fbpx

FALLEGAR SKREYTINGAR & KERTASTJAKAR FYRIR AÐVENTUNA

HugmyndirJól

Fyrsti í aðventu er handan við hornið og því tilvalið að byrja að huga að fyrstu skreytingunum og finna til kertastjaka eða krans fyrir aðventukertin. Ég er hrifin af því að nýta það sem til er og eiga margir þegar til 4 arma kertastjaka sem notaður er allan ársins hring og því tilvalið að nota hann á aðventunni líka og bæta við greinum og smá jólapunti. Þessar hugmyndir hér að neðan eiga eingöngu að veita innblástur og hægt er að gera mikið af fallegu heimatilbúnu aðventuskrauti, ég tala nú ekki um ef börnin fá að vera með 

Dagatal! Þetta hér að ofan er frá Ferm Living en svona “vasa” dagatöl fást einnig frá fleiri merkjum og einnig hægt að búa til sjálf, hér er hægt að koma fyrir litlum pökkum, happaþrennum, miðum með hugmyndum af samveru og slíkt. Eða einfaldlega konfektmolum fyrir fjölskylduna. Einföld og skemmtileg hefð sem leysir af hólmi dóta eða súkkulaðikrakkadagatölin sem eru minna spennandi í hugum margra…

Kertastjakinn sem ég nota á aðventunni er hvítur Nappula frá iittala *gjöf* sem ég eignaðist síðustu jól og finnst fallegt að skreyta með greinum og ýmsu sem fellur til. Klassísk hönnun sem hentar einnig allan ársins hring og um að gera að nota stjakana ekki aðeins á jólunum.

Kubus stjakinn prýðir mörg íslensk heimili og því tilvalinn til að skreyta fyrir aðventuna.

Látlausar og einfaldar pappírsstjörnur eru vinsælar til jólaskreytinga. Má m.a. finna slíkar hjá Dimm, Snúrunni, Fakó og í fl. verslunum.

Fallegt aðventukerti í Kubus skál skreytt mosa og könglum.

Lítið jólatré í vasa er dásamlega fallegt jólapunt, stundum er einfalt hreinlega best. Grænar greinar í blómavasa er eitthvað sem hentar flestum – líka þeim sem eru lengi að detta í jólagírinn! Sjá hvað þetta kemur vel út í klassískum iittala vasa.

Einfalt og ilmandi aðventukerti frá Ferm Living, hér er hægt að krossa yfir dagana og telja til jóla. Ég elska jóla ilmkerti og hef vanið mig á að eiga amk frá Skandinavisk og Urð sem eru uppáhalds ilmirnir mínir. Þetta að ofan er líka mjög gott.

Hýasintur, útilukt og feldur á pallinn eða svalirnar ♡

Stjaki frá Haf Studio er klassísk hönnun og einn af fáum íslenskum kertastjökum sem henta vel fyrir aðventuna.

Jólalínan frá Finnsdóttir (núna aðeins Dottir), er í miklu uppáhaldi og hef ég gaman af því að safna þessum jóladýrum. Fást í Snúrunni.

Látlaus kertahringur sem má einnig hengja upp með böndum, hann er frá Ferm Living.

Jólatrén frá Ker (áður Postulína) eru í uppáhaldi hjá mér, ég á þegar nokkur hvít og amk eitt svart (þarf að finna til jólakassann minn og telja haha) og það væri gaman að bæta við í ár gráum. Fást hjá Guðbjörgu í Ker og í Haf store.

Mynd að ofan : Trendnenser.se

Grænn krans er ómissandi að margra mati á aðventunni og hægt að útbúa slíkan í endalausum útfærslum. Litlir úr grænum greinum til að hengja í glugga, vafna flauelskransa á hurðina eða stærðarinnar lifandi grenikrans í stofuna. Þetta er auðveldara en það lítur út fyrir að vera – ég lofa. Greni, klippur, vír og voila!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

4 ÁRA BARNAAFMÆLI AÐ HÆTTI ÞÓRUNNAR HÖGNA

AfmæliHugmyndir

Skreytingardrottningin Þórunn Högnadóttir slær aldrei feilnótu þegar kemur að veisluhöldum og tekst henni alltaf að toppa sig að hverju sinni. Við höfum fengið að fylgjast með fjölmörgum veislum sem hún hefur haldið í gegnum tíðina og það er alltaf jafn ótrúlega gaman að sjá hugmyndir hennar og skreytingargleði sem á sér engin takmörk.

Þessi sæta skotta hér að neðan, hún Leah Mist varð 4 ára á dögunum og fékk drauma Mínu mús veislu. Stærðarinnar blöðruveggur var í stíl við þema veislunnar og var veisluborðið í bleiku, gylltu og hvítu – með nóg af glimmer ♡

“Hvert er trixið að skreyta fallega veislu eða veisluborð? Það er mjög gott ráð, að vera skipulagður þegar kemur að því að halda barnaafmæli, vera búin að ákveða hvað á að gera bæði í skreytingum og veitingum. Og láta hugmyndaflugið ráða og hafa einfalt líka með eins og hvítan dúk og poppa uppá hann með litum og öðru fallegu afmælisskrauti.”

En æðislegar myndir – takk fyrir að deila með okkur elsku Þórunn ♡ Ef þið smellið – hér – þá má jafnvel sjá fleiri myndir af veislum hjá Þórunni Högna, en hún á að sjálfsögðu sitt eigið “tagg” hér á blogginu.

Skrifið endilega athugasemd ef þið óskið eftir frekari upplýsingum varðandi skreytingarnar og slíkt. Einnig er hægt að fylgjast með Þórunni á Instagram sjá hér @thorunnh71.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

 

FALLEGT & STÍLHREINT ÍSLENSKT HEIMILI

Íslensk heimili

Við elskum öll að skoða falleg íslensk heimili og hér er á ferð dásamleg lítil þakíbúð í hjarta Reykjavíkur. Íbúðin er smekklega innréttuð í skandinavískum stíl og má sjá nokkra hönnunargullmola eins og Y-stólana, Panthella lampann og String Pocket hillur.

Fyrir áhugasama þá er hægt sjá frekari upplýsingar um íbúðina hér –

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

ÆVINTÝRALEGT HEIMILI LISTAVERKASAFNARA VIÐ SJÓINN

Íslensk heimili

Eitt ótrúlegasta heimili sem ég hef augum litið er komið á fasteignavefinn og það er ekki annað hægt en að deila myndunum með ykkur. Um er að ræða Kjarvalsshúsið sjálft sem íslenska þjóðin gaf listamanninum Jóhannesi Kjarval, húsið var byggt árið 1969 en listamaðurinn vildi svo ekki búa í húsinu.

“Húsið er teiknað af Þor­valdi S. Þor­valds­syni arki­tekt. Hann teiknaði húsið með sérþarf­ir Kjar­val í huga. Stofa húss­ins var til dæm­is ætluð sem vinnu­stofa lista­manns­ins en hún er 110 fm að stærð með fimm metra loft­hæð. Í stof­unni eru risa­stór­ir glugg­ar með út­sýni út á haf. Í þessu rými er al­ger­lega ein­stök birta sem hægt er að stilla með viðarflek­um.” Heimild Mbl.is/Smartland. 

Síðastliðin þrjú ár hefur William Oli­ver Luckett búið hér, en hann er banda­rísk­ur viðskiptamaður og lista­verka­safn­ari. Heimilið líkist safni svo mörg eru verkin og hér má sjá ótrúlegan fjölda af íslenskum listaverkum.

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is / Fasteignavefur Vísir.is

Hafið þið séð annað eins heimili? Hér er hver einasti veggur nýttur undir listaverk og húsráðandi er svo sannarlega ekki haldin valkvíða yfir því hvað passi best saman eða í hverju eigi að fjárfesta næst. Ég mætti hafa lítið brot af þeim hæfileika hugsa ég á meðan ég horfi á tóma veggina á mínu heimili…

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

HUGGULEGT HAUSTHEIMILI MEÐ ÆÐISLEGUM BÓKAVEGG

BarnaherbergiEldhúsHeimiliSvefnherbergi

Í dag ætlum við að skoða saman dásamlegt heimili sem gefur okkur svo sannarlega góðar heimilishugmyndir. Litavalið er fullkomið að mínu mati, sjáið hvað þessir bleiku, brúnu og grænu litatónar spila vel saman og birtast ekki aðeins á veggjum heldur einnig sem litaval á innréttingu og skrautmunum heimilisins.

Í stofunni má sjá þennan frábæra bóka / myndavegg sem er ofboðslega ódýr og sniðug lausn og gjörbreytir fílingnum í stofunni. Svo er líka gaman hvað það er auðvelt að breyta um þema eftir stemmingu – eitthvað sem flest heimili mættu hafa. Mæli með!

  

Eldhúsið er sjarmerandi, þessi fallega dökkgræna innrétting við ljósa terrazzo borðplötu sem teygir sig upp á vegg. Bleik mottan á gólfinu við gyllt blöndunartæki – vá hvað útkoman er dásamleg.

Svefnherbergið er með fallega mjúka litapallettu, skápurinn og vegghillan eru máluð í sama lit og veggirnir ásamt því að rúmteppið og gardínurnar eru einnig í stíl. Útkoman er notalegt svefnherbergi sem lætur manni líða vel við það eitt að horfa á myndirnar.

Barnaherbergið er sömuleiðis með einn lit sem teygir sig frá veggjum yfir í innréttingar og húsgögn, þó meira um liti hér inni eins og góðu barnaherbergi sæmir. Það er nánast ógerlegt að halda þessum einlita stíl í herbergjum barnanna sem betur fer, leikföngin eru flest litrík ásamt bókunum. En það örvar líka leikgleði og sköpun – litir eru af hinu góða.

Baðherbergið er einfalt og stílhreint en tekst þó að vera smá hlýlegt með því að bæta við skrautmunum úr við, basti ásamt plöntunum og vönduðum handklæðum. Ég geri fastlega ráð fyrir að hér sé einnig agalega smekkleg motta á gólfinu!

Myndir : Nordic Design

Þetta heimili er draumur ekki satt? Ég kemst alveg í stuð að skoða þessi fallegu svefnherbergi og litavalið er svo skemmtilegt. Smá haustfílingur og það leynist einnig látlaust jólaskraut þarna.

Helgarfrí framundan, rétt upp hönd sem ætlar að gera og græja á heimilinu um helgina? Mér líður eins og kapphlaupið við tímann sé hafið, með desember rétt handan við hornið og vá hvað mig langar að vera búin að klára nokkur verkefni áður en uppáhaldsmánuðurinn rennur upp. Mála þröskulda og flísaleggja er m.a. á listanum. Jú og var ég ekki búin að nefna 101. sinni að mig langar að búa til myndaramma / bókavegg haha? Það er búið að kaupa hillurnar fyrir löngu síðan en þær ekki enn komnar upp. Ég vil ekki kalla þetta framkvæmdarkvíða, meira bara að litlu hlutirnir sem skipta þó svo miklu máli eiga það til að enda aftast á listanum þegar stærri verkefni bíða.

Þangað til næst – takk fyrir að lesa blaðrið. Þeim hefur farið fækkandi færslunum þar sem ég tjái mig persónulega ♡ Ég held það tengist því að kommentakerfið er ekki jafn virkt og það var. Áður fyrr átti ég í heilu samræðunum við ykkur lesendur, en þetta hefur færst mikið yfir á Instagram í dag. Þar spjalla ég daglega við fylgjendur um heima og geima (nánast bara heimilistengt haha). Eruð þið annars með mér þar? @svana.svartahvitu ♡ Ætla að setja inn mjög svo veglegan gjafaleik á næstu dögum sem ég hlakka mikið til að sýna ykkur. 

Góða helgi!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

SMEKKLEGT HEIMA HJÁ FRIDU FAHRMAN

Heimili

Frida Fahrman er ein af stórstjörnunum úr sænska bloggheiminum. Ég hef fylgst með henni í yfir áratug – fyrst fyrir einstakan fatasmekk en í dag er hún þekktari sem mömmubloggari og komin með stórt heimili í útjaðri Stokkhólms. Það gladdi mig því að sjá heimili hennar birtast á síðum Elle Decoration á dögunum og auðvitað á Frida min fallegt heimili. Heimilið er skemmtilega skipulagt á nokkrum hæðum, hægt er að lesa viðtalið við Fridu – hér – mæli með google translate.

Kíkjum í heimsókn 

Myndir : Elle Decoration 

Eru fleiri hér sem hafa fylgst með Fridu í svona langan tíma? ♡ Eldhúsið er í uppáhaldi hjá mér, fallegt litaval og sjáið svo hvað setkrókurinn er skemmtilegur þrátt fyrir að vera ekki við borð. Hér er eflaust notalegt að sitja og spjalla yfir eldamennsku eða fletta tímaritum. 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

JÓLIN MEÐ HOUSE DOCTOR // 2019

Jól

Jólin með House Doctor verða falleg í ár miðað við jólastemminguna sem sjá má á þessum myndum. Ég viðurkenni þó að ég er sjaldan að spá í vörunum þegar ég deili jólamyndum frá fyrirtækjum og horfi meira á heildina og hugmyndir að uppsetningu á mínu eigin jólapunti. Jólaskraut er nefnilega eitthvað sem safnast saman yfir langan tíma en ekki í einni innkaupaferð í verslun, erum við ekki sammála með það? Ég hef lagt það í vana minn að versla fallegt skraut á jólatréð fyrir hver jól kannski tvo hluti eða svo, og stundum erlendis. Þá verður það einstakt og tréð þó mögulega of skrautlegt fyrir hörðustu mínimalistana haha. Einnig nýt ég þess að safna vönduðu jólaskrauti yfir lengri tíma. Mæli svo sannarlega með því.

Drekkið því í ykkur jólainnblástur – það þarf ekkert alltaf að kaupa það sem við skoðum ♡

Myndir: House Doctor 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

SVART & HVÍTT HEIMA HJÁ INNANHÚSSHÖNNUÐI

Heimili

Það er eitthvað afskaplega heillandi við þetta afslappaða heimili þar sem listaverk, hönnun og bækur fá að njóta sín á látlausan og smart hátt. Hér býr innanhússhönnuðurinn Maria Karlberg en fallega heimilið hennar birist hjá Niki á Scandinavian home á dögunum –

Kíkjum í heimsókn

   

Myndir : My Scandinavian Home

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

JÓLIN 2019 HJÁ FERM LIVING

Jól

Í kvöld langar mig til að deila með ykkur jólainnblæstri í boði Ferm Living. Þið hafið líklega orðið vör við það eins og ég að jólavörurnar eru farnar að streyma inn í flestar verslanir og því orðið tímabært að skoða jólamyndir sem veita innblástur. Ég veit það má varla viðurkenna það í byrjun nóvember en við erum byrjuð aðeins í jólaundirbúningnum og farin að horfa á jólamyndir… haha ég veit það eru ekki allir sammála en þetta er hreinlega besti tími ársins sem ég held mikið uppá !

Myndir : Ferm Living 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu