fbpx

UM ÓLITRÍK HEIMILI OG ÓLÍKAN SMEKK

Heimili

Ég rakst á dögunum á umræðu þar sem rætt var um hvað heimili væru orðin ólitrík í dag og öll orðin eins, svört hvít og grá. Ég hef gaman af uppbyggilegum skoðanaskiptum og hlusta oftar en ég hef áhuga á allskyns taut um heimili – þá sérstaklega íslensk. Ég hef þó aldrei staðið sjálfa mig að því að deila slíkum skoðunum, enda hrífst ég af óteljandi ólíkum heimilisstílum þrátt fyrir að ég viti vel hvar minn persónulegi stíll liggur. Svart hvít heimili geta verið óskaplega falleg og jafnvel persónuleg, allt grátt frá gólfi til lofts getur verið mjög hlýlegt og allt hvítt getur verið mjög sjarmerandi. Það að við sjálf kjósum ekki slíkt fyrir okkar eigin heimili þá þýðir það ekki að það veiti ekki öðrum ánægju.

Sumir leyfa sérkennilegum áhugamálum að einkenna heimilin og aðrir leyfa gífurlegum söfnunaráhuga að yfirtaka sitt. Litrík heimili eru jafn algeng og þessi ólitríkari og stílhreinni og stundum þarf einungis að líta í eigin barm og endurmeta hverjum við fylgjum, hvaða blöðum við flettum og hverja við hlustum á til að sjá að lífið er stútfullt af einhverju fyrir alla. Litríku eða ekki.

Í tilefni umræðunnar læt ég fylgja með myndir frá fallegu hvítu heimili frá Anette @whitelivingetc þar sem nánast enga liti er að finna. Heimilið er fallegt og ber með sér vissa ró. Hún er staðföst á sínum stíl sem ég tel jákvætt, ef þú finnur eitthvað sem þú hrífst af skaltu bara fara alla leið. Það mun að minnsta kosti veita þér gleði og það er það eina sem skiptir máli.

Myndir : Instagram @whitelivingetc

Og yfir í litríkari pælingar þá er ég þessa dagana að velja lit á forstofuna, ljósgræn eða ljósblá er að heilla mig mest og sé ég fyrir mér gyllta spegla á forstofuskápinn til að gera þessa litlu forstofu aðeins meira spennandi. Þar sem ég er nú þegar með bleikt eldhús, lillablátt á ganginum og grænt í svefnherberginu þá getur vandast valið að velja rétta litatóna til að passa við restina. Þá væri jú vissulega auðveldara að hafa allt hvítt og fínt haha.

Ráðum við ekki alveg við það að leyfa hverjum og einum að velja fyrir sig og sitt heimili? Svart, hvítt, marglitað eða “heimili eins og allir hinir eiga” (það er vinsælt tautefni hjá þið vitið hvernig týpum;)

Njótið dagsins!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

INNBLÁSTUR FYRIR FORSTOFUNA // 35 HUGMYNDIR

Fyrir heimilið

Á þessum fallega laugardegi býð ég upp á allskyns innblástur fyrir forstofuna. Tilefnið er að við hjúin erum þessa helgina að vinna í okkar forstofu eftir mjög langþráða bið. Það vill svo til að útihurðin okkar er búin að leka síðan við keyptum íbúðina og alltaf pollar á gólfinu eftir vont veður – nú loksins í haust var ákveðið að kaupa nýja útihurð eftir miklar pælingar svo hægt væri í kjölfarið að leggja gólfefni á gólfið og það kom minni aldeilis á óvart að það tekur sko miklu meira en nokkrar vikur að fá afhenta hurð. Núna hálfu ári síðar er hurðin komin og ég farin á flug að hugsa um verðandi fínu forstofuna mína. Það skal leggja fallegar hvítar flísar á gólfið, mála veggi í nýjum lit og setja speglahurðir á fataskápinn. Það eru engir gluggar á forstofunni og bara einn pínulítill á gömlu hurðinni svo ég get hreinlega ekki beðið eftir að fá meiri dagsbirtu inn! Jiminn hvað þetta verður skemmtilegt verkefni.

Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri ♡

 Myndir Svartahvitu Pinterest

Ég vona að þessar myndir veiti ykkur innblástur. Eigið góða helgi ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

LÚXUS HEIMILI MEÐ CHANEL POKA TIL SKRAUTS

Heimili

Þessi hlýlega 90 fermetra íbúð er sérstaklega smart, staðsett í húsi frá árinu 1904 og má sjá að gólfmottur spila hér stórt hlutverk og gera allt svo hlýlegt og svo er það grái liturinn sem teygir sig á milli allra rýma. Útkoman verður að svo mikilli heild þegar veggir, húsgögn, innréttingar og gólfmottur er alltsaman í svipuðum litartónum. Virkilega fágað og fallegt.

Það er viss tíska í dag að halda til haga verslunarpokum frá dýrum lúxusmerkjum og hér skreyta m.a. Chanel pokar stofu og svefnherbergi. Sitt sýnist hverjum! Hrifnari er ég þó af gylltu haldföngunum á öllum innréttingum en þau eru frá margrómaða breska merkinu Buster + Punch (mögulega jafn dýrt og innihald pokanna góðu). Hrikalega smart!

Kíkjum í heimsókn –

Myndir via Nestor

Það kemur mér á óvart hvað ég er hrifin af litunum í svefnherberginu, litapallettan smellur alveg saman með þessum ljósbrúnu veggjum, kremuðum gardínum og gráum höfðargafli. Gylltu smáatriðin gera svo mjög mikið – en eigum við að ræða fataherbergið. Hér gæti ég búið!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

INNBLÁSTUR FYRIR ELDHÚS // FALLEGAR BORÐPLÖTUR

Eldhús

Að velja rétta borðplötu fyrir eldhúsið getur reynst hausverkur fyrir flesta, úrvalið er mjög gott og verðbilið stórt. Borðplötur úr náttúrulegum steini heilla mig mest en eldhúsið okkar þarf mikið á smá yfirhalningu að halda og stefni ég á að klára það núna í vor. Eftir að hafa farið fram og tilbaka hvernig stein ég vil þá hallast ég í dag mest að ljósum kvartssteini, hann er mjög þægilegur í viðhaldi, þolir hita og mikið álag. Ég eignaðist nýlega borð með marmaraplötu og fann fljótt fyrir því að ég er fegin að það sé ekki stærra upp á viðhald að gera – verandi með barn og slíkt. En engu að síður er marmarinn alltaf gullfallegur og verður enn meira sjarmerandi með tímanum þó það muni alltaf sjást á honum. Einnig er hægt að velja granít sem er gífurlega slitsterkt ásamt að sjálfsögðu borðplötum úr við, harðplasti og slíku. Það þarf hreinlega að vega og meta hvað það er sem þú vilt.

Ég hef verið að sanka að mér ýmsum myndum af fallegum eldhúsum og þegar ég renndi yfir þær þá sá ég fljótt að ég virðist einungis vista hjá mér myndir af ljósum marmara/kvartsstein svo þetta er klárlega leiðin sem ég ætla að velja. Sjáið þessa fegurð.

         

       Myndir Svartahvitu Pinterest

Breytingarnar sem við sjáum fyrir okkur að fara í eru að skipta um borðplötu á eldhúsinnréttingu og þurfum því einnig að kaupa nýjan vask, blöndunartæki og helluborð. Allt sem við erum með núna fylgdi íbúðinni og er kominn tími á skipti. Auk þess langar mig til þess að smíða bekk við eldhúsborðið og smíða punthillu fyrir ofan eldhúsinnréttinguna.

Við höfum verið í nokkrum stórum og ósjarmerandi verkefnum við heimilið og því fara þessi draumaverkefni mín oft aftarlega á listann, en núna er að komast smá skrið aftur á framkvæmdir og forstofan og eldhús komið á to-do listann! Jeij.

Ég fékk mér annars prufu af kvartssteini hjá Granítsmiðjunni í Garðabæ í desember sem heitir Mistery White sem er draumur og hentar einmitt okkar tékklista – hlakka mikið til að fara af stað í þetta verkefni.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

2020 NÝJUNGAR FRÁ IITTALA OG LITUR ÁRSINS

HönnunSamstarf

Færslan er unnin í samstarfi við iittala 

Uppáhalds iittala svíkur enga þegar kemur að gullfallegum nýjungum en eins og einhver ykkar vita nú þegar þá held ég mikið uppá þessa klassísku finnsku hönnun og safna mörgum vörum úr þeirra smiðju. Nokkrar iittala vörur eru daglegur staðalbúnaður á mínu heimili á meðan aðrar eru aðeins dregnar fram í boðum, margir munir prýða stofuna mína og má þar bæði nefna gamlar og nýjar vörur. Vænst þykir mér um antík iittala hlutina frá ömmu en mjög margar vörur hafa í gegnum tíðina hætt í framleiðslu og eru safngripir í dag og finnast aðeins á mörkuðum eða í skápum hjá ömmum. Vörurnar falla lítið í verði og margar þeirra verða jafnvel verðmætari með árunum sem er svo sannarlega mikill kostur þegar kemur að því að fjárfesta í hönnunarvörum og hlutum fyrir heimilið.

Hér að neðan má sjá spennandi 2020 nýjungar frá iittala og meðal annars nokkrar vörur sem ég hef verið að bíða spennt eftir síðan í haust þegar ég sá þær fyrst! 

“Í byrjun hvers árs kemur Iittala með fallegar nýjungar á markaðinn. Nú sem aldrei fyrr fögnum við þessum nýjungum sem eru bæði fjölbreyttar og nýstárlegar. Í ár sækir Iittala innblástur í náttúrulegt jafnvægi þar sem meðal annars plöntur og blóm eru höfð í öndvegi.

Norrænn lífsstíll er farinn að njóta vinsælda á heimsvísu og er stækkandi trend á heimilum og í hönnun þar sem Iittala er meðal fremstu vörumerkja.”

Nýr litur – Linen

Linen er litur ársins 2020 hjá Iittala. Linen er náttúrulegur og fellur vel að þema ársins hjá Iittala, en hann sameinar vel plöntur og blóm. Linen er bæði glæsilegur en á sama tíma afslappaður litur. Náttúrulegir litir gegna mikilvægu hlutverki í norrænum stíl og eru þeir algengasta litavalið á skandinavískum heimilum. Nýi liturinn verður fáanlegur í kjarnalínum Iittala en einnig í nýjum vörum. Liturinn Sand mun víkja fyrir Linen litnum.

Alvar Aalto collection

Hönnunar goðsögnin Alvar Aalto bjó til frægu glervasana 1936. Aalto vasinn er þekktasti vasi í heimi og tákn nútíma skandinavískrar hönnunar. Aalto hannaði ekki bara einn vasa fyrir sýningarnar í París og New York 1930 heldur safn af vösum og skálum í mismunandi stærðum og gerðum. Eitt af formunum í upprunalega safninu var vasi númer 3032. Hann er meira rúnaður og með mjúkum línum. Hann kemur aftur út 2020. Lögunin er fullkomin fyrir vasa og tilvalin fyrir hærri blóm. Iittala kemur með fleiri vörur í þessu “original” formi.

Ruutu

Ronan & Erwan Bouroullec 2015
Safnvasinn Ruutu var hleypt af stokkunum árið 2015 af hönnunarbræðrunum Bouroullec. Í ár munum við sjá vasana í nýjum litum og í nýju hráefni, keramik. Nýir stærri vasar eru fyrir há blóm og greinar sem er orðið nýtt trend á heimilum.

Kuru

Philippe Malouin 2020
Hönnuðurinn Philippe Malouin hannaði framandi og framsækna nýja línu fyrir Iittala undir nafninu Kuru sem kemur út núna í janúar. Þetta er lína sem mætir geymsluþörfum en á sama tíma skreytir heimilið. Hlutir nútímans eins og hleðslutæki, lyklar, skartgripir og aðrir hlutir eru nú vel innan seilingar fyrir neytendann í formi hönnunar og fagurfræði. Safnið inniheldur keramik og Iittala gler.

Nappula

Matti Klenell 2012
Nappula einkennist af Norrænni nútíma klassík sem sameinar vintage og nútímalegt form. Mjúkar línur eru undirstöður Nappula sem koma fram í ýmsum vörum línunnar en kertastjakar eru þó í aðalhlutverki. Nú kynnum við Nappula blómapotta í 2 stærðum, minimalísk hönnum sem undirstikar fegurð plantnanna. Glæsileg vara sem getur auðveldlega staðið ein eða í þyrpingu.

Iittala vökvunarflöskur

Í takti við þema og áherslur hjá Iittala árið 2020 kynnir Iittala að auki nýja og hagnýta vöru á markað, tvær vökvunarflöskur. Þær eru gagnleg leið til að vökva plöntur á stundum þegar fólk er ekki heima. Fylla á vatnsflöskuna með hreinu vatni og ýta henni varlega í moldina í uppréttri stöðu. Vatnsflaskan sér til þess að plantan sé vökvuð með jöfnu millibili í u.þ.b. viku. Koma tvö stykki í pakka, í tveimur stærðum.

  

Miranda

Heikki Orvola 1971
Í ár fáum við fallega nýja glerskál sem er bæði hagnýt undir konfekt og aðra matvöru en einnig falleg vara á heimilið. Miranda skálin fellur vel að öðrum vörum Iittala en hún kemur í aðlaðandi litum, frá náttúrulegum tónum í sterka hlýja tóna. Miranda línan var upphaflega hönnuð af Heikki Orvala 1971, Skálin var þá aðeins minni eða 111mm (nú 145mm). Línan innihélt kökudisk, kertastjaka og ávaxtaskál. Heikki Orvola hannaði nýja stærð 145mm til að mæta þörfum viðskiptavina.

Birds by Toikka

Oiva Toikka 1964
Takmarkalaus innblástur og ímyndunarafl Oiva Toikka fær túlkun í glerfuglum hans. Hver fugl er einstakt munnblásið listaverk. Fugl ársins, Kaisla, er með sömu lögun og önd, með brúnan búk, svartan gogg, stél og með blátt gegnsætt höfuð. Egg ársins 2020 er með sömu liti og fuglinn, með falleg smáatriði. Cube ársins er einnig með litum fuglsins og inniheldur fallegt mynstur.

Ávextir og grænmeti

Oiva Toikka 1989
Ávaxta og grænmetislínan er endurútgáfa af listasafni með áhugaverðum lögum og litum. Á níunda áratug síðustu aldar fengust margar tegundir af ávöxtum og grænmeti sem “Pro Arte” vörur. Til heiðurs þessum upprunalegu listmunum ætlar Iittala að gefa út nýja línu sem er unnin og samþykkt af Oiva Toikka. Allar vörurnar eru munnblásin listaverk. Vörurnar verða einungis fáanlegar í Iittalabúðinni.

     

Frutta

Oiva Toikka 1968
Innblástur fyrir þessa vönduðu glerlínu kemur frá ávöxtum og berjum. Línan samanstendur af 20cl glösum sem koma tvö í pakka ásamt 100 cl könnu. Vörurnar koma í þremur litum, clear, salmon pink og moss green.
Allar vörurnar eru munnblásnar og munu einungis fást í Iiittalabúðinni.

    Myndir og texti : iittala / Ásbjörn Ólafsson

Nýji liturinn, Linen er fágaður og kemur til með að passa vel við aðra liti. Nappula blómapottarnir eru “möst have” að mínu mati, algjör framtíðar klassík. Ég er einnig spennt fyrir Kuru, svo fallegt form en þó svo ólíkt því sem við höfum áður séð frá iittala. Ég bilast smá yfir krúttlegu vökvunarflöskunum og er viss um að nokkur plöntubörnin mínu munu eignast eitt stykki! Miranda línan er líka mjög spennandi, laxableikar skálar munu án efa prýða mitt eldhús en þessi hönnun er upphaflega frá árinu 1971 og er nú endurvakin í stærri stærð. Fullkomin desert – nammi – meðlætisskál. Love it! Ég er yfir mig hrifin af þessum nýjungum og gæti nánast hugsað mér eitthvað af öllum vörulínunum hér að ofan. Ávextirnir eru líka skemmtilegir, en verða meira safngripir eins og fuglarnir eru þekktir fyrir. Munnblásnir einstakir hlutir. Eitthvað fyrir alla! ♡

Hvernig finnst ykkur?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

FEBRÚAR ÓSKALISTINN

Óskalistinn

Það er komið að fyrsta óskalista ársins – og tilvalið að hann lendi á Valentínusardeginum sjálfum. Sitthvað fallegt fyrir heimilið og mig sjálfa. Það má alltaf leyfa sér að dreyma ♡

// 1. Iittala Nappula blómapottar eru nýjung sem ég er virkilega spennt fyrir. Fallegt form og minimalískt svo plantan fær sín notið sem best. Væntanlegt. // 2. Brúnt leðurveski frá Andreu minni með ól. Passar við allt! // 3. Bleik kápa – er eitthvað sem ég gæti vel hugsað mér fyrir vorið, uppáhalds liturinn minn og hressir við öll dress. Þessi er frá H&M en ég sá hana ekki í minni síðustu heimsókn… // 4. Hringur frá Hlín Reykdal. // 5. Becca ljómakrem, í miklu uppáhaldi hjá mér og er ég núna að skafa síðustu dropana úr flöskunni. // 6. Ferm Living Plöntubox úr Epal. Love it! // 7. Besti eyleliner-inn sem ég hef kynnst, Stila sem fæst því miður ekki á Íslandi og hef ég verið í stanslausri leit að svipuðum. Sephora. // 8. Uppáhalds ilmurinn, Perle de Coco, ég hef verið að nota ilmolíu roll-on en langar einnig í ilmvatnsglasið. &other stories. // 9. Strigaskór hvítir eru möst have og núna er kominn tími á nýja fyrir vorið. Þessir eru frá Apríl skór. // 10. Laxableik Miranda skál frá Iittala er væntanleg á næstu dögum, svo falleg! // 11. EJ kaffikannan klassíska í vorlegum lavender lit, frá Kokku.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

ÓMÓTSTÆÐILEGT HEIMILI SEM ÞÚ VERÐUR AÐ SJÁ

Heimili

Þessar myndir frá heimili ameríska tískuhönnuðarins og viðskiptakonunnar Jennu Lyons hafa hringsólað um internetið frá árinu 2017 og veita ótakmarkaðan innblástur. Eldhúsið er guðdómlega fallegt og stofan svo litrík og djúsí, persónuleg og spennandi! Heimilið er draumi líkast og ég trúi því varla að ég hafi ekki deilt þessum myndum með ykkur áður.

Njótið –

        

Myndir // Katie Considers, Simon Watson

Bráðnið þið jafn mikið og ég yfir þessum myndum?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

BRILLIANT HUGMYND FYRIR BREYTINGARGLAÐA / CLICK’N TILE VEGGFLÍSAR

EldhúsFyrir heimiliðHönnun

Fyrir stuttu síðan kynntist ég alveg ótrúlega skemmtilegri hönnun fyrir heimilið en það eru Click’n Tile flísar sem hægt er að smella á veggi og breyta endalaust um uppröðun. Það var í heimsókn minni í Kokku þegar ég sá þessa snilld í fyrsta sinn og fékk þar smá kynningu um hvernig flísarnar virka, ég setti þá inn örstutt video á Instagram hjá mér og stuttu síðar var innhólfið búið að fyllast af fyrirspurnum – svo mikill var áhuginn um flísarnar.

Click’n Tile er dönsk hönnun og var fyrirtækið aðeins stofnað árið 2017 og bendir allt til þess að það muni vaxa og dafna á næstu árum enda mikill áhugi fyrir þessari lausn. Það var stofnandinn Lars Thomsen sem fékk hugmyndina af flísunum þegar honum vantaði lausn til að gera upp eldhúsið sitt á auðveldan og fljótlegan hátt. Þú einfaldlega klippir smelludúk í rétta stærð, límir hann á vegginn og getur stuttu síðar hafist handa við að smella flísunum á. Voila – og þú ert búin/n að gjörbreyta herberginu!

 

Fyrir áhugasama þá fáið þið allar upplýsingar um flísarnar hjá Kokku. Færslan er eingöngu skrifuð af einskærum áhuga mínum um þessa sniðugu hönnun.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

HEIMILISINNBLÁSTUR FYRIR HELGINA

Heimili

Helgarnar mínar hafa undanfarið einkennst af allskyns tilfæringum á heimilinu og er ég í einhverskonar hreiðurgerð ef svo má kalla. Heimilið er minn griðarstaður og mér líður hvergi betur en þar og því er mikilvægt að hafa umhverfið þannig að það sé notalegt. Ég hreinlega man ekki til þess að hafa komið með formlega tilkynningu á bloggið en ég gerði það þó á Instagram en tilefni hreiðurgerðarinnar er sú að ég á von á mínu öðru barni í vor og tilhlökkunin því orðin mikil. Ég er gengin 24 vikur á leið og því ágætis tími til að huga að því sem þarf að klára á heimilinu – sem er ó svo margt.

Hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast betur með ♡ Í tilefni þess að það er komin helgi þá er tilvalið að skoða smá heimilisinnblástur – sænskt og huggulegt er það í dag!

 

Myndir / Stadshem

Það er eitthvað við röndótta veggi sem ég heillast alltaf jafn mikið af – spurning að láta vaða og prófa á einn vegg!

Eigið góða helgi!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

PERSÓNULEGT HEIMILI HJÁ FATAHÖNNUÐI

Heimili

Þetta fallega heimili birtist á síðum Elle Decoration en hér býr fatahönnuðurinn Els-Marie Enbuske ásamt fjölskyldu sinni. Persónulegur stíll einkennir heimilið, falleg listaverk á veggjum og litríkar lausnir. Kíkjum í heimsókn og svo mæli ég einnig með að kíkja yfir til Elle Decoration til að lesa viðtalið og fyrir enn meiri innblástur og myndir –

Myndir : Elle Decoration 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu