fbpx

mið-austurlenskt lambakjöt með bökuðu graskeri

Ég er mikið fyrir mið-austurlenskan mat og hef fjárfest í nokkrum matreiðslubókum um þess konar matargerð. Kryddin og brögðin af matnum koma alltaf jafn skemmtilega á óvart. Þó að flest alla daga geri ég frekar einfaldan mat með fáum hráefnum þá finnst mér skemmtilegast og best þegar ég hef tíma til að gera eitthvað nýtt og dunda mér að elda.

Ég eldaði heima lambakjöt með bökuðu graskeri. Okkur fannst það alveg ótrúlega gott og við gátum ekki hætt að borða! Ég tók myndir og setti á Instagram reikninginn minn og ég veit að nokkrir bíða spenntir eftir þessari uppskrift.

Fyrir 4 – lambalæri og marinering
800 g af lambalærisneiðum (lambaprime eða hvaða bitum sem þér finnst góðir)
6 msk olífuolía
1 tsk túrmerik
3 tsk cumin
1 tsk kanill
2 tsk salt
3 hvítlausgeirar, skornir þunnt

Krydd & Chili dressing eftir eldun
1 rauður chili, smáttsaxaður og fræhreinsaður
1 lúka saxaður kóríander (20g)
1 tsk þurrkuð mynta (eða 1 msk smátt söxuð fersk mynta)
safi frá ½ lime
8 msk olífuolía
salt & pipar

Setjið lambakjötsneiðarnar í stóra skál með olíunni, kryddunum úr efri uppskriftinni, salti og hvítlauknum og blandið vel saman. Setið plastfilmu yfir of setjið inní ísskáp í að minnsta kosti 1 klst. því lengur því betra.

Fyrir dressinguna á lambið: Blandið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til.

Steikið, grillið eða ofnbakið lambið (fer auðvitað eftir hvaða bita þið eruð með).
Ég steikti lambið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið fyrir meðalsteikt kjöt.

Raðið á disk og hellið dressingunni yfir.

Ofnbakað grasker með pistasíupestó, fetaosti og granatepli.
Fyrir 2 ef rétturinn er aðalréttur
Fyrir 4 sem meðlæti

1 miðlungsstærð squash (grasker), skorið í helming langsum.
2 msk olífuolía
150 g fetaostur
100 g granateplafræ
salt & pipar

Stillið ofninn á 180°. Dreifið olíu vel yfir allt graskerið, saltið og piprið.
Setjið í eldfast mót eða ofnplötu með bökunarpappír og bakið í 45-50 mínútur.
Þið sjáið að það sé tilbúið þegar endarnir eru aðeins farnir að dökkna og ef þið stungið er hníf í gegnum að hnífurinn fari auðveldlega í gegn.

Pistasíupestó

100g pistasíuhnetur
70 g parmesan ostur
Lúka af ferskum kóríander, saxaður smátt
Lúka af ferskri steinselju
Safi úr 1 sítrónu
3 msk chiliolía (hægt að nota venjulega ólífuolíu)

Það er best að nota matvinnslu vél, en hérna úti á ég hana ekki til þannig ég notaði mortel. Ef þú átt hann ekki til getur þú reynt að saxa allt eins smátt og þú getur og blandað saman í skál.

Byrjið á því að mauka pistasíuhneturnar og parmesanostinn saman, næst fersku kryddjurtirnar, olíuna og sítrónusafann. Smakkið til með salti, pipar og meiri sítrónu.

Setjið pestó yfir graskerið, rífið fetaost yfir og að lokum stráið granateplafræjum yfir allt.

-Marta Rún

Pares Balta Vínekran

Skrifa Innlegg