur frá listaverkum eftir Alexander Calder. Bernard sýnir léttleika, lífræn form og hreyfingu með Mantis línunni.” Mantis lamparnir hafa notið mikilla vinsælda undanfarið og eru til í nokkrum útgáfum, virkilega stílhreint og smart ljós.

Foscarini – Binic

Hönnuður : Ionna Vautrin, 2010

Lítill og krúttlegur dimmanlegur lampi frá Foscarini tilvalinn í t.d. barnaherbergið eða sem leslampi og er hann fáanlegur í nokkrum litum. Ég tók einnig eftir að hann er á 50% afslætti núna í Lumex og kostar þá aðeins 15.000 kr. Sjá þetta bleika litla krútt!

Texti og myndir // frá framleiðendum og Lumex.is 

Hvert er þitt uppáhalds ljós? Ég er með augun á Bubble lampanum þessa stundina fyrir barnaherbergið en það vantar ljós þangað inn en öll hin ljósin sem ég taldi upp hér að ofan mættu rata á mitt heimili. Taccia er algjör gullmoli en svo hefur Sarfatti borðlampinn Model 548 algjörlega átt hug minn, hann er með fallegri hönnun, algjörlega einstakur, sjaldséður og svo skemmtilega litríkur.

 // Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NÝR & SÆTUR MÚMÍNBOLLI : SLEEP WELL

HönnunSamstarf
// Færslan er unnin í samstarfi við Ásbjörn Ólafsson

Hér er á ferð enn ein nýjungin fyrir múmínsafnara landsins en það er Sleep well bollinn sem var fyrst um sinn aðeins fáanlegur í Finnlandi en er núna kominn í sölu á Íslandi. Sleep Well bollinn kom á markað haustið 2019 og er hluti af True to its origins seríunni fyrir þau ykkar sem fylgist vel með Múmínmálum.

Ég hef gaman af því að fjalla um Múmínbollana og elska að sjá hvað það eru til margir ofur-safnarar sem mega ekki missa af einum bolla sem framleiddur er. Ég vel mína bolla vandlega eftir litum og safna bara þeim sem kitla extra mikið en systir mín á þó töluvert stærra safn af bollum en ég og hefur hún selt nokkra gamla múmínbolla fyrir ágætis pening svo það virðist vera einhver peningur í þessu hjá þeim sem safna fyrir alvöru haha.

P.s. Ef þú ert alvöru múmínbolla safnari þá máttu ekki láta þig vanta í þennan facebook hóp – Múmínmarkaðurinn.

Nýlega sýndi ég ykkur sumarbollann í ár sem er þó nokkuð sumarlegri en þessi – Sleep well er aðeins meira kósý fílingur en fallegur er hann.

// Um Sleep Well bollann

” Tími breytinga er runninn upp og Múmínpabbi flytur með fjölskylduna í yfirgefinn vita á lítilli eyju. Það er myrkur úti þegar þreytta fjölskyldan kemur að landi svo að Múmínpabbi tjaldar á ströndinni þar sem þau eyða fyrstu nóttinni. Múmínmamma sofnar en Múmínpabbi vakir alla nóttina og gætir fjölskyldunnar. Einungis niðurinn frá sjónum og ljóstýran frá olíulampanum veita honum félagsskap.

Múmínmamma gleymir að sjá til þess að allt sé í lagi og skilur meira að segja veskið sitt eftir á ströndinni. Þetta er mjög ólíkt henni og því telur Múmínsnáðinn þessa ferð ekki venjulegt ævintýri heldur viðburð sem muni breyta lífi þeirra. True to its origins byggir á sögunum Moominvalley in November og Moominpappa at Sea. Sögurnar litast af þeirri sorg sem Tove Jansson upplifði eftir að hún missti móður sína.”

 

 // Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FYRIR & EFTIR // GLÆSILEGT HEIMA HJÁ ÖNNU KRISTÍNU OG REYNARI

Íslensk heimili

Munið þið eftir þessari færslu um þau Önnu Kristínu og Reynar sem voru á kafi í framkvæmdum í haust? Það er aldeilis kominn tími til að sýna ykkur lokaútkomuna sem er hin glæsilegasta enda mikil smekkkona hér á ferð og hafa þau fjölskyldan skapað sér dásamlegt framtíðarheimili sem veitir svo sannarlega innblástur.

Skoðum fyrst nokkrar myndir frá framkvæmdunum – smellið á myndirnar til að skoða þær stærri. 

” allt í einu stóðum við í alveg fokheldri íbúð.”

 

Hvað hafið þið búið hér lengi? Við byrjuðum á framkvæmdunum í júlí en fluttum svo inn “korter í jól”.

Hvað er íbúðin stór? Heildareignin er 144 fm með bílskúrnum.

Segðu okkur í stuttu máli frá framkvæmdunum, hvað var það helsta sem þið breyttuð? Þetta er eiginlega meira spurning held ég hverju við breyttum ekki. Þetta var svona þessi klassíska saga, ætluðum bara að mála og setja nýtt á gólfin, og geyma restina þangað til við ættum meiri pening en enduðum á að taka allt út. Það eina sem við héldum voru fataskápurinn í hjónaherberginu og sturtuklefinn, en við gerðum bara tímabundna breytingu á baðherberginu. – Þannig til að segja í stuttu máli hvað við gerðum þá tókum við út öll gólfefni, tókum niður einn vegg til að stækka alrýmið og setja eldhúsið þangað inn. Gerðum barnaherbergi þar sem eldhúsið var. Rifum allt út úr baðherberginu nema sturtuklefann og settum nýtt þar inn en biðum með að flísaleggja það og setja nýjan sturtuklefa en það stefnum við á að gera eftir kannski 1-2 ár. Stækkuðum svo tvö hurðaop til að hafa meira flæði milli rýma og lögðum plankaparket yfir alla íbúðina. Einnig voru settir nýjar hurðar og parketlistar en okkur langar líka að setja upp loftlista en þeir munu bara koma seinna.

Og til að setja hlutina í samhengi þá má sjá hér að neðan íbúðina fyrir framkvæmdir.

Var eitthvað sem kom á óvart við framkvæmdirnar?  Í rauninni ekki. Við vorum farin að hlakka til að geta loksins hannað og tekið í gegn íbúð frá grunni, þannig við vorum alveg undir þetta búin. Kannski það eina sem kom okkur á óvart var hversu fljótt þetta vatt uppá sig og allt í einu stóðum við í alveg fokheldri íbúð.

Gerðuð þið mikið sjálf eða fenguð þið aðstoð fagfólks?  Við gerðum nánast allt sjálf með hjálp góðra vina og fjölskyldu. Eina sem við lögðum ekki í var rafmagnið en það þurfti að þræða fyrir eldhúsinu. Svo þurfti kjarnaborara til að gera gat niður í kjallarann fyrir frárensli frá eldhúsinu en nýja eldhúsið er alveg í hinum enda íbúðarinnar, á við það upprunalega.

Og að lokum myndum af heimilinu í dag sem sýna ótrúlegar breytingar og útkoman er svo glæsileg. Litavalið á veggjum og á innréttingum heilla sérstaklega mikið. 

“Auðvitað er margt sem ég hefði viljað gera ef við ættum meiri pening en við ákváðum að fara skynsömu leiðina í öllu og safna okkur fyrir hlutunum.”

Parketið er Pergo frá Agli Árnassyni. Eldhúsinnréttingin er frá Ikea en höldurnar voru keyptar á Amazon og borðplatan sem er tímabundin er keypt í Húsasmiðjunni. 

Hvað heita litirnir á veggjunum?  Á alrýminu er hinn klassíski arkitektahvítur frá Sérefni en við ákvaðum að halda því hvítu afþví eldhúsið er mjög sérstakt á litinn og leyfa þeim lit að vera smá ríkjandi. – Stelpurnar völdu svo báðar sína liti en liturinn á Andreu herbergi heitir Krickelin Dimbla frá Sérefni og liturinn á Emblu herbergi Linnea Sand. – Svo fékk ég þann heiður að nefna minn eigin lit hjá Sérefni en það er liturinn á hjónaherberginu. Hann vann ég með hjálp hennar Árnýjar hjá Sérefnum. Það er liturinn “Anna”.

Myndir : Anna Kristín Óskars 

Gerðir þú fjárhagsáætlun, ef já – stóðst hún?  Svona já og nei, við toppuðum okkur alveg með þessum kaupum og vorum því ekki með mikið á milli handanna fyrir framkvæmdirnar þannig við vorum alltaf mjög skynsöm í öllu sem við gerðum. Ég eyddi ógrynni af dögum í að keyra á milli fyrirtækja og fá tilboð. Við enduðum á að “klára” allt sem við vildum gera fyrir undir 3 milljónum og það finnst mér alveg ótrúlega vel sloppið. Auðvitað hjálpaði þarna að við gátum gert alla vinnuna sjálf með mikill hjálp fjölskyldu og vina.

Þegar þú lítur til baka, er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi?  Í rauninni ekki. Auðvitað er margt sem ég hefði viljað gera ef við ættum meiri pening en við ákváðum að fara skynsömu leiðina í öllu og safna okkur fyrir hlutunum. Með tímanum fer ég vonandi að geta bætt við nokkrum hlutum sem mig langaði að hafa eða skipta út.

Lumar þú á ráði handa þeim sem stefna á breytingar á heimilinu?  Vera ófeimin við smá liti. Þarf ekki að vera öll íbúðin en bara setja liti inn hér og þar til að poppa heimilið aðeins upp og gera það meira að þínu, – Vera einnig dugleg að fá tilboð hjá fyrirtækjum og ekki endilega stökkva á það fyrsta sem þú sérð. – Einnig tókum við allar prufur af litum á veggina og af parketinu uppí íbúð og horfðum á það í morgun-, dag- og kvöldbirtu áður en við tókum endanlega ákvörðun.

Eru fleiri framkvæmdir á dagskrá?  Við eigum í raun baðherbergið alveg eftir en við hugsuðum breytingarnar á því bara sem tímabundnar en miðað við ástandið í landinu núna grunar mig að það muni vera aðeins lengra í að við klárum það en planið var. – Einnig langar okkur að setja stein sem borðplötu á eldhúsið en hann myndi þá samt alltaf vera í svipuðum tón og platan sem við erum með núna. – Loftlistar eiga líka að koma á alla íbúðina.

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?  Ég hélt alltaf að ég væri með danskan stíl en núna sé ég að ég hallast mun meira að hinum sænska en svíarnir leyfa sér aðeins meiri lit og blanda meira saman.

Hvað er það besta við heimilið? Við erum bara ótrúlega ánægð með allt sem við gerðum en ætli breytingarnar á alrýminu standi ekki uppúr. Okkur hafði alltaf dreymt um að eiga íbúð sem væri með opnu og fallegu eldhúsi þar sem öll fjölskyldan getur verið saman. Stundirnar þegar stelpurnar sitja öðru megin við eldhúsborðið og segja okkur frá deginum á meðan við stöndum hinu megin og undirbúum kvöldmatinn… það gerist ekki mikið fullkomnara en það!

 

Takk fyrir að deila með okkur þessum fallegu myndum elsku Anna Kristín og til hamingju með glæsilega heimilið ykkar. Fyrir áhugasama þá er hægt að fylgjast betur með Önnu Kristínu á Instagram @annakristinoskar

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NÝ & SPENNANDI ÍSLENSK HÖNNUN EFTIR VÉDÍSI PÁLS

HönnunÍslensk hönnun

Nýlega sagði ég ykkur frá nýrri íslenskri vefverslun, Ramba sem býður upp á sérvaldar og vandaðar vörur fyrir heimilið – en það er ein vara sem fæst hjá þeim sem vakti sérstaka athygli mína fyrir þær sakir að hún er eftir íslenskan hönnuð og framleidd af Kristina Dam Studio.

Kristina Dam Studio leggur áherslu á einstaklega sérstök form og efnivið. Allar vörurnar frá Kristina Dam eru tímalausar og hannaðar sérstaklega fyrir skandinavíska minimalista.

Íslenski vöruhönnuðurinn Védís Pálsdóttir var í starfsnámi hjá Kristina Dam Studio árið 2017 ári eftir að hún útskrifaðist úr vöruhönnun við Listaháskóla Íslands vorið 2016. Eitt af fyrstu verkefnunum sem hún fékk hjá Kristina var að hanna spegil.

“Ég fékk algjört frelsi við hugmyndavinnuna en Kristina leiðbeindi mér svo í réttar áttir allan tímann. Einkennisorð Kristinu Dam er skúlptúrískur minimalismi og ég var með það á bakvið eyrað við gerð spegilsins auk þess sem ég sjálf heillast af einföldum geómetrískum formum í hönnun. Það var áskorun fyrir mig að hanna vöru inn í vörulínu og hugmyndaheim einhvers annars. Það var góð tilfinning að fá fyrsta eintak spegilsins í hendurnar og sjá hugmynd sem byrjaði sem skissa á blaði verða að áþreifanlegum hlut. Spegillinn hangir núna í stofunni heima hjá mér og minnir á lærdómsríkan tíma hjá Kristina í Kaupmannahöfn” segir Védís Pálsdóttir.

Smelltu hér til að skoða úrvalið frá Kristina Dam hjá Ramba.

Áfram íslensk hönnun – það er svo einstaklega gaman að sjá þegar íslenskir hönnuðir ná þessum árangri.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

40 HUGMYNDIR FYRIR GARÐINN & PALLINN

Garðurinn

Sumarið er tíminn… til að hafa það notalegt á pallinum eða í garðinum. Hér má sjá 40 hugmyndir sem veita innblástur hvernig gera megi útisvæðið aðeins huggulegra. Það má auðveldlega gera stemminguna smá notalegri með því að setja upp seríur, fallega púða/sessur á útihúsgögnin og plöntur í nokkra potta. Einnig er alltaf hægt að draga út nokkur innihúsgögn í blíðunni sem síðan eru svo færð aftur inn. Einfalt er oft best eins og sjá má hér að neðan ♡

Smellið á myndirnar í galleríinu til að sjá þær stærri –

Myndir : Svartahvitu Pinterest

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI // HEIMA HJÁ RAKEL Í SNÚRUNNI

Íslensk heimili

Það kemur fáum á óvart að það sé smekklegt heima hjá Rakel Hlín eiganda einnar fallegustu verslunar landsins, Snúrunnar. Þessi glæsilega útsýnisíbúð sem staðsett er á 6. og 7. hæð í Kópavogi með glæsilegu útsýni yfir borgina er nú komin á sölu fyrir áhugasama. Heimilið er vandlega innréttað með fallegri list og hönnunarvöru sem flestar hverjar koma að sjálfsögðu úr Snúrunni. Ballroom ljósin setja sinn svip á heimilið ásamt vönduðum lömpum og speglum sem ég er bálskotin í.

Kíkjum í heimsókn –

Listaverk eftir m.a. Kristinn Má Pálmason skreyta veggi heimilisins en þess má geta að nú stendur yfir sýning á nokkrum verkum hans í Snúrunni. Segi ykkur betur frá því innan skamms!

Myndir – Fasteignasíða Mbl.is 

Ég sé nokkra hluti á heimilinu sem sitja ofarlega á mínum óskalista… bæði skrautmuni og list. Fyrir áhugsasama um þessa glæsilegu íbúð smellið þá hér.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI // PIPARSVEINAÍBÚÐ Í TRYLLTUM LITUM

Íslensk heimili

Vá hvað ég er að elska litasamsetninguna á þessu fallega íslenska heimili sem hannað var af HAF STUDIO. Íbúðin er mjög björt og opin og aðeins glerveggir aðskilja svefnherbergið frá alrýminu sem er skemmtileg nýting á plássi og sjáið líka hvað veggurinn sem tengir forstofu við svefnherbergið nýtist vel undir skápa. Eigum við síðan að ræða eitthvað bleika flísalagða vegginn og þetta tryllta baðherbergi.

Frábærlega vel hannað heimili sem nú er komið á sölu!

Áhugasamir ættu að smella hér –

Myndir // Fasteignaljósmyndun – Mbl.is 

Algjörlega einstakt heimili, hér býr greinilega mikill smekkmaður!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

GLÆSILEGT HEIMILI INNRÉTTAÐ AF HAF STUDIO

Íslensk heimili

Skoðum í dag fallegt heimili í Urriðarholti sem innréttað er af HAF STUDIO í sínum einkennandi og eftirsótta stíl.

HAF STUDIO sá nýlega um að innrétta íbúðir við Sjónarveg í Urriðaholti. Leitast var við að hafa létt, hlýlegt og klassískt yfirbragð. HAF grár litur sem fæst hjá Sérefni er á öllum veggjum. Loft, gluggar og hurðir eru í hvítu. Lítil smáatriði eins og hurðarhúnar, höldur og ljós eru svo svört til að skerpa aðeins á heildarútliti og tengja húsgögnin betur saman við rýmin. // Myndirnar tók Gunnar Sverrisson. 

Kíkjum í heimsókn –

“Flest húsgögn eru framleidd á Íslandi af HAF STUDIO en þau hafa boðið uppá sérsmíðuð húsgögn útfrá þörfum viðskiptavina undanfarið. Þessum húsgögnum er svo blandað við aðrar þekktari mublur frá Ikea í íbúðinni.”

Innréttingar eru steingráar með svörtum höldum og hvítri quartz borðplötu.  Á gólfum er einstaklega fallegt síldarbeinsparket frá Parka. Ljósahönnun var í höndum Rafkaup. Flísar á baðherbergi eru frá Parka.”

Myndir : Gunnar Sverrisson  // Sjá nánar á Fasteignavef Vísis

Glæsileg sýningaríbúð sem gefur væntanlegum kaupendum góða tilfinningu fyrir hvernig heimilið þeirra gæti orðið. Ég er mjög hrifin af þeirri hugmynd að stílisera söluíbúðir og hér er búið að velja mildan lit á alla veggi og vandað gólfefni sem oft er erfiðasta valið hjá þeim sem eru að kaupa sér eign.

Eigið góða helgi kæru lesendur –

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

SELDI HÚSIÐ MEÐ ÖLLUM HÚSGÖGNUM OG SMÁHLUTUM

Heimili

Það hljómar sem mjög framandi hugmynd að ímynda sér að selja heimilið sitt með öllu inniföldu – þar með töldum skrautmunum, plöntum… öllu nema fötunum þínum. En það er raunin hjá norsku Coru Lucaz sem hefur það að atvinnu og ástríðu að innrétta glæsileg hús sem hún festir kaup á ásamt fjölskyldu sinni og þegar verkið er klárað þá flytur fjölskyldan með aðeins fötin sín meðferðis. Ég rakst á áhugavert viðtal hjá Bo Bedre við Coru um þetta áhugaverða ástríðuverkefni sitt þar sem hún fer yfir söguna hvernig hún komst í þennan bransa. Vissulega eru húsin fyrir mjög ríka einstaklinga, en nefnir hún að henni hafi þótt áhugavert að öll dönsk heimili sem hún skoðaði voru fyllt með danskri klassískri hönnun – svo hún tók aðra nálgun og sækir sérstaklega í ítalska og franska hönnunarklassík sem virðist falla vel í kramið hjá dönunum, því þegar hún seldi sitt síðasta heimili sló það met í fermetraverði í Danmörku.

Ég ætla að sýna ykkur fáar en vel valdar myndir sem fylgdu viðtalinu en mæli með að kíkja yfir hjá Bo Bedre og skoða betur. // Fyrir þá sem lesa ekki dönsku mæli ég með því að nota Google translate síðuna og setja hlekkinn þar inn. 

Myndir : Birgitta Wolfgang, Stílisering: Cora Lucaz

Myndir og viðtal : Bo Bedre 

Einstaklega falleg útkoma á þessu glæsilega heimili Coru og sést vel að hér er mikið vandað til verka og aðeins það allra besta valið. Algjör draumur fyrir fagurkera að sjá heimili þar sem allt frá A-Ö er úthugsað. Það vakti þó athygli mína að Cora er ekki menntuð sem innanhússhönnuður né arkitekt… einfaldlega með ansi góðan smekk!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu