fbpx

MÉR BARST BRÉF

Uppfært:

Svo það sé allt saman á hreinu þar sem að því miður einhverjir hafa mistúlkað þessa grein, þá átta ég mig 100% á því hvað ég hefði átt að gera betur. Ég vissi í einlægni sagt ekki betur en svo að það væri nóg að merkja vöru einu sinni, en ekki í hvert einasta skipti sem henni bregður fyrir. Það eru litlar sem engar auglýsingar hér á mínu bloggi og það örlitla sem ég hef gert hélt ég að ég hefði gert rétt. Mér fannst þetta því afar óréttlátt og það sem mér fannst verst við þetta var hvernig að þessu öllu var staðið og mitt mannorð svert fyrir litlar sem engar sakir (eftir minni bestu vitund). Minn tilgangur með þessari færslu var einungis að segja mína hlið, mannlegu hliðina á málinu en ekki þá lagalegu. Einnig langar mig að gefnu tilefni til þess að biðja mína lesendur innilegrar afsökunar ef þeim líður eins og ég hafi með einhverju móti brotið á þeim varðandi þetta – ég geri líka mistök og er mannleg og mín ætlun var þvert á móti sú að láta það flækjast fyrir lesendum mínum hvort að þessi myndavél væri gjöf eða ekki, enda fannst mér ég hafa komið því vel til kynna – en þarf klárlega að passa mig betur næst. 

Einnig var mín ætlun með þessari færslu einungis að segja frá minni hlið. Ekki til þess að opna á umræðu í kommentum. Því miður hef ég fengið að lesa afar ljót og illa innrætt skilaboð til mín og ég kæri mig alls ekki um að hafa slíkt undir þessari grein. 

Mér var bent á grein sem birtist á Vísi í morgun sem var fljótlega orðin mest lesna greinin á fréttamiðlinum í dag. Greinin bar titilinn “Svönu og Fanneyju bannað að nota duldar auglýsingar”. Ég trúði ekki mínum eigin augum og er mjög meðvituð um það að ég er klárlega að gefa fréttamiðlinum byr undir báða vængi með því að svara þessari grein. Ég veit vel að það rétta í stöðunni er einfaldlega að leyfa storminum að líða hjá og hunsa þetta algjörlega. Ég get einfaldlega ekki setið á mér í þetta skiptið. Fréttamennska svífst oft einskis til þess að fá aukin klikk og ég er mjög meðvituð um að greinin fær enn fleiri klikk með því að ég skrifi þessa færslu hér.

Ég semsagt fékk myndavél að gjöf frá Origo í upphafi árs, í ca. janúar/febrúar, sem og margir aðrir íslenskir bloggarar. Myndavélin kom sér vel fyrir mig á þeim tíma. Ég var afar ánægð með vélina og tók mynd af henni á Instagram Story, taggaði Origo og þakkaði þeim fyrir gjöfina! Eftir því sem ég best vissi, fyrr en nú, var að það væri nóg að taka það fram einu sinni að um gjöf væri að ræða. Síðan þá liðu nokkrir mánuðir, ég notaði myndavélina mikið alla þessa mánuði og var mjög ánægð með hana án þess að minnast á hana á bloggi eða samfélagsmiðlum! Ég var reglulega að svara fyrirspurnum í einkaskilaboðum um hvers konar myndavél ég væri að nota og þeim fyrirspurnum var svarað persónulega, eðlilega.

Þegar ég fór og sótti vélina var aldrei undirritaður neinn samningur og var mér einfaldlega afhent vélin með engum áskilnaði um umfjöllun af minni hálfu! Eins og ég nefndi hér að ofan liðu nokkrir mánuðir án þess að á vélina væri minnst og ég notaði hana mikið og var ofsalega ánægð með hana. Það var svo ekki fyrr en í lok maí, eftir barnaafmæli dóttur minnar að ég ákvað að skrifa undir færsluna að myndirnar í þessari færslu væru teknar á þessa tilteknu myndavél. Mér þótti það afar eðlilegt því ég var mjög ánægð með vöruna, hafði prófað hana í nokkra mánuði og aðal ástæðan var svo að sjálfsögðu sú að mér hafði borist fjöldinn allur af fyrirspurnum og því réttlætti ég það með þeim hætti. Í sumar endurtók þetta sig kannski 3-4 sinnum, að ég tók það fram að myndirnar í færslunni væru teknar á þessa tilteknu myndavél. Svo að ég var búin að fá góða reynslu af myndavélinni áður en ég fór að minnast á hana opinberlega, eða þ.e.a.s. í örfáum færslum á Trendnet.

Ég fékk semsagt bréf sent heim í sumar frá Neytendastofu þar sem ég var sökuð um að vera að brjóta á neytendum með duldum auglýsingum með þessu móti. Ég svaraði bréfinu algjörlega út frá mínu höfði, með hjálp lögfræðings aðeins til þess að allt væri á hreinu og einfaldlega vegna þess að bréfið var harðorða, líkt og ég ætti von á ákæru fyrir þetta eitt og sér. Það kom mér ótrúlega mikið á óvart að mér skyldi berast þetta skjal! Bloggið mitt og Instagram aðgangurinn minn er eins persónulegt og það gerist! Nú segi ég það með 100% hreinni samvisku að ég afþakka eflaust ca. 95% af þeim samstörfum og auglýsingum sem mér er boðið að taka þátt í, af því að mér finnst það oftast ekki henta mér og ég á bara úr nógu öðru að snúast. Síðan ég byrjaði á Trendnet í upphafi árs hefur bloggið mitt alltaf einkennst af því að vera afar persónulegt – nema þá að annað sé tekið fram sem eru örfá tilfelli sem hægt er að telja á annari hendi. Bloggið mitt snýst alfarið um mig, barnið mitt og fjölskyldu, lífið okkar almennt – bara eins persónulegt og það getur orðið.

Ég gæti nánast verið í fullu starfi við það að svara fyrirspurnum sem mér berast í einkaskilaboðum, hvort sem það er á netfangið eða á Instagram eða hvað sem er – svo bloggið er líka góður vettvangur fyrir mig til að spara minn persónulega tíma og svara fyrirspurnum og öðru sem mér berst frá degi til dags. Ég er alls ekki að blogga til þess að græða á því, ég hef varla grætt krónu í mína buddu fyrir það eitt að vera bloggari – og það að vera bloggari er hellings vinna og mjög tímafrekt! Ég gæti vissulega nýtt mér það miklu betur, en er ekki að gera það enn sem komið er! Ég geri þetta eingöngu þar sem ég hef gleði og gaman af. Þess vegna kom það mér ótrúlega á óvart að einhverjar ábendingar skildu í raun og veru berast Neytendastofu út frá mér og mínu bloggi – ég hélt náttúrulega í fyrstu að einhver væri að fíflast í mér! Það er margt sem má gera betur og mér finnst Neytendastofa 100% mega gera betur varðandi þetta og hafa reglurnar skýrari og greinilegri. Það eru t.d. eflaust fullt af ungum krökkum í dag að stíga sín fyrstu skref og prófa sig áfram á samfélagsmiðlum sem vita eflaust ekki hvað Neytendastofa er! Við ræddum það einmitt vinkonurnar fyrr í dag að það væri stórsniðugt af Neytendastofu að boða til fundar þar sem farið er yfir hvert eitt og einasta atriði svo allt sé á kristaltæru svo maður geti nú ekki átt von á að fá kæru senda heim að dyrum fyrir brot á þessum reglum.

En ég semsagt fékk svar við bréfi mínu í síðustu viku eða nánar tiltekið “úrskurð” úr þessu máli þar sem niðurstöður voru einfaldlega þær að ég mætti ekki nota duldar auglýsingar á Trendnet eða á samfélagsmiðlum, bara líkt og hver annar maður! Nema hvað að í morgun birti Stefán nokkur blaðamaður á Vísi grein um málið. Úrskurðurinn var nýlega birtur og vitnaði hann beint í úrskurðinn og tekur okkur Svönu Lovísu alfarið fyrir, allt á mjög gráu svæði að mínu mati. Eins og fyrirsögnin á greininni gefur til kynna þá lýtur hún þannig út eins og við Svana séum þær einu sem megum ekki nota duldar auglýsingar – en raunin er náttúrulega bara sú að engum er heimilt að nota duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum svo þessi fyrirsögn er afar villandi og ekki beint vel útlýtandi fyrir okkur Svönu! Allt út af einni myndavél. Eins og ég segi finnst mér þetta mjög persónulegt! Mér þykir þetta afar leiðinlegt og sorglegt að þetta sé persónugert með þessum hætti! Sér í lagi fyrir mig og nú tala ég bara fyrir mig persónulega, vegna þess að ég veit fyrir víst að allt sem ég geri og set inn er svo ólýsanlega persónulegt og ekki með nokkru móti einhverjar auglýsingaherferðir. Ég myndi taka þetta á mig ef ég vissi upp á mig sökina og væri óspart (eða bara að einhverju leiti) að nýta mér aðstöðu mína í að brjóta neytendalög með duldum auglýsingum! Mér er gott sem sama hvað birtist í fréttum þar sem ég veit að fréttamiðlar geta svifist einskis og gera ýmislegt fyrir klikkin. En mér finnst þetta koma leiðinlega út á minn kostnað og ekki með nokkru móti réttlátt.

Það sem mér þykir leiðinlegast er að fólk úti sé virkilega að senda inn ábendingar og sérstaklega, ég tek það enn og aftur fram, í mínu tilfelli þar sem allt sem ég set inn er á afar persónulegu nótum! Þetta veldur í raun og veru bara því að mann langar ekki að vera að þessu, að vera að blogga og hleypa fólki svona að sér. Hleypa fólki inn í líf mitt, inn í líf dóttur minnar, inn á heimilið mitt. Það er eflaust hægt að túlka nánast allt sem duldar auglýsingar. Því þetta er ekki það sem ég stend fyrir, ég er ekki að þessu til að græða á þessu! Ég myndi ekki túlka sjálfa mig sem “áhrifavald”, þó svo að jú vissulega er hægt að líta á það þannig á einhvern hátt. Minn fylgjendahópur hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin, ég hef lengi verið með góðan hóp sem fylgir mér og þykir alltaf ofboðslega vænt um það og allan þann stuðning, áhuga og falleg orð sem ég fæ reglulega frá því fólki. Ég hef ekki verið markvisst að vinna að því að auka fylgnina eða reynt að koma sjálfri mér á framfæri með ákveðnum hætti. Hlutirnir hafa bara þróast í þessa átt og ég alltaf söm við mig! Sorglegast er að gleðin mín við bloggskrifin minnkar töluvert vegna þessa og spyr ég mig einfaldlega að því hvort að þetta sé þess virði ef þetta er uppskeran fyrir að hleypa fólki svona nálægt sér og sínu?

Annað sem mig langar að nefna er að ég fékk í morgun sent skjáskot af Facebook síðu einnar tiltekinnar manneskju sem að hafði þá greinilega verið ein þeirra sem sendi inn ábendingarnar á Neytendastofu. Þessi manneskja deildi fréttinni af Vísi og skrifaði eftirfarandi: “Gleðidagur fyrir Neytenda-konuna. Mér líður í alvöru eins og Batman. Loksins eru endalausu ábendingarnar mínar að skila einhverju!” – Ég ber 100% virðingu fyrir því að vilja fylgja lögum og reglum varðandi neytendalög og annað. Sorglegast finnst mér að þessi grein sem slík birtist þar sem að tveir aðilar (ég og Svana Lovísa), eru nafngreindir og fyrir vikið mannorð þeirra beggja í raun og veru ekkert annað en svert, og þessi tiltekna manneskja lýsi yfir því að þetta séu ekkert annað en gleðitíðindi fyrir hana og mikill sigur! Góður eiginleiki að geta glaðst yfir því að traðkað sé á öðrum. Konur eru konum bestar og allt það…

Einnig spyr maður sig varðandi þessi Neytendalög, hversu langt ná þau og yfir hverja? Eru það bara bloggarar? Nú birtist þessi frétt á Vísir.is í morgun – hvar er neytendavaktin þegar Vísir.is og Ísland í dag og fleiri fjölmiðlar bjóða fyrirtækjum oft kostaðar umfjallanir, eins og “við heimsóttum þessa skemmtilegu verslun í vikunni”, bara sem dæmi – allt gegn greiðslu og hvergi tekið fram að þetta sé auglýsing! Nú spyr ég bara blaut á bakvið eyrun, er það eitthvað öðruvísi?

Mér finnst ofsalega sorglegt að Neytendastofa hafi elt mig uppi til að þess að rita undir pappírana og rokið svo beint með úrskurðinn í fjölmiðla – enginn samstarfsvilji af þeirra hálfu heldur allt reynt til að grafa undan manni. Ég vona innilega að Neytendastofa muni í stað þess að senda okkur með ógnarvaldi bréf þar sem við erum ásökuð um hitt og þetta, sjái það hjá sér að leiðbeina okkur frekar réttan veg og við í sameiningu fundið milliveg út úr þessu svo það verði nú áfram gaman að vera bloggari, geta miðlað til annara, geta haldið tjáningafrelsinu sem við eigum nú rétt á og fengið að segja okkar skoðun án þess að eiga hættu á að fá kæru senda heim að dyrum.

Ykkar einlæg,
Fanney

SÍÐUSTU DAGAR

Both comments and pings are currently closed.