HELGIN

HELGINLÍFIÐOUTFIT

Helgin var dásamleg! Við vinkonur og makar höfum komið upp með þá skemmtilegu hefð að halda saman partý á þrettándanum. Það gekk því miður hálf brösulega að koma öllum mannskapnum saman þetta árið og ákváðum við því að hafa gleðina aðeins öðruvísi í þetta skiptið. Fyrir það fyrsta var hún haldin viku of seint haha. Við fórum semsagt saman út að borða og hélt svo gleðin áfram fram eftir nóttu í meiriháttar félagsskap, söng og almennri snilld.

Blazer: ZARA / Keyptur nýlega á útsölu
Skyrta: ZARA / Keypt í USA seinasta sumar
Buxur: H&M / Gamlar
Skór: Billibi / GS Skór / Gamlir


________________________________________________________________________

Sunnudagurinn var svo eiginlega hin fullkomna uppskrift af sunnudegi. Við fengum góða vini fyrir hádegi til okkar í kaffi og kökur. Eftir lúrinn hjá litlu dömunni fengum við fjölskyldan okkur göngutúr um nýja fallega hverfið okkar. Flestir íbúar á höfuðborgasvæðinu voru eflaust varir við einstaklega fallegt veður þennan dag og nutum við þess og útsýnisins í botn. Mikil fegurð sem blasti við okkur hvert sem við litum. Við erum svo sannarlega ánægð með nýja “heima”.

Kápa: 2nd Day / GK Reykjavík
Buxur: 5units / Galleri 17
Peysa: H&M x Erdem / H&M
Skór: Adidas Yung 1 / Húrra Reykjavík

Þangað til næst,
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

STOFUVEGGUR FYRIR & EFTIR

FRAMKVÆMDIRHEIMILIÐHÚSGÖGNNEW IN

Það er ótrúlega magnað hvað maður lærir mikið á því að standa í framkvæmdum – sérstaklega svona í fyrsta skipti. Ég hef lært heilan helling sjálf, lært á ný tæki og tól, lært hversu mikil vinna liggur að baki ýmissa verkefna, lært að þolinmæði er mikilvægur eiginleiki í framkvæmdum og svo miklu fleira. Ég er líka mjög ánægð með hversu virkan þátt ég tók sjálf í mörgum verkefnum og lærði mest á því! Auðvitað er hver upplifun ólík og astæður ólíkar hverju sinni. Bara sem dæmi er einhvern veginn öll vinna miklu meiri og tímafrekari en maður leyfði sér að vona. Ég held að allir sem staðið hafa í framkvæmdum viti nákvæmlega hvað ég eigi við. Við erum samt langt því frá að vera búin en eins og ég nefndi þá lökkuðum við eldhúsinnréttinguna og forstofuskápinn í svörtu, möttu lakki. Við ætlum að gera slíkt hið sama við baðherbergisinnréttinguna, hurðir og fataskápa svo það er ansi mikil vinna eftir. Það var ákveðin pressa að flytja inn fyrir jólin en það sem ég vissi vel var að um leið og maður er fluttur inn er svo auðvelt að fresta hlutunum. Við byrjum á morgun,  nei hinn, nei hinn, svo er allt í einu liðinn mánuður. Það er svo auðvelt að gleyma sér í amstri dagsins og sérstaklega með lítið barn. Ég hélt að á þessum tímapunkti yrði ég búin að gera fullt af færslum hér á Trendnet til að sýna ykkur og segja skref fyrir skref hvað við höfum verið að gera. Það er hins vegar sannarlega ekki raunin eins og þið best vitið! Mig langar ekki að sýna frá ókláruðu verki en ég átta mig að sjálfsögðu á því að heimilið er eilífðar vinna sem verður aldrei tilbúin. Það sem ég er hvað spenntust að segja ykkur frá er einmitt þessi lakk aðferð, þá líka sérstaklega fyrir sjálfa mig því inboxið mitt fyllist daglega af spurningum um það. Við erum hins vegar enn að bíða eftir ísskápnum okkar og eins eigum við eftir að setja plötuna framan á innbyggðu uppþvottavélina. Um leið og það er komið kemur loksins falleg heildarmynd á eldhúsið og verðið þið fyrst til að sjá myndir af því, ásamt uppskrift af framkvæmdinni og nóg af fyrir og eftir myndum. Við erum einnig að bíða eftir borðstofuborðinu okkar sem við eigum von á í febrúar. Borðstofurýmið er því fullt núna af alls kyns drasli sem við þurfum að losa okkur við. Einnig finnst mér pínu pirrandi að mynda alrýmið þegar hurðirnar eru ekki orðnar svartar haha. Núna er ég bara að hugsa upphátt! Enn og aftur, þolinmæði er lykilatriði í svona ferli og það er bara einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess að allt sé tilbúið einn tveir og bingó! Mín ráð til ykkar sem eru með fyrirhugaðar framkvæmdir er að gera alltaf ráð fyrir meiri tíma, það kemur í veg fyrir vonbrigði því auðvitað er maður spenntur að flytja inn á nýja heimilið sitt, eðlilega! Á meðan ferlinu stendur koma oftar en ekki upp einhver óvænt atriði sem tefja og lengja tímann og er það eitthvað sem er mikilvægt að taka með opnum hug. Þetta er bara partur af þessu.

Það er einn veggur í stofunni sem er nokkurn veginn tilbúinn – eða ekki. Mögulega verður hann orðinn allt öðruvísi í næsta mánuði… en hvað um það.


Fyrir…
Og eftir.

Hér er búið að mála veggi, loft og lista (við máluðum alrýmið með litnum Volgur frá Slippfélaginu, en meira um það síðar), búið að pússa og lakka parketið og auðvitað setja upp húsgögn. Ég var einhvern veginn alveg búin að sjá þennan vegg fyrir mér áður en við fengum afhent. Sem betur fer náði ég alveg að selja Teiti þá hugmynd og fékk nánast alveg að ráða þessari útfærslu. Ég birti þessa mynd á Instagraminu mínu og fékk óteljandi fyrirspurnir út í hvaðan vörurnar eru og ætla ég að leyfa þeim upplýsingum að fylgja með ef fleiri eru áhugasamir um það. Skenkurinn er semsagt frá IKEA en ég var löngu búin að ákveða að þessi yrði fyrir valinu. Hann uppfyllir einhvernveginn allar kröfur, fallegur, tímalaus og stílhreinn og eflaust með ódýrari skenkum sem völ er á. Spegillinn er úr Módern og eflaust margir sem kannast við hann. Hann er einstaklega fallegt stofudjásn sem stækkar rýmið til muna. Hann er til í þremur litum og í þremur stærðum. Við fengum okkur svarta litinn og í stærstu útgáfu, eða 110 cm. Veggurinn bauð upp á spegillinn yrði stór og kom ekki annað til greina en að taka hann í stærstu gerð. Græjurnar átti Teitur áður en við byrjuðum saman en þær eru frá Bang&Olufsen. Blaðastandinn höfum við einnig átt mjög lengi en hann er frá Ferm Living úr Hrím. Blómavasinn er gamall úr Norr11 og gerviblómin eru úr Módern.

Ég hlakka til að sýna ykkur meira, þetta kemur allt með kalda vatninu…
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

ÁRAMÓT

ÁRAMÓTKOLBRÚN ANNALÍFIÐOUTFITPERSÓNULEGTSMÁFÓLKIÐ


Kjóll: Hildur Yeoman / Yeoman Skólavörðustíg
Skór: ZARA

Ég ætla að byrja þessa færslu á sömu nótum og þá síðustu, með því að óska ykkur gleðilegs nýs árs. Áramót eru alltaf ákveðin tímamót og fer maður oft ósjálfrátt að horfa til baka yfir árið, hugsa um það sem stóð upp úr og um það sem jafnvel hefði betur mátt fara. Lífið gefur og það tekur og hef ég sjaldan verið jafn meðvituð um það og nú. Maður er aldrei of oft minntur á það að vera þakklátur fyrir sitt og það er ég svo sannarlega. 2018 var gott ár hjá okkur fjölskyldunni og þó nokkuð um breytingar. Ég færði mig yfir til Icelandair og kvaddi WOW Air með miklum söknuði. Ég byrjaði að sjálfsögðu hér á Trendnet líka og varð partur af þessum glæsilega hópi. Ég hef einnig verið að vinna að nýjum verkefnum sem ég hlakka til að deila með ykkur fljótlega! Við fjölskyldan enduðum árið á að flytja inn í nýju íbúðina okkar sem er hægt og rólega að taka á sig mynd þó það séu mörg verkefni eftir. Ég hef lært það að þolinmæði þrautir vinnur allar. Þakklæti er mér enn og aftur efst í huga og það að eiga heilbrigða fjölskyldu sigrar allt annað. Eftir árið sitja eftir óteljandi minningar sem við upplifðum með okkar dásamlegu fjölskyldu og vinum hvort sem það var hérlendis eða erlendis. Ég hlakka til að sjá hvaða tækifæri og ævintýri bíða okkar á nýja árinu. Gleðilegt nýtt ár elsku vinir og hjartans þakkir fyrir það gamla. Ég vona innilega að þið takið jákvæð, opin, réttsýn, þakklát og full tilhlökkunar á móti nýju ári. <3

Ég átti afar ljúft gamlárskvöld í faðmi fjölskyldunnar. Ég klæddist þessum fallega kjól úr línu Hildar Yeoman sem minnti helst á diskókúlu. Í desember fór ég í samstarfi við verslunina að skoða jólalínu Hildar Yeoman, þar sem þessi gersemi kom með mér heim. Fyrir áhugasama er færslu frá þeirri heimsókn að finna HÉR.

Smá myndasyrpa sem ég tók af Kolbrúnu Önnu áður en við fórum út úr húsi á gamlárskvöld. Litla draumadís <3
Kjólinn hennar keypti ég í Petit fyrir jólin, sokkarnir og slaufan eru einnig úr Petit en sokkarnir voru keyptir fyrir 1 árs afmælið hennar í maí í fyrra. Skóna fékk hún frá ömmu sinni, keyptir í USA.

Ég hlakka ótrúlega til nýja ársins hér á Trendnet með ykkur. Fullt skemmtilegt að gerast. Hafið það sem allra best og sjáumst hér á Trendnet!

Þangað til næst,
Fanney

Instagram: fanneyingvars

GLEÐILEGT NÝTT ÁR

BRÚÐKAUPFRAMKVÆMDIRHEIMILIÐHÚSGÖGNJÓLINKOLBRÚN ANNALÍFIÐOUTFITPERSÓNULEGTSMÁFÓLKIÐ

Gleðilegt nýtt ár elsku vinir. Ég vona að hátíðarnar hafi verið ykkur gleðilegar með ástvinum. Mig langaði að fara “örstutt” í gegnum það sem stóð upp úr í desember mánuði hjá mér, aðeins til að borga fyrir hversu óvirk ég var þann mánuðinn sökum anna. Hér kemur því framkvæmda uppfærsla frá íbúðinni sem og hinar ýmsu uppákomur desember mánaðar, allt í bland. Vonandi hafið þið góðan tíma. ;)

Desember hófst á jólahlaðborði með vinnunni hans Teits. Daginn eftir jólahlaðborðið var dagurinn sem við afhentum Barmahlíðina sem og fengum lyklana afhenda af okkar íbúð svo Teitur ákvað að gera örlítið meira úr fögnuðinum og hafði pantað fyrir okkur hótelgistingu á Reykjavík Konsúlat Hótel. Æðislegt kvöld og ekki verra að hefja stóra daginn með dýrindis morgunmat og öllu því sem fylgir að gista á fallegu hóteli. Gaman að vera túristi í miðborginni og nauðsynlegt að muna að njóta lífsins líka þrátt fyrir miklar annir.

____________________________________________________________________________

Nýbúin að fá íbúðina okkar afhenta þann 1. desember. Það var hellings spasl vinna sem beið okkar og fór nánast heil helgi í það eitt að spasla aftur og aftur ofan í götótta veggina. Við máluðum svo í kjölfarið en hver einn og einasti veggur í íbúðinni var málaður svo það var mikil vinna út af fyrir sig. Ég ætla að gera sér færslu hér á Trendnet varðandi það fljótlega, hvaða liti við völdum og svo framvegis en ég er ólýsanlega ánægð með útkomuna á litavali!

Hér erum við byrjuð að lakka eldhúsinnréttinguna og forstofuskápinn. Við gerðum það í fjórum skrefum. 1. Þrífa vel og pússa 2. Grunna 3. Lakka 4. Lakka seinni umferð. Ég ætla einnig að fara vel í gegnum þessa framkvæmd með ykkur. Ég fékk ótrúleg viðbrögð við þessu verkefni. Fyrirspurnir, áhugi og ábendingar úr öllum áttum sem var ofsalega gaman að finna fyrir. Greinilega margir sem eru í sömu stöðu og langar að breyta til. Við erum enn að bíða eftir ísskápnum sem er á leið til landsins og að geta sett plötuna framan á uppþvottavélina okkar, um leið og það kemur ætla ég að mynda eldhúsið bak og fyrir og segja ykkur svo frá framkvæmdinni skref fyrir skref.

Við ákváðum eftir óteljandi og óþolandi vangaveltur að láta pússa parketið. Við vorum semsagt að væflast með það hvort við ættum að pússa það og lakka, eða hreinlega að rífa parketið upp og leggja nýtt. Við keyptum fagþjónustu sem sá um þessa framkvæmd fyrir okkur en við vildum losna alfarið við gula litinn á parketinu. Myndirnar hér að ofan eru teknar þegar búið er að pússa parketið niður. Við vorum auðvitað ástfangin af þessum ljósa lit og vildum helst halda honum. Við vissum þó betur því parket dökknar alltaf aðeins aftur eftir að það er svo lakkað.

Hér er parketið svo tilbúið. Búið að lakka og þið sjáið að það hefur dökknað aðeins. Við vorum samt sem áður í skýjunum með útkomuna og ofsalega fegin að það dökknaði ekki meira en þetta. Guli liturinn í parketinu alveg farinn og parketið töluvert ljósara og fallegra en fyrr. Við vorum því ofsalega fegin að hafa tekið þessa ákvörðun. Við létum ekki hvítta parketið en við völdum allra mattasta glæra lakk sem völ er á. Við grunnuðum og máluðum einnig alla lista í íbúðinni (svakaleg vinna haha..). Við máluðum þá í sama lit og viðeigandi veggur en ég er sérstaklega ánægð með þá ákvörðun. Það kemur ótrúlega vel út og ég mæli með fyrir fólk sem veit ekki hvað það eigi að gera við listana.

Hér er verkefnið sem ég er svo stolt af aðeins farið að taka á sig mynd. Mig langar að skrifa ofsalega mikið með þessum myndum en ég ætla að bíða með það þar til ég geri sér færslu varðandi þessa framkvæmd. Við erum í skýjunum með þessa útkomu en þessar myndir voru teknar um leið og plöturnar fóru upp. Allt annað líf og innréttingin eins og ný!

Nokkrar af litlu draumadísinni minni í desember, afar mikilvægt að koma henni að þar sem hún er náttúrulega í aðalhlutverki í lífi okkar allra í kringum hana. ;)

Dásamlegur jólahittingur með vinkonum.

Þann 22. desember giftist Jóna mín besta vinkona ástinni sinni, honum Hólmari. Það var dásamlegur dagur frá upphafi til enda og fékk ég þann heiður að vera veislustjóri ásamt algjörum snillingum. Desember mánuður fór því líka mikið í undirbúning fyrir brúðkaupið. Dagurinn var fullkominn og brúðhjónin þau allra fallegustu. Takk fyrir mig <3

Veislustjórar í undirbúningsvinnu vs. veislustjórar að skála fyrir vel heppnuðu kvöldi! Snillingar.

________________________________________________________________________________

Ég ætla að enda þessa löngu færslu á þessum tveimur myndum sem ég hef nýlega birt á Instagraminu mínu af íbúðinni okkar en hún er hægt og rólega að taka á sig mynd þrátt fyrir að ýmis verkefni séu eftir. Ég hlakka til að sýna og segja ykkur meira.

Takk fyrir að lesa!
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

GLEÐILEGA HÁTÍÐ

JÓLINKOLBRÚN ANNALÍFIÐOUTFITPERSÓNULEGT

Gleðilega hátíð kæru vinir og lesendur Trendnet. Ég hef því miður verið ansi off þennan mánuðinn og er stór útskýring fyrir því. Desember mánuður og allur aðdragandi jólanna hefur verið aðeins öðruvísi hjá okkur fjölskyldunni þetta árið þar sem við fengum afhenda lyklana af nýju íbúðinni okkar þann 1. desember og við tóku framkvæmdir sem tóku lengri tíma en ráð gerðu fyrir. Við fluttum inn þann 19. desember, þrátt fyrir að hér væri ýmislegt eftir ógert. Síðan þá höfum við reynt að koma okkur fyrir, undirbúa jólin og á sama tíma var ég að skipuleggja brúðkaup hjá minni bestu vinkonu sem gifti sig þann 22. desember. Ýmislegt hefur því þurft að mæta afgangi eins og til dæmis að skreyta og setja upp jólatré. Pínu erfitt fyrir jólabarnið sem ég er en jólin koma víst alltaf, sama hvað og hversu tilbúinn maður er fyrir þau. Dóttir mín hélt svo upp á jólin með 39 stiga hita þetta árið svo að veikindin banka líka upp á hvenær sem er óháð því hvaða dagur er. Trendnet hefur því miður líka þurft að mæta afgangi – ég lýg því ekki þegar ég segi að ég settist í fyrsta sinn upp í sófa og horfði á mynd í gærkvöldi síðan í nóvember og það var einungis vegna þess að þá hafði ég nælt mér í smá flensu. Ég þurfti því að hringja mig inn veika í jólaboð í gærkvöldi og hafði í fyrsta sinn “afsökun” fyrir því að leggjast upp í sófa. Já ég hugsa að við reynum að velja aðra tímasetningu næst þegar við flytjum, ekki korter í jól! ;)

Gleðilega hátíð elsku vinir og fjölskylda. Þakklæti er mér alltaf efst í huga yfir hátíðarnar. Það að geta haldið heilög jól með ástvinum er nefnilega alls ekki sjálfsagt og flestir sem eiga um sárt að binda þykja jólin erfiðasti tími ársins. Ég er ofsalega heppin með allt mitt fólk og þá sérstaklega þennan fallega mann og litla einkaafkvæmið okkar. <3 Ég vona innilega að allir hafi haft það sem allra best.

Íbúðin okkar er loksins farin að taka á sig smá mynd þrátt fyrir að það sé ýmislegt eftir ógert. Ég hef fengið óteljandi fyrirspurnir í gegnum framkvæmdirnar varðandi hitt og þetta og hef ég svarað öllum að Trendnet verði minn vettvangur til að koma öllu vel frá mér varðandi framkvæmdirnar. Þegar allt verður tilbúið, (sem gerist reyndar aldrei, en þá meina ég svona nokkurn veginn tilbúið), þá mun ég setja inn fyrir og eftir myndir, lýsa öllum framkvæmdum skref fyrir skref og fleira. Ég kem sterk inn hér strax aftur eftir áramótin! Ég segi ykkur líka betur frá því sem stóð upp úr í desember von bráðar, ég vildi bara rétt stökkva inn til að láta vita að ég væri á lífi og til þess að óska ykkur gleðilegra jóla! Vonandi hafið þið haft það sem allra, allra best.

Hlýjar jólakveðjur til ykkar,
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

JÓLAGJAFAHUGMYNDIR / FYRIR HANN

INNBLÁSTURJÓLAGJAFAHUGMYNDIRJÓLINÓSKALISTINN

Nú líður senn að jólum eins og við flest vitum. Ég hef komið inn á það áður að ég er heimsins mesta jólabarn og finnst jólin og allur aðdragandi jólanna svo dásamlegur tími. Hátíðlegur og skemmtilegur. Ég hef séð fjöldan allan af “jólagjafahugmynda-færslum”, sem eru að sjálfsögðu ekkert nema stórsniðugar þar sem ég held að við könnumst öll við það á einum tímapunkti eða öðrum að vera gjörsamlega hugmyndasnauð þegar kemur að því að velja gjafir fyrir fólkið okkar. Stundum er því afar gott að geta nálgast færslur af slíku tagi til að geta fengið innblástur og hugmyndir. Mér finnst oft vanta fleiri “fyrir hann” lista, svo mig langaði að gera slíka færslu í von um að einhverjir geti nýtt sér það. Sjálf myndi ég eflaust geta sett saman eitthvað “basic” sem mér dettur í hug fyrir karlkynið en ég ákvað hinsvegar að spyrja kærastann minn hann Teit Pál, smekkmann með meiru, hvort að hann væri ekki til í að setja upp slíkan lista fyrir mig sem ég gæti deilt með ykkur hér. Teitur á allt kredit fyrir þetta og eru þetta allt vörur sem eru á hans óskalista. Allar upplýsingar um vörurnar eru svo að finna fyrir neðan myndina.

 1. Heron Preston sokkar. Heron Preston er tryllt merki sem er væntanlegt í Húrra Reykjavík.
 2. Heron Preston T-shirt. Aftur, Heron Preston er merki sem er í miklu uppáhaldi hjá Teiti. Merki sem er væntanlegt í Húrra Reykjavík. Mjög spennandi!
 3. Bang Olufsen Beoplay A1. Þráðlaus hátalari í þægilegri stærð sem hægt er að nota hvar og hvenær sem er. Fæst í Ormsson.
 4. Rimowa Original. Þessi cabin taska er búin að vera á óskalista Teits afar lengi. Falleg, klassísk og stílhrein taska. Fæst t.d. á www.rimowa.com.
 5. Apple Watch 4. Fæst t.d. í Macland.
 6. Common Projects chelsea boots. Skópar er alltaf klassísk jólagjöf sem getur ekki klikkað. Teitur á þessa í ljósu rússkini og hefur lengi verið með augastað á þeim í því svarta. Common Projects skórnir fást í Húrra Reykjavík.
 7. Virgil Abloh x Nike Air Max 97. Geggjaðir sneakers úr smiðju Nike hannaðir í samstarfi við Virgil Abloh. Strigaskór myndu alltaf slá í gegn hjá mínum manni. Þessir tilteknu fást á stockx.com.
 8. Meater kjöthitamælir. Fæst t.d. hjá Símanum.
 9. Le Labo kerti. Le Labo er æðislegt merki sem selur m.a. kerti og ilmi og hefur Teitur notað ilm frá Le Labo í um 2 ár núna. Kerti sem gefur góðan ilm og gerir líka mikið fyrir augað er alltaf gjöf sem gleður. Fæst t.d. á www.endclothing.com.
 10. Han Kjøbenhavn banker frakki. Yfirhafnir eru alltaf tilvaldar í jólapakkann. Þessi tiltekni frakki er frá danska gæðamerkinu Han Kjøbenhavn og fæst í Húrra Reykjavík.
 11. Flos gólflampi. Þessi fallegi gólflampi er á óskalista okkar beggja fyrir nýja heimilið. Þessi lampi er klárlega í dýrara lagi en mikið sem hann er fallegur. Flos lamparnir fást í Lúmex.
 12. BIOEFFECT Day SerumEGF Serum og Volcanic Exfoliator. Ég ætla rétt að vona að allir karlmenn viti það nú þegar að BIOEFFECT er fyrir alla, ekki bara kvenkynið. Þessar þrjár vörur sem Teitur tekur saman eru allar í hans rútínu sem hann notar óspart. Ótrúlega tilvalin jólagjöf sem ég mæli eindregið með. BIOEFFECT vörurnar fást á öllum helstu stöðum, til dæmis; HagkaupFríhöfninniApótekumAndreA og er nú meira að segja komið í margar verslanir Sephora fyrir ykkur sem búið erlendis.
 13. KitchenAid hrærivél Black Tie. Heimilisvara sem við eigum alltaf eftir að fjárfesta í. Fæst m.a. í Ormsson.
 14. Bang Olufsen Beoplay A9. Önnur vara sem eflaust er dýrari en eðlilegt þykir fyrir jólagjöf en við ákváðum samt að leyfa þessum magnaða Bang Olufsen hátalara að fylgja með á jólalistann. Þessi yrði afar velkominn á okkar heimili í náinni framtíð. Fæst í Ormsson. Ps. ég tók eftir því á heimasíðu Ormsson að Bang Olufsen vörurnar eru á góðum afslætti! Ég mæli með fyrir áhugasama.
 15. Acne Studios T-shirt. Fatamerkið Acne Studios þekkja flestir. Guðdómlega fallegt! Fæst meðal annars á acne.com.
 16. Peel hleðslutæki. Fallegt og stílhreint hleðslutæki til að hlaða símann. Fæst á buypeel.com.
 17. Norse Projects húfa. Fæst í Húrra Reykjavík.
 18. Norse Project Niels Globe T-Shirt. Væntanlegt í Húrra Reykjavík.
 19. A-Cold-Wall Socks. Fást á www.endclothing.com.
 20. Yeezy Boost 700 v2. Geggjaðir sneakers sem vonandi(!) koma í Húrra Reykjavík.

Vonandi gefur þetta einhverjum góð ráð. Ég er að spá í að biðja Teit um að gera lista af þessu tagi fyrir öll hans afmæli og jól. Það myndi allavega auðvelda mér ansi mikið!

PS. Ég skulda ykkur fullt af færslum varðandi framkvæmdir í íbúðinni og eru þær allar væntanlegar. Ég ætla að gera færslur varðandi allt sem við höfum gert, skref fyrir skref. Við höfum lítið getað gert undanfarna daga þar sem parket vinnan hefur tekið lengri tíma en við þorðum að vona. Lokaákvörðun var sumsé að pússa það og lakka og á meðan slíkri vinnu stendur er ekkert hægt að gera í íbúðinni. Við stefnum nú á að flytja inn á miðvikudaginn – korter í jól, bókstaflega. Svo er mín allra besta vinkona að gifta sig þann 22. desember og fékk ég þann heiður að vera veislustjóri. Það er því smá auka vinna sem fylgir því núna í vikunni sem er ekkert nema spennandi og skemmtilegt! Ég hlakka til að segja ykkur frá þessu öllu saman xx

Ég minni ykkur á að ég er dugleg að segja frá og gefa update frá framkvæmdum á Instagraminu mínu: fanneyingvars

Þangað til næst,
Fanney xxx

JÓLALÍNA HILDAR YEOMAN –

OUTFITSAMSTARF

Ég fór í heimsókn í Yeoman á Skólavörðustíg á dögunum en þeir sem fylgja mér vita eflaust að verslunin er í miklu uppáhaldi og kíki ég reglulega þar við. Þessi heimsókn var í þeim tilgangi til að skoða nýju jólalínuna frá Hildur Yeoman, íslenska fatamerkinu sem er þar til sölu. Þessi guðdómlega fallega lína hitti beint í mark hjá undirritaðri og gat ég auðveldlega hugsað mér að eignast hverja einu og einustu flík, svo einfalt var það. Sérstaklega falleg mynstur, mikið glimmer og glamúr, akkúrat í takt við hátíðarnar sem framundan eru. Það sem er líka svo æðislegt við merkið er að þar er að finna kjóla fyrir alla. Þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og allir jafn fallegir! Ég á hinn fullkomna og klassíska rúllukragakjól í gömlu printi frá Hildi Yeoman, sem ég notaði jafn mikið þegar ég var kasólétt og ég geri í dag. Ég mæli eindregið með því að gera sér ferð á Skólavörðustíginn og kíkja á þessa fallegu línu, sjón er sögu ríkari!

Nú er opið alla daga fram að jólum í versluninni og von er á tveimur nýjum kjólum fyrir jólin(!). Hvað finnst ykkur flottast?

Áfram íslenskt!
xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

JÓLAHUGLEIÐING / GESTAPISTILL

GESTAPISTILLINNBLÁSTURLÍFIÐPERSÓNULEGT

Ég er svo heppin að vera rík af góðum vinkonum í kringum mig. Ein þeirra heitir Svava Guðrún og hefur hún nánast verið mín hægri hönd síðastliðin ár. Svava er einstaklega réttsýn á lífið, nægjusöm, hjartahlý, klár… – guð minn, ég gæti talið endalaust áfram. Svava er með BS gráðu í sálfræði en hefur verið minn einkasálfræðingur og sálufélagi frá því að ég kynntist henni. Hún er ótrúlega góður penni og hefur skrifað fjöldan allan af pistlum sem hún hefur hingað til haldið fyrir sjálfa sig. Ég var spennt að opna Fréttablaðið í morgun þar sem ég vissi að von væri á einstaklega fallegum pistli undir hennar nafni sem hún las fyrir mig fyrir nokkrum vikum. Ég man að ég spurði hana strax hvort að ég mætti birta hann hér á Trendnet ef hann færi í Fréttablaðið og hún lofaði mér því. Við Svava höfum oft verið sagðar líkar í fasi sem við sjáum að sjálfsögðu hvorugar en það er samt alltaf að koma okkur á óvart hvað við hugsum eins og klárum oft setningar fyrir hvor aðra. Þegar hún las þennan pistil fyrir mig hitti hann að sjálfsögðu beint í mark. Ég er mesta jólabarn í heimi og tilhlökkun mín fyrir jólunum hefur alltaf verið einstaklega mikil. Undanfarin ár hefur hugur minn í desember þó oftar en ekki leitað til þeirra sem eiga um sárt að binda þar sem hátíðarnar eru oftast erfiðasti tíminn fyrir þau. Hvort sem um fátækt, sorg, missi eða annað er að ræða. Ég hef sjaldan upplifað fyrir öðru eins þakklæti líkt og á jólunum undanfarin ár. Þetta er tilfinning sem kemur yfir mig og ég verð oft meyr bara við tilhugsunina. Maður verður aldrei of oft minntur á það að vera þakklátur fyrir allt sem maður hefur í lífinu, það er nefnilega svo sannarlega ekki sjálfsagt! Ég vona innilega að allir geti fundið fyrir gleði og hamingju á jólunum. <3

___________________________________________________________________________

Elsku Svava Guðrún mín skrifaði þennan fallega pistil sem birtist í Fréttablaðinu í morgun:

“Það var síðla kvölds í vikunni sem leið að ég gekk um götur Reykjavíkurborgar og virti fyrir mér fegurðina sem miðbærinn hafði upp á að bjóða það kvöldið. Á göngu minni varð mér hugsað til þeirra hversdagslegu áhyggja sem við jú öll höfum og velti vöngum yfir hinu og þessu sem í stóru samhengi engu máli skiptir. Rétt í allri þessari hugsanaflækju ef flækju skal kalla varð mér hugsað til jólanna og þeirra sem eiga um sárt að binda yfir hátíðarnar líkt og aðra daga ársins. Þessar hugsanir mínar voru áhyggjunum yfirsterkari og fylgdu mér góðan spöl.

Um víða veröld eru til einstaklingar sem eiga í engin hús að venda vegna fátæktar, sjúkdóma og aðstæðna sem þeir ekki fá við ráðið. Það eru til einstaklingar sem búa í stríðshrjáðum löndum og geta enga björg sér veitt. Það eru sannarlega til einstaklingar sem brotnir hafa verið niður af lífsins ólgusjó og telja enga ákjósanlega leið út úr sínum aðstæðum. Einstaklingar sem hreinlega vita ekki hvernig þeir eiga að takast á við daginn, hvað þá jólin. Aðstæður þar sem sorgin er gríðarleg, eymdin áþreifanleg. Þegar ég hafði leitt hugann að þessum fjölda fólks féllust mér hendur og ég leit örlítið í eigin barm. Hvað er það sem okkur raunverulega hamingju færir?

Eftir nokkra stund gekk ég minn veg full forréttinda, steig upp í bíl sem ég hef til afnota, keyrði heim hugsi og gekk inn í hlýtt húsaskjólið sem ég er svo sérlega heppin að hafa yfir höfuð mér. Ég lagðist á koddann og leiddi hugann að þeim forréttindum sem ég bý við og gat ekki annað en fundið til skammar en á sama tíma óendanlegs þakklætis.

Nú gengur senn í garð hátíð ljóss og friðar með öllum sínum kræsingum, litum, gjöfum og glingri. Þegar ég fer að gleyma mér í öllum ljósunum og þeirri ringulreið sem jólunum kann að fylgja ætla ég að leiða hugann að þeim sem ekkert af þessu hafa. Ég ætla að leiða hugann að því sem mér raunverulega hamingju veitir. Þakka fyrir alla þá hluti tilverunnar sem öllu máli skipta en aldrei fást keyptir. Já, þakka fyrir friðinn.

Það er nefnilega hægt að búa við allsnægtir en vera á sama tíma bláfátækur.

Verum þakklát, auðmjúk og nægjusöm með kærleikann að leiðar­ljósi. Það eru síður en svo allir sem hafa færi á því að halda gleðileg jól.”

Svava Guðrún Helgadóttir.

________________________________________________________________________

Einstaklega góð áminning fyrir hátíð ljóss og friðar sem framundan er. <3

Hlýjar jólakveðjur til allra xx

NÝJA HEIMA

FLUTNINGARFRAMKVÆMDIRHEIMILIÐLÍFIÐPERSÓNULEGT

Jæja, ég vona að þið séuð ekki búin að gleyma mér! Ég held að ég hafi aldrei verið á jafn miklum þeytingi og undanfarna daga ef ég á að vera alveg hreinskilin. Við afhentum gömlu íbúðina okkar síðastliðinn laugardag, 1. desember og klukkustund síðar fengum við nýju íbúðina okkar afhenda! Það var því nóg um að vera þann daginn en í vikunni á undan fluttum við búslóðina okkar alla til mömmu og pabba þar sem við yfirtókum gamla herbergið mitt, núverandi herbergi litlu systur minnar sem dvelur nú á efri hæðinni í sínu gamla herbergi. Þetta eru vægast sagt skrítnir tímar en jafnframt ótrúlega skemmtilegir og spennandi! Það er aðeins erfiðara að halda gömlu rútínunni gangandi þegar maður býr ekki heima hjá sér en ástæðan fyrir dvöl okkar hér hjá foreldrum mínum er vegna framkvæmda sem við stöndum nú í í nýju íbúðinni okkar. Við ákváðum að flytja hingað tveimur dögum fyrir afhendingu svo við gætum þrifið vel og vandlega og skilað bestu Barmahlíðinni okkar vel frá okkur. Hennar verður sárt saknað – en satt best að segja hefur maður ekki haft tíma til að hugsa til íbúðarinnar þar sem það hefur verið nóg að hugsa um, gera og græja. Ég lýg því ekki þegar ég segi að ég hef ekki haft neinn einasta tíma til að setjast við tölvuskrif og blogga – en hér með verður breyting þar á! Ég hlakka ofsalega til að leyfa ykkur að fylgjast með! Ég hef að vísu verið mjög dugleg (þó ég segi sjálf frá)! að leyfa fylgjendum mínum á Instagram að fylgjast með og mæli ég með því ef þið viljið fá framkvæmdir beint í æð, að fylgja mér á Instagram: fanneyingvars

Við fluttum heim í Garðabæinn, stækkuðum aðeins við okkur og erum hæst ánægð með íbúðina og staðsetningu. Ég er vissulega fædd og uppalinn Garðbæingur svo mat mitt er ekki hlutlaust. Það kom mér ótrúlega á óvart hvað mér leið fljótt “heima” eftir að ég flutti inn til Teits í Barmahlíðina. Staðsetningin er sannkallaður draumur og mun ég sakna hverfisins ótrúlega mikið. Það eru milljón plúsar við að vera svona miðsvæðis og er ég ólýsanlega þakklát fyrir okkar tíma þar. Nauðsynlegt að opna augun og prófa eitthvað nýtt. Það kemur eflaust flestum á óvart að kaup okkar í Garðabænum voru algjörlega Tetis frumkvæði en ég var ekkert að flýta mér. Okkur lá í raun og veru alls ekkert á að flytja en eins og ég nefndi hér einhverntímann var þetta mikil hvatvísi og gerðist hratt. Teitur benti mér á eignina á fasteignavefnum og stakk upp á að kíkja á opið hús því vissulega fannst okkur hverfið heillandi. Í kjölfarið gerðum við tilboð sem var samþykkt og þá var ekkert annað í stöðunni en að setja okkar íbúð á sölu, sem seldist svo fljótlega í kjölfarið. Þetta gerðist ótrúlega hratt, fullhratt kannski fyrir mitt tempó og var ég lengi að átta mig á að þetta væri raunverulega að gerast. Ef ég á að segja eins og er er ég fyrst núna að finna fyrir ólýsanlegum spenningi og viðveran í íbúðinni undanfarna daga hefur sannarlega gert þetta raunverulegt. Í fyrsta sinn sem ég kaupi mér íbúð og tilhugsunin um að þessi fallega íbúð sé okkar, er dásamleg! Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á sunnudaginn og í gær af íbúðinni en það er ótrúlega margt sem við ætlum að breyta. Íbúðin mun breytast stórkostlega og ég er svo spennt að sýna ykkur og leyfa ykkur að fylgjast með!

Íbúðin er semsagt 126fm og þar af 6fm geymsla, þrjú afar rúmgóð svefnherbergi, stór og björt stofa, borðstofa, eldhús, eitt baðherbergi og þvottahús. Eins og þið sjáið í fljótu bragði er íbúðin öll í þessum týpíska eikar-lit. Parketið, innréttingar, skápar og hurðir. Innréttingarnar í íbúðinni, bæði eldhús- og baðinnréttingar, eru ofsalega fínar frá Brúnás og ætlum við að halda þeim en breyta þeim verulega. Mála þær og skipta um höldur. Eins ætlum við að mála skápa og hurðir. Parketið hefur verið okkar mesti höfuðverkur hingað til en ég veit ekki hversu oft við höfum skipt um skoðun varðandi það. Þetta er semsagt ótrúlega fínt og veglegt viðarparket og þar sem íbúðin er tiltölulega ný eigum við afar erfitt með að réttlæta það fyrir okkur að rífa það út og leggja nýtt. Það hefur því verið planið frá upphafi að pússa það niður, taka gula litinn í burtu og lakka það í ljósari/grárri tón. Það verkefni er hinsvegar töluvert kostnaðarsamara en við þorðum að vona og eins veit maður aldrei, þar sem viðurinn er lifandi, hvernig hann tekur í lakkið. Það yrði því afar svekkjandi að pússa parketið og lakka fyrir háa upphæð, og enda svo mögulega ekki nógu ánægð að þeim aðgerðum loknum! Við fórum því í seinustu viku að kanna möguleikana á því að rífa það hreinlega út og fá okkur nýtt parket sem við yrðum 100% sátt með, þá kom í ljós að parketið á íbúðinni er töluvert hærra heldur en flest parket eru í dag og því eru dyrakarmarnir sagaðir samkvæmt því. Þá þyrftum við að finna parket í sömu þykkt eða skipta út öllum hurðakörmum í íbúðinni líka. Þetta eru pælingar sem við höfum skipst á að flakka á milli. Eina mínútuna ætlum við að pússa og þá næstu ætlum við að skipta út parketinu. Svona höfum við farið fram og til baka mörgum sinnum! Ótrúlega fyndið! Ég er vog í stjörnumerki en Teitur hefur enga afsökun! ;)

Við ætlum svo að mála alla íbúðina í fallegum litum en ég valdi mér í samstarfi við Slippfélagið ótrúlega fallega liti sem ég hlakka til að segja ykkur betur frá. Við erum byrjuð að mála veggina og það verkefni verður búið á næstu dögum og ég er ótrúlega spennt að sýna ykkur útkomuna (og sjá hana sjálf)! Við þurfum einnig að gera ýmislegt inni á baðherbergi en það verkefni má bíða þar til eftir áramót. Það er sannarlega ekki hægt að gera allt í einu!

Þetta var bara stutt lýsing í fljótu bragði en ég mun klárlega segja ykkur vel frá hverri framkvæmd fyrir sig á næstu dögum! Ég finn fyrir gríðarlega miklum áhuga sem hvetur mig líka til að sýna ykkur meira frá – en áhorfið á Instagram Story hjá mér hefur held ég aldrei verið meira en núna! Ég minni ykkur sem viljið fylgjast ítarlega með að fylgja mér þar: fanneyingvars

Þangað til næst,
Knús, Fanney xxxx

HVAÐA BRÚNKUKREM NOTA ÉG

SAMSTARFSNYRTIVÖRUR
Síðustu tvo brúsa hef ég fengið að gjöf frá Marc Inbane á Íslandi, fram að því hafði ég alltaf keypt mér brúnkukremið sjálf.

Ég hef lengi ætlað að skrifa færslu um brúnkukrem. Já ég veit að þið trúið því ekki, en ég nota brúnkukrem! ;) Sjokker dagsins er það ekki? Ég er ekki elgtönuð og rauðhærð, ótrúlegt en satt…. Ég er að vísu ekki með þessa týpísku ljósu húð þrátt fyrir háralitinn en ég hef alltaf fengið góðan lit þegar ég sóla mig í útlöndum í gegnum tíðina. Ég fer ekki í ljós og núna í seinni tíð hefur þolinmæðin mín fyrir því að liggja á sólbekk í steikjandi hita til þess að næla mér í tan minnkað töluvert! Þrátt fyrir að tilhugsunin núna um að liggja á sólbekk í útlöndum gefi mér gott í hjartað, þá finnst mér ofsalega erfitt að liggja lengi aðgerðarlaus á sólbekk í miklum hita. Þessi þráhyggja um að koma elgtönuð heim úr sólarlandaferð held ég að hafi elst af mér, eflaust einhverjir sem kannast við það eða hvað? Ég hef notað brúnkukrem lengi og eflaust prófað öll þessi helstu sem eru til sölu hér heima. Mér hefur hingað til alltaf þótt það afar erfitt að finna “hið fullkomna” brúnkukrem en oftast hefur eitthvað smávegis farið í taugarnar á mér. Oftast er það lyktin! Brúnkukrem hafa í dag þróast mikið, fyrirhöfnin er orðin minni sem ég gleðst yfir.

Í byrjun árs prófaði ég að kaupa mér brúnkukrem frá Marc Inbane sem margir höfðu talað um. Það var frekar dýrt að mínu mati í innkaupum en eftir að ég prófaði það var ekki aftur snúið. Ég spreyja kreminu á mig, bæði í andlit og á líkama! Það er einn kosturinn að mínu mati, það að ég geti notað það í andlitið án þess að fá feita húð og mikla olíumyndun. Það er algjörlega lyktarlaust sem mér finnst annar afar góður kostur (sem og öðru heimilisfólki), það þornar á innan við 10 mínútum og brúnkan myndast strax. Það er því mjög auðvelt að spreyja því á sig samdægurs ef maður er t.d. á leið eitthvað fínt um kvöldið. Brúsinn endist svo heillengi og þar réttlætti ég kostnaðinn, sem og vegna allra góðu kostanna sem það býr yfir. Þetta er allra besta brúnkukrem sem ég hef prófað og ég gæti einfaldlega ekki mælt meira með því! Ég segi það aftur að ég hef fengið síðustu tvo brúsa að gjöf frá Marc Inbane á Íslandi en fram að því keypti ég mér þá alltaf sjálf. Þetta er spurning sem ég svara reglulega í skilaboðum og ég vona að þetta hjálpi einhverjum. Ég spreyja oftast á mig og dreifi svo með hanskanum, einnig er hægt að spreyja beint í hanskann og dreifa með þeim hætti. Ekki misskilja mig, ég er alls ekki alltaf með brúnkukrem – ég spreyja að meðaltali á mig kannski 1x – 2x í mánuði, aðeins oftar í andlitið en brúnkan endist mjög vel. Það er mjög næs að eiga gott brúnkukrem við hendina til að fríska sig við. Ég allavega gæti ekki mælt meira með!

Á öllum þessum myndum er ég með brúnkukremið frá Marc Inbane á mér.

Instagram: fanneyingvars
xxx Fanney