fbpx

BIRTA HLÍN GERIR ÞAÐ GOTT Í DANMÖRKU

VIÐTÖL

Það var ekkert smá gaman að fá að taka viðtal við hana Birtu Hlín sem er hreint út sagt snillingur í því sem hún er að gera. Eftir að ég byrjaði að fylgja henni fyrir ekki svo löngu þá hefur mig í fyrsta lagi langað að flytja til Danmerkur, kaupa mér kött … eða ræna hennar & byrja að versla meira second hand. Ég mæli hiklaust með að fylgjast með henni á öllum ólíkum miðlum. En áður en þú gerir það þá skulum við kynnast henni betur …

Við hvað starfar þú? Ertu búin að mennta þig í einhverju ef svo er þá hverju og er það að nýtast þér í þínu starfi? 

Ég hóf nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík árið 2019 og flutti til Danmerkur ári seinna til að fara í skiptinám við CBS, viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Ég gjörsamlega féll fyrir borginni og langaði að búa hér áfram. Ég athugaði möguleikann á að skipta um skóla til að geta búið áfram í Köben en það var því miður ekki hægt og því ákvað ég að setja námið á smá pásu. Í mars 2021 hóf ég störf sem „influencer manager“ á markaðsskrifstofu hér í Köben og vann þar í heilt ár þangað til ég ákvað að segja upp störfum til að fara á fullt með samfélagsmiðlana mína. Á þeim tíma var ég búin að byggja upp góðan fylgjendahóp á Instagram og TikTok sem gaf mér þann möguleika að lifa á tekjunum sem mynduðust þar.

            Ég tel að viðskiptafræðin passi ágætlega við áhugasvið mitt en ég hef klárlega lært töluvert meira um stafræna markaðssetningu við að vinna á markaðsskrifstofu og að starfa sem áhrifavaldur. Auðvitað nýtist námið að hluta til en þar sem stafræn markaðssetning breytist ört, þá tel ég mun verðmætara að vera „hands on“ á samfélagsmiðlum og öðlast reynslu við að nota þá á vinnumarkaði. Ef ég þyrfti að velja nám í dag, þá myndi ég líklegast velja eitthvað nám sem býður upp á meiri sköpun í bland við viðskiptafræðina og þar sem starfsnám er einnig partur af náminu.

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér? 

Það er enginn dagur alveg eins hjá mér en venjuleg vinnuviku samanstendur af mismunandi verkefnum. Stærsti hluti starfsins míns er „content creation“ þar sem ég tek upp myndbönd og myndir, vinn efnið og birti það síðan á samfélagsmiðlunum mína. Ég er með frjálsar hendur þegar kemur að búa til efni fyrir miðlana mína en svo inn á milli geri ég kostuð samstörf þar sem ég auglýsi vörur fyrirtækja.

Áður en ég fer í það að taka upp efnið, þá er yfirleitt svolítil vinna sem liggur að baki. Ég þarf að skipuleggja verkefnin, hvernig ég vil útfæra þau og allar pælingarnar sem því fylgja. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með hvað er að gerast á miðlunum og hvað er „heitt“ hverju sinni. Það er gott að notast við innblástur en ég tel afar mikilvægt að útfæra efnið á sinn hátt og í samræmi við sinn stíl.

Það fylgja þessu auðvitað líka verkefni á borð við email samskipti við fyrirtæki og bókhald. Það fer mikill tími í að svara emailum varðandi samstörf t.d. komast að samkomulagi varðandi myndefni, greiðslu o.fl. Af og til er mér boðið á viðburði hjá fyrirtækjum, þar sem oft á tíðum er verið að kynna nýjungar. Á þessum viðburðum fæ ég tækifæri til að kynnast fólki í sama bransa og það finnst mér afar skemmtilegt. Það fylgir mikið frelsi með vinnunni minni og ég get unnið hvenær og hvar sem er. Það geta komið upp alls konar hlutir sem gera hvern dag eða viku einstaka, en það er það sem ég nýt mest við að vera sjálfstætt starfandi.

Hvað gerirðu eftir vinnu? 

Ég á satt að segja pínu erfitt með að svara þessari spurningu þar sem línan milli vinnu og frítíma getur oft á tímum verið óskýr. Það getur verið krefjandi að vera sjálfstætt starfandi í þessum geira og vita hvenær maður á að taka sér frí frá vinnu. Ég gæti ákveðið einhvern ákveðinn tíma sem ég hætti að vinna en þar sem velgengni rekstursins er undir mér komið, þá getur maður dottið í það að vera að vinna lengi og mikið. Ég tek t.d. oft upp TikTok myndbönd á kvöldin þegar ég og unnusti minn erum að elda og ég nýti oft kvöldstundir að klippa myndbönd og pósta efni á miðlana mína.

Ég er þvílíkt heppin því unnusti minn hefur mikinn áhuga á þessu líka. Hann styður mig í öllu og hjálpar mér mikið að taka upp efni og pælingarnar sem fylgja því. Þegar við erum að taka upp þá líður okkur ekki beint eins og við séum í vinnunni þar sem okkur þykir þetta bæði spennandi og skemmtilegt. Það er alls engin kvöð fyrir mig þegar ég „þarf“ að vinna á kvöldin og um helgar. Ég elska vinnuna mína og gæti ekki verið þakklátari að starfa við þetta. Það er þó mikilvægt að passa að vinna ekki yfir sig og kunna taka sér frí. Þegar ég er ekki að vinna þá finnst mér yndislegt að vera umkringd uppáhalds fólkinu mínu, borða góðan mat, rölta um göturnar í Köben og FaceTime-a fjölskylduna mína heima á Íslandi.

Hvað kemur þér í gott skap? 

Það er margt sem kemur mér í gott skap. Ég elska fátt meira heldur en sólríkan dag í Köben þar sem ég hitti vini, hjóla um, nýt sólarinnar og borða góðan mat. Aftur á móti er ég einnig mikil kósý kona og finnst voða notalegt að leggjast uppí sófa með góða bíómynd og nammi.

Hvað er það allra leiðinlegasta sem þú gerir? 

Ég held að email samskipti og bókhald sé það sem mér líkar síst við vinnuna mína. Oft dragast samskipti í gegnum email á langinn og það getur verið pínu þreytandi. Bókhald er einnig eitthvað sem mér finnst ekkert sérlega skemmtilegt þótt ég hafi tekið þónokkra bókfærslu áfanga, bæði í Verzló og háskóla. Það er margt sem þarf að hugsa um þegar maður er sjálfstætt starfandi s.s. virðissaukaskattur, skattar, reikningar o.fl. Oft á tíðum eru upplýsingarnar ekkert auðfundnar en ég er heppin að unnusti minn er klár í þessum hlutum og hann hjálpar mér mikið með þetta allt saman.

Hvar sækirðu innblástur?

Ég sæki innblástur á mörgum mismunandi stöðum, hvort sem það er að skrolla á TikTok og fá innblástur fyrir mitt næsta myndband eða skrolla á Pinterest til að fá hugmyndir í hverju ég gæti klæðst um áramótin. Það er líka nóg að ganga um götur hér í Köben og fylgjast með hverju fólk klæðist, ég dýrka tískuna hér og ég fæ oft margar hugmyndir frá fólki út á götu.

Ef það er einhver þarna úti sem vill vinna við eða mennta sig í því sama, ertu með einhver skilaboð?

Fyrst og fremst, trúa á sjálfan þig og láta skoðanir annarra ekki hafa áhrif á þig. Ég tel einnig mikilvægt að vera þú sjálfur og leyfa persónuleikanum að skína í gegn, leyfa fólki að kynnast þér og sýna ófullkomnu útgáfuna af lífi þínu. Ég áttaði mig sjálf á því, hvers vegna mér þótti skemmtilegt að fylgja ákveðnum stelpum á samfélagsmiðlum og ástæðan var alltaf sú sama, vegna þess að mér fannst þetta vera vinkonur mínar og mér fannst ég þekkja þær svo vel.

Ef þú hefur áhuga á að feta þig áfram á samfélagsmiðlum þá þarftu í rauninni bara að hoppa í djúpu laugina og vera óhrædd/ur að búa til efni og deila því með heiminum. Það eru alls kyns leiðir til að byrja að byggja upp fylgjendhóp en það sem ég mæli með að gera er að vera persónulegur, pósta meira heldur en minna, sýna núverandi fylgjendum athygli, láta fullkomnunaráráttuna ekki flækjast fyrir og síðast en ekki sýst, ekki gefast upp!

Þið getið fylgst betur með Birtu hér:
Instagram: hér.
Tiktok: hér.
YouTube: hér.

Takk kærlega fyrir spjallið elsku Birta❣️

ArnaPetra (undirskrift)

LÍFIÐ SEM STÍLISTI/ÚTSTILLINGAHÖNNUÐUR OG BLAÐAMAÐUR

Skrifa Innlegg