GLÆSILEG HÖNNUNARÍBÚÐ Í KJARRHÓLMA

HeimiliÍslensk hönnun

Ég elska að skoða íslensk heimili og skoða fasteignasölur nánast eingöngu í þeim tilgangi að finna góðar hugmyndir þar sem ég hef ekki beint verið í kauphugleiðingum undanfarin ár. Þessa íbúð sendi hún Elísabet mín Gunnars þar sem hún deilir með mér áhuga um falleg íslensk heimili. Ég áttaði mig þó ekki alveg strax á því að íbúðin er staðsett í sömu blokk og systir mín bjó í nokkur ár og er sömu stærðar að auki, nema það að þessi er gjörólík vegna skemmtilegra lausna og opnara rými. Ég hef séð margar íbúðir í þessari blokk og eiga þær ekki roð í þessa hér að neðan sem er virkilega falleg og búið að draga það besta fram í henni með því að brjóta niður vegg á milli eldhúss og stofu en þannig eru íbúðirnar að minnsta kosti upphaflega teiknaðar og sjónsteypan á gólfum spilar einnig stórt hlutverk. Það er sérstaklega gaman að deila þessum myndum þar sem blokkin í Kjarrhólma sem um ræðir er gífurlega stór og því fjölmargir íbúar hennar sem geta tengt við þessar breytingar og fengið góðar hugmyndir í leiðinni.

Fyrir áhugasama þá má finna frekari upplýsingar um þetta fallega heimili hér.

Algjört draumaheimili og útsýnið er ekki af verri endanum alla leið út að Esju. Miðað við breytingarnar sem þessi íbúð hefur gengið í gegnum get ég ímyndað mér að hún hafi ekkert verið alltof heillandi í upphafi en stundum þarf bara smá hugmyndaflug til að sjá möguleikana og mikið sem ég held að það sé gaman að fá að taka í gegn sitt eigið heimili og gera að sínu.

HEIMA HJÁ RAKEL RÚNARS

HeimiliPersónulegt

Þetta er aldeilis ekki í fyrsta sinn sem ég fjalla um vinkonu mína hana Rakel Rúnarsdóttur hér á blogginu og fær hún eflaust að vera fastagestur hér inná þar til ég segi skilið við bloggbransann – sem verður vonandi aldrei. Rakel mín er ekki bara ein af mínum allra bestu vinkonum en eins og ég hef áður sagt ykkur þá stofnuðum við bloggið saman fyrir um 8 árum síðan. Við deilum flestum áhugamálum saman en þar að auki höfum við mjög líkan smekk og ég hrífst af öllu sem hún kaupir sér og svo er það eins á móti. Í dag sýndi ég smá frá heimilinu hennar á Svartahvitu snapchat og verður heimsóknin aðgengileg þar til hádegis þann 13. júlí. Það er orðið ansi huggulegt hjá þeim í firðinum fagra en líka margt eftir að gera sem verður spennandi að fylgjast með.     

Ég sendi á Rakel nokkrar spurningar svo þið kynnist þessari elsku aðeins betur,

Hér búa?  Andri, Rakel, Emil Patrik og Evelyn Alba 

Er þetta draumaeignin ykkar? Húsið kemst ansi nálægt því að vera okkar draumaeign já. Passlega stórt, vel skipulagt, bjart og fallegt og fullkomin staðsetning í grónu og barnvænu hverfi.

Þurfti að gera eitthvað áður en þið fluttuð inn? Þar sem við vorum að flytja til landsins að utan þá þurftum við að flytja strax inn í húsið áður en við gerðum nokkuð. Við máluðum svo mest allt og höfum verið að vinna mikið í lóðinni, bæði að framan og aftan. Einnig voru nokkur viðhaldsverkefni sem þurfti að sinna.

Á eftir að klára mikið? Já mjög mikið, en við erum ekkert að flýta okkur og ætlum að taka nokkur ár í þetta allt saman, eiga fyrir hverju verkefni. Í sumar ætlum við að halda áfram að vinna í lóðinni, byggja pall að aftan o.fl. í þeim dúr. Einnig ætlum við taka efri hæðina alveg í gegn, skipta um gólfefni og mögulega hurðar. Svo á eftir að taka bæði baðherbergin í gegn, opna frá borðstofu og inn í eldhús og taka eldhúsið þá í gegn í leiðinni. Þá munum við líka skipta um öll gólfefni á neðri hæðinni.

Þessi stofa er algjör draumur, ég elska smáhlutahilluna sem er fyrir ofan ofninn þar sem nokkrir af uppáhaldshlutum fá að standa. Gluggarnir eru æðislegir og hleypa rosalega mikilli birtu inn og það er gott að sitja hér og geta horft á krakkana úti að leika. Á efri hæðinni er sjónvarpshol og því fær betri stofan að njóta sín enn betur án þess að sjónvarp trufli.

Ég er bálskotin í þessum lit og gæti vel hugsað mér að mála einn vegg í stofunni minni með honum, svo mildur og bjartur grár litur. Fyrir áhugasama (ég veit þið eruð mörg) þá heitir liturinn Hop Greige og er frá Sérefni eins og öll málningin á heimilinu.

Ikea Eket skápur á veggnum og uppáhalds hluturinn á heimilinu, Panthella lampinn góði. Þarna vantar að vísu Scintilla myndina góðu sem var fjarri góðu gamni í innrömmun.

Borðstofuborðið sem tengdapabbinn smíðaði og Rand mottan kemur hrikalega vel út undir borðinu en ekki sem stofumotta. Glerskápurinn var keyptur notaður á Bland og ljósið er frá Northern Lighting (fæst hér í Módern).

Hér eiga eftir að verða ansi mörg matarboðin!

Hvað er það besta við heimilið? Skipulagið og allir gluggarnir sem hleypa svo mikilli birtu inn.

Uppáhaldshlutur? Verner Panton Panthella lampinn minn og svo verð ég líka að nefna borðstofuborðið okkar sem tengdapabbi smíðaði fyrir mig.

Krúttherbergið hans Emils sem er á efri hæðinni. Blái liturinn heitir Clear Paris frá Sérefni, ég fékk margar fyrirspurnir um hann í dag enda alveg fullkominn mildur blár litur sem myndi einnig njóta sín vel í svefnherbergi. Tunglmyndin “til tunglsins og tilbaka” er eftir Fóu Feykirófu – sjá hér.

Svefnherbergið er fallegt og hugsað út í hvert smáatriði. Liturinn á veggjunum heitir Soft Stone og er frá Sérefni, en þessi litur kemur líka til með að prýða einn vegg í eldhúsinu við tækifæri.

Hvað kom til að þið fluttuð aftur til Íslands? Við erum búin að vera úti meira og minna síðan 2012 svo við vorum alveg tilbúin að koma heim og koma okkur fyrir hér. Svo var maðurinn minn að klára framhaldsnámið sitt og langaði til að koma heim og starfa við það svo við ákváðum bara að nú væri rétti tíminn.

Hvað er svo á döfinni? Ég verð í fæðingarorlofi út sumarið og stefni svo á að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

Takk elsku Rakel fyrir að bjóða okkur í heimsókn ♡

Og ef það eru spurningar þá ekki hika við að skilja eftir skilaboð.

DRAUMUR Á MARARGÖTU

HeimiliÍslensk hönnun

Hér býr ein smekklegasta dama sem ég þekki – þó víða væri leitað. Því kemur lítið á óvart að heimilið sé eins og klippt úr tímariti svo einstaklega fallegt er það. Ég hef einmitt farið í innlit til hennar þá fyrir Glamour og ég man hvað þetta fallega bláa heimili vakti mikla athygli – þetta var með fyrstu myndunum sem birtust af íslensku heimili sem var heilmálað í svona dökkum lit en núna er það að verða æ algengari sjón. Enda ekki skrítið þegar þessar myndir eru skoðaðar, hver væri ekki til í að búa þarna?

Myndir via Smartland á Mbl 

Fyrir áhugasama þá er opið hús á morgun, mánudag og ég er alveg sannfærð um að þessi íbúð muni rjúka út. Draumastaðsetning í fallegu húsi og að mér skilst með drauma nágranna;)

ÍSLENSKT HEIMILI : STÚTFULLT AF LIST & SJARMA

Heimili

Þetta íslenska heimili sem nú má finna myndir af á fasteignasölu er engu líkt. Það var mín kæra Karen Lind sem sendi mér þessar myndir í morgun og ég missti nánast andann í nokkrar sekúndur. Það er nefnilega sjaldan sem svona heimili birtast okkur og við verðum samstundis forvitin að fá að heyra hverjir búa svona skemmtilega. Ég ætla að leggja allt undir að þarna búi hönnuður eða listamaður, það hreinlega hlýtur að vera. Öll þessi listaverk og sérkennilegi stíll einkennir heimilið sem er í grunninn mjög hrátt, með hátt til lofts og vítt til veggja. En þó svo skemmtileg og kósý með öllum þessum ólíku gólfmottum á víð og dreif. Og ræðum svo aðeins dúkku listaverkið á eldhúsveggnum – það er nánast enginn sem kemst upp með svona veggpunt en hér kemur það manni ekki einu sinni á óvart. Alveg hrikalega skemmtilegt heimili og kemur sem ferskur andblær í flóru íslenskra heimila. Ég er alveg heilluð.

Og svo ég haldi áfram að giska hver búi hér, þá vil ég trúa því að þessi fjölskylda sé undir hollenskum áhrifum og hafa líklega búið þar um tíma. Þessi iðnaðarstíll og frábæra samansafn af hönnun er eitthvað sem ég sé nánast aðeins í Hollandi og eldhúsborðið/borðstofuborðið eftir hinn hollenska Piet Hein Eek er mín draumaeign.

Myndirnar eru fengnar af fasteignasöluvef Vísis – sjá nánar hér. 

EINSTAKT HEIMILI KATRÍNAR ÓLÍNU

HeimiliÍslensk hönnun

Hafandi unnið við fjölmiðla í nokkur ár þá hef ég líklega haft samband við yfir hundrað manns og beðið um að fá að kíkja í heimsókn ásamt ljósmyndara fyrir tímarit eða annað. Ég hef því oft lista við höndina yfir aðila sem eru líkleg til að eiga mjög smart heimili og eitt nafn sem hefur lengi verið á listanum mínum er Katrín Ólína, sem er einn fremsti íslenski hönnuðurinn og þið kannist 100% við hennar verk (t.d. Tréð frá Swedese).

Það var svo í gær sem nýjasta innlitið hjá snillingunum á bakvið Islanders birtist og það er einmitt heima hjá Katrínu Ólínu, og það sem ég varð glöð að sjá þessar myndir. Heimili sem er ólíkt öllum öðrum, persónulegt, smá skrítið en alveg ofboðslega fallegt.

Stöllurnar á bakvið Islanders eru þær Auður Gná, innanhússhönnuður og Íris Ann ljósmyndari og fjalla þær um á vefnum sínum áhugaverð heimili Íslendinga á vandaðan hátt. Ég mæli með að þið skellið ykkur yfir á Islanders og lesið greinina og flettið í gegnum þessar geggjuðu myndir. Þær eiga hrós skilið fyrir vandaðar umfjallanir, textinn (á ensku) sem Auður Gná skrifar er sérstaklega vel gerður og gaman að lesa, og myndirnar hennar Írisar Ann eru dásamlegar.


8-2

9-2 18-3 30

// Myndir Íris Ann via Islanders.is

Það eru nokkrir hlutir sem finna má á heimili Katrínar sem sitja á óskalistanum mínum, þar má m.a. nefna postulíns kanínuna sem Katrín skreytti fyrir Rosenthal árið 2005, ásamt Cross lyfjaskápnum frá Cappellini sem ég skal eignast einn daginn (sjáið hann inni á baðherberginu). Þú þarft svosem að vera alveg ekta hönnunarnördi til að yfir höfuð spá í svona hlutum haha. Katrín Ólína er án efa ein af mínum uppáhalds hönnuðum, verk hennar eru mörg hver á mörkum hönnunar, myndlistar og myndskreytinga og það er svo sannarlega hægt að gleyma sér yfir þeim.

Eigið góða helgi !

skrift2

ISLANDERS -THE WAY WE LIVE-

HeimiliÍslensk hönnun

Mig langar til að segja ykkur frá ótrúlega spennandi verkefni sem tvær ofurflottar konur standa að baki. Þær Auður Gná, innanhússhönnuður og Íris Ann ljósmyndari opnuðu nýlega ISLANDERS sem er ný og fersk heimasíða sem fjallar um áhugaverð heimili Íslendinga á vandaðan hátt.

Það sem helst einkennir heimilin á Islanders er að þau eru öll einstök á sinn hátt og mjög fjölbreytt, hér má finna góða blöndu af mörgum stílum og klárlega eitthvað fyrir alla. Ég bíð spennt eftir næsta heimili sem mun bætast við á næstu dögum en einnig er hægt að fylgjast með ISLANDERS á facebook og á instagram til að missa ekki af neinu innliti.

fc8136_d19b3e7a3477486c80404cc7217b8b1afc8136_0e4f53116fee40e899d3b02952f7bbbcfc8136_6da5c226ce594361b08a0f917b57ac17Screen Shot 2016-05-05 at 08.17.49fc8136_430cf4c6ec5b43edb0f3cd05ee332bde

 Myndir : Íris Ann

Ég er alveg bálskotin í þessu nýja og spennandi verkefni sem er bara eftir að stækka og verða ennþá flottara. Þær stöllur eru algjörlega snillingar í sínu fagi, en hún Auður Gná hefur meðal annars stofnað fallega hönnunarmerkið Further North, á meðan að Íris Ann og eiginmaður hennar eru snillingarnir á bakvið sívinsæla veitingarstaðnum The Coocoo’s Nest! Mæli svo sannarlega með að fylgjast með:)

Screen-Shot-2015-04-23-at-22.38.421111

LITLA 55 FM ÍBÚÐIN OKKAR

HeimiliPersónulegt

Það er við hæfi að birta í síðasta skiptið myndir frá þessu heimili okkar því það eru aðeins 2 dagar í nýja heimilið. Ég hef versnað í frestunaráráttunni minni og hef reynt nokkrum sinnum undanfarna daga að pakka niður, en alltaf enda ég á því að raða bara til hlutum eða flokka í skúffum og skápum. -Því er enn sem komið er ekkert komið ofan í kassa og einn gráhærður kærasti á kantinum því “það má ekki setja allt í kassa fyrr en að ég er búin að taka myndir”. Hér koma því myndirnar:)

Eins og ég hef komið inn á áður þá er íbúðin okkar mjög lítil, ekki nema 55 fermetrar, eitt svefnherbergi, baðherbergi og svo alrými þar sem eldhús, stofa og “forstofa” eru saman. Það eru þó margir kostir við það að búa smátt og það hefur farið alveg einstaklega vel um okkur hér. Helsti gallinn við þessa íbúð hefur mér þótt að hafa ekki forstofu og þurft að hafa fataskáp og oft nokkur skópör inní stofu. Ég bíð því spennt eftir að hafa forstofu á næsta stað!

IMG_0578

Miðpunktur heimilisins er borðstofan/eldhúsið.

IMG_0555

Horft fram úr svefnherberginu. Þessi tímaritabunki fær að fara upp í hillu á næsta stað, það er nánast ómögulegt að komast í gömul blöð! Fyrir framan svefnherbergið kom ég fyrir stórum spegli sem ég átti til, það er extra gaman að sjá sig alla morgna nýskriðna á lappir haha.

IMG_0563

Uppáhalds svanaóróinn minn frá Flensted, þessi fær að fara í barnaherbergið.

IMG_0557

Plakatið er frá Scintilla, og þessa tekkmubblu fengu amma og afi í brúðkaupsgjöf.

IMG_0586

Horft úr eldhúsinu yfir í stofuna. Þarna sjáið þið best hversu þröngt er hér í raun og veru:) Þarna er nefnilega að sjá innganginn í íbúðina. Þetta er reyndar fjölbýli svo það er smá gangur fyrir framan, en það eru tvær íbúðir á hverri hæð og ég hef fengið að geyma nokkur skópör frammi á gangi svo allir skórnir okkar skreyti ekki stofuna:)

IMG_0592 IMG_0598

Þarna má einnig sjá ummerki um frestunaráráttuna mína, ég hef nefnilega ekki ennþá komið mér í það að negla neina nagla í veggina og því hanga þessar tvær myndir á tveimur nöglum sem voru hér fyrir skakkar og fínar (!) Finnst ykkur ég ekki vera smekkleg:)

IMG_0600

Ég er smá skotin í þessari “bók” sem ég fann í Söstrene um daginn, fín til að geyma t.d. fjarstýringar og annað sem þykir ólekkert.

IMG_0601

Hvað er ég að sýna ykkur þetta… þarna má nefnilega sjá stafla af myndum sem eru enn að bíða eftir því að vera hengdar upp á vegg:) Uten Silo hillan kemur sér vel við innganginn til að henda af sér þessu helsta og kemur í veg fyrir að ég týni lyklum t.d.

IMG_0615

Litríkir geymslukassar frá HAY, og skenkurinn minn eini sanni sem Andrés smíðaði.

IMG_0617

Uppáhaldsstóllinn minn eftir Kjarval, hann er reyndar orðinn húsbóndastóllinn hans Betúels núna. Þarna átti einnig alltaf að koma þessi fíni myndaveggur, en það er víst orðið of seint núna. -Sem betur fer reyndar því það þarf því lítið að sparsla og mála!

IMG_0625

Horft inn í eldhúskrók frá sófanum, til hægri má sjá baðherbergishurðina.

IMG_0627

Að pússa borðið og bera á það er á to do listanum. Eruð þið að tékka á þessum fínu ókeypis “blómum” úr garðinum!

IMG_0622 IMG_0631

Smáhlutirnir í eldhúsinu…(safnarinn ég).

IMG_0632

Bestu servíettur sem ég hef átt “Eat more of what makes you happy”. Svo er bókin hennar Rósu alltaf jafn góð til að grípa í.

IMG_0633

Krítarveggurinn góði sem kemur sér vel fyrir manneskju eins og mig sem sumir náskyldir mér telja að sé með “alzheimer light”.

IMG_0635

Mikið sem ég elska að eiga svona djúpar gluggakistur til að raða fíneríi.

IMG_0638

Verið velkomin inn á baðherbergi. P.s. það er ekkert grín hvað þessi kisi er athyglissjúkur, þarna kýs hann að fá að drekka vatnið sitt, ferskt beint úr krananum.

IMG_0644

Ég býð ykkur nú ekki til að sjá allt heimilið okkar en sleppi svefnherberginu! Hvítar Malm kommóður frá Ikea eru bráðnauðsynlegar undir fötin, það er reyndar líka fataskápur í herberginu en við vildum aukafataslá og því var þessi hengd upp í loftið. Mjög fín lausn fyrir smáar íbúðir.

IMG_0576

 Ein aukamynd sem mér þykir vera svo falleg. Ég átti nefnilega í mestu erfiðleikum með Betúel á meðan að myndatökunni stóð, hann gerði í því að fara akkúrat á þann stað sem ég var að mynda, þið eruð heppin að mér tókst að taka nokkrar án hans.

Næst fáið þið að sjá nýja heimilið sem er aðeins örfáum húsum í burtu, nokkrir auka fermetrar verða mjög vel þegnir sem og aukaherbergið líka og ég tala nú ekki um vinnustofuna. Við sem vorum reyndar svo sátt í þessari íbúð þrátt fyrir smá þrengsli, því á ég von á því að við verðum extra happy á næsta stað! Ég er allavega spennt að komast að því!

P.s. við vorum ekki að kaupa, erum ennþá sátt á leigumarkaðnum:)

Þangað til næst,

-Svana

JÓLAGJAFAHUGMYND : ÍSLENSK HEIMILI

BækurHeimili

Ef þig vantar hugmynd að jólagjöf handa þeim sem hefur áhuga á fallegum heimilum þá er nýja bókin frá Höllu Báru Gestsdóttur og Gunnari Sverrissyni, -Heimsóknir- mjög góð gjöf:) Ég var að fletta í gegnum hana og hún er hin glæsilegasta. Þau hjónin hafa reyndar alveg einstaklega næmt auga fyrir myndefni og Gunnar er einn besti innanhússljósmyndari landsins.

_A9T1838heimsoknir_kapa_kynning _A9T9032 _A9T9368 _A9T09981qeqe_4548664

Þessi bók er skyldueign að mínu mati í bókahilluna.