fbpx

BJART & FALLEGT DRAUMAHEIMILI

Heimili

Ég vona að páskafríið sé að fara vel með ykkur ♡

Í dag ætla ég að sýna ykkur glæsilegt heimili en hér býr hin sænska Casja Berndtsdotter sem er hönnunarnemi og listrænn stjórnandi í Ikea. Hægt er að fylgjast með Casja hér á Instagram en hún er með fallegan stíl og er dugleg að deila innblæstri með fylgjendum sínum.

Kíkjum í heimsókn –

        

Myndir via My Scandinavian Home

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

50 FALLEGAR PÁSKASKREYTINGA HUGMYNDIR

DIYFyrir heimiliðHugmyndir

Páskarnir eru einn besti tími ársins að mínu mati, frí með fjölskyldunni án alls stress, nóg af súkkulaði og kósýheitum og ekki má gleyma ómissandi föndrinu. Ég elska að föndra og sem betur fer elskar sonur minn það líka, á hverju ári málum við páskaegg og skreytum greinar. Ég man svo vel um hverja páska voru heilu kassarnir dregnir fram hjá mömmu með páskaskrauti og föndri frá okkur systrum og við fengum að skreyta stofuna. Einn daginn verður minn kassi orðinn jafn fullur og heimilið okkar fyllist af páskaskrauti – það er ekkert skemmtilegra en fallegt heimagert föndur að mínu mati ♡

Hér eru nokkrar fallegar páskamyndir flestar af handmáluðum eggjum sem gefa ykkur vonandi hugmyndir,  – njótið!

Myndir // Pinterest @svartahvitu

Ég vona að fríið ykkar verði mjög ljúft!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

MYNDIR HÉÐAN HEIMA

Fyrir heimiliðPersónulegt

Ég elska að hafa blóm og greinar helst í öllum vösum á heimilinu og núna iðar heimilið hreinlega af lífi. Núna er ég með eucalyptus á borðstofuborðinu, fallegar gular páskagreinar á stofuborðinu og eldhúsinu ásamt bleikum rósum, og í stórum vasa í stofunni eru Magnolia og ‘Cherry blossom’ greinar. Ég var í svo skemmtilegu verkefni fyrir stuttu síðan þar sem ég fékk að stílisera myndatöku og var svo heppin að geta tekið blómin með mér heim og skreytt heimilið. Það verður allt svo mikið fallegra með blómum og þessvegna er ég alveg sérstaklega glöð að loksins sé komið aftur í tísku að hafa þurrkuð blóm til skrauts sem hægt er að njóta lengur. Ég er með einn vasa sem ég safna núna í þurrkuðum blómum úr blómvöndum sem ég hef átt, sum eru sérstaklega góð til þurrkunar og svo er fallegt að blanda þeim við hefðbundin strá, einnig eru margar verslanir farnar að bjóða upp á úrval af þurrkuðum eða gerviblómum. Skoðum það saman sem fyrst ♡ Ég smellti af nokkrum myndum af blómunum hér heima sem mig langar til að deila með ykkur  –

Ég fékk senda fallega gjöf nýlega frá Purkhús en það voru falleg fjaðrablóm í allskyns litum. Bleiku fjaðrirnar eru tilvaldar á kirsuberja og Magnolia greinarnar mínar áður en þær blómstra en hina litina er ég líka að prófa mig áfram með.

Liturinn á veggnum er liturinn minn : Svönubleikur ♡

Ég sé svona eftirá að ég hefði mögulega mátt strjúka af fallegu Sjöstrand kaffivélinni minni fyrir myndatökuna haha – en kaffið er þó sem betur fer jafn gott ♡ Fallegu gulu páskagreinarnar fann ég í Garðheimum – en þær eru ómissandi partur af páskunum að mínu mati.

Fyrir áhugasama um heimilispælingarnar mínar þá stefni ég ennþá á nýja borðplötu í eldhúsið og nýtt eldhúsborð í staðinn fyrir það sem ég er með í láni frá mömmu.  Krossa alla fingur og tær að það verði sem fyrst!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

TRYLLT FYRIR & EFTIR HJÁ ÁSU NINNU

HeimiliSamstarf

Fröken Ása Ninna Pétursdóttir, fatahönnuður og tískudrottning hefur staðið í ströngu að gera upp fallegt heimili sitt í miðbæ Reykjavíkur – þið ykkar sem hafið gott minni munið eflaust eftir því í byrjun síðasta árs þegar við byrjuðum að fylgjast með þessu spennandi verkefni hjá Ásu Ninnu og núna er loksins komið að því að sýna ykkur afraksturinn. Tíminn flaug svo frá okkur og eins og þeir sem staðið hafa í framkvæmdum þekkja vel, þá gerist þetta ekki á einni nóttu. Núna tæpu ári síðar er allt orðið klárt og heimilið orðið þvílíkt glæsilegt og er jafnframt á leið á sölu – byrjum á því að skoða hvernig heimilið var fyrir breytingu og heyrum í Ásu Ninnu  ♡

Hversu langan tíma tóku framkvæmdirnar? Ég ákvað að byrja þessar framkvæmdir í febrúar 2018. Planið var að ráðast í allt í einu og klára þetta fljótt af eins og sönnum Íslendingi sæmir. En svo komu allskonar hlutir uppá og urðu framkvæmdirnar á baðherberginu svona eins og einhver baðherbergis spennutryllir. Þetta var orðið eins og Never ending story 2 (bathroom version.)

Hvað er það helsta sem þú gerðir? Stærstu breytingar í íbúðinni voru því breytingarnar inn á baði þar sem ALLT var tekið út. Þegar ég segi allt þá meina ég að ég var bara þakklát fyrir það að útveggirnir fengju að halda sér svo mikið var brotið og borað, haha!!  En svo myndi ég segja að gólfefnin á allri íbúðinni sé það sem breyti heildarútlitinu einna mest. Þegar ég keypti íbúðina þá reif ég bara af teppið sem var fyrir og málaði steypuna undir með hvítri gólfmálningu. Það kom mjög vel út á myndum en þegar tíminn leið varð þetta svakalega subbulegt og sá mikið gólfinu. Þegar ég svo fór að velja parket þá ákvað ég að breyta alveg og vardi grásvart harðparket frá Bauhaus. Þar sem íbúðin var öll máluð í frekar dökkum litum þá ákvað í í framhaldinu að lýsa hana alla svo að hún yrði ekki of drungaleg. Ég er mikið fyrir liti og finnst mikilvægt að vanda til verks að velja réttu litapallettuna. Ég fékk mikla aðstoð frá henni Árnýju í Sérefni sem hjálpaði mér að velja nýja liti á alla íbúðina. Ég er því rosalega ánægð með útkomuna. 

Skoðum heimilið fyrir breytingar – munurinn er ótrúlegur!

Horft úr stofu inn í svefnherbergi –

Er eitthvað sem þig langaði að gera en náðir ekki? Já ég hefði jafnvel viljað ná að færa eldhúsið inn í borðstofu. En það var upphaflega planið. Þá væri eldhús og borðstofa þar sem nú er borðstofa og þá þrjú góð herbergi. En eldhúsið liggur við hliðina á borðstofunni svo að það ætti að vera lítið mál að færi það yfir svona lagnalega séð. En kannski verður það bara verkefni næstu eiganda.

Fékkstu aðstoð fagfólks eða gerðir þú mest sjálfÉg fékk aðstoð fagfólks að mestu leiti í baðherberginu enda eru þær framkvæmdir þess eðlis. Ég held að það sé mjög mikilvægt að velja góða fagmenn í pípulagnir og múrverk til að allt sé 100%.  Ég fékk einnig málara með mér til að mála íbúðina að hluta en málaði líka mikið sjálf.

Núna ætlar þú að selja um leið og allt er orðið svona fínt. Er einhver eftirsjá að hafa ekki gert þetta fyrr og fengið að njóta lengur? Já það er svolítið skrítið að setja íbúðina á sölu núna akkúrat þegar hún er orðin svona fín og framkvæmdirnar búnar. En síðan ég keypti íbúðina hef ég búið þar ein með sonum mínum tveimur. En núna eru fjölskylduhagir aðeins breyttir þar sem Amor bankaði all hressilega á dyr á síðasta ári og ný ævintýri  og breytingar í vændum. En ég viðurkenni að ég mun sjá mikið eftir þessum gullmola.

Lumar þú á ráði handa þeim sem eru í breytingar hugleiðingum? Skipuleggja vel og gera fjárhagsáætlun. Held að mjög margir, þar á meðal ég, vaði svoldið blint út í framkvæmdir. Þetta virkar alltaf svo einfalt í byrjun en flækjustigin geta verið endalaus og það er besta að hafa plan A, B og C. Og vera vel undirbúin undir óvæntar uppákomur.

Kom eitthvað þér á óvart í framkvæmdunum? Ég hef ósjaldan farið í framkvæmdir og finnst það reyndar mjög gaman. Sérstaklega þegar lokaútkoman er svona góð. En ætli það sem hafi kannski komið mér mest á óvart í þessum breytingum öllum er hversu mikið litir geta gert fyrir rými. Það er hægt að breyta svo miklu með góðri málingu og réttu vali á litum. Ég eyddi ófáum klukkustundunum í Sérefni þar sem við Árný fórum yfir myndir og stemmings pælingar. Það er alltaf mjög gott að fá álit frá fólki sem veit hvað það syngur.

Hér má sjá ganginn fyrir breytingu en hér varð gífurleg breyting með fallegu gólfefni og allt var málað í hlýjum bleikum lit – líka loftið!

Eldhúsið var það sem fékk að halda sér, en upphaflega var hugmyndin að færa það inn í borðstofu.

Hér var búið að velja fallegan bleikan lit á stofuna – en við Ása eigum það sameiginlegt að elska bleika litinn!

Hér að neðan má svo sjá framkvæmdarmyndir af baðherberginu sem er hið glæsilegasta eftir breytinguna.

Og svo eru það myndirnar eftir breytingu – eruð þið tilbúin?

Ég trúi því varla að hér sé um sama heimili að ræða – sjáið hvað litir geta gjörbreytt rými.

Hver er uppáhalds staðurinn á heimilinu? Uppáhaldsstaðurinn er klárlega stofan og borðstofan. Það rými er svo bjart, opið og fallegt með dásamlegu útsýni.

En uppáhalds hluturinn? Uppáhaldshluturinn minn er ábyggilega Hans Wegner stóllinn minn sem heitir Cigaren og var eitt það fyrsta sem amma mín og afi keyptu sér í búið. Draumurinn er að setja svo nýtt áklæði á hann með tímanum. 

Stofa : Málning frá Sérefni, litur : Heartwood.  Loftljós og barborð : Snúran.

Borðstofa. Málning frá Sérefni, litur: Hop Greige. Loftljós: Tom dixon Copper shade. Hægindarstóll: Cigaren.

    

Svefnherbergi: Málning Sérefni : litur Tant Johannas Gröna. Rúmgafl, teppi og púðar úr Snúrunni.

Gangur: Málning Sérefni. Aðalliturinn heitir : Restful Melune. Sem er svona dusty, ljós bleikur. Svo lakkaði ég allar hurðar og karma með matt svörtu lakki úr Sérefni. Loftljós og Veggljós : Wave úr Snúrunni. Bekkur úr Snúrunni. Parket úr Bauhaus.

Ljósmyndari : Jónatan Grétarsson 

Baðherbergi: Flísar, blöndunartæki og handklæðaofn allt úr Bauhaus (lét svo sprauta handklæðaofninn í Pólýhúðun). Málning frá Sérefni sem er sérstaklega rakavarin, litur : Dusky Melune. Spegill, ljós og smáhlutir úr Snúrunni. 

VÁ útkoman er auðvitað algjörlega æðisleg og litavalið sérstaklega smekklegt. Sjáið líka hvað það varð hlýlegt með nýju gólfefni og mildum litum á veggina. Fyrir þau ykkar sem eruð í íbúðarhugleiðingum smelltu þér þá yfir á fasteignasíðuna og sjáðu frekari upplýsingar um eignina – sjá hér. 

Þetta verkefni tók sinn tíma en var biðarinnar virði – glæsileg útkoma, bravó!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

LONDON TIPS // SKETCH VEITINGARSTAÐURINN

Hönnun

Ég var stödd í London fyrir nokkrum dögum síðan og fékk ábendingu frá einni smekkkonu að ég yrði hreinlega að kíkja við á veitingarstaðinn Sketch sem er staddur rétt hjá verslunargötunni Regent street – að hann væri eitthvað fyrir mig. Eftir að hafa flett staðnum upp varð ég nánast orðlaus – þennan stað yrði ég að heimsækja. Þó ekki af sömu ástæðum og flestir heimsækja staðinn; fyrir hina fullkomnu “selfie” í fallegu umhverfi til að setja á Instagram. Heldur vegna þess að innanhússhönnunin á þessum stað er hreinlega út úr heiminum svo flott er hún. Sjáið hvað þessi staður er mikil upplifun og heildarhönnun frá a-ö eins og sælgæti fyrir augun, listaverkin sem fylla alla veggi, glæsilega bleik og bólstruð sætin og síðast en ekki síst sjáið hvað gólfið er geggjað. Þetta er himnaríki fyrir áhugasama um innanhússhönnun, sérstaklega mig þar sem minn uppáhalds litur er bleikur ♡

En á meðan netvafri mínu stóð í leit að myndum af þessum glæsilega stað rakst ég á áhugaverða grein “The worst thing about eating at Instagram famous Sketch, London”, þar sem farið er yfir hversu óþolandi það var að vera umkringdur fólki sem var svona upptekið af því að taka uppstilltar myndir af sjálfum sér haha.

Mikilvægt er þó að bóka borð tímanlega fyrir áhugasama en við fengum einmitt ekki borð þegar ég kíkti við því miður. Fallega bleika rýmið er líka vel falið á bakvið móttökuna svo ekkert er hægt að sjá nema eiga borð pantað. London tips dagsins fyrir áhugasama um fallega innanhússhönnun.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

HEIMILI MEÐ ELDHÚS SEM FÉKK VERÐLAUN FYRIR FEGURÐ SÍNA

Það eru ekki öll eldhús sem hljóta verðlaun fyrir fegurð sína, en þetta hér gerir það svo sannarlega.  Verðlaunaeldhúsið sem um ræðir er glæsilegt og kemur úr smiðju Nordiska kök sem hefur hlotið verðlaun fyrir hönnun sína og kosinn framleiðandi ársins árið 2018 af sænska Residence tímaritinu. Eldhúsin eru sérsmíðuð úr vönduðum efnum, og það sést langar leiðir að hér skipta gæðin öllu máli. Sjáið svo hvað marmaraklædd eyjan er glæsileg á móti súkkulaðibrúnum viðnum. Í öðrum fréttum þá er þetta heimili til sölu og þykir nokkuð eftirsóknarvert að eignast heimili með slíku eldhúsi. Kíkjum í heimsókn –

Myndir : Bjurfors.se

Fallega heimili – eigum við að kaupa?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

PÁSKASKREYTINGAR AÐ HÆTTI ÞÓRUNNAR HÖGNA

Fyrir heimiliðHugmyndir

Þórunn Högna skreytingardrottning er í miklu uppáhaldi hér á Trendnet – enda fáir ef einhverjir sem hafa jafn mikinn áhuga og hún á veisluskreytingum og er hún alltaf tilbúin að deila hugmyndum og innblæstri með fleirum. Núna eru páskarnir að ganga í garð og því tilvalið að deila með ykkur fallegum hugmyndum að páskaskreytingum að hætti Þórunnar Högna. Röndóttur dúkurinn á miðju borðsins og röndótt pappaglösin og diskar setja sinn svip á heildarlúkkið og koma með flott jafnvægi á móti krúttlegum páskaskreytingunum – þessi kaka er auðvitað alveg dásamleg. Stakir túlípanar í vösum og lítil páskaegg með slaufu skreyta borðið ásamt páskagreinum sem skreyttar eru fallegum glereggjum sem dýft hefur verið í glimmer. En fyrir okkur sem fylgjumst vel með vitum að það er ekkert partý hjá Þórunni Högna án glimmers!

Hvaðan eru skreytingarnar? Flöskurnar ásamt grænu og hvítu eggjunum eru frá Søstrene Grene (setti glimmer á þau). Pappaglösin, diskar, servíettur og rörin eru frá Confettisisters.is. Viftur í bakgrunni eru frá Allt í köku (silfur), Søstrene Grene (einlitar), og Confettisisters.is (munstraðar). Röndóttur dúkur er frá Ikea, og límmiðar á flöskum og servíettum voru prentaðir í Bros. Greinar eru klipptar úr garðinum og kökuna bakaði ég sjálf og skreytti með kökuskrauti frá Etsy.com. 

Snillingurinn hún Þórunn Högna er alltaf með nóg af góðum hugmyndum og þessar myndir af páskaborðinu hennar í ár eru frábærar. Skrifið endilega athugasemd ef þið viljið frekari upplýsingar ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

DRAUMA BLÓMAVASAR

HönnunÓskalistinn

Frá því að glæsilegi Ikebana vasinn frá Fritz Hansen kom fyrst út hef ég haft augastað á honum – en fyrir stuttu síðan á hönnunarvikunni í Stokkhólmi þegar ég gekk inn í sérútbúið bleikt speglaherbergi sem fyllt var af Ikebana og litríkum blómum varð ég ástfangin af þessari hönnun.

Ikebana var hannaður af heimsþekkta spænska hönnuðinum Jamie Hayon fyrir Fritz Hansen sem áður hafði eingöngu framleitt húsgögn, en nafnið Ikebana kemur frá Japan og lýsir listinni að raða blómum saman og orðið sjálft þýðir að láta blóm lifa. Vasinn er hannaður til þess að njóta stakra blóma ekki eingöngu í blómvendi.

 

Ikebana er algjör lúxusvara, gerð úr miklum gæðum og er einn af þessum hlutum sem mun fara á milli kynslóða. Fyrir þá sem ekki hafa tök á að eignast Ikebana þá hef ég áður sýnt fallegan vasa með sömu hugmynd að raða blómum saman stökum en ekki sem vendi. Þessir að ofan fást í Epal, en þessir að neðan fást hjá Bast.

 

Hvor finnst ykkur vera fallegri?

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

GLÆSILEGUR ARKITEKTÚR & ÍBÚÐ SEM ALLIR ÞURFA AÐ SJÁ

Heimili

Að þessu sinni fá myndirnar einar að tala sínu máli. Bygging hönnuð af stjörnuarkitektnum Bjarke Ingels í hjarta Stokkhólms sem víða hefur verið fjallað um en ég ætla þó frekar að sýna ykkur myndir að innan – frá sýningaríbúð sem stíliseruð var af Lottu Agaton Interiors. Ég hvet ykkur þó til að lesa greinina í heild sinni hjá sænska tímaritinu Residence Magazine / google translate yfir á ensku fyrir þau ykkar sem ekki skilja sænsku.

Njótið – þessi er einstök.

Myndir via Residence Magazine / Ljósmyndari Erik Lefvander

Fegurð ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FALLEGT & BJART FJÖLSKYLDUHEIMILI Í GAUTABORG

Heimili

Undanfarin ár hef ég reglulega birt hér á blogginu fallegar myndir af sænskum heimilum sem gjarnan hafa verið stíliseraðar fyrir fasteignasölur. Hér er á ferð fallegt og persónulegt heimili í eigu eins stofnanda einnar vinsælustu sænsku fasteignasölunum, Alvhem sem ég birti reglulega myndir frá. Alvhem er sérstök fyrir það leyti að þau sérhæfa sig í fallegum eldri húsum & íbúðum í hjarta Gautaborgar og nágrenni, þau reka einnig vinsæla verslun með fallegum vörum fyrir heimilið og sjá má brot af vörunum reglulega bregða fyrir á þeim heimilum sem þau hafa tekið að sér að selja.

Kíkjum í heimsókn –

Myndir / Alvhem 

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu