KOLSVART SVEFNHERBERGI

En ótrúlega notalegt svefnherbergi er það fyrsta sem ég hugsa þegar ég skoða þetta heimili. Svört rúmföt er eitthvað sem sést ekki mikið af – hef reyndar rekist á þau hér – en hvít njóta óneitanlega meiri vinsælda. Ég er almennt mjög hrifin af svona lita þemum þar sem einn litur fær að vera meira áberandi en aðrir, veggir, rúmföt og skrautmunir allt í dökkum tónum sem nær síðan alla leið fram í stofu og eldhús þar sem mottur, hurð og eldhúsveggur er allt í svörtu. Svefnherbergið er líklega það herbergi sem auðveldast er að prófa sig áfram með liti á veggjum og það væri áhugavert að prófa svart, þó er þetta meira út í mjög dökk grátt sem þið sjáið á myndinni hér neðar þar sem svört flík hangir á veggnum. Hrikalega töff!

Venjulega þá byrja ég á því að sýna stofu og eldhús og fer þaðan yfir í svefnherbergi en hér ákvað ég að breyta aðeins… það er eitthvað við þetta heimili sem heillar mig mikið, það er frekar lítið en nýtingin ótrúlega góð. Sjáið til dæmis hvernig milliveggurinn hólfar niður anddyri frá stofu án þess að láta íbúðina virka minni. Eitt sem ég rek líka augun í en það er slökkvitækið – ég veit ég má nánast ekki skrifa þetta, en þessi rauðu slökkvitæki eru ekki mjög aðlaðandi (þó nauðsynleg) en svona svart er bara nokkuð smart!

ÞVÍLÍKUR DRAUMUR

EldhúsHeimili

Þvílíkur draumur sem þetta heimili er. Útsýnið úr stofunni inn í eldhús er eitthvað sem ég get alveg gleymt mér yfir og velti fyrir mér hverju smáatriði, fyrst eru það frönsku millihurðarnar sem heilla mig alltaf svo og eldhúsið, ó þetta fagra eldhús er nú eitthvað til að ræða betur. Marmari á borðum og vel hannaðar og glæsilegar innréttingar, ég er alveg sannfærð um að þið eigið nokkur eftir að fá mikinn innblástur frá þessu eldhúsi. Tom Dixon koparljósið trónir svo eins og skartgripur yfir borðstofuborðinu og setur mikinn svip á heimilið.

Fallegi Gloria kertastjakinn (fæst í Winston Living) skreytir eldhúsið ásamt flottum veggspjöldum.

Hér dugar ekkert minna en gylltur vaskur og blöndunartæki ásamt Tom Dixon uppþvottalegi.

Einfaldur Besta skápur frá Ikea er klassískur undir sjónvarpið, virðist virka hvar sem er.

Þessar frönsku hurðar og vegglistar eru algjör draumur.

Gólfsíðar gardínur eru alltaf svo elegant.

Myndir via Bjurfors fasteignasala

Draumur ekki satt? Fyrir enn meiri innblástur þá mæli ég með að kíkja yfir á Svartahvitu snappið þar sem ég kíkti óvænt í heimsókn í eina gullfallega verslun ♡ Efnið er aðgengilegt þangað til 16:00 þann 16.11.

STÓRFENGLEG SMÁATRIÐIN

Heimili

Ég má til með að deila myndum af þessi stórfenglega heimili – eða að minnsta kosti smáatriðunum. Húsið lítur út að utan eins og hver önnur bygging sem finna má í hjarta Gautaborgar, byggt árið 1878 og er um 180 fm. Einstök upprunaleg gólfefni, listar og skreytingar í hverju horni sem vel hefur verið haldið við. Hér gæti ég hugsað mér að búa…

Myndir via Entrance Makleri

Fyrir ykkur sem viljið sjá heimilið í heild sinni smellið þá hér. Ég er heilluð af þessum fallegu smáatriðum og allt í einu eru litlu rósetturnar á mínu heimili ekki alveg jafn spennandi. Að ímynda sér að búa svona!

SÆNSK & SJARMERANDI

BarnaherbergiHeimili

Það er eitthvað við þessu sænsku heimili sem heillar mig alltaf, þá sérstaklega skrautlistarnir sem skreyta loft og veggi og gera heimilin ó svo sjarmerandi. Hér er á ferð einstaklega glæsilegt heimili sem þið eruð eftir að elska jafn mikið og ég. Stíllinn er fágaður og falleg smáatriði í hverju horni.

Myndir via Entrance

Barnaherbergið er sérstaklega fallegt og bleika hurðin vekur að sjálfsögðu athygli mína, alltof sjaldséð sjón að hurðar séu málaðar. Þegar að því kemur að við kaupum okkar fyrstu íbúð þá mætti hún alveg vera eins og þessi hér að ofan.

SUNNUDAGSINNLIT : DRAUMAHEIMILI Í GAUTABORG

Heimili

Sunnudagsinnlitið er ekki af verri endanum að þessu sinni, draumaheimili í Gautaborg uppfullt af fallegri hönnun og góðum hugmyndum. Eldhúsið er sérstaklega fallegt, opið og stílhreint með marmara sem nær upp á vegg og ljósgráar innréttingar, takið einnig eftir hvað gardínurnar gera mikið og þá sérstaklega í eldhúsinu sem er nokkuð óvenjuleg sjón. Ef það væri eitthvað eitt sem ég mætti óska mér fyrir mitt heimili þá væru það gólfsíðar gardínur í stofu og svefnherbergi – sjáið bara hvað þetta er fallegt.

Myndir via Alvhem 

BÓHEMÍSKT HEIMILI STÍLISTA & BLOGGARA

Heimili

Malin Persson er þekktur sænskur stílisti, fyrrverandi módel og er einnig bloggari hjá Elle Decoration. Það kemur líklega fáum á óvart að hún eigi smekklegt heimili, en þessar myndir birtust upphaflega í Elle Decoration fyrir um þremur árum síðan og hafa flakkað um netið síðan þá enda einstaklega fallegt heimili og eiga svo sannarlega ennþá erindi. Heimilið er bóhemískt og skreytt antíkmunum og vel völdum hlutum af mörkuðum úr ólíkum heimshornum. Malin er heimsflakkari og sést það glöggt á glæsilegu heimili hennar. Hún rifjaði sjálf upp nokkrar af þessum myndum í vikunni á blogginu sínu með þeim orðum að fátt hafi breyst á þessum þremur árum – nema börnin stækkað.

Þær rifjuðust upp fyrir mér þegar ég var að taka saman myndir af barnaherbergjum en herbergi dóttur Malinar er algjört augnakonfekt og fær að sjálfsögðu að fylgja með í lokin.

Myndir: Petra Bindel via

Svo sjarmerandi þessi bóhemíski stíll og afslappaður, hann virðist oft fylgja þeim sem flakka mikið um heiminn. Heimili sem hafa sögu að segja eru oft þau skemmtilegustu. Fallegt ekki satt?

MJÚKUR & MINIMALÍSKUR STÍLL PELLU HEDEBY STJÖRNUSTÍLISTA

Heimili

Í nýjasta tölublaði Elle Decoration má sjá fallegt heimili Pellu Hedeby sem er einn fremsti innanhússstílisti Svía. Pella er mín uppáhalds en hún hefur meðal annars starfað sem stílisti fyrir Ikea ásamt því að stílisera fyrir hin ýmsu tímarit. Hún er með nokkuð einkennandi stíl og eltist ekki mikið við tískubylgjur, skandinavískt og létt yfirbragð er hennar einkenni og látlausir litir ásamt náttúrulegum efnum. Þetta tölublað (07) þarf ég að næla mér í til að lesa viðtalið við þessa kláru konu, skrifað af Anders Bergmark – sem ég fékk þann heiður einu sinni að sýna bestu staði Reykjavíkur á HönnunarMars.

Þess má geta að Lotta Agaton hin eina sanna var að ráða Pellu Hedeby til sín sem hönnuð og stílista Lotta Agaton Interiors – hversu spennandi fréttir! Ég mun fylgjast spennt með þeim verkefnum sem þær munu taka sér fyrir hendur.

Stílisering: Pella Hedeby,   Ljósmyndari: Kristofer Johnsson fyrir ELLE  Decoration

GULLFALLEGT & HEILLANDI HEIMILI

Heimili

Það er aldeilis kominn tími á eitt stykki gordjöss innlit! Þessi fallega íbúð er staðsett í Gautaborg og hér hefur verið nostrað við hvern krók og kima, fallegir loftlistar setja sinn svip á heimilið og smekkur eiganda (ásamt stílista) er upp á 10! Það er virkilega gaman að skoða hér hvernig hlutunum er stillt upp og hægt að fá hugmyndir en það má sjá vel uppraðaðar smáhlutahillur í nánast öllum herbergjum. Þetta er fullkomið heimili til að taka með okkur inn í helgina – heimilisinnblástur af bestu gerð.

Myndir via Entrance 

Ég er sérstaklega hrifin af gráa litnum á stofunni og gæti vel hugsað mér að mála mína stofu í þessum lit, þessi blanda af gömlu og nýju er það sem gerir þetta heimili svona fallegt að mínu mati. Það er ekkert eftirsóknarvert að eiga allt nýtt, eitthvað gamalt, stundum pínu sjúskað er það sem gefur heimilinu sál og hlýju.

Föstudagsinnlit af betri gerðinni, hvernig finnst ykkur þetta?

MÁNUDAGSINNLIT: SÆNSKT & FALLEGT

Heimili

Þetta heimili er mjög sænskt ef svo má segja, ljóst í grunninn með fallegri hönnun, plöntum og hlýlegu yfirbragði. Í dag er síðasta vikan okkar í sumarfríi að hefjast og heill haugur af vinnu sem bíður mín eftir að leikskólinn hans Bjarts opnar aftur… ég á þó erfitt með að viðurkenna að sumarið sé senn á enda en þrátt fyrir það þá elska ég haustið – án efa besti tími ársins að mínu mati. Ég vona að þið hafið átt góða Verslunarmannahelgi og komið öll endurnærð tilbaka… eða hvað?

  

Myndir via Kvarteret Makleri

Fallegur sænskur heimilisinnblástur er góður til að byrja vikuna. Núna er eins gott að nýta þessa síðustu frídaga sem best áður en rútínan skellur á:)

HEIMA HJÁ EIGENDUM SÆNSKU ARTILLERIET

HeimiliVerslað

Ég á mér eina uppáhalds verslun sem ég hef þó aldrei heimsótt. Það er sænska Artilleriet sem ég er svo heilluð af og fylgist með þeim á flestum miðlum sem ég get. Einn daginn þá kem ég til með að heimsækja fallegu verslunina þeirra sem staðsett er í Gautaborg í Svíþjóð. Heimili eiganda verslunarinnar er hið glæsilegasta, nokkrar myndir hafið þið mögulega þegar séð á flakki um vefinn enda alveg einstakt heimili sem heillar flesta. Hér búa þeir Christopher og Björn, kíkjum í heimsókn…

Þvílíkur demantur sem þetta heimili og er miklir smekkmenn á ferð með gott auga fyrir smáatriðum. Þessar myndir voru teknar fyrir Residence tímaritið sem trónir núna á toppinum yfir sænsk tímarit en þar fer fremst í flokki hún elsku Lotta Agaton sem einmitt stíliseraði þessar myndir. Heimilið er hlýlegt og skandinavískur stíll ræður ríkjum, ljósir litir á móti grófum textíl og margar plöntur og persónuleg listaverk setja sinn svip á heimilið. Eigum við að flytja inn núna?