FULLKOMIN VINKONUFERÐ ♡

Persónulegt

Fyrir nokkrum dögum síðan héldum við vinkonurnar í saumaklúbbnum upp á árlega árshátíð og fékk ég að koma að skipulagi hennar sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt. Það er alveg nauðsynlegt að lyfta sér upp reglulega og styrkja sambandið við vini sína. Ég er ekki frá því að ég hafi einnig lengt líf mitt um nokkur ár því það var svo mikið hlegið í ferðinni – algjörlega frábær dagur með skemmtilegum vinkonum.
Við erum með hefð fyrir því að ca. tvær úr hópnum skipuleggi allt og komum svo hinum á óvart en þó leggjum við allar jafnt út fyrir deginum. Ég vona að þetta geti komið ykkur að gagni sem eruð að skipuleggja vinkonu/vinaferðir:) 

Við byrjuðum daginn á því að hittast fyrir utan Sundhöllina á Selfossi þar sem við áttum bókaðan tíma í Trampolín fitness í World Class. Ég man eftir að hafa séð stelpurnar í RVK fit (snapchat) fara þangað nýlega og það virkaði svo hrikalega skemmtilega að við vildum einnig prófa. Við vorum einar með salinn og borguðum fyrir klukkustund með kennara sem var alveg frábær. Hún blandaði saman æfingum og hópeflisleikjum sem var hressandi að byrja árshátíðina okkar á. Ég mæli endilega með því að prófa!

Eftir það þá keyrðum við í bústaðinn minn þar sem við gistum í eina nótt og elduðum góðan mat og vorum í misgáfulegum leikjum langt fram á nótt. Við erum með smá steiktan húmor og ákváðum að hafa keppni okkar á milli varðandi klæðnað og fékk hver og ein þemalit sem hún átti að klæða sig eftir og voru haldnar kynningar. Sú sem gekk lengst með þemað sitt hlaut svo verðlaun – en einnig voru veitt aukaverðlaun fyrir besta fylgihlutinn í þemalitnum. Ég veit varla afhverju ég er að skrifa þetta hérna haha. En það er alveg nauðsynlegt að taka sig ekki of alvarlega og geta ennþá fíflast þó við séum ekki ennþá 16 ára. Við lögðum okkur allar mikið fram við þemað og það var mikið hlegið og myndirnar sem náðust af mér fá ekki að fara á alnetið – en verðlaunin komu heim með mér;)

Morguninn eftir var síðan vaknað snemma og haldið í bröns í Þrastarlundi þangað sem ég hef verið á leiðinni síðan að bústaðarævintýrið hófst en þetta er jú hverfisstaðurinn okkar fjölskyldunnar núna. Það sem kom mér svo á óvart að þrátt fyrir að hafa heyrt mjög marga tala um brönsinn þá er staðurinn sjálfur alveg einstaklega fallegur og vel hannaður en það hefur alveg gleymst í allri umræðunni. Stærðarinnar gylltar ljósakrónur og háir leðurbekkir setja sinn svip á staðinn og grófir og töffaralegir leðurstólar eru við borðin. Það voru þau Dóra Björk Magnúsdóttir og Leifur Welding sem hönnuðu staðinn og heppnaðist svona líka vel. Ég get ekki sleppt því að minnast síðan á brönsinn sjálfan sem var virkilega ljúffengur en það besta var líklega þjónninn okkar hann Marek sem dekraði við okkur. Við tókum nokkrar myndir af staðnum og gátum ekki sleppt því að taka klassísku -bloggari í bröns- myndina (haha) sem við skemmtum okkur mikið yfir. Við vorum mættar alveg við opnun sem mér þótti kostur því þá nýtur maður umhverfisins og útsýnisins sem er svo fallegt betur. Ég mæli því hiklaust með Þrastarlundi ef þið eruð á ferðinni og ég mun eiga næsta deit þarna með fjölskyldunni minni en við keyrum þarna framhjá um hverja helgi nánast.

Þessar fjórar sáu svo um að þrífa bústaðinn eftir partýlætin og fáum því að öllum líkindum að kíkja aftur!

Við saumaklúbburinn höfum haldið árshátíð í nokkur ár núna og er alltaf mjög fjölbreytt dagskrá en í fyrsta sinn núna gistum við saman. Ég tek fram að við erum fleiri í hópnum en sést á myndinni – mér yrði þó líklega ekki fyrirgefið ef ég birti myndir af þeim hér á Trendnet sveittum í leikfimifötum eða fullum um kvöldið. Núna krossa ég fingur að næsta árshátíð verði haldin í L.A. þar sem að ein kær vinkona úr hópnum er að flytja þangað.

x Svana

TOPP 5: FLIKKAÐ UPP Á STOFUNA

Eitt það skemmtilegasta sem ég geri fyrir bloggið er að setja saman svona stemmingsmyndir og raða saman vörum úr ólíkum áttum. Þessi ljósmynd af bleika Pelican stól Finn Juhl hefur setið á desktopinu hjá mér í dágóðan tíma, algjör draumastemming og eitthvað svo óvenjuleg. Leikfimiáhöld í loftinu og allt fullt af fallegum plöntum og lífi. Eitt stykki Pelican stóll mætti vissulega rata í mína stofu en einnig Beetle hægindarstóll frá Gubi, þeir hafa vakið verðskuldaða athygli undanfarið ár.

Hér er sittlítið af hvoru í stofuna, sumt sem ég á nú þegar, annað sem ég er að safna og að lokum hlutir sem ég vildi gjarnan eiga.

// Aarre vegghankarnir frá iittala er eitthvað til að safna, en ferskjubleiki er sá sem er á topp listanum mínum og ég vil einn daginn bæta í mitt safn. // Mæðradagsplattarnir eru svo skemmtilegir og þó svo að þeir nái ekki lengra en árið 1969 þá ættu flestir af mínum lesendum að geta nælt sér í fæðingarár barnanna sinna. Ég er með 2014 upp á vegg í stofunni minni og þykir vænt um hann. Hér heima fást þeir alltaf í takmörkuðu upplagi í Kúnígúnd en einnig er hægt að versla öll árin á t.d. Dba.dk sem er dönsk uppboðssíða sem ég hef notað. // Feed me skálin er orðin að klassískri íslenskri hönnun að mínu mati, ótrúlega elegant og skemmtileg hönnun og í miklu uppáhaldi á mínu heimili. // Röndótt motta frá Pappelina – ég veit að ég er nýbúin að losa mig við röndóttu stofumottuna mína og ég hreinlega þrái að eignast eitthvað annað röndótt í staðinn, kallið mig klikkaða! Þessi renningur færi þó að öllum líkindum inn í eldhúsið mitt því það er svo gott að standa á mjúku undirlagi við eldamennsku og ekki skemmir fyrir hvað hún er lekker. Pappelina merkið fæst í Kokku. // Síðast en ekki síst þá er það Gubi Beetle stóllinn sem er draumur, það hafa komið fram nokkrar eftirlíkingar af Beetle stólunum undanfarið en engin sem á roð í þetta glæsilega eintak. Algjör draumur!

MÁNUDAGSHEIMSÓKN: NOKKRIR SKUGGAR AF GRÁU

Heimili

Hér má sjá huggulegt heimili sænska bloggarans Jasmina Bylund, stíllinn er afslappaður og látlaus og mjúkir litir í gráum tónum á veggjum. Fallegir bogadregnir gluggar setja sinn svip á heimilið ásamt grófum gardínum sem ná alla leið upp í loft, fjölbreyttur textíll í púðum, dúkum, mottum og ábreiðum gefur svo extra hlýlegt yfirbragð. Virkilega fallegt heimili, bjart og notalegt. 

Myndir via Jasmina Bylund

Hún Jasmina er einnig einstaklega smart á Instagram og ég mæli því með að kíkja við hjá henni þar sem hún deilir myndum bæði frá heimilinu en einnig fjölskyldulífinu. Þið finnið linkinn hér að ofan undir síðustu myndinni:)

LÍTIL ÍBÚÐ FYLLT AF BLÓMUM

Heimili

Sjáið hvað þessi pínulitla og sæta íbúð er að springa úr sjarma með sínum sérkennilegu skreytingum. Hún er ekki nema 43 fermetrar með stofu og svefnherbergi í sama rýminu en þó virðist fara ansi vel um þá sem hér búa. Lítil heimili hafa verið mér hugleikin í vikunni og ég hef mikið verið að grúska í efni hvernig best sé að koma sér fyrir þegar lítið er um fermetrana. Ég sýni ykkur afraksturinn innan skamms:) Stundum getur reynst manni mikil áskorun að búa smátt en með smá útsjónasemi og vali á réttu hlutunum sem allir hafa tilgang er hægt að skapa mjög huggulegt heimili jafnvel fyrir lítinn pening. Hér að neðan má varla finna neinn hlut sem flokkast sem “hönnunarvara” en að sjálfsögðu þarf ekkert slíkt til að geta átt fallegt heimili

Myndir via Entrance Mäkleri

Þvílíkt sjarmatröll sem þessi íbúð er, vissulega hefur stíliseringin mikið að segja en myndirnar eru fengnar að láni hjá sænskri fasteignasölu. Ég var einmitt fyrr í kvöld að aðstoða vinkonu mína að standsetja íbúð fyrir sölu og þetta var aðalega spurning um að færa til og fjarlægja hluti til að gera sem mest úr eigninni og tók ég svo myndir að því loknu. Það kom mér á óvart hversu gaman ég hafði af þessu, að fá að fikta í öllu heimilinu og taka niður – færa til það sem hentaði ekki með á myndirnar. Ég ber vissulega mikla virðingu fyrir ólíkum stíl og skoðunum fólks á heimilum, þau eru svo persónuleg. En þegar kemur að fasteignamyndum þá er minna alltaf meira sama hvaða smekk við höfum. Stilla fram fallegum hlutum og fela aðra ásamt því að blóm eru nánast “lífsnauðsynleg” á borð þegar kemur að því að ætla að selja íbúð. Því get ég lofað ykkur x

HAUSTIÐ 2017 HJÁ IKEA

Ikea

Þvílíkur dásemdardagur – haldið þið ekki að Ikea hafi verið að senda frá sér stórkostlegar myndir af því sem við eigum von á í haust. Stíliseringin er ólík því sem við höfum séð áður og stemmingin smá suðræn með flamingo fuglum og tropical laufum ásamt sterkum og djúpum litum og elegant yfirbragði. Ég er vissulega komin með nokkra hluti á lista hjá mér eftir að hafa rennt yfir þessar myndir og get ekki beðið eftir að skoða þessar vörur í haust.

Myndir via Ikea

Ný og spennandi húsgögn, falleg víragrind undir myndir og minnismiða, gyllt hnífapör, leðurhöldur á innréttingar, nýjar mottur, lampar og svo margt annað fallegt. Hvernig finnst ykkur?