fbpx

GRILLAÐUR KJÚKLINGUR MEÐ FERSKJUM OG MOZZARELLA


Hér á Spáni eru ferskju tímabil og það er allt stútfullt af þeim á öllum mörkuðum og ávaxtabúðum. Margar gerðir og tegundir sem ég hef aldrei séð áður. Ég ákvað að leita að einhverjum góðum rétt með ferskjum og fékk innblástur fyrir þennan.
Þessi réttur gæti í raun og ekki verið einfaldari, örfá og fersk hráefni sem vinna vel saman.

4 kjúklingabringur eða pakki kjúklingalundir
1 msk olía
Salt og pipar
Ferkur mozzarella ostur
3 ferskjur, skornar í þunnar sneiðar
1 lúka fersk basílíka
Balsamik sýróp

Byrjið á því að skera kjúklingabringurnar í sneiðar, hellið oilu yfir sneiðarnar og saltið og piprið. Skellir bitnum á gill eða grillpönnu (auðvitað hægt að nota hvaða pönnu sem er)
og steikið í 6-7 mínútur á hvorri hlið.

Raðið kjúklingasneiðunum á disk með ferskum mozzarella sneiðum. Dreifið ferskju sneiðum yfir allt og hellið balsamik sýrópi yfir allt saman. Að lokum saxið basilíkuna yfir allt saman og berið fram.

Gott getuð verið að hafa salat og sætar kartöflur með til hliðar.

*Með þessum rétt finnst mér bæði létt rauðvín og hvítvín passa vel saman.

Helgar hamborgarinn


Það er jafnast fátt á við góðan hamborgara og margir eiga eflaust sinn uppáhalds borgara. Það er líka viss stemning sem skapast að bjóða fólki í góða hamborgaraveislu, einfaldur matur sem flestum þykir góður. Hér er ég með eina frábæra uppskrift af lúxus hamborgara sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. En það sem gerir hann að „lúxus“ borgara er beikon-rauðlaukssultan.

Beikonsultan: 

300 g beikon
1 rauðlaukur
2 msk púðursykur
2 msk balsamic edik
1 msk dijon sinnep
3 msk vatn

Aðferð:

 1. Skerið beikonið niður í þunna strimla og steikið í góðum potti við miðlungs háan hita í 15-20 mínútur eða þar til beikonið er að verða stökkt.
 2. Farið með eldhúsrúllu í pottinn og reynið að ná mestu fitunni upp úr pottinum.
 3. Setjið lauk út í pottinn og steikið í 10 mínútur.
 4. Látið sykur, vatn, balsamik edik, og sinnep út í og látið suðuna koma upp og látið malla í tæpan klukkutíma.

Áferðin á sultunni á þá að vera orðin klístuð. Leyfið sultunni aðeins að kólna.
Ef þú vilt hafa sultuna vel maukaða, getur þú sett hana í matvinnsluvél. Persónulega þykir mér betra að hafa hana smá „chunky“.

Sultan er sett á neðra hamborgarabrauðið ásamt ruccola salati og rauðlauk.
Rauðlaukurinn er betri ef hann fær aðeins að liggja í rauðvíns-ediki.

Góður og þykkur nautaborgari er steiktur með salti og pipar og camenbert ostur settur ofan á síðustu mínúturnar.

Að lokum er tsk af dijon sinnepi blandað saman við mæjónes og sósan sett á efra brauðið og borgaranum lokað.

Berið fram með frönskum kartöflum með trufflusalti og parmesan osti.

Góða helgi!

Hvernig á að setja saman ostabakka?

Hvernig á að setja saman hinn fullkomna ostabakka?

Lærðu að búa til hinn fullkomna ostabakka fyrir veisluna, matarboðið eða kósýkvöldið!
Það eru engar reglur sem þarf að fylgja um sérstakt ostaval en hér eru nokkru góð ráð sem góð eru að hafa í huga.

3 tegurnir af áferðum – Það skiptir ekki máli hvaða ost þú ert að nota heldur er betra að fara með nokkrar tegundir af áferðum á ostunum.
Hafðu einn harðan ost t.d Primadonna, góðan parmesan eða manchego ost.
Hafðu einn mjúkan, camembert, geitaost, rjómaostablöndu.
Einn milli, getur verið mjúkur gouda, blámygluost eða kúaost sem einhverskonar kryddi eða bragði.

Stökkt–  Það er alltaf gott að hafa eitthvað stökkt með, kex eða hnetur. (mæli ekki með að velja saltað kex því það getur breytt bragðinu á ostinum.

Sætt Ferskir ávextir, smá sulta, þurrkaðir ávextir passa vel með öllum ostum.

Kjöt –Gott getur verið að hafa tvær tegundir af kjöti. Til dæmis eina krydd pulsu og eina tegund af skinku eða salami.

Notaðu ímyndurnaraflið– Notaðu tannstöngla  og settu ólífur og fetaost saman á þá, og hvað sem þér dettur í hug. Settu sultu yfir ostinn eða beint á bakkann. Hafðu blóm á bakkanum eða eitthvað skemmtilegt.

Vín– Eitt sem er mikilvægt er að hafa góð vín til að para með. Rauðvín, hvítvín eða freyðivín. Það þurfa vera engar reglur að vera ef þér það finnst það gott saman þá heldur þig við þá reglu. Alltaf gott að bjóða uppá báðar tegurnir þegar þú ert með veislu því sumum finnst hvítvín og ostar betra og sumir kjósa rauðvín.

Prufaðu þig áfram og leiktu þér með það sem þér finnst gott  og hafðu bakkann bara frekar troðinn og mikið á honum og hann verður fallegur.

Hér er ostabakkinn sem ég gerði fyrir útskriftina mína.

HOLA, SANGRÍA

Ég er verið í svolitli lægð undanfarið, það að byrja í nýrri vinnu, vera með nokkur verkefni á Íslandi, heimsóknir og plana útskrift tók svolítið á og ég þurfti aðeins að forgangsraða og skipuleggja mig uppá nýtt.

Ég er með mikið efni af efni sem ég á eftir að setja inn, skemmtilegar uppskriftir, kokteila, útskriftar matinn og fleira.

En inní helgina ætla ég koma með mína uppskrift af heimagerðri Sangríu sem ég lærði að gera hér í Barcelona á Tapas námskeiði og er ekkert mál að gera.

Hráefni:

1 flaska spænskt rauðvín (ekki of þunga)
½ appelsína
½ sítróna
1 Epli, ferskja eða pera
bláber, hindber eða jarðaber
2-3 tsk brúnn sykur
1/3 bolli Cointreau
¼ bolli brandy (má sleppa)
2 Kanilstönglar
½ dós límonaði (fanta lemon)
klakar

Aðferð:

Setjið klaka í stóra könnu, setjið sykur i könnuna og hellið rauðvíninu og Cointreau líkjörinu og brandí og hrærið saman. Bætið við límonaði og svo þeim ávöxtum sem þið ætlið að nota ásamt kanil stönglunum.
Látið standa í kæli í 15 mínútur til þess að sangrían nái aðeins að taka sig og bragðir fá ávöxtunum kemur áður en þið berið fram.

Skál!

NÁMIÐ MITT Á BIFRÖST

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Háskólann á Bifröst.

Ég hef fengið þó nokkuð af spurningum út í námið mitt í miðlun og almannatengslum. Ég ákvað því ásamt Bifröst að skrifa smá kynningu á náminu út frá minni reynslu og svara nokkrum spurningum sem hafa borist í þessari færslu.

Ég valdi mér námið því ég hef alltaf haft augastað á ,,public relations” erlendis. Ég tók eftir náminu fyrir 3 árum síðan og ákvað strax að skráð mig. Ég var mjög stressuð enda langt síðan ég var í skóla. Átti ég allt í einu að fara að geta skrifað ritgerðir, heimildaskrá í APA og farið í próf? Þetta stressaði mig mjög mikið upp en þegar það kom í ljós að leið okkar Arnórs myndi liggja til Barcelona ákvað ég að þetta væri tækifærið og ég skráði mig í fjarnám við Háskólann á Bifröst.

Námið hefur breyst á síðustu árum þannig að það eru komnir fleiri valáfangar með tækifærum til þess að velja meir út frá sínu áhugasviði, hvort það snúi betur að stjórnmálum eða viðskiptum.

Ég tók alla áfanga sem ég gat í markaðsfræði, vörumerkjastjórnun og fleiri áföngum sem á sviðum sem mér þykir skemmtileg og stóðust þeir allir væntingar og gott betur en það.

Hvernig gekk fjarnámið? Og hvernig fýlaru námsskipulagið?

Þetta eru  tvær algengar spurningar. Ég satt best að segja fýlaði mjög mikið að vera í fjarnámi. Ég gat stjórnað mínum tíma vel og skipulagt mig út frá því hversu mikið var að gera hjá mér og unnið mig fram í tímann.
Það sem er einn af stórum kostum hjá Bifröst að mínu mati er lotukerfið. Það eru 2-3 áfangar í hverri lotu sem stendur í rúmar 6 vikur. Það dreifir álaginu vel. Þú ferð ekki í lokapróf og verkefnaskil í öllum áföngunum á sama tíma. 1-2 lokapróf í lotu eftir því í hvernig áföngum þú ert í.

Er mikið um próf eða verkefnaskil? Er mikið um hópavinnu?

Það fer eftir áföngum en mér finnst jafnvægið vera gott á milli. Mér leið aldrei illa yfir prófunum, enda stutt síðan var farið yfir efnið og þeir áfangar sem voru með lokapróf voru þannig áfangar að það átti vel við.

Hópavinna er stór þáttur hjá Bifröst en það er ekki þannig að þú þurfir mikið að hitta samnemendur. Samskiptin fara fram á Facebook þar sem fólki er raðað saman í hópa eða þú auglýsir eftir verkefnafélaga og þannig hefur þetta gengið oftast frekar þægilega fyrir sig. Þegar þú mátt síðan fara að því að velja í hópa þá velur þú þér oftast þann einstakling sem hefur unnið með þér áður ef það hefur gengið vel.

Eru einhver mætingaskylda?

Það eru vinnuhelgar í hverri lotu upp í Bifröst fyrir þá áfanga sem þú ert skráður í. Ég reyndi að gera mér ferð á hverri önn til að komast. Það er mikilvægt að koma sér í smá hóp með þeim sem þú ert samferða náminu. Ég get sagt með fullri trú að ég á vini í dag sem eiga alltaf eftir að vera vinir mínir vegna þess að við fórum samferða í gegnum námið. Það er ótrúlega mikilvægt að finna fyrir stuðning þegar það er mikið að gera og í verkefnum sem þú skilur ekki og að geta hjálpast að. Margir finna það þegar þeir fara seint í nám að þeir ætla bara að gera þetta sjálfir og nenna ekki svona hópvinnu og hitting. Það er rangt! Þú lærir af þínum samnemendum og þú getur myndað sambönd sem eiga eftir að geta hjálpað þér á einhvern hátt í framtíðinni.

Ég er sjálf að fara að útskrifast þann 22. Júní og ég veit í raun og veru ekki hvert tíminn fór því ég er ekki að trúa því að þetta sé búið. Ég er komin í vinnu þar ég sem starfa við markaðssetningu á stafrænum miðlum og vinn náið með fyrirtækjum í að skapa gott umtal og búa til upplifun fyrir kúnna sem er beint frá náminu mínu. Möguleikarnir eru margir innan þessu sviði þegar kemur að því að fara útá atvinnumarkaðinn. Markaðsmál og almannatengsl eru það sem ég hef áhuga á.

Háskólinn á Bifröst fær allavega mín meðmæli, nútímafjarnám með frábærum kennurunum sem flestir starfa við sitt fag og nútímamálefni eru tekin fyrir.

Ef þú hefur einhverjar spurningar til mín endilega skrifaðu hér í athugasemdum og ég skal svara þér.

Marta Rún

FYLLT SVÍNALUND MEÐ GEITAOSTI

 

Ég geri mjög oft fyllta svínalund með mismunandi fyllingum og í raun oft einhverju sem til er í ísskápnum.
Mér þykir þetta alltaf jafn gott og frábær réttur fyrir matarboð.
Þessi uppskrift er ekki flókin, inniheldur ekki mörg hráefni og allir ættu að ráða við hana.

Fyrir 4

Hráefni

1 svínalund

5-6 sneiðar af beikoni

6-7 smátt saxaðir sveppir

½  laukur smátt saxaður

2 pressaðir hvítlauksgeirar

2 stórar lúkur spínat

1 msk smátt saxaður graslaukur

Lúka af smátt saxaðri steinselju

Aðferð

 1. Byrjaðu á því að skera í miðja lundina, niður í svona ¾ af henni.
  Skerðu þá út í báðar hliðar og reyndu að fletja hana út á brettið. Saltið og piprið yfir lundina.
 2. Setjið geitaostinn í skál með saxaða graslauknum, steinseljunni, smá salt, pipar og blandið vel saman.
 3. Steikið laukinn og hvítlaukinn á pönnu við miðlungsháan hita þangað til hann er orðinn aðeins mjúkur,
  bætið þá við sveppunum og spínatinu og steikið í 2-3 mínútur.
 4. Raðið beikonsneiðum undir svínalundina. Smyrjið rjómaostablöndunni yfir hana og síðan sveppablöndunni.
  Klemmið saman lundina og lokið með tannstöngli og beikoninu.
 5. Setjið í eldfast mót með kartöflusneiðum í 200° ofn í 45 mínútur.
 6. Takið út úr ofninum og setjið álpappír yfir og leyfið henni að standa í 10 mínútur áður en þið berið hana fram.

Marta Rún

SPAGHETTI MEÐ STÖKKRI HRÁSKINKU OG ASPAS


Núna er tímabilið þar sem aspasinn er í uppskeru og ætti að bragðast hvað bestur.
Þá ákvað ég að leita að léttum og vorlegum pastarétti.
Við elskum öll einfalda og góða pastarétti með góðum hráefnum.

Fyrir 4

Hráefni:

90 g af hráskinku
1 miðlungsstærð af lauk
600g aspas
ólífuolía
400g spaghetti
Salt & pipar
Grænmetissoð (teningur)
20 g parmesanostur
½ sítróna

Aðferð
Byrjið á því að skera hráskinkuna í litla strimla og laukinn í litla bita.
Skerið endann af aspasnum þar sem hann er ljósfjólublár eða brúnn.
Skerið svo í litla bita og setjið efsta partinn eða hausinn til hliðar.

Steikið hráskinkuna á pönnu á miðlungsháum hita í 5 mínútur eða þangað til hún er orðin stökk.
Bætið ólífuolíu við pönnuna og lauknum og steikið saman í 2-3 mínútur þangað til laukurinn er aðeins orðin glær.

Á meðan sjóðið pastað eftir leiðbeiningum en passið að sjóða það 2 mínútum minna en pakkinn segir til um
eða al dente ef það stendur á pakkanum sem þýðir við tönn því það á eftir að halda áfram að eldast í pönnunni.
Bætið aspasbitunum við (ekki efsta partinn) í tvær mínútur og steikið saman.
Bætið svo við grænmetissoðinu og látið malla saman í 5 mínútur áður en þið setjið efsta partinn af aspasnum í pönnuna.

Bætið spaghetti-inu við á pönnuna og hræðið saman, notið pastavatnið til að losa um ef blandan fer að þykkna of mikið
og sjóðið allt saman í nokkrar mínútur til að pastað fái allt bragðið.

Saltið, piprið og rífið parmesan ostinn yfir og að lokum kreistið sítrónusafa yfir réttinn.

Fleiri einfaldar pasta uppskriftir? Láttu mig vita
Marta Rún

LÚXUS STEIKARSALAT MEÐ GRÁÐOSTI OG HUNANGSRISTUÐUM PERUM

Þetta er alvöru lúxus máltíð sem er einfalt og fljótlega gert. Fullkomin fyrir gott stefnumót að mínu mati. Nautakjöt, sykraðar perur, gráðostur og gott rauðvín!

Hráefni:
400g nautasteik
1 msk ólífuolía
Salt og pipar
2 msk smjör
2 msk hunang eða púðursykur
2 perur skornar í miðlungs munnbita
¾ bolli pecan hnetur
100 g gráðostur (ég notaði Gorgonzola, ef þú ert ekki fyrir gráðost getur þú notað camenbert)
Klettasalat

Salatdressing:
1 msk Dijon sinnep
1 msk rauðvínsedik
½ tsk hunang
1/3 bolli olífu olía
salt og pipar

*Öllum hráefnum er blandað vel saman í skál.

Takið nautakjötið út úr ísskápnum saltið það og látið ná stofuhita.
Byrjið á því að hita pönnu á miðlungs háum hita. Setjið ólífu olíu á pönnuna og þegar hún er farin að hitna setjið þá steikina á pönnuna. Eldið hana á einni hliðinni í 5 mínútur, snúið við að eldið hina hliðina í 4 mínútur. Aðrar 5-6 mínútur ef þið viljið meira medium heldur en medium rare. Leggið steikina til hliðar, piprið hana með svörtum pipar og leyfið henni að hvílast í 10 mínútur.

Hitið pönnu með smjöri á miðlungshita. Þegar smjörið hefur bráðnað bætið þá við púðursykrinum og leyfið honum að leysast upp. Bætið perubitunum við og steikið í 5 mínútur eða þangað til perurnar hafa aðeins mýkst. Takið perurnar uppúr sykrinum og setjið til hliðar og bætið við pecan hnetunum við pönnuna og steikið í 1-2 mínútur

Skerið steikina í þunnar sneiðar þegar hún hefur fengið að hvílast í 10 mínútur. Dreifið klettasalati yfir salatskálina eða diskinn sem þið ætlið að bera fram í. Raðið steikarsneiðunum þvert yfir, bætið við perunum, pecan hnetunum og gráðostinum. Setjið smá af salat dressingunni yfir og berið hana svo fram með salatinu.

Rauðvín, nautakjöt og gráðostur er blanda sem getur bara einfaldlega ekki klikkað!

Marta Rún

 

SPAGHETTI MEÐ MÖNDLUPESTÓI

Þetta er mögulega eitt besta pasta sem ég er hef smakkað, ég er mikil pastakona en þessi blanda af pestó og ostinum þetta er algjör sprengja af bragðlaukum. Eftir að ég smakkaði pestóið þegar ég var að elda ákvað ég strax að gera meira af því til að eiga inní ísskáp og daginn eftir með brauði. Ég er búin að gera það nokkrum sinnum eftir það og þetta er alveg frábært pestó.
Hlakka til að heyra hvað ykkur finnst! Í réttinum er burrata ostur sem er mýkri en mozzarella, þið gætuð fundið þá í ostabúðum annars dugar mozzarella ostur.

Hráefni:
Fyrir 4

½ bolli ristaðar möndlur, ristaðar í 10 mínútur í 200° ofni
¾ bolli sólþurrkaðir tómatar
1 lúka steinselja
1 lúka basilika
2 hvítlauksgeirar
½ tsk chiliflögur
½ tsk salt
1/3 bolli ólífuolía
¼ bolli rifinn parmesan ostur
400g spaghetti
100 g burrata eða ferskur mozzarella ostur

Aðferð:

 1. Setjið ristuðu möndlurnar í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur.
 2. Bætið tómötum, steinselju, basiliku, hvítlauk, chilliflögum, olífu olíu og salti útí matvinnsluvélina og búið til mauk sem minnir á gróft hnetusmjör. Það er betra að hafa maukið aðeins gróft.
 3. Færið pestóið yfir í stóra skál og rífið parmesan ost útí og blandið saman.
 4. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum og bætið smá salti út í vatnið við suðu.
 5. Þegar pastað er tilbúið takið 1 bolla af pastavatninu frá og sigtið restinu af vatninu frá.
 6. Hellið pasta vatninu sem þið tókuð til hliðar út í pestóið smátt og smátt þangað til að pestóið er orðið mjúkt og rjómakennt.
 7. Blandið þá pastanu saman við pestóið og rífið burrata eða mozarella bita yfir ásamt ferskri basiliku og parmesan osti. Einnig er gott að hafa sólþurrkaða tómata. 

   


  Marta Rún

MIÐJARÐARHAFS-KJÚKLINGARÉTTUR Á PÖNNU

Kjúklingaréttur á pönnu með hráefnum frá miðjarðarhafinu. Ótrúlega þægilegt að gera allan réttinn á einni pönnu og bera fram. Í þessum rétti eru ekki mörg hráefni en fersk og góð sem vinna vel saman. Það skemmir líka ekki fyrir hvað hann er litríkur og fallegur.

Hráefni

4 kjúklingabringur

2 msk rifinn hvítlaukur

Salt og pipar

1 msk þurrkað oregano

½ fl þurrt hvítvín

1 sítróna

½ bolli kjúklingasoð (1/2 teningur og heitt vatn)

1 smátt saxaður rauðlaukur

4 smátt skornir tómatar

4 msk grænar ólífur í sneiðum

Handfylli af ferskri steinselju

½ fetakubbur

Aðferð:

 1. Byrjið á því að skera nokkra djúpa skurði í kjúklingabringurnar án þess að skera þær í sundur.
 2. Setjið kjúklinginn í skál með hvítlauknum, olíu, safa af ½ sítrónu, oregano, 1 msk steinselju, salti og pipar og leyfið því að marinerast í að minnsta kosti klukkutíma.
 3. Finnið til stóra pönnu, hitið olíuna á miðlungsháum hita. Steikið kjúklinginn á báðum hliðum þangað til hann hefur fengið gullbrúnan lit. Bætið hvítvíninu við og leyfið því að sjóða til helmings. Bætið þá sítrónusafanum og kjúklingakraftinum út í og sjóðið saman aftur til helmings. Setjið lok á pönnuna eða álpappír og látið malla saman í 10-15 mínútur ásamt því að snúa kjúklingum við einu sinni á pönnunni.
 4. Lækkið vel undir þegar kjúklingurinn er tilbúinn. Dreifið tómötunum, rauðlauknum og ólífunum yfir kjúklinginn og lokið í aðrar 3 mínútur rétt til að hita. Stráið steinselju og rifinn fetaost yfir réttinn ásamt svörtum pipar.