fbpx

SÆNSKT HEIMILI MEÐ FALLEGU BARNAHERBERGI

BaðherbergiBarnaherbergiHeimili

Í dag ætla ég að deila með ykkur þessu dásamlega fallega sænska heimili. Það er ró yfir heimilinu sem er mjög stílhreint og lágstemmdir litir einkennandi. Barnaherbergið heillar mig – en hugur minn er þar um þessar mundir ♡

Kíkjum í heimsókn –

 

Myndir : Wrede fasteignasala

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

DRAUMAMOTTA FRÁ PARKA // GJAFALEIKUR

Fyrir heimiliðSamstarf

Í samstarfi við verslunina Parka valdi ég mér nýlega mottu fyrir heimilið sem ég gæti hreinlega ekki verið ánægðari með. Stofan varð samstundis mikið hlýlegri og er núna betur afmörkuð frá borðstofunni sem er í sama rými. Mottan sem varð fyrir valinu hjá mér heitir Lana og er að hluta til úr bómull ásamt pólýester og er því mjög slitsterk og auðveld í umhirðu. Ég er mjög hrifin af stílnum og er hún smá í anda klassísku marokkósku Beni Ourain mottanna sem ég var búin að vera með augun á í lengri tíma.

Ég hef átt í góðu samstarfi við Parka, en parketið mitt er einmitt keypt þaðan (*með afslætti) og veit ég að það hefur rokið út síðan þá eins og heitar lummur – enda erfitt að finna jafn fallegt parket að mínu mati og ég gæti ekki mælt meira með því. Ítarlega færslu um parketið má finna hér – 

Núna stendur yfir gjafaleikur á Instagram síðu minni @svana.svartahvitu þar sem einn heppinn fylgjandi fær að velja sér mottu að eigin vali að andvirði 70.000 kr. í verslun Parka. Mæli með að taka þátt! ♡

Ég tók myndir af þremur mottum fyrir jól sem ég heillaðist af, birtuskilyrðin voru þónokkuð slæm á þeim tíma og því ákvað ég að smella nýrri mynd í dag af mottunni minni þar sem sólin er loksins farin að láta sjá sig. Myndirnar að neðan eru því með jólablóm í vasa en motturnar eiga það sameiginlegt að vera mjög smart. Það er til mikið úrval af gólfmottum í Parka og ættu því allir að geta fundið sér mottu sem hentar hverju heimili – mæli með að kíkja á úrvalið.

// Gjafaleikurinn er unninn í samstarfi við Parka sem gefur vinninginn. 

Ég dreg út heppinn þátttakanda á Instagram eftir nokkra daga – ekki missa af þessu ♡

Úllen, dúllen, doff – hvaða motta yrði fyrir valinu hjá þér?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

VOR & SUMAR 2020 HJÁ FERM LIVING

Fyrir heimiliðHönnun

Það flæða inn fréttir af hönnunarnýjungum fyrir vorið og nú er komið að ástsæla danska hönnunarmerkinu Ferm Living sem hefur heillað okkur undanfarin ár.

Jarðlitir, lífræn form og náttúruleg efni einkenna línuna, hér má sjá splunkuný og minimalísk húsgögn, skúlptúra og aðra fallega hluti fyrir heimilið. Ferm Living hefur tekið fagnandi hugtakinu ‘slow living’, og vilja með hönnun sinni hvetja þig til að taka skref tilbaka, hvílast og tengjast heimilinu á dýpri hátt en áður.

“Heimilið er okkar griðarstaður, þar sem hversdagsleg rútínan mætir stóru augnablikunum í lífinu, og þar sem lífið gerist. Hjá Ferm Living viljum við skapa vörur sem hjálpa þér að útbúa heimili sem segir hver þú ert.” segir m.a. um nýju línuna. 

M.a. má sjá nýja húsgagnalínu – Bevel, matarstellið Flow, Mineral glersófaborð á steini, Catena sófaeiningar, Sector vegghillur, Vuelta lampa (þessi í hillunni), minimalískt rúm/sófi í japönskum anda sem ber heitið Kona ásamt fallegum vegghönkum eftir skargripasmiðinn Helena Rohner. Það er því mikið spennandi framundan hjá Ferm Living!

Myndir : Ferm Living 

Hvernig lýst ykkur á þessa nýju línu?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

2020 NÝJUNGAR FRÁ STRING //

HönnunKlassík

String hillukerfið er klassísk sænsk hönnun frá árinu 1949 sem flestir hönnuarunnendur ættu að kannast við. Hægt er að sérsníða hillurnar svo þær henti öllum heimilum og eru því fjölmargir sem safna þessari klassísku hönnun, hvort sem það séu stakar String Pocket hillur eða heilu hillusamstæðurnar.

String kynnti núna á hönnunarsýningunni í Köln spennandi nýjungar en þar má helst nefna neon appelsínugular String Pocket sem munu svo sannarlega lífga við heimilið. Núna í fyrsta sinn koma Pocket hillurnar úr málmi, svokölluðu ‘perforated’ / götuðu stáli svo hægt er að hengja á hillurnar króka eða hengi sem hentar vel undir handklæði eða viskastykki. Mjög snjöll viðbót sem ég er spennt fyrir!

Eins og áður þá vinnur String alltaf með fremstu stílistunum að hverju sinni og eru myndirnar og uppstillingarnar alltaf jafn skemmtilegar. Ég má til með að deila þessum myndum með ykkur.

  Myndir // String.se

Fyrir áhugasama þá er það verslunin Epal sem selur String hillur á Íslandi.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

FYRIR & EFTIR HJÁ RAKEL RÚNARS // EFRI HÆÐIN

Íslensk heimili

Janúar er fullkominn mánuður í mínum huga til að byrja að skipuleggja eða skoða hugmyndir að breytingum fyrir heimilið. Hvort sem ráðast eigi í meiriháttar breytingar og lagfæringar eða einfaldlega bara að mála. Þessar myndir af breytingunum hjá Rakel vinkonu minni eiga svo sannarlega eftir að gefa ykkur góða hvatningu fyrir heimilisframkvæmdir – einmitt það sem ég þurfti að skoða til að koma mér í gang!

Rakel Rúnars er ekki aðeins ein af mínum bestu vinkonum heldur eru líklega margir tryggir lesendur sem kannast við hana frá byrjun bloggsins Svartáhvítu. Hún er verkfræðingur að mennt og mikil smekkdama og býr hér í Hafnarfirðinum ásamt Andra Ford, sjúkraþjálfara og kírópraktor (sem opnaði nýlega Kírópraktorstofuna í Kringlunni  sem ég mæli með) ásamt tveimur börnum, þeim Emil og Evelyn ♡

Skoðum ótrúlega breytingu á efri hæðinni – fyrir & eftir framkvæmdir.

Hvað hafið þið búið hér lengi? Við fluttum inn sumarið 2017 svo ca tvö og hálft ár.

Hvað er húsið stór? Í kringum 200 m2.

Segðu okkur í stuttu máli frá framkvæmdunum, hvað var það helsta sem þið breyttuð? Við tókum alla efri hæðina í gegn þar sem eru þrjú svefnherbergi, baðherbergi og sjónvarpsstofa. Við skiptum um alla glugga í húsinu, rifum panelinn úr loftinu og klæddum loftið upp á nýtt og settum innbyggða lýsingu. Endurgerðum nokkra veggi, endurnýjuðum allt rafmagn, færðum ofna til, settum nýjar hurðir og gólfefni. Létum smíða nýjan stiga og breyttum handriðinu. Við endurnýjuðum líka baðherbergið.

Var eitthvað sem kom á óvart við framkvæmdirnar? Sem betur fer ekki mikið en þó alltaf einhverjar hindranir sem þarf að leysa úr. Við ætluðum að setja hita í gólfið en platan milli hæða var ekki nægilega einangruð til að geta það og ekki möguleiki á að leysa það svo við settum bara nýja ofna í staðinn og færðum þá til. Það var léttir að sjá að loftið var allt heilt og enginn raki þar, þangað til við tókum loftið niður á baðherberginu og sáum ekki fallega hluti. Þannig það fór meiri tími og vinna í það heldur en reiknað var með í fyrstu.

Gerðuð þið mikið sjálf eða fenguð þið aðstoð? Nei við gerðum ekki mikið sjálf heldur fengum menn í verkið.

Gerðir þú fjárhagsáætlun, ef já – stóðst hún? Ég byrjaði á einhverri fjárhagsáætlun en var fljót að grafa hana. Þetta kostar að sjálfsögðu alltaf meira en maður vonar í byrjun.

Þegar þú lítur til baka, er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi? Já betra skipulag og undirbúning áður en við byrjuðum. Við ákváðum í miklu flýti að byrja verkefnið þar sem það hentaði á þeim tíma og við fengum góða menn í verkið.

Við höfðum einn dag til að tæma efri hæðina og flytja fjögurra manna fjölskylduna í herbergið á neðri hæðinni áður en það átti að byrja að rífa allt út. Svo í kjölfarið tók við mikið stress við að hanna allt, velja gólfefni, panta hurðir, ákveða flísar og allt fyrir baðherbergið. Svo þurfti að smíða nýjan stiga sem tekur sinn tíma sem tafði verkið. Ég gerði mér heldur enga grein fyrir öllu rykinu sem fylgdi og þar sem við bjuggum á neðri hæð hússins á meðan á framkvæmdum stóð hefði verið sniðugt að einangra efri hæðina betur. Ég man það næst. En maður lærir af hverju verkinu og við förum mikið betur undirbúin í næsta verkefni.

Er efri hæðin 100% tilbúin núna? Nei það vantar ennþá hurðir fyrir geymsluna sem er undir súðinni og nokkra rafmagnstengla. Þessi litlu smáatriði sem maður dregur endalaust. Svo erum við að bíða eftir gardínum (erum með bráðabirgða gardínur núna sem við áttum) og eigum eftir að finna rétta ljósið yfir stigann.

Breytingarnar á baðherberginu eru ótrúlegar!

Lumar þú á ráði handa þeim sem stefna á breytingar á heimilinu? Skipulag nr 1,2 og 3. Það þarf einnig að hafa í huga að oft þarf að panta hluti að utan sem getur tekið margar vikur og tafið verkið svo það er gott að vera tímanlega í hlutunum. Svo er þetta gríðarlegt þolinmæðisverk að standa í framkvæmdum, allt tekur meiri tíma en maður áætlar svo gott að hafa það í huga.

Hvað er næst á dagskrá? Við erum að byrja á baðherberginu á neðri hæðinni núna í febrúar. Svo höfum við nýtt sumrin í húsið að utan og lóðina og höldum því áfram í sumar.

Hvað er það besta við breytingarnar? Loftið brakar ekki lengur þegar það er vont veður og við erum blessunarlega búin að skipta út ítölsku Ticino tenglunum. Litlu hlutirnir:) 

Ó svo fallegt! Ég er að elska þessa breytingu og það verður svo gaman að fylgjast með framhaldinu♡ Ef þú ert með spurningu varðandi framkvæmdirnar eða vilt vita hvaðan eitthvað er, endilega skildu eftir komment hér að neðan og ég / eða Rakel svörum.

Takk Rakel mín fyrir að gefa mér leyfi til að deila myndunum.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

VORIÐ 2020 HJÁ H&M HOME

Fyrir heimiliðH&M home

Ég er meira en tilbúin að skoða vor & sumar línur ársins 2020 frá nokkrum vinsælustu hönnunarfyrirtækjunum og við ætlum að byrja á að skoða H&M home. Eins og áður má sjá nokkra áherslu á náttúrleg efni og lágstemmda liti og er heildarlínan mjög stílhrein en með skemmtilegum smáatriðum. Bast, viður, brass og gler – myndirnar tala sínu máli ♡

Myndir : H&M home 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

INSTAGRAM INNBLÁSTUR: LITRÍKT HOLLENSKT HEIMILI

Heimili

Hollensk heimili heilla mig alltaf jafn mikið, þau eru nefnilega oft töluvert litríkari og þónokkuð ólík skandinavískum heimilum sem ég sýni jafnan mikið frá. Hér má sjá myndir af hollensku heimili Lisanne van de Klift en hún heldur úti mjög vinsælum Instagram aðgangi sem ég mæli með að kíkja á @lisannevandeklift

  

Myndir : @lisannevandeklift

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI: DRÁPUHLÍÐ 26

HeimiliÍslensk heimili

Falleg íslensk heimili er eitt skemmtilegasta efnið sem við skoðum saman. Þetta glæsilega heimili í Drápuhlíð sem var að koma á sölu tikkar í öll box; bjart og opið með fallegum innréttingum og tala nú ekki um sérstaklega vel valda liti á veggjum svo það er líklega hægt að flytja beint inn? Kannski að láta húsgögnin fylgja líka með

Kíkjum í heimsókn –

Fyrir áhugasama þá er hægt að skoða frekari upplýsingar um eignina hér.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

GORDJÖSS INSTAGRAM TIL AÐ FYLGJA FYRIR HEIMILIS INNBLÁSTUR

Heimili

Hvað er betra á fyrsta degi nýs árs en að skoða gullfallegt heimili sem gefur góðar hugmyndir! Það eru líklega mörg ykkar sem eyðið deginum í að taka til eftir veislu gærdagsins og að taka niður jólaskrautið, það er því um að gera að íhuga í leiðinni hvort við ætlum að breyta einhverju eða bæta á heimilinu á komandi vikum / mánuðum. Þetta er fullkominn tími fyrir heimilisbreytingar, þessir rólegustu mánuðir ársins sem núna eru gengnir í garð. Ég er svo sannarlega með langan lista!

Til að sjá meira af þessu fallega heimili fylgið þá @huset_i_djupviken á Instagram.

     

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu