
Íslenska parið Orri Finnbogason & Helga G. Friðriksdóttir hanna saman undir nafninu Orri Finn.
Ég hef lengi verið ástfangin af látlausa akkerishringnum úr þeirra hönnun – eiginlega verið með hann á heilanum síðasta mánuðinn!
Uppá síðkastið hefur parið haft í nægu að snúast en þeirra önnur vörulína er væntanleg fyrir jólin, ég var að vonum spennt að heyra meira og lagði því nokkrar spurningar undir þau Orra og Helgu.



Hvað er Orri Finn?
Orri Finn eru skartgripir/vörumerki þar sem haft er að leiðarljósi að hanna “unisex” skartgripalínur sem höfða til fleiri en hefðbundnir skartgripir hafa hingað til gert.
Hversu lengi hafið þið verið starfandi?
Orri lærði demantaísetningu og gullsmíði og hefur starfað sem gullsmiður síðan 2003, hann stofnaði Orri Finn vörumerkið og hannaði einn undir því framanaf. Helga hefur starfað í skartgripageiranum undafnarin sex ár en hóf samstarf við Orra árið 2011. Nú hanna þau bæði undir Orra Finn vörumerkinu og eru í dag að leggja lokahöndina á aðra skartgripalínu sína saman.
Hvaðan kemur innblásturinn?
Í fyrstu skartgripalínunni okkar Akkeri var innblásturinn sóttur úr okkar nánasta umhverfi. Sem ábúendur á eyju erum við umvafin sjó og flestöll tengd sjómennsku á einn eða annan hátt. Akkerið er okkur líka sérstaklega hjartnæmt þar sem við höfum bæði tengingu við sitthvort sjávarþorpið á Íslandi; Orri er frá Akranesi og móðurætt Helgu frá Hnífsdal.
Akkerið er sterkt tákn, það er mjög hlaðið og það er án landamæra þar sem að það er alþjóðlegt. Okkur finnst Íslendingar tengja mikið við akkerið og mætti jafnvel segja að margir tengi betur við það en við krossinn. Tákn eru hugleikin í hönnun okkar og við höldum áfram að vinna með þau í nýju línunni okkar Scarab en hún dregur einmit nafn sitt af fornegypskum verndargrip.
Hvað er framundan?
Undanfarna mánuði höfum við unnið hörðum höndum að nýrri skartgripalínu. Nú er hún loks tilbúin og er frumsýningin á henni framundan. Skartgripirnir í Scarab línunni líkja eftir bjöllum úr Scarabaeidae bjölluættinni en fornegyptar töldu þær heilagar. Scarab bjallan táknar hringrásina og endurfæðinguna og heiðra skartgripir Scarab línunnar þessi tákn. Við erum ótrúlega spennt fyrir sýningunni en hún verður í formi tískusýningar með karl- og kvenkyns fyrirsætum sem klæðast skartinu. Eftir sýninguna býðst gestum að skoða skartgripina í návígi. Svo verður einfaldlega skálað fyrir Scarab og haldið partý í boði Tanqueray!
Myndin hér að neðan er í fyrsta sinn birt hér á Trendnet en hún sýnir nýju skartgripalínuna.

Frumsýning Scarab verður haldin á morgun, 28. nóv. Fyrir áhugasama þá eru allir velkomnir. Meira: HÉR
Ég hlakka til að fylgjast áfram með. Áfram íslenskt!
xx,-EG-.
Mér datt í hug að segja ykkur frá þessum fína Kimono en ég á einn slíkan sem að ég fékk í vor frá Just Female. Ég klæddist honum á blogginu og fékk í kjölfarið mjög margar fyrirspurnir. Því miður voru aðeins örfáar sem að gátu nælt sér í flíkina í kjölfarið því fleiri voru ekki til á slánnum.
Ég rakst á flíkina í heimsókn minni inná Asos núna í kvöld og á aldeilis ágætu niðurlækkuðu verði líka: HÉR

Ég verð að fara að draga minn fram úr skápnum, mér finnst hann ennþá mjög fínn.
xx,-EG-.

Við áttum ljúfan fjölskyldudag í gær .. útivera í fallegu köldu veðri og mikið át að hætti frakkanna á franskasta og uppáhalds staðnum okkar í Nantes – Le Select.

via @steinnjonsson á Instagram
Mér fannst svolítið fyndið að ég gæti í alvöru keypt drulluskítugan fataskáp/innréttingu á litlum markaði sem að staðsettur er í miðbænum alla daga. Ég hef séð margt mjög skrítið í sölu á þessum markaði en ég trúi því ekki að einhver kaupi þetta heim til sín. En hvað veit ég.


Jólamarkaðurinn er opnaður og það þýðir að jólin eru handan við hornið. Á to do lista næstu viku er að klára að kaupa þær fáu jólagjafir sem að ég á eftir og í framhaldinu njóta þess að rölta í notalegheitum á milli jólabásanna í jólastemningunni. Ég er spennt. 
Húfa: CheapMonday
Rúllukragapeysa: WeekDay/Gömul af Gunna
Leðurjakki: Lindex
Buxur: Cubus
Skór: DinSko
.. sænskt dress eins og stundum áður.

Pís. Vonandi áttuði góða helgi.
xx,-EG-.
Fabulous fashionistas eru dásamlegar eldri konur sem að fara sínar eigin leiðir í stíl.
Sex mjög ólíkar konur. Sex mjög ólíkir fataskápar. Allar dásamlegar hver á sinn veg og allar með brennandi áhuga á tísku.
Ég mæli með að þið gefið ykkur tíma í áhorf – þær eru alveg meðetta!

Þær láta ekki aldur standa í vegi sínum fyrir áhuga sínum á tísku.
Innblástur fyrir okkur hinar fyrir ellina – engin spurning.
xx,-EG-.
Hattar koma í mörgum myndum. Margir nota þá aldrei á meðan að aðrir eiga ólíkar týpur til skiptanna. Ég er ein af þeim hattasjúku – á nokkra góða og langar í fleiri. Fyrir mig hentaði vel að flytja til Frakklands en hér í landi eru hattar á öðrum hvorum einstakling og þar skiptir kyn eða aldur engu máli, að bera hatt á höfði er bara pínu franskt og ég elska það. Hér fyrir neðan fáið þið hugmyndir af höttum – hvernig má klæða þá allavega. Innblástur fyrir mig og vonandi líka þig?
Það er eitthvað virðulegt við það að bera hatt – sama hvernig að þú klæðir þig þá er hann alltaf punkturinn yfir i-ið. Hjá mér er það þannig að þó að ég eigi nokkra til skiptanna þá er alltaf einn sem að er uppáhalds hverju sinni, sá sem að ég gríp fyrst í. En það sjáið þið vel hér efst þar sem að ég birti mín hattamóment síðasta franska árið.
xx,-EG-.
Ég naut þess að fletta nýútkominni jólagjafahandbók Ígló&Indí yfir morgunbollanum: HÉR
Bæklingurinn er settur upp með það að markmiði að börnin hafi líka gaman af því að fletta honum. Sem dæmi um slíkt eru myndirnar sem að þekja nokkrar síður í ólituðum útlínum fyrir börnin.
Skemmtileg hugmynd með tenginguna á milli barnanna sem að sitja fyrir og hvernig að það er upp sett. Líka gaman að fötin séu hönnuð með það í huga að systkin geti klæðst í stíl yfir hátíðirnar. Mér finnst það svo fínt.

xx,-EG-.