fbpx

HIN FULLKOMNA ÍBÚÐ – HEIMA HJÁ BALDRI KRISTJÁNS LJÓSMYNDARA

Íslensk heimili

Baldur Kristjáns er einn færasti ljósmyndari landsins og auk þess mikill smekkmaður sem vel má sjá þegar myndir af glæsilegu heimili hans eru skoðaðar. Hér býr hans ásamt fjölskyldu sinni á efstu hæð í sannkallaðri útsýnisíbúð við Hátún í Reykjavík sem svo skemmtilega var titluð “hin fullkomna íbúð” en hún var upphaflega happdrættisvinningur í happdrætti DAS á sínum tíma. Íbúðin hefur verið mikið endurnýjuð á vandaðan hátt og hér væri án efa gott að búa.

Kíkjum í heimsókn,

       

Smelltu hér til að skoða nánari upplýsingar um íbúðina sem nú er á sölu. 

UPPÁHALDS Á INSTAGRAM @SUSSIEFRANK

Heimili

Það er litríkt og fallegt um að litast heima hjá hinni dönsku Sussie Frank, stílista og innanhússráðgjafa sem veitir mér mikinn innblástur þegar kemur að heimilum. Bleiki stiginn sem er algjör senuþjófur vakti mikla athygli þegar myndir af heimili Sussie birtust á síðum Bolig Magasinet í apríl á síðasta ári og vakti innlitið mikla lukku hjá mér, enda ekkert nema stórkostlega fallegt. Ég vona að þessar myndir veiti ykkur einnig innblástur og jafnvel smá gleði, því það er akkúrat það sem lífleg og litrík heimili gera fyrir mig.

Til að fylgja Sussie Frank og hennar litríka og fallega heimili smellið þá hér @sussiefrank

Myndir : @sussiefrank

Eigið góðan dag kæru lesendur,

UPPÁHALDS HORNIÐ Á HEIMILINU – ALLT AÐ KOMA SAMAN

HeimiliPersónulegtSamstarf

Góðir hlutir gerast hægt er mín mantra sem ég þarf reglulega að minna mig á ♡ Það eru margir mánuðir síðan við ætluðum að klára að græja eldhúskrókinn en svo kemur alltaf eitthvað nýtt upp á sem gengur fyrir, bæði verkefni og lífið sjálft ♡ Hér elska ég að sitja og fletta blöðum, horfa út um gluggann og stundum vinna í tölvunni. Ég er enn eftir að líma lista framan á skápahurðarnar til að gera útlitið aðeins meira elegant og mála aðra umferð ásamt því að púðarnir allir áttu bara að vera tímabundin lausn þar til ég klára að hanna bakið og útfæra hvernig ég geng frá ofninum sem er undir glugganum. Ah alltaf skemmtileg verkefni framundan!

Nýlega eignaðist annars dóttir mín þennan dásamlega fallega matarstól frá Nofred sem algjörlega fullkomnar stólamixið á heimilinu, en Mouse Junior matarstóllinn hefur verið á óskalistanum alveg síðan Birta Katrín eignaðist litla Mouse stólinn í herbergið sitt og var hann fenginn að gjöf frá Nofred. 

Mouse stóllinn er dönsk verðlaunahönnun frá Nofred og ég hef verið heilluð af alveg frá því að Epal hóf sölu á þessum fallegu barnavörum. Ég er alltaf svo hrifin af klassískri danskri hönnun og alveg sérstaklega danskri stólahönnun og þrátt fyrir að hönnun Mouse stólsins sé ekki nema nokkra ára gömul þá fer stóllinn svo afskaplega vel saman við eldhús og stofustólana og eru að öllu leyti mikið fallegri en barnastóllinn sem við áttum fyrir. Mouse Junior er sagður vera frá ca 3-9 ára aldri, dóttir mín verður 3 ára í sumar og er þó alveg meira en tilbúin í þennan stól sem hún prílar sjálf í upp og niður.

Litur á vegg: Svönubleikur frá Sérefni, einnig gereftin kringum hurðina sem við settum á nýlega. // Borðið: Tom Dixon frá Lumex, einnig Gubi lampinn í glugganum. // Ljós yfir borði er PH5 keypt í Epal og bleika Sjöan er afmælisútgáfa frá Fritz Hansen einnig keypt í Epal. 

Smelltu hér til að skoða Nofred í vefverslun Epal

Púðarnir eru úr öllum áttum og mér finnst þeir gera hornið alveg extra kósý og heimilislegt. Það þarf ekki allt að vera fullkomið, alveg langt því frá og því um að gera að henda púðum ofan á hálfkláraðan bekk og nota hann þar til allt fær að smella. Bleiku púðarnir eru jú frá vinkonum mínum í Ihanna home og eru í miklu uppáhaldi!

Ah hér er gott að vera! P.s. ég er núna að taka mig í gegn varðandi vítamíninntöku sem ég fæ algjöra falleinkunn í og er því að reyna að tileinka mér góðar venjur til að muna betur að taka þau inn. Ég er einnig að leyfa mér að prófa nokkur ný með þær vonir að bæta svefnin, minnið og einbeitinguna svo fátt sé nefnt og fá smá meiri orku eftir þennan langa vetur *krossa fingur! Öll tips vel þegin ♡

Ég vona annar að þið munið eiga góðan dag!

HVAR VÆRUM VIÐ ÁN PINTEREST?

Fyrir heimiliðMæli með

Pinterest er oft besti kosturinn þegar þú ert í leit að innblæstri hvort sem það er fyrir heimilið, til að fá hugmyndir af nýjum samsetningum fyrir dress morgundagsins, föndur til að gera með krökkunum eða ný kökuuppskrift fyrir helgina. Heill heimur af hugmyndum sem ég vona að þið séuð flest að nýta ykkur að einhverju leiti. Oft geta allar þessar ljósmyndir og hafsjór af innblæstri hjálpað okkur til að móta eigin hugmyndir og stíl og jafnvel verið gott fyrsta skref ef þú stefnir á breytingar eða jafnvel ætlar að fá hönnuð til að aðstoða þig og getur þannig sýnt með myndum hvað heillar þig. Ef þú ert byrjandi að nota Pinterest þá mæli ég með að skoða myndirnar sem taka á móti þér og smella á þá mynd sem höfðar best til þín og þar færðu upp enn fleiri myndir í svipuðum stíl og þú varst að skoða, svo leikur þú þér að því að raða myndunum í möppur og hægt og rólega lærir Pinterest inn á þann stíl sem höfðar best til þín.

 Hvað værum við hreinlega án Pinterest? ♡

Myndir : Pinterest/Svartahvitu

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI : ELÍSABET & PÉTUR Í VEST SELJA

Heimili

Hér er á ferð stílhreint og fallegt heimili hjá Vest hjónunum, þeim Elísabetu og Pétri, þar sem hver hlutur er vandlega valinn og mætti segja að íslensk list og ítölsk hönnun einkenni heimilið. Elísabet er þekkt sem mikill fagurkeri og það er gaman að sjá hennar persónulega stíl á heimilinu þar sem fáir en góðir hlutir skreyta heimilið sem lýsa mætti sem fáguðu og mínimalísku.

Kíkjum í heimsókn –

   

Myndir : Fasteignaljósmyndun.is 

Smelltu hér til að sjá frekari upplýsingar um eignina sem nú er til sölu.

STRING MEÐ SPLUNKUNÝJAR HILLUR

HönnunKlassík

Ég er svo heilluð af nýja hillukerfinu sem String var að kynna, Pira G2 sem eru eins og Epal sagði frá “glæsileg og nútímalegri útgáfa af klassísku Olle Pira hillunum frá 1954 eftir arkitektinn Anna won Schewen og iðnhönnuðinn Björn Dahlström. Pira G2 er fáguð og sterkbyggð í senn, byggð á einingum sem hægt er að setja saman á marga vegu eftir þínum hugmyndum og stíl en virðist nánast byggð sem ein sérsmíðuð heild. Pira G2 býður upp á þann möguleika að vera veggfest eða sett upp sem skilrúm, frá gólfi til lofts.”

Þessi mynd hér að neðan er svo elegant og ég get vel séð fyrir mér að margir eiga eftir að heillast af þessari hönnun. Klassík framtíðarinnar?

 

Mynd: String

FALLEGAR KONUDAGSGJAFIR

Hitt og þettaÓskalistinn

Það er um að gera að halda upp á sem flest tilefni og hafa dálítið gaman af lífinu og Konudagurinn sem er núna á sunnudaginn er þar engin undantekning. Konudagsgjafir þurfa þó ekkert að kosta neinn neitt og enginn ætti að þurfa að tæma veskið til að gleðja konurnar í sínu lífi, það er alltaf hugurinn sem gildir því þrátt fyrir að ég elski að taka saman fallegar gjafahugmyndir þá er ég fyrst til að viðurkenna að það eru litlu hlutirnir sem gleðja mig mest.

Ég tók þó að sjálfsögðu saman nokkrar góðar hugmyndir af gjöfum sem ég veit að myndu gleðja margar konur – og mig líka ♡ Eigið góða helgi!

// 1. Ég er búin að bíða svo spennt eftir þessum nýja Telescopic lift maskara frá Loréal. Ef þú vilt heilla með nýjung þá er það þessi maskari. Fæst í flestum snyrtivöruverslunum og apótekum. // 2. Ikebana vasi eða einhverskonar annar fallegur blómavasi er góð hugmynd fyrir fagurkera – með blómvendi til að setja í. Epal. // 3. Sætur kaffibolli með krúttlegum skilaboðum. Design Letters úr Epal. // 4. Ég er mjög hrifin af mörgu hjá Feldi verkstæði og þessar refaskinnsermar eru mjög fallegar, og hægt að nota við margar yfirhafnir. // 5. Love lakkrís mmmm, leiðin að hjarta konunnar er í gegnum magann sagði jú einhver… // 6. Loðinniskór eru í uppáhaldi. Fást í AndreA. // 7. Origins Planscription húðvörurnar eru í uppáhaldi – mæli mikið með ef þú vilt gefa smá húðdekur (hentar húð sem er byrjuð að eldast). Snyrtivöruverslanir. // 8. Sloppur er góð hugmynd! // 9. Konudagskaupauki frá BioEffect er þessi fallega bleika budda með kaupum. //

// 1. Hleðslulampi er eitthvað sem ég elska að eiga, þessi er gordjöss frá Menu. Epal. // 2. Hárdekur frá New Nordic, hannað til að auka viðgerðarhæfni hársins ásamt því að styrkja og þétta hárið. Ég er að nota þetta núna ásamt hárvítamíni og finn jákvæð áhrif. // 3. Peysur eða önnur falleg flík frá AndreA gleður allar konur, eða það held ég amk:) // 4. Ný íþróttaföt eru góð gjöf og þessi Nike peysa er mjög smart og fæst í fleiri litum hjá Hverslun. // 5. Mjúk og dásamlega falleg rúmföt frá Tekla. Epal. // 6. Origins Planscription húðvörurnar eru í uppáhaldi – þetta næturkrem er mjög gott. Snyrtivöruverslanir. // 7. Blóm – lifandi eða eilífðarblóm er nánast fastur partur af Konudeginum í huga margra. Þetta blóm fæst í Dimm. // 8. Lyklakippa frá Feldi – ég elska þessa litríku felddúska og þarf einmitt að endurnýja mína lyklakippu. Þessari myndi ég seint týna. Feldur verkstæði. // 9. Hálsmen með upphafsstaf barnanna eða ykkar er dálítið sæt hugmynd. Þessi mynd er Design Letters frá Epal, stafahálsmen fást einnig m.a. hjá Andreu og ByLovisa. //

LITRÍKT SÆNSKT PASTELHEIMILI

Heimili

Það er varla annað hægt en að gleðjast smá yfir þessu litríka og skemmtilega innréttaða heimili. Bjartir pastellitir fá að njóta sín og klassíska hönnun má finna í hverju horni, hér má sjá Snoopie lampann frá Flos í grænu, Flowerpot mini lampa í fjólubláu ásamt Panton stólum í bleikum og grænum litum svo fátt eitt sé nefnt. Heimilisstíllinn er ekki allra ef svo má segja, en við getum verið sammála um að útlitið er hressandi!

Myndir : Historiska Hem

ALLTAF MEÐ FALLEG BLÓM Í VASA – ELÍFÐARBLÓM ERU SNILLD

PersónulegtSamstarf

Ég elska að skreyta heimilið með blómum og á góðum degi eru blómavasar í nánast hverju horni, hvort sem það séu þurrkuð blóm, fersk eða jafnvel gerviblóm… sem er mikið skemmtilegra að kalla eilífðarblóm – því þú munt jú aldrei þurfa að henda þeim. Ég bætti við blómasafnið nýlega nokkrum fallegum eilífðarblómum frá Dimm en þau eru frá breska innanhússhönnuðinum Abigail Ahern og eru frekar náttúruleg í útliti að mínu mati og koma í fjölbreyttu úrvali og því hægt að setja saman mjög veglega og jafnvel villta blómvendi eins og ég gerði núna. Hér dró ég einnig fram úr geymslunni bleikar blóndarósir en það er einmitt snilldin við eilífðarblóm að hægt er að setja saman vendi og bæta við aðra að vild hvenær sem mig langar. Ég elska þó áfram fátt meira en fersk blóm en þetta er tilvalið að nota á móti, stundum bæti ég við 1-2 eilífðarblómi við í vasa með lifandi blómum í sem eru að syngja sitt síðasta.

Ég hef keypt mér reglulega eilífðarblóm í gegnum tíðina og á núorðið til smá safn, nokkur í vasanum hér að neðan fékk ég í gjöf frá Dimm en annað hef ég keypt mér ♡

Smelltu hér til að skoða úrvalið 

Mjög skemmtilegt sem stelpurnar í Dimm sögðu mér í heimsókninni er að það er vinsælt að koma með þinn eigin vasa með í verslunina og fengið stelpurnar til að raða í hann fallegum eilífðarvendi. Snilldarhugmynd!

Eigið góðan dag!

Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FALLEGT HEIMILI HJÁ RUT KÁRA VEKUR ATHYGLI

Íslensk heimili

Stórglæsilegt heimili Rutar Kára hefur vakið mikla athygli og meðal annars prýtt blaðsíður erlendra hönnunartímarita og þykir afskaplega vel heppnað. Rut Kára er jú einn fremsti – og án efa þekktasti innanhússhönnuður landsins. Hér hefur hún búið ásamt fjölskyldu sinni í 20 ár og er þetta glæsilega hús núna komið á sölu. Myndirnar tók svo enginn annar en Gunnar Sverrisson.

Mig dreymir um þetta tréhús í garðinum – vá þvílíkur draumur að eiga börn með svona æðislegan garð og innipotturinn er alveg einstaklega spennandi. Hér gæti ég hugsað mér að búa ♡ Og er ég nokkuð ein um það að vera spennt að sjá hvernig Rut mun koma sér fyrir á nýju heimili?