LÍFIÐ MITT Í SUMAR

Mig langaði til að koma með eina “venjulega” bloggfærslu og segja ykkur frá lífinu mínu þessa dagana. Ég var að klára önnina í skólanum mínum en ég er í mastersnámi í Hagnýtri jákvæðari sálfræði og þjálfunarsálfræði. Ég fýla þetta nám mjög vel. Ég hef það mikla ástríðu fyrir sálfræði þessa dagana að ég læri jafnvel meira núna heldur en ég gerði áður en ég fór í sumarfrí. Ég elska að lesa og afla mér upplýsingar sem auka þekkingu sem getur nýst mér og að hjálpað öðrum einstaklingum.

Fótboltinn var að byrja og ég er að spila með Fjölni í Inkasso deildinni. Til þessa höfum við spilað fimm leiki, unnið fjóra og tapað einum. Það er alltaf skemmtilegur tími þegar fótboltinn er að byrja og maður fær að sjá uppskeruna eftir erfiði vetrarins.

Á sumrin nýti ég tímann til að líta á sjálfan mig og endurskipuleggja hlutina sem ég er að gera í lífinu. Núna er að vinna að nýjum fyrirlestrum sem ég ætla byrja með í ágúst/september. Auk þess er ég að vinna að námskeiði sem ég stefni á að byrja með í september. Þess á milli fæ ég skemmtilega einstaklinga í podcastið okkar Arnórs, Milliveginn. Ég er líka að fá einstaklinga til mín í þjálfunarsálfræðitíma en þið geta nálgast frekari upplýsingar um hana hér.

Að lokum ætla ég að reyna njóta sumarsins til hins ýtrasta með því að gera það sem veitir mér ánægju. Ég hef áttað mig á því að ég er ánægður þegar ég afkasta einhverju eða þegar ég geri einhvað sem gerir mig að betri einstakling í dag heldur en í gær. Í sumar ætla ég því að læra sálfræði, njóta þess að spila fótbolta, fara í útilegu, eyða tíma með fjölskyldu og vinum, fara í sund, grilla góðan mat og jafnvel skella mér í bústaðinn nokkrum sinnum. Lífið mitt þarf ekki að vera mikið flóknara en þetta.

Vonandi höfðuð þið gaman af þessari færslu sem er með aðeins öðruvísi sniði en venjulega!

MÓTSÖGNIN Í ÞVÍ AÐ LÍÐA ÞÆGILEGA MEÐ ÞVÍ AÐ GERA ÞAÐ ÓÞÆGILEGA

andleg heilsaandleg vellíðan

Við erum stöðugt að reyna að gera hlutina eins þægilega fyrir okkur eins og við getum. Við reynum að forðast óþægindi eins og heitan eldinn. Við erum alltaf að bíða eftir að klára einhvað krefjandi svo að okkur geti loksins liðið þægilega án þess að hafa neina ábyrgð.

Að lifa þæginlegu lífi hljómar mjög vel. En hversu langur tími líður þangað til að hið þægilega líf verður leiðinlegt? Flestir hafa upplifað tilfininguna að vera þreyttur á þægindum, t.d. þegar einstaklingar eru búnir að vera fríi frá vinnu of lengi eða þegar þeir eru búnir að liggja á bakkanum á Spáni tólf daga í röð, þá hreinlega þrá þeir að komast aftur heim í rútínu og venjulega lífið.

Auðvitað er gaman og mikilvægt að fara til útlanda, horfa á bíómynd eða njóta þess að líða þægilega inn á milli. En vandamálið er þegar einstaklingar kjósa stöðugt að sækja í þægindi og skammvinnu ánægjuna sem því fylgir.

Flestir standa frammi fyrir tveim valkostum hverju sinni. Fyrri valkosturinn er sækja meðvitað í stöðug þægindi án allrar ábyrgðar. Mér finnst það val í lagi ef fólk er meðvitað um afleiðingarnar. Þeir sem kjósa þennan valkost fórna því að lifa merkingarfullu lífi og eiga í hættu á að verða þunglynd, pirruð og bitur út í sjálfan sig og lífið.

Hinn valkosturinn er að gera það sem er óþægilegt, erfitt og krefjandi:

  • Það er að sækjast í áskoranir
  • Það er að þora að stefna á hluti þrátt fyrir að það sé möguleiki á að mistakast.
  • Það er að sýna þrautsegju gagnvart hindrunum.
  • Það er að hafa trú á sjálfum sér þó maður viti ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
  • Það er að taka meðvitaða ábyrgð á möguleikunum sem maður hefur í lífinu jafnvel þó maður geti ekki vitað hvað gerist ef við veljum valkost A í staðinn fyrir valkost B.
  • Það er að sýna hugrekki gagnvart kvíðanum sem fylgir því að vera á lífi því hann er aldrei að fara.

Þetta er spurning um að taka eitt skref í svokallaða ókannaða svæðið á meðan þú heldur einum fætinum inn í kannaða svæðinu. Í ókannaða svæðinu er óregla, óvissa, kvíði, erfiðleikar, áskoranir, hindraninir og óþægindi. Í kannaða svæðinu er allt á hreinu, reglur, þægindi og vitneskja. Of mikil þægindi skapa vanlíðan en óreiða og ótti fylgir of miklum óþægindum.

Að finna milliveginn í því að líða óþæginlega og þæginlega. Eins og þegar Jon Snow og hans föruneyti fóru norðan veggjarins að sækja eitt stykki White Walker. Líkt og þegar Sámur og Frodo tóku skrefið út úr héraðinu í áttina að Mordor. Eins og ég geri þegar ég fer í kalda sturtu á morgnana.

 Það er á þinni ábyrgð hvort þú kýst óþægindi eða þægindi hverju sinni. Hafðu þó þetta í huga: Ef lífið þitt er ekki á einhvern hátt óþægilegt og erfitt, þá miðar þér ekki áfram í lífinu. Þú stendur í stað. Þú vex ekki sem einstaklingur. Þú tekur í staðinn lítil skref aftur á bak.

Taktu eitt skref inn í ókannaða svæðið. Þar er er lærdóm og grósku að finna. Þar upplifir þú tilgang með tilverunni. Þar eflist þú og verður betri einstaklingur í dag heldur en þú varst i gær.

MILLIVEGURINN #23 – SÖLVI TRYGGVA

andleg heilsaandleg vellíðan

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggva hefur gengið í genum margt á síðustu árum. Hann gaf út bókina: Á eigin skinni, sem hefur hlotið miklar vinsældir. Undanfarið hefur Sölvi verið að halda fyrirlestra í tengslum við bókina þar sem hann fer yfir sínar leiðir í átt að betri heilsu og auknum lífsgæðum. Við töluðum meðal annars um streitu, hvernig við getum komið í veg fyrir kulnun, að gera hluti sem stangast á við samfélagsleg norm, þróun lífverunar, muninn á hreyfingu og æfingu, öndun, hvað við eigum að borða, geðlyf, lífstílsbreytingar og margt margt fleira.

ÞRÓAÐU HUGREKKI TIL AÐ VERA TRÚR SJÁLFUM ÞÉR

andleg heilsaandleg vellíðan

Álit annarra er eitthvað sem snertir okkur öll en mismikið. Á meðan sumir eru algjörlega háðir áliti annarra, temja aðrir sér þann eiginleika að haga sér á þann máta sem það vill án þess að þurfa að taka áliti annarra inn í myndina.

Það getur skapast ákveðin togstreita á milli þess að vera trúr sjálfum sér og áliti annarra. Það skapar ákveðið vandamál þar sem einstaklingar eiga það til að hegða sér á ákveðinn máta sem er kannski ekki alveg í samræmi við það hver þeir raunverulega eru. Það getur verið út af ákveðnum félagslegum normum og/eða pressu frá samfélaginu um hvernig við eigum að haga okkur. Þessi barátta getur valdið manni óþægilegum kvíða en með varnarviðbrögðum þrýstum við þessum kvíða undir yfirborðið.

Einstaklingar sem eru ekki trúir sjálfum sér fórna ábyrgðinni sinni til að vera partur af hóp, sem er auðvelda leiðin. Það er miklu auðveldara að gera það sem hópurinn gerir því það samfélagslega viðurkennt. Erfiða leiðin er að taka ábyrgð og þora að lifa í samræmi við sjálfan sig og sín gildi. Það er miklu erfiðara að leiða heldur en að fylgja hópnum. Það getur falið í sér ýmsar áhættur því það getur stangast á við sjónarmið margra.

Það er stöðug barátta að þora að vera maður sjálfur. Þú nærð ekki einhverjum stað þar sem þú ert algjörlega orðinn trúr sjálfum þér. Við erum óumflýjanlega í þessum heimi með öðrum einstaklingum sem við þurfum að taka inn í myndina. Spurningin er hinsvegar hvort þú viljir taka annað fólk inn í myndina sem samþykkir ekki hver þú ert. Að mínu mati er tímasóun að eyða tíma með fólki sem samþykkir mann ekki.

Ég held að flestir þurfi að ákveða fyrir sjálfan sig hversu mikið þeir vilja vera trúir sjálfum sér. Það þarf hinsvegar ekki endilega að meta þetta í algjörum andstæðum, að annaðhvort sértu algjörlega háður áliti annarra eða gjörsamlega trúr sjálfum sér. Ég tel að þetta sé samblanda. Ég held samt að því nær sem þú þorir að vera trúr sjálfum þér því meiri ánægju færðu. Þróaðu hugrekki til að vera trúr sjálfum þér. Það er afar frelsandi og getur gefið manni sanna vellíðan.

MILLIVEGURINN #22 – EVERT VÍGLUNDSSON

andleg heilsaandleg vellíðan

Það er ákveðin ára yfir Everti, enda mikill talsmaður þess að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Hann mætti hjólandi til okkar í Kópavoginn og talaði meðal annars um svefn, félagsskap, hreyfingu, streitustjórnun, föstur, mataræði, trú, og erfiðar áskoranir eins og 100 kílómetra hlaup, iron man og Navy SEAL Hell Week. Takk fyrir að hlusta!

HAGNÝTAR LEIÐIR TIL AÐ EFLA SAMBÖND

Það er heilmikil fórn falin í því að ákveða að deila lífinu með öðrum einstakling. Við erum öll ólíkir persónuleikar, með ólíka sýn á heiminn og með mismunandi þarfir, vætningar, gildi og reynslu. Það getur skapað ákveðið vandamál þar sem þrjóskan við að ríghalda í sína heimsýn getur verið ansi kröftug og haft mikil áhrif á sambandið milli tveggja einstaklinga.

Þar sem þú eyðir gífurlega miklum tíma með makanum þínum yfir ævina er mikilvægt að spá í hvernig maður getur stuðlað að ánægjulegu og heilsusamlegu sambandi. Stundum þarf maður að standa fastur á sínu, stundum þarf maður að gefa eftir, stundum þarf maður að taka makanum sínum eins og hann er og líta á hlutina frá fleiri en eigin sjónarhorni. Ég ætla að segja ykkur frá nokkrum þáttum sem gætu haft góð áhrif á ykkar sambönd.

 Heiðarleiki – Segðu sannleikann

Ég tel að heiðarleiki sé mikilvægasti þátturinn í að stuðla að góðu sambandi. Það er fáránlega mikilvægt að segja sannleikann og það sem manni liggur á brjósti. Sannleikurinn er sagna bestur. Það getur hinsvegar verið erfitt að segja sannleikann sem gerir það að verkum að einstaklingar „fresta“ því. Það er miklu auðveldara að gleyma vandamálinu heldur en að tala um það.

Þessi leið er ekki líkleg til árangurs. Að fresta sannleikanum og lifa í meðvitaðri blindni nagar þig nefnilega meira seinna meir og hefur sennilega meiri áhrif á þig en þú heldur. Það getur haft þau áhrif að þú verður reiðari í langan tíma, það þarf minna til að stuða þig, tilfinningarnar hlaðast upp og að lokum er mjög líklegt að þú hreinlega springir.

„Ég er búin að vera í óhamingjusömu sambandi í þrjú ár“ – Af hverju í fjandanum þurftirðu að bíða í þrjú ár með að segja sannleikann? Myndirðu nenna að sóa þremur árum af lífinu þínu bara út af því að þú varst hrædd/ur við að segja sannleikann?

Taktu ábyrgð, sýndu hugrekki og segðu sannleikann þó svo það sé erfitt. Það er erfitt á því augnabliki en til lengri tíma ertu miklu líklegri til að eiga í góðu sambandi. Segðu það sem liggur þér á brjósti, því fyrr því betra.

Það þýðir samt ekkert að þú hafir alltaf rétt fyrir þér. Þetta snýst ekki um að vinna samræðurnar. Í staðinn fyrir að vinna á móti hvoru öðru að vandamálinu þá eigið þið að vinna saman að því. Það þarf að vera jafnvægi milli þess að segja sannleikann og að sýna auðmýkt og að taka sannleikann frá hinum aðilanum inn í myndina. Ef báðir aðilar segja það sem liggur þeim á brjósti er líklegra að það komi einhver millivegur þar sem báðir aðilar eru hæfilega sáttir með niðurstöðuna.

Bættu hlutfallið milli jákvæðra og neikvæðra skilaboða.

Skilaboð á milli einstaklinga sem lifa í ánægjulegu sambandi eru fimm á móti einu. Semsagt fyrir hver fimm jákvæð skilaboð er eitt neikvætt. Settu þér markmið um að bæta þetta hlutfall. Þú getur gert það með því að sýna ást, hrósa og tjá þakklæti í garð maka þíns.

Svaraðu á virkan og uppbyggilegan máta

Þegar einstaklingar deila jákvæðum fréttum upplifa þeir jákvæðar tilfinningar. Þessar tilfinningar geta aukist enn fremur háð því hvernig aðrir einstaklingar svara þessum jákvæðu fréttum.

Það eru fjórar leiðir til að svara þegar einstaklingar segja þér frá jákvæðri upplifun (sjáðu hér að neðan). Svaraðu á virkan og uppbyggilegan máta þegar makinn þinn segir þér frá jákvæðri upplifun. Sýndu stuðning og svaraðu af áhuga.

Jákvæð upplifun: „Hey, ég fékk stöðuhækkun í vinnunni í dag“

Virkt uppbyggilegt svar:

Vá, algjör snilld. Vel gert! Hvað finnst þér um það? Hvernig leið þér þegar yfirmaðurinn tilkynnti þér það? Þú ert búin/n að vera rosa dugleg/ur

Óvirkt uppbyggilegt svar:

Það er snilld.

Virkt óuppbyggilegt svar:

En þarftu þá ekki að vinna meira? Hvernig ætlarðu að fara að því? Heldurðu að þú hafir tíma í það? Ég myndi ekki taka að mér meiri vinnu ef ég væri þú.

Óvirkt óuppbyggilegt svar: 

Ég fór að borða áðan og maturinn var…

 

Að lokum getur verið gott að minna sig á að samband milli tveggja aðila er ekki alltaf dans á rósum, rétt eins og lífið. Að vera í sambandi getur innihaldið góða tíma og slæma tíma, sigra og töp, mistök og árangur. Það er mikilvægt að kunna að meta allar upplifanir þar sem þær geta kennt manni margt.

Settu vinnu í sambandið. Það skilar sér margfalt til baka!

MILLIVEGURINN #20 – SUNNA TSUNAMI

Þessi einlæga stelpa sagði okkur frá frá hennar vegferð í lífinu. Hún talaði meðal annars um bardadagakvöldið sem er framundan hjá henni, hvað MMA hefur styrkt hana sem manneskju og hvað hún hefur tamið sér til að ná velgengni í lífinu.

MILLIVEGURINN – VÍSINDAMIÐLARINN SÆVAR HELGI

andleg heilsaandleg vellíðanPlöntufæði

Sævar Helgi er stútfullur af ástríðu fyrir jörðinni, náttúrunni, geimnum og vísindum. Hann spjallaði við okkur um hvað verður um komandi kynslóðir ef við förum ekki að líta í eigin barm, einfaldar leiðir sem geta haft jákvæð áhrif á umhverfið, hvort það sé líf á öðrum hnöttum, hvernig við eigum að líta á hamingju og margt margt fleira.

 

SEX EINFALDAR LEIÐIR TIL AÐ BÆTA SVEFNINN ÞINN

andleg heilsaandleg vellíðanSamstarf

Ég held að það sé ekkert jafn mikilvægt eins og svefn í þessu lífi. Við sofum um það bil einn þriðja af ævinni okkar. Það vita allir hvað svefn er mikilvægur en samt fá mörg okkar ekki nógu góðan svefn og margir eiga í erfiðleikum með að sofa, sem getur haft veruleg áhrif á heilsuna okkar. Svefnleysi getur haft vond áhrif á einbeitingu, skap, minni, lærdóm, ónæmiskerfið, fjölskyldu og félagslíf, stress, þyngd og svo lengi mætti telja.

Þess vegna langar mig til að segja ykkur frá vel völdnum atriðum sem Matthew Walker (svefnsérfræðingur) mælir með og ég hef tileinkað mér til að bæta svefn. Margir hlutir geta nefnilega haft áhrif á hversu þreytt við erum, hversu fljótt við sofnum og hversu gæðamikill svefninn verður. Hann mælir með að við sofum í 7 ½ til 9 tíma. 

Minnkaðu ljós fyrir svefninn

Það er bæði mikilvægt að fá dagsbirtu  á daginn og að hafa dimmt í kringum sig á kvöldin.

  1. Slökktu á helmingnum af ljósunum heima hjá þér 3-4 tímum fyrir svefninn.
  2. Forðastu bláu ljósin frá sjónvarpinu, símanum og tölvunni 1-2 tímum fyrir svefninn. Þróaðu góða svefnrútínu. Farðu aðeins fyrr upp í rúm og gríptu góða bók með þér til að lesa.

Hugaðu að hitastiginu

  1. Hafðu herbergið í kaldari kantinum. Best er að hafa hitastigið í herberginu á milli 17 til 19 gráður, sem er frekar kalt!
  2. Farðu í heitt bað.

Það þekkja það allir hvað maður sefur vel eftir heitt bað. Í fullkomnum heimi færi ég í heitt bað á hverju kvöldi. Það hjálpar þér að slaka á og forðast streituvaldandi áreiti sem getur látið hausinn fara á milljón.

Ég hef verið að vinna með frábæra viðbót undanfarið við heita baðið á kvöldin, baðsaltið frá Dr. Teals. Ég hef verið í samstafi við Dr. Teals undanfarna mánuði og ég er mikill aðdáandi af vörunum þeirra. Þau eru með þrjár vörur (baðsalt, freyðibað og sturtusápur) sem eru allar byggðar upp á epsom salti og koma í tveimur ilmum: Róandi lavender og frískandi engifer.

Afhverju er ég að segja ykkur frá Dr. Teals? Epsom salt getur haft marga góða ávinninga fyrir heilsu og vellíðan. Það getur haft bólgueyðandi áhrif, minnkað verki, róað þreytta vöðva og þannig veitt djúpa slökun og bætt svefninn. Mér finnst baðsaltið tryllt vibóð við heita baðið á kvöldin og auka ávinninga baðsins en frekar. Ofangreindir þættir hafa líka virkilega góð áhrif á endurheimt sem er gríðarlega mikilvægt fyrir alla þá sem eru í íþróttum eða stunda einhverja hreyfingu.

 Slepptu koffíni eftir hádegi

Ég held að það viti flestir að maður eigi að sleppa koffíni en ég fann mikinn mun á svefninum hjá mér eftir að ég hætti að drekka koffín eftir klukkan 13:00. Ég mæli með að prófa það.

Sumir segjast sofa eins og englar þó svo þeir fái sér einn bolla á kvöldin. Matthew talar hins vegar um það að gæði svefnsins minnkar við kaffineyslu stutt fyrir svefninn svo hann getur haft veruleg áhrif á svefninn þinn án þess að þú vitir af því. Í podcastinu hjá Rondhu Patrick talar hann um að 6 tímum eftir síðasta kaffibollann er einn fjórði af bollanum ennþá í kerfinu. Þannig að ef þú færð þér bolla klukkan 16:00 og ætlar að sofna klukkan 22:00, þá er eins og þú dúndrir í þig einn fjórða af kaffibolla rétt fyrir svefninn. Held að það myndu ekki margir gera það!

Forðastu streituvaldani áreiti

Slepptu því að kíkja á emailið rétt fyrir svefninn eða hafa óþarfa áhyggjur af hlutum sem skipta littlu máli. Heitt bað og lestur getur skapað góða og stresslausa rútínu og aukið líkurnar á betri svefni. Það getur líka verið mjög gott að vera búinn að plana morgundaginn áður en þú ferð upp í rúmið því þá þarftu ekki að husa um og hafa áhyggjur af verkefnum morgundagsins. 

Þróaðu svefnrútínu

Matthew talar um að stöðugleiki í svefni sé algjört lykilatriði. Reyndu að sofna og vakna á sama tíma alla daga vikunnar.

Ekki rembast við að reyna sofna þegar þú átt í erfiðleikum með að sofa

Afhverju segi ég það? Jú Matthew talar um að ef maður á í erfiðleikum með að sofa og rembast við það að sofna í herberginu þá tengir heilinn það saman. Þá er svefnherbergið komið með tengingu við það að sofna ekki eða eiga í erfiðleikum með að sofa. Þegar við förum svo fram í sófa og sofnum þar þá tengir heilinn sófann við það að sofa.

Hann mælir frekar með að fara fram og lesa. Þegar þú verður þreytt/ur þá skellirðu þér síðan upp í rúm og sofnar. Þetta er klárlega einhvað sem ég ætla að prófa næst þegar ég er andvaka!

Ef þú ert ekki nú þegar búin/n að hlusta á podcastið með Matthew Walker hjá Joe Rogan eða Dr. Rhondu Patrick þá mæli ég með því að þú gangir beint í það og lærir ennþá meira um hvernig þú getur stuðlað að góðum svefni!