ELDHÚSINNBLÁSTUR // VIFTUR – JÁ EÐA NEI?

EldhúsFyrir heimilið

Eldhúsið mitt er verk í vinnslu – en vá hvað ég sé vel fyrir mér lokaútkomuna, hvenær sem það verður ♡ Þegar við fluttum inn var eitt það fyrsta sem ég gerði að taka niður viftuna í eldhúsinu og fékk send ófá skilaboð að það væri ekki mjög sniðug hugmynd. Núna um fjórum mánuðum síðar er komin ágætis reynsla á að brasa í eldhúsinu án viftu og get ég talið skiptin sem ég vildi hafa óskað þess að hafa viftu, ég skrifa það jafnvel á að það er ekki hægt að lofta vel út um gluggana í eldhúsinu (nýir gluggar eru líka verk í vinnslu). Ég er þó enn á báðum áttum og kem jafnvel til með að breyta smá í eldhúsinu með vorinu. Skoðum smá innblástur á þessum fína sunnudegi –

// Með eða án? Sjáið hvað þessi eldhús öll eru þó glæsileg.

Myndir : Pinterest 

Fyrst og fremst þá þarf að vera hægt að lofta vel út ef þú ætlar að sleppa því að vera með viftu í eldhúsinu, það vinnur þó með okkur að við erum mjög sjaldan að steikja mat á pönnu og eldum oftar í ofninum. Það er þó lítið mál að láta viftuna falla inn í innréttinguna eða finna útlit sem hentar þínum stíl – og það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera næst. En þetta er persónulegt val og þarf að velja útfrá því hvað hentar ykkar heimili.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

HEIMA HJÁ GARANCE DORÉ Í L.A.

Heimili

Hin franska Garance Doré er smekkkona með meiru – ljósmyndari, tískubloggari og áhrifavaldur, teiknari og rithöfundur sem er þó líklega þekktust fyrir vefmiðilinn sinn Atelier Doré. Hún er búsett bæði í NY og L.A. en heimilið hennar í Los Angeles birtist fyrir stuttu síðan í tímaritinu Domino. Við ætlum að kíkja í heimsókn –

 

 

Myndir : Domino

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

UPPÁHALDS HÚSGAGNIÐ MITT // SVEINN KJARVAL 100 ÁRA

Íslensk hönnunKlassíkPersónulegt

Í dag þann 20. mars 2019 hefði húsgagna- og innanhússhönnuðurinn Sveinn Kjarval (1919 – 1981) orðið 100 ára. Í tilefni dagsins er vel við hæfi að rifja upp þennan merkilega mann og hans hönnun en Sveinn Kjarval var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun á Íslandi.

Ég held mikið upp á eitt húsgagn eftir þennan meistara, en það er ruggustóllinn klassíski sem ég fékk frá ömmu minni og afa sem prýtt hefur stofuna mína undanfarin ár en upphaflega átti langamma mín stólinn.

“Framleiðsla á þessum vinsæla ruggustól á sjöunda áratugnum var mikilvægur þáttur í starfsemi verkstæðisins Nývirkis (st. 1955). Þar fór einnig fram merkileg frumgerðasmíði og sérsmíði. Mikil eftirspurn var eftir ruggustólnum og talið er að framleiðslan hafi skipt hundruðum og setan ýmist klædd skinni eða ullaráklæði. Snemma á 20. öld varð ruggustóll tískuvara og tákngerður gripur á heimilum, hér á landi sem annars staðar, eða allt þar til viðameiri stillanlegir hvíldar- eða sjónvarpsstólar komu til sögunnar. (sýningartexti af sýningunni Óvænt kynni árið 2013). ” Texti – Hönnunarsafn Íslands.

SVEINN KJARVAL 100 ÁRA – FYRIRLESTUR 

Sveinn Kjarval  var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun á Íslandi. Í tilefni af því að eitthundrað ár eru liðin frá fæðingu hans miðvikudaginn 20. mars mun Dr. Arndís S. Árnadóttir flytja fyrirlestur um verk hans og störf. Fyrirlesturinn fer fram í kirkju Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56 en Sveinn hannaði meðal annars kirkjubekkina í þessa fallegu kirkju.

Fyrirlesturinn fer fram í kvöld, miðvikudaginn 20. mars kl. 20.00 og er í boði Hönnunarsafns Íslands.

Fyrir áhugasama þá tók ég saman smá texta um hönnuðinn Svein Kjarval, úr grein sem birtist í Morgunblaðinu árið 2014 , þá í tilefni 95 ára fæðingarafmælis hans.

“Sveinn Kjarval, innanhúss- og húsgagnaarkitekt, fæddist í Danmörku 20.3. 1919. Foreldrar hans voru Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálari og k.h., Tove Kjarval, f. Merrild, þekktur rithöfundur, af listamannaættum.

Sveinn var búsettur í Reykjavík skamma hríð, hann flutti síðan með móður sinni aftur til Danmerkur, ólst þar upp og lauk prófum í húsgagnasmíði 1938. Sveinn kom til Íslands 1939, vann við smíðar og var verkstjóri á vegum ameríska hersins, en fór aftur utan 1946, stundaði nám við Kunsthåndværkskolen í Kaupmannahöfn og brautskráðist sem innanhússarkitekt vorið 1949. Sama ár kom hann aftur til Íslands og vann hér að húsgagna- og innanhússhönnun til 1969 en flutti þá enn til Danmerkur og bjó þar síðan.

Sveinn var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun hér á landi á þeim árum er einhæfni ríkti á því sviði, hönnun talin óþörf og jafnvel óþekkt. Í húsgagnahönnun innleiddi hann hina hreinu og léttu dönsku línu sem m.a. má sjá í borðstofu- og ruggustólum hans frá þeim tíma. Hann hannaði auk þess innréttingar fyrir Þjóðminjasafnið, bókhlöðuna á Bessastöðum, veitingahúsið Naustið og kaffistofuna Tröð í Austurstræti. Þá kenndi hann við handíðadeild Kennaraskólans 1951-56 og hélt fjölda fyrirlestra um hönnun, en oft fyrir daufum eyrum. Sveinn lést 10.2. 1981.” Morgunblaðið, 20. mars, 2014. 

Einnig er áhugaverð minningargrein sem var rituð um hann stuttu eftir andlát og birtist í Morgunblaðinu, og lýsir vel hans skemmtilega karakter. Hægt er að lesa með því að smella hér.

Ég hvet áhugasama til þess að kíkja á fyrirlesturinn sem haldinn er í kvöld –

Það væri vel við hæfi á 100 ára afmælisári Sveins Kjarvals að gera upp ruggustólinn minn sem mig hefur lengi langað til, pússa og bera á og að lokum að endurnýja skinnið sem komið er til ára sinna. Stóllinn minn hefur verið notaður mikið í gegnum nokkra áratugi og sést því vel hversu mikil gæðasmíði stóllinn er og mikið stofuprýði.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÆVINTÝRALEGT BARNAHERBERGI

Barnaherbergi

Í dag ætla ég að deila með ykkur ævintýralega fallegu barnaherbergi sem veitir innblástur. Það er mikið að gerast í þessu litla herbergi, sterkir litir, mikið af fallegum leikföngum og skrautmunum, áberandi veggfóður og mikill textíll. Skoðum samt hvað útkoman er falleg og notaleg án þess að vera yfirþyrmandi að mínu mati. Barnaherbergið er í eigu dóttur Elin Wallen, stílista og sviðshönnuðs – sem útskýrir að mörgu leyti hversu fallega skreytt barnaherbergið er.

Myndir : StudioElwa.se

Ég mæli einnig með að fylgjast með henni á instagram þar sem hún deilir dásamlega fallegum myndum af heimilinu ásamt lífi og tilveru @StudioElwa.

Myndir @StudioElwa

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÓSKALISTINN // MARS

Óskalistinn að þessu sinni er mjög Svönulegur ♡

Á morgun verða smá breytingar hjá mér þegar ég fæ afhenta vinnustofu sem ég kem til með að nota undir ýmisleg ólík verkefni, ég get hreinlega ekki beðið eftir að skipta um vinnuumhverfi og kynnast nýju frábæru og skapandi fólki. Ég nýtti brot af deginum að týna til hér heima hluti sem fá að fylgja mér á vinnustofuna til að gera örlítið huggulegt – flest allt þó hlutir sem ég kem til með að nota að sjálfsögðu.

Ég settist upphaflega við tölvuna til að skoða vinnulampa og eitt leiddi að öðru – þessi listi varð til ♡ Ég viðurkenni að ég er bálskotin í nýja bleika Múmínbollanum sem var að koma út, kallast Ósýnilega barnið Ninny. Hann kemur líklega til að vera vinnustofu bollinn minn. En ein evra af hverjum seldum Ninny bolla (og nýja Múmínsnáðabollanum) hér á landi árið 2019 mun renna til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Á vafri mínu svo á iittala síðunni sá ég þann allra fallegasta lit af Aalto vasanum sem ég hef augum litið! Vasann hef ég enn sem komið er ekki séð í verslunum hér heima – vonandi væntanlegur. Ég bráðna niður í gólf þessi fjólublái litur er svo geggjaður.

 

// 1. Bitz stell í bleiku. Bitz fæst m.a. í Bast & Snúrunni. // 2. Sæti nýji Múmínbollinn – elska þennan! Fjölmargir sölustaðir Múmín, m.a. Kokka & Epal. // 3. Marmarastjaki – vasi frá Fólk Reykjavík er enn ekki orðinn minn en mun verða það, er svo skotin í vörunum þeirra. Fæst m.a. í Kokku & Epal. // 4. Alvar Aalto collection vasi – iittala.com // 5. Eilífðarrós frá Abigail Ahern – ég elska möguleikann að hafa gerviblóm í vasa allan ársins hring. Fæst í Dimm. // 6. Wrarrr þessar mottur eru svo æðislegar – fullkomnar í barnaherbergið. Fæst í úrvali hjá Purkhús. // 7. Stór skál – fat frá Bitz sem ég held svo uppá. Flott í matarboðið. Fæst m.a. í Bast & Snúrunni. // 8. Stílhreinn borðlampi, þessi væri æði á vinnustofuna. Fæst í Dimm.

Ég væri svo sannarlega til í að eiga allt á þessum lista.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

KVENLEGT & FÁGAÐ Á 34 FERMETRUM

Heimili

Ímyndum okkur í stutta stund að þetta væri heimilið okkar – og svona væri inngangurinn. Ótrúlegt en satt þá er íbúðin ekki nema 34 fermetrar en hver og einn fermetri vel nýttur og úthugsaður. Fágað yfirbragð sem tónar vel við byggingarstílinn og falleg hönnun sem skreytir heimilið, uppáhalds Vertigo ljósið mitt frá Haf Store trónir yfir stofunni ásamt Mantis veggljósinu vinsæla.

Sjá þennan glæsilega stigagang.

Bleikir og mjúkir tónar í stofunni sem er stílhrein og nóg af textíl sem gerir allt svo hlýlegt. Mantis veggljósið frá Lumex er fallegt.

 

Vertigo kemur sérstaklega vel út þar sem svona hátt er til lofts – eitt af mínum uppáhalds ljósum.

Ég er sérstaklega hrifin af því að hafa spegil á hilluveggnum í eldhúsinu sem er annars í minni kantinum og gefur spegillinn tilfinningu um aukið rými.

Svönubleikt og fínt lítið svefnherbergi –

Myndir // Alexander White fasteignasala

Þessi stíll hentar mér persónulega mjög vel, ég hrífst af kvenlegu yfirbragði, dýramynstur hitta mig beint í hjartastað og bleiki liturinn á mig að eilífu. Alveg án þess að ætla að vera dramatísk! Hvernig finnst ykkur þessi?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

SÆNSKT SJARMATRÖLL

BarnaherbergiHeimili

Sænskt og sjarmerandi eins og það gerist best – húsið var byggt árið 1926 og stendur í huggulegu einbýlishúsahverfi í Gautaborg. Stíllinn er blandaður, klassískur skandinavískur stíll í blandi við sveita rómantík, slík blanda er yfirleitt mjög heillandi. Herbergin eru 8 talsins svo það mun eitt þeirra að minnsta kosti heilla þig uppúr skónum, hjá mér er það barnaherbergið sem er algjört æði. Kíkjum í heimsókn,

Sjáið þetta ævintýralega barnaherbergi, dýramottuna hef ég áður skrifað um en hún fæst hjá Purkhús.is – ofarlega á listanum fyrir herbergið hans Bjarts.

Þessi blái litur minnir mig mikið á Denim Drift frá Sérefni, fullkominn á svefnherbergið.

Myndir via Lundin fasteignasala

Svo fallegt ekki satt?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

HELGARINNLIT : SÆNSKT & LEKKERT

Heimili

Ég hrífst af mjúkri litasamsetningunni á þessu heimili sem ég vil deila með ykkur í dag. Ljósgrábleikar hörgardínur við ljósgráa veggi, dásamlegt eikar fiskibeinaparket og silfurgrá mottan sem rammar inn stofuna. Sjáið hvað þetta fer vel saman við marmarann í opnu eldhúsinu og glæsilegan marmarastandinn á Arco lampanum. Svo eru vel valin atriði sem gera heimilið áhugaverðara þó ég hefði viljað sjá ögn meira af slíku, þar má nefna tígrisdýramynstraða púða, sebra mottu, rautt glerborð og svo bláa skálin í eldhúsinu – allt saman mikilvæg atriði til að heildin sé ekki flöt.

Æðislegir púðar, mjög ofarlega á mínum lista. Finnst gólflampinn þó hálfpartinn týnast umkringdur meistaraverkum á við Arco og Snoopie í sama rými.

Stílhrein vifta fyrir ofan eldavélina.

Sjá þessar fallegu gardínur, ég er alveg veik fyrir svona hörgardínum.

Myndir: Alexanderwhite fasteignasala

Vona að helgin ykkar hafi verið ljúf ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

BJÖRN BRAGI SELUR Í MIÐBÆ REYKJAVÍKUR

Heimili

Einn fyndnasti maður landins, Björn Bragi hefur sett íbúðina sína á sölu sem staðsett er í hjarta Reykjavíkur, á Lindargötu. Íbúðin er björt og falleg og takið eftir hvað það kemur vel út hvernig allir veggir og loft voru máluð í sama hlýja ljósgráa litnum sem tónar vel við gólfefnið. Ljósmyndasnillingurinn Gunnar Sverrisson tók þessar glæsilegu myndir í gær og leyfði mér að deila – kíkjum í heimsókn…

 

Ljósmyndir : Gunnar Sverrisson 

Fyrir frekari upplýsingar um fasteignina kíkið þá yfir á fasteignasíðu Morgunblaðsins – sjá hér.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

STÍLLINN “HEIMA” HJÁ CAMILLU PIHL

Fyrir heimiliðHönnunSkrifstofa

Camilla Pihl er einn vinsælasti bloggarinn og tískufyrirmynd í Noregi og fyrir utan það að vera með sína eigin húðvörulínu er hún þessa dagana á fullu að vinna í því að koma á fót sínu eigin fatamerki. Alvöru kjarnakvendi hér á ferð en þekktust er hún þó fyrir sinn óaðfinnanlega stíl sem hefur skapað henni svona stórt nafn. Ég datt niður á þessar fallegu myndir sem teknar eru af skrifstofunni hennar í samstarfi við norsku verslunina Oslo Deco, það er hálf erfitt að trúa að þetta sé skrifstofan hennar en ekki heimilið, en aðspurð sagðist hún hafa viljað skapa hálfgert heimili fyrir sig og starfsfólk sitt til að líða sem best í vinnunni – eðlilega.

Skrifstofan er skreytt dýrindis hönnunarvörum og fallegum mublum, þar má nefna Slit speglaborð frá HAY, IC gólflampa frá Flos, Taccia lampa drauma minna frá Flos og svo má nefna marmara eldhúsborðið sem er með því allra fallegasta. Kíkjum í heimsókn.

– Sjáðu fleiri myndir og lestu viðtalið hjá Oslo Deco –

Ég fylgist mest með Camillu Pihl á Instagram – þið getið fylgst með henni með því að smella hér. Rétt upp hönd sem gæti hugsað sér svona skrifstofu? ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu