SPAGHETTI MEÐ MÖNDLUPESTÓI

Þetta er mögulega eitt besta pasta sem ég er hef smakkað, ég er mikil pastakona en þessi blanda af pestó og ostinum þetta er algjör sprengja af bragðlaukum. Eftir að ég smakkaði pestóið þegar ég var að elda ákvað ég strax að gera meira af því til að eiga inní ísskáp og daginn eftir með brauði. Ég er búin að gera það nokkrum sinnum eftir það og þetta er alveg frábært pestó.
Hlakka til að heyra hvað ykkur finnst! Í réttinum er burrata ostur sem er mýkri en mozzarella, þið gætuð fundið þá í ostabúðum annars dugar mozzarella ostur.

Hráefni:
Fyrir 4

½ bolli ristaðar möndlur, ristaðar í 10 mínútur í 200° ofni
¾ bolli sólþurrkaðir tómatar
1 lúka steinselja
1 lúka basilika
2 hvítlauksgeirar
½ tsk chiliflögur
½ tsk salt
1/3 bolli ólífuolía
¼ bolli rifinn parmesan ostur
400g spaghetti
100 g burrata eða ferskur mozzarella ostur

Aðferð:

 1. Setjið ristuðu möndlurnar í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur.
 2. Bætið tómötum, steinselju, basiliku, hvítlauk, chilliflögum og salti útí matvinnsluvélina og búið til mauk sem minnir á gróft hnetusmjör. Það er betra að hafa maukið aðeins gróft.
 3. Færið pestóið yfir í stóra skál og rífið parmesan ost útí og blandið saman.
 4. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum og bætið smá salti út í vatnið við suðu.
 5. Þegar pastað er tilbúið takið 1 bolla af pastavatninu frá og sigtið restinu af vatninu frá.
 6. Hellið pasta vatninu sem þið tókuð til hliðar út í pestóið smátt og smátt þangað til að pestóið er orðið mjúkt og rjómakennt.
 7. Blandið þá pastanu saman við pestóið og rífið burrata eða mozarella bita yfir ásamt ferskri basiliku og parmesan osti. Einnig er gott að hafa sólþurrkaða tómata.

   

   


  Marta Rún

MIÐJARÐARHAFS-KJÚKLINGARÉTTUR Á PÖNNU

Kjúklingaréttur á pönnu með hráefnum frá miðjarðarhafinu. Ótrúlega þægilegt að gera allan réttinn á einni pönnu og bera fram. Í þessum rétti eru ekki mörg hráefni en fersk og góð sem vinna vel saman. Það skemmir líka ekki fyrir hvað hann er litríkur og fallegur.

Hráefni

4 kjúklingabringur

2 msk rifinn hvítlaukur

Salt og pipar

1 msk þurrkað oregano

½ fl þurrt hvítvín

1 sítróna

½ bolli kjúklingasoð (1/2 teningur og heitt vatn)

1 smátt saxaður rauðlaukur

4 smátt skornir tómatar

4 msk grænar ólífur í sneiðum

Handfylli af ferskri steinselju

½ fetakubbur

Aðferð:

 1. Byrjið á því að skera nokkra djúpa skurði í kjúklingabringurnar án þess að skera þær í sundur.
 2. Setjið kjúklinginn í skál með hvítlauknum, olíu, safa af ½ sítrónu, oregano, 1 msk steinselju, salti og pipar og leyfið því að marinerast í að minnsta kosti klukkutíma.
 3. Finnið til stóra pönnu, hitið olíuna á miðlungsháum hita. Steikið kjúklinginn á báðum hliðum þangað til hann hefur fengið gullbrúnan lit. Bætið hvítvíninu við og leyfið því að sjóða til helmings. Bætið þá sítrónusafanum og kjúklingakraftinum út í og sjóðið saman aftur til helmings. Setjið lok á pönnuna eða álpappír og látið malla saman í 10-15 mínútur ásamt því að snúa kjúklingum við einu sinni á pönnunni.
 4. Lækkið vel undir þegar kjúklingurinn er tilbúinn. Dreifið tómötunum, rauðlauknum og ólífunum yfir kjúklinginn og lokið í aðrar 3 mínútur rétt til að hita. Stráið steinselju og rifinn fetaost yfir réttinn ásamt svörtum pipar.

BUFFALO KJÚKLINGAVÆNGIR

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Coca-Cola á Íslandi

Þegar mig langar í skyndibita sem er mjög sjaldan þá elska ég langar mig alltaf í sterka Buffalo kjúklingavængi og heimagerða gráðosta sósu. Ég er nokkrum sinnu búin að gera það heima hjá mér og baka þá í ofni sem er hollara en að fara að fá sér þá á veitingastöðum vil ég trúa.
Hér kemur ein skotheld uppskrift af stökkum kjúklingavængjum með sterkri og góðri sósu eins og þú færð hana á veitingarstöðum. Þetta er einnig góð uppskrift fyrir partý með pinnamat og smábitum.

Hráefni
800g – 1 kg Kjúklingavængir
1 msk lyftiduft
½ tsk pipar
½ tsk hvítlauksduft
½ bolli Buffalo sósa
4 msk brætt smjör
1 msk hunang

Hitið ofninn í 200 gráður. Setjið ofngrind ofan á ofnplötu, penslið grindina sem smá olíu.
Setjið alla kjúklingavængina í eina stóra skál með lyftiduftinu, salti, pipar og hvítlauksdufti.
Blandið öllu vel saman með höndunum. Raðið á ofngrindina og bakið í ofninum í 30-35 mínútur þangað til þeir eru orðnið gullbrúnir og stökkir.
Finnið til litla skál og þeytið saman Buffalo sósuna, brædda smjörið og hunangið.
Hellið sósunni yfir kjúklinginn og blandið vel saman.
Berið fram með sellerí sneiðum, gulrótum og gráðostasósu.

Heimagerð gráðostasósa
1 bolli mulinn gráðostur
½ bolli sýrður rjómi
½ bolli mæjónes
½ tsk sítrónu safi
¼ tsk hvílauksduft
Smá salt & pipar

Blandið saman ½ bolla af gráðostinum með öllum hráefnunum og stappið vel saman. Þið getið sett ostablönduna í matvinnsluvél ef þið eigið hana til. Hrærið svo restinni af gráðostabitunum við sósuna og berið fram með vængjunum.

 

Marta Rún

Veggie Taco


Þessi færsla er gerð í samstarfi við Coke á Íslandi en ég mun næstu vikurnar gera skemmtilegar uppskriftir með því.

Stökkt blómkál:
Blómkálshaus
1 egg
Brauðrasp
1 tsk Mexikókrydd
Salt & pipar

Blandið saman eggjum, Mexikó kryddblöndu, salti og pipar í skál. Rífið blómkálið í litla munnbita, dýfið því í eggjablönduna og þaðan í brauðraspið og leggið á ofnplötu með smjörpappír.
Setjið inní ofn í 180° í 20-25 mínútur eða þangað til þeir eru orðnir stökkir og gullbrúnir.

Hrásalat:
1/2 haus rauðkál eða hvítkál
1 msk lime-safi
1 dl mæjónes
1 dl sýrður rjómi
Sriacha eftir smekk
Smátt saxaður kóríander

Raðið hrásalati í litlar pönnukökur, setjið síðan nokkra bita af blómkáli, avókadó sneiðum, kóríander, smá lime-safa og auka Sriacha ef þú fýlar sterkt eins og ég !

Marta Rún

EINFALDUR EFTIRRÉTTUR

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Coke á Íslandi þar sem ég mun næstu vikurnar gera skemmtilegar uppskriftir með þeim.

Þetta er ostakaka sem ekki þarf að baka og hægt að gera á engri stundu! Frábært þegar þú hefur lítinn tíma en langar að bjóða uppá eftirrétt.

Hráefni:⁣
1 1/2 bolli af uppáhalds kexinu þínu ⁣(getur verið oreo, lu lex eða hvað sem er)
1 bolli rjómi⁣
220 g hreinn rjómaostur⁣
1 tsk vanilludropar⁣
1/4 bolli sykur⁣
Fersk ber⁣

Myljið kexið í frekar grófar mylsnur og setjið til hliðar.⁣
Þeytið rjómann í einni skál og setjið til hliðar.⁣
Finnið til aðra skál og þeytið rjómaostinn þangað til að hann er orðið mjúkur, bætið þá sykrinum og vanilludropunum við.⁣
Bætið þeytta rjómanum hægt og rólega saman við rjómaostablönduna.⁣
Setjið síðan kexmylsnuna og rjómaostablönduna til skiptis í glas og setjið í ísskap í klukkutíma. Bætið við ferskum ávöxtum áður en þið berið fram.⁣

Marta Rún

 

CHICKEN MARBELLA

Chicken Marbella frá Spáni
Þetta er einn sá besti ofnbakaði kjúklingaréttur sem ég hef gert. Þetta er fullkomin réttur til
að vera með í matarboði og þú munt slá í gegn! Þegar ég las uppskriftir fyrst þá fannst mér
hráefnin vera ótrúlega skrítin og furðuleg hvernig þetta myndi passa saman en þetta er
einhver rosaleg blanda sem er stútfull af brögðum. Ég gæti ekki mælt meira með þessum
rétti og mana ég þig að prufa. Það er lykilatriði að hann kjúklingurinn fái að marinerast í
nokkra klukkutíma svo hann verði sem bestur.

Hráefni:
½ bolli ólífuolía
½ bolli rauðvínsedik
1 bolli sveskjur
½ bolli steinlausar grænar ólífur
½ bollicapers og smá af safanum
3 lárviðarlauf
6 hvítlauksgeirar, pressaðir
2 msk oregano
½ tsk salt
½ tsk svartur pipar
Tvö kíló af blönduðum kjúklingabitum með beini.
1 bolli hvítvín
2 msk púðursykur
Lúka af saxaðri steinselju

Aðferð:
1. Finnið til stóra skál og setjið ólífuolíu, rauðvínsedikið, sveskjurnar, ólífurnar, capers og
safann, lárviðarlaufin, hvítlaukinn, oregano, salt og pipar og blandið saman. Bætið
kjúklingabitunum við og veltið uppúr blöndunni. Setjið plastfilmu yfir og inní ísskáp í
minnstakosti 4 tíma. Því lengra því betra.

2. Stillið ofninn á 180°

3. Finnið til stórt eldfast mót og raðið kjúklingnum og blöndunni í mótið. Skinnið á
kjúklingnum á að standa upp. Hellið hvítvínunu í mótið á stráið púðursykri yfir.

4. Bakið á 180° í 50-60 mínútur, hellið safanum í botnunum nokkrum sinnum yfir kjúklinginn
á meðan hann er í ofnunum.

5. Þegar rétturinn er tilbúin saxið þá smá steinselju yfir áður en hann er borinn fram.

Prufið og látið mig vita hvað ykkur finnst, ég lofa að þetta verði gott!!
Marta Rún

GRÍSKAR KJÖTBOLLUR MEÐ JÓGÚRTSÓSU & KÚSKÚS


Mér finnst ótrúlega gaman að gera margar útfærslur af kjötbollum eftir að ég borðaði mikið að einum af mínum uppáhalds veitingastöðum í New York The Meatballshop. Nautahakk er yfirleitt frekar ódýrt og auðvelt að gefa heilli fjölskyldu að borða bollur og allskonar meðlæti.
Þetta skipti gerði ég grískar kjötbollu með jógúrt sósu og kúskús í meðlæti.
Þetta er holl og góð máltíð sem er fyrir alla.Hráefni (kjötbollur):

1 pakki nautahakk

¼ bolli brauðrasp

¼ bolli steinselja eða kóríander

½ laukur

1 hvítlauksgeiri

2 msk sítrónusafi ásamt sítrónuberki af einni sítrónu

1 egg

1 tsk oregano

½ tsk cumin

½ fetakubbur rifinn í litla bita

salt og pipar

Hráefni (Tzatziki jógúrt sósa):

1 agúrka (rifin niður með rifjárni)

1 bolli grísk jógúrt

safi úr einni sítrónu

½ tsk dill

½ rifinn hvítlaukur

salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

Hitið ofninn á 200°.

Finnið til eldfastmót og bætið við olíu í botninn

Öllum hráefnunum er blandað saman í stórri skál, best er að nota hendurnar og blanda öllu saman, passið samt að

blanda þessu öllu ekki of mikið saman í kjötfass.

Búið til bollur sem eru eins og golfbolti að stærð og raðið þétt upp við hvor aðra í formið með olíunni.

Bakið í ofninum í 15-20 mín, þangað til þær eru farnar að sýna smá lit.

Á meðan bollurnar eru í ofninum getur þú búið til jógúrt sósuna.

Þar blandar þú öllum hráefnunum saman í skál og hún er tilbúin.

BBQ BROKKOLÍ TACO

MEATLESS MONDAY


Meatless Monday og mikið er ég ánægð. Ég er nýkomin heim frá Madrid þar sem ég borðaði yfir mig og langar einmitt í ekkert nema góðan grænmetisrétt. Hér er uppskrift af einum góðum grænmetisrétt sem ég gerði ekki fyrir svo löngu og hann er frábær. Geri mikið af grænmetis taco og nota þá oft blómkál, brokkolí eða kjúklingabaunir.

Hráefni:
1 brokkolí haus
½ bolli BBQ sósa
1 egg
½ bolli rasp
1 tsk cillikrydd
1 hvítkál eða rauðkál haus
2 gulrætur
1 lime
1 dós hrein jógúrt
1 tsk sinnep eða Sirracha sósa
Avocado
Kóríander
Litlar tortilla pönnukökur
Salt og pipar

Aðferð:
Skerið brokkolí hausinn í litla bita, 3 til 4 munnbitar fyrir hvert taco.
Finnið til tvær skálar, brjótið egg í aðra og hrærið chillikryddi, salti og pipar saman við og setjið rasp í hina skálina. Dýfið brokkolí hausnum í eggin og svo í raspinn og raðið á ofnplötu með smjörpappír. Setjið inní ofn í 15 mínútur eða þar til að brokkolíið er orðið gullbrúnt á lit. Takið það þá úr ofninum og penslið yfir með BBQ sósu. Látið brokkolíið aftur inní ofn í 5 mínútur.

Skerið hvítkál eða rauðkál í þunnar sneiðar og setjið í skál. Rífið gulrætur með rifjárni ofan í skálina. Blandið jógúrti, sinnepi eða sterkri sósu saman við og  kreistið ½ lime úti. Ef þið viljið meiri sætu er gott að bæta hunangi saman við.

Setjið 3 msk af olíu á pönnu og stillið á háan hita. Notið tangir til þess að beygja pönnukökurnar í taco-skeljaform og steikið eina hlið í einu í 30 sek. Gott er að nota töng á milli til þess að búa til smá bil á meðan þú steikir. Gott er að leggja pönnukökurnar á pappír sem sogar olíuna í sig.

Raðið hrásalati í hverja taco skel, ásamt avocado, brokkolí og ferskum kóríander.

Bætið við BBQ sósu ef ykkur finnst vanta meiri sósu.

Látið mig vita ef þið viljið fleiri grænmetisuppskriftir.
Allir ættu að hafa meira jafnvægi af grænmetisréttum í fæðunni sinni að mínu mati.
Marta Rún

GUÐDÓMLEGUR FRANSKUR POTTRÉTTUR


Það er ekkert betra en góðir pottréttir á köldum vetrardögum. Franskir réttir eins og Coq Au Vin og Beef Bourguignon eru mjög frægir pottréttir. Ég rakst á uppskrift á dögunum þar sem ég sá franskan hvítvínspottrétt og púslaði þá saman nokkrum hugmyndum í frábæran rétt sem slóg í gegn í matarboði. Réttur sem mallar með öllu meðlæti og er algjört „comfort food“ eins og ég kýs að kalla það. Uppskriftin skiptist í tvennt, fyrst í súpugrunn og svo réttinn sjálfan.
Fyrir 4

Hráefni/súpugrunnur
20 g smjör
2 msk hveiti
2 msk mjólk
½ bolli kjúklingasoð
Klípa af salti
Klípa af þurrkuðu timían
Dass af hvítlauks eða laukdufti ef þið eigið það til.

Aðferð
Bræðið smjör í litlum potti á miðlungshita. Bætið við hveitinu og hrærið vel saman þangað til það er orðið af þykku kremi. Hellið mjólkinni útí og og hrærið vel saman þangað til það þetta er orðið að einhverskonar þykkni. Bætið þá kjúklingasoðinu við, salti, pipar og kryddum. Blandið vel saman og slökkvið svo undir hitanum og setjið til hliðar.

Hráefni pottréttur
1 tsk ólífuolía
6-8 kjúklingalæri eða blandaðir kjúklingabitar
2 hvítlauksgeirar
1 laukur
1 bolli þurrt hvítvín
1 bolli kjúklingasoð
1/3 bolli vatn
1 msk Dijon Sinnep
2 tsk hunang
3 gulrætur
500 g kartöflur
2 rósmarínstönglar
2 timíanstönglar

Aðferð
Hitið ofninn í 200°C. Finnið til stóran pott sem má fara inní ofn. Ef þú átt ekki svoleiðis getur þú notað stórt fat sem má fara inní ofn með loki. Steikið kjúklingalærin, látið skinnið snúa niður, í 3 mínútur, snúið svo við og steikið hina hliðina í 2 mínútur. Setjið á disk og geymið.

Bætið hvítlaukinum og lauknum í sama pott og steikið saman í tvær mínútur. Bætið síðan við hvítvíninu og látið malla í 3 mínútur. Bætið síðan við súpugrunninn sem þið bjugguð til, ½ lítra af vatni, kjúklingakrafti, sinnepi og hunangi. Hrærið þessu aðeins saman til þess að leysa upp sinnepið og bætið síðan við gulrótunum, kartöflum, rósmarín og timían og blandið saman.

Bætið kjúklingnum ofan í pottinn og setjið í ofninn með lokinu í 30 mínútur og aðrar 20 mínútur án þess að hafa lokið á. Leyfið réttinum síðan að standa í minnstakosti 5 mínútur áður hann er borinn fram.

Gott að er bera fram með góðu brauði til þess að dýfa í soðið og svo mæli ég alltaf með að bera fram með sama hvítvíni og þú notaðir í  réttinn.

Marta Rún

5 HRÁEFNA STEIKARSALAT


Þetta æðislega salat tekur enga stund að gera og er aðeins með 5 hráefnum en er ótrúlega bragðgott. Fullkomið salat þegar þú hefur lítinn tíma en langar í góðan mat.

Hráefni
1 msk furuhnetur
250 steik af nautakjöti
2 msk grænt pesto
Klettasalat
Parmesan ostur

Aðferð
Byrjið á því að finna til pönnu og steikið furuhneturnar við háan hita í nokkrar mínútur eða þangað til þær hafa fengið brúnan lit og setjið til hliðar.

Saltið og piprið nautakjötið á báðum hliðum. Setjið bökunarpappír á milli nautasteikina og berjið hana niður með kökukefli pönnu í um það bil 1 cm sneið. Hitið pönnu við háan hita og setjið smá olíu á pönnuna og steikið nautakjötið á báðum hliðum í eina mínútu og leggið til hliðar og leyfið henni aðeins að hvílast.

dreifið grænu pestó yfir diskinn, skerið steikina í þunnar ræmur og raðið á diskinn. Setjið klettasalat og strákið furuhnetum yfir salatið. Bætið við ólífuolíu á steikarpönnuna og blandið saman við kjötkraftinn á pönnunni og hellið yfir salatið. Flísið yfir parmesan sneiðum og smá salti og pipar.

Einfalt og gott salat sem passar fullkomlega með góðu glasi af rauðvíni.

Góða helgi !
Marta Rún