Þá er ég nýkomin heim frá Reading eftir fimm daga heimsókn. Það var algjört æði og ekki verra að sólin hafi látið sjá sig alla dagana og hitaði andrúmsloftið upp í allt að 23°. Ég fann hve sársvelt ég er orðin af sólarleysi og kulda því vellíðunartilfinning fór um mig alla þegar ég rétt fór utandyra. Æ, mér leiðist rosalega kvart og kvein undan veðri því við höfum það ansi gott á Íslandi – en nú er að koma maí og það má alveg fara að birta til.
Við fórum til London til að horfa á Samúel keppa á Emirates fótboltavellinum. Ég er nú ekki þekkt fyrir að vera fótboltasjéní og brá því ansi mikið að koma inn á þennan leikvöll. Hjartað tók aukakipp við innganginn. Rosalega höll sem þetta er og mun stærra en ég bjóst við. Fyrir leikinn röltum við um og þá rak ég augun í lampa sem ég sé eftir að hafa ekki keypt. Lampinn er frá Jam Jar Lights og er gerður úr iðnaðarpípum.
Rosalega smart lampi og peran var líka ansi flott… gamaldags og smá retro fílingur í henni.
Skrifa Innlegg