fbpx

LÍFIÐ: SÆNSKIR DAGAR

ALBALÍFIÐ
Nýtt vinnuhorn, í þetta sinn í Malmö.
Mynd: Andrea Röfn

Eins og þið sem fylgið mér vitið þá erum við mikið á ferð og flugi með handboltamanninum og ég alltaf þakklát fyrir að hafa nóg fyrir stafni í mínu starfi. Það sem ég elska við vinnuna mína er að ég get flutt hana með mér hvert á land sem er, hvar í heiminum sem er. En það sem ég gæfi fyrir það að börnin mín gætu líka flutt sitt líf með sér á milli staða. Í haust fluttum við til Danmerkur og það þýðir nýtt tungumál, nýr skóli, nýir vinir og tómstundir. Þetta hefur verið raunin hjá bráðum 10 ára stelpunni minni frá því að hún flutti frá Íslandi 3 mánaða gömul, þaðan til Frakklands, Þýskalands, aftur til Svíþjóðar og svo núna til Danmerkur. Alba er einstök og aðlagast alltaf rosalega vel á nýjum stað, hún er tungumála snillingur og eignast góða vini allstaðar sem við setjumst að – ég er svoo þakklát fyrir það. En þetta getur líka verið erfitt og sérstaklega eftir að hún varð eldri og vitrari fyrir því að svona er þetta ekki hjá öllum jafnöldrum hennar. Það sem við foreldrar hennar höfum samt lagt upp með er að hún sé með sinn stöðuleika á Íslandi þar sem hún er svo heppin að eiga vini sem hún hittir reglulega, fer á reiðnámskeið á sumrin og heldur sambandi við í gegnum lífið – það er ótrúlega mikilvægur punktur í okkar uppeldi.

Það er líka mikilvægt að sína henni að heimurinn er alltaf að minnka og að það sé auðvelt að heimsækja gamla vini og hvað það sé dýrmætt að eiga vini um allan heim. Nú erum við mæðgur nýlentar aftur í Danmörku eftir nokkra daga í Kristianstad þar sem við bjuggum síðast. Það var draumurinn hennar Ölbu að fá að heimsækja gamla heima í danska vetrarfríinu og við uppfylltum það.

Síðustu daga skiptum við því frá dönsku yfir í sænsku – Alba eyddi degi í gamla bekknum sínum, mætti ofurpeppuð á handboltaæfingu hjá gamla liðinu sínu, átti nokkur sleepover og naut samverustunda með gömlum vinum. Ég reyndi að vinna þegar ég gat en átti líka góðar stundir með “sænsku fjölskyldunni” minni fyrst í Kristianstad og svo í Malmö á leiðinni heim.

Setningin “Mamma ég bara get ekki hætt að brosa” kom út úr munninum á Ölbu á heimleið og það gaf hlýju í hjartað eftir vel heppnaða ferð.

Á perónulegum nótum á degi ástarinnar … vonandi eigið þið öll góðan dag með þeim sem þið elskið!

xx,-EG-.

 Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&

Trendnet á Facebook – HÉR

SKÓRNIR NÆSTA HAUST

Skrifa Innlegg