Marta Rún

GRILLAÐ LAMBAKJÖTSSALAT

Það eru fullt af góðum leiðum við það að borða góða steik heldur en einungis með kartöflum og sósu. Þótt það um sumar eða vetur passar þetta salat alltaf við. Það er bæði fallegt og ótrúlega gott. Grillaðar fíkjur eru ótrúlega góðar og karamellast við grillið eða grillpönnuna og passa vel við lambakjötið og ferska mozzarella ostinn.

Hráefni
1 lambafillet
1 ferskja
1 kúrbítur
Salatblanda
1 mozzarella kúla
rauðlaukur

Salatdressing
1 lítil dós grískt jógúrt
safi frá hálfri sítrónu
1 tsk Dijon sinnep
1 msk olífuolía
klípa af salti
saxaðar ferskar kryddjurtir ég nota dill en þú getur notað þær jurtir sem þér þykir góðar.

Finnið til stóran disk eða skál og veljið þá salatblöndu sem ykkur þykir best til að nota, skerið laukinn í þunnar sneiðar og rífið mozzarella kúluna í litla bita yfir salatið. Finnið til grillpönnu eða hitið upp í grillinu ykkar. Saltið og piprað lambakjöti og steikið á heitri pönnunni eða grillinu eins og þið viljið hafa með, eldað medium/medium rare finnst mér passa vel. Leggið til hliðar og leyfið því að hvílast. Lækkið í hitanum skerið kúrbít í hálfmána sneiðar og steikið í nokkrar mínútur þangað til það er komið með fallegar grillrendur. Þá næst skuluð þið skera fíkjurnar niður í sneiðar og grillað þær líka á pönnunni þar til þær hafa fengið fallegar grillrendur.
Blandið öllum hráefnum saman í skál fyrir dressinguna og smakkið til. Raðið öllu yfir salatblönduna með smá salatdressingu ásamt því að bera dressinguna með til hliðar.
Saltið og piprið yfir salatið og berið fram.

Þætti gaman að vita ef þú prufar einhverja uppskrift hérna á Trendnet :)
-Marta Rún

15 MÍNÚTNA PASTA

MATUR

Við þekkjum hugsa ég flest tilfininguna “æji ég nenni ekki að elda”. Venjulega þegar ég dett í þennan gír þá ríf ég mig í gang og geri eitthvað fljótlegt og einfalt ! Hér er einn af mínum go to réttum sem tekur enga stund og gera og á oftast allt til í eldhúsinu fyrir þennan einfalda rétt.

Spaghetti Aglio e Olio
Fyrir 4

Í þessari uppskrift er spaghetti, ólífuolía, hvítlaukur, chilipipar , steinselja og parmesan og með þessari einföldu blöndu af hráefnum má búa til þennan einfalda, bragðgóða og fljótlega pastarétt.

500 g spaghetti
4 msk ólífuolía
6 hvítlaukgeirar, skornir smátt
½ teskeið chiliflögur
Lúka af saxaðri steinselju
Parmesan ostur til þess að strá yfir.

Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum, ég kýs að hafa það “al dente” eða oft um það bil einni mínútu styttra heldur en pakkinn segir til um. Geymið 1 bolla af pastavatninu þegar þið sigtið pastað frá.

Hitið 3 msk af ólífuolíu á pönnu á miðlungs-lágum hita. Bætið við hvítlauknum og chilipiparflögunum og látið malla þar til hvítlaukurinn er aðeins farinn að taka smá lit. Hellið þá pastavatninu sem þið sigtuðuð frá ofan í og leyfið að malla saman í rúmar 5 mínútur eða þangað til vatnið hefur minnkað um helming. Bætið þá spaghettíinu við og blandið. Því næst bætið við steinseljunni við ásamt ólífuolíu, smá salti og pipar og blandið vel saman. Stráið vel af parmesan osti yfir.

Esay peasy !

Ég er deili reglulega einföldum réttum eins og þessum á Instagram og þið getið fundið nokkra svona svipaða rétti í vistuðum instagram story inná mínu instagrammi. @martaarun

SPÆNSKUR ÞORSKRÉTTUR

Ég held áfram með spænska þemað en að þessu sinni er það fiskréttur. Þennan gerði ég á Íslandi í sumar fyrir matarboð hjá foreldrum mínum og hann slóg heldur betur í gegn. Fersk og fá hráefni sem kom saman og gera þetta frábæra rétt.

Fyrir 6
Hráefni

 • 1 Rauðlaukur
 • 3 Hvítlauksgeirar
 • 2 Pakkar kirsuberjatómatar eða um 750g
 • Þorskhnakkar skornir í jafna 6 bita
 • 6 Hráskinkusneiðar
 • Grænar ólífur eftir smekk
 • Steinselja
 • Ólífuolía
 • Salt & pipar

Aðferð
Hitið ofninn í 200°. Skerið rauðlaukinn og hvítlaukinn í þunnar sneiðar og tómatana í helming,
grænar olífur og settu í eldfast mót. Settu 4 msk af ólífu olíu, salt og pipar og blandaðu öllu vel saman.

Bakið í ofninum í 15 mínútur.

Settu parmaskinku utan um hverja fiskisneið og setjið þorskinn ofan á tómatana og aftur í ofninn í aðrar 15 mínútur þar til þorskurinn er eldaður í gegn og parmaskinkan orðin aðeins stökk.
Stráið saxaðiri steinselju yfir fiskinn, smá svartan pipar og berið fram með góðu brauði til þess að dýfa í kraftinn sem myndast.

*það þarf ekki að salta fiskinn því parmaskinkan gefur mikið saltbragð þegar hún bakast.

Ég bar réttinn fram með sætri kartöflumús sem mér fannst passa vel saman með öllu grænmetinu sem er í réttinum.
Mér þætti alveg ótrúlega gaman að vita ef þið prófið einhverjar uppskriftir hjá mér með því að láta mig vita hér í kommetnum !

Marta Rún

PASTA SALAT

Mig langar að kynna ykkur fyrir smá átaki sem ég hef tekið þátt í nokkur ár sem heitir Meatless Monday. Meatless Monday virkar þannig að á hverjum mánudegi sleppi ég öllu kjöti og reyni að elda nýja grænmetisrétti. Held það viti það flestir að það þarf að minka kjötneyslu í heiminum og allir geta gert smá. Ég er ekki grænmetisæta eins og hefur sést en ég vill samt sem áður gera mitt að mörkum. Ég versla það sem ég get lífrænt og reyni að hafa meira jafnvægi í grænmetisréttum og kjötréttum á hverri viku. Það hefur það aukist til muna eftir að ég byrjaði í þessu átaki vegna þess hversu góða grænmetisrétti er hægt að gera. Þeir réttir sem eru ekki með kjöti mun ég setja í MEATLESS MONDAY dálk og þá ættir þú með tímanum að geta fundið nýjar uppskriftir.
……

Kalt pastasalat er frábær réttur til að gera með fyrirvara til að geyma inní ísskáp. Þú getur gert stóra skál af pastanu með hvaða grænmeti sem þér finnst gott. Rétturinn er í raun bara eldað pasta með fersku grænmeti, ferskum mozzarella osta, og smá dressingu. Ótrúlega einfalt að búa til.

Hráefni

 • 500 g pasta af eigin vali
 • 2-4 gulrætur
 • 1 rauðlaukur
 • ferskur aspas
 • 1-2 stangabaunir
 • 1 pakki kirsuberjatómatar
 • 1 rauð paprika
 • 1 pakka litlar mozzarella kúlur

Dressing

 • 80 g ólífu olí
 • Safi úr 1 sítrónu
 • 2 mask majónes
 • 1 tsk oregano
 • 1 tsk basil
 • Salt & pipar

Aðferð:

Blandið öllu vel saman í skál.

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum, sigtið vatnið frá og setjið í stóra skál. Hellið ólífuolíu yfir og hrærið saman og setjið inní ísskáp.
Sjóðið aspasinn og baunirnar í 2-3 mínútur og færið síðan yfir í skál með köldu vatni og klökum í nokkrar mínútur. Skerið aspasinn og baunirnar í litla bita ásamt grænmetinu og bætið við pasta skálina. Skerið mozzarella kúlurnar í helming og bætið þeim einnig við.
Blandið öllu vel saman ásamt dressingunni.

Kreistið sítrónu yfir ásamt smá salti og pipar og smakkið til.

Viltu vera með í átakinu og fá fleiri hugmyndir af grænmetisréttum ? Endilega láttu mig vita með því að klikka á like.
-Marta Rún

SPÆNSKT LAMBALÆRI

Þessi frábæra uppskrift af lambalæri er ótrúlega góð. Hellingur af spænskum brögðum þar sem chorizopulsan er full af kryddum ásamt hvítlauki, timían og paprikukryddi. Fullkomin réttur fyrir sunnudagslærið þar sem er aðeins brotið hefðina frá þessu klassíska lambalæri.
Borið fram með kinóa- og kjúklingabaunasalati sem er passar vel með.

Hráefni:

 • Lambalæri
 • Chorizo pulsa skorin í litla bita
 • 5 hvítlauksgeirar skorna í helming
 • 1 msk paprikuduft
 • 1 msk ólífuolía
 • ½ bolli brandy eða sherry (má sleppa)
 • 1 tsk saxað timían

Aðferð:

 1. Setjið lærið í eldfastmót. Finnið til lítin beittan hníf og skerið lítil göt í lærið og setjið chorizo bitana og hvítlauksgeirana í götin .
 2. Blandið saman paprikukryddinu, olíu og brandy í skál. Hellið yfir allt lærið og setjið í kæli í minnsta kosti 3 klukkutíma. Það er best að lærið fái að marenerast yfir nótt.
 3. Hitið ofninn í 200°
 4. Setjið lambalærið í eldfast mót og stráið fersku timían, salti og pipar yfir allt lærið.
  Setjið inní ofn og eldið þar til ykkur finnst það best. Meðalsteikt á kjarnahitinn 60-65°

Látið lærið hvílast í 15 mínútur í álpappír áður en það er skorið.

Til þess að hafa smá sósu með, steiktu 2 hvítlauksgeira, ¼ smátt skorinn lauk í litlum pott í nokkrar mínútur. Bættu við eins og einu glasi af rauðvíni (best er að hafa það rauðvín sem er drukkið með matnum) og láttu sjóða niður ¾. Notaðu síðan allan kraftinn sem var í eldfasta mótinu með lambinu og sjóðið saman í nokkrar mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.

Kínóa og kjúklingabauna salat.

Ferskt og gott sumarlegt salat sem passaði vel með kjötinu. Það góða við þetta salat er að nota það sem þú átt til í ísskápnum til að bæta við í salatið.

 • 1 bolli kínóa
 • 1 bolli (dós) af kjúklingabaunum
 • Fetaostur
 • ½ rauðlaukur
 • Kirsuberjatómatar
 • Mangó
 • Radísur
 • Sítróna
 • Ólífuolía
 • salt & pipar

Sjóðið bolla af kinóa á móti 3 bollum af vatni. Hellið á skál með kjúklingabaunum, ólífuolíu, safa úr hálfri kreistri sítrónu, salti og pipar og blandið öllu vel saman.
Skerðu það grænmeti sem þér finnst gott í litla bita og bætið við kínóa blönduna og hrærið saman.

Marta Rún

TRYLLT TACO SALAT

Fyrir 6 sem aðalréttur
8-10 sem forréttur

Ég er forfallin aðdáandi Chrissy Teigen og ég var ekki lengi að panta mér nýju matreiðslubókina hennar. Í henni eru mikið af réttum sem mig ætla að gera næstu vikurnar. Hér er ein uppskrift sem vakti strax áhuga minn þar sem ég er mikið fyrir taco og mexíkóskan mat. Dressingin er alveg ótrúlega góð og það varð nánast ekkert eftir af henni. Þetta salat er fullkomið í veislur og saumaklúbbana eða stórt matarboð

Salatdressing:

 • 170 ml olía
 • 60 ml tómatsósa
 • 60 ml rauðvínsedik (hvaða edik sem er virkar)
 • 1 msk sykur
 • ½ tsk cayenne pipar

Hakkblanda:

 • 500g nautahakk
 • 1 msk olía
 • 1 msk paprika (hér getið þið einnig notað tilbúna blöndu af tacokryddi)
 • 2 tsk cumin
 • 2 tsk hvítlauksduft
 • 2 tsk oregano
 • 1 tsk cayenne pipar
 • 400g svartar eða nýrnabaunir
 • 125 ml vatn
 • Lúka af söxuðum kóríander
 • Salt & pipar

Salat:

 • 2 ferskir maísstönglar eða frosnir og þá þiðnir.
 • 1 kálhaus
 • 2 tómatar
 • 1 avókadó
 • 50 g svartar ólífur
 • 120 g doritos snakk
 • 1 rauðlaukur
 • Sýrður rjómi

Aðferð 

Salatdressingin:
Blandið öllum hráefnunum í skál og hrærið vel saman.

Hakkblandan:
Finnið til stóra pönnu og stillið á háan hita. Byrjið á því að steikja maísstönglana á öllum hliðum þangað til að þeir eru orðnir ljósbrúnir allan hringinn, um það bil 8 til 9 mínútur (ef þið eruð að nota frosna maísstöngla eru það um 6 mínútur) og setjið þá til hliðar.
Leyfið pönnunni aðeins að kólna niður í miðlungsháan hita og bætið þá við olíu og steikið hakkið í 5-6 mínútur eða þangað til mestallur vökvinn hefur gufað upp. Blandið öllum kryddunum saman í skál og bætið við í hakkið ásamt baununum og 125 ml. af vatni. Blandið vel saman og látið malla í aðrar 5 mínútur og svo að lokum bætið við kóríandernum.

Salatblandan:
Dreifið kálinu á stóran disk og hellið hakkblöndunni yfir miðjuna. Skerið maísinn af stönglinum og raðið yfir hakkið ásamt tómötunum, avókadóinu, lauknum og ólífunum. Hellið dressingu yfir allt salatið, kremjið doritos snakkið yfir og að lokum dreifið smá sýrðum rjóma á miðjuna. Stráið smá ferskum kóríander yfir í lokinn.

Verði ykkur að góðu !
Marta Rún

HALLÓ TRENDNET

Ég ætla að hafa fyrstu færsluna stutta kynningu á mér. Marta Rún heiti ég, búsett í Barcelona og hef verið síðastliðin tvö ár. Ég hef ótrúlega mikinn áhuga á matargerð, góðu víni og skemmtilegu fólki. Ég er ekki ný í bloggheiminum en ég hef síðustu 5 ár bloggað á heimasíðunni FEMME.is. Mér fannst komin tími til á að gera smá breytingar og ná til fleiri lesenda. Ég eignaðist nokkrar af mínum bestu vinkonum í gegnum FEMME.is og hef haft frábæra samstarfsaðila á þessum tíma. Ég er ótrúlega þakklát fyrir allt það ferðalag og tækifæri.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mat og það hefur aukist sérstaklega eftir að ég fluttist hingað til Spánar. Þið munið finna einfaldar, uppskriftir með áherslu á fersk hráefni. Ég er ekki lærður kokkur og ef til vill vilja einhverjir vera ósammála mér um aðferðir, en ég fer mínar leiðir og geri hlutina eftir mínum smekk. Mér finnst gaman að dunda mér í eldhúsinu í langan tíma um helgar ásamt því að halda oft matarboð en á virkum dögum geri ég frekar einfaldar og fljótlegar uppskriftir sem bragðast vel. Markmiðið mitt er að nota fá en góð hráefni sem vinna vel saman. Eftir að ég flutti til Spánar varð ég mjög hrifin af spænsku matarmenningunni og fljótlega áttaði ég mig á því að það var svo miklu meira heldur en bara tapas. Einnig hef ég líka ferðast um Ítalíu síðustu tvö sumur og þið munuð sjá það fljótlega á blogginu þar sem ég verð reglulega fyrir innblæstri frá báðum stöðum. Einnig sæki ég líka mikinn innblástur frá matreiðslubókum sem ég hef safnað lengi og af internetinu þar sem mikið af skemmtilegu efni er að finna. Ég ferðast mikið í kringum Spán og ég fæ ótal margar fyrirspurnir um hvar eigi að borða í Barcelona og hvaða stöðum ég mæli með að ferðast þar í kring. Ég mun þar að leiðandi skrifa um borgina og nálæga sem er þá ávallt hægt að fletta upp seinna ef þú ert á leiðinni til Barcelona. Hlakka til að deila með ykkur uppskriftum sem hafa verið vinsælar hjá mér i gegnum árin ásamt því að birta nýjar í hverri viku.
Hér eru nokkur sýnishorn á því sem koma skal.
– Marta Rún