fbpx

HÖNNUNARMARS // WHAT TO DO

Íslensk hönnun

HönnunarMars var settur í gær við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur – ég er nú þegar búin að vera með íslenska hönnun beint í æð í tvo daga og get ekki beðið eftir að taka helgina í enn fleiri sýningar og opnanir.

Ég tók saman fyrir ykkur nokkrar sýningar sem ég mæli með að kíkja á um helgina en fyrir þá sem vilja baða sig í HönnunarMars þá er hægt að skoða dagskrána í heild sinni hér.

Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd – Epal Skeifan

Ég byrjaði hátíðina á sýningunni Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd í Epal sem opnaði á miðvikudaginn, þar er samankomin fjölbreyttur hópur af íslenskum hönnuðum, sýningin er frábær í ár og mikil breidd. Á sama tíma og sýningin var opnuð þá var einnig frumsýnd ný stækkun í versluninni sem hentar fullkomlega fyrir svona sýningar. Hér má sjá húsgögn eftir okkar bestu íslensku hönnuði, skartgripahönnun, textíl og grafík. Mæli með!

Vítahringur – Kjarvalsstaðir

Vinkona mín Hanna Dís Whitehead vöruhönnuður sýnir hér ásamt keramíkhönnuðinum Raili Keiv á einum fallegasta stað landsins – Kjarvalsstöðum. Hanna Dís rannsakar möguleikana innan formsins með því að skipta því upp í hluta, skera, klippa og vinna svo í mismunandi efni. Úr verða óræðar áhugaverðar vörur sem eiga sér allar sama upprunann. Raili Keiv sýnir mismunandi tilraunir auk þess sem hún vinnur með eiginleika tveggja efna – mjúka hlýja viðinn og kalt postulín. Efnin fara í samtal í leit að einhverju sameiginlegu. Með hjálp listamannsins taka þau upp eiginleika hvors annars, postulínið breytist í við og viður í postulín.

Trophy – Ásmundarsalur, Freyjugata

Ég er skotin í þessu hönnunarteymi, Flétta er að skapa virkilega skemmtilega hluti og sýningin kom mér á óvart þar sem búið er að hanna fallega hluti fyrir heimilið úr gömlum verðlaunabikurum. Umhverfið í Ásmundarsal er glæsilegt og þar má einnig finna þrjár aðrar sýningar svo ég mæli með heimsókn.

“Vöruhönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir eru tvíeykið á bakvið hönnunarstúdíóið Fléttu. Á HönnunarMars munu þær sýna afraskstur nýjasta verkefnis þeirra, Trophy, þar sem verðlaunagripir eru settir í öndvegi, þeir afbyggðir og séðir í nýju samhengi.”

Handgerðir vasar úr leir eftir Sigurrós Björnsdóttur og Gudrunu Havsteen, sýndir í samstarfi við blómastúdíóið Pastel í Ásmundarsal. Hver og einn vasi og blómvöndur er einstakur og engir tveir eins. „Með hlutunum okkar viljum við leggja áherslu á handgerðar og einstakar vörur í stað fjöldaframleiddra vara.”

Úlfur í sauðagæru – Listasafn Einars Jónssonar / Garðskálinn

Ilm- og húðvörumerkið URÐ og hönnunarstúdíóið Wolftown taka höndum saman með sýningunni Úlfur í sauðagæru. Sýningin samanstendur af táknrænum sápuskúlptúr og nýjum umhverfisvænum sápum úr íslenskum hráefnum. Listasafn Einars Jónssonar er dásamlegt og virkilega gaman að gera sér ferð þangað. Sýningin fer fram í garðskálanum.

1+1+1  Geysir Heima, Skólavörðustíg

Fallega verslunin Geysir Heima sýnir nýjar vörur frá hönnunarteyminu 1+1+1 sem samanstendur af Hugdettu frá Íslandi, Aalto+Aalto frá Finnlandi og Petra Lilja frá Svíþjóð. Í kjallaranum má einnig finna sýningu Theódóru Alfreðsdóttur, vöruhönnuðs, Mót – Tilraunir, þar sem hún sýnir afrakstur rannsóknar sem miðar að því að finna leið til þess að kanna möguleika á framleiðslu einstakra hluta með einu móti.

Fólk Reykjavík – Staðbundið landslag, Klapparstígur 29

Hönnunarmerkið FÓLK hefur unnið að þróun á nýrri hönnun fyrir heimilið í samstarfi við þrjá unga íslenska hönnuði. Á HönnunarMars í ár kynnir FÓLK ný verk eftir Jón Helga Hólmgeirsson, Ólínu Rögnudóttur og Theodóru Alfreðsdóttur vöruhönnuði.

Ég er skotin í Fólk Reykjavík, en hér er á ferð spennandi íslenskt hönnunarmerki sem er eftir að ná langt.

Now Nordic – Hafnarhúsið, Listasafn Reykjavíkur

Virkilega spennandi sýning á því nýjasta í norrænni samtímahönnun. Hönnunarteymið Adorno fékk til liðs við sig sýningarstjórar frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi sem leituðu uppi nýja hönnun í hverju landi fyrir sig.
Sýningin var fyrst sett upp á Chart listamessunni í Kaupmannahöfn haustið 2018, ferðaðist síðan til Lundúna og kemur nú til Íslands í tilefni HönnunarMars.

Í Hafnarhúsinu má finna fleiri sýningar m.a. vegleg samsýning FÍT (Félag íslenskra teiknara). Mæli með!

HAF STORE, Geirsgata

Hönnunarsnillingarnir hjá HAF STUDIO kynna nýjasta verkefnið HAF FRONT sem er ný lína af framhliðum sem passa á hefðbundnar IKEA innréttingar. Einnig verður til sýnis nýr stóll fyrir íslenska skóla þar sem rík áhersla er lögð á notagildi, þægindi og stílhreint útlit. Einnig verður frumsýnd ný vörulína frá Ker Reykjavík.

Akkúrat – Aðalstræti 2

Þakrennur, speglanir, brot, braml, hrosshúðir, 1920’s glamúr og jólatré sem endast að eilífu koma við sögu í opinni verslun á Akkúrat HönnunarMars!
@10, +Keramik, Agustav, Guðný Haf, Huginn Muninn, Kristjana S. Williams, Sif Benedicta og VVERAA Reykjavík verða með sérstaka innsetningu í Akkúrat.

Hafnarborg – Hafnarfjörður

Í Hafnarborg verða tvær sýningar á HönnunarMars. Brynjar Sigurðarson og Veronika Sedlmair sýna í aðalsal Hafnarborgar. Á þessari sýningu verður sköpunarferlið sjálft sýningarefnið, mismunandi stig hugmynda eru sýnd og opnuð almenningi til skoðunar. Sýningin Fyrirvari miðar að því að þýða eða tengja saman „hluti“ í umhverfinu – þ.e.a.s. náttúru-, borgar- og menningarumhverfi – við hugmyndir og hugleiðingar að nýjum „hlutum“.

Kristín Garðarsdóttir, leirlistamaður og hönnuður sýnir í Sverrissal skissur og teikningar í leir og textíl, unnar með margvíslegum aðferðum, ofnar úr íslenskri ull í hátæknivefstól, pressaðar í steinleir og brenndar í gasofni, steyptar í postulín og fléttaðar úr leir.

DesignMunch – MUN, Barónstíg 27

MUN er vinnustofa og verslun í hjarta Reykjavíkur. Nafnið MUN er tilvísun í muni og minningar og leggja hönnuðirnir upp úr klassískri, hágæðahönnun. Hönnuðir MUN þær ANNA THORUNN, BYBIBY, FÆRIÐ og IHANNA HOME ásamt þremur gestahönnuðum VAKIR Jewelry, SANÖREYKJAVÍK og Nina Fradet munu sýna glænýjar og spennandi vörur.

NORR 11 – Denim on denim on denim, Hverfisgata 18a

Flétta og Steinunn Eyja Halldórsdóttir sýna gólfmottur í húsgagnaversluninni NORR11. Motturnar eru unnar úr gallabuxum sem safnast í fatasöfnun Rauða krossins en nýtast ekki hérlendis vegna ástands þeirra eða útlits. Tilvalið að kíkja við í Norr11 á rölti um miðbæinn, enda sérstaklega falleg verslun.

Rammagerðin – Leirkerasmíði, Skólavörðustígur

Rammagerðin og Aldís Bára Einarsdóttir, einn okkar færasti leirkerasmiður á Íslandi fagna áratuga samstarfi og bjóða gestum og gangandi að upplifa nálægðina við leirkerasmiðinn og handverkið. Aldís situr við rennibekkinn og handrennir á staðnum. Munirnir eru sérstaklega hannaðir fyrir Rammmagerðina og Hönnunarmars. Innblásturinn er sóttur í náttúruna sem endurspegla andstæður og blæbrigði ljóss og skugga.

Norræna húsið, Sæmundargata 11

Norræna húsið býður upp á nokkrar sýningar í tilefni HönnunarMars og tilefni til að gera sér ferð þangað. Sýningin Sjálfbærir stólar er áhugaverð en síðastliðið haust fór fram norræn samkeppni um hönnun sjálfbærra stóla. Markmiðið var að auka meðvitund um sjálfbæra hönnun og að hvetja til hönnunarmiðaðrar hugsunar í loftslagsumræðunni. Sigurverkefnin fimm verða kynnt í Norræna húsinu á HönnunarMars.

Ég er einnig spennt að sjá sýningu Formex Nova í Norræna húsinu. Íslenski hönnuðurinn Ragna Ragnarsdóttir hlaut Formex Nova verðlaunin árið 2018 og mun hún sýna verk sín í Norræna húsinu á HönnunarMars. Einnig munu þeir hönnuðir sem fengu tilnefningu í ár sýna en það eru Falke Svatun (NO), Hilda Nilsson (SE), Kasper Friis Kjeldgaard (DK), Studio Kaksikko (FI) and Theodóra Alfreðsdóttir (IS).

The Wanderer – Hafnarhúsið 29. mars – 19:30–21:00

Hér ætla ég að ljúka föstudeginum á glæsilegri tískusýningu Hildar Yeoman. “My witness is the empty sky” Hildur Yeoman kynnir vor og sumar línu sína fyrir árið 2019, The Wanderer. Á sýningunni er áhorfendum boðið í ferðalag um auðnir og svartar strendur.

Þeir sem vilja enn meira af hönnun um helgina þá mæli ég með heimsókn í  Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ, Skúmaskot á Skólavörðustíg, hönnunarverslunina S/K/E/K/K, Hofsvallargötu 16 og verslunin Fischer, Fiscersundi 3. Listinn er þó að sjálfsögðu endalaus og ég hef valið saman sýningar sem henta mínum hönnunarsmekk og áhuga. Mæli svo sannarlega með að kynna ykkur dagskrána í ár!

Ég vona að þið eigið gleðilegan HönnunarMars og sjáið sem mest af íslenskri hönnun um helgina. Ég hlakka svo til að fjalla nánar um spennandi hönnun af HönnunarMars hér á blogginu.

Góða helgi!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FALLEG ÍBÚÐ Í HLÍÐUNUM

HönnunarMars er genginn í garð og þrátt fyrir að vera með hugann 100% við íslenska hönnun þessa vikuna þá er alltaf tími fyrir falleg heimili. Vinkona mín sendi mér þessa björtu og stílhreinu íbúð í dag sem er til sölu og ég deili glöð áfram. Stíllinn er mínímalískur og skandinavískur, leðurklæddur Svanur er glæsilegur ásamt marokkósku mottunni í stofunni sem er algjör draumur. Úrval af skemmtilegri myndlist skreytir veggina sem gerir heimilið persónulegra og hlýlegra.

Kíkjum á þessa fallegu og björtu íbúð sem er til sölu hér – 

Myndir : Fasteignavefur mbl.is – Opið hús 30. mars. 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ELDHÚSPARTÝ Í HAF STORE

Fyrir heimiliðÍslensk hönnun

Núna á föstudag milli 17-20 býður HAF STUDIO og HAF STORE í partý, nánar tiltekið eldhúspartý. Tilefnið er kynning á nýjustu afurðinni, HAF FRONT, en það er nýtt vörumerki í eigu þeirra Hafsteins, Karitasar og Markúsar Stefánssonar.

HAF STUDIO hefur undanfarin ár hannað eldhús í ýmsum stærðum og gerðum. Í vinnu sinni í gegnum tíðina hafa hönnuðir HAF STUDIO komið auga á vannýtt tækifæri er snúa að útliti á eldhúsinnréttingum landsmanna. 

“Margir fara þá leið að sérsmíða innréttingar eftir okkar hönnun en það er ljóst að það getur tekið langan tíma og getur verið kostnaðarsamt. Við hjá HAF STUDIO höfum lengi dáðst af vörum IKEA og er staðreyndin sú að grunnskápar og innvols er með því betra sem völ er á. Okkar markmið er því að geta hjálpað enn fleirum að búa til sitt drauma eldhús með því að framleiða hágæða framhliðar í stöðluðu formi fyrir IKEA grunnskápa. Við erum ekki að finna upp hjólið, en það er hægt að fá svipaða þjónustu á Norðurlöndunum og víðar. Í okkar starfi finnst okkur þetta sárvanta á Íslandi og langar okkur því að bæta þessari þjónustu við starfsemi okkar.” segir Karitas Sveinsdóttir innanhússarkitekt.

Ferlið virkar þannig að þú kaupir grunnskápa og allt sem þarf í þína eldhússinnréttingu  fyrir utan framhliðarnar. Næst kemur þú til okkar og við teiknum upp eldhúsið þitt með HAF FRONT framhliðum sem munu koma í nokkrum stöðluðum formum og litum. Eftir að HAF FRONT framhliðarnar eru tilbúnar setur viðkomandi þær sjálfur á IKEA innvolsin eða fær aðila á okkar vegum til að klára verkefnið. 

 

Myndir : HAF STUDIO 

Á þessu ári er svo stefnan að breikka vörulínu HAF FRONT og er samstarf nú þegar hafið við þekkta hönnuði og arkitekta um þróun á framhliðum í mismundi áferð, útliti og efnum. Á föstudaginn verður svo líka til sýnis glæný vörulína KER sem er nýtt vörumerki Guðbjargar Káradóttur sem hefur undanfarin ár verið partur af Postulínu.

VÁ þetta er svo dásamlega fallegt – gæti svo sannarlega hugsað mér svona glæsilega HAF FRONTA á mitt IKEA eldhús ♡

Hlakka til að sjá ykkur í eldhúspartýi á föstudaginn – áfram íslensk hönnun!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ELDHÚSINNBLÁSTUR // VIFTUR – JÁ EÐA NEI?

EldhúsFyrir heimilið

Eldhúsið mitt er verk í vinnslu – en vá hvað ég sé vel fyrir mér lokaútkomuna, hvenær sem það verður ♡ Þegar við fluttum inn var eitt það fyrsta sem ég gerði að taka niður viftuna í eldhúsinu og fékk send ófá skilaboð að það væri ekki mjög sniðug hugmynd. Núna um fjórum mánuðum síðar er komin ágætis reynsla á að brasa í eldhúsinu án viftu og get ég talið skiptin sem ég vildi hafa óskað þess að hafa viftu, ég skrifa það jafnvel á að það er ekki hægt að lofta vel út um gluggana í eldhúsinu (nýir gluggar eru líka verk í vinnslu). Ég er þó enn á báðum áttum og kem jafnvel til með að breyta smá í eldhúsinu með vorinu. Skoðum smá innblástur á þessum fína sunnudegi –

// Með eða án? Sjáið hvað þessi eldhús öll eru þó glæsileg.

Myndir : Pinterest 

Fyrst og fremst þá þarf að vera hægt að lofta vel út ef þú ætlar að sleppa því að vera með viftu í eldhúsinu, það vinnur þó með okkur að við erum mjög sjaldan að steikja mat á pönnu og eldum oftar í ofninum. Það er þó lítið mál að láta viftuna falla inn í innréttinguna eða finna útlit sem hentar þínum stíl – og það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera næst. En þetta er persónulegt val og þarf að velja útfrá því hvað hentar ykkar heimili.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

HEIMA HJÁ GARANCE DORÉ Í L.A.

Heimili

Hin franska Garance Doré er smekkkona með meiru – ljósmyndari, tískubloggari og áhrifavaldur, teiknari og rithöfundur sem er þó líklega þekktust fyrir vefmiðilinn sinn Atelier Doré. Hún er búsett bæði í NY og L.A. en heimilið hennar í Los Angeles birtist fyrir stuttu síðan í tímaritinu Domino. Við ætlum að kíkja í heimsókn –

 

 

Myndir : Domino

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

UPPÁHALDS HÚSGAGNIÐ MITT // SVEINN KJARVAL 100 ÁRA

Íslensk hönnunKlassíkPersónulegt

Í dag þann 20. mars 2019 hefði húsgagna- og innanhússhönnuðurinn Sveinn Kjarval (1919 – 1981) orðið 100 ára. Í tilefni dagsins er vel við hæfi að rifja upp þennan merkilega mann og hans hönnun en Sveinn Kjarval var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun á Íslandi.

Ég held mikið upp á eitt húsgagn eftir þennan meistara, en það er ruggustóllinn klassíski sem ég fékk frá ömmu minni og afa sem prýtt hefur stofuna mína undanfarin ár en upphaflega átti langamma mín stólinn.

“Framleiðsla á þessum vinsæla ruggustól á sjöunda áratugnum var mikilvægur þáttur í starfsemi verkstæðisins Nývirkis (st. 1955). Þar fór einnig fram merkileg frumgerðasmíði og sérsmíði. Mikil eftirspurn var eftir ruggustólnum og talið er að framleiðslan hafi skipt hundruðum og setan ýmist klædd skinni eða ullaráklæði. Snemma á 20. öld varð ruggustóll tískuvara og tákngerður gripur á heimilum, hér á landi sem annars staðar, eða allt þar til viðameiri stillanlegir hvíldar- eða sjónvarpsstólar komu til sögunnar. (sýningartexti af sýningunni Óvænt kynni árið 2013). ” Texti – Hönnunarsafn Íslands.

SVEINN KJARVAL 100 ÁRA – FYRIRLESTUR 

Sveinn Kjarval  var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun á Íslandi. Í tilefni af því að eitthundrað ár eru liðin frá fæðingu hans miðvikudaginn 20. mars mun Dr. Arndís S. Árnadóttir flytja fyrirlestur um verk hans og störf. Fyrirlesturinn fer fram í kirkju Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56 en Sveinn hannaði meðal annars kirkjubekkina í þessa fallegu kirkju.

Fyrirlesturinn fer fram í kvöld, miðvikudaginn 20. mars kl. 20.00 og er í boði Hönnunarsafns Íslands.

Fyrir áhugasama þá tók ég saman smá texta um hönnuðinn Svein Kjarval, úr grein sem birtist í Morgunblaðinu árið 2014 , þá í tilefni 95 ára fæðingarafmælis hans.

“Sveinn Kjarval, innanhúss- og húsgagnaarkitekt, fæddist í Danmörku 20.3. 1919. Foreldrar hans voru Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálari og k.h., Tove Kjarval, f. Merrild, þekktur rithöfundur, af listamannaættum.

Sveinn var búsettur í Reykjavík skamma hríð, hann flutti síðan með móður sinni aftur til Danmerkur, ólst þar upp og lauk prófum í húsgagnasmíði 1938. Sveinn kom til Íslands 1939, vann við smíðar og var verkstjóri á vegum ameríska hersins, en fór aftur utan 1946, stundaði nám við Kunsthåndværkskolen í Kaupmannahöfn og brautskráðist sem innanhússarkitekt vorið 1949. Sama ár kom hann aftur til Íslands og vann hér að húsgagna- og innanhússhönnun til 1969 en flutti þá enn til Danmerkur og bjó þar síðan.

Sveinn var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun hér á landi á þeim árum er einhæfni ríkti á því sviði, hönnun talin óþörf og jafnvel óþekkt. Í húsgagnahönnun innleiddi hann hina hreinu og léttu dönsku línu sem m.a. má sjá í borðstofu- og ruggustólum hans frá þeim tíma. Hann hannaði auk þess innréttingar fyrir Þjóðminjasafnið, bókhlöðuna á Bessastöðum, veitingahúsið Naustið og kaffistofuna Tröð í Austurstræti. Þá kenndi hann við handíðadeild Kennaraskólans 1951-56 og hélt fjölda fyrirlestra um hönnun, en oft fyrir daufum eyrum. Sveinn lést 10.2. 1981.” Morgunblaðið, 20. mars, 2014. 

Einnig er áhugaverð minningargrein sem var rituð um hann stuttu eftir andlát og birtist í Morgunblaðinu, og lýsir vel hans skemmtilega karakter. Hægt er að lesa með því að smella hér.

Ég hvet áhugasama til þess að kíkja á fyrirlesturinn sem haldinn er í kvöld –

Það væri vel við hæfi á 100 ára afmælisári Sveins Kjarvals að gera upp ruggustólinn minn sem mig hefur lengi langað til, pússa og bera á og að lokum að endurnýja skinnið sem komið er til ára sinna. Stóllinn minn hefur verið notaður mikið í gegnum nokkra áratugi og sést því vel hversu mikil gæðasmíði stóllinn er og mikið stofuprýði.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÆVINTÝRALEGT BARNAHERBERGI

Barnaherbergi

Í dag ætla ég að deila með ykkur ævintýralega fallegu barnaherbergi sem veitir innblástur. Það er mikið að gerast í þessu litla herbergi, sterkir litir, mikið af fallegum leikföngum og skrautmunum, áberandi veggfóður og mikill textíll. Skoðum samt hvað útkoman er falleg og notaleg án þess að vera yfirþyrmandi að mínu mati. Barnaherbergið er í eigu dóttur Elin Wallen, stílista og sviðshönnuðs – sem útskýrir að mörgu leyti hversu fallega skreytt barnaherbergið er.

Myndir : StudioElwa.se

Ég mæli einnig með að fylgjast með henni á instagram þar sem hún deilir dásamlega fallegum myndum af heimilinu ásamt lífi og tilveru @StudioElwa.

Myndir @StudioElwa

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÓSKALISTINN // MARS

Óskalistinn

Óskalistinn að þessu sinni er mjög Svönulegur ♡

Á morgun verða smá breytingar hjá mér þegar ég fæ afhenta vinnustofu sem ég kem til með að nota undir ýmisleg ólík verkefni, ég get hreinlega ekki beðið eftir að skipta um vinnuumhverfi og kynnast nýju frábæru og skapandi fólki. Ég nýtti brot af deginum að týna til hér heima hluti sem fá að fylgja mér á vinnustofuna til að gera örlítið huggulegt – flest allt þó hlutir sem ég kem til með að nota að sjálfsögðu.

Ég settist upphaflega við tölvuna til að skoða vinnulampa og eitt leiddi að öðru – þessi listi varð til ♡ Ég viðurkenni að ég er bálskotin í nýja bleika Múmínbollanum sem var að koma út, kallast Ósýnilega barnið Ninny. Hann kemur líklega til að vera vinnustofu bollinn minn. En ein evra af hverjum seldum Ninny bolla (og nýja Múmínsnáðabollanum) hér á landi árið 2019 mun renna til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Á vafri mínu svo á iittala síðunni sá ég þann allra fallegasta lit af Aalto vasanum sem ég hef augum litið! Vasann hef ég enn sem komið er ekki séð í verslunum hér heima – vonandi væntanlegur. Ég bráðna niður í gólf þessi fjólublái litur er svo geggjaður.

 

// 1. Bitz stell í bleiku. Bitz fæst m.a. í Bast & Snúrunni. // 2. Sæti nýji Múmínbollinn – elska þennan! Fjölmargir sölustaðir Múmín, m.a. Kokka & Epal. // 3. Marmarastjaki – vasi frá Fólk Reykjavík er enn ekki orðinn minn en mun verða það, er svo skotin í vörunum þeirra. Fæst m.a. í Kokku & Epal. // 4. Alvar Aalto collection vasi – iittala.com // 5. Eilífðarrós frá Abigail Ahern – ég elska möguleikann að hafa gerviblóm í vasa allan ársins hring. Fæst í Dimm. // 6. Wrarrr þessar mottur eru svo æðislegar – fullkomnar í barnaherbergið. Fæst í úrvali hjá Purkhús. // 7. Stór skál – fat frá Bitz sem ég held svo uppá. Flott í matarboðið. Fæst m.a. í Bast & Snúrunni. // 8. Stílhreinn borðlampi, þessi væri æði á vinnustofuna. Fæst í Dimm.

Ég væri svo sannarlega til í að eiga allt á þessum lista.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

KVENLEGT & FÁGAÐ Á 34 FERMETRUM

Heimili

Ímyndum okkur í stutta stund að þetta væri heimilið okkar – og svona væri inngangurinn. Ótrúlegt en satt þá er íbúðin ekki nema 34 fermetrar en hver og einn fermetri vel nýttur og úthugsaður. Fágað yfirbragð sem tónar vel við byggingarstílinn og falleg hönnun sem skreytir heimilið, uppáhalds Vertigo ljósið mitt frá Haf Store trónir yfir stofunni ásamt Mantis veggljósinu vinsæla.

Sjá þennan glæsilega stigagang.

Bleikir og mjúkir tónar í stofunni sem er stílhrein og nóg af textíl sem gerir allt svo hlýlegt. Mantis veggljósið frá Lumex er fallegt.

 

Vertigo kemur sérstaklega vel út þar sem svona hátt er til lofts – eitt af mínum uppáhalds ljósum.

Ég er sérstaklega hrifin af því að hafa spegil á hilluveggnum í eldhúsinu sem er annars í minni kantinum og gefur spegillinn tilfinningu um aukið rými.

Svönubleikt og fínt lítið svefnherbergi –

Myndir // Alexander White fasteignasala

Þessi stíll hentar mér persónulega mjög vel, ég hrífst af kvenlegu yfirbragði, dýramynstur hitta mig beint í hjartastað og bleiki liturinn á mig að eilífu. Alveg án þess að ætla að vera dramatísk! Hvernig finnst ykkur þessi?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

SÆNSKT SJARMATRÖLL

BarnaherbergiHeimili

Sænskt og sjarmerandi eins og það gerist best – húsið var byggt árið 1926 og stendur í huggulegu einbýlishúsahverfi í Gautaborg. Stíllinn er blandaður, klassískur skandinavískur stíll í blandi við sveita rómantík, slík blanda er yfirleitt mjög heillandi. Herbergin eru 8 talsins svo það mun eitt þeirra að minnsta kosti heilla þig uppúr skónum, hjá mér er það barnaherbergið sem er algjört æði. Kíkjum í heimsókn,

Sjáið þetta ævintýralega barnaherbergi, dýramottuna hef ég áður skrifað um en hún fæst hjá Purkhús.is – ofarlega á listanum fyrir herbergið hans Bjarts.

Þessi blái litur minnir mig mikið á Denim Drift frá Sérefni, fullkominn á svefnherbergið.

Myndir via Lundin fasteignasala

Svo fallegt ekki satt?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu