fbpx

FALLEGASTA ÍSLENSKA HEIMILIÐ // HEIMA HJÁ AUÐI GNÁ

Íslensk heimiliÍslensk hönnun

Ég hef lengi haft mikla mætur á Auði Gná innanhússhönnuði og eiganda Further North, hún er einstaklega næm fyrir fallegri hönnun, litum og formum og heimilin hennar alltaf verið algjörlega ómótstæðileg og eru þessar myndir sem konfekt fyrir augun. Hér er á ferð þriðja heimilið hennar sem ég fjalla um á nokkrum árum en Auður Gná hefur gaman af því að taka í gegn íbúðir sem hafa þurft á smá ást að halda, endurskipuleggur þær og innréttar að lokum á öðruvísi og töff máta. Þetta heimili sem staðsett er á Njálsgötu er nú komið á sölu fyrir áhugasama.

Háglansandi gólfefnið er það fyrsta sem vekur athygli og fær hver hlutur sín notið á hvítum grunninum, íslensk list, hönnun og antík er það sem skapar þennan persónulega og eftirtektaverða stíl. Skipulag íbúðarinnar er skemmtilegt, dálítil hringrás, en gengið er beint úr svefnherberginu inná baðherbergið og þaðan fram – og öfugt. Ef þið horfið vel þá sjáið þið einnig að komið hefur verið fyrir gleri í hurðarop og þar fyrir innan er horft inní stærðarinnar sturtu. En eins og Auður Gná segir sjálf frá, þá eru sjaldan gestir þegar við erum í sturtu, sem er vissulega rétt og því ekki vitlaus hugmynd að leyfa birtunni að flæða svona í gegn.

Kíkjum í heimsókn á þetta einstaka heimili, hér er alveg sama í hvaða h0rn er litið, alltaf er eitthvað spennandi í gangi.

Spegillinn frægi sem er einmitt hönnun Auðar frá Further North, veggurinn er málaður í gylltum lit og hér má sjá inn í sturtuna.

Dásamleg litasamsetning í svefnherberginu, og háglansandi svart gólfefni.

Við endurskipulagningu íbúðarinnar var lítið herbergi tekið undir sturtuna – dálítið óvenjulegt og djarft val sem skilar sér þó í þessu hrikalega flotta baðherbergi. Smá fílingur eins og verandi á lúxus hótelsvítu.

Höldurnar á baðherbergisinnréttingunni eru einnig hönnun Auðar Gnáar.

Myndir : Að hluta eftir Gunnar Sverrisson ljósmyndara, ásamt fasteignasölumyndum.

// Frekari upplýsingar hér. 

Algjör gullmoli sem þetta heimili er, dásamlega fallegt hjá þér elsku Auður. Mikið sem mig hlakka til að fylgjast með frekari framkvæmdum og heimilisgerð.

Smelltu endilega á deila hnappinn eða hjartað hér að neðan ef þér líkar við þetta heimili ♡

HALLÓ HEIMUR – 3 MÁNUÐUM SÍÐAR

Persónulegt

Halló heimur 3 mánuðum síðar… eða eru það að verða 4 kannski? ♡

Dóttir mín, Birta Katrín fæddist þann 4. júní og mætti segja að fyrst núna í lok septembermánaðar hef ég tíma til að setjast niður í ró og næði að skrifa nokkur orð. Ég áttaði mig nýlega á því að ég átti alveg eftir að segja frá dóttir minni hér á blogginu mínu, en það eru ekki allir sem fylgja mér á Instagram þar sem ég var búin að setja inn mynd af litlu skottunni minni.

Það er yndislegt að eiga sumarbarn en þeir sem segja það vera besta tímann af öllum eiga án efa við að það sé fyrsta barn haha. Eldri systkini fá að sjálfsögðu sitt sumarfrí svo við höfum ferðast mikið öll saman um landið (æðislegt) og lillan okkar búin að fara töluvert víðar en bróðir hennar gerði nýfæddur, það var dagskrá nánast alla daga í sumar auk þess að húsið okkar var undirlagt af framkvæmdum þar sem verið var að laga og múra það að utan. Ég tók einnig þá ákvörðun að vinna í orlofinu og hef sinnt ýmsum verkefnum síðan Birta Katrín kom í heiminn en hún hefur verið einstaklega ljúf og með þessu móti getum við verið saman í heilt ár í orlofi í stað 6 mánaða sem er venjan og ég vinn þá alltaf þegar hún tekur daglúra. Svo það að vera þreytt eignaðist alveg nýja merkingu haha.

Birta Katrín er nefnd í höfuðið á bróðir sínum (Bjartur, sem er einnig nafnið á langafa) og mömmu minni (Katrín), það kom nánast ekkert annað nafn til greina frá upphafi en ég viðurkenni að ég kalla hana ennþá oftast lilla ♡Hún verður vonandi skírð sem fyrst eða þegar aðstæður leyfa allri fjölskyldunni að koma saman og fagna. Það hefur verið sérstakt að bæði vera kasólétt og verandi núna með ungbarn með kórónuveiru yfirvofandi en það er ekkert annað í boði en gera það besta úr ástandinu. Ég er þakklát út fyrir endamörk alheimsins að hafa fengið þessa skottu og gleðigjafa inn í líf okkar en undanfarnir mánuðir hafa verið vægast sagt sérstakir, en ég kvaddi bæði ömmu mína og afa sem var afar erfitt, en þá var ómetanlegt að hafa eina síbrosandi og káta lillu til að minna á allt það góða í lífinu.

Ég er annars ótrúlegt en satt enn að dúlla mér að gera barnaherbergið tilbúið þar sem áður var geymsla svo almáttugur hvað það hefur verið tímafrekt, ég er sem betur fer róleg yfir öllu svona og finnst nýfædd börn ekkert þurfa nema rétt svo örfáar flíkur til skiptanna, bleyjur og mömmu sína fyrstu vikurnar ♡ Ég vildi annars bara rétt svo koma hingað inn og segja hvað er að frétta, dálítið kannski að brjóta ísinn eftir langann tíma frá persónulegum færslum hér á blogginu:)

Halló heimur – hér 3 daga gömul nýkomin heim af spítalanum.  

Ótrúlegt hvað þau stækka hratt, hér orðin 2 mánaða gömul.

Sumarið okkar í hnotskurn … ég útí móa að gefa lillu ♡

3 mánaða monsa –

Gæti sko borðað þessar bollukinnar ♡

Og ein af okkur mæðgum í lokin, takk fyrir að lesa ♡

FALLEGT INSTAGRAM TIL AÐ ELSKA : SMEKKLEG & MEÐ GRÆNA FINGUR

Fyrir heimiliðGarðurinn

Ég elska að uppgötva spennandi einstaklinga sem veita innblástur á Instagram – ég leitast aðalega eftir heimilisinnblæstri og þessi hér @livsnyderhaven er algjört æði. Ég elska eldhúsið hennar, með marmaraflísar á veggjum og þar sem gengið er beint út í garð þar sem finna má þennan ótrúlega huggulega garðskála.

Fallegt heimili og draumagarður – er hægt að biðja um eitthvað meira?

Fylgstu með henni Mariu Lundvald betur á Instagram með því að smella hér. 

ÓHEFÐBUNDIÐ GLÆSIHEIMILI HJÁ HÖNNUÐI

Íslensk heimili

Í þessu glæsilega húsi á Seltjarnarnesi býr Olga Hrafnsdóttir hönnuður ásamt fjölskyldu sinni. Olga er annar helmingur hönnunarstúdíósins Volka sem hannað hafa m.a. húsgögn og textílvörur sem eru gjarnan blanda af list og praktískri hönnun og leikur þar endurvinnsla og íslensk ull jafnan stórt hlutverk. Ég sé ekki betur en að þetta einmitt lýsi heimilinu vel, litríkt og óhefðbundið og stútfullt af listaverkum, handverki og hönnun.

Kíkjum í heimsókn á þetta glæsiheimili sem ber þess glöggt merki að hér býr ekki aðeins fagurkeri, heldur einnig safnari mikill.

Myndir : Fasteignir Mbl

Fyrir áhugasama þá er heimilið nú til sölu og allar frekari upplýsingar fást hér.

Skemmtilegt og óhefðbundið heimili

NORDSJÖ LITUR ÁRSINS 2021 // BRAVE GROUND

Fyrir heimilið

Þá hefur sænski málningarframleiðandinn Nordsjö tilkynnt hver verður litur ársins 2021 og er það liturinn Brave Ground sem er hlýr og mjúkur jarðtónn sem er án efa eftir að heilla ykkur mörg. Litir ársins hafa áhrif á meira en val okkar á veggmálningu, heldur hefur liturinn mikil áhrif á tísku og hönnunariðnaðinn eins og hann leggur sig, hvort sem um ræðir fatnað, snyrtivörur, grafíska hönnun, bílaframleiðslu og svo margt fleira. Ég hefði þorað að veðja að beige yrði fyrir valinu en Brave Ground er aðeins dekkri, og hvort það sé örlítill grænn undirtónn sýnist mér á myndunum. Er mjög spennt að skoða þennan nánar með eigin augum ♡

Á Instagram síðu Sérefna segir þetta:

“Það ótrúlega er að Brave Ground er NÁKVÆMLEGA sami litur og grunnliturinn í ROMA-pallettu Sérefna og Rutar Kára sem við kynntum fyrir heilu ári síðan og nýtur mikilla vinsælda. Rut er greinilega göldrótt, a.m.k. heldur betur með puttann á púlsinum því litir ársins hjá móðurfyrirtæki Nordsjö og Sikkens eru valdir af stóru alþjóðlegu teymi hönnuða, arkitekta og fræðimanna í tískustraumum. Þeir höfðu bara úr yfir milljón litablæbrigðum að velja – og fannst þessi fanga tíðarandann best.” 

Mér þykir þetta mjög skemmtilegt að vita og hver veit nema okkar eina sanna Rut Kára hafi aðeins lagt þeim línurnar?

Á vefsíðu Nordsjö má sjá hvernig litur ársins parast með öðrum litum – sjá hér. 

Hvað finnst ykkur um lit ársins 2021 frá Nordsjö?

BITZ GEGGJAÐ Í BRONSLITUÐU

Fyrir heimiliðHönnun

Nýlega kom á markað enn ein nýjungin frá danska sjarmörnum Bitz en það er bronshúðaðar borðbúnaður, alveg ferlega smart! Christian Bitz er þekkt sjónvarpsstjarna í Danmörku, menntaður sem næringarfræðingur, er metsöluhöfundur og sendiherra Rauða Krossins. Hans ástríða er síðan sú að fá fólk til að borða hollan mat og stunda heilbrigðan lífstíl og ein leiðin hans virðist vera hanna borðbúnað sem gerir okkur kleift að eiga auðveldara með að fá skilning á skammtastærðum og það að lifa hollum lífstíl eigi að vera skemmtilegt og auðvelt og augljóslega líka smart!

Þetta á þó helst við matardiskana en þessir hér að neðan eru til að bera matinn fram – svo það verði ekki misskilningur haha:)

Very næs!

GINA TRICOT KYNNIR Í FYRSTA SINN HEIMILISLÍNU

FréttirHönnun

Ástsæla sænska tískumerkið Gina Tricot kynnir í fyrsta sinn heimilislínu undir nafninu Gina Home sem mun innihalda rúmföt, teppi, skrautvasa ásamt vel völdum tískubókum eða svokölluðum “sófaborðsbókum”. Línan er unnin í samstarfi við smekkdömurnar og tvíeykið  þær Fanny Ekstrand og Linn Eklund sem standa að baki veftískutímaritsins Hobnob Journal. Fyrir áhugasama þá verður Gina Home fáanleg í vefverslun Gina Tricot og í völdum verslunum frá 17. september!

Myndir : Gina Tricot  

HULDA KATARÍNA X RAKEL TOMAS

Íslensk hönnunListMæli með

Hulda Katarína er 26 ára gömul og stundar nám við Keramikbraut Myndlistaskóla Reykjavíkur. ⁠Hún hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir postulínsskálar sem eru í laginu eins og bláskeljar og opnaði á dögunum sýninguna Andlit ásamt myndlistakonunni Rakel Tomas, sýningin er opin til 24. september á Grettisgötu 3.

En af hverju valdi Hulda leirinn til að miðla listsköpun sinni?

“Það er bara eitthvað svo magnað að vinna með efni sem er upprunalega úr náttúrunni. Leirinn er svo óútreiknanlegur og lifandi efni og þú veist aldrei nákvæmlega hvernig loka útkoman verður. Það er þessi óvissa sem heillar mig. Þó svo að þú gerir allt nákvæmlega eftir bókinni, þá veist þú aldrei hvað er að fara taka á móti þér þegar þú opnar brennsluofninn.  Það er það sem er svo spennandi er líka ferlið á bakvið keramikið sem er svo margslúngið og margþætt. Það er bara heppni ef þú færð þrjá heila hluti og þrjá hluti sem hafa sprungið í brennslunni, svo maður þarf að venjast því að það eru alltaf einhver afföll í þessu sporti. “

Hulda er sínu öðru ári við Myndlistaskólann í Reykjavík og segir námið mjög fjölbreytt.

“Þó svo að ég sé að læra á einn ákveðinn miðil þá er maður líka að læra margt fleira eins og efnafræði, jarðfræði og ákveðna viðskiptafræði. Þetta er allt svo mikilvægur grunnur fyrir fólk þegar það klárar nám og þarf að standa á eigin fótum sem listamenn. Svo eru kennararnir líka svo frábærir og miklir reynsluboltar að það eru ákveðin forréttindi að fá að læra af slíku fagfólki.”

En það var einmitt í skólanum sem postulínsskálarnar urðu til. Innblásturinn á bak við skálarnar var hafið og allt það fallega sem það hýsir og skapar. 

“Í sannleika sagt þá fannst mér verkefnið  ekkert spennandi og ég var mjög fegin eftir lokakynninguna að vera laus við það að eilífu – að ég hélt. Svo kom covid og ég missti þá vinnu prósentu sem mér hafi verið lofað um komandi sumar og var í kaffi hjá góðri vinkonu, þar sem við ræddum hvað ég gæti nú gert til að eiga í mig og á þetta sumarið. Þá var ég nýbúin að gefa annarri vinkonu minni póstulínsskál í þrítugsafmælisgjöf. Hún hafði sett það á instagram story og ,,taggað’’ mig. Áður en ég vissi af var inboxið mitt fullt af skilaboðum þar sem fólk vildi kaupa skál af mér. Svo ég sló til, kom upp aðstöðu inn í svefnherbergi hjá mér og bjó til skeljar í allt sumar sem gekk bara ótrúlega vel!”

Nýjasta verkefni Huldu er samstarfsverkefni með myndlistakonunni Rakel Tomas, en þær opnuðu sýninguna Andlit á dögunum sem er opin á Grettisgötu 3. 

“Samstarfið kom til eitt kvöld í sumar þar sem við hittumst með sameiginlegum vinum á bar, eins og nokkrum sinnum áður. Ég vissi hver Rakel var og við áttum marga sameiginlega vini. Við fórum að spjalla um listina og lífið. Upp úr þessu listamannaspjalli (og nokkrum rauðvínsglösum) spratt upp þessi fullkomlega lógíska hugmynd: auðvitað ættum við að vinna eitthvað saman. “

Þær slóu til og úr varð samstarfsverkefni sem inniheldur vasa sem Hulda mótar og Rakel málar á, ásamt skúlptúrum sem hægt er að nota sem kertastjaka. Skúlptúrarnir vísa í form sem finnast í málverkum Rakelar sem eru einnig hluti af sýningunni.

Ferlið er Huldu hugleikið en það sem fólk veit oft ekki er hversu gríðarlega tímafrekt það er að búa til hlut alveg frá grunni.

“Í samstarfi okkar Rakelar var augljóst frá byrjun að tíminn var ekki mikill og að hann var líka svoldið öðruvísi sökum heimsfaraldurs. Við áttum líka gott spjall um handverk og hvað handverk þýðir fyrir okkur, þar sem við vinnum báðar með höndunum allan daginn. Ég ákvað því að handmóta vasana tvo og skúlptúrana. Mig langaði að vekja fólk til umhugsunar um það hvaðan hluturinn kemur og hvert ferlið er á bakvið einn hlut.

Markmiðið mitt er að vekja fólk til umhugsunar um hvaðan hlutirnir koma, hver býr hlutinn til og hvert er ferlið á bakvið hvern og einn hlut virkar. Mér finnst mjög mikilvægt að ég geti sagt ákveðna sögu í gegnum leirinn og verkin mín, Það er líka eitthvað svo heillandi að miðla þekkingunni áfram og ef ég get í framtíðinni vakið áhuga fólks á keramiki þá væri ég ein sátt kona.

Ég eins og allir aðrir er bara svoldið að finna mig og mitt pláss í lífinu. Nú hef ég verið að velta fyrir mér hvernig get ég lagt mitt af mörkum til að vekja upp áhuga á þessari listgrein sem mér finnst stundum ekki fá það vægi sem hún á verðskuldað og hafa sjúklega gaman í leiðinni. “

       

Hægt er að fylgjast með þessari hæfileikaríku listakonu á Instagram @huldakatarina

Ekki missa af þessari glæsilegu listasýningu Huldu Katarínu og Rakelar Tomas sem stendur opin til 24. september á Grettisgötu 3. 

LJÚFT HELGARFRÍ

Persónulegt

Ég leyfi þessari mynd af Instagraminu mínu að skreyta færslu helgarinnar. Tekin fyrir nokkru síðan þegar þessi dásamlega fallegu blóm prýddu stofuna ♡ Það er mjög erfið vika að baki hjá mér og hugurinn því ekki verið við bloggið. Ég vona að þið eigið góða helgi kæru lesendur.

x þangað til næst

LITRÍKT HÖNNUNARHEIMILI ÁHRIFAVALDS VEKUR ATHYGLI

HeimiliHönnun

Þetta hönnunarheimili á eftir að heilla ykkur uppúr skónum. Hér býr sænski áhrifavaldurinn Margaux Dietz en hún hefur m.a. hlotið viðurkenningu frá sænska Elle sem “áhrifavaldur ársins” og einnig unnið verðlaun fyrir “video ársins” en þar sýndi hún á Youtube frá fæðingu sonar síns (og aðdragandanum frá því hún missti vatnið í Seven Eleven). Bara svona rétt að segja ykkur hvað býr stundum að baki orðsins “áhrifavaldur” haha.

En aftur að heimilinu sem hélt mér andvaka í nótt. Margaux hefur gott auga fyrir fallegri hönnun og hér má sjá nokkur klassísk ljós eins og Pipistrella lampa á stofugólfinu, AJ gólf – og vegglampa, Ph5 ljós, rauðan 265 vegglampa, Georg Nelson Bubble lamp yfir eldhúsborðinu, Panthella og listinn heldur áfram. Ég verð þó að viðurkenna að eftir að mér tekst ekki að koma nafni á glæsilega stofuljósið og er það ástæðan að ég gat ekki fest svefn í gær haha. Það minnir á bæði Zeppelin eftir Marcel Wanders og Viscontea eftir Aschille Castiglioni (bæði Flos) en er þó hvorugt. Ég óska því eftir öðrum hönnunarnördum að gefa sig fram og upplýsa mig – takk!

*UPPFÆRT þökk sé snilldarlesendum þá er ljósið frá engum öðrum en Normann Copenhagen eftir Simon Legald 2019. Ný hönnun en klassískt útlit. 

Hér hefur þó hún Margaux aðeins búið í um tvö ár en sjá má myndir hér af fyrra heimili hennar og segja má að það sé töluvert breytt á þessum stutta tíma, en öll húsgögnin virðast vera ný – sem er viss nálgun að skapa sér heimili þó ég hallist frekar að því að safna vönduðum húsgögnum yfir lengri tíma.

Kíkjum í heimsókn –

Eldhúsið er sérstaklega smart, takið eftir hvað það kemur vel út að hafa koparlitaða spegla á milli innréttingarinnar. Ég gæti vel hugsað mér að leika þetta eftir.

Ljósið sem ég óska eftir upplýsingum um;)

Myndir : Unikfast

Dásamlegt heimili ekki satt? Spegillinn eftir Gustaf Westman setur sinn svip á stofuna en í dag er varla hægt að fletta hönnunartímariti og sjá ekki annaðhvort spegil eða borð eftir kauða sem er að gera allt vitlaust í tísku og hönnunarheiminum með óvenjulegri og litríkri hönnun sinni.

Hvað finnst ykkur?