MILLIVEGURINN #10 – SVEPPI

Maðurinn sem mótaði hluta af minni æsku, Sveppi. Það var alveg ótrúlega gaman að tala við hann. Við hlógum nánast stanslaust í tvo tíma. Sveppi sagði okkur frá 70 mínútum, gríni, óþægindum, bróðurmissi og skemmtilegum uppákomum í gegnum tíðina. Þátturinn er kominn á youtube og podcast appið. Takk fyrir að hlusta/horfa!

TEMDU ÞÉR ÞESSA EIGINLEIKA EF ÞÚ VILT BÆTA ÞIG Í SAMSKIPTUM

andleg vellíðan

Margir hverjir eru frekar daprir í samskiptum og aðrir geta alltaf bætt sig. Ég skil það samt vel þar sem við fáum enga kennslu í því hvernig á að vera góð/ur í samskiptum. Við eigum í fjölmörgum samskiptum daglega við fjölbreyttan hóp af fólki, t.d. við fjölskyldu, vini, viðskiptavini, í vinnunni og í ræktinni. Þínir samskiptaeiginleikar skipta virkilega miklu máli fyrir þig, aðilann sem þú ert að tala við og ykkar samband. Með því að temja þér góða samskiptaeiginleika getur þú haft verulega góð áhrif á einstaklinginn sem þú talar við, hvernig þessum einstaklingi líkar við þig og á innihaldið í ykkar samræðum.

 Lélegir eiginleikar í samskiptum

Illu er best af lokið. Byrjum á að telja upp slæma eiginleika í samskiptum. Þið tengið örugglega flest öll við þessa þætti og það þarf ekkert að skammast sín fyrir það.

1. Að toppa frásögnina hjá einstaklingnum sem er að tala.

Þið munið eflaust eftir atriðinu með Pétri Jóhanni í Svínasúpunni þar sem hann var alltaf að segja „Iss það er ekkert. Einar frændi minn…“

2. Að hlusta ekki á einstaklinginn heldur einungis að hugsa um hvað þú ætlir að segja þegar hann er búinn að tala

Ef svo er, þá hlustar þú líklega ekki almennilega á einstaklinginn sem gerir það að verkum að þú ert líklegri til að koma með svar sem er ekki í samræmi við umræðuefnið

3. Að reyna að vinna samtöl

Þegar við förum inn í samtöl til að vinna þá horfum við á hlutina einungis út frá okkar sýn á heiminn. Ég og mitt heimskort höfum rétt fyrir okkur. Þá tekurðu ekki inn önnur sjónarhorn sem gætu eflað samræðurnar og þína vitneskju. Þú veist nefnilega miklu minna heldur en þú veist ekki.

4. Að grípa fram í og klára setningar hjá öðrum

Að grípa fram í segir sig sjálft. Að klára setningar hjá öðrum er hinsvegar óljósara. Við höldum yfirleitt að við séum að gera einstaklingnum greiða með að klára setningar fyrir þá en hugsanlega er þessi einstaklingur að hugsa um ákjósanlegasta orðið fyrir samræðurnar. Gefðu einstaklingnum tíma í að finna orðið.

Góðir eiginleikar í samskiptum

1. Að veita athygli og einfaldlega hlusta

Það er ótrúlegt hvað fólk er tilbúið að segja þér ef þú hlustar. Ég geri þetta þegar ég fæ fólk til mín í þjálfunarsálfræði. Ég fæ fólk til mín og ég hlusta og tala, hlusta þó miklu meira. Margir hafa nefnilega ekki aðgengi að einstaklingi sem vill virkilega hlusta á þig. Það er óalgengt í okkar nútíma samfélagi. Það er gott að einbeita sér að líkamstjáningu einstaklingsins til að halda athyglinni í samræðum.

 3. Að vera forvitin og spyrja nánar

 Þú getur lært heilmikið af öðrum einstaklingum. Það er líka ótrúlega gott að tala við manneskju sem er forvitin og hefur virkilega áhuga á þér.

 3. Að sýna samúð

Að gefa einstaklingum tækifæri á að ræða eitthvað atvik sem hefur tilfinningalegt gildi og geta sett sig spor annarra. Fólki mun líða eins og það sé mikils metið og þetta getur styrkt ykkar samband mjög mikið.

4. Að taka samantekt úr frásögn

Góð þumalputtaregla getur verið að taka saman frásögn hjá einstaklingnum sem þú ert að tala við. Þú og einstaklingurinn eruð líklegri til að skilja hvorn annan og átta ykkur á hvort þið séuð á sömu blaðsíðu eða ekki. Einstaklingurinn finnur virkilega fyrir því að þú sért að hlusta á hann og þú ert líklegri til að muna betur.

Þú getur notið góðs af því að reyna að lágmarka lélegu eiginleikana og hámarka góðu eiginleikana í þínum samskiptum. Einstaklingurinn sem þú ert að tala við mun líða betur, hann/hún mun kunna að meta þig betur og þið verðið nánari fyrir vikið þar sem samtölin eru líklegri til að verða dýpri en ekki um eitthvað yfirborðskennt kjaftæði. Þér mun líða betur, bæði útaf því að þú átt í merkingarlegum samræðum og þú ert að gefa af þér til einstaklingsins með því að vera góður hlustari. Þó það sé ansi krefjandi þá er það allra meina bót að temja sér góða samskiptaeiginleika!

 

MILLIVEGURINN #9 – ARNÓR SIGURÐSSON

Arnór Sigurðsson spilaði í pepsi deildinni árið 2016. Tveimur árum seinna, 2018, skoraði hann og lagði upp á móti Real Madrid í meistaradeildinni.

Þessi auðmjúki einstaklingur sagði okkur talaði um mikilvægi þess að setja sér markmið, að hafa trú á sjálfum sér, að hafa félagslegan stuðning, að njóta augnabliksins og að vera góður einstaklingur þó manni gangi vel í lífinu.

Takk fyrir að hlusta/horfa!

NOW afsláttarkóði (25%): MILLIVEGURINN.

MILLIVEGURINN #8 – ARNAR PÉTURSSON

andleg vellíðan

Long time no podcast. Loksins er kominn nýr þáttur inn á podcast appið og á youtube. Við ræddum við besta hlaupara Íslands, Arnar Pétursson. Hann er mikill hugsuður og við töluðum meðal annars um tilgang lífsins, gildi, venjur, þrautsegju og að sjálfsögðu allt sem viðkemur hlaupum. Vonandi hafið þið gaman af!

Við erum líka með gjafaleik í samstarfi við NOW í podcast þættinum. Við ætlum að gefa tveim heppnum aðilum “Millivegsbætiefnapakka”. Endilega tjékkið á instagrammið mitt @beggiolafs til að vita hvað þú þarft að gera til að vinna!

GEFÐU SANNAR GJAFIR UM JÓLIN

andleg vellíðan

Besti tími ársins að renna í hlað að mínu mati, jólin. Ég er mikið jólabarn, elska að borða góðan mat, eiga gæða stundir með mínu besta fólki og ég tala nú ekki um jóla-andann. Það er eitthvað við jólin sem er svo yndislegt.

Þrátt fyrir þessu frábæru eiginleika sem jólin hafa, þá kemst maður ekki framhjá því að hugsa til þeirra sem minna mega sín. Þá er ég að tala um einstaklinga sem hafa ekki einu sinni aðgang að mat, vatni og hvað þá gjöfum. Hlutir sem maður tekur sem sjálfsagða.

Því langar mig til að vekja athygli á Sönnum Gjöfum frá UNICEC, sem eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstatt börn. Gjafirnar sem þú kaupir í vefverslun UNICEF er dreift til barna og fjölskyldu þeirra í samfélögum þar sem þörfin er mest. Sannar gjafir eru keyptar í nafni þess sem þig langar til að gleðja og þú getur keypt þær á www.sannargjafir.is

Þú færð fallegt gjafabréf með ljósmynd og lýsingu á gjöfinni og lætur viðkomandi fá bréfið. Hjálpargögnin sjálf eru hins vegar send úr birgðastöð UNICEF til barna í neyð. Þegar þú kaupir sanna gjöf gleður þú bæði viðtakanda gjafabréfsins og börn sem eiga um sárt að binda. Í gjafaúrvali okkar er að finna nauðsynleg hjálpargögn sem UNICEF dreifir til barna um víða veröld, svo sem bóluefni, skólagögn, næringu og lyf.

Sannar gjafir eru tilvalin jólagjöf ef þú vilt virkilega gefa af þér til einstaklinga sem minna mega sín. Ég ætla fjárfesta í Sönnum gjöfum og mæli með að þú gerir slíkt hið sama. Þú ert nefnilega ekki bara að gera þessum börnum gott heldur líka sjálfum þér, þar sem þér á eflaust eftir að líða vel að hafa látið þitt að mörkum.

Að lokum finnst mér mikilvægt að skrifa nokkur vel valin orð um þakklæti. Reynið að vera eins dugleg og þið getið minna ykkur á að vera þakklát fyrir það sem þið hafið um jólin. Í rauninni er allt maður óskar sér nú þegar í lífinu manns. Maður er svo fljótur að gleyma stóru og litlu hlutunum í lífinu sínu sem eru nú þegar frábærir. Ég er alls ekki saklaus með það og þetta er eitthvað sem þarf stanslaust að vera minna sig á. Ég væri til í að það væri bankað í mann helstu vikulega og minnt mann á allt sem er fyrir framan mann. Það er mikilvægt að líta í kringum sig og vera meðvituð um hversu auðugt lífið manns er.

SVONA LÍTUR L.A. ÚT | VLOG 22

Vlog númer 2 af ferðinni okkar um Bandaríkin. Við hittum Svila og Jónu (systir Hildar) í L.A. og þar áttum við mjög góðar stundir saman. Svili hefur lengi beðið eftir stóru hlutverki í vloginu og því má segja að draumurinn hjá honum hafi ræst í þessu vlogi þar sem hann er með stórleik. Takk fyrir að horfa!

Ég læt síðasta vlog fylgja með hér að neðan, ef þið mistuð af því. Þar sem ég sýndi frá San Fran og Roadtrippi niður til L.A!

SAN FRAN & ROAD TRIP | VLOG 21

Langt síðan síðasta vlog kom en ég ætla aðeins að stíga upp í þeim málefnum á næstu vikum. Ef þið hafið áhuga á að fylgjast með okkur í ferðalagi um Bandaríkin, þá endilega horfið á næstkomandi vlog.

Þetta er fyrsta vlogið mitt af fjórum sem ég ætla sýna frá Bandaríkjunum. Næst kemur vlog frá L.A. svo frá Hawaii (þar sem ég er staddur núna) og svo frá San Diego.

Í vloginu sýni ég frá hvað við vorum að bralla í San Fransisco og frá roadtrippinu til L.A. Vonandi hafið þið gaman af þessu. Takk fyrir að horfa!

MILLIVEGURINN #7 – ÁSLAUG ARNA

Þessi flotta fyrirmynd kom í Milliveginn og sagði okkur frá því hvernig hún var allt í einu komin á þing, hvernig hún dílar við umtal um sjálfan sig, erfiðleika í lífinu, mikilvægi þess að vera óhrædd/ur og að sjálfsögðu pólitík.

 

SKELLTU ÞÉR Í HEITT BAÐ!

andleg vellíðanSamstarfvegan

Slakaðu á og gefðu þér tíma í þig sjálfa/n. Settu súrefnisgrímuna á þig sjálfan áður en þú setur hana á barnið. Hvort sem það er að lesa góða bók, hreyfa þig, fá þér gott kaffi eða jafnvel fara í heitt bað. Ég hef aðeins verið að vinna með að fara í heitt bað sem hluti af minni kvöldrútínu til að róa hugann og slaka á eftir amstur dagsins. Ég læt renna í bað, set jafnvel eitthvað skemmtilegt podcast á og eyði smá tíma með sjálfum mér.

Ávinningarnir sem fylgja því að fara í heitt bað á kvöldin eru nokkrir. Það er gott fyrir svefninn, þar sem líkaminn eyðir orku í að komast í rétt hitastig og því verðum við þreyttari og eigum auðveldara með að sofna og sofum gæðameiri svefni.

Það er góð núvitund að fara í bað og það róar hugann. Við könnumst öll við þegar hausinn er milljón þegar við erum að fara sofa, stanslausar áhyggjur af verkefnum morgundagins eða yfir lífinu yfirhöfuð. Í fullkomnum heimi, þá myndi ég fara í heitt bað á hverju kvöldi.

Þessvegna var ég mjög ánægður með þegar Dr. Teals hafði samband við mig til að athuga áhuga á samstarfi. Dr. Teals eru baðvörur sem hafa skapað sér sérstöðu á amerískum markaði. Baðvörurnar innihalda epsom sölt, sem samanstendur af magnesíum og súlfati. Magnesíum súlfat getur haft ýmsa heilsufarsávinninga eins og að róa þreytta vöðva, minnka verki, fjarlægja dauðar húðfrumur, bæta svefn og minnka stress.

 

Dr. Teals er með þrjár vörur til sölu á Íslandi og þær innihalda allar epsom salt: Ilmandi baðsölt, sturtusápa og freyðibað. Þær koma í tveimur ilmum, Lavender og Engifer. Ég vinn mest með baðsöltin í baðið og sturtusápuna og finnst báðir ilmirnir bara mjög góðir.

Ég vil bara vinna með vörumerkjum sem mér líkar vel við og trúi á. Mér fannst algjör snilld að ég gæti fengið frekari ávinninga af heitu baði heldur en ég gerði. Nú hef ég verið að vinna með þessar vörur í smá tíma og mér líkar afar vel við þær. Ég elska að fara í bað eftir erfiðan æfingardag þegar ég er stífur til að flýta fyrir endurheimt, sem er einn mikilvægasti þáttur í íþróttum í dag.

Þannig hvort sem þú vilt slaka á eftir erfiðan dag, flýta fyrir endurheimt, bæta svefninn þinn og jafnvel minnka verki, þá gæti verið sterkur leikur slá tvær flugur í einu höggi með því að skella sér í heitt bað og lauma Dr. Teals í baðkarið. Vörurnar fást í Hagkaupum, Lyf og Heilsu, Lyfju og fleiri verslunum!