fbpx

LÆRÐI Í FRAKKLANDI & HEFUR NÚ OPNAÐ VÍNBAR Á AKUREYRI

VIÐTÖL
Guðbjörg Einarsdóttir er uppalin á Akureyri og elti drauminn sinn til Frakklands, opnaði síðan vínbar og bistro með kærastanum sínum hér á Íslandi. ELSKA fólk sem hendir sér í djúpu laugina, upplifir ævintýri & eltir nákvæmlega það sem þeim langar að gera. Hún er gott dæmi um það.
Kynnumst Guðbjörgu betur …
Við hvað starfar þú? 
Ég hef unnið við allskonar störf á mínum 27 árum en það sem ég geri í dag er að ég er í sjálfstæðum rekstri með kærastanum mínum Einari Hannessyni þar sem við stofnuðum og opnuðum í apríl Eyju vínstofu & bistro í miðbæ Akureyrar. Okkur fannst vanta huggulegan vínbar á Akureyri þar sem maður gæti sest niður í fallegu og notalegu umhverfi, fengið sér gott vín og gourmet mat. Draumahúsið Hafnarstræti 90 fór á sölu vorið 2021 og þá fór boltinn að rúlla.
 

Finnst þér þín menntun hafa nýst þér í því sem þú ert að gera í dag?

Að opna veitingarstað er klárlega það mest krefjandi sem ég hef tekið mér fyrir hendur þrátt fyrir að hafa rekið gistiheimili 19 og 20 ára gömul. Ég kláraði BA í frönsku frá Háskóla Íslands og Université Lumière Lyon 2 í júní 2020 og byrjaði í MA námi í alþjóðasamskiptum haustið eftir sem ég kláraði í október 2022 🧑🏻‍🎓 Ég stundaði námsannir bæði í Lyon og París í Frakklandi og þær dvalir hafa leyft mér að kynnast franskri menningu enn betur og það var einmitt þar sem áhugi minn á vínum og vínbörum kviknaði🍷 BA gráðan í frönsku hefur klárlega hjálpað mér á vínbarnum þar sem ég þarf að lesa efni á frönsku tengt vínum og þess háttar. Einnig hefur það nýst mér við að tala við franska ferðamenn og starfsmenn sem koma til okkar. Ég hef einnig trú á að BA námið muni nýtast mér vel þegar ég fer að búa til frönsk viðskiptatengsl í framtíðinni.

MA gráðan í alþjóðarsamskiptum hefur hjálpað mér ómeðvitað á marga vegu, sérstaklega í tengslum við enskuna þar sem að allt námið var kennt á akademískri ensku sem ég var ekkert sérstaklega sterk í áður en ég byrjaði. Ég byrjaði í náminu í COVID-19 þannig allt fór fram á netinu sem var mjög krefjandi. Ég þurfti einhvern vegin að þróa með mér aga sem var erfitt vegna alls áreitisins sem kemur frá tölvunni og símanum. Sá agi hefur hjálpað mér mikið í allri tölvuvinnunni tengt fyrirtækinu í dag. Þrátt fyrir að ég er búin að mennta mig ágætlega þá var held ég ekkert sem hefði getað undirbúið mig fyrir það að stofna og reka fyrirtæki í veitingarekstri. Það er einn mesti skóli sem ég hef upplifað án þess að lasta menntastofnunum. Reynslan sem ég hef öðlast er afar dýrmæt þrátt fyrir að hver mistök geta verið dýr. Ég held að mistökin sem að ég og Einar höfum gert í veitingarekstrinum hafa gefið okkur þá þekkingu og reynslu sem við búum að í dag, vegna þess að þá gerum þau ekki aftur og verðum ennþá betri í að tækla allskonar mál sem koma uppEinnig hafa ráð og leiðsögn frá vinum okkar sem eru reynsluboltar í veitingargeiranum verið ómetanleg í rekstri fyrirtækisins síðustu mánuði. Þetta eru afar mikilvæg ráð sem ég mun búa að í framtíðinni. Tengslanetið sem ég og Einar höfum búið til á stuttum tíma með því að hafa byrjað þennan rekstur er orðið stórt og mun 100% nýtast okkur í þeim verkefnum sem við munum framkvæma seinna meir. Ég er búin að kynnast svo mikið af allskonar frábæru fólki sem ég hefði annars aldrei kynnst 🖤

Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?

Vinnudagarnir hjá mér eru aldrei eins. Þar sem ég er í nýjum sjálfstæðum rekstri gerir maður flesta hluti sem hægt er að gera sjálfur. Það er allt frá því að ryksuga og skúra, sjá um markaðssetningu, sitja fundi, panta inn vörur, ráðast í framkvæmdir á fasteigninni, þróa og búa til mat- og vínseðla, vinna og þjóna á staðnum, sjá um starfsmannamál o.s.frv. Þegar fyrirtækið stækkar og þróast þá fær maður meira svigrúm til þess að ráða inn fólk í allskonar verkefni. Þessi vinna er mjög skemmtileg en auðvitað krefjandi á köflum ⚡️

Hvað gerirðu eftir vinnu? 
Eftir vinnu finnst mér gott að hitta vini og fjölskyldu til þess að kúpla mig út frá öllu áreiti og stressi. Þá er maður einhvern vegin í núinu og fær orku og hvatningu. Ég er ótrúlega heppin með vini og vinkonur sem styðja mig í einu og öllu og eru alltaf til staðar þegar þörf er á. Mamma og pabbi eiga líka fallegt heimili inn í Eyjafjarðarsveit þar sem ég ólst upp og mér finnst ég alltaf ná að hvílast og fá ró þegar ég kíki til þeirra. Einnig finnst mér mjög notalegt og næs að skella mér í sumarbústaðinn í Vaðlaheiðinni sem tengdafjölskyldan mín á.
Á kvöldin þegar það gefst tími elska ég líka að horfa á bíómyndir eða þætti með kærastanum mínum með vel völdu snarli. Það fær mig einnig til að kúpla mig út og fá innblástur 🍿
Hvað kemur þér í gott skap?
Það sem kemur mér í gott skap er tilfinningin að vera búin að þrífa heimilið þannig að það er tandurhreint og fínt 🫧
Mér finnst svo góð tilfinning að eiga fallegt heimili þar sem mér líður vel að eyða tíma og hlakka ég til að taka það hægt og rólega í gegn í framtíðinni 🛠️ Það er svo mikið potential í íbúðinni sem við búum í og það er erfitt að ráðast ekki strax í allar framkvæmdir en það er ekki alveg í boði núna þegar maður er að koma nýju fyrirtæki á fótinn. Við búum fyrir ofan veitingastaðinn okkar í 5 herbergja íbúð á besta stað í miðbænum. Ég er svo heppin að kærastinn minn er framkvæmdaglaður og handlaginn og við erum með svipaðar hugmyndir um hvað við viljum gera við íbúðina þannig það verður spennandi að sjá hvernig hún mun líta út eftir ca. 3 ár ✨
 
Hvað er það allra leiðinlegasta sem þú gerir? 
Það allra leiðinlegasta sem ég geri er að keyra eða fara í matvörubúð. Ég held samt að mér þyki búðarferðirnar leiðinlegri. Oft eru vörur sem manni vantar ekki til, þannig maður þarf að prófa nokkrar búðir í von um að finna þær. Ég veit ekki hversu oft ég hef lent í því. Ég veit ekki hvort þetta sé meira landsbyggðavandamál en þetta getur oft verið mjög þreytandi. Sérstaklega þegar maður er á hraðferð. Þetta hefur nú skánað eftir að Krónan opnaði fyrir norðan en á sama tíma er maður oft lengi að finna vörurnar, fara heim með þær og ganga síðan frá þeim o.s.frv 🛍️
 Hvar sækirðu innblástur?

Í lífinu sem og heimilinu sæki ég mikinn innblástur frá Frakklandi og Skandinavíu. Ég hef einnig verið að fá innblástur frá fólki úr allskonar áttum. Sérstaklega fólki sem ég er búin að kynnast eftir að við opnuðum Eyju, fastakúnnum og kollegum sem manni er farið að þykja vænt um og lítur upp til 🫶🏻 Einnig finnst mér mikilvægt að skipta reglulega um umhverfi því þá næ ég að sjá hlutina í öðru ljósi og fá innblástur til að tækla verkefnin.

Ef það er einhver þarna úti sem vill vinna við eða mennta sig í því sama, ertu með einhver skilaboð, ráð eða tips? 

Veldu eitthvað nám sem þér finnst áhugavert því þá er líklegra að þú endist í náminu. Á sama tíma held ég að hvaða nám sem þú ferð í, muni alltaf koma þér að gagni. Ég veit að margir skildu ekki afhverju ég valdi frönsku í BA, sumum fannst það jafnvel tilgangslaust og vera tímaeyðsla, en ég vissi nákvæmlega hvað ég var að gera og það hefur opnað á mörg atvinnutækifæri fyrir mig hingað til. Ef ég vil búa í Frakklandi í framtíðinni og sækja um starf hjá t.d. stofnun eða sendiráði þá gæfi þetta mér alltaf forskot á að fá starfið því að það er oft frekar ráðið einhvern með góða menntun sem getur talað frönsku heldur en einhvern annan með góða menntun en talar einungis ensku. Þannig tungumál eru mjög mikilvæg og opna á allskonar tækifæri og atvinnumöguleika.

Mitt ráð er að hlusta ekki á aðra ef þú ert í sömu sporum og ég var í, gerðu það sem þig langar! 🙌🏻  En í mínu tilviki finnst mér námin sem ég er búin með vera ákveðin öryggisnet fyrir mig, þau gagnast mér að vissu marki í því sem ég er að gera í dag en opna á fleiri tækifæri á allskonar störfum í framtíðinni. Ég er með mörg stór markmið og hugmyndir sem ég vil að verði að veruleika seinna meir og ég er þakklát fyrir að hafa klárað BA og MA gráðurnar. Mig langar t.d. til þess að stofna ferðaþjónustufyrirtæki samhliða veitingarekstrinum þegar ég mun hafa meiri tíma.

En þau ráð sem ég get gefið fólki er að taka þátt í nemendafélögum, nefndum og samkomum innan skólans. Það hjálpar manni að búa til tengslanet, hafa gaman og eignast vini🫱🏻‍🫲🏼 En fyrst og fremst var það mikilvægast fyrir mig að fara í skiptinám því það gaf mér svo mikið sjálfstraust og sjálfstæði. Það voru fyrst og fremst námsdvalirnar erlendis sem mótuðu mig hvað mest á mínum námsferli en ég fór fyrst 17 ára í skiptinám til Parísar í eitt ár 🥐🇫🇷. Ég þroskaðist svo mikið, opnaðist og blómstraði eftir að ég kom heim því að þetta voru svo krefjandi tímar og mikill sigur þegar allt gekk upp. Á endanum er mikilvægt að reyna hafa gaman að því sem maður er að gera, það auðveldar allt ferlið og hjálpar manni að ná markmiðunum!
Fylgist betur með hér:
Guðbjörg Einarsdóttir: instagram
Eyja WineBar: instagram
ArnaPetra (undirskrift)

VELDU ÞANN SEM ÞÉR ÞYKIR BESTUR

Skrifa Innlegg