SUNNUDAGSINNLIT : DRAUMAHEIMILI Í GAUTABORG

Heimili

Sunnudagsinnlitið er ekki af verri endanum að þessu sinni, draumaheimili í Gautaborg uppfullt af fallegri hönnun og góðum hugmyndum. Eldhúsið er sérstaklega fallegt, opið og stílhreint með marmara sem nær upp á vegg og ljósgráar innréttingar, takið einnig eftir hvað gardínurnar gera mikið og þá sérstaklega í eldhúsinu sem er nokkuð óvenjuleg sjón. Ef það væri eitthvað eitt sem ég mætti óska mér fyrir mitt heimili þá væru það gólfsíðar gardínur í stofu og svefnherbergi – sjáið bara hvað þetta er fallegt.

Myndir via Alvhem 

BÓHEMÍSKT HEIMILI STÍLISTA & BLOGGARA

Heimili

Malin Persson er þekktur sænskur stílisti, fyrrverandi módel og er einnig bloggari hjá Elle Decoration. Það kemur líklega fáum á óvart að hún eigi smekklegt heimili, en þessar myndir birtust upphaflega í Elle Decoration fyrir um þremur árum síðan og hafa flakkað um netið síðan þá enda einstaklega fallegt heimili og eiga svo sannarlega ennþá erindi. Heimilið er bóhemískt og skreytt antíkmunum og vel völdum hlutum af mörkuðum úr ólíkum heimshornum. Malin er heimsflakkari og sést það glöggt á glæsilegu heimili hennar. Hún rifjaði sjálf upp nokkrar af þessum myndum í vikunni á blogginu sínu með þeim orðum að fátt hafi breyst á þessum þremur árum – nema börnin stækkað.

Þær rifjuðust upp fyrir mér þegar ég var að taka saman myndir af barnaherbergjum en herbergi dóttur Malinar er algjört augnakonfekt og fær að sjálfsögðu að fylgja með í lokin.

Myndir: Petra Bindel via

Svo sjarmerandi þessi bóhemíski stíll og afslappaður, hann virðist oft fylgja þeim sem flakka mikið um heiminn. Heimili sem hafa sögu að segja eru oft þau skemmtilegustu. Fallegt ekki satt?

MJÚKUR & MINIMALÍSKUR STÍLL PELLU HEDEBY STJÖRNUSTÍLISTA

Heimili

Í nýjasta tölublaði Elle Decoration má sjá fallegt heimili Pellu Hedeby sem er einn fremsti innanhússstílisti Svía. Pella er mín uppáhalds en hún hefur meðal annars starfað sem stílisti fyrir Ikea ásamt því að stílisera fyrir hin ýmsu tímarit. Hún er með nokkuð einkennandi stíl og eltist ekki mikið við tískubylgjur, skandinavískt og létt yfirbragð er hennar einkenni og látlausir litir ásamt náttúrulegum efnum. Þetta tölublað (07) þarf ég að næla mér í til að lesa viðtalið við þessa kláru konu, skrifað af Anders Bergmark – sem ég fékk þann heiður einu sinni að sýna bestu staði Reykjavíkur á HönnunarMars.

Þess má geta að Lotta Agaton hin eina sanna var að ráða Pellu Hedeby til sín sem hönnuð og stílista Lotta Agaton Interiors – hversu spennandi fréttir! Ég mun fylgjast spennt með þeim verkefnum sem þær munu taka sér fyrir hendur.

Stílisering: Pella Hedeby,   Ljósmyndari: Kristofer Johnsson fyrir ELLE  Decoration

GULLFALLEGT & HEILLANDI HEIMILI

Heimili

Það er aldeilis kominn tími á eitt stykki gordjöss innlit! Þessi fallega íbúð er staðsett í Gautaborg og hér hefur verið nostrað við hvern krók og kima, fallegir loftlistar setja sinn svip á heimilið og smekkur eiganda (ásamt stílista) er upp á 10! Það er virkilega gaman að skoða hér hvernig hlutunum er stillt upp og hægt að fá hugmyndir en það má sjá vel uppraðaðar smáhlutahillur í nánast öllum herbergjum. Þetta er fullkomið heimili til að taka með okkur inn í helgina – heimilisinnblástur af bestu gerð.

Myndir via Entrance 

Ég er sérstaklega hrifin af gráa litnum á stofunni og gæti vel hugsað mér að mála mína stofu í þessum lit, þessi blanda af gömlu og nýju er það sem gerir þetta heimili svona fallegt að mínu mati. Það er ekkert eftirsóknarvert að eiga allt nýtt, eitthvað gamalt, stundum pínu sjúskað er það sem gefur heimilinu sál og hlýju.

Föstudagsinnlit af betri gerðinni, hvernig finnst ykkur þetta?

MÁNUDAGSINNLIT: SÆNSKT & FALLEGT

Heimili

Þetta heimili er mjög sænskt ef svo má segja, ljóst í grunninn með fallegri hönnun, plöntum og hlýlegu yfirbragði. Í dag er síðasta vikan okkar í sumarfríi að hefjast og heill haugur af vinnu sem bíður mín eftir að leikskólinn hans Bjarts opnar aftur… ég á þó erfitt með að viðurkenna að sumarið sé senn á enda en þrátt fyrir það þá elska ég haustið – án efa besti tími ársins að mínu mati. Ég vona að þið hafið átt góða Verslunarmannahelgi og komið öll endurnærð tilbaka… eða hvað?

  

Myndir via Kvarteret Makleri

Fallegur sænskur heimilisinnblástur er góður til að byrja vikuna. Núna er eins gott að nýta þessa síðustu frídaga sem best áður en rútínan skellur á:)

HEIMA HJÁ EIGENDUM SÆNSKU ARTILLERIET

HeimiliVerslað

Ég á mér eina uppáhalds verslun sem ég hef þó aldrei heimsótt. Það er sænska Artilleriet sem ég er svo heilluð af og fylgist með þeim á flestum miðlum sem ég get. Einn daginn þá kem ég til með að heimsækja fallegu verslunina þeirra sem staðsett er í Gautaborg í Svíþjóð. Heimili eiganda verslunarinnar er hið glæsilegasta, nokkrar myndir hafið þið mögulega þegar séð á flakki um vefinn enda alveg einstakt heimili sem heillar flesta. Hér búa þeir Christopher og Björn, kíkjum í heimsókn…

Þvílíkur demantur sem þetta heimili og er miklir smekkmenn á ferð með gott auga fyrir smáatriðum. Þessar myndir voru teknar fyrir Residence tímaritið sem trónir núna á toppinum yfir sænsk tímarit en þar fer fremst í flokki hún elsku Lotta Agaton sem einmitt stíliseraði þessar myndir. Heimilið er hlýlegt og skandinavískur stíll ræður ríkjum, ljósir litir á móti grófum textíl og margar plöntur og persónuleg listaverk setja sinn svip á heimilið. Eigum við að flytja inn núna?

SVONA BÝR EINHLEYPUR 3JA BARNA FAÐIR Í STOKKHÓLMI

Heimili

Ég veit að fyrirsögnin er mögulega ekki sú besta… en ég verð alltaf svo glöð þegar ég rekst á falleg heimili þar sem karlmaður hefur haft sem mest að segja um heimilið. Hér býr sænski tískusjarmörinn Daniel Lindström ásamt þremur börnum sínum og hefur hann komið sér vel fyrir í Stokkhólmi með útsýni yfir paradísina Djurgården. Heimilið er málað í hlýjum gráum tón og klassíska hönnun er að finna í hverju horni. Stíllinn er fágaður og það er ekki annað hægt að segja en að herra Daniel sé alveg “meðetta”.

   

Hömmm… fallegur stóll… eða þið vitið

Myndir via Residence

Uppáhalds hluturinn minn á heimilinu er án efa klassíski hjólavagninn / Trolley  eftir Alvar Aalto frá Artek og leðurklædda Sjöan á skrifborðsfótum er síðan alveg einstök. Ég hefði einnig ekkert á móti þessum líflegu svölum!

Hvað er í uppáhaldi hjá ykkur á þessu heimili?

LÉTTUR SUMARSTÍLL Á SVALIRNAR

Fyrir heimilið

Ég er almennt séð jákvæðu megin í lífinu og bíð því ennþá spennt eftir að þessi gula láti sjá sig hjá okkur á höfuðborgarsvæðinu og skoða myndir af fallegum svölum og veröndum í sumarbúning. Læt einnig út skrautpúða á mínar svalir aðeins til þess að það rigni á þá stuttu síðar…. en það er allt í góðu því við hljótum að eiga inni nokkrar svakalega sólríkar vikur. Þessar myndir eru af fallegum útisvæðum með léttu yfirbragði og veitir góðan innblástur fyrir komandi vikur, – úti.

Myndirnar hér að ofan eru af fallegu útisvæði hjá Daniella Witte þeirri sænsku smekkkonu, þið getið fylgst með henni hér.

Seinni myndin kemur frá Ikea Livet Hemma, falleg og notaleg útistofa því á sumrin þá teygir heimilið anga sína alla leið út í garð og stækkar fyrir vikið. Þar getum við átt okkar bestu stundir en þá er líka um að gera að hafa dálítið huggulegt, færa út smá punt, púða og værðarvoð ef skyldi kólna.

Núna er það bara að krossa fingur og tær í von um sólríkar stundir næstu daga! 

ELEGANT HEIMILI & GRÁIR TÓNAR

Heimili

Ég rakst á þetta fallega og elegant heimili á netvafri mínu í gær eftir að Bjartur sofnaði og heillaðist alveg. Borðstofan er sérstaklega falleg með einstökum og sjaldséðum T-stólum Arne Jacobsen og grámálaðan glerskáp sem tónar vel við grængráa vegginn. Þetta haustveður okkur fær að hafa smá áhrif á heimilin sem ég skoða, er ég nokkuð ein um það að langa til þess að skríða undir teppi og kveikja á kerti á kvöldin?

Myndir via Hitta hem / Ljósmyndari: Sara Medina Lind / Hönnun og stílisering: Marie Ramse

Ég er dálítið skotin í þessum heimilum þar sem allir veggir eru málaðir, það verður eitthvað svo hlýlegt þó svo að þessi hugmynd henti okkur í leiguíbúðunum ansi illa haha.

Eigið annars alveg glimrandi sunnudag!

MÁNUDAGSHEIMSÓKN: NOKKRIR SKUGGAR AF GRÁU

Heimili

Hér má sjá huggulegt heimili sænska bloggarans Jasmina Bylund, stíllinn er afslappaður og látlaus og mjúkir litir í gráum tónum á veggjum. Fallegir bogadregnir gluggar setja sinn svip á heimilið ásamt grófum gardínum sem ná alla leið upp í loft, fjölbreyttur textíll í púðum, dúkum, mottum og ábreiðum gefur svo extra hlýlegt yfirbragð. Virkilega fallegt heimili, bjart og notalegt. 

Myndir via Jasmina Bylund

Hún Jasmina er einnig einstaklega smart á Instagram og ég mæli því með að kíkja við hjá henni þar sem hún deilir myndum bæði frá heimilinu en einnig fjölskyldulífinu. Þið finnið linkinn hér að ofan undir síðustu myndinni:)