GULFALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI Í BARMAHLÍÐ

Heimili

…svo fallegt að það á heima í erlendu tímariti að mínu mati.

Þetta einstaklega fallega íslenska heimili er ekki hægt að láta framhjá sér fara, og það er vissulega til sölu fyrir áhugasama. Hér býr alvöru smekkfólk, með gott auga fyrir litum og litasamsetningum ásamt uppröðunum á húsgögnum og hlutum, sjáið t.d. hvað það kemur vel út að raða sófanum á mitt gólfið í stað þess að láta hann standa upp við vegg. Kíkjum í heimsókn á þetta gullfallega heimili en þess má geta að það var Gunnar Sverrisson sem tók allar myndirnar, sá snillingur.

  

Myndir : Gunnar Sverrisson / Sjá meira hér.

Hvert er ykkar uppáhalds rými? Það er vissulega erfitt að velja bara eitt þegar öll heildin er svona falleg. Ég er sérstaklega hrifin af herbergi heimasætunnar og finnst skemmtilegt að sjá hvernig rúminu er stillt upp þvert yfir þennan stærðarinnar glugga, ásamt því að fötin virðast vera geymd í fallegum glerskáp en ekki í kommóðu. Útkoman er stórkostleg, en á móti öllu glerinu eru svo gólfsíðar gardínur, himnasæng ásamt mottu til að ná inn meiri hlýju. Eldhúsið er líka einstaklega fallegt, svo virðist sem að eldri innrétting með fulningum ásamt sökklum hafi verið sprautuð í þessum ljósgráa lit sem hentar heimilinu sérstaklega vel og eldhúsið er hlýlegt en á sama tíma stílhreint. Má nefna fleiri uppáhalds rými? Því borðstofan græna er auðvitað líka algjört æði!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

MALENE BIRGER X THE POSTER CLUB

Fyrir heimiliðList

Ein af þeim sem ég held mest upp á þegar kemur að heimilum, hönnun & tísku er danska tískudrottningin Malene Birger. Samstarf hennar með The Poster Club vakti því athygli mína og útkoman kom mér aldeilis ekki á óvart. 100% Malene Birger myndi ég segja.  Með yfir 25 ára reynslu í tískuheiminum hefur Malene Birger þróað mjög gott auga fyrir öllu því fallega og hefur hún núna skapað línu af veggspjöldum í samstarfi við The Poster Club, sem selur einnig verkin. Línan samanstendur af 6 ólíkum prentum, sjá úrvalið hér.

Um leið og ég las að Malene væri búin að þróa línu af veggspjöldum vissi ég samstundis um hvernig myndir væri að ræða. En við sem fylgjumst með drottningunni höfum vel tekið eftir hennar einstaka stíl og hvert og eitt heimili hennar (já hún á nokkur) eru skreytt m.a. með hennar list. Þetta er nokkursskonar “krass” stíll, en flottur er hann!

Kíktu í heimsókn til Malene Birger og sjáðu eldri blogg sem ég hef skrifað um hennar heimili, sjá hér.

 

Hvernig lýst ykkur á þetta nýja skref hjá Malene Birger?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

VOR & SUMAR ’19 HJÁ FERM LIVING

Fyrir heimiliðHönnun

Vor & sumarlínan frá Ferm Living lofar góðu en á dögunum kynnti ég mér nýjungar frá þeim á Stockholm Furniture & Light Fair þar sem básinn þeirra var einn af fallegri básum á svæðinu. Ferm Living leggur ætíð mikla áherslu á að heimilið eigi að vera persónulegt og þar eigi okkur fyrst og fremst að líða vel. Eins og stofnandi og listrænn stjórnandi Ferm Living, Trine Andersen segir,

“Gott heimili fyrir mér gæti verið andstæðan fyrir þér. Heimilið er persónulegt, það er safn af minningum og þar er grunnurinn til að skapa nýjar minningar. Heimilið er öflugt og síbreytilegt hugtak, og að kanna ferðalagið við það að skapa heimili var útgangspunkturinn okkar við vor og sumar vörulínuna. 

Kíkjum í ferðalag með Ferm Living, úr einu herbergi yfir í annað þar sem sjá má nýju vörurnar í fallegu og heimilislegu samhengi.

     Myndir // Ferm Living 

Vorið og sumarið verður líklega ansi gott hjá Ferm Living en þeir hafa undanfarið verið að stækka töluvert við vöruúrval sitt og kynna m.a. núna nýjan sófa, hægindarstól, hillur, borð ásamt fjöldan allan af fallegum smávörum. Stærðarinnar blómaker sem snúa má á tvo vegu eru líkleg til vinsælda ásamt nýjum aukahlutum fyrir plöntustandana vinsælu sem ég er alltaf svo hrifin af.

Ég er virkilega hrifin af þeirri nálgun hönnunarmerkja þegar búið er að skapa fallegt heimili þar sem vörunum er stillt upp, jafnvel á látlausan hátt eins og sjá má á nokkrum myndum hér að ofan – vel gert Ferm Living! Fyrir áhugasama þá er Epal söluaðili Ferm Living á Íslandi.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

SUNNUDAGSLINNLIT // VASAGATAN

Heimili

Það er eitthvað svo ótrúlega notalegt við tilhugsunina að eiga arinn í stofunni en þeir eru algeng sjón á norrænum heimilum eins og þessu hér að neðan. En þó veit ég um nokkur falleg íslensk heimili með arni, sem öll eiga það sameiginlegt að nota þá aldrei? Kannski er það bara hugmyndin sem er svona hlýleg eftir allt ♡

Hér má sjá nokkur hönnunaríkon en efst á listanum eru Wassily stólar Bauhaus hönnuðarins Marcel Breuer, mér persónulega þykir stóllinn einstaklega óþægilegur en flottur er hann. Næst má nefna Semi Pendant ljósið sem framleitt er af Gubi, ef ég ætti ekki PH5 yfir eldhúskróknum mínum þá væri þetta ljós á óskalistanum, en í þessum eldhúskrók má svo sjá klassíska 3ja fóta Maura Arne Jacobsen. Litapallettan er lágstemmd svo hver hlutur fær að njóta sín, en íbúðin er til sölu og má sjá fleiri myndir hér fyrir áhugasama.

Ég vona að þið hafið átt notalega helgi, ég er annars byrjuð að taka saman skemmtilegar færslur um síðustu daga sem ég eyddi í Stokkhólmi umkringd spennandi hönnunarnýjungum!

Myndir via Alvhem

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

HEIMSINS FALLEGASTA PARKETIÐ

HeimiliPersónulegtSamstarf

Heimsins fallegasta parketið! Það eru stór orð en ég er fullviss um að ég hafi fundið eitt fallegasta harðparket sem til er. Síðastliðið haust þegar við vorum á fullu í framkvæmdum byrjaði ég á því að fara í allsherjarparket rannsóknarleiðangur, ég heimsótti flestar verslanirnar sem selja parket og fékk prufur, ég las marga þræði um kosti og galla harðparkets og viðarparkets, hlustaði á ráðleggingar arkitekta, fagaðila og skoðaði einnig aðrar lausnir eins og vínilparket. Já gólfefni áttu hug minn allan og á meðan leiðangri mínum stóð var ég algjörlega á mínum eigin vegum og ekki í nokkru samstarfi við neinn. Ég get nefnilega verið með mjög sterkar skoðanir þegar kemur að heimilinu og ef ég er ekki 100% hrifin þá er ekki möguleiki að hluturinn rati inná heimilið mitt. Ásamt mínum skoðunum þá er maðurinn minn smiður og vinnur mikið við að parketleggja heimili svo til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu þá voru kröfurnar okkar þær að:

Parketið þurfti að vera einstaklega fallegt, mikil gæði, virkilega sterkt og geta þolað mikið, hafa löng borð og mörg prent til að sjá ekki oft endurtekningar sem getur verið algengt með ódýrari harðparket. Að auki var efst á listanum okkar að fá besta undirlagið með góðu hljóðísogi – þar sem við þekkjum það alltof vel að hafa heyrt of mikið á milli hæða þar sem við höfum búið áður. Með þessar kröfur fékk ég sérfræðinga í verslunum til að sýna mér hvað í boði væri og endaði ég með alltof margar prufur.

// Samstarf í formi afsláttar. 

Vá ég get varla lýst því hversu ánægð ég er með lokavalið en á hverjum degi þegar ég horfi á gólfið mitt hugsa ég “mikið rosalega er þetta fallegt parket”… og ég er ekki einu sinni að ýkja. 

Eftir tveggja mánaða parketpælingar haldið þið ekki að fyrsta parketið sem ég fékk prufu af hafi orðið fyrir valinu! Það er Light Cracked Oak harðparket frá Parka í Kópavogi, það er svo æðislega fallegt að ég hálfpartinn trúi því varla að þetta sé harðparket! Ég hafði tekið með prufu heim af Light Cracked Oak og á prufunni var lítið brot af dökkri rák sem finna má á öllum parketborðunum og með tímanum (já ég var í tvo mánuði að hugsa) gleymdi ég hvernig heildarmyndin hafði verið í versluninni. Það var því ekki fyrr en ég fór í aðra heimsókn í Parka og það rifjaðist upp fyrir mér að þetta var fallegasta harðparket sem ég hef séð! Ég vil þó einnig taka fram fyrir áhugasama að samskonar útlit er til í ekta viðarparketi hjá Parka sem ég hefði svo sannarlega valið hefðum við verið að leita að viðarparketi.

Ég gerði þó nokkuð stóra skoðanakönnun hjá mér á Instagram @svana.svartahvitu þar sem ég bað fylgjendur að kjósa hvort væri betra “Harðparket” eða “Viðarparket” þar sem um 4 þúsund manns kusu og fékk ég einnig sent til mín nokkuð hundruð skilaboð varðandi persónulegar skoðanir og upplifanir fólks á þessu “stóra” máli. Niðurstaðan var mjög jöfn eða um helmingur mælti með harðparketi sem segir okkur það að það er mjög persónulegt val hvort henti betur.

Nokkrir af helstu arkitektum landsins sendu mér skilaboð og mæltu eindregið með að velja ekta viðarparket, fyrir betri upplifun, náttúlegt útlit, umhverfisvænt, eldist fallega, hægt að pússa upp eftir áralanga notkun og mörg önnur frábær rök. Á móti komu rök þeirra sem höfðu jafnvel prufað bæði, sumir töluðu um að svona miklar hitabreytingar eins og hér á Íslandi hefðu áhrif á ekta gólfefni, það þolir illa vatnsskemmdir og sést á gólfinu eftir mikla umgengni, för eftir hælaskó og blettir eftir mat og föndurtilraunir barnanna fékk ég m.a. að heyra. Mér þótti þetta hinsvegar virkilega áhugaverðar umræður sem ég lenti í og er orðin töluvert fróðari og er hreinlega í báðum liðum: harðparket á móti viðarparketi.

Okkar ástæður fyrir vali á harðparketi eru þær að við erum með barn á heimilinu og líka gæludýr sem kemur inn með blautar loppur alla daga – oft á dag, budget-ið sem átti að fara í gólfefni var ekki ótæmandi (harðparket er ódýrara), og Andrés minn sem er með vatnstjón á heilanum vildi gólf sem mun þola smá vatn. Eftir tvo mánuði og verandi í nánast beinni á stories á Instagram þá fyrst nálgaðist ég Parka varðandi kaup á drauma parketinu mínu.

Ég fékk framúrskarandi þjónustu hjá Parka allt frá fyrstu heimsókn, en ástæða þess að ég hef ekki samband við fyrirtæki áður en af heimsókn verður er sú að ég vil ekki að þjónustan litist af því að um samstarf sé að ræða, enda þræddi ég allar verslanir til að hafa raunverulegan samanburð.

Núna hafa liðið um tveir mánuðir síðan parketið var lagt á og ég gjörsamlega elska nýja gólfið mitt. Einhverjir héldu að ég yrði þreytt á dökku rákunum á gólfinu en það eru þær sem gefa gólfinu líf og gera það svona fallegt og einstakt. Þrátt fyrir að vera harðparket þá er það hlýlegt og raunverulegt, parketið er einnig virkilega sterkt – við prufuðum að rispa það mjög fast með hníf og það kom ekkert far (áður en við lögðum gólfið haha), og það besta er að ég þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af skemmdum og viðhaldi. Einnig er mjög ljúft að upplifa það að vera með gæða undirlag og raunverulega kosti þess sem er sá að það heyrist ekki á milli hæða – DRAUMUR minn hefur ræst. Halelúja!

Og svo eru það myndirnar – allar þakkir fara til elsku Andrésar míns sem er svo mikill fagmaður og fræddi mig einnig um hvernig ætti “ekki” að leggja parket til að heildarmyndin verði sem fallegust, það þarf nefnilega að vanda til verka til að fá góða útkomu. Það mikilvægasta að okkar mati þegar lagt er parket er að það myndist ekki “tröppugangur” með samskeytin, og best er að ná að hafa 40 cm á milli samskeyta.

Kveðja, parket nördið.

      Harðparket : Light Cracked Oak  // Verslun : Parki í Kópavogi

Ég gæti ekki verið ánægðari með útkomuna og er svo alsæl með þessi kaup okkar ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu en á morgun fer ég erlendis á spennandi hönnunarsýningu sem ég kem til með að sýna frá. 

INSTAGRAM VIKUNNAR @ELLEDECORATIONSE

HönnunHugmyndirMæli með

Þetta er mögulega ekki frumlegasta síðan sem ég hef bent ykkar á að fylgjast með á Instagram þar sem Elle Decoration er eitt vinsælasta heimilis og hönnunartímaritið sem gefið er út. Það er þó vel við hæfi að mæla með að fylgjast með tímaritum á vefnum þar sem ég braut nýlega tímarita kaupbannið mitt sem ég setti mér fyrir allnokkru síðan í sparnaðarskyni. Ég settist ánægð niður með mitt danska blað sem ég ákvað að splæsa í og komst að því að ég var búin að skoða helming efnisins á netinu. Ég held því sátt áfram með tímaritakaupbannið og hlakka til að nota peninginn í eitthvað mjög spennandi í staðinn!

Mæli því með að fylgjast með @elledecorationse á instagram. Svo er vel hægt að útbúa sitt eigið “tímarit” ég elska möguleikann á að vista þær myndir á instagram sem heilla mig – en fyrir þá sem ekki vita þá er það gert með því að smella á “borðann” í hægra horni fyrir neðan myndina. Til að skoða vistaðar myndir þarf svo einfaldlega að strjúka til vinstri á forsíðunni þinni á instagram og voilà – fullt af djúsí innblæstri sem hittir beint í mark ♡

Myndir @elledecorationse

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÓSKALISTINN // TACCIA & SNOOPY FRÁ FLOS

HönnunKlassíkÓskalistinn

Óskalistinn að þessu sinni hefur að geyma tvo glæsilegustu lampa hönnunarsögunnar en það eru Taccia og Snoopy lamparnir frá Flos sem eru báðir hannaðir af þeim bræðrum Achille og Pier Giacomo Castiglioni. Castiglioni bræður eru á meðal mestu snillinga sem uppi hafa verið og má finna verk þeirra á helstu hönnunar og listasöfnum um allan heim, flestir þekkja a.m.k. Arco lampann (1962) sem er einnig eftir Castiglioni bræður. Taccia lampinn leit dagsins ljós árið 1962 og stuttu síðar eða 1967 kemur Snoopy lampinn út en á þessum tíma þykja þessir lampar mjög framúrstefnulegir. Taccia og Snoopy eiga það þó sameiginlegt að hafa staðist tímans tönn og þykja í dag mjög eftirsóknaverðir – enda skal ekki furða þar sem þeir eru alveg gífurlega fallegir og ég vona að einn daginn verði annar þeirra minn ♡

Taccia er þessi hér að ofan, og Snoopy er fáanlegur með svörtum, grænum eða appelsínugulum skermi.

Hönnunaríkon eins og þau gerast best – hvor þeirra þykir ykkur fallegri?

Fyrir áhugasama þá er FLOS fáanlegt hjá Lumex hér á Íslandi.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NÝTT FÍNERÍ FRÁ STRING // BLUSH & BEIGE

HönnunKlassík

Klassísku String hillurnar þekkja flestir, en í ár eru 70 ár liðin frá því að hillurnar voru fyrst kynntar til sögunnar. String hillurnar hafa síðan þá notið gífulegra vinsælda, enda sérstaklega smart og svo er hægt að raða þeim saman á endalausa vegu. Núna í ár í tilefni af 70 ára afmælinu eru String hillurnar kynntar í tveimur nýjum litum, Blush og Beige en ásamt því bætist líka við galvaníseruð útgáfa sem eru hugsaðar til notkunar utandyra! Núna um þessar mundir eru ótalmargar skemmtilegar hönnunarsýningar í gangi þar sem allar nýjunar úr hönnunarheiminum eru og verða kynntar – ég er einmitt á leið á eina skemmtilega sýningu í næstu viku og ég get hreinlega ekki beðið eftir að sjá meðal annars nýju String hillurnar.

Hér að neðan má svo sjá String galvaníserað –

Skemmtilegar fréttir af einni vinsælustu hönnun í Skandinavíu en String Pocket hillurnar sérstaklega má sjá á ótalmörgum íslenskum heimilum!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÓMÓTSTÆÐILEGAR 2019 NÝJUNGAR FRÁ IITTALA

iittalaÓskalistinn

Iittala tekst enn eina ferðina að heilla okkur upp úr skónum með spennandi nýjungum sem kynntar eru til sögunnar um þessar mundir. Ég var búin að sjá myndirnar en í dag gerði ég mér leið í verslun til að skoða vörurnar og þær eru vægast sagt hrikalega flottar og nú þegar að minnsta kosti ein þeirra komin ofarlega á óskalistann. Litur ársins 2019 – glæný borðbúnaðarlína og hrikalega djúsí bleikur litur er að bætast við vöruúrval frá finnska hönnunarrisanum sem við öll elskum ♡ Skoðum þetta saman, 

Til að byrja með þá bættist nýr litur við klassísku Teema línuna sem ber heitið Powder og er ljósbleikur og alveg hreint geggjaður litur. En einn af styrkleikum Teema vörulínunnar er fallegir litir og þær skemmtilegu litasamsetningar sem hægt er að raða saman með ólíkum Teema litum. Litir eru uppfærðir reglulega til að halda Teema litasamsetningunum í samræmi við tískustrauma hverju sinni.

“Liturinn powder er fágaður, heitur og hlutlaus litur sem hefur fallega mýkt. Hann er góður bakgrunnur undir öll litríku innihaldsefnin sem hægt er að nota í matargerð ásamt því sem hann leyfir matnum að njóta sín.”

Ásamt þessum spennandi nýja bleika lit kynnir iittala til sögunnar nýja borðbúnaðarlínu sem hönnuð er af Jasper Morrison sem er heimsþekktur vöru- og húsgagnahönnuður sem unnið hefur fyrir m.a. Vitra, Alessi, Rosenthal, Muji og Flos.

“Línan, sem ber heitið Raami, er einföld, og falleg borðbúnaðarlína sem hentar vel þegar skapa á gott andrúmsloft. Önnum kafnir einstaklingar kunna flestir vel að meta frjálslegt andrúmsloft og afslappaðar samkomur í stað formlegra matarboða. Þeir kunna að meta fjölnota borðbúnað sem hjálpar til við að skapa góða stemningu hvort sem er við morgun-, hádegis- eða kvöldverðinn. Finnska orðið Raami merkir rammi eða umgerð, en segja má að vörulínan rammi inn stemninguna við matarborðið. Raami borðbúnaðurinn er lágstemmdur og tekur ekki athyglina heldur skilur eftir rými fyrir stemninguna, matinn, drykkina og ímyndunaraflið.”

Síðast en ekki síst er það litur ársins 2019 hjá Iittala sem er ótrúlega fallegur sjávarblár – Sea Blue.

“Liturinn Sea Blue er litur ársins 2019 hjá Iittala. Í Finnlandi eru þúsundir vatna ásamt því sem það hefur langar strendur sem snúa að Eystrasaltinu.  Finnar finna því ákveðna tenginu við vatnið ásamt því sem það er lífsviðurværi margra. Vatn eða sumarhús við sjóinn er nauðsynlegur hluti finnska sumarsins, en flest sumarfrí snúast að miklu leiti um vatn, svo sem sundferðir, gufuböð, veiði, kanósiglingar, róður og fleira. Liturinn Sea blue vísar í sólríkan dag í fallegum eyjaklasa og kvöldsund eftir notalegt gufubað. Einstaklega afslappandi!”

Liturinn Sea blue hefur verið í framleiðslu frá því í byrjun ársins 2000 en í ár verða fjölmargar nýjar vörur framleiddar í þessum frísklega lit. Þar má helst nefna Kastehelmi glas, disk skál og krukku, Aino Aalto glös, Kartio karöflu, Aalto vasa í nokkrum stærðum og Kaasa kertastjakann.

Myndir : Iittala press

Ég hreinlega get ekki beðið eftir að eignast nokkrar af þessum nýjungum en ég er eldheitur iittala aðdáandi eins og einhver ykkar vita nú þegar ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu