fbpx

BYLOVISA – EIN FALLEGASTA SKARTGRIPAVERSLUN LANDSINS

Íslensk hönnunUppáhalds
Ég fór í svo einstaklega skemmtilega heimsókn í -bylovisa- sem er falleg skartgripaverslun í Urriðaholtinu sem fagurkerinn og gullsmíðameistarinn Lovísa Halldórsdóttir Olesen rekur. Lovísa hannar og smíðar alveg ótrúlega fallega skartgripi svo eftir þeim er tekið, og hef ég margoft spurt vinkonur út í skartgripina þeirra sem hafa mjög oft verið frá Lovísu. Það er fátt skemmtilegra að mínu mati en að heimsækja skapandi fólk og fá að skyggnast á bakvið tjöldin og vonandi mun ég gera meira af því. Ég get þó ekki annað en mælt með heimsókn í Urriðaholtið til Lovísu en þar má finna ótrúlega mikið úrval af dásamlega fallegu skarti sem allt er hannað af Lovísu og er úr miklum gæðum, þar stendur Þura einnig vaktina og aðstoðar við valið með stórt bros á vör… og ef þið eruð heppin þá kíkir kisinn hann Gylfi reglulega við og sjarmar viðskiptavini uppúr skónum ♡
Ég fékk aðeins að forvitnast meira um Lovísu og nýju línuna Örk sem var að koma út, lestu lengra –
– Ö R K – tryllt ný handsmíðuð lína

Segðu okkur aðeins frá þér?

Jahá, ég heiti Lovísa, garðbæingur og menntaður gullsmíðameistari.
Ég er fagurkeri, elska að hafa fallegt í kringum mig og get dúllast endalaust í svoleiðis bæði hér heima og í búðinni. Ég opnaði bylovisa búðina í Urriðaholtinu í nóvember í fyrra en var áður heima með verkstæði og verslun, svo bylovisa er ekki eins ný og margir halda, bara meira áberandi og heldur upp á 7 ára afmæli í haust.

Getur þú lýst nýju línunni í fimm orðum?

Örk er kraftmikil, hrá og töff skartgripalína en um leið fínleg og heillandi.

Hvað er það skemmtilegasta við starfið þitt?

Úff það er svo margt – t.d. það að vera svona nálægt kúnnanum, verkstæðið mitt er fyrir aftan búðina og ég er því oft að afgreiða ásamt Þuru sem er mín hægri hönd. Ætli mér finnist samt ekki hönnunarferlið það skemmtilegasta við vinnuna mína – það getur verið ansi langt en alltaf jafn góð og nærandi tilfinning þegar heil ný skartgripalína lifnar við.

 

Hvaðan færðu innblástur?

Minn helsti innblástur er og hefur alltaf verið hversdagurinn. Auðvitað finnst mér gott að kúpla mig úr öllu svona við og við og ég finn það svo vel þegar ég þarf á því að halda og þá þarf hafið að vera nálægt mér.
Svo er það alltaf jafn magnað með haustlægðirnar… þær gefa mér svakalega orku. En hversdagurinn hann nærir mig, núið og litlu augnablikin.

Áttu þér þinn uppáhalds skartgrip sem þú tekur aldrei niður?

Ég á nokkra uppáhalds, númer eitt er giftingahringurinn minn fagri, hann er hlaðinn tilfinningum.  Og svo er það hálsmen frá Ömmu Lovísu – mjög persónulegt og tímalaust.

Hver er þinn helsti kúnnahópur?

Það eru í raun konur á öllum aldri,  mér finnst svo gaman að fá breiðan aldurshóp til mín í búðina.  Ég ætla samt að fara að huga að herralínu fljótlega.

Hvar er hægt að nálgast skartið þitt?

-bylovisa- búðin er í Vinastræti 16 í Urriðaholtinu Garðabæ, einnig erum við með öfluga netverslun bylovisa.is og svo síðast en ekki síst er ég með frábæra sölustaði víða um land – þá má finna á heimasíðunni.

Hvað er svo framundan hjá bylovisa?

Það er aldrei lognmolla hjá -bylovisa-, nýja línan okkar Örk er væntanleg á flesta sölustaði okkar í júní svo framleiðslan er í fullum gangi núna, einnig er ég að leggja lokahönd á mína fyrstu gull skartgripalínu sem ég kynni til leiks í haust. Hún er uppfull af fallegum og litríkum eðalsteinum og demöntum. Annars ætlum við að reyna að njóta sumarsins líka smá og erum að detta í sumaropnun hér í Vinastrætinu.
Takk fyrir spjallið elsku Lovísa,
Nýja línan Örk er ótrúlega falleg handsmíðuð lína þar sem margir skartgripirnir eru skreyttir perlum. Gyllt hálsmenið með perlum er ofarlega á óskalistanum mínum og er eitt það fallegasta sem ég hef séð. Það er erfitt að koma tómhent út úr þessari verslun því get ég lofað ykkur ♡ Fléttulínan er í miklu uppáhaldi, sem eru demantsskorin hálsmen og armbönd, og nældi ég mér m.a. í gullfléttu hálsmen sem er gaman að para við önnur hálsmen líka. Það er skemmtilegt hvað það er orðið vinsælt að bera nokkur hálsmen í einu og því hægt að safna úr mörgum vörulínum og skipta út eftir tilefni, það er líka svo gott að nota skartið sína hversdags og ekki aðeins við fín tilefni.

Þið sem eruð í leit að fallegri gjöf handa vinkonu eða öðrum ættuð að skoða þessa skartgripi, ég tók saman nokkra uppáhalds hér að ofan en sjáðu allt úrvalið með því að smella hér ♡

GEGGJUÐ HEIMSÓKN Í THE DARLING – KONFEKT FYRIR AUGUN

Hönnun

Á nýliðinni 3 days of design hátíð í Kaupmannahöfn – sem ég mun fara ítarlega yfir í máli og myndum í vikunni – þá heimsótti ég dásamlega fallega hönnunar gestahúsið The Darling sem staðsett er í hjarta borgarinnar. Ég hef fylgst með þeim frá opnun og heillast af glæsilegu umhverfinu þar sem klassísk dönsk hönnun prýðir heimilið ásamt danskri nútímalist og útkoman er ótrúlega falleg. Það var aðeins opið fyrir heimsóknir í einn dag og það hitti þannig á að þegar ég mætti rétt fyrir lokun var enginn í heimsókn og því fékk ég að eyða góðum tíma þar inni með eigandanum sem kynnti mig fyrir sögu The Darling og sýndi mér hvern krók og kima.

Algjör draumur sem stendur svo sannarlega uppúr frá 3 days of design. Sjáið þessa fegurð!

 

IITTALA NIVA KEMUR AFTUR EFTIR 30 ÁRA HLÉ

Hönnuniittala
Gleðifréttir dagsins fyrir safnara og Iittala aðdáendur – en hin ástsæla Niva glasalína sem hönnuð var af Tapio Wirkkala árið 1972 og var í framleiðslu til ársins 1992 er nú aftur komin í sölu eftir 30 ára hlé.
Niva línan er í framleiðslu í takmarkaðan tíma og er hún einungis til sölu í Iittala búðinni.
“Hönnuðurinn fjölhæfi, Tapio Wirkkala, hafði einstaka hæfileika til að líkja eftir fegurð norðlægrar náttúru í verkum sínum. Finnska orðið Niva lýsir straumharðri á, en það er auðvelt að sjá líkindin með vatnsstraumi á upphleyptu yfirborði glersins.”
Sjáðu úrvalið hjá ibúðinni í Kringlunni – 
Mikið eru þetta falleg glös og munu án efa fara vel við Ultima Thule glösunum sem margir safna. Dásamlega falleg hönnun sem ég hlakka til að sjá með eigin augum ♡

PAPER COLLECTIVE LEITAR AÐ ÍSLENSKUM HÖNNUÐI

UmfjöllunVeggspjöld

Ég vil endilega deila með ykkur þessari skemmtilegu samkeppni sem Paper Collective og Epal efna til fyrir alla skapandi einstaklinga – en verðlaunin eru að andvirði 300.000 kr.!

Paper Collective er danskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á plakötum eftir þekkta hönnuði, listamenn og teiknara og styða þau í leiðinni við góð málefni. Plakötin frá Paper Collective eru afar fjölbreytt og því ættu allir að geta fundið eitt við sitt hæfi. Falleg verk sem færa líf á heimilið – skoðum brot af úrvalinu.

Ert þú næsti hönnuður Paper Collective?
Epal og Paper Collective sameina krafta sína og leita að næsta íslenska hönnuði til að hanna veggspjald fyrir Paper Collective. Valin verða þrjú verk sem vinna til verðlauna. Vinningur að verðmæti 300.000 kr. Sjáðu nánari upplýsingar um samkeppnina á www.epal.is/samkeppni/

Arna Petra er ein af nokkrum sem eru núna í skemmtilegu samstarfi við Paper Collective og er að setja saman flottan myndavegg – er mjög spennt að sjá útkomuna!

BLEIK LOFT HJÁ NOTES DU NORD

Fyrir heimiliðUppáhalds

Í nýliðinni Kaupmannahafnarferð hjá okkur stelpunum var kíkt í skemmtilega heimsókn til Notes du Nord þar sem Andrea átti vinnufund og á meðan stelpurnar mátuðu allskyns föt nýtti ég tímann og skoðaði þetta glæsilega sýningarrými á Nyhavn þar sem áður var heimili en núna er heimsins fallegasta Notes du Nord.

Hér má sjá nokkrar myndir sem ég tók af heimsókninni en bleiku loftin heilluðu mig alla leið upp úr skónum. Andrea hafði sagt mér margoft frá Söru stofnanda Notes, hvað hún væri mikill fagurkeri og VÁ hún stóð aldeilis undir væntingum en hérna var allt fallegt. Bornar voru fram litlar kökur á bleikum skeljum og dásamlegir kjólar og spennandi nýjungar umluktu okkar ásamt blómum sem Sara hafði fengið úr garði nágranna um morguninn. Hvert rými var skreytt stórfenglegum vintage glerljósakrónum og upprunalegum skrautlistum og flest loftin máluð í bleikum litum sem undirstrikuðu fegurð ljósanna. Bleiki og eftirsótti Ultrafragola spegillinn prýddi forstofuna þar sem skoða mátti sig í flíkum sem voru mátaðar og auk þess var lítið gestabaðherbergi málað bleikt frá toppi til táar og útkoman var æðisleg.

Draumadagur í Köben – einn af mörgum.

Fyrir áhugasama þá fæst Notes du Nord hjá Andreu á Norðurbakkanum í Hafnarfirði, ég get hreinlega ekki beðið eftir að eignast einn hlébarðakjól sem ég skoðaði þarna en flíkurnar eru bæði kvenlegar og fallegar og efnin eru úr ótrúlega miklum gæðum. Mæli með!

HÖNNUÐIR VINSÆLA OMAGGIO HANNA ENN EINA RÖNDÓTTU SNILLDINA…

Hönnun

Muniði eftir Omaggio æðinu? Vá það voru mögulega vinsælustu blómavasar sem sést hafa á landinu og það var varla til það heimili sem skartaði ekki einum eða fleirum, það hefur þó farið minna fyrir vasanum í seinni tíð þrátt fyrir að vera klassískur og alveg standa fyrir sínu með litríkum röndum sínum. Stöllurnar á bakvið vinsæla Omaggio eru þær Ditte Reckweg and Jelena Schou vöruhönnuðir sem jafnframt reka vinsæla hönnunarverslun í Kaupmannahöfn undir nafninu Stilleben. Það væri ekki frásögu færandi nema það að undir nafninu Stilleben hafa þær hannað litríka og röndótta teppalínu fyrir danska vörumerkið Silkeborg Uldspinderi. Teppin minna jú aðeins á Omaggio:)

“We dreamt of a simple and patterned blanket with the same feeling as a favourite sweater that you just pulled over your head and left on the armrest of the couch”.

Vörulínan sem heitir The Sweater Collection fæst hjá Epal og inniheldur falleg teppi sem koma í sex ólíkum litum – mig dreymir um eitt í fallegum lit. Sjá þessa fegurð ♡

FALLEGASTA SKÁLIN // FOUNTAIN CENTREPIECE

HönnunÓskalistinn

Ef ég væri að gifta mig þá væri skálin Fountain Centrepiece frá Ferm Living án efa á brúðargjafalistanum mínum ♡ Ótrúlega vegleg og einstaklega glæsileg keramíkskál sem sækir innblástur sinn frá klassískum gosbrunnum og sem fær sín notið jafn vel með blómaskreytingum eða ávöxtum jafnt sem ein og sér uppi á hillu.

Fyrir áhugasama þá fæst skálin fallega hjá Epal. 

SPENNANDI TINNA MYNDLISTARSÝNING Í EPAL GALLERÍ

Í gær opnaði myndlistarsýningin Tinni á Íslandi í Epal Gallerí og stendur sýningin yfir dagana 2. júní – 31. júlí.
Ég er alveg innilega heilluð af þessum verkum og er að sjá Tinna í alveg splunkunýju ljósi, en ég man helst eftir bókunum um ævintýri Tinna frá því í æsku heima hjá ömmu og afa en það er einhver viss nostalgía sem fylgir þessum teikningum í dag og skemmtilegt að sjá aðalsöguhetjuna í íslensku umhverfi. Virkilega flottar og líflegar myndir sem mættu svo sannarlega prýða mitt heimili.
Sýningin samanstendur af verkum eftir Óskar Guðmundsson þar sem hann hefur komið með Tinna og félaga heim til Íslands. Óskar var frá barnsaldri mikill Tinnaaðdándi og bækurnar lesnar þar til kjölur þeirra gaf sig. Óskar átti sér þann draum heitastan að Hergé myndi senda frá sér bók sem gerðist alfarið á Íslandi. Það rættist að hluta til þegar Tinni og Kolbeinn stöldruðu stutt við á Akureyri í Dularfullu Stjörnunni. Það nægði Óskari ekki sem hefur nú málað og teiknað Tinna og félaga á fjölbreyttum stöðum í íslenskri náttúru.
Óskar hefur málað frá barnsaldri og haldið nokkrar myndlistarsýningar. Hann starfar einnig sem rithöfundur og hefur sent frá sér fjórar spennusögur.
Á sýningunni verða árituð og númeruð grafísk verk ásamt plakötum til sölu. Ég hvet ykkur til þess að líta við og skoða verkin. Epal Gallerí er staðsett við Laugaveg 7, 101 Reykjavík.

Í STÍL

Persónulegt

Ég er hægt og rólega að fara í gegnum ótalmargar myndir sem við tókum í Köben og rakst á þessa skemmtilegu mynd af okkur Aldísi og Andreu á rölti um lítil stræti og erum allar í stíl:)  Það vill þannig til að þegar vinkona þín á fataverslun þá er ansi gaman að versla fötin sín þar og á þessari mynd erum við Aldís í alveg sömu skóm og Andrea er nánast í þeim sömu líka og svo erum við allar líka í yfirhöfn frá AndreA en ég eignaðist mína kápu rétt fyrir brottför ♡

Ljósmyndari : Aldís Pálsdóttir / Elísabet Gunnarsdóttir

Ég hef nú ekki lagt það í vana að deila fatamyndum af mér en alltaf gaman að breyta til ♡

MÆLI MEÐ : FYRSTA MYNDLISTARSÝNING HEIÐDÍSAR HELGADÓTTUR

ListMæli með
Heiðdís Helgadóttir opnar um helgina sína fyrstu listasýningu STYTTIR UPP þar sem sýnd verða olíumálverk sem hún hefur unnið að síðastliðin fjögur ár. Ég get ekki beðið eftir að sjá afraksturinn en það er allt fallegt sem Heiðdís skapar – ég mæli svo innilega með heimsókn í Hafnarfjörðinn þar sem sýningin stendur yfir á Norðurbakkanum dagana 4. – 11. júní. 
“Sorg, vonbrigði og tilfallandi geðsveiflur eru hluti af eðlilegri líðan mannsins. Dapurleikinn varir ýmist stutt eða lengi, stundum of lengi. Hegðun hugans voru Heiðdísi hugleikin við vinnslu verkanna og hvernig hann á það til að koma aftan að manni með látum þegar maður á síst von á því. Birtan og blæbrigðin í verkunum er áminning um það að vonir glæðast, vorsólin ylur vetrarhríð og blómin birtast á ný, um leið og það styttir upp.”
Um listakonuna:
Heiðdís Helgadóttir (f.1984) nam Listfræði í HÍ áður en hún útskrifaðist með BA gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands. Hún vinnur aðallega með teikningar gerðar með bleki og vatnslitum sem hún selur í eftirprentum. Heiðdís hefur rekið vinnustofu sína og verslun ásamt Listasmáskólanum sem hún stofnaði til þess að kenna ungmennum myndlist yfir sumartímann í Hafnarfirði.
Sjáumst í Hafnarfirðinum!