ALLT SEM ÞÚ ÞARFT AÐ VITA UM SVEFN!

andleg heilsaandleg vellíðan

Við sofum 1/3 af ævinni. Afhverju þurfum við að sofa? Hvað gerir svefn? Hvaða áhrif hefur svefnleysi? Hvernig getum við hámarkað líkurnar á góðum svefni? Erla Björnsdóttir, svefnsérfræðingur svaraði þessum ásamt fjölmörgum öðrum áhugaverðum spurningum um svefn. Þð getið horft hér að neðan eða hlustað á podcast appinu. Takk fyrir stuðninginn!

 

ATHYGLIN ÞÍN BÝR TIL RAUNVERULEIKANN ÞINN – HVERT ERTU AÐ BEINA HENNI?

Athyglin er magnað fyrirbæri. Hún er virkilega valbundin og afmörkuð, því ef við myndum þurfa að veita öllu athygli í lífinu þá myndi hausinn á okkur sennilega springa. Við eigum ekki fræðilegan möguleika á að pæla í öllu í kringum okkur og þessvegna verða venjur til.

Athyglin býr til okkar raunveruleika. Raunveruleikinn okkar er byggður upp með hvernig við sjáum hlutina. Þessvegna getur verið gott að pæla aðeins í hverju þú ert að veita athygli dagsdaglega. Ertu með athyglina á það sem þú þarft eða það sem þér vantar? Ertu að dæma þig sjálfan og það sem annað fólk gerir? Ertu ávallt með athyglina á því neikvæða við upplifunina þína?

Hvert þú kýst að beina athyglinni hefur mikil áhrif á hvernig þú upplifir lífið þitt. Það er hættulegt að næra neikvæðu hliðar tilverunnar með því að vera með athyglina fasta á það sem þig vantar og það slæma við hverja upplifun. Það hefur ekki góð áhrif á þig og aðra í kringum þig. Þér líkar ekki vel við lífið þitt og þú smitar neikvæðni í annað fólk og það er fátt þreyttara en neikvætt fólk.

Því er mikilvægt að horfa björtum augum á tilveruna. Sjáðu það góða í upplifunum. Gríptu þig þegar þú ert að hugsa um slæmu eiginleikana við upplifunina eða þú ert að kvarta yfir tilverunni eða dæma annað fólk. Upplifanir eru nefnilega ekki bara góðar eða slæmar, þær eru yfrleitt sambland af þessu tvennu. Það er alltaf eitthvað jákvætt við það sem þú ert að upplifa. Snúðu raunveruleikanum þér í hag með að beina athyglinni þinni á það góða hverju sinni. Þetta er verðugt verkefni. Vertu þakklát/ur í staðinn fyrir að kvarta og kveina. Það er fullt gott við þig sjálfan og þína tilveru. Með því að líta jákvæðum augum á tilveruna býrð þú til betri raunveruleika, sem nærir sjálfan þig, aðra í kringum þig og heimurinn verður að betri stað.

VERTU ALVÖRU LIÐSMAÐUR

andleg heilsaandleg vellíðan

Þú ert liðsmaður, sama hvernig þú lítur á það. Þú ert hluti af heild, hvort sem þú lítur á þig sem hluta af vinnustaðnum, æfingarhópnum eða fjölskyldunni. Við erum óumflýjanlega umkringd öðru fólki og það skiptir ótrúlega miklu máli hvernig maður hagar sér í tengslum við annað fólk. Það getur haft veruleg áhrif á hvernig þér og fólkinu í kringum þig líður.

Þessvegna er mikilvægt að vera góður liðsmaður. Hvað einkennir eiginlega góðan liðsmann?

Góður liðsmaður tekur eins mikla ábyrgð og hann getur. Hann tekur ábyrgð á hvernig hann bregst við öðrum einstaklingum í liðinu. Hann hugsar um hagsmuni liðsins og reynir allt í sínu valdi til að draga það besta úr fólkinu í kringum sig. Hann tekur öllum leikmönnum liðsins eins og þeir eru og áttar sig á að einstaklingar eru misjafnir. Hann áttar sig á styrkleikum annarra liðsmanna og einblínir á þá í staðinn fyrir að pirra sig á veikleikum þeirra.

Hann segir sannleikann og kemur sínu á framfæri, jafnvel þó það geti verið erfitt að segja hvað liggur manni á brjósti. Hann er krefjandi og gagnrýnir einstaklingana í kringum sig á uppbyggilegan máta til þess að lyfta einstaklingum upp á annað plan. Hann tekur samt tillit til einstaklinga sem eru viðkvæmir fyrir gagnrýni og fer öðruvísi að þeim.

Hann er jákvæður í garð liðsmanna og hrósar þeim reglulega. Hann lætur aðra finna að þeir skipti máli, sama hvort honum líki vel við þá eða ekki. Hann hlustar á hvað aðrir einstaklingar hafa að segja og tekur sjónarmið þeirra inn í myndina. Hann setur liðið í forgang fyrir sjálfan sig og þarf oft að taka hluti á sig þó það sé ekki beint sanngjarnt.

Í liði eru allir að stefna að sama markmiði. Því eiga allir að vinna saman í því að draga það besta úr hvor öðrum en ekki að vinna á móti hvor öðrum. Vertu alvöru liðsmaður. Með því að vera alvöru liðsmaður bætir þú sjálfan þig og aðra í kringum þig sem verður til þess að þið upplifið meiri ánægju og náið betri árangri í því sem þið takið ykkur fyrir hendur.

Q&A – JÚNÍ

andleg heilsaandleg vellíðan

Ég hef verið með Q & A á Instagramminu mínu í hverjum mánuði undanfarna 4 mánuði. Ég byrjaði með það í story en síðustu tvö hafa verið á Instagram TV. Það gerði ég til þess að hafa lengri svör við mjög svo skemmtilegum spurningum. Mér finnst þetta ótrúlega gaman og vona að einhverjum finnist þetta nytsamlegt.

Ég get hinsvegar bara látið tíu mínútna video inn í einu svo það er frekar hamlandi að hafa Q & A-ið í 3-4 pörtum. Því ákvað ég að láta Q & A-ið inn á soundcloud svo þið gætuð hlustað á það. Það er algjör snilld að gera hlusta á eitthvað meðan maður er að gera eitthvað annað eins og að keyra eða taka til heima hjá sér

Upptakan er hér að neðan. Þið getið séð videoin á Instagram: @beggiolafs á Instagram (IGTV). Ekki hika við að henda á mig spurningum sem þið væruð til í að ég myndi svara í næstu Q & A-um. Takk fyrir mig!

Spurningarnar í Q & A-inu:

Hvað er hamingja og afhverju þessi stanslausa pressa á manni að vera hamingjusamur? Er ekki í lagi að líða illa og taka sér hlé? Afhverju þarf maður að brosa og vera glaður?

Fannstu fyrir mikill gangrýni þegar þú varðst vegan?

Þín skoðun á sjálfsást?

Hvert er drauma ferðalagið þitt?

Hver eru þín bestu ráð í sambandsslitum og hvað er mikilvægt að gera í þessu ferli?

Hvor er betri, þú eða Albert í fótbolta?

Hvernig á ég að tækla félagana þeagar ég er að reyna hætta drekka áfengi?

Hvaða ráð myndir þú gefa manneskju sem er yngri en þú sem þú vildir að þú vissir þegar þú varst yngri?

Top 3 rauðhærðir sem ég hef spilað með?

Hvernig næ ég að léttast og ná árangri?

Þarf upphýfingateymi Fjölnis ekki að bara hengja á sig?

Hvernig kemst maður yfir óttann að mistakast?

Góð ráð í samskiptum þegar kemur að því að kynnast nýju fólki?

Uppáhalds bakkelsi sem ég þrái að sé veganvætt?

Verðuru einhverntímann stressaður fyrir fyrirestra?

Hvernig á maður að vera jákvæðari með hverjum degi þegar manni líður ílla?

MY GO TO Á GLÓ

Plöntufæðivegan

Ég var með draum árið 2013, sem var að fá Gló sem styrkaraðila. Nokkrum árum og rúmlega 200 Gló ferðum seinna varð þessi draumur að veruleika þar sem ég varð loksins einn af meðlimum Team Gló. Mjög mikill heiður fyrir mig. Gló er hollasti “skyndibitinn” á Íslandi. Þar sem ég er nokkuð sjóaður í að panta mér á Gló og einfaldlega af því mér langar til þess, þá ætla ég að deila með ykkur réttunum sem ég mæli með.

Skálar:

Mexikósk Oumph skál: Þessi er hrottalega góð. Ég sleppi snakkinu á toppinn, fæ mér avocado fyrir guacamole og fæ spæsí mæjó til hliðar.

Oumph Sport skál: Þessi klikkar sjaldan. Ég set grænmetisspagettí  í staðinn fyrir pasta og bokkolí salat í staðinn fyrir melónur.

Heitir réttir:

Grænmetisborgari: Haldið í hestana ykkar. Þetta er held ég minn uppáhalds réttur. Yfirleitt set ég brokkolí salat í staðinn fyrir sætkartöflu franskarnar og hummus í staðinn fyrir spæsi mæjó en þegar ég geri vel við mig breyti ég ekki neinu.

Súpa: Súpurnar á Gló eru mjög góðar. Kókoskarrý súpan er alltaf til en svo koma nýjar í hverjum mánuði. Bauð fylgir með, annaðhvort súrdeigsbrauð eða glúteinfrítt fræbrauð.

Spínatlasagna: Rétturinn sem mér finnst hvað bestur en sem ég fæ mér sjaldnast. Ég fýla pasta og brauð ekki mikið þar sem þar sem mér finnst hveiti ekki fara vel í skrokkinn á mér. Þetta spínatlasagna er samt alltaf þessi virði inn á milli.

Sætindi:

Ef þið ætlið að fá ykkur sætt á móti kaffinu eftir guðdómlega máltíð, þá verð ég að mæla með tveimur kökum. Vegan ostakakan er rosaleg og Snickershrákakan er ekki síðri.

Þið getið skoðað meira úrval á glo.is. Nú er hægt að panta máltíðir þar og sækja sem er mjög hentugt fyrir upptekið fólk. Annars er ansi líklegt að þið hittið mig á Gló þar sem það má nánast segja að það sé mitt annað heimili. Endilega heilsið upp á kallinn ef þið sjáið mig!

INNKAUPALISTI FYRIR GRÆNAN SMOOTHIE

Plöntufæðivegan

Þið sem fylgið mér á Instagram (@beggiolafs) hafið eflaust tekið eftir því að þar birtist reglulega grænn hræringur í story. Ég hef fengið fjölmargar spurningar um hvað sé í honum í gegnum tíðina. Ég set hinsvegar ekki alltaf það sama í hann svo mér langar til að setja saman innkaupalista með því sem fer vanalega ofan í hann.

Þessar vörur fást í öllum helstu verslunum, meðal annars Nettó, Bónus og Krónunni. Mér finnst yfirleitt gott að hafa hræringinn kaldann og því reyni ég að kaupa frosið grænkál, sem fæst í Nettó og Krónunni. Ég reyni líka að kaupa banana sem eru að úldna, sem fást oft á góðu verði og frysti þá. Það er algjör snilld að eiga til frosna banana.

Innkaupalisti:

Grænkál, spínat, frosin bláber, bananar, paprika, hampfræ, hörfræ, engifer, edamame baunir, kanill, green phytofoods, avocado, brokkolí, prótein plant complex frá NOW (súkkulaðibragðið).

Önnur fæða sem aðrir gætu unnið með í hræringinn (sem ég vinn lítið með) er t.d. Appelsínur, jarðaber, hindber, epli.

Nokkur “Tips”:

Grunnurinn á alltaf að vera vel grænn. Settu vel af grænkáli og/eða spínati. Það er það hollasta sem þú getur látið ofan í þig með tilheyrandi vítamínum og steinefnum. Græn fæða er hinsvegar ekki alltaf bragðgóð, sérstaklega ekki til að byrja með og því þarf oft að vinna með ávexti á móti. Ef þér finnst hræringurinn ekki nógu góður, bættu þá við ávöxtum. Svo geturu hægt og bítandi minnkað ávextina sem fer í hræringinn þegar þú venst græna bragðinu.

Þetta á að vera ákveðin tilraunastarfsemi. Prufaðu þig áfram. Finndu þinn eigin hræring. Þú ert þinn besti sérfræðingur.

Uppskrift af einum vel grænum:

Fyrir þá sem nenna ekki að finna sinn eigin hræring þá kemur hér ein uppskrift. Þessi uppskrift er miðuð við 1 1/2 til 2 lítra. Ég drekk sirka líter á dag og geymi einn líter fyrir daginn eftir.

150-200 g grænkál / spínat

1 banani

5 msk hampfræ

3 msk hörfræ

2 skeiðar Protein Plant Complex frá NOW

1-2 msk af Green phytofoods frá NOW

1-2 bollar af bláberjum

Dass af kanil

Ég ábyrgist ekki að þessi hræringur sé unaðslega góður. Viðbætta próteinið gerir hann hinsvegar ansi góðann að mínu mati. Endilega deilið með mér ef þið hendið í vel grænan hræring með innblæstri frá Begga Ólafs!

MILLIVEGURINN – ARON EINAR

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar kom í Milliveginn og talaði meðal annars um leiðtogahlutverkið í landsliðinu, hvernig hann hefur lært að tjá tilfinningarnar sínar, uppeldi barnanna sinna og mikilvægi þess að gera allt 100%. Þátturinn er kominn á podcast appið og á youtube. Takk fyrir að hlusta/horfa.

TAKTU SVIPUNA AF BAKINU ÞÍNU

andleg heilsaandleg vellíðan

Við erum svo góð í að taka eftir því neikvæða hverju sinni. Það eru fullt af eiginleikum við sjálfan þig sem þú telur góða en samt ertu stöðugt að berja þig niður fyrir slæmu eiginleikana þína. Þú stóðst þig vel en samt ertu bara að hafa áhyggjur af einu mistökunum sem þú gerðir. Þú ert með fullt af styrkleikum en þú pælir bara í veikleikunum þínum.

Hvað með góðu eiginleikana við þig? Eiga þeir bara sitja þarna ósnertir og ónærðir? Ætlaru að taka þeim sem sjálfsögðum hlut? Ætlaru að berja þig stöðugt fyrir að vera ekki kominn á áfangastaðinn í staðinn fyrir að hrósa þér fyrir löngu leiðina sem þú hefur nú þegar labbað?

Auðvitað er þetta spurning um ákveðið jafnvægi eins og með allt. Yin og Yang. Það á ekki annað hvort með algjöra athygli á því góða eða einungis því slæma. Það er mikilvægt að taka eftir veikleikum og mistökum þar sem við getum stöðugt bætt okkur. Það er hinsvegar ekki síður mikilvægt að taka eftir og vera meðvitaður um sína styrkleika. Við mannfólkið getum bætt okkur töluvert þar.

Hér kemur ein pæling. Að samþykkja sjálfan sig er góður grunnur til að byggja á því það er erfitt að stefna á einhvað betra þegar maður er einungis að reyna laga það slæma. EN, það má samt ekki vera lokaniðurstaðan. Afhverju ekki? Jú, ef maður er 100% sáttur með allt, hver væri þá hvatinn til að breyta sér og bæta sig sem einstakling? Það er hættuleg hugsun að halda að maður sé með allt á hreinu því í sannleikanum sagt þá ertu ekki með neitt á hreinu. Það er nefnilega miklu meira spunnið í þig og þú veist það. Plássið fyrir bætingar, lærdóm og frekari visku er endalaust.

Taktu svipuna af bakinu af þér. Það er ósanngjarnt gagnvart sjálfum þér að vera stöðugt að rífa þig niður. Taktu eftir því góða við þig. Veittu styrkleikunum þínum athygli og nærðu þá. Vertu þakklát/ur fyrir þig sjálfa og það sem þú hefur. Klappaðu þér á bakið fyrir leiðina sem þú hefur labbað í staðinn fyrir að draga þig niður fyrir að vera ekki kominn lengra.

MILLIVEGURINN #25 – SARA BJÖRK

Íþróttamaður ársins 2018, Sara Björk, kom í heimsókn í Milliveginn. Þessi magnaði einstaklingur sagði okkur frá allri vinnunni sem felst í því að ná árangri og að líða vel í lífinu. Hún talaði meðal annars um erfiða hluti sem gerast bakvið tjöldin sem enginn sér, eins og kvíða, meiðsli, mótlæti og erfiðar ákvarðanatökur. Þátturinn er kominn á podcast appið og á youtube. Takk fyrir að hlusta/horfa.