VILTU VINNA GLÆSILEGAN IITTALA LEIMU LAMPA ?

HönnuniittalaKlassík

 

Leimu borðlampinn frá iittala hefur vakið mikla athygli frá því hann var fyrst kynntur og þykir á meðal glæsilegustu borðlampa sem til eru. Hannaður af Magnus Pettersen árið 2013 sem sótti innblástur sinn í nútímaarkitektúr þar sem gler og steypa blandast saman í fallega heild. Leimu lampinn vann jafnframt iF Gold design verðlaunin árið 2014 fyrir bestu hönnunina.

Munnblásið glerið gerir Leimu lampann einstakann og steypan gefur honum á sama tíma töff yfirbragð. Leimu lampinn er að mínu mati hinn fullkomni skrautmunur fyrir heimililið ásamt því að hann gefur frá sér fallega birtu og nýtist því ekki aðeins sem stofupunt heldur einnig sem vinnu eða náttljós.

// Í samstarfi við iittala á Íslandi ætlum við að efna til ótrúlega veglegs Instagram leiks þar sem einn heppinn vinnur Leimu lampa í vinning.  #iittalaisland

TIL AÐ TAKA ÞÁTT:

  1. Taktu mynd af uppáhalds iittala vörunni þinni – heima hjá þér, eða jafnvel í næstu verslun. – Þú ræður!
  2. Birtu myndina á Instagram merkta #iittalaisland 
  3. Passaðu vel að aðgangurinn þinn sé opinn á meðan að leiknum stendur til að við sjáum örugglega myndina þína.
  4. Krossaðu fingur og tær og Leimu draumalampinn gæti orðið þinn.

Vinningshafi verður tilkynntur föstudaginn 10. nóvember! 

#iittalaisland

Ég er orðin spennt fyrir ykkar hönd – er það ekki alveg eðlilegt ♡

Á ÓSKALISTANUM : ALVAR AALTO SKÁLAR Í RÓSAGULLI

HönnunÓskalistinn

Rósagylltu Alvar Aalto skálarnar frá iittala eiga hug minn allan þessa dagana. Fyrst þegar ég sá að þær voru væntanlegar fékk ég fiðring í magann því fallegar voru þær en á sama tíma var ég alveg róleg því ég hafði ákveðið að þær yrðu svo agalega dýrar að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa að ég myndi láta freistast. Þær eru alveg ekta borðpunt eða “centerpiece” ef svo má kalla, og ekki skemmir fyrir að svo megi bera fram salat í þeim svona fyrir spariboðin – það er jú vissulega plús að puntið hafi notagildi. Skálarnar voru kynntar fyrr í haust sem partur af nýju Alvar Aalto línunni, en í henni mátti einnig finna skálar og vasa í nýrri útgáfu sem svipa til Savoy vasanna frægu og koma með ferskan andblæ í þessa klassísku línu. Alvar Aalto og iittala kynntu þó blómalaga formið uppúr árinu 1930 sem kom mér skemmtilega á óvart. Það eru jú alveg stórar fréttir þegar nýjar vörur bætast við í dag undir nafni meistara Aalto – eða það þykir mér að minnsta kosti. Hér er nefnilega á ferð klassík framtíðarinnar.

Ég er ein af þeim sem get endalaust á mig bætt þegar kemur að heimilinu – jafnvel þegar ég er búin að lofa Andrési mínum að núna hætti ég að koma heim með fleiri hluti fyrir heimilið. Haha – og hann trúði mér…

SVART Á HVÍTU MÆLIR MEÐ: HÖNNUNARSÝNING ARTEK Í PENNANUM

HönnunKlassíkUppáhalds

Ég kíkti við í hádeginu í gær á hönnunarsýningu Artek – Art & Technology í Pennanum, Skeifunni sem opnaði fyrir nokkrum dögum síðan. Sýningin var sérstaklega áhugaverð og gaman að kynna sér nánar þetta merka finnska fyrirtæki sem var jú stofnað af engum öðrum en Alvar Aalto og Aino Aalto, arkitektum og þekktustu hjónum hönnunarsögunnar. Á sýningunni má sjá m.a. hönnun og  frumkvöðulsstarf Alvar Aalto frá fjórða áratug síðustu aldar ásamt heimsþekktri hönnun þekktra yngri hönnuða.

Ég á mér nokkra uppáhalds hluti frá Artek sem flestir eru hannaðir af Aalvar Aalto, en það vakti þó athygli mína að hollenska Hella Jongerius sem ég held mikið upp á hefur valið nokkra klassíska muni frá Artek og sett í nýjan búning, þar má nefna staflanlegu kollana og Tea Trolley (1936).

Sýningin stendur til 8. október svo það er enn tími til að líta við, það er ekki annað hægt en að gefa sér tíma og skoða þessar fáu hönnunarsýningar sem hér eru haldnar og þessi er ansi vegleg. Fyrir áhugasama þá var mér bent á að 25% afsláttur væri á öllum vörum frá Artek á meðan sýningunni stendur. Eflaust mörg ykkar sem getið nýtt ykkur það.

Ég tók saman mína uppáhalds hluti frá Artek, suma sem mig hefur dreymt um í mörg ár og aðra sem nýlega hafa ratað á óskalistann minn langa. Armstóllinn með sebraáklæðinu sem Alvar Aalto hannaði árið 1936 er draumur – sem og allir hinir hlutirnir á myndinni ♡

“Fjórar ungar hugsjónamanneskjur stofnuðu Artek í Helsinki árið 1935. Þetta voru arkitektarnir Alvar og Aino Aalto, listunnandinn Maire Gullichsen og listasagnfræðingurinn Nils-Gustav Hahl. Tilgangurinn var að selja húsgögn og stuðla að nútímalegu samfélagi með sýningum og annarri fræðslu. Þarna var markað upphaf eins óvenjulegasta og metnaðarfyllsta verkefnis sem um getur í húsgagnasögunni. Stofnendurnir hugsuðu sér Artek sem vettvang fyrir nútímalist, framleiðslu, innanhússhönnun og áróður.

Artek starfar enn í dag í róttækum anda stofnendanna, er frumkvöðull í nútímahönnun og þróun á nýjum vörum þar sem hönnun, arkitektúr og list mætast. Línan frá Artek samanstendur af húsgögnum, ljósum og smærri munum, hönnuðum af finnsku hæfileikafólki og leiðandi alþjóðlegum hönnuðum.”

Ég mæli með að kíkja við hjá þeim í Pennanum Skeifunni og skoða þessa glæsilegu sýningu. Hver veit nema ég eigi eftir að skottast þarna við og næla mér í afslátt á eins og einu púðaveri…

MÚMÍN VETRARBOLLINN 2017

Hönnun

Ég ætlaði bara rétt að kíkja hingað inn í kvöld eftir mjög langan afmælisstússdag, þið sáuð mörg frá deginum á Svartahvitu snappinu og ég er ansi þreytt en glöð eftir daginn og almáttugur hvað Bjartur er í skýjunum með daginn sinn. Ég er þó enn í smá áfalli að hafa haldið all in Spiderman afmæli en gleðin hjá einu barni að hafa fengið að velja þetta svona mikið sjálfur gerir þetta allt þess virði.

Ég stóðst þó ekki mátið að skella í eina færslu í kvöld og sýna ykkur sæta Múmín vetrarbollann sem er væntanlegur í byrjun október. Ég vel mjög vandlega núna þá bolla sem ég bæti við safnið en eruð þið að sjá hvað þessi er gordjöss? Mér finnst þessi hreinlega vera einn af þeim allra fallegustu.

Góða helgi!

FALLEGASTA SNYRTIVÖRUVERSLUNIN : NOLA

HönnunÍslensk hönnun

Ykkur gæti þótt það óvenjulegt að ég skrifi um snyrtivöruverslun en þessi fallega íslenska verslun er svo einstaklega vel hönnuð (og bleik) að ég hreinlega get ekki sleppt því að birta þessar myndir. Við erum að tala um NOLA sem er staðsett á Höfðatorgi en það voru þau Karitas og Hafsteinn hjá HAF sem hönnuðu verslunina í fyrra en þó voru þessar myndir aðeins teknar núna nýlega og eru þær alveg brakandi ferskar.

Þvílík draumaverslun og alveg er ég viss um að þessar myndir eigi eftir að flakka víða og veita mörgum innblástur. Ég fer alveg á flug þegar ég sé svona bleik og falleg rými. Enn ein fjöður í hatt HAF hjóna sem innan skamms opna sína fyrstu verslun – ég fæ að segja ykkur betur frá því sem fyrst. En þið getið byrjað að ímynda ykkur hversu falleg sú verslun verður!

Ljósmyndari: Gunnar Sverrisson 

Hversu dásamlega falleg er þessi verslun og hönnunin alveg á heimsmælikvarða ♡ Það er hún Karin Kristjana Hindborg sem á Nola og ef ykkur langar til að sjá vöruúrvalið þá mæli ég með Nola.is eða að kíkja hreinlega í heimsókn. Ef ykkur líkaði við þessa færslu megið þið gjarnan smella á like-hnappinn eða á hjartað hér að neðan. Eigið góða helgi!

ÓSKALISTINN : SEPTEMBER

HönnunÓskalistinn

Óskalistinn að þessu sinni er stuttur – þó svo að ég geti auðveldlega fyllt heila bók af hlutum sem ég hef augun á. Stundum birti ég sömu vörurnar nokkrum sinnum sem mér finnst virka sem ágætis áminning fyrir mig sjálfa, það þýðir sumsé að hluturinn er mjög ofarlega á listanum. Það á einmitt við um plakatið eftir Kristinu Krogh sem ég ætla að panta á næstu dögum ásamt því að röndótt Pappelina motta frá Kokku hef ég lengi ætlað að næla mér í. Ég keypti tvær Pappelina mottur í bústaðinn í vor og gat ekki leyft mér kaup á þeirri þriðju í sömu ferð en þessi hvíta fær pláss í eldhúsinu þegar hún verður mín.

Hinsvegar er ég orðin hrikalega spennt fyrir nýju Aalto línunni frá Iittala sem er væntanleg og þessar koparskálar eru eitthvað sem ég verð að skoða betur. Þvílík dásemd sem þær eru, ég kem til með að sýna ykkur svo alla línuna í heild sinni. Nýr Flower Pot lampi er einnig á listanum eftir að minn svarti skemmdist í tjóni, en þar sem svartur er hættur í framleiðslu hef ég ekki skipt honum út vegna valkvíða um nýjan lit – þessi úr stáli er líklegur til vinnings. Að auki verð ég að nefna fallegu Gloria geómetrísku kertastjakana frá Winston Living en ég kíkti nýlega til þeirra í heimsókn á Snapchat þar sem ég sýndi ykkur þessa stjaka. Og síðast en alls ekki síst er þessi unaðslegi kolkrabba kertastjaki frá sænsku versluninni Artilleriet, ég elska hvað hann er óvenjulegur og skrítinn og yrði svo glöð ef hann rataði heim til mín einn daginn í framtíðinni.

Er eitthvað hérna sem er einnig á þínum óskalista? Ég veit ekki hvað það er en ég elska að setja saman svona lista og láta mig dreyma…

KRISTINA KROGH ♡

Hönnun

Enn á ný dreymir mig um verk eftir hina hæfileikaríku dönsku Kristinu Krogh sem ég hef nokkrum sinnum áður fjallað um. Það hefur verið gaman að fylgjast með henni þróa sinn stíl í gegnum árin og eru nýjustu verkin hennar þónokkuð ólík þeim fyrstu sem komu út en eiga það þó sameiginlegt að fókusinn er á ólíkar áferðir og efni og alveg jafn hrikalega flott. Ég hef verið með augun á röndótta svart hvíta plakatinu síðan í byrjun sumar og núna er sveimér þá kominn tími til að panta mér eintak. Ég mæli með að skoða allt úrvalið hennar á kkrogh.dk

  

Myndir: Kristina Krogh

Það sem ég er hrifnust af er áferðin á plakötunum sem hvert og eitt er prentað á gífurlega vandaðann pappír, flest þeirra eru prentuð með ‘giclée’ sem er nokkurskonar alþjóðlega viðurkennd listaverkaprentun sem notuð er m.a. af söfnum. Ásamt því má sjá Kristinu notast við sérstakan speglapappír og gullfólíur í hönnun sinni. Ég hef fylgst með Kristinu Krogh í nokkur ár núna og tók einnig viðtal við hana fyrir H&H árið 2013 áður en að nokkur íslensk verslun hóf að selja hennar verk og hef síðan þá verið dyggur aðdáandi enda er ekki erfitt að verða skotin í svona hæfileikaríkum hönnuði.

HAUST & VETUR FRÁ FERM LIVING

Hönnun

Núna flæða inn fallegar haustvörur í verslanir landsins, ég veit ekki með ykkur en þetta er minn uppáhaldstími á árinu. Innhólfið mitt hefur þó ekki aðeins verið að fyllast af fréttum af nýjum haustlínum heldur einnig af væntanlegum jólavörum sem ég er ekki alveg tilbúin í að skoða. Byrjum á haustinu takk! Það verður ekki bara einstaklega gott heldur líka sérstaklega fallegt ef marka má myndirnar sem danska Ferm Living sendi frá sér í gær.

  

Bleiki liturinn heldur áfram að vera áberandi sem gleður mig ó svo mikið, en litirnir eru einnig að verða dekkri – vínrauður og dökkgrænn á veggi gæti ekki verið haustlegra. Ég er mjög hrifin af nokkrum vörum sem eru væntanlegar innan skamms frá Ferm Living en spenntust er ég fyrir kertastjakanum hér að neðan sem vinkona mín Hanna Dís Whitehead hannaði í samstarfi við þau. Algjör bjútí og ekki skemmir fyrir að bæta við safnið nýrri íslenskri hönnun! Íslensk hönnun er jú best í heimi ♡

FRÉTTIR: NÝR & SÆTUR MÚMÍNBOLLI

Hönnun

Núna gleðjast Múmínbollasafnarar landsins því nýr bolli er væntanlegur og hann er ansi fallegur. Það er orðið dálítið langt síðan að ég bætti við múmínbolla í safnið mitt en þessi fallegi bolli er væntanlegur núna í september í takmörkuðu upplagi og ég get vel hugsað mér að næla mér í eintak. Það er dálítið haust í honum að mínu mati, skreyttur fallegri teikningu Tove Jansson af Múmínfjölskyldunni sitjandi við kertaljós. Núna er stóra spurningin, hversu margir bollar eru í þínu safni?:)

Það er svo mikið haust í loftinu að ég er alveg tilbúin til þess að kveðja sumarið og tek glöð á móti komandi kósýkvöldum – helst með heitt te í fallegum múmínbolla ♡

HAUST & VETUR HJÁ MARIMEKKO ’17

Fyrir heimiliðHönnunKlassík

Marimekko er eitt helsta finnska hönnunarmerkið og er það þekktast fyrir einstök mynstur og mikla litadýrð. Ég heillaðist alveg af þessum myndum sem teknar voru í húsi hönnuðu af Alvar Aalto sjálfum (Villa Mairea) og eru af haust og vetrarlínu Marimekko, umhverfið er glæsilegt og svo er eitthvað við þessi fjölbreyttu mynstur sem draga mig að. Ég hef verið að safna mögulega minnst litríkustu línunni þeirra Siirtolapuutarha – já hún heitir þetta í alvöru. Svartar doppur á hvítum bakgrunni en þó er margt annað frá Marimekko sem ég er hrifin af og gæti hugsað mér að eignast. Fyrirtækið var stofnað árið 1951 og er í dag stolt finnskrar hönnunar ásamt iittala. Algjör klassík og mikil mynstur hafa verið að ryðja sér til rúms undanfarið og gefa heimilum mikinn sjarma. Það hefur líklega verið erfitt að mynda öll þessi mynstur saman á einu og sama heimilinu en einhverja hluta vegna þá gengur það alveg upp hér og útkoman er stórkostleg.

Þessar myndir eru alveg dásamlegar,

Hér að neðan má einmitt sjá fallegu Siirtolapuutarha línuna sem ég heillast svo af.

Þvílík mynstur og litadýrð! Ég er alveg heilluð og eigum við að ræða þessa púða á myndinni hér að ofan.