SNILLDARHÖNNUN FYRIR HJÓLREIÐAFÓLK

HönnunPersónulegt

Það verður að viðurkennast að það er algjört hjólaæði í gangi og hef ég aldeilis þurft að finna fyrir því þar sem að minn maður vill helst vera úti að hjóla í spandex öllum stundum og er genginn í hjólreiðafélag. Það er að skapast skemmtileg hjólamenning en á meðan að margir eru að eltast við racer hjól í dag þá kýs ég bara mitt gamla klassíska götuhjól með blómakörfu á. Ég hef þó í mörg ár átt í smá baráttu við sjálfa mig að þykjast alltaf gleyma hjálminum þegar ég fer út að hjóla, mér hefur nefnilega ekki þótt mjög smart að vera búin að dressa mig upp og hjóla um með blómakörfu en þurfa svo að vera með bláan sporthjálm á höfðinu! Systir mín sem starfar sem hjúkrunarfræðingur hefur jú aldeilis skammað mig fyrir svona hugsunarhátt enda er ekkert grín að vera án hjálms en vandamálið hefur verið að það er hreinlega ekki mikið úrval af hjálmum fyrir okkur hin sem erum ekki alveg tilbúin í þetta sportlúkk. Ég veit að það eru margir þarna úti sem skilja nákvæmlega hvað ég er að meina.

Ekki fyrir svo löngu síðan var hér á blogginu fastur liður þar sem ég tók fyrir flotta hönnun sem vakti athygli mína og núna finnst mér tilefni að endurvekja þann lið. Ég á nefnilega smá séns í hjóladellumanninn minn eftir að ég rakst á þessa snilld hér sem er samanbrjótanlegur hjálmur sem unnið hefur alþjóðlegu Red Dot hönnunarverðlaunin frægu og er auk þess til sölu í MoMa hönnunarsafninu í New York þar sem aðeins fæst það besta af því besta í hönnun. En ég endurtek, samanbrjótanlegur hjálmur? Fyrir utan það hvað mér hefur þótt hjálmar oft á tíðum ljótir (sportlegir) þá eru þeir rosalega fyrirferðamiklir og maðurinn sem fann þessa snilld upp á hrós skilið!

   

   

Það að hægt sé að brjóta hjálm saman án þess að minnka öryggi hans er eitt það besta sem ég hef heyrt og það er langt síðan ég rakst á hönnun sem mér þykir svona mikið vit vera í og toppurinn er að geta stungið hjálminum ofan í veski þar sem ekkert fer fyrir honum. Hjálmurinn sem um ræðir er frá spænska fyrirtækinu Closca og hefur hann raðað á sig verðlaunum bæði vegna hönnunar og öryggis.

P.s. þetta hér er dálítið stemmingin sem ég vil þegar ég hjóla, nema þessum skvísum vantar hjálm ♡

Núna verð ég að fá að heyra frá ykkur hvað ykkur finnst um þessa hönnun? Ég er kannski orðin svona smituð af hjólaáhuga fjölskyldunnar en mér þykir þetta algjör snilld og þurfti að “googla” þetta fram og tilbaka til að trúa því að svona hjálmur geti virkilega verið öruggur. Fyrir áhugasama þá fæst hjálmurinn hér heima á Hjólahjálmur.is en þessa færslu skrifa ég aðeins af einlægum áhuga. Ég veit um eina sem er einmitt á leið erlendis í stelpuhjólaferð og hún er eftir að verða jafn skotin og ég.

BLEIK & FALLEG STOFA

Heimili

Hér er það stofan sem heillar mest en þó er heimilið allt afskaplega fallegt. Stofan er bara eitthvað svo skemmtilega látlaus ef svo má kalla, ófrágenginn sófi og húsgögn úr öllum áttum. Toppurinn er líklega fallegi grábleiki liturinn sem prýðir veggina og gerir stofuna alveg extra djúsí og sæta. Ég sjálf fékk nú bara “leyfi” til að mála bleikt í anddyrinu á okkar heimili með Svönubleikum lit úr Sérefni en hefði ég haft þessar myndir mér til stuðnings hefði ég kannski fengið að mála stofuna alla? Söderhamn sófinn sem hættir aldrei að ásækja mig, hann hreinlega er að grábiðja mig um að kaupa sig. – Jú ég er nefnilega ennþá í sófaleit og ætla aldeilis að leyfa ykkur að fylgjast með þeirri góðu leit.

En að máli málanna, kíkjum á þessa fegurð –

Mikið er þetta skemmtileg stofa, með þrjú ólík stofuborð, púða úr öllum áttum, ólíkar plöntur og flott listaverk á veggjum.

Listaverkin á veggjunum á þessu heimili heilla mig mikið ásamt þessari góðu blöndu af antík við klassíska hönnun. Þungt viðarborðið kemur vel út með Ton armstólnum, HAY pinnastólum og Y stólnum. Allt gjörólíkir stólar en passa vel saman þar sem allir eru þeir viðarlitaðir.

Myndir via Bjurfors 

Skemmtilegt heimili hér á ferð, takið eftir að það eru um 14 pottaplöntur ásamt afskornum blómum á víð og dreif sem skapar svona fallegt yfirbragð. Litavalið er einnig sérstaklega fallegt og afslappað, ég gæti að minnsta kosti vel hugsað mér að búa hér.

BÚSTAÐURINN : NOKKRAR MYNDIR

Persónulegt

Það hefur líklega ekki farið framhjá ykkur sem fylgist með að fyrir nokkru síðan kom lítill og fallegur bústaður í fjölskylduna og núna loksins er að koma ágætis mynd á hann. Það finnst varla duglegri maður en hann pabbi minn og hefur hann staðið í ströngu að gera upp bústaðinn og er hann jafnvel í huganum strax farinn að huga að stækkun, en hann er einn af þeim sem þarf aldrei að hvílast. Við hinar, ég, mamma og systir mín ætlum meira að passa upp á að það verði huggulegt hjá okkur sem það er nú aldeilis að verða. Enn er nú ýmislegt sem á eftir að týnast til, ég vona að fallegu flísarnar okkar verði lagðar næstu helgi á anddyrið og gestaskúrinn verði parketlagður og málaður sem fyrst. Við systurnar skiptum helginni á milli okkar þar sem foreldrar mínir tóku eina helgi í frí frá bústaðarvinnu og vorum við Andrés og Bjartur því ein að dúlla okkur þarna í dag. Algjör draumadagur ♡

Bústaðurinn var allur málaður með litnum Soft Sand sem við fengum í Sérefni. Það hafa verið tekin yfir 500 skjáskot af þessum lit þegar ég set hann á Svartahvitu snappið svo þessi litur verður án efa afar heitur í sumar! Það kemur reyndar alls ekki á óvart því hann er þessi fullkomni neutral litur sem passar við allt, ég þekki nokkrar sem eru að mála með þessum lit núna, svo ég mæli að minnsta kosti með að fá prufu hjá Sérefni ef þú ert að leita af mildum og fallegum lit.

Bekkinn keypti mamma í Hugmyndir og heimili en þaðan er einnig stofuborðið, þið sem hafið ekki kíkt við hjá þeim ættuð að skella því á listann ykkar. Eldhúsborðið var keypt notað og Mæðradagsplattarnir koma svo fallega út á veggnum. Mestmegnið af hlutunum í bústaðnum eru notaðir eða eitthvað sem þegar var til sem gerir litla bústaðinn svo kósý þrátt fyrir að vera ekkert endilega tilbúinn.

Pabbi málaði Ikea Lack vegghillurnar sem eru upphaflega úr unglingaherberginu mínu í sama lit og veggurinn og kemur það alveg ótrúlega vel út. Fyrst voru þær grunnaðar og svo málaðar. Reyndar voru þær einnig styttar til að passa á vegginn, en ég vil benda á að þessar hillur eru nánast holar að innan svo þær þurfa þá að mæta vegg, en þetta er góð lausn fyrir þá sem eiga nú þegar til svona hillur en vilja breyta til. Hér er þó eftir að bæta við ýmsu punti …

Parketið er algjört bjútí, það er reyndar mikið hlýrra /meira út í brúnt en það virkar á þessari mynd. Það heitir Hardy Oak harðparket og er frá Byko en þið getið nálgast allar upplýsingar + verð hér. Fallegi Sunrise bakkinn sem vinkona mín og vöruhönnuðurinn Anna Þórunn hannaði smellpassar í bústaðinn, en sætu bleiku krúsirnar fékk ég í A4 en þær eru frá Bloomingville.

Innréttinguna keyptu foreldrar mínir í Ikea en borðplatan er frá Byko. Þarna á eftir að bæta við höldu undir vaskinn en þó það sé ekki skúffa finnst ykkur ekki smá truflandi að það sé engin halda? Glerskápurinn hvíti var síðan keyptur notaður á Bland og er fullkominn undir fína bleika stellið sem sum ykkar hafið séð á snappinu.

Instagram reikningurinn minn fær að fylgja með í þetta sinn en þið finnið mig þar undir nafninu svana.svartahvitu ♡ Vonandi áttuð þið góða helgi, ég fer að minnsta kosti endurnærð inn í komandi viku en ég þurfti einmitt á því að halda! x Svana

KATE MOSS & BLEIKUR SÓFI

Heimili

Það er alltaf dálítið erfitt að birta nýtt innlit á eftir því sem slær svona ótrúlega í gegn eins og það íslenska sem ég birti síðast, sjá hér. En því ákvað ég að sýna ykkur innlit í eina típíska sænska krúttlega stúdíó íbúð. Hér hefur allt verið opnað upp á gátt með glugga úr eldhúsi inn í svefnherbergi svo birtan flæðir inn ásamt því að stærðarinnar glerveggur aðskilur svefnherbergi og stofu sem gefur heimilinu mikinn karakter og birtu. Veggirnir eru málaðir í hlýjum ljósgráum lit sem fer vel með bleikum sófanum og gylltum smáatriðum. Gylltur eldhúsvaskur flokkast þó aldeilis ekki sem smáatriði heldur meira eins og drottningin á svæðinu. Ég meina hver væri ekki til í gylltan trylltan vask?

Í litlum íbúðum þarf að nýta allt geymslupláss vel og hér þarf að hafa skápana í stofunni.

Eldhúsið er ótrúlega fallegt, með marmaraplötu og gyllti vaskurinn er æði!

 

Sniðug lausn að opna svona rýmið með glervegg til að ná birtunni inn.

Hér hefðu þau vel getað haft fataskápinn en á sama tíma hefði eldhúsið verið töluvert lokaðra, þessi útkoma er töluvert skemmtilegri.

Myndir via Residence 

Núna ætla ég að stíga frá tölvunni og fara út í þetta dásamlega veður sem við erum svo heppin með! Krossum fingur og tær að það haldist svona fram á haust:)

ÍSLENSKT HEIMILI : STÚTFULLT AF LIST & SJARMA

Heimili

Þetta íslenska heimili sem nú má finna myndir af á fasteignasölu er engu líkt. Það var mín kæra Karen Lind sem sendi mér þessar myndir í morgun og ég missti nánast andann í nokkrar sekúndur. Það er nefnilega sjaldan sem svona heimili birtast okkur og við verðum samstundis forvitin að fá að heyra hverjir búa svona skemmtilega. Ég ætla að leggja allt undir að þarna búi hönnuður eða listamaður, það hreinlega hlýtur að vera. Öll þessi listaverk og sérkennilegi stíll einkennir heimilið sem er í grunninn mjög hrátt, með hátt til lofts og vítt til veggja. En þó svo skemmtileg og kósý með öllum þessum ólíku gólfmottum á víð og dreif. Og ræðum svo aðeins dúkku listaverkið á eldhúsveggnum – það er nánast enginn sem kemst upp með svona veggpunt en hér kemur það manni ekki einu sinni á óvart. Alveg hrikalega skemmtilegt heimili og kemur sem ferskur andblær í flóru íslenskra heimila. Ég er alveg heilluð.

Og svo ég haldi áfram að giska hver búi hér, þá vil ég trúa því að þessi fjölskylda sé undir hollenskum áhrifum og hafa líklega búið þar um tíma. Þessi iðnaðarstíll og frábæra samansafn af hönnun er eitthvað sem ég sé nánast aðeins í Hollandi og eldhúsborðið/borðstofuborðið eftir hinn hollenska Piet Hein Eek er mín draumaeign.

Myndirnar eru fengnar af fasteignasöluvef Vísis – sjá nánar hér.