Á ÓSKALISTANUM : STÓR & VEGLEG PLANTA

Óskalistinn

Ég ætla ekkert að þykjast vera neinn plöntusérfræðingur en eitt af því sem ég ætla að eignast þegar við flytjum í nýju íbúðina er stór panta – og þá meina ég mjög stór. Samkvæmt leit minni á google virðist vera að plantan sem ég er með í huga heiti Strelitzia sem er einhverskonar bananaplanta og er jafnvel kölluð “Bird of paradise” vegna fallegra blóma sem spretta á sumum þeirra. Ég hef ekki rekist á þessa plöntu hér á landi og vil endilega heyra frá ykkur sem vitið hvar sé best að nálgast slíka plöntu þar sem úrval af stórum pottaplöntum er af skornum skammti.

Hér að neðan má sjá eina mjög veglega og augljóst að húsráðandi sé með mjög græna fingur – hæfileiki sem ég vonast til að monta mig af einn daginn… Önnur stór og vegleg planta gengur líka  mögulega upp, hlakka til að heyra frá ykkur! ♡

 

// Fylgist einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

IKEA 2019 BÆKLINGURINN !

Fyrir heimiliðIkea

IKEA bæklingurinn kemur með haustið að mati margra og það styttist aldeilis í að 2019 bæklingurinn rati inn um lúgur landsmanna og ég er orðin ansi spennt verð ég að viðurkenna. Eins og mér er einni lagið er ég að sjálfsögðu búin að fletta upp í vefútgáfunni á sænsku til að svala forvitni minni og er bæklingurinn í ár vægast sagt girnilegur! Hér má sjá nokkrar myndir frá sænska hönnunarrisanum og má sjá að þeir eru aldeilis með puttann á púlsinum. Haustið verður bleikt og grænt það eitt er víst en ég mun fara betur yfir þá hluti með ykkur innan skamms – kíkjum fyrst á smá IKEA innblástur.

Ég er mjög spennt fyrir nokkrum nýjungum sem koma í haust og er einnig sérstaklega spennt fyrir endurútgáfu af klassískum húsgögnum frá árunum 1950 – 2000 í tilefni 75 ára afmælis IKEA. Þar má nefnilega finna nokkra gullmola sem verður spennandi að sjá aftur í sölu en þessir umræddu hlutir eru einnig væntanlegir með haustinu.

Það eru aldeilis eftir að verða nokkrar Ikea ferðir hjá mér á næstu mánuðum eftir að við flytjum inn í nýju íbúðina en það vantar ýmsa skápa, hirslur og fínerí fyrir heimilið! ♡

// Ykkur er velkomið að fylgjast einnig með á Instagram @ svana.svartahvitu

INNLIT Í HAF STORE : EIN GLÆSILEGASTA VERSLUN LANDSINS

Fyrir heimiliðHönnun

Í gær kíkti ég í heimsókn í verslunina HAF STORE sem opnar formlega á morgun, laugardaginn 11. ágúst kl. 11:00. Þessari heimsókn hef ég beðið eftir með mikilli eftirvæntingu í marga mánuði eins og á líklega við um aðra hönnunarþyrsta einstaklinga sem fylgst hafa með þessu ævintýri. HAF STORE er með þeim allra fallegustu verslunum sem ég veit um þó víða væri leitað enda mikið lagt í alla hönnun og vöruúrval og er útkoman konfekt fyrir augað. Mikil vinna fór því ekki aðeins í það að hanna glæsilegt verslunarrými frá grunni ásamt óvæntum framkvæmdum heldur hefur þeim HAF hjónum, Karitas og Hafsteini tekist að hafa upp á einstökum vörumerkjum sem áður hafa ekki fengist á Íslandi ásamt því að láta sérframleiða fyrir sig nokkrar vörur og húsögn.

  

Myndirnar að ofan tók ég með nýju vélinni Canon EOS M100 – aðrar teknar á síma. 

Ég mæli með heimsókn í HAF STORE – Geirsgötu 7 / Verbúðir, 101 Reykjavík

Ég er nú þegar með nokkra hluti á lista yfir það sem nýja heimilið mitt þarf að eignast, þar er efst á lista Vertigo ljós yfir borðstofuborðið ásamt því að þarna má einnig finna vel valdar bækur frá Crymogeu og Gestalten, ljósmyndir Gunnars Sverrissonar, postulín eftir Guðbjörgu Káradóttur, Sjöstrand kaffi og svo mörgu öðru sem gleður augað eða bragðlaukana.

Lýsingin í loftinu er sérstaklega smart og fer þessu hráa rými alveg fullkomlega og sýnir enn og aftur hvað HAF STUDIO hefur að geyma mikla snillinga.

// Ykkur er velkomið að fylgjast einnig með á Instagram @ svana.svartahvitu

FALLEGT SUMARHÚS TÍSKULJÓSMYNDARA

Heimili

Ég vona að helgin mín muni einkennast af gæðastundum í bústaðnum góða og mögulega mörg ykkar einnig á leið í bústað í dag. Ég elska að skoða fallega sumarbústaði og fá innblástur fyrir okkar. Hér má sjá einn gullfallegan bústað sem er í eigu Kalle Gustafsson sem er einn þekktasti tískuljósmyndarinn í Svíþjóð og kemur því ekki á óvart að bústaðurinn er einstaklega smekklegur.

Myndir: Residence Magazine 

Vonandi eigið þið dásamlega helgi !

DIY FATAHENGI FYRIR BÖRN

BarnaherbergiDIYIkea

Fatahengi fyrir börn er líklega eitt af því sem má deila um hvort sé góð hugmynd en þrátt fyrir það er þessi útgáfa af mini fatahengi í anda þess sem HAY framleiðir frekar skemmtileg. Það er bloggkollegi minn hún Frida hjá Trendenser sem minnti á þetta skemmtilega DIY sem hún gerði í fyrra og ég má til með að deila því áfram með ykkur. HAY fatahengið hefur notið mikilla vinsælda og hér má sjá barnafatahengi í anda þess gert úr ódýrum Lerberg búkka frá Ikea – sem kostar undir þúsund krónum!

Samsett mynd frá Trendenser.se ásamt mynd frá Pinterest af HAY fatahengi

Einfalt og ódýrt Ikea Hack eins og þau gerast best!

♡ Fylgist endilega með á instagram @svana.svartahvitu 

DRAUMA ANTÍK KAUP

HönnunPersónulegtUppáhalds

Í fríinu okkar í Svíþjóð fórum við í stutta heimsókn í lítinn smábæ með vinkonu minni sem hafði farið þangað áður. Bærinn heitir Limmared, algjört krummaskuð og lítið þar um að vera annað en að tvisvar sinnum í viku, þriðjudaga og laugardaga eru opnir þar fjölmargir flóamarkaðir eða Loppis! Vitandi að við vorum aðeins með eina innritaða tösku fyrir flugið var ég frekar róleg en það var margt fallegt að sjá, og ég datt í lukkupottinn þegar ég fann sjaldgæfa glersveppi eftir glerhönnuðinn Monica Backström sem framleiddir voru af Kosta Boda uppúr 1970.

Foreldrar mínir hafa átt tvo svona lampa síðan ég man eftir mér, en annar þeirra brotnaði fyrir nokkrum árum og vonandi finnum við eins einn daginn. Upphaflega ætlaði ég að leyfa mömmu að eiga lampann sem ég keypti (þessi minni er ekki lampi), en mamma er á því að ég eigi að eiga þessa fallegu sveppi enda mjög Svönulegir og algjörlega í mínum litum sem er ótrúleg tilviljun því þeir eru langfæstir í svona litasamsetningum.

Ég er að minnsta kosti alsæl með þessi kaup – og sitthvað annað fylgdi með heim, sýni ykkur það næst!

Upplýsingar um “Loppis þorpið finnið þið hér!

HEIMSÓKN Í SMÁRALIND // ÚTSÖLULOK

Umfjöllun

Í samstarfi við Smáralind var mér boðið að koma til þeirra og skoða útsölulok og úrvalið af fallegum hlutum fyrir heimilið. Ég eyddi dágóðum tíma í búðarráp hjá þeim í morgun sem mér leiddist aldeilis ekki og afraksturinn má sjá hjá @Smaralind á Instagram þar sem ég setti inn alla heimsóknina á Instastory sem verður einnig hægt að nálgast síðar í highlights. 

Ég á sjaldan í vandræðum með að setja saman óskalista af fallegum hlutum og hér má sjá mína uppáhalds hluti sem flestir eiga það sameiginlegt að vera á útsölu svo það má aldeilis kíkja við og gera góð kaup –

// Færslan er unnin í samstarfi við Smáralind – allar vörurnar valdi ég sjálf og endurspegla þær minn persónulega smekk. 

// 1. Ég rakst á ótrúlega skemmtilegar stjörnumerkja myndir í Dúka, hér má sjá Bogamann. Verð frá 2.990 kr. // 2. Möst have í sumarboðið er að mínu mati stór kokteilakrukka með krana. 3.999 kr. A4. // 3. Ódýr glerglös á fæti frá Söstrene, verð 754 kr. // 4. Sólgleraugu frá Vila á 60% afslætti, verð 1.794 kr. // 5. Flott salatskál frá Lucie Kaas á 50% afslætti, 3.715 kr. Líf og list. // Það var kaktusaþema í nokkrum verslunum sem ég er mjög hrifin af. Sá t.d. flotta kaktusastyttur á 50% afslætti í Hagkaup á 1.079 kr. // 6. Hvítir Eva Solo bollar á 50% afslætti í Líf og list, verð 2.175 kr. // 7. Hlébarða sandalar frá Zara, með svörtu bandi um ökkla. Útsöluverð 1.495 kr. // 8. Componibili borð frá Kartell, það kom mér skemmtilega á óvart hvað Kartell úrvalið er gífurlega mikið í Dúka eftir breytingar. Componibili er alltaf uppáhalds hjá mér – verð frá 12.900 kr. 2ja hæða. // Nike hlaupaskór úr Air, útsöluverð 10.794 kr. m. 40% afslætti, ásamt bleikum jakka á 5.697 kr. m. 40% afslætti. //  

Það eru nokkrir hlutir hér að ofan sem ég gæti vel hugsað mér að eignast og enn fleiri sem sjá má á Instastory Smáralindar – takk fyrir mig ♡

FYRSTA ÍBÚÐIN ♡

Persónulegt

Nýlega festum við fjölskyldan kaup á okkar fyrstu íbúð en eins og þið flest vitið fluttum við inn á foreldra mína í byrjun árs til þess að ná þessum áfanga, að geta lagt nógu anskoti mikið fyrir til að eiga fyrir útborgun í íbúð. Við vorum vissulega ekki að byrja á núllpunkti enda eigum við margra ára sambúð að baki en það vantaði uppá þennan herslumun sem er erfitt að ná þegar borga þarf háa leigu um hver mánaðarmót. Nýja heima er falleg og björt íbúð staðsett í gömlu hverfi hér í Hafnarfirðinum. Húsið þarfnast smá viðhalds en það er ekki mikið sem þarf að gera innandyra og ég er alveg bálskotin í þessu framtíðarheimili okkar – hér mun okkur líða vel ♡

Við erum ekki alveg strax að flytja inn – en ég kem til með að leyfa ykkur að fylgjast með og ég get ekki beðið eftir að gera þetta heimili að mínu eigin ♡

INNLIT: GLÆSILEGT & STÍLHREINT HEIMILI Í GAUTABORG

Heimili

Þrátt fyrir þá staðreynd að þetta heimili sé stíliserað fyrir fasteignasölu þá get ég ekki annað en heillast af þessari stórkostlegu íbúð með öllum sínum skrautlistum og fallegri hönnun. Stíllinn er nútímalegur og nánast tikkar í flest box varðandi það hvað hefur verið í tísku undanfarin ár þegar kemur að heimilinu, gráir veggir, veggspjöld, og vissir stólar. Það er ekki hægt að neita því að heimilið sé fallegt, en kannski örlítið fleiri liti næst?

Sjá fleiri myndir hjá Stadshem

Framtíðarheimilið mitt mætti þó alveg hafa þessa lista – þvílík fegurð!

BÚSTAÐURINN // HURÐIR MÁLAÐAR – FYRIR & EFTIR

Fyrir heimiliðPersónulegt

Nýlega voru hurðirnar í bústaðnum málaðar hvítar og þvílíkur munur! Eins og þið vitið höfum við fjölskyldan *hóst pabbi, verið að taka í gegn bústaðinn okkar hægt og rólega, en þrátt fyrir smá athyglisbrest enda mjög mörg verkefni sem þarf að sinna, þar sem gengið er úr einu ókláruðu verki yfir í það næsta er þetta allt saman farið að líta svo vel út.

Hurðirnar voru fyrst grunnaðar og að lokum lakkaðar hvítar með lakki sem við fengum frá Sérefni eftir ráðleggingar fagaðila. Að lokum voru loksins settir á keramík hurðahúnar sem mamma keypti erlendis fyrir yfir 30 árum síðan, og fá þeir loksins að njóta sín.

Fyrir & svo eftir …

Ég er sko bálskotin í útkomunni og hurðarhúnarnir sætu eru fullkomnir fyrir bústaðinn.

Liturinn á bústaðnum heitir Soft Sand og er líka frá Sérefni.

Pabbi er duglegasti maður sem ég veit um, algjör vinnufíkill ef svo má kalla… og er að sjálfsögðu kominn með aukaverkefni við að laga aðra sumarbústaði í kring, sem betur fer er þetta áhugamálið hans líka. Ég held hreinlega að ég hafi varla séð hann í öðru en vinnubuxum í öllum okkar heimsóknum í bústaðinn undanfarið ár. – Leyfi einni vinnumynd að fylgja með:) 

Ég er svosem með fá hlutverk þegar kemur að bústaðnum önnur en að hafa það huggulegt, en núna er draumurinn minn að útbúa kofa í garðinn fyrir son minn og systurson enda líður þeim alveg ótrúlega vel í bústaðnum og sækja mikið í að fara þangað. Ég er að meta kosti þess og galla hvort sé betra að kaupa tilbúinn kofa eða smíða frá grunni – þegar gæfist tími, en þar sem strákarnir stækka svo hratt finnst mér “möst” að þeir eignist sinn kofa helst í gær.

♡ Fylgist endilega með á instagram @svana.svartahvitu