HEILSU- OG LÍFSSTÍLSDAGAR Í NETTÓ

andleg vellíðanPlöntufæði

Ég hef verið mikill aðdándi að Heilsu & Lífsstílsdögum Nettó síðan þeir byrjuðu fyrst. Því er mikill heiður fyrir heilsupervert eins og mig að segja ykkur aðeins frá þeim í samstarfi við Nettó. Á morgun ætla ég svo að fara í verslunarleiðangur og sýna ykkur frá hvað heilsudagarnir hafa upp á að bjóða. Þið getið fylgjst með því á instagraminu mínu: @beggiolafs


Heilsu & Lífsstílsdagar standa yfir í fjórtan daga, frá 20 september til 3 október. Dagarnir innihalda fjölmörg spennandi tilboð á ýmsum heilsuvörum sem standa mislengi yfir. Mig langar sérstaklega til að benda ykkur á ofurtilboðin hér að neðan. Ég veit ekki með ykkur en ég mun bókað koma til með að nýta mér tilboðin á spínati,  grænkáli, túrmerik, bláberjum, avocado, sætum kartöflum, Now meltingagerlum og Good Good Brand sultum.


Nettó rekur 16 verslanir um allt land og opnunartíminn er frá 10:00 til 21:00, fyrir utan Nettó Mjódd og Granda, þar er opið allan sólarhringinn. Nettó er lágvöruverslun sem leggur mikinn metnað í heilsu. Þau eru með mjög fjölbreytt úrval af heilsuvörum og hafa bætt vegan valkostina verulega. Auk þess vilja þau sporna við matarsóun og því bjóða þau upp á stigvaxandi afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag.

Ef þú vilt vita meira um heilsudagana, þá endilega flettu í gegnum heilsubæklinginn sem verður kominn inn um þínar dyr á morgun. Í bæklingnum eru áhugaverðir viðmælendur, girnilegar uppskriftir og góð tilboð. Ekki skemmir fyrir að ykkar einlægur er með eitt stykki grein í bæklingnum um mat og bætiefni sem geta bætt orku og endurheimt.

Heilsa er mitt hjartansmál og það er svo mikilvægt að sinna henni eins vel og maður getur. Hún veitir okkur vellíðan og gerir okkur kleift að gera hversdagsdaglega hluti á eins áhrifaríkan hátt og við getum. Ég skora á alla að nýta sér þessi tilboð og í leiðinni að taka eitt jákvætt skref að bættri heilsu!

MILLIVEGURINN – NÝTT PODCAST

andleg vellíðan

Loksins erum við búnir að setja fyrsta þáttinn í loftið. Við fengum okkar ástsælasta söngvara, Friðrik Dór í heimsókn og ræddum meðal annars ferilinn, erfiðleika, að vera trúr sjálfum sér, lífstílsbreytingar, stærsta sigurinn, niðurrifshugsanir, vellíðan, markþjálfun, hugarfar og framtíðarsýn.

Þátturinn er bæði á podcast appiu og á youtube undir nafninu: Millivegurinn. Vonandi líkar ykkur vel við okkar fyrsta þátt!

 

FYRIRLESTRARNIR BLÓMSTRAÐU OG UPPFYLLTU ÞÍNA MÖGULEIKA

andleg vellíðan

Ég er búinn að vinna hörðum höndum að tveimur fyrirlestrum undanfarnar vikur. Ástæðan fyrir þeim er að mér langar til að hafa góð áhrif á líf fólks og ég trúi því innilega að þessir fyrirlestrar geti breytt lífinu til betri vegar hjá mörgum einstaklingum.

Annar fyrirlesturinn heitir “Blómstraðu” og út frá honum áttar fólk sig á hvernig því getur liðið ennþá betur í lífinu með einföldum leiðum. Hann er miðaður að eldri einstaklinga frá 25 ára og upp úr. Það kemur skemmtilega á óvart hvað gefur okkur hamingju og hvað við getum gert til að verða hamingjusamari.

Hinn fyrirlesturinn heitir “Uppfylltu þína möguleika”. Markmiðið með fyrirlestrinum er að einstaklingar átti sig á hvað þeim er mögulegt að gera í lífinu og hvaða leiðir séu ákjósanlegar til að láta þessa möguleika verða að veruleika. Hann er miðaður að yngri einstaklingum frá 15 ára til 30 ára.

Það er virk þátttaka í fyrirlestrunum þar sem einstaklingar fá tækifæri á að gera áhugaverðar æfingar. Allir fá verkefnahefti með sér heim en í heftinu eru einfaldar æfingar sem ég tala um í fyrirlestrunum. Það er vinna að blómstra og að uppfylla sína möguleika í lífinu!

Endilega horfið á myndskeiðið hérna fyrir neðan ef þið hafið áhuga á að fá mig til að halda fyrirlestur. Fyrir frekari upplýsingar og bókanir: beggiolafs@beggiolafs.com. Ég hlakka til að heyra frá ykkur!

LÍFIÐ ER ÞJÁNING

andleg vellíðan

Neikvæðu fréttirnar

Lífið er erfitt. Lífið er ófullkomið og lífið  er þjáning. Það inniheldur óvissu, kvíða, stress, áskoranir, hindranir, veikindi, vonbrigði og loks dauðann sjálfan. Ykkur finnst ég kannski vera full dramatískur en þetta eru óumflýjanlegir þættir lífsins. Það er ansi líklegt að þú hafir lent í einhverjum erfiðleikum á lífsleiðinni. Ef ekki, þá er líklegt að þú eða einhver þér nákominn muni lenda í erfiðleikum á næstu fimm  árum.

Jákvæðu fréttirnar

Nóg af neikvæðninni. Jákvæðu fréttirnar eru þær að sama hversu erfitt eða slæmt lífið er, þá er það í þínum höndum hvernig þú bregst við þeim erfiðleikum. Það er rosalega auðvelt að detta í það að vorkenna sjálfum sér, spila sig sem fórnarlamb eða halda því fram að lífið sé óréttlátt. En hvað græðum við á þessu hugarfari? Nákvæmlega ekkert. Við verðum bara bitur, leið, pirruð og þunglynd.

Faðmaðu neikvæðu tilfinningarnar rétt eins og þær jákvæðu

Ég er alls ekki að segja að það sé ekki í lagi að líða illa. Við eigum að faðma eikvæðar tilfinningar rétt eins og þær jákvæðu. Stundum þarf manni að líða illa til að maður átti sig á hvað það er að upplifa hamingju. Markmiðið á ekki að vera að bæla niður allar neikvæðar tilfinningar . Það er líka hægt að líta á kvíða, stress og óvissu með jákvæðum augum. Þessar tilfinningar láta okkur finna að við séum virkilega á lífi. Lífið væri hundleiðinlegt ef við vissum allt fyrir fram og ekkert væri krefjandi.

Viktor Frankl og frelsið

Viktor Frankl var fangi í útrýmingarbúðum í Auschwitz. Hann lifði við vægast sagt hræðilegar aðstæður þar sem hann óttaðist um líf sitt á hverjum degi. Hann náði að lifa af fangabúðirnar með því að finna  merkingu og tilgang í þjáningunni. Viktor sagði að það eina sem ekki væri hægt að taka frá einstaklingnum  væri frelsið og getan til að ráða hvernig maður bregst við aðstæðum í lífinu.

Hvað er til ráða?

Einblíntu á það sem þú getur haft stjórn og áhrif á. Þú getur haft stjórn á því hvernig þú bregst við erfiðleikum og það er undir þér komið hvort þú viljir láta þá draga þig endalaust niður eða styrkja þig. Breyttu hugsuninni þinni og hvernig þú bregst við þjáningu lífsins. Sjáðu það jákvæða í erfiðum aðstæðum, finndu merkingu og tilgang í þjáningunni og breyttu hugsunarhættinum með því að skipta óhjálplegum hugsunum út fyrir hjálplegar hugsanir. Ef Viktor Frankl gat snúið hugsun sinni sér í hag í sínum aðstæðum, þá getur þú það!

 

Hugarefling vikunnar

andleg vellíðan

Halló snillingar,

Ég ætla byrja með nýjan lið inn á blogginu sem heitir “Hugarefling vikunnar”. Hann lýsir sér þannig að reglulega ætla ég að segja ykkur frá inngripum sem tengjast andlegri heilsu. Markmiðið er framkvæma hvert inngrip í að minnsta kosti í eina viku. Það væri algjör snilld ef þið mynduð taka þátt í þessu með mér!

Þessi inngrip koma flest úr jákvæðri sálfræði en líka frá minni reynslu. Markmiðið er að þið getið hagnýtt þessar æfingar inn í daglegt líf til að efla andlega heilsu og lífið sjálft. Ég hef talað eitthvað um þessar æfingar í lífsráðunum mínum á instagram en það verður bara hafa það.

Mín skoðun er sú að það hafa flest allir gott af þessum inngripum, líka þeir sem eru lausir við andleg vandamál. Það er ekki sama að vera laus við andleg veikindi og að blómstra andlega. Við skiljum oft andlegu vinnuna eftir á hakanum og gerum ráð fyrir því að andlega heilsan eigi að vera í toppmálum. Það er hinsvegar ekki svo einfalt. Það er heilmikil vinna að líða vel en að helga sér tíma í andlega vinnu skilar sér alltaf.

Þú ert þinn besti sérfræðingur.

Eitt sem ber að hafa í huga er að þú ert þinn besti sérfræðingur. Það sem virkar fyrir mig virkar ekki endilega fyrir þig. Prófaðu þig áfram, finndu út hvað þú fýlar og hvað veitir þér vellíðan. Ákveðnar æfingar passa betur við suma heldur en aðra. Sumir hafa t.d. takmarkaðan tíma lausann á daginn á meðan aðrir geta helgað meiri tíma í þessa vinnu. Rannsóknir sýna að það sem skiptir mestu máli hvað varðar inngrip er að þau passi sem best við ykkur sjálf. Sem dæmi var rannsókn sem sýndi fram á að vellíðan jókst meira hjá fólki sem skrifaði þakklætislista einu sinni í viku samanborið við fólk sem gerði það þrisvar í viku.

Fyrsta æfing tengist þakklæti. Þú getur fundið fyrir þakklæti þegar þú veitir því athygli hversu auðugt lífið þitt og þínar kringumstæður eru. Það eru margir hlutir í lífinu okkar, bæði smáir og stórir, sem við getum verið þakklát fyrir en við tökum þeim sem sjálfsögðum hlut. Bara eins og það eina að vera þakklát/ur fyrir að vera til, að hafa vinnu, að eiga góða að, fyrir morgunmatinn sinn, fyrir heimilið sitt, fyrir heilsuna og fyrir börnin sín.

Hugarefling vikunnar: Þakklætislisti

 Skrifaðu niður 3-5 hluti sem þú ert þakklát/ur fyrir. Þið ráðið hversu oft þið gerið það yfir vikuna. Hvort sem þið viljið gera listann þrisvar sinnum eða fimm sinnum, þá er það undir ykkur komið. Ég ætla setja mér það markmið að gera hann alla daga vikunnar. Þið ráðið líka hvenær þið gerið listann en ég ætla gera hann á morgnana.

Vonandi taka sem flestir þátt í þessu með mér. Það væri fáránlega gaman að heyra ykkar reynslu af þessum inngripum og ég myndi elska að sjá ykkur deila þeim með fjölskyldu, vinum eða á samfélagsmiðlum (t.d. snapchat eða instagram story).

Hlakka til að heyra hvernig þið upplifið þetta og ekki hika við að tagga mig @beggiolafs

Döðlukúlur

Plöntufæðivegan

Halló kæru lesendur,

Þar sem það styttist heldur betur í verslunarmannahelgina langaði mér segja ykkur frá einni snilldar uppskrift. Tilvalið í bústaðinn, útileguna, innipúkann og þessvegna þjóðhátið. Hvað sem þið takið ykkur fyrir hendur, þá munuð þið slá í gegn með þessum döðlukúlum.

Ég elska allt sem er með döðlum í. Mér finnst döðlur ekki góðar eintómar en þegar þær eru blandaðar með eitthverju öðru eins og t.d. kasjúhnetum, þá finnst mér þær svakalegar.

Ég lít á döðlukúlurnar sem hollt nammi og hentar því þeim sem vilja kannski ekki algjörlega missa sig í “sukkinu”.  Þær eru ofboðslega góðar, innihalda fá innihaldsefni og eru einfaldar í bígerð. Það er algjör snilld að eiga þær til í frystinum heima til að fá sér með kaffinu, sem millimál eða í staðinn fyrir þetta klassíska nammi. Allir sem hafa smakkað þessar döðlukúlur í kringum mig eru mjög hrifinir af þeim.

Innihaldsefni:

400 gr. döðlur

250 gr. hafrar

1/2 bolli ósætt kakó

Kókos til að velta upp úr

Aðferð:

1. Látið innihaldsefnin í matvinnsluvél/blandara og blandið saman. Ef þið eruð ekki með ferskar döðlur er sniðugt að mýkja döðlurnar með upphituðu vatni áður en þið blandið þeim við hin innihaldsefnin. Ef blandan er of þurr, bætið þá smá plöntumjólk við.

2. Búið til litlar kúlur úr blöndunni og veltið kúlunum upp úr kókosmjölinu.

3. Geymið í frysti. Persónulega finnst mér döðlukúlurnar bestar þegar þær eru búnar að vera í frysti í sólarhring en öðrum finnst betra að borða þær strax.

4. Njótið og eigið góða helgi!