SUMARGJÖFIN @SVANA.SVARTAHVITU

Persónulegt

Ég ákvað að leyfa mér nokkra daga í sumarfrí og náði að vinna mér inn fyrir því með tímastilltu efni og smá skipulagi. Lengi hefur mig langað til þess að gefa litla sumargjöf og núna finnst mér einmitt tilefnið. Í samstarfi við Epal ætla ég að gefa einum heppnum tvær af mínum uppáhaldsvörum, það er heimilisilmurinn BÆR frá Skandinavisk en hann hef ég sjálf átt lengi og á einnig ilmkertið því ég bókstaflega elska þennan ilm. Ásamt því er uppáhaldslakkrísinn minn frá Johan Bülow sem er einmitt sumarútgáfan og er hrikalega sætur og ljúffengur.

Ég ákvað þó að breyta útaf vana og hafa ekki leikinn á blogginu í þetta sinn og ákvað að prófa mig áfram með instagram og þessvegna er leikinn þar að finna. Það sem þarf að gera er að finna mig á instagram @svana.svartahvitu og merkja 2 vini í komment og þú ert komin/n í pottinn ♡ Ég dreg út í lok vikunnar ♡

HEIMA HJÁ RAKEL RÚNARS

HeimiliPersónulegt

Þetta er aldeilis ekki í fyrsta sinn sem ég fjalla um vinkonu mína hana Rakel Rúnarsdóttur hér á blogginu og fær hún eflaust að vera fastagestur hér inná þar til ég segi skilið við bloggbransann – sem verður vonandi aldrei. Rakel mín er ekki bara ein af mínum allra bestu vinkonum en eins og ég hef áður sagt ykkur þá stofnuðum við bloggið saman fyrir um 8 árum síðan. Við deilum flestum áhugamálum saman en þar að auki höfum við mjög líkan smekk og ég hrífst af öllu sem hún kaupir sér og svo er það eins á móti. Í dag sýndi ég smá frá heimilinu hennar á Svartahvitu snapchat og verður heimsóknin aðgengileg þar til hádegis þann 13. júlí. Það er orðið ansi huggulegt hjá þeim í firðinum fagra en líka margt eftir að gera sem verður spennandi að fylgjast með.     

Ég sendi á Rakel nokkrar spurningar svo þið kynnist þessari elsku aðeins betur,

Hér búa?  Andri, Rakel, Emil Patrik og Evelyn Alba 

Er þetta draumaeignin ykkar? Húsið kemst ansi nálægt því að vera okkar draumaeign já. Passlega stórt, vel skipulagt, bjart og fallegt og fullkomin staðsetning í grónu og barnvænu hverfi.

Þurfti að gera eitthvað áður en þið fluttuð inn? Þar sem við vorum að flytja til landsins að utan þá þurftum við að flytja strax inn í húsið áður en við gerðum nokkuð. Við máluðum svo mest allt og höfum verið að vinna mikið í lóðinni, bæði að framan og aftan. Einnig voru nokkur viðhaldsverkefni sem þurfti að sinna.

Á eftir að klára mikið? Já mjög mikið, en við erum ekkert að flýta okkur og ætlum að taka nokkur ár í þetta allt saman, eiga fyrir hverju verkefni. Í sumar ætlum við að halda áfram að vinna í lóðinni, byggja pall að aftan o.fl. í þeim dúr. Einnig ætlum við taka efri hæðina alveg í gegn, skipta um gólfefni og mögulega hurðar. Svo á eftir að taka bæði baðherbergin í gegn, opna frá borðstofu og inn í eldhús og taka eldhúsið þá í gegn í leiðinni. Þá munum við líka skipta um öll gólfefni á neðri hæðinni.

Þessi stofa er algjör draumur, ég elska smáhlutahilluna sem er fyrir ofan ofninn þar sem nokkrir af uppáhaldshlutum fá að standa. Gluggarnir eru æðislegir og hleypa rosalega mikilli birtu inn og það er gott að sitja hér og geta horft á krakkana úti að leika. Á efri hæðinni er sjónvarpshol og því fær betri stofan að njóta sín enn betur án þess að sjónvarp trufli.

Ég er bálskotin í þessum lit og gæti vel hugsað mér að mála einn vegg í stofunni minni með honum, svo mildur og bjartur grár litur. Fyrir áhugasama (ég veit þið eruð mörg) þá heitir liturinn Hop Greige og er frá Sérefni eins og öll málningin á heimilinu.

Ikea Eket skápur á veggnum og uppáhalds hluturinn á heimilinu, Panthella lampinn góði. Þarna vantar að vísu Scintilla myndina góðu sem var fjarri góðu gamni í innrömmun.

Borðstofuborðið sem tengdapabbinn smíðaði og Rand mottan kemur hrikalega vel út undir borðinu en ekki sem stofumotta. Glerskápurinn var keyptur notaður á Bland og ljósið er frá Northern Lighting (fæst hér í Módern).

Hér eiga eftir að verða ansi mörg matarboðin!

Hvað er það besta við heimilið? Skipulagið og allir gluggarnir sem hleypa svo mikilli birtu inn.

Uppáhaldshlutur? Verner Panton Panthella lampinn minn og svo verð ég líka að nefna borðstofuborðið okkar sem tengdapabbi smíðaði fyrir mig.

Krúttherbergið hans Emils sem er á efri hæðinni. Blái liturinn heitir Clear Paris frá Sérefni, ég fékk margar fyrirspurnir um hann í dag enda alveg fullkominn mildur blár litur sem myndi einnig njóta sín vel í svefnherbergi. Tunglmyndin “til tunglsins og tilbaka” er eftir Fóu Feykirófu – sjá hér.

Svefnherbergið er fallegt og hugsað út í hvert smáatriði. Liturinn á veggjunum heitir Soft Stone og er frá Sérefni, en þessi litur kemur líka til með að prýða einn vegg í eldhúsinu við tækifæri.

Hvað kom til að þið fluttuð aftur til Íslands? Við erum búin að vera úti meira og minna síðan 2012 svo við vorum alveg tilbúin að koma heim og koma okkur fyrir hér. Svo var maðurinn minn að klára framhaldsnámið sitt og langaði til að koma heim og starfa við það svo við ákváðum bara að nú væri rétti tíminn.

Hvað er svo á döfinni? Ég verð í fæðingarorlofi út sumarið og stefni svo á að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

Takk elsku Rakel fyrir að bjóða okkur í heimsókn ♡

Og ef það eru spurningar þá ekki hika við að skilja eftir skilaboð.

INSTAGRAM @SVANA.SVARTAHVITU

Persónulegt

Ótrúlegt en satt þá hef ég verið nokkuð virk á Instagram undanfarið, eða að minnsta kosti miðað við virkni mína undanfarin ár. Ég hef mjög gaman af þessum miðli þrátt fyrir að þetta sé einn versti tímaþjófur sem hægt er að finna og mér finnst orðið erfitt að gera upp á milli hvort Snapchat eða Instagram sé betri vettvangur? Ég ætla að halda mig eins og er við báða miðla og núna er næsta skref að koma Snapchat í rútínuna! Skemmtilegt að segja frá því að á mánudaginn verður einmitt smá innlit þar hjá einni smekkdömu ef þið viljið kíkja með ♡

Instagram @svana.svartahvitu

Ég vona að helgin ykkar verði góð, ég ætla að kíkja í heimsókn í bústaðinn ótrúlegt en satt… Ég er búin að vera eitthvað svo stressuð undanfarið að mig vantar smá ró og næði og það er hvergi betri staður til þess en sveitin. Góður matur, útivera og að lesa nokkur tímarit eða bók. Ég er alveg í gírnum til þess að lesa eitthvað sem væri geymt í “sjálfshjálpar” rekkanum haha, öll tips vel þegin en ég er algjör sökker þegar kemur að slíku lesefni.

FULLKOMIN VINKONUFERÐ ♡

Persónulegt

Fyrir nokkrum dögum síðan héldum við vinkonurnar í saumaklúbbnum upp á árlega árshátíð og fékk ég að koma að skipulagi hennar sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt. Það er alveg nauðsynlegt að lyfta sér upp reglulega og styrkja sambandið við vini sína. Ég er ekki frá því að ég hafi einnig lengt líf mitt um nokkur ár því það var svo mikið hlegið í ferðinni – algjörlega frábær dagur með skemmtilegum vinkonum.
Við erum með hefð fyrir því að ca. tvær úr hópnum skipuleggi allt og komum svo hinum á óvart en þó leggjum við allar jafnt út fyrir deginum. Ég vona að þetta geti komið ykkur að gagni sem eruð að skipuleggja vinkonu/vinaferðir:) 

Við byrjuðum daginn á því að hittast fyrir utan Sundhöllina á Selfossi þar sem við áttum bókaðan tíma í Trampolín fitness í World Class. Ég man eftir að hafa séð stelpurnar í RVK fit (snapchat) fara þangað nýlega og það virkaði svo hrikalega skemmtilega að við vildum einnig prófa. Við vorum einar með salinn og borguðum fyrir klukkustund með kennara sem var alveg frábær. Hún blandaði saman æfingum og hópeflisleikjum sem var hressandi að byrja árshátíðina okkar á. Ég mæli endilega með því að prófa!

Eftir það þá keyrðum við í bústaðinn minn þar sem við gistum í eina nótt og elduðum góðan mat og vorum í misgáfulegum leikjum langt fram á nótt. Við erum með smá steiktan húmor og ákváðum að hafa keppni okkar á milli varðandi klæðnað og fékk hver og ein þemalit sem hún átti að klæða sig eftir og voru haldnar kynningar. Sú sem gekk lengst með þemað sitt hlaut svo verðlaun – en einnig voru veitt aukaverðlaun fyrir besta fylgihlutinn í þemalitnum. Ég veit varla afhverju ég er að skrifa þetta hérna haha. En það er alveg nauðsynlegt að taka sig ekki of alvarlega og geta ennþá fíflast þó við séum ekki ennþá 16 ára. Við lögðum okkur allar mikið fram við þemað og það var mikið hlegið og myndirnar sem náðust af mér fá ekki að fara á alnetið – en verðlaunin komu heim með mér;)

Morguninn eftir var síðan vaknað snemma og haldið í bröns í Þrastarlundi þangað sem ég hef verið á leiðinni síðan að bústaðarævintýrið hófst en þetta er jú hverfisstaðurinn okkar fjölskyldunnar núna. Það sem kom mér svo á óvart að þrátt fyrir að hafa heyrt mjög marga tala um brönsinn þá er staðurinn sjálfur alveg einstaklega fallegur og vel hannaður en það hefur alveg gleymst í allri umræðunni. Stærðarinnar gylltar ljósakrónur og háir leðurbekkir setja sinn svip á staðinn og grófir og töffaralegir leðurstólar eru við borðin. Það voru þau Dóra Björk Magnúsdóttir og Leifur Welding sem hönnuðu staðinn og heppnaðist svona líka vel. Ég get ekki sleppt því að minnast síðan á brönsinn sjálfan sem var virkilega ljúffengur en það besta var líklega þjónninn okkar hann Marek sem dekraði við okkur. Við tókum nokkrar myndir af staðnum og gátum ekki sleppt því að taka klassísku -bloggari í bröns- myndina (haha) sem við skemmtum okkur mikið yfir. Við vorum mættar alveg við opnun sem mér þótti kostur því þá nýtur maður umhverfisins og útsýnisins sem er svo fallegt betur. Ég mæli því hiklaust með Þrastarlundi ef þið eruð á ferðinni og ég mun eiga næsta deit þarna með fjölskyldunni minni en við keyrum þarna framhjá um hverja helgi nánast.

Þessar fjórar sáu svo um að þrífa bústaðinn eftir partýlætin og fáum því að öllum líkindum að kíkja aftur!

Við saumaklúbburinn höfum haldið árshátíð í nokkur ár núna og er alltaf mjög fjölbreytt dagskrá en í fyrsta sinn núna gistum við saman. Ég tek fram að við erum fleiri í hópnum en sést á myndinni – mér yrði þó líklega ekki fyrirgefið ef ég birti myndir af þeim hér á Trendnet sveittum í leikfimifötum eða fullum um kvöldið. Núna krossa ég fingur að næsta árshátíð verði haldin í L.A. þar sem að ein kær vinkona úr hópnum er að flytja þangað.

x Svana

NÝJA STOFAN ♡

HeimiliPersónulegt

Þá er það loksins fyrsta myndin af stofunni eftir breytingar. Það er vissulega ekki allt alveg tilbúið og ég er enn eftir að raða á veggi og koma nokkrum hlutum betur fyrir, þessvegna fáið þið aðeins eitt sjónarhorn í dag. Ég geri mér mjög vel grein fyrir því að fyrr eða síðar munu koma blettir í sófann og ég er alveg pollróleg yfir því, þá fer ég einfaldlega með áklæðið í hreinsun. Ég er enn sem komið er mjög ánægð með sófann og það er allt mikið bjartara og fallegra í stofunni núna, bleiki liturinn er dásamlegur og ég svíf á bleiku skýi. Að sjálfsögðu er ég líka einstaklega hamingjusöm að minn maður setur sig ekkert á móti svona hlutum, ég held hreinlega að hann hafi lítið spáð í bleika litnum því hann er svo hamingjusamur að hafa eignast tungusófa. Ólíkar þarfir! Ég vona að sófinn komi til með að eldast ágætlega, en Karlstad sófinn okkar gerði það ekki. Púðarnir urðu fljótlega smá sjúskaðir og fyllinginn breytti um lögun. Ég tók eftir því að sama fylling er í þessum púðum svo ég ætla að reyna að vera meðvituð um það þó svo að sófar séu vissulega til að kúra í og koma sér vel fyrir. Ásamt því að sonur minn er sérlega áhugasamur um allskyns sófabrölt. Þetta er að minnsta kosti fyrsta myndin – við tökum bara stöðuna aftur eftir nokkra mánuði.

instagram @ svana.svartahvitu

Þegar ég lít á stofuna mína í dag er ég mjög sátt en ég hafði ekki verið ánægð með hana í langan tíma, það var alltaf eitthvað sem truflaði mig. En af öllum þessum hlutum sem sjá má í stofunni þá nær aldrei neitt að toppa persónulegu hlutina, t.d. skenkinn sem Andrés smíðaði, fuglinn sem ég uppstoppaði og kertastjakana sem afi renndi. Eitthvað nýtt – eitthvað gamalt – eitthvað persónulegt er hin fullkomna blanda að heimili þar sem okkur líður vel á.

LOKSINS STOFUBREYTINGAR

HeimiliPersónulegt

Draumasófinn er loksins kominn heim og við erum nýbúin að klára að setja hann saman. Þið sem fylgst hafið lengi með kannist líklega við það að ég hef verið í sófaleit í nokkra mánuði ef ekki ár og að lokum ákvað ég að kaupa Söderhamn sófann frá Ikea með bleiku áklæði og tungu. Það kemur inn mynd af “nýju” stofunni minni innan skamms – en þangað til getið þið séð smá á bakvið tjöldin á Svartahvitu snappinu, hér að neðan tók ég saman stemminguna sem ég er að leitast eftir núna. Ég viðurkenni að ég hef lengi verið mjög þreytt á stofunni minni sem þarfnaðist alvarlega smá yfirhalningar.

Eins og fram hefur komið þá keypti ég mér bleika Söderhamn sófann sem er reyndar ekki þessi samsetning sem sjá má að ofan. Ég keypti mér einnig ljósbrúnt kýrskinn fyrir dálitlu síðan en vinkona mín sem var að flytja heim erlendis frá kom með skinnið í gær og það er gullfallegt. Mitt skinn er keypt frá Hiderugs í Englandi en ég vil þó benda á að kýrskinn fást hér heima hjá t.d. Sútaranum á Sauðárkróki og einnig til dökkbrúnt í Ikea. Ég er alltaf að koma mér í það að halda smá bílskúrssölu en ég hafði hugsað mér að losa mig við mikið af plakötunum mínum og gæti vel hugsað mér í staðinn nýtt frá elsku Kristinu Krogh sem er svo hæfileikarík, það ásamt draumaspeglinum frá Further North sem varð loksins minn nýlega og fær sinn stað í stofunni.

Ég þarf svo líklega að skipta út sófaborðinu mínu sem er gamalt Stockholm 60’s borð frá Ikea en nota þá Svartan borðið frá Ikea sem hefur nýst sem plöntustandur lengi vel og fær núna loksins að vera í aðalhlutverki. Ég lenti í smá tjóni nýlega með svarta Flowerpot lampann minn og eins óheppin og ég get verið þá er svarti lampinn hættur í framleiðslu svo ég skipti honum þá líklega út fyrir matt-gráann (ég er a.m.k. að vona að heimilistrygginging aðstoði hér).

Ég hlakka mikið til þess að raða upp á nýtt í stofunni en mikið sem ég hef verið löt við að breyta til á heimilinu mínu. Það kemur jafnvel til greina að mála!

Eigið annars góða helgi – hæ hó og jibbý jei.

9. JÚNÍ ♡

Íslensk hönnunPersónulegt

Ég ætlaði bara rétt að kíkja hingað inn í dag – en ég ákvað að gefa mér smá afmælisfrí í dag og hef því ekkert viljað vinna í tölvunni. Sem er líka sérstaklega erfitt í þessari glampandi sól. Ég byrjaði daginn á góðri æfingu og kom svo við hjá Önnu Þórunni vöruhönnuði sem er ein mesta dásemd sem ég þekki. Tilefnið var að máta nýja bleika sófann hennar sem mig hefur svo lengi dreymt um til að fullvissa mig um að þetta sé sá eini sanni. Í leiðinni fékk ég að grúska í öllum fallegu hlutunum hennar en þið kannist líklega við Önnu Þórunni fyrir fallegu Feed Me skálina og Sunrise bakkann, en núna er að bætast við glæsilegur spegill úr línu sem kynnt var á síðastliðnum HönnunarMars. Hann er að vísu ekki kominn enn í sölu – en þið getið séð hann betur á svartahvitu snappinu síðan í dag ♡

Eigið góða helgi!

FYRSTU TÍU ♡

Persónulegt

Það eru núna komnar 3 vikur frá því að ég birti þessa mynd á Instagram með textanum “Fyrstu -10 kg eru rétt handan við hornið” en það var þó ekki fyrr en í gær í fimmtu mælingunni minni sem 10 kílóa múrinn var rofinn og reyndar gott betur en það. Síðan í janúar þá hef ég verið í fjarþjálfun hjá draumaþjálfurunum hjá Fitsuccess.is þeim Alexöndru, Ingibjörgu og Katrínu Evu og í gær var enn ein mælingin ásamt myndatöku (sem ég geri sjálf) og loksins loksins komst ég yfir 10 kílóa múrinn ásamt meiru. Ég er ekki frá því að ég eigi skilið eitthvað fallegt í verðlaun ♡ Það sem ég er þakklát fyrir að hafa þessar 3 stelpur í dag í mínu lífi þrátt fyrir að hafa bara hitt eina þeirra, en ég er ein af þeim sem hef prófað allt – já ég sagði allt en ekkert hefur haft eins mikil áhrif á mig eins og þessi þjálfun. Það sem ég fæ hjá þeim er góð hvatning og andlegur stuðningur því það er gífurlega mikilvægur partur af þessu ferli. Ásamt því að ég læri að borða rétt bæði með sérsniðnu matarplani frá þeim ásamt risa gagnagrunni sem ég fæ aðgang að sem er fullur af fræðslu og matarhugmyndum. Ég finn einnig að þær hafa innilegan áhuga á því að ég nái árangri og jafnvel þó ég sé ekki að standa mig 100% suma daga þá koma ekkert nema jákvæð skilaboð sem hvetja áfram. Það er ekki hægt að biðja um meira – jú svo að sjálfsögðu árangurinn.

Ég er að þessu fyrst og fremst fyrir mig sjálfa og finnst mikilvægt að njóta þess, ætla því ekki að setja neina óþarfa pressu á mig með myndbirtingum. Ein besta hvatningin í þessu öllu er að á 4 vikna fresti þarf ég að senda inn myndir af mér á nærfötunum og eins erfið og fyrsta myndatakan var – guð ég ætlaði aldrei að fást til þess að ýta á send ég skammaðist mín svo. Þá er svo gaman að geta horft tilbaka og sjá hversu langt þú ert komin þrátt fyrir að líða ekkert endilega þannig þá stundina. Ég ætla ekki að opinbera hvaða markmið ég er með í þjálfuninni en ég get sagt ykkur það að ég á nóg til eftir. Það er líka enginn eins og því ekki gott að miða sig við aðra. Það er mikilvægt að líða vel í eigin skinni, ég viðurkenni að ég er ekki á þeim stað í dag – en er hægt og rólega að mjakast þangað. Mig langar að láta fylgja með ein skilaboð frá stelpunum síðan í gær en þá hafði ég gert athugasemd um slit sem voru að angra mig en af þeim á ég nóg. Þessi skilaboð sýna svo vel svart á hvítu hvernig manneskjur þær eru, ekkert nema yndislegar. Og það að fara í gegnum svona lífstílsbreytingu þar sem hugurinn þarf að vera rétt stilltur þá er mikilvægt að umkringja sig réttu fólki.

“…manst það sem við ræddum um daginn með að vera ekki of hörð við sjálfa þig, þú ert frábær og fullkomin alveg eins og þú ert og við vinnum að settu markmiði með kærleika í huga fyrir sjálfum okkur og líkamanum, öllum örum og slitum líka, við erum nú einu sinni bara mannleg :*”.

Ég elska síðan að taka saman svona lista og þessi færsla er engin undantekning – ég er nefnilega komin með nýtt áhugamál og því þarf að sinna. Sumt á listanum á ég nú þegar, eitthvað á leið til mín með póstinum og annað situr á óskalistanum. Núna þegar sumarið er að koma og ég sé fram á fleiri bústaðarferðir þá ákvað ég að panta mér æfingardýnu til að eiga eina auka í bústaðnum. Þessa bleiku fann ég á Amazon en ásamt henni keypti ég æfingabolta – reyndar í litnum champagne og frá allt öðrum framleiðanda haha.

Handklæði: Nýlega byrjaði ég að kunna að meta heita tíma og mundi þá að ég átti þá til fallegt tyrkneskt handklæði sem tekur svo lítið pláss og er svo létt að ferðast með. Mér fannst ekki nógu skemmtilegt (lesist: smart) að taka með baðhandklæði í salinn. Mitt er að vísu ekki frá TAKK home en þær eru með tyrknesk handklæði sem eru draumur.

Skrúbbur: Ég er að nota nokkra skrúbba til skiptis og ýmsar olíur flesta daga eftir sturtu, þurrbursta, kaffiskrúbba og saltskrúbba. Ég kann ekki trixin hvernig á að vinna með húðina til að hún verði ekki laus en ég reyni mitt besta að hjálpa henni. Allar ábendingar vel þegnar.

Æfingarföt: Þegar ég byrjaði þá mætti ég í gömlum ræktarfötum sem ég átti til en mér leið aldrei vel í þeim, buxurnar rúlluðu niður, bolirnir upp og ég gat ekki hugsað mér að hlaupa því toppurinn veitti engan stuðning fyrir brjóstin. Auðvitað skipta fötin engu máli, en það skiptir máli að líða vel til að geta komið sér á æfingu. Ég veit ekki hversu oft ég keyrði á bílastæðið bara til þess að fara beint aftur heim… Ég kom mér síðan upp smá æfingargalla, ekkert mikið, bara einar buxur, tvennir bolir, íþróttatoppur og fallegustu skór í heimi (já ég elska þá). Ég ákvað að játa mig sigraða og mætti í H-verslun og lét þar eina stelpu aðstoða mig að velja föt, en buxurnar sem hún mælti með halda maganum vel og ekki fræðilegur að þær rúlli niður og toppurinn neglir brjóstin niður svo í fyrsta sinn gat ég hlaupið á brettinu án þess að brjóstin ætluðu aftur á bak. Og tala nú ekki um hvað mér finnst mikið auðveldara að mæta á æfingu í fötum sem mér líður vel í. Ég fæ oft fyrirspurnir um æfingarskóna, en þeir heita Nike zoom fearless flyknit og voru til fyrr á árinu. Ég hef mjög litla reynslu af íþróttaverslunum en fékk svo ótrúlega góða þjónustu hjá H-verslun að ég mæli því með þeim!

Þær Alexandra, Ingibjörg og Katrín Eva hjá Fitsuccess eiga öll heimsins hrós skilið því þær eru svo metnaðarfullar og klárar. Til dæmis þá vann Fitsuccess vefurinn Vefkerfi ársins titilinn sem mér finnst ansi magnað en kemur samt ekki á óvart því allt sem þær gera virðast þær gera svo rosalega vel og þessvegna finnst mér svo gaman að vera hjá þeim í þjálfun. Ég gæti skrifað endalaust en ætla að stoppa hér – ef þið viljið frekari upplýsingar þá ekki hika við að senda mér línu. En fyrir ykkur sem viljið kynna ykkur þessa fjarþjálfun betur þá finnið þið allt um Fitsuccess HÉR ásamt árangursmyndum sem er svo gaman að skoða.

Takk fyrir að lesa x

SNILLDARHÖNNUN FYRIR HJÓLREIÐAFÓLK

HönnunPersónulegt

Það verður að viðurkennast að það er algjört hjólaæði í gangi og hef ég aldeilis þurft að finna fyrir því þar sem að minn maður vill helst vera úti að hjóla í spandex öllum stundum og er genginn í hjólreiðafélag. Það er að skapast skemmtileg hjólamenning en á meðan að margir eru að eltast við racer hjól í dag þá kýs ég bara mitt gamla klassíska götuhjól með blómakörfu á. Ég hef þó í mörg ár átt í smá baráttu við sjálfa mig að þykjast alltaf gleyma hjálminum þegar ég fer út að hjóla, mér hefur nefnilega ekki þótt mjög smart að vera búin að dressa mig upp og hjóla um með blómakörfu en þurfa svo að vera með bláan sporthjálm á höfðinu! Systir mín sem starfar sem hjúkrunarfræðingur hefur jú aldeilis skammað mig fyrir svona hugsunarhátt enda er ekkert grín að vera án hjálms en vandamálið hefur verið að það er hreinlega ekki mikið úrval af hjálmum fyrir okkur hin sem erum ekki alveg tilbúin í þetta sportlúkk. Ég veit að það eru margir þarna úti sem skilja nákvæmlega hvað ég er að meina.

Ekki fyrir svo löngu síðan var hér á blogginu fastur liður þar sem ég tók fyrir flotta hönnun sem vakti athygli mína og núna finnst mér tilefni að endurvekja þann lið. Ég á nefnilega smá séns í hjóladellumanninn minn eftir að ég rakst á þessa snilld hér sem er samanbrjótanlegur hjálmur sem unnið hefur alþjóðlegu Red Dot hönnunarverðlaunin frægu og er auk þess til sölu í MoMa hönnunarsafninu í New York þar sem aðeins fæst það besta af því besta í hönnun. En ég endurtek, samanbrjótanlegur hjálmur? Fyrir utan það hvað mér hefur þótt hjálmar oft á tíðum ljótir (sportlegir) þá eru þeir rosalega fyrirferðamiklir og maðurinn sem fann þessa snilld upp á hrós skilið!

   

   

Það að hægt sé að brjóta hjálm saman án þess að minnka öryggi hans er eitt það besta sem ég hef heyrt og það er langt síðan ég rakst á hönnun sem mér þykir svona mikið vit vera í og toppurinn er að geta stungið hjálminum ofan í veski þar sem ekkert fer fyrir honum. Hjálmurinn sem um ræðir er frá spænska fyrirtækinu Closca og hefur hann raðað á sig verðlaunum bæði vegna hönnunar og öryggis.

P.s. þetta hér er dálítið stemmingin sem ég vil þegar ég hjóla, nema þessum skvísum vantar hjálm ♡

Núna verð ég að fá að heyra frá ykkur hvað ykkur finnst um þessa hönnun? Ég er kannski orðin svona smituð af hjólaáhuga fjölskyldunnar en mér þykir þetta algjör snilld og þurfti að “googla” þetta fram og tilbaka til að trúa því að svona hjálmur geti virkilega verið öruggur. Fyrir áhugasama þá fæst hjálmurinn hér heima á Hjólahjálmur.is en þessa færslu skrifa ég aðeins af einlægum áhuga. Ég veit um eina sem er einmitt á leið erlendis í stelpuhjólaferð og hún er eftir að verða jafn skotin og ég.

BÚSTAÐURINN : NOKKRAR MYNDIR

Persónulegt

Það hefur líklega ekki farið framhjá ykkur sem fylgist með að fyrir nokkru síðan kom lítill og fallegur bústaður í fjölskylduna og núna loksins er að koma ágætis mynd á hann. Það finnst varla duglegri maður en hann pabbi minn og hefur hann staðið í ströngu að gera upp bústaðinn og er hann jafnvel í huganum strax farinn að huga að stækkun, en hann er einn af þeim sem þarf aldrei að hvílast. Við hinar, ég, mamma og systir mín ætlum meira að passa upp á að það verði huggulegt hjá okkur sem það er nú aldeilis að verða. Enn er nú ýmislegt sem á eftir að týnast til, ég vona að fallegu flísarnar okkar verði lagðar næstu helgi á anddyrið og gestaskúrinn verði parketlagður og málaður sem fyrst. Við systurnar skiptum helginni á milli okkar þar sem foreldrar mínir tóku eina helgi í frí frá bústaðarvinnu og vorum við Andrés og Bjartur því ein að dúlla okkur þarna í dag. Algjör draumadagur ♡

Bústaðurinn var allur málaður með litnum Soft Sand sem við fengum í Sérefni. Það hafa verið tekin yfir 500 skjáskot af þessum lit þegar ég set hann á Svartahvitu snappið svo þessi litur verður án efa afar heitur í sumar! Það kemur reyndar alls ekki á óvart því hann er þessi fullkomni neutral litur sem passar við allt, ég þekki nokkrar sem eru að mála með þessum lit núna, svo ég mæli að minnsta kosti með að fá prufu hjá Sérefni ef þú ert að leita af mildum og fallegum lit.

Bekkinn keypti mamma í Hugmyndir og heimili en þaðan er einnig stofuborðið, þið sem hafið ekki kíkt við hjá þeim ættuð að skella því á listann ykkar. Eldhúsborðið var keypt notað og Mæðradagsplattarnir koma svo fallega út á veggnum. Mestmegnið af hlutunum í bústaðnum eru notaðir eða eitthvað sem þegar var til sem gerir litla bústaðinn svo kósý þrátt fyrir að vera ekkert endilega tilbúinn.

Pabbi málaði Ikea Lack vegghillurnar sem eru upphaflega úr unglingaherberginu mínu í sama lit og veggurinn og kemur það alveg ótrúlega vel út. Fyrst voru þær grunnaðar og svo málaðar. Reyndar voru þær einnig styttar til að passa á vegginn, en ég vil benda á að þessar hillur eru nánast holar að innan svo þær þurfa þá að mæta vegg, en þetta er góð lausn fyrir þá sem eiga nú þegar til svona hillur en vilja breyta til. Hér er þó eftir að bæta við ýmsu punti …

Parketið er algjört bjútí, það er reyndar mikið hlýrra /meira út í brúnt en það virkar á þessari mynd. Það heitir Hardy Oak harðparket og er frá Byko en þið getið nálgast allar upplýsingar + verð hér. Fallegi Sunrise bakkinn sem vinkona mín og vöruhönnuðurinn Anna Þórunn hannaði smellpassar í bústaðinn, en sætu bleiku krúsirnar fékk ég í A4 en þær eru frá Bloomingville.

Innréttinguna keyptu foreldrar mínir í Ikea en borðplatan er frá Byko. Þarna á eftir að bæta við höldu undir vaskinn en þó það sé ekki skúffa finnst ykkur ekki smá truflandi að það sé engin halda? Glerskápurinn hvíti var síðan keyptur notaður á Bland og er fullkominn undir fína bleika stellið sem sum ykkar hafið séð á snappinu.

Instagram reikningurinn minn fær að fylgja með í þetta sinn en þið finnið mig þar undir nafninu svana.svartahvitu ♡ Vonandi áttuð þið góða helgi, ég fer að minnsta kosti endurnærð inn í komandi viku en ég þurfti einmitt á því að halda! x Svana