Ásdís Ragna grasalæknir

VIÐTÖL

Ásdís Ragna grasalæknir situr í viðtalsstólnum að þessu sinnu. Hún er heilsuhraust ung kona sem leggur mikla áherslu á heilsusamlegt líferni. Ég fór í heimsókn til hennar um daginn í því skyni að fá einstaklega holla uppskrift til að deila með lesendum mínum. Uppskriftin var af sjúklega fallegum og bleikum smoothie sem er sennilega einn sá besti sem ég hef smakkað. En áður en ég deili uppskriftinni með ykkur fáum við að kynnast Ásdísi eilítið betur. Ég mæli með að þið lesið viðtalið því hún fjallar um margt ansi áhugavert sem viðkemur heilsu og auðvitað eigum við öll að huga að betri og bættri heilsu.

IMG_2491

Um Ásdísi Rögnu

Ásdís Ragna Einarsdóttir er 34 ára dama og er fædd og uppalin í Keflavík. Hún lauk BS-námi í grasalækningum frá University of East London árið 2005. Ásdís er þriggja barna móðir og gift frú. Hún starfar sem grasalæknir og er með viðtalsstofu bæði í Reykjavík og Keflavík. Þar tekur hún á móti fólki í einkaráðgjöf og þess á milli breiðir hún út heilsuboðskap í formi fyrirlestra og námskeiða fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga. Hún hefur einnig verið með fyrirlestra um árabil á Heilsuhóteli Íslands en þar fer fram heilsumeðferð sem byggir á hreinsun líkamans.

Á myndunum má sjá Ásdísi tína jurtir í íslenskri náttúru.

Grasalæknar eru með fjölbreyttan grunn í heilbrigðisvísindum eins og sjúkdómafræði, lífefnafræði, líffæra-og lífeðlisfræði, lyfjafræði, næringarfræði og framleiðslu náttúrulyfja. Grasalæknir tekur ítarlega sjúkrasögu af viðkomandi og gefur ráðleggingar um bættar lífsstílsbreytingar í samræmi við heilsufar hvers og eins og sérblandar jurtalyf eftir því hvað við á.

Sem unglingur fór Ásdís í sveit, Vallarnes nánar tiltekið. Þar kviknaði áhugi hennar á öllu tengdu náttúrunni og heilsunni, enda voru hjónin sem hún bjó hjá á kafi í lífrænni ræktun, framleiðslu á jurtavörum ásamt því að bjóða upp á jóga í gamalli hlöðu þar rétt hjá. Ásdís lærði að elda grænmetisfæði úr baunum og spírum en það mataræði var mjög frábrugðið því sem var heima við. Á heimilinu var mikið til af heilsubókum og Ásdís las þær flestar og komst fljótt að því að hún vildi mennta sig í grasalækningum.

 Týpisk vinnuvika

Týpísk vinnuvika hjá Ásdisi samanstendur af viðtölum á stofunni ásamt því að afgreiða pantanir á jurtablöndum flesta daga. Þess utan er hún í ýmsum verkefnum fyrir fyrirtæki og stofnanir og er t.d. þessa dagana með heilsuhópa hjá Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum og Samvinnu starfsendurhæfingu þar sem hún sér um kennslu á heilsutengdu efni. Svo er tíminn gjarnan nýttur í að skrifa greinar en hún er bæði með heilsupistla á Víkurfréttum og á Smartlandi. Hún heldur einnig uppi facebook síðu undir Ásdís Grasalæknir en það fer vissulega smá tími í að viðhalda henni. Á facebook síðunni hennar má finna margt sniðugt og gagnlegt efni sem nýtist fólki í að bæta heilsuna.

 Hreyfing

Ásdís hreyfir sig reglulega í hverri viku og blandar gjarnan saman útihlaupum, lyftingum og hóptímum í Metabolic. Útihlaupið hefur hún stundað í um sex ár en Metabolic í þrjú ár, en það er mjög kröftugt og skemmtilegt æfingakerfi. Nýjasta æðið hjá Ásdísi er Hot yoga, en hún fer í það einu sinni í viku og líkar það mjög vel. Hreyfing er nauðsynlegur hluti af lífi Ásdísar og reynir hún að koma henni fyrir a.m.k. 4-6x í viku. Ef hún kemst ekki á æfingu skellir hún sér í kröftuga súrefnisgöngu í staðinn og segist varla geta látið daginn líða án þess að fá hreyfingu af einhvers konar tagi!

hreyfing

 Mataræði

Hvað mataræðið varðar þá líður Ásdísi best í kroppnum ef hún sleppur glúteini, mjólkurvörum og öllum sykri og má segja að hún sé sennilega á léttri útgáfu af lágkolvetna/steinaldarmataræði. Það virðist henta hennar líkama vel og þegar hún verslar inn reynir hún að velja hreinar vörur, gott hráefni og nota lífrænar vörur eftir bestu getu.

Ásdís fær sér helst einn grænan drykk daglega, þá annað hvort grænan safa eða boost. Tahini sesamhnetusmjörið frá Monki er einnig í algjöru uppáhaldi en það hefur varla liðið dagur í 15 ár sem hún hefur ekki fengið sér það, enda stútfullt af næringu! Til að gera sér dagamun hendir hún í heimagerða súkkulaðimola eða franska súkkulaðiköku og notar eingöngu lágkolvetnasætuefni í bakstur eins og erythritol, sukrin eða stevíu. Ásdís er forfallin súkkulaðigrís og kemst upp með það að fá sér súkkulaði oft í viku því hún velur súkkulaði í hæsta gæðaflokki með lágu sætuinnihaldi, þ.e. lífrænt dökkt súkkulaði, þá helst 85%. Rapunzel dökka súkkulaðið er í miklu uppáhaldi.

Ásdís passar vel upp á að taka inn góð bætiefni. Daglega tekur hún inn fjölvítamín- & steinefnablöndu eins og Eve frá NOW, omega 3 fitusýrur, acidophilus meltingargerla og d-vítamíndropa yfir háveturinn. Inn á milli tekur hún tarnir í ofurfæðunni og jurtum eins og Fruit & Greens frá Now, blómafrjókornum, maca dufti, arctic rótinni og fleira. Daglega drekkur hún jurtate, eins og til dæmis brenninettlute og túnfífilsrótarte frá Clipper en þessar jurtir eru hreinsandi fyrir nýru, sogæðakerfi og lifrina.

 Snyrtivörur

Undanfarin ár hefur Ásdís reynt að nota lífræn krem og snyrtivörur í auknum mæli því henni þykir ekki kræsilegt að fá öll eitur- og gerviefnin úr þessum kemísku kremum og snyrtivörum. Hún notar augnkrem frá Origins, litað dagkrem frá Madera, hreinsimjólk frá Lavera og maskara, augnblýant og varaliti frá Benocos. Svo splæsir hún á sig góðu líkamskremi eins og kókos eða lime frá Lavera. Oft verslar hún lífræn krem og snyrtivörur sem hún kaupir í Wholefoods heilsubúðunum þegar hún fer erlendis.

asdissnyrtivoru

Frábært viðtal, Ásdís! Takk fyrir að gefa þér tíma til að svara þessum skemmtilegu spurningum fyrir lesendur!

Setjið ykkur í stellingar því uppskriftin hennar Ásdísar kemur inn á morgun… uppskriftin að þessum fallega bleika og næringarríka smoothie! (ekki sama uppskrift og ég sendi á lesendur um daginn).

Facebook síðan hennar: Ásdís grasalæknir

karenlind

Góða helgi

Skrifa Innlegg

8 Skilaboð

  1. Helga

    25. February 2014

    Skemmtilegt viðtal, ég er búin að bíða alveg endalaust eftir þessari uppskrift af rauðrófu smoothie :)

  2. Íris

    25. February 2014

    Flott viðtal og æðislegar myndir

  3. Soffía

    25. February 2014

    Skemmtilegt viðtal :-) en er ekki möguleiki á að fá að sjá uppskriftirnar?

    • Karen Lind

      25. February 2014

      Takk.. :)

      En það stendur einmitt í viðtalinu að uppskriftin kemur inn á morgun :-)

  4. Kristín María

    25. February 2014

    Ótrúlega flott kona hún Ásdís Ragna og frábær fyrirmynd. Takk Karen Lind fyrir þetta viðtal og fyrir að veita innsýn í hollustuheim grasalæknisins!

  5. Ellen

    25. February 2014

    Skemmtilegt viðtal :) En hvar er hægt að fá svona Tahini sesamhnetusmjör?

  6. Jóhanna Halldóra Oddsdóttir

    26. February 2014

    Stórkostleg lesning. Er að færast í þessa átt. Stundum of hægt. En takk fyrir að deila þessu. Frábær síða.

  7. Auður Sigurðardóttir

    5. December 2017

    Sæl. (Þetta er ekki komment!)

    Ég sá á síðu hjá þér þar sem þú ræddir um nokkrar ilmkjarnaolíur að þú nefndir piparmyntuolíu sem hægt væri að fá í hylkjum (vonandi (enteric coted). Ég hef verið að svipast um eftir svona hylkjum en ekki fundið. Kannski þú getir sagt mér hvar olían er fáanleg í hylkjum. Þeir sem eru með umboðið fyrir NOW flytja hana ekki inn að ég held.

    Kær kveðja,
    Auður Sigurðardóttir