SEX EINFALDAR LEIÐIR TIL AÐ BÆTA SVEFNINN ÞINN

andleg heilsaandleg vellíðanSamstarf

Ég held að það sé ekkert jafn mikilvægt eins og svefn í þessu lífi. Við sofum um það bil einn þriðja af ævinni okkar. Það vita allir hvað svefn er mikilvægur en samt fá mörg okkar ekki nógu góðan svefn og margir eiga í erfiðleikum með að sofa, sem getur haft veruleg áhrif á heilsuna okkar. Svefnleysi getur haft vond áhrif á einbeitingu, skap, minni, lærdóm, ónæmiskerfið, fjölskyldu og félagslíf, stress, þyngd og svo lengi mætti telja.

Þess vegna langar mig til að segja ykkur frá vel völdnum atriðum sem Matthew Walker (svefnsérfræðingur) mælir með og ég hef tileinkað mér til að bæta svefn. Margir hlutir geta nefnilega haft áhrif á hversu þreytt við erum, hversu fljótt við sofnum og hversu gæðamikill svefninn verður. Hann mælir með að við sofum í 7 ½ til 9 tíma. 

Minnkaðu ljós fyrir svefninn

Það er bæði mikilvægt að fá dagsbirtu  á daginn og að hafa dimmt í kringum sig á kvöldin.

  1. Slökktu á helmingnum af ljósunum heima hjá þér 3-4 tímum fyrir svefninn.
  2. Forðastu bláu ljósin frá sjónvarpinu, símanum og tölvunni 1-2 tímum fyrir svefninn. Þróaðu góða svefnrútínu. Farðu aðeins fyrr upp í rúm og gríptu góða bók með þér til að lesa.

Hugaðu að hitastiginu

  1. Hafðu herbergið í kaldari kantinum. Best er að hafa hitastigið í herberginu á milli 17 til 19 gráður, sem er frekar kalt!
  2. Farðu í heitt bað.

Það þekkja það allir hvað maður sefur vel eftir heitt bað. Í fullkomnum heimi færi ég í heitt bað á hverju kvöldi. Það hjálpar þér að slaka á og forðast streituvaldandi áreiti sem getur látið hausinn fara á milljón.

Ég hef verið að vinna með frábæra viðbót undanfarið við heita baðið á kvöldin, baðsaltið frá Dr. Teals. Ég hef verið í samstafi við Dr. Teals undanfarna mánuði og ég er mikill aðdáandi af vörunum þeirra. Þau eru með þrjár vörur (baðsalt, freyðibað og sturtusápur) sem eru allar byggðar upp á epsom salti og koma í tveimur ilmum: Róandi lavender og frískandi engifer.

Afhverju er ég að segja ykkur frá Dr. Teals? Epsom salt getur haft marga góða ávinninga fyrir heilsu og vellíðan. Það getur haft bólgueyðandi áhrif, minnkað verki, róað þreytta vöðva og þannig veitt djúpa slökun og bætt svefninn. Mér finnst baðsaltið tryllt vibóð við heita baðið á kvöldin og auka ávinninga baðsins en frekar. Ofangreindir þættir hafa líka virkilega góð áhrif á endurheimt sem er gríðarlega mikilvægt fyrir alla þá sem eru í íþróttum eða stunda einhverja hreyfingu.

 Slepptu koffíni eftir hádegi

Ég held að það viti flestir að maður eigi að sleppa koffíni en ég fann mikinn mun á svefninum hjá mér eftir að ég hætti að drekka koffín eftir klukkan 13:00. Ég mæli með að prófa það.

Sumir segjast sofa eins og englar þó svo þeir fái sér einn bolla á kvöldin. Matthew talar hins vegar um það að gæði svefnsins minnkar við kaffineyslu stutt fyrir svefninn svo hann getur haft veruleg áhrif á svefninn þinn án þess að þú vitir af því. Í podcastinu hjá Rondhu Patrick talar hann um að 6 tímum eftir síðasta kaffibollann er einn fjórði af bollanum ennþá í kerfinu. Þannig að ef þú færð þér bolla klukkan 16:00 og ætlar að sofna klukkan 22:00, þá er eins og þú dúndrir í þig einn fjórða af kaffibolla rétt fyrir svefninn. Held að það myndu ekki margir gera það!

Forðastu streituvaldani áreiti

Slepptu því að kíkja á emailið rétt fyrir svefninn eða hafa óþarfa áhyggjur af hlutum sem skipta littlu máli. Heitt bað og lestur getur skapað góða og stresslausa rútínu og aukið líkurnar á betri svefni. Það getur líka verið mjög gott að vera búinn að plana morgundaginn áður en þú ferð upp í rúmið því þá þarftu ekki að husa um og hafa áhyggjur af verkefnum morgundagsins. 

Þróaðu svefnrútínu

Matthew talar um að stöðugleiki í svefni sé algjört lykilatriði. Reyndu að sofna og vakna á sama tíma alla daga vikunnar.

Ekki rembast við að reyna sofna þegar þú átt í erfiðleikum með að sofa

Afhverju segi ég það? Jú Matthew talar um að ef maður á í erfiðleikum með að sofa og rembast við það að sofna í herberginu þá tengir heilinn það saman. Þá er svefnherbergið komið með tengingu við það að sofna ekki eða eiga í erfiðleikum með að sofa. Þegar við förum svo fram í sófa og sofnum þar þá tengir heilinn sófann við það að sofa.

Hann mælir frekar með að fara fram og lesa. Þegar þú verður þreytt/ur þá skellirðu þér síðan upp í rúm og sofnar. Þetta er klárlega einhvað sem ég ætla að prófa næst þegar ég er andvaka!

Ef þú ert ekki nú þegar búin/n að hlusta á podcastið með Matthew Walker hjá Joe Rogan eða Dr. Rhondu Patrick þá mæli ég með því að þú gangir beint í það og lærir ennþá meira um hvernig þú getur stuðlað að góðum svefni!

MILLIVEGURINN #18 – DR. HAFRÚN KRISTJÁNS – SÁLFRÆÐINGUR

Dr. Hafrún Kristjáns talaði við okkur um verkfæri sem hún notast við með okkar besta íþróttafólki, hvað einkennir góða liðsheild, ofnotkun Íslendinga á þunlgnyndislyfjum, höfuðhögg, börn í íþróttum og hvernig við tæklum svokallaðar hugsanavillur, sem geta haft veruleg áhrif á hvernig þér líður. Þú getur nálgast þættina á podcast appinu og á youtube undir nafninu: Millivegurinn.

 

 

DAUÐINN – HVERJU MYNDIR ÞÚ SJÁ EFTIR Í LÍFINU?

 

Ég ætla að nota þessa færslu í að fjalla um viðkvæmt málefni; dauðann. Flest okkar pæla ekkert í dauðanum og lifa lífinu eins og við séum aldrei að fara að deyja. Ástæðan fyrir því er sennilega sú að hugsanir um dauðann veldur fólki óþægilegum tilfinningum. Að lifa lífinu án þess að hugsa um dauðann skapar hinsvegar ákveðið vandamál. Dauðinn er nefnilega óumflýjanlegur. Dauðinn er það eina sem er víst að gerist í þessum heimi. Verst er kannski að við vitum aldrei hvenær hann kemur en sannleikurinn er sá að hann getur komið hvenær sem er.

Dauðinn bankar á dyrnar hjá mörgum einstaklingum á ákveðnum tímapunktum í lífinu, t.d. þegar fólk á afmæli, verður fyrir alvarlegum veikindum, lendir í alvarlegu slysi eða við missi á nákomnum einstaklingi. Við þessi augnablik breytist oft sjónarhornið á lífið. Þessir einstaklingar hugsa t.d. hverju í andskotanum þeir séu búnir að eyða sínum dýrmæta tíma í hingað til, hlutunum sem þeir sjá eftir og hvað sé raunverulega mikilvægast fyrir þeim í lífinu.

Þú getur litið á dauðann með letjandi augum og lifað í meðvitaðri blindni um að hann sé ekki til og muni aldrei banka upp á. Hin leiðin er að samþykkja dauðann og líta á hann með hvetjandi augum. Hann getur hvatt okkur í að lifa lífinu sem við virkilega viljum, forgangsraða hlutum í lífinu, einblína á réttu hlutina, að minnka óþarfa áhyggjur, að vera trúr sjálfum sér, að viðhalda tengslum við vini og fjölskyldu, að taka lífinu ekki of alvarlega, að hafa hugrekki í að tjá tilfinningarnar sínar, lifa í núinu og vera þakklát/ur fyrir tilveruna.

Afhverju getum við ekki minnt okkur á dauðann áður en við lendum í einhverju? Mér finnst nefnilega ömurlegt að einstaklingar þurfi að lenda í einhverju til þess að átta sig á hvernig lífi þeir vilja lifa. Það getur nefnilega orðið leiðinlega seint fyrir marga einstaklinga sem hafa eytt lífinu sínu í vitlausa hluti. Hvernig getum við bankað í hausinn á okkur daglega til að minna okkur á að lifa lífinu sem við virkilega viljum? Hvernig getum við einblínt á hluti sem við virkilega viljum einblína á en sjáum ekki útaf við lifum í meðvitaðri blindni gagnvart dauðanum?

Ein leið er að spyrja sig að þessari spurningu: Hverju munt þú sjá eftir í lífinu þegar þú ert orðin/n hund gömul/gamall og lítur til baka? Ég skal svara fyrstur. Ég myndi sjá eftir því að taka lífinu of alvarlega, hafa of miklar áhyggjur af óþarfa hlutum og að eyða tímanum mínum í ranga hluti. Nú er komið að þér.

Lífið er alltof stutt til að eyða því í kjaftæði. Hættu að lifa í meðvitaðri blindi og byrjaðu að lifa lífinu sem þú vilt lifa.

MILLIVEGURINN #17 – JÓN JÓNSSON

„Á ég samt ekki að afreka einhverja snilld áður en eg kem… hlaupa maraþon eða einhvað?“ Sagði Jón Jónsson okkur þegar við spurðum hann hvort hann væri ekki til í að koma í spjall til okkar. Þessi lífsglaði einstaklingur talaði meðal annars við okkur um þætti sem ber að hafa í huga til að líða vel í lífinu, mikilvægi þess að sinna fjölskyldunni, fjármálalæsi, fótboltaferilinn og að sjálfsögðu tónlistarferilinn.

Þið getið nálgast þáttinn hér að neðan og á podcast appinu. Takk kærlega fyrir að hlusta!

 

 

MILLIVEGURINN #16 – BERGUR EBBI

Bergur Ebbi er grínisti, lögfræðingur, rithöfundur og tónlistarmaður. Það var mjög gaman að spjalla við þennan mikla hugsuð meðal annars um framtíðina, nýja sýn á heimsendi, samfélagsmiðla, sýndarveruleika, peninga, mið-ísland og mikilvægi þess að rækta vináttu.

Þú gætur nálgast þáttinn á youtube og á podcast appinu undir nafninu: Millivegurinn.

Takk fyrir að hlusta!

NÝ HEIMASÍÐA

andleg heilsaandleg vellíðan

Mig langaði til að láta ykkur vita af því að ég var að uppfæra heimasíðuna mína: www.beggiolafs.com. Á síðunni getið þið fundið frekari upplýsingar um mig, mína sýn á lífið og þjónustuna sem ég býð upp á. Þar eru upplýsingar um fyrirlestrana sem ég hef verið að halda undanfarið og nákvæmar upplýsingar um hvað þjálfunarsálfræði er. Þetta er aðallega viðskiptasíða svo að sjálfsögðu held ég áfram að blogga hér inn á Trendnet. Endilega kíkið á hana!

MILLIVEGURINN #14 – GUMMI BEN

Gummi Ben sleit krossband fimm sinnum en alltaf hélt hann áfram. Við spjölluðum meðal annars um ástríðuna og hugafarið sem hefur komið honum í gegnum lífið, þann mikilvæga eiginleika að ná því besta úr fólkinu í kringum sig, einkenni íslendinga sem skara fram úr í íþróttum og hvernig það var að skrifa bók nánast einungis á síma.

ENDURHUGSAÐU HAMINGJUNA

andleg heilsaandleg vellíðan

Þegar við hugsum um hamingju þá hugsa flestir um jákvæðar tilfinningar án neikvæðra tilfinninga. Flestir tengja hamingju við ánægjulegar stundir eins og að eignast nýja hluti, klára erfiða vinnutörn og þegar þeir ná loksins markmiðinu sem þeir eru búnir að stefna að í langan tíma.

Þessar jákvæðu tilfinningar standa hinsvegar ekki oft lengi yfir eins og flest ykkar hafið eflaust upplifað. Við höfum oft verið að bíða eftir einhverju, að komast í sumarfrí, útskrifast úr námi eða ná einhverjum ákveðnum stað sem við trúum að gefi okkur langvarandi hamingju en svo komum við á staðinn og verðum fyrir miklum vonbrigðum.

Við sem samfélag höfum verið að leggja alltof mikla áherslu á það að stefna að vera hamingjusöm í lífinu. Að það sé eini rétti tilgangur lífsins. Endalausar fréttir, fyrirlestrar og aðrir sérfræðingar að segja þér hina sönnu leið að hamingju. Bara ef lífið væri svona einfalt og allir gætu fylgt eftir sömu leyniuppskriftinni að hamingju.

Þessar áherslur gera það að verkum að einstaklingar eru stöðugt að reyna að finna hamingjuna eins og þegar þeir týna lyklunum sínum. En hvað ætlar þessi einstaklingur að gera þegar hann er ekki hamingjusamur? Þá líður honum eins og það vanti einhvað í lífið hans, að hann sé ekki nóg og að honum sé að mistakast að upplifa hinn sanna tilgang lífsins. Þetta er ekki gott fyrir þennan einstakling.

Það er ekki raunhæft að eignast líf sem inniheldur einungis jákvæðar tilfinningar án neikvæðra tilfinninga. Lífið er samblanda af þessum þáttum. Lífið er dásamlegt og erfitt á sama tíma. Við myndum ekki vita hvað hamingja væri ef við myndum ekki finna fyrir sorg. Við getum alltaf fundið eitthvað neikvætt við það svokallaða jákvæða og eitthvað jákvætt við það svokallaða neikvæða.

Við þurfum að hugsa og nálgast hamingjuna á aðra vegu. Ég tel að við eigum að stefna að merkingarfullu lífi í staðinn fyrir hamingjusömu lífi. Hamingjan getur svo komið sem afleiðing þess að lifa merkingarfullu lífi. Að hún komi sem afleiðing af okkar hegðun og hugsun án þess að þurfa spá mikið í henni.

Í merkingarfullu lífi er líka pláss fyrir erfiðleika og neikvæðar tilfinningar. Við getum nefnilega dregið ávinninga á að upplifa það sem við skilgreinum sem neikvætt. Við getum vaxið í kjölfar erfiðleika, við getum áttað okkur á hvað við viljum ef við upplifum neikvæðar tilfinningar, við getum skilið hlutina betur ef við leyfum okkur og sýnum hugrekki til þess að standa á móti erfiðleikum og neikvæðum tilfinningum.

Við þurfum að endurhugsa hamingjuna sem ánægjulandið hans Péturs Pan. Að endurhugsa að hamingja sé þæginlegur staður sem við komumst einhverntímann á. Haminga er ferli en ekki áfangastaður. Hamingja er allt það sem lífið hefur upp á að bjóða og það tekur bæði inn jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Erfiða tíma og góða tíma. Hamingju og sorg. Leyfðu þér að upplifa allan skalann á því sem lífið hefur upp á að bjóða. Stefndu að merkingarfullu lífi í staðinn fyrir hamingjusömu lífi.

Ekki hika við að segja mér hvað ykkur finnst: @beggiolafs á Instagram.

MILLIVEGURINN #13 – ÓLAFUR DARRI

andleg heilsaandleg vellíðan

Það var rosalega gaman að spjalla við Ólaf Darra. Þessi auðmjúki maður talaði um hvað allt breyttist þegar ákvað að taka ábyrgð á sjálfum sér þegar hann var rekinn úr þjóðleikhúsinu á sínum tíma. Í dag er hann okkar fremsti leikari. Við spjölluðum auk þess um hvernig upplifunin er að leika í Hollywood,  mikilvægi þess að líta ekki stórt á sig, uppeldi barna, samfélagsmiðla, dugnað, tilfinningar, andlega heilsu og margt fleira.