fbpx

UPPÁHALDS HÚSGAGNIÐ MITT // SVEINN KJARVAL 100 ÁRA

Íslensk hönnunKlassíkPersónulegt

Í dag þann 20. mars 2019 hefði húsgagna- og innanhússhönnuðurinn Sveinn Kjarval (1919 – 1981) orðið 100 ára. Í tilefni dagsins er vel við hæfi að rifja upp þennan merkilega mann og hans hönnun en Sveinn Kjarval var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun á Íslandi.

Ég held mikið upp á eitt húsgagn eftir þennan meistara, en það er ruggustóllinn klassíski sem ég fékk frá ömmu minni og afa sem prýtt hefur stofuna mína undanfarin ár en upphaflega átti langamma mín stólinn.

“Framleiðsla á þessum vinsæla ruggustól á sjöunda áratugnum var mikilvægur þáttur í starfsemi verkstæðisins Nývirkis (st. 1955). Þar fór einnig fram merkileg frumgerðasmíði og sérsmíði. Mikil eftirspurn var eftir ruggustólnum og talið er að framleiðslan hafi skipt hundruðum og setan ýmist klædd skinni eða ullaráklæði. Snemma á 20. öld varð ruggustóll tískuvara og tákngerður gripur á heimilum, hér á landi sem annars staðar, eða allt þar til viðameiri stillanlegir hvíldar- eða sjónvarpsstólar komu til sögunnar. (sýningartexti af sýningunni Óvænt kynni árið 2013). ” Texti – Hönnunarsafn Íslands.

SVEINN KJARVAL 100 ÁRA – FYRIRLESTUR 

Sveinn Kjarval  var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun á Íslandi. Í tilefni af því að eitthundrað ár eru liðin frá fæðingu hans miðvikudaginn 20. mars mun Dr. Arndís S. Árnadóttir flytja fyrirlestur um verk hans og störf. Fyrirlesturinn fer fram í kirkju Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56 en Sveinn hannaði meðal annars kirkjubekkina í þessa fallegu kirkju.

Fyrirlesturinn fer fram í kvöld, miðvikudaginn 20. mars kl. 20.00 og er í boði Hönnunarsafns Íslands.

Fyrir áhugasama þá tók ég saman smá texta um hönnuðinn Svein Kjarval, úr grein sem birtist í Morgunblaðinu árið 2014 , þá í tilefni 95 ára fæðingarafmælis hans.

“Sveinn Kjarval, innanhúss- og húsgagnaarkitekt, fæddist í Danmörku 20.3. 1919. Foreldrar hans voru Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálari og k.h., Tove Kjarval, f. Merrild, þekktur rithöfundur, af listamannaættum.

Sveinn var búsettur í Reykjavík skamma hríð, hann flutti síðan með móður sinni aftur til Danmerkur, ólst þar upp og lauk prófum í húsgagnasmíði 1938. Sveinn kom til Íslands 1939, vann við smíðar og var verkstjóri á vegum ameríska hersins, en fór aftur utan 1946, stundaði nám við Kunsthåndværkskolen í Kaupmannahöfn og brautskráðist sem innanhússarkitekt vorið 1949. Sama ár kom hann aftur til Íslands og vann hér að húsgagna- og innanhússhönnun til 1969 en flutti þá enn til Danmerkur og bjó þar síðan.

Sveinn var frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun hér á landi á þeim árum er einhæfni ríkti á því sviði, hönnun talin óþörf og jafnvel óþekkt. Í húsgagnahönnun innleiddi hann hina hreinu og léttu dönsku línu sem m.a. má sjá í borðstofu- og ruggustólum hans frá þeim tíma. Hann hannaði auk þess innréttingar fyrir Þjóðminjasafnið, bókhlöðuna á Bessastöðum, veitingahúsið Naustið og kaffistofuna Tröð í Austurstræti. Þá kenndi hann við handíðadeild Kennaraskólans 1951-56 og hélt fjölda fyrirlestra um hönnun, en oft fyrir daufum eyrum. Sveinn lést 10.2. 1981.” Morgunblaðið, 20. mars, 2014. 

Einnig er áhugaverð minningargrein sem var rituð um hann stuttu eftir andlát og birtist í Morgunblaðinu, og lýsir vel hans skemmtilega karakter. Hægt er að lesa með því að smella hér.

Ég hvet áhugasama til þess að kíkja á fyrirlesturinn sem haldinn er í kvöld –

Það væri vel við hæfi á 100 ára afmælisári Sveins Kjarvals að gera upp ruggustólinn minn sem mig hefur lengi langað til, pússa og bera á og að lokum að endurnýja skinnið sem komið er til ára sinna. Stóllinn minn hefur verið notaður mikið í gegnum nokkra áratugi og sést því vel hversu mikil gæðasmíði stóllinn er og mikið stofuprýði.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÆVINTÝRALEGT BARNAHERBERGI

Skrifa Innlegg

4 Skilaboð

 1. Anna

  20. March 2019

  Flott grein:)

  Ekki veist þú hvert ég gæti farið með svona stól í viðgerð?

  • Bjarma

   21. March 2019

   Sæl. Ég mæli með Antik- Húsgagnaviðgerðir Magga á facebook. Hann er búinn að gera við ófáa Kjarval stóla.

 2. Katrín

  21. March 2019

  Takk fyrir þessa upplýsingar, áhugaverð og skemmtileg lesning.