fbpx

HÖNNUNARNÝJUNGAR : MÍNIMALÍSKT STELL FRÁ ROYAL COPENHAGEN

Hönnun

Royal Copenhagen kynnti á dögunum nýtt stell í mínimalískum stíl sem ber nafnið Blueline. Nafnið vísar í bláa línu sem handmáluð er á hvert eintak en auk þess má sjá Royal Copenhagen stimpil sem er einkennandi fyrir þetta stell.

Það hefur lengi þótt vinsælt að blanda saman Royal Copenhagen stelli og á Blueline því án efa eftir að falla vel í kramið hjá mörgum hvort sem þau kjósa að blanda saman eða nota eitt og sér.

Hvernig lýst ykkur á þessa nýjung? Ég er sjálf hrifin af því að blanda saman stellinu og kem líklega til með að næla mér í kaffibolla í safnið.

SVEITARÓMANTÍK HJÁ BLOGGARA

Heimili

Sænski bloggarinn Johanna Bradford hefur getið sér gott orð fyrir einstakan smekk sinn en hún deilir hugleiðingum sínum á bloggi sem finna má á Elle.se. Heimilið hennar er sjarmerandi í smá sveita rómantískum stíl en hún flutti nýlega frá stórborginni Gautaborg til heimabæjar síns Borås og hefur komið sér og fjölskyldu þar vel fyrir. Dálæti hennar á breskum stíl fær að njóta sín, mynstraður textíll og veggfóður sem setur sinn svip á heimilið. Kíkjum í heimsókn –

Sjáðu fleiri myndir og lestu viðtalið hjá Elle Decoration. 

Myndir // Elle.se 

Eigið góðan dag!

UPPÁHALDS Á INSTAGRAM // DANICA CHLOE

Heimili

Innblástur dagsins frá Instagram er að þessu sinni frá Danica Chloe smekkdömu sem býr í Kaupmannahöfn. Litríkt heimili hennar fangaði augað mitt og veitir mikinn innblástur, ég elska svona persónuleg og litrík heimili og finnst þau gefa svo mikla gleði. Ef þú ert hrifin af pastellitum – þá sérstaklega bleikum og lillabláum – og skandinavískum heimilisstíl þá mæli ég með að fylgja @danicachloedk.

Eigið góðan dag!

Gullfallega heimili hjá Danica og mig dreymir um nokkra hluti sem þarna má finna, myndaveggurinn er sérstaklega líflegur og þar má einnig nefna flotta sjónvarpið Frame sem er eins og falleg mynd í ramma þegar það er slökkt á því! Skemmtileg hönnun sem er á lottó óskalistanum mínum;)

ÞAÐ VINSÆLASTA Í DAG – BANGSASTÓLAR

Hönnun

Mikið hlýtur nú að vera notalegt að hjúfra sig í þessum mjúku bangsastólum með góða bók. ‘Sheepskin’ hægindarstólar – eða stólar sem klæddir eru með snöggklipptri sauðagæru þykja afar eftirsóttir í dag og bjóða öll helstu húsgagnahönnunarmerkin upp á einn góðan bangsastól eins og ég kýs að kalla þá. Dásamlega fallegir allir sem einn!

Bollo frá Fogia

The Tired man frá By Lassen

 

Finn Juhl Pelican stóll

 Little Big Chair frá Norr11

Little Petra frá & Tradition

Knitting hægindarstóll frá Menu

Elephant chair frá Norr11

Finn Juhl Poet sófi – einn mjúkur og klassískur sófi fær að vera með í valinu.

Myndir : Frá framleiðendum

 Hver er þinn uppáhalds? Ég held mikið uppá Little Petra og Knitting Lounge chair er hrikalega flottur frá Menu. Þó á ég erfitt með að gera upp á milli þeirra allra, hver þeirra er með sinn sjarma!

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI : BÚLAND

Íslensk heimili

Þetta dásamlega heimili er nú til sölu fyrir áhugasama – en best væri að fá að flytja beint inn með öllu saman því glæsilegt er það! Vel valin húsgögn og hönnun má finna í hverju horni, og falleg barnaherbergin sem gefa góðar hugmyndir. Svefnherbergið er algjör draumur, með stærðarinnar fataherbergi og innangengu baðherbergi – draumur! Hér býr Alma Ösp Arnórsdóttir innanhússráðgjafi og annar stofnanda StudioVOLT sem tekur að sér allskyns ólík hönnunarráðgjafaverkefni, spennandi fyrirtæki sem er nýlega stofnað og á án efa eftir að vekja mikla athygli enda smekklegar dömur þar að baki. Hægt er að fylgjast með StudioVOLT á Instagram HÉR – 

Kíkjum í heimsókn –

 

Myndirnar tók Gunnar Sverrisson

Fallegt ekki satt!? Allar frekari upplýsingar má finna hér á fasteignavef Mbl.

GRÁTT HEIMILI MEÐ SJARMERANDI SVEFNHERBERGI

Heimili

Það getur komið mjög vel út að mála heimilið allt í sama litnum og útkoman verður svo notaleg eins og sjá má á myndunum hér að neðan þar sem stofan og svefnherbergið er málað í sama gráa litnum. Bætið svo við nóg af textíl, mottum, púðum og dúkum og hengdu jafnvel fallegan slopp eða kimono á fataskápinn og útkoman verður samstundis hlýlegri. Hér er svefnherbergið í uppáhaldi hjá mér, fataskáparnir eru málaðir í sama lit og veggir og litapallettan er eitthvað svo mjúk og dásamleg, svo er rönótt rúmteppið við fótgaflinn og ljósið sérstaklega heillandi.

Kíkjum í heimsókn –

Myndir via Alvhem 

Eigið góðan dag!

AUGNAKONFEKT ÁRSINS HJÁ ELLE DECORATION

Hönnun

Gustaf Westman er sænskur hönnuður á hraðri uppleið á stjörnuhimininn en hönnun hans hefur vakið ótrúlega athygli á undanförnu ári – og þar má sérstaklega þakka samfélagsmiðlum fyrir. Spegillinn hans Curvy er alveg einstakur og hefur verið eftirsóttur í myndatökum hjá tískuskvísum á Instagram enda sérlega myndvænn í pastellitunum sínum, með bogadregnar línur og með smá 90’s fíling. Gustaf kom af stað trendi sem sér ekki fyrir endann á, bogadregnu 90’s Ikea Krabb speglarnir mjóu sem margir muna eftir síðan á unglingsárunum sínum eru jafnvel í kjölfarið orðnir hrikalega eftirsóttir en ég vil meina að það tengist fallega Curvy speglinum. Núna var verið að veita hönnunarverðlaun Elle Decoration og hlaut Curvy verðlaun sem “augnakonfekt ársins” – bravó! Vel verðskuldað!

Takið eftir frauðborðinu á myndinni sem er einnig hönnun Gustafs, en hann kom þar af stað risa tískubylgju þar sem áhugasamir um hönnun hans gerðu sínar eigin útgáfur ‘DIY’ af frauðklæddum speglum og borðum sem vekur í dag mikla athygli á Instagram. Sjá betur hér að neðan –

Myndir : Gustaf Westman

Fyrir okkur hönnunarnörda þá er Ultrafragola spegillinn frá 1970 eftir Ettore Sottsass sá sem trónir þó hærra en Curvy enda algjör gullmoli hönnunarsögunnar. Með baklýsingu og því ekki furða að hann sé einnig einn eftirsóttasti spegillinn í dag en aðeins á færi þeirra frægu og ríku. – Smá skemmtilegur útúrdúr en það er gaman að para þessa tvo saman!

Hvað finnst ykkur um augnakonfekt ársins, Curvy spegilinn? Ótrúlega fallegur eða hrikalega hallærislegur?

TRYLLTAR 2021 IITTALA NÝJUNGAR

HönnuniittalaKlassíkSamstarf

Ég gæti hreinlega ekki verið skotnari í öllum 2021 nýjungunum frá Iittala sem fagnar í ár 140 ára afmæli sínu og í tilefni þess eru nýjungar ársins einstaklega veglegar og fallegar. Litur ársins er undursamlega fallegur litur, Amethyst sem er fjólublár og með fallegri litum sem ég hef séð frá Iittala.

“Afmælislínan gengur þvert á allt vöruúrvalið og inniheldur bæði borðbúnað og skrautmuni fyrir heimilið. Sem dæmi má nefna var Essence línan stækkuð, liturinn Dark Grey kemur í staðinn fyrir litinn Grey og liturinn Amethyst var valinn litur ársins.”

Sjáið þennan ótrúlega fallega lit – algjört konfekt fyrir augun og myndi lífga hvert heimili við.

Mæli svo sannarlega með því að horfa á þetta myndband sem gert var í tilefni afmælisins. Myndbandið hér að neðan er einnig mjög skemmtilegt fyrir áhugasama um hönnun, en það er frá árinu 2017 og sýnir okkur hvernig nokkrar af þekktustu vörum Iittala eru búnar til af ótrúlega færu handverksfólki. Það er einstakt að fá að sjá hvernig vörurnar okkar eru framleiddar, sjá vinnuna og hvernig nostrað er við hverja vöru. Fær mann til að kunna enn betur að meta vörurnar.

Það fallegasta sem ég hef séð – Aalto vasinn í Amethyst

Essence karafla í litnum Amethyst –

Kartio karaflan er geggjuð og svo ótrúlega klassísk –

Hár Aalto vasi í nýja litnum –

“Nýjir munnblásnir Aalto vasar í fjórum mismunandi litum (Clear, Copper, Moss Green og Dark Grey). Vasarnir komu í takmörkuðu upplagi (2.021 eintök) og byggja á sjaldgæfu formi úr smiðju Aalto, en í dag eru einungis 3 vasar til úr upphaflegu framleiðslunni frá árinu 1937. Vasarnir eru framleiddir með viðarformum og því er hver vasi einstakur.”

Sjá þetta krútt!

“Fugl ársins 2021 er fallegur og glaðlegur fugl sem ber heitið Kesuri. Fuglinn er í litnum Amethyst, en liturinn er töfrandi og bjartur litur sem breytir um tón eftir því hvernig birta fellur á hann. Segja má að þessi sérstaki litur lyfti hversdagslegum hlutum á annað plan. 

Fuglinn er í stærðinni 217x115mm. Iittala fuglarnir eru munnblásnir í Iittala glerverskmiðjunni í Finnlandi. Sérhver fugl er því einstakur. Fuglarnir fegra heimilið og eru auk þess einstök og eftirminnileg gjöf. Fuglarnir henta vel fyrir áhugafólk um hönnun, glerlistasafnara og fuglaunnendur. “

Hér að neðan getur þú kynnst fuglunum betur í myndbandi sem sýnir hvernig þeir eru framleiddir. Ég hef sjálf mjög gaman af því að sjá “á bakvið tjöldin”. En fuglarnir eftir Oiva Toikka eru algjör listaverk.

Flycatcher “Sieppo” fuglarnir hafa aftur tekið á flug, nú í 5 nýjum og aðlaðandi litum. Sumarlegir og sætir!

“Frutta línan sem sjá má hér að neðan var hönnuð af Oiva Toikka en við hönnun hennar sótti hann innblástur í ávexti og ber. Í byrjun árs 2021 komu glösin á markað í litunum Lemon og Amethyst.”

Þá höfum við brot af 2021 nýjungum frá Iittala – já þetta er aðeins brot þar sem úrvalið er ótrúlegt af nýjungum. Sjáðu fleiri nýjungar með því að smella hér. Hvernig lýst ykkur annars á lit ársins? Fallega Amethyst sem er algjörlega einstakur. En hann verður aðeins í framleiðslu árið 2021 og því – safngripur framtíðarinnar ♡

TOPPLISTINN #1

Persónulegt

Sambloggarar mínir á Trendnet hafa oft skrifað svo skemmtilegar færslur sem ég hef svo gaman af, þar má nefna t.d. Helga Ómars og Hildi Sif. Dálítið brot úr lífi – núna. Ég ætla að prófa ♡

Ég er að hlusta á : Snæbjörn talar við fólk, Rut Kára. Vá þetta er einn áhugaverður hlaðvarpsþáttur, Ítalska mafían, byssur, hönnun, heimili, greifingi – blanda sem ég vissi ekki að væri til. Rut Káradóttir kemur svo sannarlega á óvart!

Föt dagsins: Þröngar íþróttabuxur og kósý peysa er staðalbúnaður – er einnig búin að taka ástfóstri við lillabláu húfuna mína frá Andreu og lillabláa trefilinn minn í stíl sem poppar upp dressið þegar ég er á leið út. Ég bíð þó spennt eftir að AndreA framleiði trefla í nýja lillabláa litnum. Minn trefill er frá Asos úr 100% polyester og þannig efni eru ekki langlíf, en ég á bleikan trefil frá Andreu úr 100% bómull sem ég hef notað í mörg ár. Gæði skipta máli og ég er oftast mjög meðvituð um það, en gerði skyndikaup með þennan “plast” trefil minn því ég var sko skotin í litnum haha. Fjólublái liturinn er gleðilitur skal ég segja ykkur – mæli með í skammdeginu! 

Skap dagsins: Svo ótrúlega gott – undanfarnir mánuðir finnst mér ég hafa verið frekar dofin. Fæðingarorlof, lítill svefn, ástandið í þjóðfélaginu og að missa ömmu og afa tók mjög stóran toll og finnst ég fyrst núna farin að kannast aftur við mig. Svo góð tilfinning en tók sinn tíma.

Lag dagsins: Spurningar með Birni og Páli Óskari. Þetta er ekki beint tónlistin sem ég hlusta venjulega á – en það hitti í mark og kemur mér í svo gott skap samstundis. Einnig Ef ástin er hrein með Jón Jónssyni og GDRN, svo ótrúlega fallegt. 

Það sem stóð uppúr í vikunni: Að hafa keypt nýjan blandara eftir að ég braut minn í desember þegar ég setti hann í gang með skeið ofan í (típískt ég haha). Mikil gleði skal ég segja ykkur að fá aftur boost! Og að fá uppáhalds dagbókina mína í hendurnar frá MUNUM sem ætlar að koma mér í gegnum þetta þokutímabil. Lagði einnig inn pöntun fyrir draumaljósinu mínu sem ég er ótrúlega spennt að fá heim.

Matur dagsins: Boost með kaffibragði…. ég slumpa yfirleitt einhverju saman, kaffi, vanilluskyr, frosið mangó, banani, hnetusmjör og annað ef til. Mjög gott!

Óskalisti vikunnar: Ég skrifaði færslu í gær með óskalistanum mínum sem finna má hér. Þar má finna ýmislegt fallegt ♡

Plön helgarinnar: Fullt skemmtilegt, bröns með vinkonum, gistipartý heima með Bjarti Elíasi og uppáhalds frændanum, og svo er ég einnig að aðstoða mömmu með bás í Extraloppunni þar sem við ætlum að selja fallegar flíkur af ömmu skvísu (langmest var gefið) en þarna eru allskyns fallegar úlpur og vesti (fleirtala) frá Uniqlo og vandaðar blússur fyrir smekklegar konur.

Þetta var skemmtilegt – held ég skrifi oftar færslur í þessum dúr. Eigið góða viku kæru lesendur!

Á FEBRÚAR ÓSKALISTANUM

ÓskalistinnPersónulegt

Gleðilegan febrúar kæru lesendur ♡

Það er óvenjulegt að ég uppfæri ekki bloggið mitt nokkrum sinnum í viku og fæ ég hálfgerð fráhvarfseinkenni þegar ég næ ekki að skrifa sem oftast og leyfa huganum að reika um falleg heimili, þetta er jú eitt af mínum uppáhalds áhugamálum, að blogga sem ég fæ einnig að deila með nokkrum uppáhalds vinum sem skrifa hér með mér á Trendnet. Mööögulega hefur smá svefnleysi einkennt síðustu vikur en ég er þó vopnuð bjartsýni og í kvöld er ég viss um að síðasta slæma nóttin sé búin hjá okkur mæðgum og ég kem þá tvíefld tilbaka ♡

Það er ótrúlega margt sem mig hlakkar til að sýna ykkur og segja frá, auk þess sem að framkvæmdarlisti heimilisins hefur legið í dvala frá því sl. haust og mig kitlar í puttana að komast í nokkur verk. Dagarnir eru farnir að lengjast og það er ekki annað hægt en að vera bara þokkalega bjartsýn/n ♡

Hér höfum við nokkrar gersemar sem verma óskalistann að þessu sinni og eiga það nokkrar sameiginlegt að vera ansi litríkar. Ég þrái smá meiri litagleði á heimilið mitt og er með augun á nokkrum skemmtilegum vörum sem ég ætla að næla mér í á næstunni.

Mynd á vegginn úr seríunni Flower Market eftir sænsku listakonuna Astrid Wilson eru draumur! Honolulu og Tunis mættu svo sannarlega prýða stofuna mína. Fæst hjá Mikado á Hverfisgötu.

Litrík rúmföt hljóta hreinlega að gera lífið aðeins skemmtilegra, þessi gordjöss lillabláu rúmföt hafa setið lengi á óskalistanum mínum en merkið Tekla fæst hjá Norr11.

Þessir fluffy inniskór eru með þeim allra flottustu – frá elsku Andreu minni sem hefur verið að bæta við einstaklega vel völdum skóm við vöruúrvalið sitt! Spennó! Fást hjá AndreA.

Fallegasti vasi sem ég hef augum litið er Aalto vasinn í litnum Amethyst sem gefinn er út í ár í tilefni af 140 ára afmæli iittala. Fjólublái draumavasi – þennan verð ég að eignast!

Dekur fyrir húðina er eitthvað sem er orðið nauðsynlegt. Þetta svefnleysi undanfarna mánuði er farið að sjást vel á mér og því fær smá húðdekur að fylgja með á óskalistanum. Bioeffect andlitsmaskar sem ég hef bara heyrt gott af.

Gott ilmkerti og jafnvel nýtt tímarit væri draumur – Hing ilmstráin eru þau allra bestu sem ég hef prófað og ilmurinn Sítrónugras toppar allt og ég hef sjaldan verið jafn oft spurð af gestum hvaða heimilisilm við værum með. Næst á dagskrá er því að prófa ilmkertin þeirra líka. Fæst hjá Ramba – 

Montana náttborð væri draumur í svefnherbergið – þau fást í allskyns spennandi litasamsetningum og að sjálfsögðu líka klassískum hvítum. Það er eitthvað við þessa mynd sem er alveg extra djúsí. Fæst í Epal.

Pappelina motturnar frá Kokku eru æðislegar – ég var að skoða nýju línuna en datt þá niður á þessa litríku úr eldri línu frá þeim. Ég þrái fleiri liti á heimilið mitt og þessi er frekar skemmtileg. Fæst í Kokku. 

Núna er kominn tími á lokahnykkinn á herbergi heimasætunnar og gera það smá huggulegt. Leikföngin frá Liewood ásamt textílnum er einstaklega fallegt og í þægilegum litum, þessi staflanlegu hringir er eitthvað sem mín dama hefði gaman af því að leika með og er á sama tíma fallegt á hillu þegar leikurinn er búinn. Fæst hjá Dimm. 

Svo er það síðast en ekki síst karfa drauma minna frá Korbo, það eru nokkur ár síðan ég gaf svona gyllta körfu í samstarfi við Kokku í gjafaleik hér á blogginu og hef verið með þær á heilanum síðan. Ótrúlega vandaðar og flottar og til í mörgum stærðum. Fæst í Kokku. 

Þá er febrúar óskalistinn upptalinn – þangað til að fleira bætist við!