fbpx

NÝ & FALLEG BLÓM Í VASA FRÁ PASTEL

Fyrir heimiliðPersónulegt

Mér hefur alltaf þótt mikilvægur partur af mínu heimili að hafa blóm í vasa og ég elska það hvað þurrkuð blóm hafa náð aftur fyrri vinsældum sínum og í dag er hægt að finna úrval af litríkum þurrkuðum blómum. Ég á minningar frá því að mamma skreytti heimilið okkar með þurrkuðum rósum en það þótti heldur betur smart á þeim tíma. Áður en að þurrkuðu blómin komu aftur í tísku var ég gjarnan með gerviblóm í vösum á milli þess sem ég keypti mér fersk og afskorin blóm. Blóm gefa heimilinu svo mikið líf og lit, og eru auk þess dálítið góð fyrir sálina að mínu mati.

Haustið 2018 eignaðist ég minn fyrsta þurrkaða blómvönd frá Pastel blómastúdíó í tengslum við viðburð sem ég skipulagði þar sem allir fengu blóm frá þeim í gjafapoka og hefur minn vöndur síðan þá skreytt heimilið okkar og glætt það litum hvort sem það er sumar, vetur eða haust. Það var svo í vikunni sem ég rakst á að þær Pastel stöllur væru að hefja heimsendingu á blómvöndum að ég ákvað að bæta við safnið og gera smá vorlegt hér heima.

Fyrir áhugasama þá er núna hægt að panta heimsendingu frá Pastel blómastúdíó, þar sem hægt er að velja á milli þriggja litasamsetninga en pantanir eru sendar á Instagram síðunni þeirra sem finna má hér. Hver öðrum fallegri!

Pastel blómastúdíó var stofnað af Sigrúnu Guðmundsdóttur og Elínu Jóhannsdóttur í lok árs 2018 og sérhæfa þær sig í óhefðbundnum samsetningum og litavali blóma. Mæli mikið með því að fylgjast með þeim ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

FAGURKERINN // GUÐRÚN Í KOKKU

Fagurkerinn

Fagurkerinn Guðrún Jóhannesdóttir er eigandi margrómuðu verslunarinnar Kokku sem staðsett er í hjarta miðborgarinnar. Guðrún veit hvað hún syngur þegar kemur að gæða vörum fyrir eldhús og heimili og er auk þess mikill ástríðukokkur. Guðrún tók saman sína uppáhalds hluti til að deila með okkur ásamt því að svara nokkrum laufléttum spurningum ♡

Lýstu þér í 5 orðum … bjartsýn, ákveðin, vinnusöm, óþolinmóð og úfin.

Stíllinn þinn … ætli hann sé ekki frekar klassískur.

Uppáhalds hönnun … hönnun þar sem fegurð og notagildi fara saman.

Besti maturinn … maturinn sem Steini eldar handa mér, honum tekst ennþá að koma mér á óvart með tilraunastarfsemi í eldhúsinu.

Fegurð eða notagildi …  bæði, ekkert vit í öðru.

Það sem verður keypt næst fyrir heimilið … mig langar hrikalega mikið að taka baðherbergið í gegn en ætti kannski fyrst að klára eldhúsið sem við tókum í gegn fyrir tveim árum en náum aldrei að klára alveg.

// 1.  Ég er alltaf jafn ánægð með Flos 265 lampann minn. Gott að sitja á sófanum og lesa við birtuna frá honum með eldinn logandi í  kamínunni. // 2. Þessi glös eru uppáhalds fyrir góðan gimlet og espresso martini. // 3.  Svo er lítil djúp koparpanna efst á óskalistanum hjá Steina. // 4. Ég hef lengi verið veik fyrir terrazzo og þessi platti er flottur undir svo ótalmargt. // 5. Draumasófinn, mig langar í þennan koníaksbrúna frá Fogia. // 6. Mig dauðlangar í munnþurrkurnar frá Himla í nýja nude litnum. Þær seljast bara alltaf svo hratt upp að ég hef ekki enn náð mér í pakka. // 7. Ég er með Ro Hurricane á gólfinu í anddyrinu hjá mér, hann tekur á móti mér þegar ég kem heim. Er stundum með greinar eða há blóm, t.d. sverðliljur. Núna er ég með kubbakerti sem veitir notalega birtu í gluggalausu anddyrinu. // 8. Mig hefur lengi langað að skipta út kókosmottunni í stofunni fyrir mottu sem auðvelt er að þrífa og nú er Pappelina loks komin með risamottur (230×320 cm) sem myndu smellpassa í stofuna mína, er samt með valkvíða. Gæti trúað að ég endaði á Sveu í svörtu/metallic, alltaf jafn fyrirsjáanleg! // 9. Við vorum að fá burðarpoka með myndum eftir Kristjönu S. Williams. Þessi íslenska listakona er helst þekkt fyrir veggskreytingar. Ótrúlega skemmtilegur ævintýraheimur. Mig langar í þennan poka en hann verður kominn í vefverslunina okkar innan skamms. // 10. Baðherbergið er allt annað og fegurra eftir að ég fékk mér þvottakörfu frá Korbo. Ég er líka með gyllta Korbo körfu í stofunni undir ullarteppin mín.

Uppáhalds verslun … auðvitað Kokka en svo var ég að uppgötva alveg dásamlega nýja búð á Laugaveginum. Hún heitir Vonarstræti og býður upp á margt fallegt og vistvænt.

Skemmtilegasta borgin … ég er mjög  hrifin að minni heimaborg, Reykjavík, finnst alltaf meiri og meiri stórborgarbragur á henni. Ótal flottir veitingastaðir og alltaf eitthvað nýtt að uppgötva. Svo finnst mér alltaf gaman að koma til Kaupmannahafnar, notalegt andrúmsloft og líka fullt af góðum mat.

Dýrmætasta á heimilinu … fólkið mitt og Krummi gamli sem tekur á móti mér með gelti þegar ég kem heim úr vinnunni.

Hvað er næst á dagskrá … að byrja að vinna í efri hæðinni í Kokku og þegar tími gefst til að klára smáatriðin í nýja eldhúsinu heima.

Takk fyrir spjallið elsku Guðrún, ég hvet ykkur til að kíkja við á Kokku.is og skoða úrvalið af dásemdum fyrir eldhúsið sérstaklega. Svona þar sem við erum mörg hver að eyða enn meiri tíma við bakstur og eldamennsku þessa dagana.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

ÓSKALISTINN // MARS

Óskalistinn

Fallegir hlutir fyrir heimilið og sitthvað fyrir mig sjálfa fá að sitja á óskalista mars mánaðar. Það er vor í lofti og mörg ykkar komin með nokkrar auka stundir sem eyða má meðal annars til að koma heimilinu í gott stand. Vorhreingerning, mála og ditta að verkum sem hafa setið lengi á to do listanum. Okkar helgi mun fara í það að mála nokkra veggi ásamt barnaherberginu – hlakka til að sýna ykkur útkomuna.

Eigið góða helgi –

// 1. Eyrnalokkar frá Hlín Reykdal. // 2. Veggljós frá Snúrunni. // 3. Sumarlegt viskastykki frá Kokku. // 4. Bleikt fínerí frá Raawii, Epal. // 5. Montana tv skápur úr Epal. // 6. Iittala plöntuvökvari. // 7. Plakat frá Paper Collective. // 8. Senso leðurskór frá Apríl skór. // 9. Heymat motta frá Dimm. // 10. Korbo gyllt karfa frá Kokku. //

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

HEIMILIS INNBLÁSTUR // FALLEGAR BORÐSTOFUR

BorðstofaFyrir heimilið

Innblástur dagsins eru fallegar borðstofur – um 40 talsins. Hér má finna eitthvað fyrir alla, stílhreinar borðstofur, litríkar, svartar, hvítar og persónulegar. Ég fæ að minnsta kosti margar góðar hugmyndir héðan fyrir okkar borðstofu, vona að þessar myndir veiti ykkur einnig innblástur.

Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.

Myndir : Svartahvitu á Pinterest 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

FALLEGT & LITRÍKT HEIMA HJÁ HÖNNU STÍNU

Íslensk heimili

Á þessum bjarta og sólríka degi er tilvalið að deila með ykkur einu glæsilegasta heimili landsins. Hér býr Hanna Stína innanhússhönnuður ásamt fjölskyldu sinni í Hafnarfirðinum. Heimilið hefur farið víða og meðal annars prýtt forsíðu Húsa og Híbýla ásamt því að birtast í þættinum Heimsókn þar sem það vakti mikla athygli. Heimilið er einstaklega vel hannað, persónulegt, skemmtilega litríkt og gefur ótal margar góðar hugmyndir.

Frekari upplýsingar um þetta glæsilega einbýlishús sem nú er komið á sölu má finna á fasteignavef Mbl.is en myndirnar birtust á Smartlandi og var það Gunnar Sverrisson sem tók myndirnar.

Kíkjum í heimsókn –

Myndir : Gunnar Sverrisson 

Hér gæti ég svo sannarlega búið, einstaklega smekklegt heimili og ég hreinlega elska litavalið hjá Hönnu Stínu.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

HALLA BÁRA SPJALLAR UM HÖNNUN & HEIMILI

FagurkerinnFyrir heimilið

Halla Bára Gestsdóttir hjá Home & Delicious er einn færasti innanhússhönnuður landsins og er þekkt fyrir einstaka smekkvísi. Hún hefur undanfarið haldið mjög vinsæl námskeið um innanhússhönnun á heimili sínu þar sem hún fer yfir ýmsa þætti til að koma sköpunargáfunni af stað og hvernig má vinna með eigin stíl. Námskeiðið byggir hún á hugmyndum sínum um að búa sér til áhugavert og fallegt heimili.

Ég fékk Höllu Báru til að deila með okkur nokkrum ráðum fyrir heimilið sem vel má nýta á þessum tímum þar sem flest okkar eyðum nú umtalsvert meiri tíma á heimilinu og um að gera sem best úr ♡

Hvað er það besta við heimilið þitt?

Heimilið mitt og okkar er bara við fjölskyldan. Það er persónulegt, lýsir okkur og okkar lífsstíl. Það er fullt af dóti sem segir okkar sögu. Ég get farið í gegnum það og sagt hvaðan allir hlutir koma, hver gaf, hver átti áður. Mér þykir ótrúlega gaman að eignast fallega og einstaka hluti sem annar hefur átt eða gefið okkur. Heimilið er samsafn af uppsetningum sem er gaman að horfa á, ég vil að hlutir njóti sín, púslist saman í heild og myndi jafnvægi og samhljóm.

En fyrir mig, þá er heimilið sá staður þar sem maður er maður sjálfur. Öruggastur. Umvafinn. Ég er þannig að ég þarf ekki að fara út úr húsi svo dögum skiptir. Elska að vera heima. Finn mér alltaf eitthvað að gera. Veit ekki hvað það er að vera eirðarlaus.

Hvernig myndir þú lýsa þínum heimilisstíl?

Ég veit námkvæmlega hvað mér finnst fallegt og það er margt og mikið án þess að slíkt sé akkúrat heima hjá mér. Við hjónin höfum líklega þróað með okkur einhvern stíl í gegnum árin sem við náum saman með, þótt við séum ekki alltaf alveg á sömu skoðun. Það væri pínu óeðlilegt því við höfum bæði mjög sterkar skoðanir. Okkar smekkur og stíll hér heima er mjög blandaður, sækir í ólík stílbrigði sem við setjum saman. Hann er dramatískur, þéttur, dökkur. Byggir á birtu og stemmningu í ljósi. Grunni sem gott er að vinna með og inn í. Breyta eftir þörfum fjölskyldunnar.

Lumar þú á einföldu ráði til að bæta heimilið án þess að breyta miklu?

Það er ýmislegt hægt að nefna og fer allt eftir því hver áherslan er. Á að taka til, fara í gegnum dótið, létta á, gera fallegra, færa til, breyta. Nú er sannarlega tækifæri til að gera eitthvað af þessu ef fólk vill og fyrir mér eru allir þessir þættir mikilvægir og spila saman. Ef við hugsum um einfaldasta þáttinn sem má nefna, þá er það að kaupa blóm og vera með kveikt á góðu ilmkerti. Ef á að gera meira, þá skulum við breyta og færa til dót. Hugsa út fyrir rammann og raða upp á óhefðbundinn hátt. Það skiptir rosalega miklu að mínu mati. Ef á að gera enn meira, þá skulum við mála og vinna með liti. Málum hurðir, geretti, gólflista og gluggaramma. Það gerir svo ótrúlega mikið fyrir umgjörðina og hugsum út fyrir hvítt í þeim efnum.

Eitt sem er mjög sniðugt að gera, og ég tala um á námskeiðunum mínum, er eftirfarandi: Að tína saman allt minna dót og skrautmuni á heimilinu á einn stað. Flokka það niður eftir efni, sbr. gler og keramik, þá má flokka eftir litum sem og tímabilum í hönnunarsögunni (mjög sniðugt ef verið er að safna einhverju). Með þessu má búa til nýjar, öðruvísi og fallegar grúppur í uppstillingum sem ná miklu sterkari heild í yfirbragði. Þarna er verið að breyta ótrúlega miklu þegar kemur að yfirbragði heimilisins á einfaldastan hátt.

Finnst þér einhver viss stíll ríkjandi á íslenskum heimilum?

Í raun ekki. Það er gjarnan talað um hjarðhegðun á Íslandi og að „allir” séu með sama stílinn en þótt margir hallist að svipuðu útliti og fylgi ákveðnum hópi, þá er það ekki sérstakur stíll. Það er meira yfirbragð sem fólk vill fylgja eða er hrifið að. En það er ekkert eitt sem er gegnumgangandi. Þarna er munurinn að mínu mati sá að stíllinn segir „bara ég” og er þinn einstaki smekkur en að fylgja öðrum er meira „veldu mig”, ég er hér.

Ef öll heimili þyrftu að vera máluð í sama lit, hvaða lit myndir þú velja?

Gráan lit. Gráir litir eru að vísu heill heimur af litatónum en ef einfaldlega er talað um gráan lit, þá gerir grátt alla liti fallegri, dýpri og einstakari. Mér þykir miður þegar gráir litir eru talaðir niður, því máttur þeirra er sannarlega mikill. Fyrir mér er grámálað heimili jafn sjálfsagt og hvítmálað.

Hvaða hlutur eða húsgagn fyrir heimilið situr efstur á óskalistanum?

Hér segir maðurinn minn, eini sanni, vinnuborð í eldhúsið. Lea, 16 ára, segist vilja Svaninn. Kaja, 11 ára, vill nýtt rúm. Ég vil sannarlega fallega eyju í eldhúsið en það sem mig hefur lengi langað í er Pipistrello-lampinn eða pappalampi eftir Noguchi. Þú sérð hvað rétt lýsing skiptir mig miklu máli! Fallegir lampar og ljós, vandaðar mottur, túlípanar og gæðailmkerti eru minn veikleiki og það sem mér þykir einstök prýði af.

En ég gæti samt alltaf búið til pláss fyrir einstaka hluti, sem myndu sóma sér vel, á heimilinu okkar ef þeir „bönkuðu” upp á. Ég myndi ekki loka á fölbleikan Svan úr leðri. Fyrir mér eru húsgögn eins og hann erfðagripir sem gaman væri að vita að myndu fylgja fjölskyldunni. Það gleður mig að sjá slíka hluti á áhugaverðum heimilum, þar sem vel er farið með þá. En þar er ekkert eitt sem mig langar sérstaklega í frekar en annað. Það er líklega vegna þess að mér þykir svo margt fallegt en alveg óháð því að ég spái í það hingað heim til okkar. En það er margt sem myndi passa vel, ég neita því ekki, en það kæmist bara ekki fyrir, nema annað færi út í staðinn! Við búum ekki stórt. Og mér þætti líka erfitt að losa mig við eitthvað af því sem við eigum, því ég er mjög ánægð með dótið okkar.

Myndir með færslu : Home & Delicous / Coco Lapine 

Ég hvet ykkur til að hafa samband við Höllu Báru og vera fyrst til að heyra af nýjum tímasetningum þegar vinsælu námskeiðin fara aftur af stað. Hallabara(hjá)hallabara.com og einnig er hægt að fylgjast með Home & Delicious á Facebook fyrir enn meiri innblástur.

Á námskeiðinu verður farið yfir ýmsa þætti til að koma sköpunargáfunni af stað og hvernig má vinna með eigin stíl. Huga að heimilinu í heild og hvetja til sjálfstæðrar hugsunar. Halla Bára fer yfir tíðarandann, tísku og stíl. Og svarar spurningum sem allar eru mikilvægt skref í átt að aukinni færni og meira öryggi í að vinna með rými sem vilji er til að geisli af. 

Hvað er það helsta sem búast má við að læra á námskeiðinu hjá þér?

Hugmyndin mín með þessum námskeiðum er að hvetja og aðstoða þá sem koma til mín að átta sig á, grafa eftir og finna hver þeirra smekkur og stíll er þegar kemur að yfirbragði heimilisins. Að átta sig á því skiptir höfuðmáli þegar kemur að persónulegu, fallegu og áhugaverðu heimili fyrir þig og þitt fólk.

Fyrir hverja er námskeiðið?

Einfaldlega fyrir alla sem hafa áhuga á innanhússhönnun og vilja ná lengra í að vinna með heimilið sitt. Gera þá vinnu ánægjulegri, án pressu, af meira öryggi, sætta sig við að gera stundum mistök. Fyrir þá sem vilja virkja sköpunargáfuna og kalla fram eigin hugmyndir án þess að láta aðra hafa áhrif sig.

Þarf að koma undirbúin/n?

Alls ekki. Eina sem þarf er áhugi. Það kemur til mín fólk sem vinnur að einhverju leyti við hönnun og arkitektúr og vill auka þekkingu sína og færni á innanhússhönnun. Sömuleiðis ungt fólk í hönnunar- og arkitektanámi. Eða þeir sem langar í slíkt nám. En aðallega bara fólk sem hefur áhuga á innanhússhönnun og vill gera meira með hana fyrir sig.

// Myndirnar með færslunni eru af fallegu heimili sem Halla Bára deildi með lesendum sínum á Home & Delicious vefnum og mér þótti tilvalið að leyfa að fylgja með.

  

Ljósmynd : Gunnar Sverrisson sem vill svo skemmtilega til að er eiginmaður Höllu Báru ♡

 

Takk fyrir spjallið mín kæra – þvílík uppspretta innblásturs og fróðleiks.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

NOKKRIR BLÓMAPOTTAR & BLÓMASTANDAR Á ÓSKALISTANUM

ÓskalistinnSamstarf

Ef það er eitthvað sem mig langar að gera um helgina þá er það að fylla heimilið af blómum og helst að bæta einni plöntu við safnið. Ég held að það sé einmitt það sem ég þarf á að halda þessa dagana fyrir geðheilsuna en falleg blóm og plöntur færa mér alltaf vissa gleði ♡ Í samstarfi við verslunina Epal vildi ég kynna fyrir ykkur að um helgina er hægt að næla sér í 15-25% afslátt af blómapottum og blómastöndum í tilefni þess að vorið er á næsta leyti. Núna er líka rétti tíminn til að umpotta plönturnar okkar sem þurfa á því að halda og því tilvalið að leyfa sér nýjan og fallegan blómapott undir þessar elskur. Ég hef lengi verið með augun á bleika plöntuboxinu frá Ferm Living og gyllti standurinn sem hægt er að bæta við hann gerir það alveg ómótstæðilegt.

Ferm Living – Iittala – Menu – Hay – AYTM og annað fínerí situr á óskalistanum. Ég sé fyrir mér þennan stóra svarta frá Ferm Living undir uppáhalds plöntuna mína, Strelitziuna. Plöntuboxið væri svo fullkomið í forstofuna þar sem einnig væri hægt að leggja frá sér smáhluti sem eiga það til að týnast.

Þið getið skoðað úrvalið í vefverslun þeirra – sjá hér – en núna er einnig í boði frí heimsending á öllum pöntunum sem er jákvætt fyrir okkur sem viljum helst halda okkur innandyra ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

SNÚRAN FAGNAR 6 ÁRA AFMÆLI MEÐ 20% AFSLÆTTI

SamstarfVerslað

Í dag eru liðin 6 ár frá því að Snúran byrjaði sem lítil netverslun og í tilefni þess verður 20% afsláttur af öllum vörum í bæði verslun og á netinu frá 19. – 22. mars. Eins og þið vitið flest þá er Snúran í dag ein af glæsilegri verslunum landsins og býður upp á einstök merki eins og  t.d. Reflections Copenhagen, Design by us, Bolia, OYOY, Iittala og fleiri vörumerki sem gleðja augu allra fagurkera. 

Í samstarfi við Snúruna tók ég saman mínar uppáhalds vörur sem allar eiga það sameiginlegt að vera á góðum afslætti á afmælisdögunum. Ég er að minnsta kosti með augun á nokkrum gersemum. Fyrir þau ykkar sem ekki treysta sér út á þessum tímum þá er gott að geta nýtt sér vefverslunina og einnig er hægt að hringja í verslun og fá afhentar vörur út í bíl. Brilliant!

// 1. Hrikalega töff Leaves veggljós. // 2. Blómleg Venus snyrtibudda. // 3. Gyllt Harakiri loftljós. // 4. Geggjaður röndóttur Candy púði. // 5. New Wave ljósið eina sanna. // 6. Drauma Diamond spegill frá Reflections. // 7. Klassísk iittala skál. // 8. Svarthvítur púði frá Bungalow. // 9. Gylltur og bleikur pouf frá Jakobsdal. // 10. Kristalskertastjaki frá Reflections, æðislegur litur. // 11. Plöntupottur á fæti frá Botanique. // 

20% afslátturinn gildir af öllum vörum í bæði verslun og á netinu frá 19. – 22. mars. Það má nú aldeilis gera vel við sig með eins og smá punti fyrir heimilið… úllen dúllen doff. 

Til hamingju með afmælið Snúran ♡ Megi árin ykkar verða enn fleiri!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

MASTERCLASS MEÐ KELLY WEARSTLER STJÖRNUHÖNNUÐI

Hönnun

Áhugasamir um innanhússhönnun gætu þótt þessar fréttir áhugaverðar. Fyrr í kvöld tilkynnti ameríski stjörnuhönnuðurinn Kelly Wearstler að hún yrði fyrsti innanhússhönnuðurinn til að kenna námskeið hjá MasterClass og bætist þar í hóp kennara á heimsmælikvarða. Þið ættuð eflaust nokkur að kannast við MasterClass prógrammið en þetta eru stutt fjarnámskeið í nánast flestu því sem hugurinn girnist. Kennararnir eru fólk úr bransanum sem er búið að mastera sitt fag, þar má nefna Anna Wintour, Marc Jacobs, Diane Von Furstenberg, Frank Gehry, Shonda Rimes og ó svo margir aðrir sem eru á meðal þekktustu listamanna samtímans.

Kelly Wearstler er einn þekktasti ameríski innanhússhönnuðurinn og einstaklega fær á sínu sviði. Ég nýt þess að minnsta kosti að fylgjast með hennar verkum á Instagram @kellywearstler

“Heimilið þitt er spegilmynd af því hvernig manneskja þú ert … “

Eins og gefur að skilja þá hef ég ekki reynslu af þessum námskeiðum en datt þó í hug að deila áfram með áhugasömum. Það þarf einnig varla að taka fram að hér er ekki á ferð Skandinavíski stíllinn sem við erum vön að sjá og það útskrifast enginn þaðan sem hönnuður. Eingöngu gert til gamans og hjálpar mögulega mörgum að sjá hvar áhuginn liggur ♡ Sjá meira hjá MasterClass. 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

HÖFUM ÞAÐ NOTALEGT HEIMA

HeimiliSvefnherbergi

Ég ætla ekki að reyna að koma í orð hversu hrikalegt ástandið er í dag og á mínu heimili hefur róðurinn verið mjög þungur undanfarnar 2 vikur ♡ En eitt veit ég og það er að það hefur sjaldan verið mikilvægara en að hafa það notalegt heima með okkar kærasta fólki ( þ.e. þeim sem við megum hitta).

Undanfarið hef ég verið að leiða hugann að þeim verkefnum sem ég tæki mér fyrir hendur á heimilinu ef það kæmi til leikskólalokanna / eða sóttkvíar og það væri áhugavert að taka jafnvel saman færslu með góðum hugmyndum hvað hægt er að gera.

Í dag langar mig til þess að deila með ykkur fallegum heimilisinnblæstri sem gefur góðar hugmyndir. Svefnherbergið er í uppáhaldi hjá mér, þvílíkur draumur að geta gengið út á svalir og drukkið morgunbollann á sólríkum degi. Hillurnar sem klæða stofuvegginn er líka bráðsniðug lausn og gefur heimilinu mikinn karakter.

Eigið góða viku –

Myndir : Stadshem

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu