fbpx

SNÆFELLSNESIÐ

FERÐALÖGHELGINÍSLANDLÍFIÐPERSÓNULEGTSAMSTARF

Góðan daginn! Ég minntist á það í síðustu færslu að við fjölskyldan hefðum eytt langri helgi á Snæfellsnesinu um þar síðustu helgi. Ég fékk ógrynni af skilaboðum á persónulega Instagram reikninginn minn á meðan ferðalaginu stóð en ég náði því miður ekki að svara neinum. Ferðalagið byrjaði heldur óheppilega þar sem að síminn minn krassaði strax fyrsta kvöldið og ég var því símalaus út ferðalagið – ég rétt skaust inn á Instagram til að deila myndum í gegnum símann hans Teits og meira var það ekki. Fyrirspurnirnar voru mikið tengdar því hvar hinn og þessi staður væri sem við heimsóttum og ég svara því öllu í þessari færslu. Við fjölskyldan lögðum af stað á fimmtudegi og brunuðum beint í uppáhalds Stykkishólm. Við eyddum einni nótt í Hólminum góða og á föstudeginum fórum við svo á Búðir þar sem við gistum í tvær nætur. Þetta ferðalag var algjörlega meiriháttar og verður lengi í minnum haft! Dóttir mín Kolbrún Anna toppaði sig algjörlega og var sannkallaður drauma ferðafélagi sem var svo dásamlegt. Snæfellsnesið er allra fallegasti staður landsins að mínu mati. Ég fer alls ekkert ofan af því.

Fimmtudagur:

Við komum í fallega Stykkishólm og checkuðum okkur inn á Hótel Egilsen sem er staðsett á besta stað í miðbænum. Ég var að vinna í Stykkishólmi sumarið 2012 þegar Egilsen opnaði og það hefur verið draumur að fá að gista þar síðan þá og upplifa það að vera “ferðamaður” í heimabænum mínum. Ég segi heimabær því að foreldrar mínir eru bæði fædd og uppalin í Stykkishólmi en fluttu í Garðabæinn rétt áður en að ég fæddist. Ég eyddi því allri minni æsku, sumrum, jólum og áramótunum í Stykkishólmi hjá ömmu og afa og fjölskyldunni minni þar – allt mitt fólk er frá Stykkishólmi í báða ættliði svo Hólmurinn hefur alltaf verið mér afar heimakær og standa minningarnar þaðan úr æsku upp úr og eru mér virkilega dýrmætar. Mér finnst því einstaklega gaman að fá að sýna Teiti og Kolbrúnu Önnu Hólminn minn og staðina sem má segja að ég hafi alist upp á. // Við fengum frábæra díla á gistingum okkar bæði á hótel Egilsen og á hótel Búðum. Samstarf í formi góðra kjara ef svo má að orði komast.

Við borðuðum kvöldmat á Narfeyrarstofu og löbbuðum svo upp á Súgandisey, sáum ferjuna Baldur koma í höfn frá Flatey og fylgdumst með lífinu á Breiðafirðinum sem skartaði sínu fegursta þetta kvöld. Dásamleg kvöldstund með mínum.

Kolbrún Anna myndaði mömmu og pabba í fyrsta skipti og foreldrarnir gátu ekki annað en hlegið!
Eitthvað svo fullkomið vibe á Egilsen.

Föstudagur:

Byrjuðum á drauma morgunverði á hótelinu. Checkuðum okkur út í hádeginu og röltum í kjölfarið um bæinn, fengum okkur að borða og fórum í heimsókn til frænku minnar. Við keyrðum svo af stað á næsta áfangastað með viðkomu á Ytri-Tungu, það er strönd á Snæfellsnesinu sem er m.a. fræg fyrir seli – en við sáum fullt af selum gægjast upp úr sjónum sem var ótrúlega skemmtilegt, ásamt því að við nutum þess að slaka á á ströndinni í sólinni. Ég fékk margar spurningar á Instagram út í hvar þessi strönd væri staðsett. Eftir dágóða veru á ströndinni á Ytri-Tungu héldum við áfram á Hótel Búðir þar sem við checkuðum okkur næst inn. Hótel Búðir er eitt fallegasta hótel landsins, ég bara verð að segja það. Það er fallegt hvert sem augað lítur og er staðsett á besta stað á nesinu, frábær staðsetning ef manni langar að fara hringinn í kringum Snæfellsnesið t.d. Ég hafði aldrei gist þar áður en m.a. farið þangað í brúðkaup en Búðir er m.a. frægt fyrir fallegu, litlu svörtu kirkjuna sem þar stendur. Við borðuðum kvöldmat á hótelinu þetta kvöldið.

Laugardagur: 

Við vöknuðum og fórum í dýrindis morgunmat. Bæði hótelin mega eiga það að morgunmaturinn stendur klárlega upp úr. Ég veit ekkert betra en að byrja daginn á jafn dásamlegum morgunmat sem að lagði 100% línurnar fyrir dagana. Fullkomið. Við fengum okkur svo kaffibolla í fallegustu setustofu landsins á hótelinu. Þið afsakið hvað ég get ekki hætt að dásama hótelin, en setustofan er klárlega ein af þeim hlutum sem hótel Búðir er frægt fyrir.

Við vorum sumsé búin að ákveða að eyða laugardeginum í það að fara hringinn í kringum Snæfellsnesið. Við lögðum af stað í hádeginu og byrjuðum á Rauðfeldsgjá, en við löbbuðum að og inn í gjánna. Þvílík náttúrufegurð sem ég mæli með fyrir alla sem ætla sér að taka hringinn. Eftir gott stopp þar keyrðum við á Arnarstapa og því næst yfir á Hellnar. Við eyddum dágóðum tíma á Hellnar þar sem við settumst á kaffihúsið í fjörunni og fengum okkur kaffi, kökur og vöfflur. Teitur fékk sér einnig fiskisúpu. Hellnar er ein falin perla sem er algjörlega must see. Að setjast niður á kaffihúsið, drekka kaffi og njóta útsýnisins er eitthvað sem allir þurfa að prófa. Við röltum svo niður í fjöruna og virtum fyrir okkur fegurðina sem blasti við hvert sem augað leit. Algjör draumur. Eftir Hellnar keyrðum við svo yfir á Djúpalónssand þar sem við eyddum einnig góðum tíma, sátum á sandinum og horfðum á öldurnar. Meiriháttar upplifun. Eftir góða viðveru þar keyrðum við áfram og í gegnum Hellissand og Rif og enduðum í Ólafsvík. Þar snæddum við kvöldmat, pizzur á veitingastaðnum Sker áður en við héldum til baka á Hótel Búðir. Meiriháttar hringferð um Snæfellsnesið og ég gæti ekki mælt meira með þessum stöðum sem ég nefndi. Ég hefði alls ekki viljað sleppa neinum þeirra! Kvöldið okkar endaði svo á kvöldgöngutúr hjá hótelinu en það eru nóg af náttúruperlum þar. Við löbbuðum framhjá svörtu kirkjunni og fundum fallega strönd þar aðeins lengra. Það var svo hlýtt og fallegt þennan dag. Við Teitur enduðum svo á afar rómantískum nótum á hótelinu þar sem við spiluðum Yatzy við arineld. Fullkomið ef þú spyrð mig!


Rauðfeldsgjá.

Mömmukoss í fjörunni á Hellnum.

Ég fékk ótrúlega margar spurningar út í hvaða buxur frá 66 Norður þetta væru og eins hvaðan peysan væri. Buxurnar keypti ég fyrir löngu en þær heita Vatnajökull, týpa sem er alltaf til hjá þeim. Peysan er einnig gömul, keypt í H&M þegar verslunin opnaði fyrst hér á landi. 
Djúpalónssandur.
Komin til baka á Hótel Búðir en sést örlítið gægjast í hótelið þarna á bakvið. 
Drauma endir á drauma degi.

Sunnudagur: 

Við vöknuðum við 20 stig á mælinum. Við tjekkuðum okkur út af hótelinu í hádeginu en gátum ekki hugsað okkur að keyra heim strax á þessum stórkostlega degi. Við keyrðum til baka í Stykkishólm, fórum í bakaríið og þaðan í sund. Eftir sundið hittum við frænkur mínar, fórum í ísbíltúr og ákváðum að lokum að eyða seinni partinum af deginum á ströndinni á Ytri-Tungu, aftur, áður en við myndum bruna í bæinn. Það var ótrúlega ljúft að taka daginn svona á stemningunni en við lögðum ekki af stað í bæinn fyrr en um 18 leitið. 
Draumadísin mín eftir dásamlega veru á Hótel Búðum, með Snæfellsjökulinn beint fyrir framan sig.
Endum þetta á fjölskyldumynd á Snæfellsnesinu. <3

Fullkominn endir á frábærri ferð. Snæfellsnesið fær öll mín meðmæli og ég vona að þetta hafi bæði svarað spurningum ykkar og gefið ykkur þó nokkrar hugmyndir ef þið eruð í ferðahugleiðingum um þennan drauma stað. Frábær viðbót væri svo auðvitað að taka dagsferð og fara með Baldri út í Flatey, sem er paradísar eyja á Breiðafirðinum en Baldur siglir þangað frá Stykkishólmi. Við náðum því ekki í þetta skiptið en eigum það inni næst. <3

Strax farin að hlakka til næsta ferðalags!

Þangað til næst,
Xxx Fanney

Instagram: fanneyingvars

HELGIN

Skrifa Innlegg