145 FERMETRAR AF SMARTHEITUM

Heimili

Föstudagsinnlitið er sérstaklega fallegt í dag – smekklegt heimili í Kaupmannahöfn. Stíllinn á heimilinu er nokkurskonar blanda af skandinavískum og bóhemískum stíl með kvenlegum blæ, fjölskyldan hafði flutt tuttugu sinnum áður en þau fluttu til Danmörku, með stoppi í Marokkó og eru hlutirnir því úr mörgum áttum en á sama tíma er stíllinn minimalískur vegna tíðra flutninga þeirra. Þegar þetta er skrifað hefur fjölskyldan reyndar flutt aftur til L.A. en mikið er ég glöð að Elle Decoration hafi nælt í þetta innlit áður. Kíkjum í heimsókn!

Myndir via Elle Decoration

Smáhlutirnir eru svo mikilvægir og gefa heimilinu persónulegan sjarma og sögu, sjá t.d. á neðstu myndinni sem mér sýnist vera tekin yfir baðið allir litlu hlutirnir sem gera svo mikið fyrir stemminguna.

Ég er annars stödd í Berlín yfir helgina – ég vona að ykkar helgi verði frábær!

ÞVÍLÍKUR DRAUMUR

EldhúsHeimili

Þvílíkur draumur sem þetta heimili er. Útsýnið úr stofunni inn í eldhús er eitthvað sem ég get alveg gleymt mér yfir og velti fyrir mér hverju smáatriði, fyrst eru það frönsku millihurðarnar sem heilla mig alltaf svo og eldhúsið, ó þetta fagra eldhús er nú eitthvað til að ræða betur. Marmari á borðum og vel hannaðar og glæsilegar innréttingar, ég er alveg sannfærð um að þið eigið nokkur eftir að fá mikinn innblástur frá þessu eldhúsi. Tom Dixon koparljósið trónir svo eins og skartgripur yfir borðstofuborðinu og setur mikinn svip á heimilið.

Fallegi Gloria kertastjakinn (fæst í Winston Living) skreytir eldhúsið ásamt flottum veggspjöldum.

Hér dugar ekkert minna en gylltur vaskur og blöndunartæki ásamt Tom Dixon uppþvottalegi.

Einfaldur Besta skápur frá Ikea er klassískur undir sjónvarpið, virðist virka hvar sem er.

Þessar frönsku hurðar og vegglistar eru algjör draumur.

Gólfsíðar gardínur eru alltaf svo elegant.

Myndir via Bjurfors fasteignasala

Draumur ekki satt? Fyrir enn meiri innblástur þá mæli ég með að kíkja yfir á Svartahvitu snappið þar sem ég kíkti óvænt í heimsókn í eina gullfallega verslun ♡ Efnið er aðgengilegt þangað til 16:00 þann 16.11.

DIMMT EN KÓSÝ

Heimili

Dálítið eins og veðrið út, dimmt en kósý. Dökkmáluð heimili njóta vinsælda um þessar mundir og það hefur færst í aukana að sjá dökkt þema sem nær þá yfir öll rými heimilisins en ekki bara t.d. svefnherbergi (eins og í mínu tilfelli…) Hér er stofan í fallegum ljósgráum lit, borðstofan í dökk grágrænum lit og eldhúsið brúnrautt og svart. Upplifunin verður allt önnur en væri hér allt hvítmálað, það verður allt dálítið meira elegant dökkmálað og síðan er sérstaklega smart þegar húsgögnin eru einnig valin út frá sömu litapallettu. Kannski ekki fyrir alla, en fallegt er það!

Myndir via Bolig Magasinet / Bjarni B. Jacobsen

Ég stefni svo á innlit í fallega verslun á Snapchat í vikunni – fylgist með.

MINIMALÍSKT Í BERLÍN

Heimili

Þetta innlit er dálítið í anda þess sem ég sýndi ykkur í gær, stórfengleg smáatriði skreyta loftin nema í þetta sinn er innbúið líka dálítið spennandi. Ég rakst á þetta heimili hjá bloggaranum Niki hjá Scandinavian home, sú smekkdama sem ég fæ aldrei nóg af innblæstri frá. Þetta er heimili Selinu Lauck, innanhússstílista sem búsett er í Berlín ásamt fjölskyldu sinni. Stíllinn er minimalískur og með afslöppuðu yfirbragði sem er dálítið skemmtilegt á móti þessum íburðarmiklu loftskreytingum sem ég heillast alltaf svo mikið af.

Myndir : Selina Lauck

Fyrir áhugasama þá kíkti ég í innlit á spennandi lagersölu í dag og er með nokkrar heimsóknir bókaðar á næstunni ♡ Þið finnið mig undir svartahvitu á Snapchat og @svana.svartahvitu á Instagram.

STÓRFENGLEG SMÁATRIÐIN

Heimili

Ég má til með að deila myndum af þessi stórfenglega heimili – eða að minnsta kosti smáatriðunum. Húsið lítur út að utan eins og hver önnur bygging sem finna má í hjarta Gautaborgar, byggt árið 1878 og er um 180 fm. Einstök upprunaleg gólfefni, listar og skreytingar í hverju horni sem vel hefur verið haldið við. Hér gæti ég hugsað mér að búa…

Myndir via Entrance Makleri

Fyrir ykkur sem viljið sjá heimilið í heild sinni smellið þá hér. Ég er heilluð af þessum fallegu smáatriðum og allt í einu eru litlu rósetturnar á mínu heimili ekki alveg jafn spennandi. Að ímynda sér að búa svona!

SÆNSK & SJARMERANDI

BarnaherbergiHeimili

Það er eitthvað við þessu sænsku heimili sem heillar mig alltaf, þá sérstaklega skrautlistarnir sem skreyta loft og veggi og gera heimilin ó svo sjarmerandi. Hér er á ferð einstaklega glæsilegt heimili sem þið eruð eftir að elska jafn mikið og ég. Stíllinn er fágaður og falleg smáatriði í hverju horni.

Myndir via Entrance

Barnaherbergið er sérstaklega fallegt og bleika hurðin vekur að sjálfsögðu athygli mína, alltof sjaldséð sjón að hurðar séu málaðar. Þegar að því kemur að við kaupum okkar fyrstu íbúð þá mætti hún alveg vera eins og þessi hér að ofan.

SUNNUDAGSINNLIT : DRAUMAHEIMILI Í GAUTABORG

Heimili

Sunnudagsinnlitið er ekki af verri endanum að þessu sinni, draumaheimili í Gautaborg uppfullt af fallegri hönnun og góðum hugmyndum. Eldhúsið er sérstaklega fallegt, opið og stílhreint með marmara sem nær upp á vegg og ljósgráar innréttingar, takið einnig eftir hvað gardínurnar gera mikið og þá sérstaklega í eldhúsinu sem er nokkuð óvenjuleg sjón. Ef það væri eitthvað eitt sem ég mætti óska mér fyrir mitt heimili þá væru það gólfsíðar gardínur í stofu og svefnherbergi – sjáið bara hvað þetta er fallegt.

Myndir via Alvhem 

BLEIKUR DAGUR ♡

HeimiliPersónulegt

Bleiki dagurinn getur ekki verið annað en einn af mínum uppáhalds dögum. Bleiki dagurinn er vissulega gerður til þess að vekja athygli á bleiku slaufunni og baráttunni gegn krabbameini hjá konum og ótrúlegt að sjá hvað margir taka þátt í að vekja athygli á þessu fallega og góða málefni. Ég skellti mér í kimono skreyttum bleikum blómum og með bleikan trefil en gleymdi þó varalitnum og naglalakki sem var á planinu en það mætti þó segja að það sé bleiki dagurinn alla daga ársins á mínu heimili. Ég elska jú bleikann eins og þið mörg vitið nú þegar – ég deili því bleikum heimilismyndum í tilefni dagsins.

Ég er alltaf mikið spurð út í sófaborðið mitt, en það er úr Svartan línunni frá Ikea sem kom í takmörkuðu upplagi, sófinn Söderhamn er einnig frá Ikea og toppaði ást mína á bleikum.

Ég er fyrst núna að sjá hvað Finnsdóttir vasinn er skakkur í hillunni haha.. Hillan er hinsvegar Besta frá Ikea og ég sleppti að setja á hurð. Við skulum kalla þetta verkefni í vinnslu. Þessi gullfallegi spegill er eftir vinkonu mína Auði Gná sem hannar undir nafninu Further North – hægt að kaupa spegilinn hér. 

Blóm í vasa gera svo mikið fyrir heimilið, þessi komu með mér heim eftir heimsókn til ömmu í gær sem fagnaði 80 ára afmæli og þurfti að losna við nokkra blómvendi ♡

Þessi fallegu silkiblóm fékk ég nýlega í Byko og mér finnst þau æðisleg, ég er nefnilega að reyna að minnka óþarfa eyðslu og ég var farin að leyfa mér ansi oft blómvendi. Þessi uppfylla að miklu leyti þörf mína fyrir að hafa falleg blóm í vösunum mínum:)

Þið skiljið bara eftir línu ef það er eitthvað annað sem ykkur langar til að vita.

GLÆSILEG HÖNNUNARÍBÚÐ Í KJARRHÓLMA

HeimiliÍslensk hönnun

Ég elska að skoða íslensk heimili og skoða fasteignasölur nánast eingöngu í þeim tilgangi að finna góðar hugmyndir þar sem ég hef ekki beint verið í kauphugleiðingum undanfarin ár. Þessa íbúð sendi hún Elísabet mín Gunnars þar sem hún deilir með mér áhuga um falleg íslensk heimili. Ég áttaði mig þó ekki alveg strax á því að íbúðin er staðsett í sömu blokk og systir mín bjó í nokkur ár og er sömu stærðar að auki, nema það að þessi er gjörólík vegna skemmtilegra lausna og opnara rými. Ég hef séð margar íbúðir í þessari blokk og eiga þær ekki roð í þessa hér að neðan sem er virkilega falleg og búið að draga það besta fram í henni með því að brjóta niður vegg á milli eldhúss og stofu en þannig eru íbúðirnar að minnsta kosti upphaflega teiknaðar og sjónsteypan á gólfum spilar einnig stórt hlutverk. Það er sérstaklega gaman að deila þessum myndum þar sem blokkin í Kjarrhólma sem um ræðir er gífurlega stór og því fjölmargir íbúar hennar sem geta tengt við þessar breytingar og fengið góðar hugmyndir í leiðinni.

Fyrir áhugasama þá má finna frekari upplýsingar um þetta fallega heimili hér.

Algjört draumaheimili og útsýnið er ekki af verri endanum alla leið út að Esju. Miðað við breytingarnar sem þessi íbúð hefur gengið í gegnum get ég ímyndað mér að hún hafi ekkert verið alltof heillandi í upphafi en stundum þarf bara smá hugmyndaflug til að sjá möguleikana og mikið sem ég held að það sé gaman að fá að taka í gegn sitt eigið heimili og gera að sínu.

INNLIT: BLÁTT & BJÚTÍFÚL

Heimili

Má bjóða ykkur að sjá einstakt heimili þar sem bláir litir ráða ríkjum. Takið einnig eftir hvernig glugga og hurðakarmar hafa verið málaðir í sama fallega lit og veggirnir sem kemur svona sérstaklega vel út. Það þarf að vera ansi djarfur til að leggja í að mála allt heimilið í svona sterkum lit en hér er útkoman stórkostlega falleg!

Myndir : Vosges Paris