fbpx

RAKEL & ANDRI TÓKU BAÐHERBERGIÐ Í GEGN! FYRIR & EFTIR MYNDIR

Baðherbergi

Ein af mínum uppáhalds vinkonum og ein mesta smekkkona sem ég þekki er Rakel mín sem þið kannist kannski einhver við frá upphafi bloggsins eða hafið jafnvel séð á Instagram þar sem hún deilir stundum myndum frá sínu fallega heimili … eða kannski séð myndir frá mér þegar ég kíki í heimsókn og stelst að smella af myndum ♡ Hún býr ásamt Andra sínum og þremur börnum þeirra í Hafnarfirðinum þar sem þau hafa verið að gera upp heimilið sitt síðastliðin ár. Þau hafa tekið framkvæmdirnar í skrefum og núna er loksins kominn tími til að sýna ykkur fyrir & eftir myndir af baðherberginu þeirra sem er hið glæsilegasta!

En byrjum á að skoða myndir af baðherberginu fyrir framkvæmdir sem eru dálítið skemmtilegar! 

Rakel var ekki aaalveg nógu heilluð af bláa litnum á klósettinu og baðinu sem setti heldur betur mikinn svip á baðherbergið. 

Segðu okkur aðeins frá framkvæmdunum? Það eru nú komin tvö ár síðan við kláruðum þessar framkvæmdir en við tókum í gegn aðal baðherbergið í húsinu sem var upprunalegt frá árinu 1983. Það var afar skrautlegt með bláu klósetti, vaski og baðkari og vakti mikla lukku hjá fólki.

Fenguð þið fagfólk í verkið eða gerðuð þið mikið sjálf? Við fengum fagfólk í alla uppbyggingu. Þetta er annað baðherbergið í húsinu sem við tökum í gegn og af fyrri reynslu vildum við fá eitt fyrirtæki sem sæi um allt frá a-ö í verkið í stað þess að vera að tengja saman marga iðnaðarmenn. Við fengum Handverk ehf. í verkið og getum heilshugar mælt með þeim.

Og þá er komið að nýja og stóóóórglæsilega baðherberginu! *trommusláttur

….. 

Hver hannaði baðherbergið? Dóra Björk hjá Dvelja hönnunarhús teiknaði það upp.

Hvaðan eru innréttingarnar, flísar og tæki? Innréttingin er frá Svansverk, flísarnar frá Harðviðarvali, blöndunartækin frá Lusso og borðplatan og vaskurinn frá Granítsmiðjunni. Spegillinn og sturtuglerið er frá Íspan. Ljósin eru frá Lýsingu og hönnun og Lúmex.

Þegar þú lítur til baka, er eitthvað sem þið hefðuð viljað gera öðruvísi? Nei ég hugsa ekki, enda var ég búin að hugsa þessar framkvæmdir í 100 hringi, láta teikna upp allar mögulegar útfærslur og skoða allar verslanir bæjarins. Þetta baðherbergi er óvanalegt í laginu því það er svo kassalaga svo hugmyndir sem ég var kannski með í upphafi gengu ekki upp. En við erum hæstánægð með útkomuna.

VÁ VÁ VÁ 

Ég elska þessar myndir og hvað baðherbergið er ótrúlega vel heppnað og glæsilegt. Mig dreymir sjálfri um að gera upp okkar baðherbergi og þessi sérsmíðaði vaskur frá Granítsmiðjunni er kominn beina leið á minn óskalista.

Ég mæli svo með að fylgjast áfram með þar sem næst munum við fá að sjá fyrir og eftir myndir frá Rakel og Andra af eldhúsinu þeirra sem er algjör draumur í dós!

Fyrir áhugasama þá er einnig hægt að fylgjast með Rakel á Instagram @rakelrunars

NÝTT & FALLEGT FRÁ IITTALA - DRAUMAVASI OG GULLFALLEGIR KERTASTJAKAR

Skrifa Innlegg