SVONA VERÐA JÓLIN HJÁ H&M HOME

H&M home

Er þessi færsla nokkuð of snemma á ferð?

Eins og þið vitið mörg nú þegar þá opnaði ein uppáhalds verslunin mín, H&M home loksins á Íslandi í lok síðustu viku og ég var eins og lítið barn í nammiverslun þegar ég skoðaði allt vöruúrvalið í fyrsta sinn. Ég hef lagt leið mína í þessa sérstaklega skemmtilegu heimilisdeild sænska tískurisans undanfarin ár og fylgist vel með nýjungum frá þeim í gegnum norrænar bloggvinkonur og stundum svekkt mig á því að geta ekki nálgast vissar vörur nema með miklum krókaleiðum – sem ég þarf ekki lengur á að halda. Það gladdi mig þessvegna mikið þegar ég fór yfir blogghringinn minn í morgun og rakst á fallegar jólamyndir úr smiðju H&M home – þvílíkur draumur, og eitthvað sem ég get nælt mér í hvenær sem er ef mér sýnist svo ♡

Ég er ekki frá því að jólaandinn sé að hellast yfir mig, er reyndar búin að vera með kvef og ligg undir teppi með kveikt á kerti – svo það spilar vissulega inn í þennan kósýfíling hjá mér. Núna vantar bara piparkökurnar og jólatónlistina. Hóhóhó.

 // Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

DIMM OPNAR VERSLUN // GJAFALEIKUR & INNLIT

SamstarfUppáhalds

Ein af mínum uppáhalds verslunum DIMM opnaði á dögunum glæsilega og stærðarinnar verslun í Ármúla 44, en hingað til hefur DIMM verið ein fremsta vefverslun landsins. Ég samgleðst þeim DIMM stöllum alveg innilega að hafa opnað drauma verslunina sína og dáist jafnframt að öllum þeim sem byrja með lítinn rekstur, lítil vefverslun í þeirra tilfelli og á ótrúlega stuttum tíma er hún orðin ein glæsilegasta verslun landsins. Ég kíkti í heimsókn og fékk að taka nokkrar myndir og það gladdi mig ógurlega mikið þegar mér var boðið að gefa tvo vinninga í gjafaleik til lesenda minna.

DIMM býður upp á mikið úrval af fallegri gjafavöru, fínerí fyrir barnaherbergi, sælkeravörur, hönnun fyrir heimilið og núna hefur einnig bæst við einstaklega falleg gerviblóm frá einum þekktasta hönnuði Bretlands, Abigail Ahern sem eru ótrúlega raunveruleg. Það verður líklega mitt fyrsta verk þegar við flytjum inn á heimilið okkar að kíkja við og næla mér í vönd.

// Taktu þátt í laufléttum gjafaleik og þú gætir unnið glæsilegan púða í lit að eigin vali frá Louise Smærup ásamt risa trylltum Pampass stráum. Lestu leiðbeiningarnar neðst í færslunni til að taka þátt. 

// Ég fékk ekki greitt fyrir þessa færslu en Dimm gefur vinningana í leiknum. 

HVERNIG SKAL SKRÁ SIG TIL LEIKS ♡

Skráðu þig í pottinn og þú gætir unnið púða í lit að eigin vali frá Louise Smærup ásamt þremur Pampass stráum (búnt) og er vinningurinn að andvirði 20.960 kr.! Einu skilyrðin eru að fylgja DIMM á Instagram @dimmverslun. Þegar það er orðið klárt skráir þú þig hér að neðan í athugasemd. Auktu vinningslíkurnar með því að skrá þig einnig í pottinn á instagram síðu Svartáhvítu – sjá hér.

Tveir heppnir vinningshafar verða dregnir út mánudaginn 15. október.

Hér að ofan má sjá brot af púðaúrvalinu ásamt fallegu Pampass stráunum.

 // Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FALLEGT HEIMILI NORSKS BLOGGARA

Heimili

Ég held að það sé aldeilis kominn tími á fallegt innlit – og í þetta skiptið varð fyrir valinu glæsilegt norskt heimili hennar Ninu sem birtist upphaflega hjá Oslo Decor.  Nina heldur úti bloggsíðunni Note to self sem er vert að kíkja á ásamt því að ég mæli með Instagram síðunni hennar @nina_notetoself.  

Kíkjum á þetta fallega & haustlega heimili sem veitir innblástur –

Myndir: Birgit Fauske via Oslo Deco

Ljúfur föstudagur hér á bæ, ég sit hér heima með tvo litla gaura hjá mér til skemmtunar. Leikskólinn er lokaður og því er litli gaurinn minn með leikfélaga í allan dag jibbý. Eigið góða helgi ♡

 // Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

MÍN HLIÐ

Samstarf

Uppfærð útgáfa: Ég varð að fá að uppfæra þessa færslu sem fór í loftið í gærkvöldi – þegar hún var birt var ég í tilfinningalegu uppnámi, bæði vegna þessa máls og því að strákurinn minn var í aðgerð á sama tíma -mömmuhjartað því meira brothætt en gengur og gerist.

Eins og einhver ykkar kunna að hafa orðið vör við þá var íslenskur fjölmiðill sem tók það til umfjöllunar að ég ásamt Fanneyju Ingvars hefðum verið teknar fyrir af Neytendastofu og okkur bannað að nota duldar auglýsingar. Umrætt atvik tengist færslu sem ég skrifaði um myndavél sem ég fékk í gjöf frá Origo í vor, myndavél sem ég er raunverulega ánægð með og tók ég tvisvar sinnum fram í umræddri færslu að myndavélin hefði verið í gjöf. Sjá færslu – hér – ég tek fram að ég er í dag búin að gera það enn skýrara að um samstarf hefði verið að ræða, svo það ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Ég er ekki fullkomin og get vissulega gert mistök eða gleymt mér, ég hinsvegar er mjög heiðarleg og reyni að miðla alltaf réttum upplýsingum frá mér í gegnum þennan miðil sem ég skapaði mér sjálf. Hugtakið duld auglýsing er algjörlega nýtt fyrir mér og eitthvað sem ég myndi aldrei stunda – en það vitið þið líka sem lesið færslurnar mínar.

Ef mér er bent á mistök þá leiðrétti ég þau strax. Neytendastofa hefði svo sannarlega getað bent mér á að færslurnar væri ekki rétt eða nægilega vel merktar í gegnum tölvupóst eða síma og við getað átt gott spjall um samfélagsmiðla, reglur og annað. Þess í stað fékk ég sent bréf frá þeim með þessum ásökunum sem ég svaraði strax í tölvupósti með minni hlið á málinu.

Þarna hélt ég svo sannarlega að málinu væri lokið og við á Trendnet áttum góða umræðu hvernig við gætum staðið enn betur að þessum málum. Ég hef núna útbúið nýjan flokk “samstarf” og þar má sjá þær færslur sem ég hef fengið greitt fyrir, gefins vöru eða afslátt og er ég enn að vinna í að uppfæra þennan flokk.

Í lok síðustu viku fæ ég svo símtal frá indælum leigubílstjóra sem þurfti nauðsynlega að koma á mig ábyrgðarpósti frá Neytendastofu sem ég þurfti að taka á móti í persónu og kvitta fyrir. Þar sem ég var stödd erlendis yfir helgina (allan tímann með hugann við þetta skjal), þá var mitt fyrsta óvænta verk á mánudagsmorgni að taka á móti þessum sama leigubílstjóra sem afhenti mér skjöl frá Neytendastofu. Skjölin innihéldu útprentuð samskipti sem ég hafði átt við þau og talið var upp hvaða reglur ég hefði brotið, ásamt því að tilkynna mér að nú væri búið að banna mér að nota duldar auglýsingar – annars gæti ég átt von á sekt.

Þarna ætlaði ég varla að trúa að þau hefðu ekki bara getað sent mér einfaldan tölvupóst, en eflaust einhverjir verkferlar sem þarf að fylgja. Ég bókstaflega átti von á að mér yrði rétt ákæra eftir það sem á undan var gengið. Og svo núna hélt ég að málinu væri svo sannarlega lokið.

Ekki fyrr en í morgun þegar ég rekst á miður skemmtilegan fréttarflutning á Vísi.is. Blaðamaðurinn hefur birt samskipti mín og Fanneyjar við Neytendastofu á vefnum þeirra að undanskildnum einum punkt sem mér fannst mjög mikilvægur. Hann snérist um að það væri algjör undantekning ef mínar bloggfærslur fjalla um vörur eða þjónustu sem ég fæ að gjöf.

Ég hef einnig ítrekað í tveimur póstum til Neytendastofu að gott væri að þeir væru með skýrari reglur og kallaði jafnframt eftir betra samstarfi. Mér þykir miður að þess í stað fór þetta beint í fjölmiðla þar sem grafið er undan mér og minni vinnu sem ég reyni ávallt að gera að fullum heilindum.

Ég er fyrst og fremst leið og sár yfir þessu máli.

Ég hef vægast sagt átt ömurlegan dag, en gat ekki hugsað mér að leggjast á koddann fyrr en ég kæmi þessu frá mér og ætla því að hætta hér. Ég mun halda áfram að skrifa hér inná á minn hátt, heiðarleg eins og áður, en með þetta á bakvið eyrað. 

Með vinsemd og virðingu,

Svana.

Hér má lesa færslu Fanneyjar ♡

NÆST Á DAGSKRÁ // MAKE UP STUDIO HÖRPU KÁRA

Persónulegt

Hvað er að frétta af mér? Jú ég ákvað að hrista aðeins upp í tilverunni minni og skrá mig með engum fyrirvara í förðunarnám hjá Make Up Studio Hörpu Kára og VÁ hvað það eru búnir að vera skemmtilegir síðustu dagar! Þetta er svo sannarlega ný áskorun en það er stundum gott að geta ennþá komið sjálfum sér á óvart og upplifa eitthvað nýtt. Eins og einhver ykkar tókuð eflaust eftir hjá mér á instagram þá kíkti ég í heimsókn í lok síðustu viku í Make Up Studio Hörpu Kára þar sem ég ætlaði að óska Hörpu til hamingju með glæsilega förðunarskólann sinn og var það dýrkeypt heimsókn haha. Þeir sem þekkja til Hörpu vita að hún er einn mesti snillingur sem hægt er að finna, jafnframt því að vera einn færasti förðunarfræðingur landsins þá hefur hún líka ansi góðan húmor og í hálfgerðu gríni seldi mér þá hugmynd að mæta á mánudaginn í förðunarnám.

Og hér er ég.

Núna er því A – týpan mætt á svæðið sem vinnur á kvöldin og undirbýr nesti fyrir daginn eftir til að þrauka í gegnum langa og vel skipulagða daga. Ég er ekki alveg viss um að ég þekki þessa Svönu en mér er farið að líka ansi vel við hana! Þið sem lesið Trendnet vitið líklega að elskuleg Guðrún Sørtveit er ein af nokkrum frábærum kennurum við skólann og ég get ekki beðið eftir að drekka í mig þekkinguna sem þessir snillingar bjóða upp á.

Ert þú búin/n að prófa eitthvað nýtt nýlega? Ég mæli með því ♡

 // Fylgist einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NÝTT FRÁ BY LASSEN // MINI KUBUS

Hönnun

Með haustinu fylgja alltaf spennandi nýjungar úr hönnunarheiminum og ein þeirra sem er eflaust eftir að vekja mikla lukku er enn ein viðbótin við klassísku Kubus línuna frá by Lassen. Fyrr á árinu kom út blómavasinn Lolo sem passar við Kubus línuna og núna voru kynntar mini Kubus skálar og kertastjakar fyrir sprittkerti ásamt lágum Kubus skálum sem koma í tveimur stærðum. Kubus aðdáendur geta því eflaust hoppað af kæti, en kertastjakinn frægi ásamt fylgihlutum er án efa ein vinsælasta hönnunin sem sést á íslenskum heimilum.

Kubus kertastjakann fræga hannaði arkitektinn Mogens Lassen upphaflega árið 1962. Síðan þá hefur Kubus línan stækkað töluvert og má nú fá kertastjaka í ólíkum stærðum, skálar og blómavasa.

Hvernig lýst ykkur á þessa nýju viðbót í Kubus línuna?

 // Fylgist einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

PLANTA DRAUMA MINNA ER MÆTT ! STRELITZIA

Fyrir heimiliðPersónulegtSamstarf

Eins og þið hafið eflaust nokkur tekið eftir þá hef ég verið á höttunum eftir stórri pottaplöntu í einhvern tíma og draumurinn var vegleg Strelitzia eða einhverskonar bananaplanta. Ég hafði verið að spurjast fyrir hjá Garðheimum og fékk fyrir um mánuði síðan þær upplýsingar að það væri væntanleg stór plöntusending um miðjan september og þessi planta gæti verið í henni. Eins og mér einni sæmir þá setti ég þessar upplýsingar að sjálfsögðu í dagatalið mitt og hef fylgt því eftir með heimsóknum eða facebook póstum til Garðheima – já ég er klikkuð þegar ég fæ hluti á heilann. En þess má geta að ég hef einnig gert tilraunir að versla plöntuna á e-bay og Amazon án árángurs – því ekki margir vilja senda til Íslands vegna þess að við erum víst með rosalega strangar reglur þegar kemur að innflutningi á plöntum. Anyways.

Í gær fékk ég skilaboð á facebook frá Garðheimum / yndislegum starfsmanni að plantan mín hafi leynst í sendingunni – halelúja! (Ég var þarna líka í byrjun vikunnar að spurjast fyrir). Svo það fyrsta sem ykkar kona gerir í dag er að sjálfsögðu að bruna til þeirra og kippa einni með heim. Er ég hamingjusöm með nýju plöntuna? JÁ!

Þetta litla bleika krútt fékk líka að fylgja með heim, svo lítið að það þarf kertastjaka sem blómapott.

Góða helgi ♡ P.s. fyrir áhugasama þá komu aðeins 6 stk af Strelitziu til landsins svo ég myndi hafa hraðar hendur…

 // Fylgist einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NÝTT // BLEIKT & FALLEGT FRÁ BITZ

Eldhús

Það voru að bætast við nýir og fallegir litir við stellið frá Bitz og þið megið giska á hvaða lit ég er með augastað á – ég á nú þegar svarta matardiska úr stellinu og kem til með að bæta við það morgunverðarskálum, eldföstum mótum og fleiru með tímanum. Það má jú lengi á sig bæta fallegum hlutum, hvað þá þegar notagildið er svona gott.

Christian Bitz er ekki bara hönnuður heldur státar hann einnig af meistaragráðu í næringarfræði og er hans ástríða sú að fá fólk til að borða hollann mat og stunda heilbrigðan lífstíl og er stellið hans hannað þannig að þú eigir auðveldara með að fá skilning á skammtastærðum og það að lifa hollum lífstíl eigi að vera skemmtilegt og auðvelt og augljóslega líka smart!

Þessi litadýrð er æðisleg, sjá hvað þetta myndi lífga við matarboðið! Ég er almennt mjög hrifin af því að blanda saman borðbúnaði úr mörgum áttum og er þessvegna mjög hrifin af þessum fjölbreyttu litum sem er jafnvel hægt að para við borðbúnað sem við eigum nú þegar. Þá held ég áfram að bæta við á óskalistann minn langa ♡

 // Fylgist einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

HELGARINNBLÁSTUR –

Fyrir heimiliðPersónulegt

Helgarinnblástur í boði Pinterest – ég hef verið önnum kafin undanfarna daga, þið vitið líklega afhverju, en vá hvað það eru spennandi tímar framundan. Þið hafið mörg verið að spurja mig út í framkvæmdirnar og hvað við ætlum að gera mikið, staðan er sú að við ætlum að gera allt hægt og rólega en ég er sannfærð um að það verði gott að byrja á því að flytja inn – þegar loftið er komið – og þá sjáum við betur hvernig við viljum hafa hlutina. Breytingar á t.d. baðherbergi eru gífurlega kostnaðarsamar og ef þær eru ekki nauðsynlegar þá er vissulega fínt að spara pening fyrir þeim breytingum sem við ætlum að gera… Aðeins á nokkrum dögum fór kostnaðarhugmyndin mín langt út um gluggann, en efnið í loftið var u.þ.b. þrefalt dýrara en ég átti von á haha, en vinnumennirnir mínir voru ekkert hissa. Svo ég fæ kannski að spara nokkrar hugmyndir í kollinum fram á vor;)

Vonandi verður helgin ykkar góð!

Myndir via Pinterest / Svartahvitu 

 // Fylgist einnig með á Instagram @svana.svartahvitu