Hér sit ég í nýju dönsku vinnuumhverfi og dásama haustið sem ég er að taka í sátt, auðveldara á svona sólríkum dögum.
Í gær var mikið líf á Trendnet þegar tveir af bloggurum okkar voru nafngreindir á Vísi og “skammaðir” eins og vefsíðan orðaði það. Vísir vísar þar í niðurstöðu úr máli Neytendastofu sem birt var á heimasíðu þeirra í gær. Svana og Fanney voru svo óheppnar að lenda í þessum aðgerðum stofnunnarinnar, Svana hefur bloggað í milljón ár og er ein sú heiðarlegasta í bransanum, Fanney er persónulegur penni sem nýlega byrjaði að deila lífi sínu á Trendnet. Leiðindamál ..
Ég hef sagt það í viðtölum og lengi langað að tjá mig um það á blogginu að ég vilji skýrari upplýsingar um hvernig Neytendastofa vill að við setjum fram færslur sem unnar eru í samstarfi við einhvern. Mér finnst það ekki við hæfi að vísað sé einfaldlega í lögin að við séum að feta vitlausa slóð heldur vil ég kalla eftir því að settar verði fram skýrar reglur sem hægt er að fylgja. Það er sjálfsagt mál að fylgja reglum en þær þurfa að vera til staðar, svart á hvítu, svo hægt sé að framfylgja þeim. Ég veit að t.d. í Svíþjóð, Danmörku og Noregi er þetta útskýrt fyrir áhrifavöldum á mjög skýran máta og allir að vilja gerðir (báðum meginn við borðið) til að takast á við breytt markaðsumhverfi. Þar hef ég séð framsetningu á þessu myndrænt sem auðvelt er að framfylgja, óháð aldri og fyrri störfum.
Trendnet er ekki ritstýrður miðill, bloggararnir eru alveg frjálsir í sinum skrifum og engar færslur krefjast samþykkis. Við útvegum þennan vettvang fyrir þau að blogga og lítum við á okkur meira sem síðu á borð við Blogcentral, eða jafnvel Instagram sem útvegar notendum sitt heimasvæði sem þau stjórna síðan sjálf.
Á Trendnet er að finna siðareglur (sjá HÉR) sem við, eigendur síðunnar, settum upp og hvetjum bloggara til að fara eftir. Og sömuleiðis ykkur lesendur til að lesa. Við stöndum fast á því að við seljum engar beinar umfjallanir. Sem sagt er það ekki í boði fyrir auglýsendur að kaupa umfjöllun í formi færslu, sem við fáum fjölda fyrirspurna um. Það er þó algengt að fyrirtæki komi vörum beint á bloggara og líki þeim varan þá rata þær í færslur. Við lítum ekki á það sömu augum og að þiggja greiðslu fyrir að skrifa um vöru sem höfundar hafa annað hvort lítið vit á eða líkar jafnvel ekki við. Það er fín lína þar á milli, ég geri mér grein fyrir því. Í þessu tilfelli snýst málið um myndavél sem bloggarar mæla með eftir góða reynslu og taka fram að hún hafi verið gjöf. Óháð því hvort myndavélin sé gjöf eða ekki þá eru bloggararnir að mæla með henni vegna góðrar reynslu við notkun.
Við höfum nú þegar reynt að bæta um betur og merkja betur færslur sem innihalda einhverskonar samstarf á Trendnet. Þær verða þá settar í flokkinn “Samstarf” og það stendur skýrum stöfum fyrir neðan titil færslunnar. Það má síðan deila um það hvenær blogg er orðið samstarf en ef ég tala fyrir sjálfa mig þá hef ég bloggað af heiðarleika öll mín ár og aldrei vikið frá mínum gildum eða sannindum fyrir greiðslu eða gjöf. Ég hef heimsótt verslanir og veitingastaði, fengið snyrtivörur og annað en ávallt bara skrifað um eða mælt með því sem virkar fyrir mig.
Mér finnst frábært að blogg og áhrifavaldar séu að koma með nýjar leiðir þegar kemur að markaðssetningu. Og þar sem þetta er ört stækkandi er nauðsynlegt að setja fram skýrar reglur sem allir þurfa að fylgja, það er betra fyrir alla, okkur sem blogga og sömuleiðis lesendur.
Þetta er vandasamt verkefni fyrir Neytendastofu því hér er um að ræða mikinn frumskóg sem erfitt er að ráða við og aðgerð þeirra því liður í því að setja eitthvað ákveðið fordæmi. Við, eigendur Trendnet, höfum sent skeyti um að við séum öll að vilja gerð að vinna með Neytendastofu í þessum efnum, við viljum fara eftir reglum og vera fyrirmyndir.
Það var lítill samstarfsvilji hjá Neytendastofu þegar eftir því var leitað fyrr í sumar. Það særir mig og finnst mér þær Fanney og Svana hafa verið sigtaðar út til að búa til fordæmi fyrir aðra, án þess að gefa þeim færi á að svara fyrir sig eða leiðbeina þeim á réttar brautir.
xx,-EG-.
Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&
Trendnet á Facebook – HÉR
Skrifa Innlegg