fbpx

FALLEGT 25 FM HEIMILI STÍLISTA

Heimili

Þegar lítið er um gólfpláss er vandasamt að velja í hvað skuli nýta plássið svo það mætti teljast óvenjulegt þegar stærðarinnar bókahilla er frístandandi á miðju eldhúsgólfinu á þessu smekklega heimili. En mikið gefur það mikinn sjarma að leyfa bókunum að njóta sín í bland við listaverk og blómavasar tróna hátt uppi ásamt öðru punti. Um er að ræða 25 fermetra íbúð stjörnustílistans Saša Antić í Stokkhólmi. Skemmtilegt hvað heimili segir manni oft mikið um húsráðendur – þegar ég skoðaði þessar myndir fyrst var ég viss um að hér byggi einhleypur karlmaður sem starfar í skapandi geira. Fallegt og lítið heimili – kíkjum í heimsókn …

Myndir: Historiska Hem

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

MEÐ LEIKFIMIHRINGI Í STOFUNNI & FALLEGT GRÆNT ELDHÚS

Heimili

Sunnudagsheimilið er fallegt eins og þau gerast best. Við höfum líklega mörg séð myndir af þessu hrikalega smart græna eldhúsi á vafri okkar um Pinterest en heimilið í heild sinni hef ég ekki séð fyrr en nú. Stíllinn er afslappaður og skandinavískur – leikfimihringir í stofunni og mikið af persónulegum munum sem gefa heimilinu þennan skemmtilega sjarma. Ég hef reynt að sannfæra minn mann um leikfimihringi í loftið fyrir soninn, vá hvað honum finnst gaman að leika sér í svona. En hingað til hef ég ekki unnið samræðurnar – sumir eru víst ekki hrifnir af þeirri hugmynd að bora í loftið sem var haft mikið fyrir að gera svona fínt haha.

Eigið dásamlegan sunnudag – mínum verður varið í barnaafmæli og fullt hús af gestum! Ljúfa líf ♡

 

Þessi mynd! Teppið er með því allra girnilegasta sem ég hef séð, þarna sjást einnig leikfimihringirnir sem eru ekki bara skemmtilegir fyrir krakka, heldur líka dálítið smart og gera heimilið meira spennandi.

Flottur myndaveggur!

Dásamlegt grænt eldhús með marmaraborðplötu og gylltum krana. Fullkomin samsetning.

Myndir : Elle Decoration

Ég er skotin í þessu heimili! Hér gæti ég búið ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NORDSJÖ LITUR ÁRSINS 2020 // TRANQUIL DAWN

Fyrir heimilið

Þá hefur sænski málningarframleiðandinn Nordsjö tilkynnt hver verður litur ársins 2020 og er það liturinn Tranquil Dawn, hann er gullfallegur og mjúkur, grágrænn litur sem innblásinn er af morgunskýjunum. Ég er spennt að mála heima með þessum lit, algjörlega æðislegur. Fyrr í dag birtist einmitt trendspá hjá Trendnýtt fréttasíðunni okkar þar sem spáð var að myntugrænn yrði litur næsta árs, en í lok árs kemur Pantone litakerfið til með að tilkynna lit ársins 2020.

“Í upphafi nýs áratugar var litateymið hjá Nordsjö, Sikkens og hinum systurfélögunum með hugann við nýtt upphaf og möguleikann á að leggja rækt við hið jákvæða og mannlega í nánasta umhverfinu. Nýi liturinn heitir eftir dagrenningunni sjálfri; TRANQUIL DAWN. Hann er dempaður, grágrænn litur sem minnir á friðsemdina og breytilega tóna við dögun. Fagur og ljúfur.”

“Tranquil Dawn er liturinn sem gengur í gegnum allar fjórar litapalletturnar – sem við kynnum bráðlega. Þær endurspegla alþjóðlega þróun í litaumhverfinu, hvort sem er af tískupöllunum eða í hönnun og arkitektúr. Þannig eru litirnir 37 blanda af ljúfum og áherslumeiri, skapandi tónum.” Nordsjö – Sérefni. 

Myndir : Nordsjö

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég skoðaði litapallettuna hjá Nordsjö að hún á mikið sameiginlegt með mínu heimili, bleikt eldhúsið, fjólublátt í forstofunni, og grænt svefnherbergið. Tranquil Dawn er mögulega ekki svo ólíkur litnum hans Bjarts sem er framleiddur af Sérefni og valinn af mér fyrir herbergi sonar míns. Næsta verkefni er að prófa nýja litinn og sýna ykkur ♡

Ég er virkilega ánægð með þetta val, hvað finnst ykkur?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FALLEG BARNAHERBERGI HEIMA HJÁ LISTAKONU

HeimiliList

Ég hef fylgst með sænsku listakonunni Emilia Ilke í dágóðan tíma og því er sérstaklega ánægjulegt að fá að kíkja í heimsókn á fallegt heimili hennar sem staðsett er í gömlum skóla í útjaðri Stokkhólms. Listaverk Emiliu prýða alla veggi og gefa því persónulegan sjarma og stærðarinnar gluggar ásamt ljósum veggjum gera heimilið svo bjart og opið. Skemmtilegast þykir mér að skoða smáhlutina og hvernig þeim er raðað saman í grúppur hér og þar um heimilið. Svo smart!

Kíkjum í heimsókn –

Myndir // Elle Decoration – Andrea Papini. 

Fyrir áhugasama þá má lesa viðtalið í heild sinni hér.

Sjáið hvað barnaherbergin eru falleg með listaverk á veggjum og allt í barnahæð, alveg dásamlegt en þannig á þetta auðvitað að vera í herbergjum barnanna. Ég held ég láti loksins verða að því að kaupa mér plakat eftir Emilie, ég er hrifin af þessum stílhreina stíl og verkin eru ekki bara frumleg heldur líka smart.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

UPPÁHALDS VERSLUN – SEM ÉG HEF ALDREI HEIMSÓTT

BúðirFyrir heimiliðUppáhalds

Hafið þið lent í því að eiga ykkur uppáhalds verslun án þess að hafa stigið fæti þangað inn? Ég á í slíku ástarsambandi við sænsku hönnunarverslunina Artelleriet sem ég hef fylgst með í mörg ár, verslunin er staðsett í Gautaborg og opnaði fyrst dyrnar árið 2011. Nýverið gekkst verslunin undir miklar breytingar og í tilefni þess birtist innlit í verslunina hjá sænska Elle Decoration og að venju fæ ég stjörnur í augun. Sjáið þessa fegurð – einn daginn mun ég heimsækja þessa paradís fyrir hönnunarunnandann –

Myndir // Elle Decoration

Hafið þið kannski heimsótt verslunina? Ég get varla ímyndað mér að hægt sé að ganga tómhentur þaðan út. Núna hef ég vissulega ekki heimsótt Artelleriet, en verslunin Nordiska Galleriet í Stokkhólmi er mögulega á sama “leveli” vá ég elskaði þá verslun, væri áhugavert að heyra frá einhverjum sem hefur heimsótt báðar verslanir? Eru þær sambærilegar? ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

DJARFT LITAVAL Á FALLEGU HEIMILI Í DUBLIN

Heimili

Í dag kíkjum við í heimsókn á dálítið spennandi heimili utan Skandinavíu – alla leið til Dublin þar sem finna má þetta glæsilega heimili með djörfu litavali. Þrátt fyrir sterka litapallettu verður þó falleg heild þar sem skrautlegar gólfflísar prýða öll gólf ásamt því að hurðir og allir listar eru málaðir í sömu litum og veggir. Útkoman er svo sannarlega eitthvað fyrir augun og alltaf skemmtilegt að sjá nýja nálgun á hönnun heimila. Svefnherbergið er í látrausri litapallettu og er jafnframt uppáhalds herbergið mitt, það er aðeins meiri ró yfir því. Hvað finnst ykkur?

Innlitið birtist í nýju bresku hönnunartímariti Design Anthology sem fallar um list, arkitektúr, ferðalög og stíl. Ég vonast til að rekast á það einn daginn í hillum bókaverslana, ég elska að uppgötva ný tímarit.

Kíkjum á þessa litadýrð…

Anddyrið er einstaklega skemmtilegt, skrautlegar gólfflísar og blómaveggfóður á stiganum. Blái liturinn er svo notaður til að gefa rýminu aðeins meiri dýpt.

Við erum ekki vön að skoða írsk heimili hér á blogginu, en þau eru ekkert ósvipuð þeim bresku sem þekkt eru fyrir að fara ótroðnari slóðir en þau sænsku t.d. og taka meiri áhættu þegar heimilin eru innréttuð. Þetta hér er gott dæmi þrátt fyrir að vera í það mesta þegar kemur að skrautlegum stíl.

Myndir // Design Anthology // Barbara Corsico

Hönnunin var í höndum Kingston Lafferty Design stofunnar – ef þið viljið vita meira um þetta heimili og hönnunina smellið þá hér. Rétt upp hönd sem væri til í svona litadýrð á heimilið!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÓMÓTSTÆÐILEGT STELL FRÁ BITZ

Fyrir heimiliðUppáhalds

Ég má til með að deila með ykkur nýjum og fallegum myndum frá uppáhalds Bitz þar sem litagleðin ræður ríkjum. Hér hafa nokkur borð verið dekkuð upp hvert með sitt litaþema en mér þykir einnig mjög skemmtilegt að blanda stellinu saman með ólíkum litum. Ég fékk t.d. í afmælisgjöf frá systur minni í sumar stóran grænbláan disk sem er fullkominn undir fallegt salat eða einhvern aðalrétt, svo para ég það saman við svarta stóra matardiska og minni bleika diska undir forrétt (í þau fáu skipti sem ég væri með þriggja rétta mat haha). Útkoman er svo lífleg á litríku stelli og sjáið hvað maturinn verður girnilegur ….

Myndir : Bitz Living 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ANNA KRISTÍN & REYNAR: TAKA HEIMILIÐ Í GEGN FRÁ A-Ö

DIYHeimili

Ég hef undanfarnar vikur fylgst spennt með framkvæmdum hjá smekkdömunni Önnu Kristínu Óskarsdóttur og unnusta hennar Reynari Ottossyni en þau festu kaup á sinni fyrstu íbúð í sumar. Þau hafa staðið í ströngu í framkvæmdum og íbúðin er í dag orðin fokheld og heilmikil uppbygging sem tekur við – sem er jú skemmtilegasti parturinn að okkar mati!

Anna Kristín ætlar að leyfa okkur að fylgjast með framkvæmdunum frá A-Ö hér á Svart á hvítu og ég get hreinlega ekki beðið eftir að sjá fleiri myndir og einnig fá að heyra hverjar hennar hugmyndir eru varðandi val á innréttingum, gólfefnum, liti á veggjum og öllu þar á milli. Þetta verður eitthvað!

Við byrjum á því að deila með ykkur nokkrum framkvæmdarmyndum ásamt myndum af íbúðinni fyrir framkvæmdir svo við getum farið að velta fyrir okkur öllum möguleikunum sem eru ó svo margir.

Dásamleg mynd af systrunum vera að stytta sér stundir á meðan foreldrarnir vinna.

 

Anna Kristín og Reynar voru eins og svo margir föst á leigumarkaðnum í mörg ár og því var mikil gleði þegar þeim tókst að festa kaup á sinni fyrstu íbúð sem þau stefna á að flytja inn í á næstu vikum.

Anna Kristín er menntuð sem ljósmyndari og starfar við fjölbreytt verkefni ásamt því að fljúga um loftin blá sem flugfreyja. Hún er þekkt fyrir fallegan og afslappaðan stíl, oftast með kaffi í hönd & stundum kampavín. En hún kann svo sannarlega að njóta lífsins.

// Hér að neðan má sjá myndir af íbúðinni fyrir framkvæmdir. 

Hvað eruð þið búin að gera hingað til?

Við erum búin að vera á fullu að rífa niður þannig ekki mikið sem er búið að gera sem er sjáanlegar breytingar en vonandi fer að styttast í uppbygginguna svo hægt sé að sjá einhverjar breytingar. Við þurftum að taka af öllum gólfum þar sem það voru örugglega 7 mismunandi gólfefni á gólfunum, tókum niður alla skápa sem voru fyrir utan í hjónaherberginu,
tókum niður vegg sem var á milli stofu og barnaherbergis (heitir húsbóndaherbergi á teikningunni haha) og erum að færa eldhúsið þangað inn og erum núna að fræsa fyrir öllum lögnum og rafmagni í eldhúsið og fylla inní hurðagötin í aðalrýminu (stofa/eldhús).

Kom eitthvað ykkur á óvart?

Nei í rauninni ekki, við vissum þegar við keyptum þessa íbúð að þetta yrði mikil vinna og vorum alveg spennt fyrir því að geta loksins farið í framkvæmdir á okkar eigin eign.

Hafið þið getað gert mest sjálf eða þurft að nýta ykkur iðnaðarmenn?

Við erum að gera nánast allt sjálf með hjálp góðra vina og fjölskyldu. Við erum svo heppin að vera með marga yndislega iðnaðarmenn í kringum okkur sem hafa verið að rétta okkur hjálparhönd og erum við þeim óendanlega þakklát. Við þurftum þó að fá kjarnaborara til að gera gatið fyrir lögnunum frá íbúðinni okkar niður í kjallarann en það þurfti alveg risa græju í það. Svo fáum við aðstoð bæði pípara og rafvirkja í flóknustu verkin.

Hvenær stefnið þið á að flytja inn?

Það fer smá eftir við hvern er talað hahaha……. Ég sá alltaf fyrir mér að fara inn í byrjun október en Reynar segir að við ættum að gera ráð fyrir að vera komin fyrir jól. Hann er að gera mestu vinnuna í íbúðinni þannig ætli það sé ekki meira að marka hann hahaha. 

Eruð þið byrjuð að skoða innréttingar og gólfefni?

Við erum svona aðeins byrjuð og vitum hvað við viljum en við eigum eftir að kynna okkur það nánar, skoða hjá fyrirtækjum og fá tilboð. Þetta gerðist allt svo hratt og óvænt að við höfum ekki náð að setjast almennilega niður yfir það. 

Við hlökkum til að deila með ykkur fleiri framkvæmdarhugmyndum og myndum hér á blogginu ♡ Þið getið einnig fylgst með Önnu Kristínu á Instagram @annakristinoskars þar sem hún deilir í story framkvæmdum, lífinu og því sem heillar augað.

 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

KONUNGLEG SMÁATRIÐI Á GLÆSILEGU HEIMILI

Heimili

Það er nánast konunglegt heimilið sem ég deili með ykkur í dag, íburðurinn er það mikill. En mikið er dásamlegt að skoða svona falleg heimili þar sem hugsað er út í hvert smáatriði og margt sem einkennir heimilið erum við óvön þegar kemur að íslenskum heimilum. Hér býr mikill fagurkeri með nokkuð dýran smekk – en það má ekki aðeins finna hér dýrindis húsgögn og ljós, en það dugir ekkert minna en værðarvoð frá Louis Vuitton ásamt skrautpúðum frá Hermès.

En fallegt er heimilið, kíkjum í heimsókn …

Myndir : Wrede.se

Eigið góða helgi kæru lesendur ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

50 BLÁIR SKUGGAR

Heimili

Þið sem eruð heit fyrir bláum lit eigið eftir að bráðna yfir þessu heimili – sami blái liturinn fær sín notið í öllum rýmum heimilisins að undanskildu baðherberginu og sjáið hvað liturinn breytist mikið eftir birtu. Dásamlegir svona ríkir og djúpir bláir tónar, það er ekki langt síðan svefnherbergið okkar var málað í litnum Denim Drift frá Nordsjö og sá litur var svona lifandi eftir því hvort það var dagur eða kvöld.

Sjáið hvað liturinn nýtur sín líka extra vel þegar allir listar, hurðir og karmar eru máluð í sama lit. Jafnvel eldhúsinnréttingin er blá en það hentar sérstaklega vel þegar eldhús og stofa eru í sama opna rýminu, þá fellur eldhúsið betur inn í heildina og þá kemur vel út að raða saman fallegu stofupunti á eldhúsinnréttinguna og geyma í stað þess brauðrist og blandara lokað inn í skáp.

Blár draumur í dós – kíkjum í heimsókn…

Myndir : Bjurfors.se

Hafið þið áhuga á að ég finni út hvaða blái litur kæmist nálægt þessum? ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu