fbpx

SKÝRARI REGLUR OG ÁFRAM GAKK!

LÍFIÐWORK

Hér sit ég í nýju dönsku vinnuumhverfi og dásama haustið sem ég er að taka í sátt, auðveldara á svona sólríkum dögum.

Í gær var mikið líf á Trendnet þegar tveir af bloggurum okkar voru nafngreindir á Vísi og “skammaðir” eins og vefsíðan orðaði það. Vísir vísar þar í niðurstöðu úr máli Neytendastofu sem birt var á heimasíðu þeirra í gær. Svana og Fanney voru svo óheppnar að lenda í þessum aðgerðum stofnunnarinnar, Svana hefur bloggað í milljón ár og er ein sú heiðarlegasta í bransanum, Fanney er persónulegur penni sem nýlega byrjaði að deila lífi sínu á Trendnet. Leiðindamál ..

Ég hef sagt það í viðtölum og lengi langað að tjá mig um það á blogginu að ég vilji skýrari upplýsingar um hvernig Neytendastofa vill að við setjum fram færslur sem unnar eru í samstarfi við einhvern. Mér finnst það ekki við hæfi að vísað sé einfaldlega í lögin að við séum að feta vitlausa slóð heldur vil ég kalla eftir því að settar verði fram skýrar reglur sem hægt er að fylgja. Það er sjálfsagt mál að fylgja reglum en þær þurfa að vera til staðar, svart á hvítu, svo hægt sé að framfylgja þeim. Ég veit að t.d. í Svíþjóð, Danmörku og Noregi er þetta útskýrt fyrir áhrifavöldum á mjög skýran máta og allir að vilja gerðir (báðum meginn við borðið) til að takast á við breytt markaðsumhverfi. Þar hef ég séð framsetningu á þessu myndrænt sem auðvelt er að framfylgja, óháð aldri og fyrri störfum.

Trendnet er ekki ritstýrður miðill, bloggararnir eru alveg frjálsir í sinum skrifum og engar færslur krefjast samþykkis. Við útvegum þennan vettvang fyrir þau að blogga og lítum við á okkur meira sem síðu á borð við Blogcentral, eða jafnvel Instagram sem útvegar notendum sitt heimasvæði sem þau stjórna síðan sjálf.

Á Trendnet er að finna siðareglur (sjá HÉR) sem við, eigendur síðunnar, settum upp og hvetjum bloggara til að fara eftir. Og sömuleiðis ykkur lesendur til að lesa. Við stöndum fast á því  að við seljum engar beinar umfjallanir. Sem sagt er það ekki í boði fyrir auglýsendur að kaupa umfjöllun í formi færslu, sem við fáum fjölda fyrirspurna um. Það er þó algengt að fyrirtæki komi vörum beint á bloggara og líki þeim varan þá rata þær í færslur. Við lítum ekki á það sömu augum og að þiggja greiðslu fyrir að skrifa um vöru sem höfundar hafa annað hvort lítið vit á eða líkar jafnvel ekki við. Það er fín lína þar á milli, ég geri mér grein fyrir því. Í þessu tilfelli snýst málið um myndavél sem bloggarar mæla með eftir góða reynslu og taka fram að hún hafi verið gjöf. Óháð því hvort myndavélin sé gjöf eða ekki þá eru bloggararnir að mæla með henni vegna góðrar reynslu við notkun.

Við höfum nú þegar reynt að bæta um betur og merkja betur færslur sem innihalda einhverskonar samstarf á Trendnet. Þær verða þá settar í flokkinn “Samstarf” og það stendur skýrum stöfum fyrir neðan titil færslunnar. Það má síðan deila um það hvenær blogg er orðið samstarf en ef ég tala fyrir sjálfa mig þá hef ég bloggað af heiðarleika öll mín ár og aldrei vikið frá mínum gildum eða sannindum fyrir greiðslu eða gjöf. Ég hef heimsótt verslanir og veitingastaði, fengið snyrtivörur og annað en ávallt bara skrifað um eða mælt með því sem virkar fyrir mig.

Mér finnst frábært að blogg og áhrifavaldar séu að koma með nýjar leiðir þegar kemur að markaðssetningu. Og þar sem þetta er ört stækkandi er nauðsynlegt að setja fram skýrar reglur sem allir þurfa að fylgja, það er betra fyrir alla, okkur sem blogga og sömuleiðis lesendur.

Þetta er vandasamt verkefni fyrir Neytendastofu því hér er um að ræða mikinn frumskóg sem erfitt er að ráða við og aðgerð þeirra því liður í því að setja eitthvað ákveðið fordæmi. Við, eigendur Trendnet, höfum sent skeyti um að við séum öll að vilja gerð að vinna með Neytendastofu í þessum efnum, við viljum fara eftir reglum og vera fyrirmyndir.

Það var lítill samstarfsvilji hjá Neytendastofu þegar eftir því var leitað fyrr í sumar. Það særir mig og finnst mér þær Fanney og Svana hafa verið sigtaðar út til að búa til fordæmi fyrir aðra, án þess að gefa þeim færi á að svara fyrir sig eða leiðbeina þeim á réttar brautir.

Og hver eru svo næstu skref? Verða strákarnir í fótboltalandsliðinu næsta skotmark? eða Crossfit stelpurnar okkar? Hvar á að draga línuna þegar kemur að einstaklingum sem eru að markaðsetja vörur fyrirtækja á sínum persónulegu miðlum?
Þetta varð allt of langt hjá mér en ég vona innilega að íslenskur nútími geti unnið eins og skandinavísku vinir okkar í nánustu framtíð. Með skýrum relgum sem allir geta og verða að fylgja í sátt og samlyndi.
Áfram ég, áfram þið og við öll. Áfram gakk!  Eigið góðan dag.

xx,-EG-.

Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&

Trendnet á Facebook – HÉR

DRESS: "LJÓTIR" STRIGASKÓR

Skrifa Innlegg

31 Skilaboð

  1. Olof

    3. October 2018

    Hæhæ, leiðinlegt að heyra af þessu og vona að þetta verði skýrar i framtíðinni.. Eennn eg ætla að fá að spurja spurningu sem tengist þessu máli ekki neitt… Hvaðan eru þessir fallegu skór sem þú ert í á myndinni? ?

    • Elísabet Gunnars

      3. October 2018

      Takk, já þetta fer allt vel að lokum.
      Back to business .. skórnir voru gjöf frá Bianco í lok sumars. Veit ekki hvort þeir séu til ennþá en vert að athuga það ??

  2. Ragnheiður

    3. October 2018

    Ég fagna því mjög ef reglur um þessi mál verða betur skilgreind – það er hagur af því bæði fyrir bloggarana sem og lesendur. Almennt séð þá hef ég talið mig geta lesið færslur með nokkuð sjálfstæðum og gagnrýnum augum og skimað sjálf hvað mér finnst vera “auglýsing” og hvað ekki.

    Rakst á færslu svokallaðs áhrifavalds fyrir nokkru þar sem verið var að mæra ákveðnar brjóstagjafavörur og barnavörur sem er svo sem gott og blessað nema hvað að barnið var ófætt og í þokkabót fyrsta barn. Mér finnst ekki forsvaranlegt að fyrirtæki greiði fyrir samstarf/auglýsingu á þennan hátt því að það er ljóst að áhrifavaldurinn er ekki að greina frá eigin reynslu, í besta falli hefði hún getað mælt með vörunum af því að henni fannst umbúðirnar fallegar. Þarna finnst mér í lagi að bæði áhrifavaldurinn sem og fyrirtækið séu látin bera ábyrgð á umfjöllun sem er klárlega auglýsing

  3. Marta

    3. October 2018

    Mér finnst satt að segja mjög gott að þetta sé smá fjaðrafok, það gefur kannski mörgum bloggurum tækifæri til að hugsa um þessa hluti af alvöru. Mér hefur oft þótt eins og mörgum bloggurum (þmt bloggurum trendnets) finnist það einhvernveginn ekki koma lesendum við hvort hitt eða þetta hafi verið fengið að gjöf. Frasa eins og “mér finnst leiðinlegt að þurfa að taka það fram en þetta keypti ég sjálf” hefur mér þótt satt að segja frekar móðgandi að lesa, auðvitað vil ég sem lesandi hafa það uppi á borðinu hvort hluturinn sé keyptur eða ekki, burtséð frá reglum neytendastofu. Mér finnst það ekki frekja eða dónaskapur af hálfu lesenda. Það er ekki svo mikið mál að bæta við “(gjöf)” og það eykur sannarlega á heiðarleikann og persónulegheitin sem þið undirstrikið sjálf. Ég hef samt að sjálfsögðu mjög gaman af að fylgjast með hér en ég fagna því í raun að þetta verði til þess að fólk setji sig mögulega meira í spor þeirra sem eru hinum megin við borðið, hvort sem það séu lesendur eða bloggarar, því eins og þú segir eru þetta einmitt mjög fínar línur sem verið er að dansa eftir :)

    • Elísabet Gunnarsdóttir

      4. October 2018

      Góður punktur – umræðan á fullan rétt á sér en mér þykir mikill miður þessar persónu árásir sem hafa fylgt í kjölfarið og hvet fólk til að halda þessu á faglegum nótum.

  4. Dóra

    3. October 2018

    Ég sá komment sem ég taldi vera þarft innlegg inn í þessa umræðu áðan og ætlaði að svara, en það virðist vera horfið. Er hægt að birta það aftur?

    • Elísabet Gunnars

      4. October 2018

      Sæl Dóra, ég hef ekki eytt neinum kommentum svo sá sem skrifaði það hefur eflaust fjarlægt það, og ég missti af því að fá að lesa það.

  5. Guðrún

    4. October 2018

    Að mínu mati er almenningur í fullum rétti að senda ábendingar til Neytendastofu ef þeim grunar að um duldar augýsingar sé að ræða. Neytendastofa er í fullum rétti að banna ykkur að nota duldar auglýsingar. Fréttamiðlar eru líka í fullum rétti að fjalla um málið og vitna í úrskurð opinberrar stofnunar. Að halda því fram að Neytendastofa sé að reyna að grafa undan einhverjum persónulega sýnir lítið annað en sjálfhverfu. Þar að auki er Neytendastofa eftirlitsstofnun ekki samstarfsstofnun, það er ekki þeirra að elta uppi alla bloggara og áhrifavalda og senda þeim leiðbeiningarbækling. Það er á ábyrgð bloggara að kynna sér reglurnar og ef þeir eru ekki vissir er þá mikið mál að hafa samband við Neytendastofu og kynna sér þær að fyrra bragði? Svo er það ekki að vinna með neinum að geta ekki tekið réttmætri gagnrýni og eyða svo bara athugasemdum sem henta ekki.

    • Ella

      4. October 2018

      Heyr heyr!

      • Elísabet Gunnars

        4. October 2018

        Já þetta eru flottar reglur sem við fylgjum … ég er bara að pæla hvort það sé hægt að setja enn myndrænni upplýsingar svo allir vinni sitt rétt eftir lögum og reglum … :) eins og er gert á norðurlöndunum.

        • Bergdís

          4. October 2018

          Það eru léleg rök að halda því fram að það sé torvelt að fara eftir lögum vegna þess að það vanti meðfylgjandi myndrænan bækling. Til útgáfu slíks bæklings vantar Neytendastofu fjármagn og er stofnunin nú þegar fjársvelt. Ríkið getur ekki myndskreytt hin ýmsu lög landsins eftir hentisemi starfsstétta. Það er frábært ef hin Norðurlöndin gefa út bæklinga, við erum hinsvegar 330.000 manna þjóð.

          • Elísabet Gunnarsdóttir

            5. October 2018

            Svo ég segi það enn og aftur, við erum að fylgja þeim reglum sem eru til staðar nú þegar, og munum gera það áfram. Þessi punktur í færslunni er bara eitthvað sem ég tel að geti hjálpað öllum bloggurum eða öðrum áhrifavöldum að gera enn betur. Ég tel kosnaðinn ekki vera til fyrirstöðu.

      • Karen

        4. October 2018

        Nákvæmlega. Ef fólki finnst þetta óskýrt eða flókið hvernig er það þá að standa sig í skattamálum í tengsum við þetta…

    • Elísabet Gunnars

      4. October 2018

      Ég er 100% sammála því. Auðvitað að senda inn á Neytendastofu ef talið er að brotið sé á sér. Segi ég nokkuð annað hér að ofan? Við erum algjörlega team Neytendastofa, lög og reglur!

    • Elísabet Gunnarsdóttir

      4. October 2018

      Ég hef ekki eytt út einni athugasemd og er fullkomlega sammála öllu sem þú nefnir hér að ofan. Enda vinn ég eftir reglum Neytendastofu, eins og ég nefni í bloggfærslunni.

      • Guðrún

        4. October 2018

        Nei, ég skrifaði þetta fyrst sem athugasemd við færslu Fanneyjar Ingvarsdóttur. En hún eyddi henni svo út, hún hafði þá áður eytt öðrum athugasemdum sem fólu í sér einhverja gagnrýni, en leyfði jákvæðum athugsasemdum að sitja inni (áður en hún lokaði alfarið fyrir allar athugasemdir). Ég ákvað þá að setja mína athugasemd hérna inn líka, enda er verið að fjalla um sama mál og mér fannst hún alveg eins eiga við hér.

        Ég vil þakka þér Elísabet fyrir að taka þér tíma og svara athugasemdinni og veigra þér ekki við því að taka umræðuna. Hennar er augljóslega þörf og það sýnir fagmennsku að tækla þetta svona, frekar en að eyða bara athugasemdum sem koma óþægilega við ykkur.

        Þið hafið í gegnum tíðina minnst á að þið viljið fá feedback og athugasemdir frá lesendum Trendnet og þurfið því líka að geta tekið þeim þegar lesendur eru ekki sáttir, ekki bara þegar allt er frábært og æðislegt. Ég held einmitt, eins og Heiða minnist á hér að neðan, að það séu ekki svo mikið duldar auglýsingar, óréttmæt markaðssetning og villandi viðskiptahættir á Trendnet sem eru að stuða fólk, heldur miklu fremur afleit viðbrögð ykkar við þessum úrskurði Neytendastofu. Færslur uppfullar af hroka og gremju yfir því hvað Neytendastofa er vond fyrir að banna ykkur að brjóta á neytendum eru ekki líklegar að fá fólk með ykkur í lið.

        • Elísabet Gunnarsdóttir

          5. October 2018

          Fanney lokaði fyrir athugasemdir á bloggfærslu sinni þar sem þar voru að birtast ljótar línur og persónulegar árásir sem eiga ekki heima í kommentakerfum, hvorki hér né annarsstaðar.
          Hún skrifar sína færslu í miklu uppnámi og kom þessu kannski ekki nógu vel frá sér og þetta var líklega ekki besta leiðin til að svara þessum úrskurði – en létt að vera vitur eftirá. Færslan hefur þó verið tekin úr samhengi á mörgum miðlum.
          Ég er þó sammála þér eins og ég segi í mörgum af þessum þáttum en þykir mikill miður hversu persónulegt þetta varð allt saman, hefði verið hægt að taka umræðuna á miklu faglegri og almennari nótum.
          Ég aftur á móti er að reyna að fara yfir hlutina eins og þeir eru og reyna að útskýra að við erum að sjálfsögðu í liði með Neytendastofu og munum vera um ókomna tíð. Hvernig þetta mál var tæklað er eitthvað sem við munum læra af og gera betur næst í framhaldinu.
          Það er rétt að við höfum beðið lesendur að vera virkir í því að taka þátt á Trendnet – takk fyrir að gefa þér tíma í þessa umræðu.

        • Fanney Ingvarsdóttir

          5. October 2018

          Sæl kæra Guðrún,

          Ég svaraði ekki einfaldlega því mig langar ekki að taka slaginn á Internetinu. Það vita það allir að það er aldrei sniðugt. Langi þig að fá svör frá mér er þér meira en velkomið að senda á mig persónulega og ég skal svara þér eftir allra bestu getu.

          Það er því miður alls ekki rétt hjá þér að ég hafi einungis eytt neikvæðu kommentunum út og þykir það afar leiðinlegt að þú skulir segja það hér þegar það er ekki satt. Ég taldi það einmitt rétt í stöðunni að eyða öllum kommentunum út í einu, hvort sem þau voru neikvæð eða jákvæð og gerði ég það. Daginn eftir höfðu borist fleiri skilaboð og ákvað ég því að loka alfarið fyrir að hægt væri að skrifa innlegg við færsluna mína.

    • Arna Dögg

      4. October 2018

      Gæti ekki verið meira sammála!

  6. Valdís

    4. October 2018

    En ‘óheppilegt’ að lenda í klóm neytendastofu? Það hljómar eins og þið hafið gert þetta margoft áður en úps, komstu bara upp um okkur núna. Og í stað þessa að taka ábyrgð og líta í eigin barm þá spilið þið ykkur út sem fórnarlömb Neytendastofu því þið vitið ekki betur. Samt er þetta mjög skýrt eins og með þessa myndavél. Þið sáuð ykkur bara ekki fært að vera búin að lesa lög og reglur um þetta heldur finnst eins og einhver annar þurfi að senda ykkur það. Hér er stendur þetta, mjög skýrt:

     Dæmi: Fáirðu gefins jakka frá fataverslun þá þarf það að koma fram fremst í hverju innleggi þar sem fjallað er um jakkann.

    Þið verðið að taka faglega ábyrgð á því sem þið skrifið og auglýsið. Sem er að beina viljandi vörum og annari þjónustu að þeim sem lesa bloggið, oft gegn því að fá fríar vörur sjálfar. Þetta er svo sjálfhvert hjá ykkur að það nær engri átt. Þið mættuð endilega googla samfélagslega ábyrgð og reyna að sjá hvernig þið getið sent jákvæðari skilaboð til ykkar lesenda, sem að mestu eru ungar stúlkur og konur en ekki bara reyna að selja falskan lífstíl og gervi hamingju. Það er ekkert ókeypis í þessum heimi.

    • Heiða

      4. October 2018

      Hverju orði sannara! ..að kunna að taka gagnrýni og ekki spila sig sem fórnarlamb hefði komið sér mun betur fyrir bloggarana. Í stað þess eru skrifaðar þrjár færslur um hversu ósanngjarnt þetta er fyrir þær og Neytendastofa einsetji sér að leggja þær í einelti og reynt að sækja eftir sem mestu samúð meðal ..meira að segja gengið svo langt að koma því að að sonur einnar hafi sko verið í aðgerð! …takið ábyrgð…þessir varnarhættir ykkar hafa komið ykkur á milli tannana á fólki. Stundum þarf maður að kyngja stoltinu og játa á sig mistök.

    • Elísabet Gunnarsdóttir

      5. October 2018

      Ef ég væri að gera þetta á vitlausan máta þá myndi ég auðvitað vilja fá áminningu frá Neytendastofu og reyna að gera betur. Veit að sambloggarar mínir á Trendnet eru sammála.

      Svo það komi aftur fram þá nefndi Svana það t.d. tvisvar í sinni færslu að myndavélin væri gjöf en það var mat Neytendastofu að það væri ekki næginlega skýrt sett fram og því köllum við eftir skýrari reglum eins og ég segi. Færslurnar voru því settar fram að heiðarleika frá byrjun.

      Við ætlum að gera þetta enn betur í framhaldinu en ég hvet einnig fyrirtæki sem stunda þessa markaðssetningu að láta fylgja með samning eða leiðbeiningar með slíkum “gjöfum”.

      Finnst ég alltaf vera að endurtaka mig í svörunum en vona að þið náið að lesa mína skoðun út úr þessu.

      • Jóna

        5. October 2018

        Sæl, mér finnst fyndið hvernig þið talið um að þetta hafi orðið persónulegt. Það að brjóta lög er að sjálfsögðu persónulegt, enda er brotið framið af einstaklingi, og fólki er yfirleitt ekki gefinn séns eins og bloggurunum hér var gefinn. Einnig fjalla fjölmiðlar um lagabrjóta, og yfirleitt er nafngreint, þegar að aðilar eru kærðir og/eða dæmdir/sýknaðir. Afhverju ætti að vera undantekning á því þegar að bloggarar brjóta skýr neytendalög? Keyri ég of hratt í umferðinni fæ ég sekt, en ekki séns. Steli ég úr búð fæ ég sekt og sit í fangelsi, en ekki annan séns. Brjóti þið neytendalög ættuð þið að sjálfsögðu að fá sekt, eða þau viðurlög sem eiga við, og það er ekkert annað en sjálfsagt að fjölmiðlar falli um málið eins og þeir fjalla um önnur lögbrot. Það er klárlega kominn tími til að þið hættið að setja ykkur á háan hest og takið ábyrgð á ykkar gjörðum.

        • Elísabet Gunnarsdóttir

          5. October 2018

          Sæl Jóna.
          Endurtek mig aftur .. í þessu máli var enginn að brjóta lög. Heldur var Neytendastofa að benda tveimur pennum á að merkja færslurnar sínar betur. Þeas að það komi fram í fyrstu málsgrein póstsins.
          Þú ert að fara langt út fyrir efni málsins.

          Ég mun ekki svara fleiri kommentum en öllum er frjálst að senda mér póst á eg@trendnet.is fyrir frekari upplýsingar.

          Hlýjar kveðjur á línuna – og góða helgi.

          • Valdís

            5. October 2018

            Ég ráðlegg ykkur að lesa lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu en þær reglur sem vitnað er í hér að ofan eru einmitt leiðbeiningar um hvernig eigi að túlka og fylgja þeim lögum.

          • Valdís

            5. October 2018

            6. gr.
            Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.

        • Anna

          5. October 2018

          Ég get ekki orða bundist yfir sumum commentum hérna og þykir þú fara langt yfir strikið og út fyrir efnið í þínu commenti ..
          Mér þykir Elísabet Gunnars svara hér af fagmennsku og kurteisi, ég get ekki betur skilið svör hennar en svo að þau hafi ásett sér að fara eftir lögum og reglum, og ætli að gera enn betur í framtíðinni! Njótið helgarinnar.

        • Anna

          5. October 2018

          Ég get ekki orða bundist, hversu langt ert þú komin út fyrir efnið! Ef þú stelur úr búð ferðu í fangelsi, ef þú keyrir of hratt færðu sekt en ekki séns .. ertu viss um að þú hafir rétt fyrir þér í því?! Ég hef í það minnsta fengið séns hjá lögreglu fyrir að keyra aðeins yfir hámarkshraða, eins vinn ég í verslun og hef upplýst nokkra um þjófnað, þeir einstaklingar sitja ekki í fangelsi heldur ganga “frjálsir” um götur bæjarins! Ég er nú ekki mikið inn í þessu máli sem kom upp í vikunni en ég get tekið undir það að fara eigi eftir reglum, get ekki betur séð í svörum Elísabetar Gunnars að þau ætli nú að gera enn betur. Fögnum því.

  7. Ási H.

    19. December 2018

    Það þarf ekkert skýrari reglur, reglurnar eru mjög skýrar. Þið þurfið bara að átta ykkur á því að þið þurfið að fylgja þeim eins og allir aðrir í markaðsetningu. Fyrir utan að allar gjafir eru tekjur og allar tejur eru skattskyldar.

    • Elísabet Gunnars

      20. December 2018

      Við fengum fund með Neytendastofu sem er að vinna í því að hafa reglurnar skýrari, voru sammála okkur að þær eru stundum óljósar eins og gerðist í þessu tilviki fyrir nokkrum mánuðum síðan :) allir unnið 100% rétt að hlutunum síðan þá ..
      Gleðilega hátíð.