fbpx

HUGGULEGT HAUSTHEIMILI MEÐ ÆÐISLEGUM BÓKAVEGG

BarnaherbergiEldhúsHeimiliSvefnherbergi

Í dag ætlum við að skoða saman dásamlegt heimili sem gefur okkur svo sannarlega góðar heimilishugmyndir. Litavalið er fullkomið að mínu mati, sjáið hvað þessir bleiku, brúnu og grænu litatónar spila vel saman og birtast ekki aðeins á veggjum heldur einnig sem litaval á innréttingu og skrautmunum heimilisins.

Í stofunni má sjá þennan frábæra bóka / myndavegg sem er ofboðslega ódýr og sniðug lausn og gjörbreytir fílingnum í stofunni. Svo er líka gaman hvað það er auðvelt að breyta um þema eftir stemmingu – eitthvað sem flest heimili mættu hafa. Mæli með!

  

Eldhúsið er sjarmerandi, þessi fallega dökkgræna innrétting við ljósa terrazzo borðplötu sem teygir sig upp á vegg. Bleik mottan á gólfinu við gyllt blöndunartæki – vá hvað útkoman er dásamleg.

Svefnherbergið er með fallega mjúka litapallettu, skápurinn og vegghillan eru máluð í sama lit og veggirnir ásamt því að rúmteppið og gardínurnar eru einnig í stíl. Útkoman er notalegt svefnherbergi sem lætur manni líða vel við það eitt að horfa á myndirnar.

Barnaherbergið er sömuleiðis með einn lit sem teygir sig frá veggjum yfir í innréttingar og húsgögn, þó meira um liti hér inni eins og góðu barnaherbergi sæmir. Það er nánast ógerlegt að halda þessum einlita stíl í herbergjum barnanna sem betur fer, leikföngin eru flest litrík ásamt bókunum. En það örvar líka leikgleði og sköpun – litir eru af hinu góða.

Baðherbergið er einfalt og stílhreint en tekst þó að vera smá hlýlegt með því að bæta við skrautmunum úr við, basti ásamt plöntunum og vönduðum handklæðum. Ég geri fastlega ráð fyrir að hér sé einnig agalega smekkleg motta á gólfinu!

Myndir : Nordic Design

Þetta heimili er draumur ekki satt? Ég kemst alveg í stuð að skoða þessi fallegu svefnherbergi og litavalið er svo skemmtilegt. Smá haustfílingur og það leynist einnig látlaust jólaskraut þarna.

Helgarfrí framundan, rétt upp hönd sem ætlar að gera og græja á heimilinu um helgina? Mér líður eins og kapphlaupið við tímann sé hafið, með desember rétt handan við hornið og vá hvað mig langar að vera búin að klára nokkur verkefni áður en uppáhaldsmánuðurinn rennur upp. Mála þröskulda og flísaleggja er m.a. á listanum. Jú og var ég ekki búin að nefna 101. sinni að mig langar að búa til myndaramma / bókavegg haha? Það er búið að kaupa hillurnar fyrir löngu síðan en þær ekki enn komnar upp. Ég vil ekki kalla þetta framkvæmdarkvíða, meira bara að litlu hlutirnir sem skipta þó svo miklu máli eiga það til að enda aftast á listanum þegar stærri verkefni bíða.

Þangað til næst – takk fyrir að lesa blaðrið. Þeim hefur farið fækkandi færslunum þar sem ég tjái mig persónulega ♡ Ég held það tengist því að kommentakerfið er ekki jafn virkt og það var. Áður fyrr átti ég í heilu samræðunum við ykkur lesendur, en þetta hefur færst mikið yfir á Instagram í dag. Þar spjalla ég daglega við fylgjendur um heima og geima (nánast bara heimilistengt haha). Eruð þið annars með mér þar? @svana.svartahvitu ♡ Ætla að setja inn mjög svo veglegan gjafaleik á næstu dögum sem ég hlakka mikið til að sýna ykkur. 

Góða helgi!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

SMEKKLEGT HEIMA HJÁ FRIDU FAHRMAN

Skrifa Innlegg