Fanney Ingvars

FÖSTUDAGSLÚKK

HELGINLÍFIÐOUTFIT

 Samfestingur: ZARA
Eyrnalokkar: ZARA
Skór: ZARA

Óvart allt dressið úr Zöru. Við fórum í mat til einstaklega góðra vina á föstudagskvöldið. Ég fékk ótrúlega margar spurningar út í samfestinginn minn sem ég klæddist eftir að ég birti mynd á Instagram. Hann keypti ég í Zöru fyrir nokkrum mánuðum í USA í sumar. Ég veit ekki hvort hann sé enn til? Þegar ég keypti hann sá ég hann miklu frekar fyrir mér sem casual en ákvað að poppa hann upp á föstudaginn var og var mjög ánægð með það.

Instagram: fanneyingvars
xx Fanney

STAÐAN: FLUTNINGAR

Góðan daginn! Það er lítið annað að frétta af mínu heimili en flutningar og allt sem flutningum tengist. Mig langaði að gefa ykkur smá update á stöðu mála og smá innsýn inn í þessi ósköp sem framundan eru hjá okkur, hvenær við flytjum, hvað við ætlum að gera í íbúðinni og þess háttar. Staðan er semsagt sú að við fáum afhent 1. desember, við afhendum einnig okkar íbúð 1. desember! Ekki spyrja mig af hverju það æxlaðist svoleiðis, það er ekki aðal atriðið. ;) Við þurfum því að flytja til mömmu og pabba í smá tíma á meðan við gerum það sem við ætlum að gera við íbúðina. Við erum alls ekki að fara í neinar stórvægilegar framkvæmdir en það sem við ætlum að gera mun hinsvegar gjörbreyta íbúðinni. Það eru mjög fallegar innréttingar frá Brúnás í íbúðinni, við ætlum að sjálfsögðu að halda þeim en þær eru allar í þessum klassíska eikarlit, sem og allir skápar, hurðir og gólf. Við ætlum að mála þetta allt, innréttingar, skápa og hurðir og einnig ætlum við að pússa parketið og lakka það í öðrum litatón. Veggirnir verða svo allir málaðir, ný gluggatjöld sett í alla glugga, svo þetta eitt og sér mun breyta henni stórkostlega. Einnig þarf svo aðeins að eiga við baðherbergið og þvottahúsið. Ég ætla að reyna að leyfa ykkur að koma með í þetta verkefni eins mikið og ég get. Sýna ykkur hvernig íbúðin er þegar við tökum við henni, sýna ykkur frá framkvæmdum og þar til að allt verður tilbúið. Líkt og ég hef áður sagt þá er heimili verkefni sem er aldrei fullkomnlega tilbúið, í raun eilífðar vinna sem alltaf er hægt að dunda sér í. Það er alls ekki raunhæft að leyfa sér að halda það að allt verði tilbúið fyrir jólin. Það er sannarlega ekki svoleiðis. Við höfum t.d. verið að kaupa okkur húsgögn sem þurfti að sérpanta og taka sum 8-12 vikur í framleiðslu. Sum rými verða því ekki fyllt fyrr en einhverntímann á næsta ári. Þetta kemur allt með kalda vatninu og það er afar mikilvægt að vera þolinmóður í svona verkefni! Fullt af ákvörðunum sem þarf að taka og ýmislegt sem er ekki hægt að ákveða fyrr en maður er fluttur inn! Litir, gardínur og húsgögn er ég því mikið með á heilanum þessa dagana ásamt því að vera hægt og rólega að koma búslóðinni fyrir í kössum. Tímasetningin er kannski ekki sú besta heldur þar sem það eru að koma jól og það er alltaf eitthvað auka stress sem því fylgir. Þessi tími líður svo ótrúlega hratt, alltaf nóg um að vera. Staðan á heimilinu er nokkurn veginn svona, allt komið af veggjum og verið að týna úr hillum. (Þetta er meira að segja smá glansmynd þar sem það er allt í drasli) ;)

En eins og þið kannski sáuð  hér fyrir neðan þá var ég að selja af mér föt og skó. Það tók miklu meiri tíma en mig óraði fyrir, en ég er búin að vera í fullri vinnu og rúmlega það við þetta síðustu daga. Ég hef eflaust aldrei selt jafn mikið magn og núna og því er það svosem skiljanlegt. Að finna þetta til, taka myndir af öllum flíkum, setja þær á netið, svara óteljandi skilaboðum, mæla sér svo mót við alla um að koma og sækja. Þetta er mikil vinna en ofsalega þess virði! Mér þykir rosalega vænt um að geta gefið þessum flíkum nýtt líf og eins fékk ég mörg ómetanleg skilaboð frá góðum “kúnnum” en ég fékk margar til mín oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á meðan söluferlinu stóð. Ég er hinsvegar fegin að þessu fari að ljúka en ég nefndi að ég mun eflaust setja inn eina og eina flík í gegnum flutningana svo fyrir áhugasama er ykkur velkomið að fylgjast með því. Ég ætla svo að fara með restina af því sem seldist ekki sem er dáágóður slatti í Konukot eða Kvennaathvarfið. Mig langaði ofsalega að koma flíkunum og skónum á stað þar sem að þörfin væri mikil og ég vissi að þetta yrði nýtt og fólk nyti góðs af. Þarna er hægt að finna marga kjóla sem vonandi gæti orðið jólakjóll einhvers. Ég spurðist fyrir á Instagram til að fá góðar ábendingar um hvar þörfin væri mest, hvort sem það væri einn einstaklingur eða stofnun. Ég fékk óteljandi skilaboð sem mér þótti afar vænt um! Ég fékk yfir 100 ábendingar um Kvennaathvarfið og Konukot svo það segir mér ýmislegt. Ef þið eruð í sömu hugleiðingum þá vitið þið allavega af því, eflaust kærkomið svona fyrir jólin. <3

Kona í aðeins öðruvísi stússi en vanalega. Þennan daginn var það Álnabær, Ormsson og Slippfélagið. Í dag er það IKEA…. Sjáum til hversu lengi ég mun nenna að skvísa mig svona upp fyrir þessi mission. ;)

Þið sem eruð áhugasöm að fylgjast með flutningaferlinu þá minni ég á Instagramið mitt: fanneyingvars 

Þangað til næst,
xxx Fanney

FÖT TIL SÖLU

FATASALAFLUTNINGAR

Ég var búin að minnast á það hér fyrir stuttu að í vændum væri allsherjar tiltekt í fataskápnum og langaði mig að reyna að selja af mér flíkur og skó afar ódýrt. Í sumar fór ég í gegnum svarta ruslapoka sem urðu eftir í bílskúrnum hjá mömmu og pabba, 7-8 talsins allir fullir af fatnaði og skóm sem ég fór með í Rauða Krossinn. Ég ætlaði alltaf að fara í Kolaportið en fann hreinlega ekki helgi fyrir það og endaði þetta allt í Rauða Krossinum. Ég fór svo í gegnum fataskápinn hér í Barmahlíðinni fyrr í sumar og náði að fylla tvo svarta ruslapoka af fatnaði sem ég notaði minna. Planið var einnig að skella sér í Kolaportið með góssið en ungfrú frestunarárátta hefur ekki látið verða að því frekar enn fyrri daginn. Núna í annað sinn, vegna flutninga sem framundan eru er ég því aftur að fara í gegnum skápinn og ætla að reyna að losa mig við ýmislegt þar sem það er einfaldlega ekki pláss fyrir allan fatnaðinn í nýju íbúðinni. Ég ætlaði mér upphaflega að setja flíkurnar inn hér og leyfa ykkur að senda á mig í kommentum en áttaði mig strax á því hversu erfitt það yrði að sinna því. Ég byrjaði að setja fullt af flíkum inn á Instagram Story hjá mér í gærkvöldi, svo mikið að ég max-aði limitið sem hægt er að setja í Story svo að um helmingur af flíkunum sem ég setti inn hurfu fljótlega. Ég ætla aðeins að nota Instagramið mitt fyrir þetta svo að ég hafi allt á einum stað og ekkert fari í flækju. Ég á enn eftir að fara í gegnum fataskápinn en það sem fór á Instagram í gærkvöldi var það sem ég fór í gegnum í sumar. Ég er nú þegar búin að selja slatta af því sem ég birti í gær og á eftir að laga þetta aðeins sökum þess hversu mikið datt út í gær. Hér eru nokkrar myndir af þeim vörum sem eru nú þegar seldar, bara sem dæmi um það sem er í boði. Ég á eftir að bæta heilum helling við og ætla að reyna að dunda mér í því í dag, um helgina og í byrjun næstu viku.

Þessar flíkur eru allar seldar en það er miklu meira á leiðinni. Ég á líka alveg eftir að fara í yfir skóna. Ég nefni það aftur að ég er að selja þetta afar ódýrt en verðin eru á bilinu 500-3000kr og er algengast á milli 1000-2000kr. Ef þið viljið fylgjast með þessu þá kíkið þið endilega yfir á Instagramið mitt, fanneyingvars og fylgist með í Story. Ofsalega gaman að gefa fallegum flíkum nýtt líf!

Instagram: fanneyingvars

Annars segi ég bara góða helgi,
xxx Fanney

FYRSTI Í SNJÓ

…Allavega á höfuðborgarsvæðinu. Mikið var fallegt að vakna í gærmorgun og sjá allt hvítt úti. Hið fullkomna vetrarveður og höfuðborgin að skarta sínu fegursta. Snjórinn stoppaði að vísu stutt í þetta skiptið! Það hefur kólnað mikið og því hefur fataval breyst samkvæmt því. Tími til kominn að skipta út léttari yfirhöfnum fyrir þykkari kápur og úlpur. Ég fór í langan hádegismat í miðbænum með vinkonu minni í gær í þessu fallega veðri! Mómentið þegar þú ætlar í stuttan lunch með vinkonu þinni en hann endar á þriggja tíma deiti.

 Pels: Spúútnik
Peysa: H&M
Gallabuxur: Vila
Skór: Filling Pieces / Húrra Reykjavík
Taska: Blanche / Húrra Reykjavík

Hafið það gott!
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

LAUGARDAGUR

HELGINKOLBRÚN ANNALÍFIÐOUTFITSMÁFÓLKIÐ

Vonandi hafið þið átt notalega helgi. Helgin mín fór í ljúfar samverustundir með litlu fjölskyldunni minni og ýmis verkefni hér heima fyrir til að byrja að undirbúa flutninga sem eru á næsta leiti. Við fórum út að borða með góðum vinum á laugardagskvöldið og seinna um kvöldið hittumst við vinkonurnar á kaffihúsi niðri í bæ í einn (eða tvo…) drykki. Þegar vinkonuhópurinn tekur sig skyndilega til og gott sem pungar út börnum hvað eftir annað, fækkar (eðlilega), slíkum hittingum – en ég held að fyrir vikið verði þeir töluvert dýrmætari! Fyrir utan hversu dýrmætt það er að fá að upplifa það að vera samferða vinkonum sínum í barneignum. Meiriháttar kvöldstund með mínum bestu konum. Gærdagurinn fór svo í ýmislegt stúss hér heima, kvöldmat hjá foreldrum mínum og svo enduðum við uppi í sófa með líter af bragðaref! Þar hafið þið það!

Mömmumús <3

Kápa: Monki
Skyrta: H&M
Buxur: Zara
Skór: Fruit / GS Skór
Taska: Gucci

Kolbrún Anna:
Úlpa: Kuling / Petit
Peysa: Gjöf frá ömmu og afa frá Spáni
Buxur: MarMar / BíumBíum
Inniskór og kuldaskór: PomPom / Petit
Húfa: PomPoms & co

Laugardagskvöld í besta félagsskapnum!

Þessi vika mun eflaust einkennast af flutningastússi en íbúðin okkar er nú þegar komin á annan endan eftir að hafa tekið geymsluna í gegn um helgina. Ég er eiginlega búin að sætta mig við að íbúðin verður ekki fín og falleg fyrr en við berum seinasta kassann hér út. Ég ætla að fara í gegnum fataskápinn minn og reyna að selja fullt af fatnaði og skóm afar ódýrt! Það er einfaldlega ekki pláss fyrir allt og því er þetta nauðsynlegt verkefni. Fylgist endilega með hér og á Instagraminu mínu: @fanneyingvars ef þið hafið áhuga á því. Ég stefni á að hefjast handa við það mission í vikunni.

Þangað til næst!
xxx Fanney

Instagram: @fanneyingvars

OUTFIT OG MÖMMUVINKILL

LÍFIÐMÖMMULÍFIÐOUTFITPERSÓNULEGT

Gleðilegan föstudag! Afskaplega fallegt veður hér á höfuðborgarsvæðinu – kalt en blíða og fallegir sólageislar, einmitt eins og ég kýs að hafa það á þessum árstíma. Það var gaman að sjá hvað ‘Óskalistinn’, færslan mín hér fyrir neðan fékk góðar undirtektir. Ég mun klárlega gera þetta að föstum lið. Ég er mjög dugleg að taka skjáskot og/eða vista hjá mér myndir af því sem mér þykir fallegt svo það er gaman að setja hlutina saman niður á eitt blað. Ég sé alveg fyrir mér margs konar óskalista. T.d. fyrir heimilið líkt og ég gerði hér fyrir neðan, fatnað og skó, barnaföt og barnavörur. Mér finnst alveg must að halda aðeins í mömmuvinkilinn hér á þessu bloggi því ég veit að margir fylgja mér fyrir það eitt og sér að fylgjast með mömmulífinu. Ég hef fundið fyrir því síðan ég varð ólétt og finnst það ofsalega gaman. Þó ég hafi alveg átt ófáar vangaveltur um hversu mikið ég vil að dóttir mín birtist hér þá myndi ég aldrei geta sleppt því alveg. Hún er svo ólýsanlega stór partur af mér og mínu lífi og þar sem að bloggið mitt er afar persónulegt held ég að ég gæti hreinlega ekki verið bloggari án þess að henni bregði fyrir hér annað slagið. Mömmubloggið finnst mér líka skemmtilegur vinkill og veit að margir hafa gaman af því.

Svona fer ég oft að blaðra um eitthvað sem ég ætlaði mér alls ekki að gera í upphafi. Þegar ég byrjaði á þessari færslu var tilgangurinn aðeins til að birta saklaust dress sem ég klæddist í gær en allt í einu var ég komin út í eitthvað mömmuspjall. Ekki það, mig hefur lengi langað að koma aðeins inn á þetta og tala um hvað maður þarf að gera það upp við sig hversu mikið maður vill hleypa fólki inn í líf barna sinna með þessum hætti. Ég reyni að gera það hóflega og reyni að hafa sitt lítið af hvoru hér inni á. Mömmuvinkillinn finnst mér skemmtilegur og þykir mér afar vænt um þá fylgni sem ég hef fengið fyrir það að vera mamma og að finna fyrir því að fólk vilji fylgjast með fleiru en bara dresspóstum og “djamm”myndum. ;) Það eru svo ótal nýjar pælingar, spurningar, ákvarðanir og margt fleira sem fer í gegnum höfuðið á manni með þessu fallega mömmuhlutverki og áhuginn tekur stórt skref í glænýja átt. Mömmuvinkillinn mun því fylgja mér hér áfram þó ég sé enn að finna út úr hvernig ég vil stilla honum í hóf.

En yfir í það sem færslan upprunalega átti að snúast um var gærdagurinn. Afar fallegur dagur líkt og dagurinn í dag. Við vinkonurnar hittumst á kaffihúsi og fórum yfir ýmis málefni framan af degi. Seinni part dags fórum við Teitur svo á forsýningu á þáttunum Venjulegt fólk í Smárabíó. Við erum vel tengd listafólkinu á bakvið þættina en handritshöfundur, leikstjóri og leikarar í þáttunum eru miklir vinir okkar og vorum við því afar spennt að sjá fyrstu tvo þættina. Þeir verða sýndir í Sjónvarpi Símans og er ég vægast sagt spennt að sjá restina af seríuni! Til hamingju þið miklu snillingar!

  Pels: Minimum / Galleri 17
Blazer: Galleri 17
Leðurbuxur: ZARA
Skyrta: ZARA
Skór: Fruit / GS Skór
Taska: Gucci

Eigið dásamlega helgi!
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

ÓSKALISTINN // HEIMILIÐ

FLUTNINGARHEIMILIÐHÚSGÖGNÓSKALISTINN

Jæja, þá er komið að fyrsta óskalistanum á mínu bloggi. Þetta var afar löng fæðing, það verður að segjast, en mig hefur langað að gera færslu af þessu tagi frá því að ég byrjaði að blogga hér á Trendnet. Mér finnst alltaf mjög gaman að lesa slík blogg hjá öðrum og lengi verið á leiðinni að gera slíka færslu sjálf. Ég er ekki sú tæknivæddasta í bransanum og þurfti því að hringja í vin til að finna út úr hvernig best væri að útbúa færslu af þessu tagi. Það hefur að vísu ekki tekið mig marga mánuði að læra það, ég er ekki svo slæm, en var ósköp lengi að koma mér að verki. Hér er allavega minn fyrsti óskalisti og mikið er gaman að leyfa sér að dreyma… er það ekki annars?

Svo ég tengi þema óskalistans aðeins, þá eins og margir vita, eru flutningar í vændum hjá okkur fjölskyldunni og fáum við nýju íbúðina okkar afhenta 1. desember. Það styttist aldeilis í ósköpin en það er aðeins um mánuður til stefnu. Við erum að stækka aðeins við okkur og þurfum að kaupa okkur ný húsgögn og eins þurfum við að fara í örlitlar framkvæmdir, þó alls ekki stórvægilegar sem betur fer svona rétt fyrir jólin en við stefnum að því að vera flutt inn fyrir jól. OK við stefnum samt í ALVÖRU að því að vera flutt inn ca. 7. desember – nema fólki í kringum okkur finnst við full bjartsýn og segir okkur að þakka fyrir ef við náum að vera komin inn fyrir jól! Ég segi það því hér með að við allavega flytjum inn fyrir jól!

Ég sumsé, í ljósi aðstæðna geri ekki annað þessa dagana en að heimsækja húsgagnaverslanir, skoða heimasíður húsgagnaverslana og skoða Pinterest til að fá hugmyndir og innblástur. Guð minn góður hvað það er mikið til af fallegum vörum inn á heimilið! Þetta er samt ótrúlega skemmtilegur tími og stundum er líka gaman að leyfa sér að dreyma um vörur sem maður á sannarlega ekki efni á. Heimilið er í þokkabót eilífðarvinna og þó svo að manni langi innilega til þess að allt verði tilbúið, spikk og span fyrir jólin, er það alls ekki raunhæf hugsun.

Mér fannst eðlilegt að í ljósi þess að húsgögn og vörur inn á heimilið eiga hug minn allan þessa dagana, að það yrði fyrsti óskalistinn. Hann er alls ekki fullkominn en ég hlakka til að prófa mig áfram í þessu. Allar þær vörur sem mig dreymir um að eignast komust ekki fyrir á þennan fyrsta lista svo þið megið búast við öðrum af slíku tagi frá mér á næstunni!

1.  Hola bekkur með marmarabotni frá Bolia. Þessi guðdómlega fallegi bekkur hefur lengi verið á óskalistanum hjá okkur Teiti Páli. Við höfum margoft gert okkur ferð í Snúruna, þar sem hann fæst, til þess að láta okkur dreyma um hann. Ég sé hann fyrir mér á mörgum mismunandi stöðum. Inni í forstofu, í stofunni eða jafnvel í fataherberginu. Falleg vara sem getur prýtt hvaða rými sem er. Þessi bekkur verður okkar einn daginn!

2. Valby stóll frá Bolia. Það er greinilegt að þetta Bolia merki gerir mikið fyrir mig. Í nýju íbúðinni verðum við með bæði borðstofu- og eldhúsborð. Þessir stólar yrðu afar fallegir í borðstofunni. Ótrúlega stílhreinir og fallegir við eflaust hvaða borð sem er. Stólarnir fást í Snúrunni.

3. Circum hringspegill frá AYTM. Speglaæðið heldur klárlega áfram en ég held að við séum flest sammála um hvað fallegur hringspegill getur gert mikið fyrir rýmið. Við eigum fyrir fallegan hringspegil úr Sostrene Grone sem er ótrúlega góð og ódýr lausn og setur skemmtilegan svip á stofuna hér heima. Okkur langar ofboðslega að eignast þennan tiltekna spegil í stærstu gerð, sem er 110 cm. Hann kemur í mismunandi stærðum og gerðum og ég held að svarti liturinn yrði fyrir valinu í okkar tilfelli. Hann myndi setja ótrúlega fallegan svip á stofuna. Spegillinn fæst í Módern.

4. Hringborð frá VIGT. Mig hefur dreymt um að eignast þetta borð frá því að ég sá það fyrst! Ég ætla ekkert að skafa af því hversu fallegt mér þykir það en í mínum augum er það hið fullkomna hringborð! Alveg sérstaklega stílhreint og hægt að fá það í mismunandi stærðum, semsagt hægt að nota sem bæði eldhúsborð og borðstofuborð! Mér finnst fæturnir á borðinu guðdómlegir. Ég er að reyna að halda aftur að mér í fögrum lýsingarorðum en þið sem hafið rekist á þetta borð vitið eflaust öll hvað ég er að tala um. Vigt er íslensk hönnun sem gerir það enn fallegra og skemmtilegra. Ótrúlega margar fallegar vörur frá þessu merki. Þið finnið það HÉR.

5. Gólfmotta frá SEIMEI. Gólfmottur eru nýja æðið mitt og mikið er fallegt og gott úrval til af þeim. Ég gæti nánast gert sér óskalista um gólfmottur! Fallegar mottur setja ótrúlega skemmtilegan og hlýlegan svip á heimilið að mínu mati. Það eru margar á óskalistanum (mis raunhæf verð auðvitað). Þessi á myndinni er frá fallegu húsgagnaversluninni SEIMEI, eins er Dibbets gólfmotta frá Minotti sem fæst í Módern á óskalistanum, ótrúlega margar fallegar frá Kara Rugs, Snúrunni, IKEA og fleiri verslunum.

6. Kampavínsglös frá Frederik Bagger. Ég er alltaf að finna tilefni til að skála fyrir, þykir það ekki bara mjög eðlilegt? ;) Ég fékk þessi fallegu glös í afmælisgjöf frá vinkonum mínum og það væri ótrúlega gaman að safna nokkrum í viðbót. Glösin fást t.d. í Snúrunni.

7. Birdy veggljós frá Northern Lighting. Við erum alveg búin að ákveða að hafa veggljós fyrir ofan náttborðin í hjónaherberginu. Við vorum reyndar með annað ljós á óskalistanum sem er því miður hætt í sölu en þetta ljós hér að ofan kemst því næst! Mér finnst gylltu smáatriðin á ljósinu gera ótrúlega mikið! Þessi veggljós fást í Módern.

8. Lounge2 gólflampi frá Bolia. Þessi gólflampi væri fullkominn inn í stofu, hangandi yfir sófanum! Okkur dreymir um að eignast Arco gólflampann frá Flos sem fæst í Lumex en þessi tiltekni frá Bolia er töluvert nær þeirri verðhugmynd sem eðlileg þykir og alls ekki síðri í útliti að mínu mati. Við eignumst Arco lampann bara þegar við verðum stór. ;) Gólflampinn frá Bolia fæst í Snúrunni.

9. Marly vasi frá Bolia. Ég er ofsalega hrifin af kúlulaga vösum og er þessi engin undantekning. Vasa af þessu tagi er hægt að nota hvar sem er, á eldhús- og borðstofuborðinu, sófaborði, hillum, skenkum og í raun hvar sem er. Blómvendir í fallegum vösum fríska upp á heimilið og er alltaf falleg lausn til að punta heimilið sérstaklega. Þessi vasi fæst í Snúrunni.

10. Leaves pendant loftljós frá Bolia. Við erum með augun opin fyrir fallegum loftljósum sem myndu prýða borðstofurýmið. Ég segi það aftur að það er greinilegt að Bolia er að heilla mig mikið. Afar fallegar vörur frá því merki! Þetta ljós er ótrúlega fallegt, stílhreint og klassískt sem er ekki hægt að fá leið á seinna meir, sem er afar mikilvægt! Þetta myndi sóma sér afar vel í hinni fullkomnu borðstofu. Ljósið fæst sem fyrr, í Snúrunni.

11. VEGGSTJAKI frá HAF. Við getum öll verið sammála um að þessi fallegi veggstjaki væri velkominn inn á hvaða heimili sem er. Íslensk hönnun, já takk! Við fengum STJAKA í jólagjöf fyrir tæpum tveimur árum sem við erum ofsalega ánægð með og hefðum ekkert á móti því að eignast þennan í safnið. Hann er hreinlega fullkominn, að mínu mati. VEGGSTJAKINN fæst í HAF STUDIO.

12. LAX borðstofuborð frá MORE. Hér er ég alveg komin fram úr sjálfri mér í draumórum en hér erum við að tala um eitt fullkomið borðstofuborð. Ég er ótrúlega hrifin af þessum dökkbrúna lit af borðstofuborði og er eiginlega alveg búin að ákveða að sá litur verður fyrir valinu þegar við kaupum okkur borðstofuborð! Fyrst var svart efst í huga en núna er ég alveg komin á þennan dökkbrúna reykta eikarlit. Hvaða borðstofuborð það verður er ennþá óljóst. Þetta tiltekna draumaborð fæst í Módern.

13. Piero sófaborð frá Bolia. Þetta er ein af þeim vörum sem við Teitur ætlum okkur að eignast einn daginn. Okkur hefur dreymt um þetta sófaborð lengi, enn og aftur frá Bolia! Það er eiginlega bara guðdómlega fallegt og myndi gera ótrúlega mikið fyrir stofuna. Borðið fæst með bæði svörtum og hvítum marmara, mér þykja bæði borðin ofsalega flott en við myndum kjósa það svarta. Sófaborðið fæst í Snúrunni.

_________________________________________________________________

Það er gaman að láta sig dreyma! Þetta eru allt myndir af vörum sem ég hafði “screen-shottað” í símanum undanfarnar vikur og mánuði! Gaman að setja þær saman með þessu móti! Það er nóg til af slíkum skjá-skotum í símanum mínum líkt og ég nefndi fyrr í færslunni, svo það er aldrei að vita nema ég útbúi annan slíkan lista fljótlega. Ég hlakka ótrúlega til stóra flutninga-verkefnisins sem framundan er þó ég kvíði líka mikið fyrir því að kveðja bestu Barmahlíðina. Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með.

Eigið góðan sunnudag og verið góð hvert við annað!
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

ALL SET FOR WINTER

KOLBRÚN ANNALÍFIÐPERSÓNULEGTSAMSTARFSMÁFÓLKIÐ
Nokkrar valdar flíkur sem birtast hér í þessari færslu höfum við fengið að gjöf. Ég hef eytt fúlgum í fatnað á dóttur mína og vil ekki að fólk fái þær röngu hugmyndir um að hér sé allt um gjöf að ræða. Ég er ekki að skrifa þessa færslu í neinu auglýsingaskyni. :)

Frá því að við kærustuparið tilkynntum það fyrst opinberlega að við ættum von á barni hefur mér verið sýndur mikill áhugi varðandi allt sem kemur að barni og barneignum. Fólk varð strax ansi forvitið varðandi meðgönguna, kynið og fæðinguna og eftir að dóttir mín kom í heiminn svara ég reglulega fyrirspurnum um til dæmis fatnaðinn sem hún klæðist, herbergið hennar og fleira. Ég skil það mjög vel því sjálfri finnst mér fátt skemmtilegra en að skoða barnavörur og fá innblástur frá öðrum! Áhuginn breytist mikið við það að verða mamma og allt í einu finnst mér orðið skemmtilegra að versla föt á barnið mitt en á mig sjálfa. Öllu má að sjálfsögðu ofgera en ég reyni að rembast við að réttlæta það að þetta er fyrsta barn og þá má maður leyfa sér örlítið meira. Mér finnst ofsalega gaman að klæða dóttur mína í falleg dress, ég viðurkenni það fúslega! Minn áhugi vaknaði strax þegar ég var ólétt en ég fór strax að hugsa um hvernig mig langaði að herbergið hennar myndi líta út og fleira því um líkt. Ég var svo að sjálfsögðu að vinna sem flugfreyja fram að 16 viku meðgöngu og voru Ameríku stoppin fram að því nýtt í alls kyns kaup til þess að geta verslað ódýrara á barnið. Við fengum að vita kynið í 20 vikna sónarnum svo í vinnuferðunum fram að því vissi ég ekki kynið. Ég fann það strax hvað mér þótti það afar erfitt að versla í USA þegar ég vissi ekki kynið. Mér fannst allt ofsalega kynjaskipt í verslunum! Sem dæmi fann ég kannski afar fallega og látlausa samfellu en þá var oftast búið að merkja hana einhversstaðar ‘It’s a girl/boy’, bara sem dæmi.

Það sem að ég lærði sjálf eftir að dóttir mín kom í heiminn var hvaða fatnaður hentaði okkur og hvað hentaði ekki. Þetta er að sjálfsögðu afar persónulegt og ótrúlega misjafnt hvað fólki finnst. Nú er ég alfarið að segja frá minni upplifun. Það hafði verið keyptur alls kyns fatnaður sem að fór svo á endanum ónotaður ofan í kassa. Það er erfitt að sjá fyrir hvað mun henta manni og þetta var eitthvað sem að ég hugsaði ekki einu sinni út í. Ég fann það afar fljótt að allur fatnaðurinn frá Ameríku hentaði okkur síður og við kusum frekar skandinavískar vörur. Fyrsta árið hennar KA fannst mér að vísu alltaf margt fallegt í Baby Gap og eins svaf hún nánast alltaf í dásamlegum Ralph Lauren náttgöllum sem er hægt að fá á mjög góðu verði í USA. Ég heillast miklu meira af skandinavískum stíl og burt séð frá útlitinu á flíkunum finnst mér einnig svakalegur gæðamunur. Danskar vörur eru í miklu uppáhaldi en Danir eru afar framarlega í hönnun á barnaflíkum. Ég veit og átta mig á að margar af þessum flíkum eru mjög dýrar! Það er ekki spurning. En þegar maður hefur notað sömu flíkina í marga mánuði, séð hana stækka með barninu, þvegið flíkina óteljandi sinnum og hún er ennþá jafn mjúk og nánast eins og ný, lít ég töluvert öðrum augum á verðið. Tala nú ekki um eftir að barnið byrjar á leikskóla og þvottarnir verða enn fleiri. Svo pakka ég flíkinni niður í kassa þegar hún er orðin of lítil og get tekið hana upp fyrir næsta barn þegar vonandi að því kemur. Við Íslendingar höfum aðgang að dásamlegustu barnamerkjunum hér heima en verslanirnar Petit og Bíum Bíum hafa frá degi eitt verið í uppáhaldi hjá okkur. Ég hef alltaf verslað mikið í Petit en á meðan meðgöngunni stóð versluðum við nánast allt inn í herbergi dóttur okkar í Petit! Fyrstu mánuðina eftir að hún kom í heiminn klæddi ég hana nánast alla daga í sömu tvo heilgallanna frá Soft Gallery. Þeir reyndust okkur guðdómlega fyrstu mánuðina og öll önnur föt voru varla snert! Þetta var eitt af því sem ég fann eftir að Kolbrún Anna kom í heiminn. Mér fannst t.d. betra að hafa hana í heilgöllum frekar en samfellu og buxum fyrstu mánuðina. Ég segi það aftur að þetta var bara mín upplifun. Persónulega mæli ég með því að versla ekki allt of mikið af fatnaði áður en að barnið kemur í heiminn, sérstaklega með fyrsta barn. Maður á alveg eftir að finna hvað mun henta þér og barninu og það kemur ekki fyrr en litla kraftaverkið lætur sjá sig! Mér finnst ekkert betra en að klæða barnið mitt í fallegar og vandaðar flíkur sem ég veit að henni líður vel í!


Dóttir mín byrjaði á dásamlegum ungbarnaleikskóla í sumar. Þessi leikskólatími er svo skemmtilegur og auðvitað alveg nýr fyrir foreldra með fyrsta barn. Ég þurfti að eðlilega að spyrjast fyrir um hvað barnið þyrfti að eiga fyrir leikskólann. Núna er að koma vetur og þá þarf víst að verða sér úti um ýmsar nauðsynjavörur! Mig langaði að segja ykkur frá og sýna, hvernig við mæðgur erum búnar fyrir veturinn og hvað er í leikskólatöskunni hennar Kolbrúnar Önnu. Einnig í ljósi þess að ég er myndaóð móðir og átti efni í heila færslu af þessu tagi, haha. Ég fékk góðan díl á völdum flíkum hér fyrir neðan en þessi færsla er alls ekki skrifuð í auglýsingaskyni þar sem ég vildi skrifa hana til þeirra sem gætu haft not af! Gott að geta sótt í “leikskólatöskulista” til að hafa sér til hliðsjónar, líkt og ég hefði viljað geta sótt í sjálf.

Það sem að er semsagt í leikskólatöskunni hennar Kolbrúnar Önnu fyrir veturinn er eftirfarandi:

 • Snjógalli
 • Úlpa
 • Pollagalli
 • Polla-heilgalli sem er með fóðraður með flís.
 • Tvö pör af vettlingum, þunnir og þykkir.
 • Einnig tvö pör af lambúshettum, þunn og þykk.
 • Ullarföt og ullarsokkar
 • Stígvél
 • Kuldaskór
 • Inniskór
 • Auka föt (Samfella, sokkabuxur, buxur, bolur og peysa)

Dásamlegi snjógallinn hennar er frá Ver De Terre, ég vissi ekki að snjógallar gætu verið svona fallegir! Ver De Terre er æðislegt merki úr Petit en Kolbrún Anna er ný vaxin upp úr polla/vindgalla sem við áttum frá því merki og reyndist okkur æðislega. Hlýja lambúshettan hennar og vettlingarnir eru frá danska merkinu Joha og stígvélin eru frá Bisgaard. Mér finnst stígvélin æðisleg sérstaklega því þau eru loðfóðruð svo þau ganga líka vel sem kuldaskór. Allar þessar vörur fást í Petit.

Þessi guðdómlegi pollagalli er aðeins öðruvísi að því leitinu til að vera heilgalli og er fóðraður með flís. Hann er því hlýrri en aðrir pollagallar. Við fengum þennan að gjöf frá Petit en hann er frá merkinu Kuling. Kuling er nýtt útivistarmerki í Petit með allar helstu nauðsynjavörur fyrir veturinn. Vettlingarnir og lambúshettan er frá Joha. Allt frá Petit.


Þessi dásamlega yfirhöfn er frá sama merki, Kuling. Við höfum notað hana óspart síðan við fengum hana en hún er í raun fóðruð regnkápa og við höfum verið að nota hana sem úlpu. Mér finnst hún æðisleg. Skórnir eru dásamlegir loðfóðraðir kuldaskór frá merkinu Pom Pom úr Petit. Við höfum keypt okkur 3(!) pör af inniskóm frá því merki sem hafa reynst okkur ótrúlega vel! Hún var farin að nota þá langt áður en hún gat gengið en Kolbrún Anna er alltaf í inniskónum á leikskólanum og hér heima. Dásamlega húfan hennar er svo frá Pom Poms & co sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur mæðgum!


Ullarföt eru algjört lykilatriði til að eiga fyrir veturinn að mínu mati. Síðasta vetur notuðum við ullarföt frá 66Norður en núna í haust keypti ég þessi hér að ofan frá dásamlega merkinu Joha úr Petit. Ég á því miður enga betri mynd af henni í settinu en um ræðir er semsagt þessi ullarpeysa og buxur í stíl. Nauðsynlegt undir pollagallann og einnig snjógallann þegar extra kalt er í veðri. En Kolbrún Anna á einnig dásamlegan “basic” pollagalla frá 66Norður sem er nýtekin við af þeim gamla. Ótrúlegt en satt að þá hef ég ekki enn náð mynd af henni í honum, það hlýtur að gerast fyrr eða síðar. ;)

Mig langaði góðfúslega að segja ykkur frá því að ég tók eftir því um helgina að Petit er með 15% afslátt af völdum kuldafötum og skóm. Nú segi ég það frá dýpstu hjartarótum að ég er ekki að minnast á það í samstarfsskyni heldur einungis vegna þess að ég tók eftir því á þeirra samfélagsmiðlum um helgina og fannst viðeigandi að nefna það hér þar sem það er eflaust hægt að fjárfesta í einhverju af þeim flíkum sem Kolbrún Anna klæðist hér að ofan á 15% afslætti. Ég veit ekki hversu lengi afslátturinn stendur yfir, það yrði pínu glatað að segja frá honum ef hann rennur svo út á miðnætti! En um að gera að nýta sér að versla dýrari flíkur eins og útivistarföt á afslætti.

Annars hefur þessi vika farið í allt annað en ég hafði séð fyrir. Loksins fékk ég smá frí eftir þétta vinnutörn og þurfti að nýta vikuna í ýmislegt stúss og fleira. Ég hef hinsvegar setið heima síðan á mánudaginn með lítinn eldhnött með 40 stiga hita í fanginu. Hitinn hennar fer loksins lækkandi og vonandi getum við mæðgur fengið okkur frískt loft í lok vikunnar. <3

Við Kolbrún Anna kveðjum í bili og bjóðum góða helgi!
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

SÁLIN

HELGINLÍFIÐOUTFITPERSÓNULEGT

Ég fór ásamt mínum afar kæra vinahópi á kveðjutónleika Sálarinnar í Hörpu um helgina. Við vinkonurnar eigum það sameiginlegt að hafa verið miklir aðdáendur Sálarinnar í háa herrans tíð. Það var mjög fyndið þegar við rifjuðum upp mynd sem birtist af okkur í Séð og Heyrt á Sálarballi á NASA hér í denn þar sem fyrirsögnin var “þessar vinkonur lækkuðu meðalaldurinn á tónleikum Sálarinnar”. En við höfum í gegnum tíðina skemmt okkur stórvel á Sálarböllum þrátt fyrir að vera oftast lang yngstar. Við létum okkur að sjálfsögðu ekki vanta um helgina og buðum betri helmingunum með. Við byrjuðum kvöldið á að fara út að borða á Tapasbarinn og enduðum svo á tónleikunum í Hörpu. Meiriháttar kvöld í geggjuðum félagsskap!

Bolur: Envii / Galleri 17
Buxur: ZARA
Skór: ZARA

Þangað til næst,
xx Fanney

Instagram: fanneyingvars

H&M OG H&M HOME OPNAR Á HAFNARTORGI

H&M HOMEOUTFIT

Tískuhúsin H&M opnuðu í dag dyrnar á glænýrri og stórglæsilegri verslun á Hafnartorgi í hjarta miðborgarinnar. Okkur var boðið í smá fyrirpartý í gær þar sem við fengum forskot á sæluna og fengum að skoða verslunina undir leiðsögn fagaðila frá H&M. Það var afar magnað að labba að versluninni þar sem tilfinningin var eins og að vera staddur erlendis – við vorum allar sammála um það. Reyndar ber allt Hafnartorgið þennan útlanda fýling yfir sér og ég hlakka mikið til þegar fleiri verslanir opna og meira líf verður! Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta sjarmerandi svæði muni heilla mikið á komandi tímum.

Það voru nú þegar tvær verslanir H&M hér á landi, bæði í Smáralind og Kringlunni. Þessi nýja verslun niðri í bæ er öðruvísi að því leitinu til að H&M HOME deild er þar að finna. Það gladdi undirritaða afar mikið og var ég hvað spenntust að skoða þá deild. Ég viðurkenni að ég eyddi öllu partýinu þar inni og náði ekki að virða fyrir mér aðrar deildir! Það bíður betri tíma. Ég verð að segja að þetta er afar góð viðbót í húsgagnaflóruna hér á landi þar sem að í H&M Home er að finna fullt af fallegum vörum á vægast sagt ótrúlega góðu verði! Ég náði að versla mér ýmislegt í gær eins og drauma rúmteppi, koddaver, diskamottur og fleiri smávörur sem ég hlakka til að sýna ykkur. Ég keypti mér mun meira en ég ætlaði mér og kom út mörgum þúsundkrónum fátækari… eeen ég fékk mikið fyrir peninginn! Það verður mjög gott að eiga kost á að fara í H&M Home þegar við flytjum í nýju íbúðina í desember! Til dæmis rak ég augun í ótrúlega falleg matarstell á hlægilega góðu verði! Við vorum fjórar af Trendnet-genginu sem mættum í gær og fórum við svo að loknu partýi út að borða með H&M teyminu á nýjan og glæsilegan veitingastað á Laugarveginum sem ber nafnið Nostra. Æðislegt kvöld í meiriháttar félagsskap! Ég tók því miður ekki margar myndir af versluninni sjálfri haha. Speglamyndir er það helsta sem þið fáið að þessu sinni. ;)

 Fallegu haustlitir!
Ég birti þessa mynd á Instagram í gær og fékk fyrirspurnir um skóna mína sem eru frá KALDA Shoes og voru keyptir í Yeoman á Skólavörðustíg. Ég veit því miður ekki hvort þeir séu ennþá til. Kápan er kápa drauma minna og var keypt í GK Reykjavík frá merkinu 2nd Day. Ég fjallaði nánar um hana í síðustu færslu.

 Gaman með þessum dásamlegu og stórkostlegu konum. Svönu Lovísu og Andreu <3   Team Trendnet <3

Til lukku með stórglæsilega verslun H&M. Það mun sannarlega birta yfir miðbænum í vetur!

Þar til næst,
Xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars