fbpx

FERMING – UNDIRBÚNINGUR

ALBALÍFIÐPERSÓNULEGT

Við Gunni fermdum elsta barnið okkar í vor. Talað er um að börn gangi í fullorðinna manna tölu við fermingu, ég held að þetta sé þó misskilningur og þetta sé þannig að foreldrar verða loks fullorðnir þegar þeir ferma börn sín. Mér allavega leið eins og ég væri voðalega fullorðin þennan daginn.

Þegar við Gunni giftum okkur þá gerði ég færslu til að styðjast við þegar fólk undirbýr stóra daginn. Ég hef fengið ótal margar þakkir fyrir þá færslu, hún hefur lifað lengi og er alltaf á lista yfir mest lesnu færslur ársins hjá mér. Eftir margar bónir frá fylgjendum ætla ég að endurtaka leikinn fyrir annan stóran viðburð á lífsleiðinni – fermingu.

Við undirbúning ákváðum við um leið að hafa ferminguna hennar Ölbu með léttu yfirbragði, halda þó í hátíðleikann og hafa Ölbu í fókus. Við reyndum því að nútímavæða ferminguna aðeins og færðum okkur frá kransaköku og sitjandi borðhaldi. Þetta er auðvitað smekksatriði og engin rétt uppskrift þar.

LESTU LÍKA: BRÚÐKAUP – UNDIRBÚNINGUR FRÁ A TIL Ö

Hér fer ég yfir stærstu atriðin í okkar fermingar undirbúningi –

SALUR

Líklega stærsti hausverkur margra er staðsetning eða salur. Við vorum ekki mjög tímanlega og lentum í smá veseni með þetta. Eins eru kostirnir ekki mjög margir sem bjóða uppá að koma með eigin veigar, það var lykilatriði fyrir okkur því kostnaður er fljótur að rjúka upp í stórri veislu ef kaupa á mat og drykki af umsjónaraðilum sala til viðbótar við leigu á salnum sjálfum.

Draumasalurinn okkar var Höfuðstöðin í Ártúnsbrekkunni, einmitt þessi létta stemning sem við vorum að leita af og fallegt útisvæði ef svo ólíklega vildi til að veður myndi leyfa. Salurinn var þó upptekinn og því hélt leitin áfram í aðrar áttir án árangurs. Við tókum loks ákvörðun um að halda bara veisluna helgina eftir ferminguna og sjáum bara alls ekkert eftir því. Þannig var sjálfur fermingardagurinn bara nokkuð rólegur og þægilegur, falleg athöfn kirkju með okkar nánustu og fórum við síðan í afternoon tea með fermingarbarninu á Apótekið þar sem við skáluðum við Ölbu áður en hún sjálf hélt í veislur hjá vinkonum sínum. 

Við fengum því draumsalinn, bara viku eftir fermingardaginn. Höfuðstöðin er staðsett í Ártúnsbrekku (gömlu kartöflugeymslurnar) og býður uppá bjartan og lifandi sal í einstökum stíl. Við skreyttum lítið sem ekkert og komum með eigin veitingar og drykki. Greitt er fyrir leigu á salnum og hægt er að bæta við starfsmönnum í þjónustu og frágang eftir veislu. Rúsínan í pylsuendanum er síðan sýning Hrafnhildar/Shoplifter, Chromo Sapiens, listasýning sem hægt að bæta við, en það gaf æðislega upplifun fyrir gesti í veislunni og endalausar myndir. Við vorum síðan ótrúlega heppin með veður, sú gula lét sjá sig (Guði sé lof að við biðum eina viku, rigning og rok á fermingardaginn) og því fengu börnin sem mættu útrás á túninu með leikföng sem Höfuðstöðin býður uppá.

GESTIR

Þetta er alltaf erfiðasta verkið, að klára gestalistann. Við notuðum sömu aðferð og í brúðkaupinu og buðum vinum og fjölskyldu sem við hittum reglulega. Alba fékk líka að ráða för og bæta við ásamt því að bjóða vinkonum úr skólanum og handboltanum. Hér er mikilvægt að lágmarka alla meðvirkni og ekki ofpæla (ekki auðvelt verkefni fyrir undirritaða). Við takmörkuðum einnig aðeins barnafjölda og buðum bara börnum sem höfðu náð fermingaraldri, með nokkrum mjög nánum undantekningum.

SKREYTINGAR – EFNI – MYNDAKASSI
Skreytingar hjá okkur voru í algjöru lágmarki og leyfðum við salnum að njóta sín. Ég fékk þá smá aðstoð frá vinkonum mínum í rstíðum og við fengum einn fallegan “centerpiece” vönd ásamt 13 einföldum litlum vösum til að setja á borðin sem innihéldu einn túlípana og smá brúðarslör í stíl við fermingarbarnið sem hafði skreytingu í hárinu.

Við fengum hjálp frá okkar allra bestu Ólöfu hjá Reykavík Letterpress við að gera persónulegt efni fyrir ferminguna. Það er einhvern veginn skylda að gera servíettur fyrir fermingardaginn og við bættum síðan við smá myndabók af Ölbu og síðan miðum fyrir Hvatningaorð sem við dreifðum um salinn. Við slepptum þessari klassísku gestabók, en við sáum ekki alveg tilgang í því. Hvatningaorðin voru okkar útgáfa af gestabók, en við vorum með myndakassa frá Instamyndum og hvöttum gesti til að taka mynd, líma á Hvatninga-miðann og skrifa einhver skemmtileg skilaboð til Ölbu. Þannig gat fólk tekið sig saman og skrifað og mynd fylgdi. Mjög skemmtilegt fyrir Ölbu að eiga og hún skoðaði þetta strax um kvöldið eftir veisluna.

HÁR & FÖRÐUN

Alba fékk að fara í förðun báða dagana hjá vinkonu minni og förðunarfræðingnum Söru Dögg. Hárið sá Rósa María frænka okkar um, það var svo dýrmætt að fá hennar aðstoð á stóra deginum hennar Ölbu, heppin að eiga svona góða að. Alba fékk lágmarks förðun og mamman reyndi eins og hún gat að halda í náttúrulegt útlit hennar. Hárið var létt krullað og tekið frá augunum og fest með fallegum hvítum blómum. Svoo sæt!!


Alba tók þátt í frábæru verkefni með Beautyklúbbnum sem vert er að deila hér, en þar er fermingarbörnum kennt að farða sig á sem náttúrulegasta hátt – veit að margar mömmur kjósa það.

DRESS

Alba var svo heppin að fara í fermingarmyndatöku hjá Hildi Yeoman nokkrum vikum fyrir ferminguna og vann sér þar inn fyrir kjólnum sem hún klæddist í veislunni – hún var svo flott í íslenskri hönnun sem okkur finnst svo skemmtilegt. Á kirkjudeginum klæddist hún hvítu frá toppi til táar, buxum og topp frá Ginu Tricot, fallegt og látlaust við kirtilinn. Skóbúnaðurinn var mikilvægastur fyrir dömuna og hún var ákveðin í að vera í Nike Dunks sem hún fékk að kaupa sér en skórnir fást ekki á Íslandi. Þessi blessuðu skókaup eru saga að segja frá, en systir mín sem er flugfreyja var svo ljúf að kaupa skó í USA en þegar heim var komið þá kom í ljós að annar skórinn í kassanum var númeri stærri en hinn. Við fengum þá aðra flugfreyju til að fara í skiptileiðangur en þegar hún var kominn á réttan stað þá var búið að loka þessari verslun, alveg ótrúlegt. Skórnir hafa því farið í 3 flugferðir og að lokum fermdist Alba bara í sitthvorri stærðinni.
*uppfært nú fást Dunks í H verslun

Við Gunni fundum okkur föt í Húrra Reykjavík í bland við gamalt sem við áttum, ég keypti mér Opéra SPORT sett sem er voða fermingarmömmulegt og eitthvað sem ég get og hef notað áfram í framhaldinu. Á kirkjudeginum var ég í draumadragt sem ég fékk að láni hjá Andreu vinkonu minni, hún er frá Notes Du Nord.  Manuel var í fötum úr minni uppáhalds Arket sem selur “Basic er best” föt á alla fjölskylduna og litla Anna Magdalena var í As We Grow setti.

FERMINGARMYNDARTAKA

Þar sem Alba fór í myndatöku fyrir Hildi Yeoman og var svo ánægð með myndirnar þá létum við það bara nægja. Við prentuðum út þessar myndir í litla bók til að eiga líka heima, ekki bara í tölvunni þar sem þær gleymast kannski. Eftirá að hyggja þá hefði ég alveg viljað fara í myndatöku með Ölbu, og þá sérstaklega alla fjölskylduna, en þetta er fín “afsökun” til að fá mynd af öllum saman í sínu fínasta. Gerum það kannski næst – blessunarlega 7 ár í næstu fermingu :)

Myndir: Berglaug fyrir Yeoman

MATUR OG DRYKKIR

Maturinn var frá allra bestu Búllunni. Þeir komu á pallinn með grillið, smíðuðu bar á staðnum og buðu öllum gestum uppá burger, franskar og sósu. Algjört drauma setup í sólinni og það sem kom okkur kannski mest á óvart var að þeir gátu afgreitt alla gesti á mjög stuttum tíma, vel yfir 100 borgara og engin bið. Hrós á Búlluna fyrir það !

Gosdrykki keyptum við í Bónus, kók í gleri og kristal. Svo fórum við dönsku fermingarleiðina og buðum líka uppá bjór og bubblur. Við sluppum því nánast algjörlega við diska, glös og hnífapör í mat og drykk.

Eftir matinn var kaffi og meððí, það þarf vart að taka það fram að kaffið var að sjálsögðu lífrænt gæða kaffi frá Sjöstrand. Við tókum eina fyrirtækjavél með í salinn, en hún er með 2 kaffistöðvar og þolir meira álag. Kökukræsingarnar komu síðan frá listakonunum í Sætum syndum, sjáið þessa fegurð! Þær gerðu stórfenglega kremköku með nafni fermingarbarnsins og síðan voru blandaðir kræsingabakkar með því. Ég fékk mikið af kommentum frá gestum að kakan hefði verið einstaklega bragðgóð en við völdum normal súkkulaðiköku, ef þið viljið herma ;)

 

Við vorum ekki að flækja þetta of mikið í veitingum heldur völdum fátt en gott til að bjóða uppá í mat og drykk. Held að allir hafi verið glaðir, sáttir og gestir farið saddir heim.

AÐ LOKUM

Munið að njóta, ekki hugsa of stórt heldur einblínið á það hvað hentar hverju fermingarbarni fyrir sig. Þegar öllu er á botninn hvolft þá stendur mest uppúr falleg samvera með fjölkyldu og vinum. Og nú er Alba orðin fullorðin …. Gunni samdi svo fallega ræðu/ljóð sem ég hef sem lokorð í þessari færslu. Les yfir þessar línur með mömmustolti yfir unglingnum mínum sem fór heldur óhefðbundna leið í barnæsku.

 

Árið 2009 steig Alba á stokk.
Risa mistök foreldranna – hvað höfum við gert – ó fokk.
Gleðigjafinn – svo falleg og flott.
En fljótlega flutt af landi brott.

Þriggja mánaða til Svíþjóðar mætt.
Merkileg ákvörðun – var þetta aldrei rætt?
Ung og óreynd, ef foreldra skyldi kalla.
Alba á fyrsta degi byrjuð að heilla alla.

Frakkland var okkar næsti staður.
Þriggja ára á skólabekk, ekkert þvaður.
Foreldrarnir að farast úr stressi.
En  – Voila – hún ræður við allt þessi.

Förinni heitið í þýskan aga.
Mist var blótsyrði og Alba þurfti nafn sitt að laga.
Skjótt fór þýskan um varir að fljóta.
Handboltinn byrjaði, þeir skora sem skjóta.

Kristianstad var næsta heima.
Þýskunni var fljót að gleyma.
Húsið og garðurinn, allt í blóma.
Í IKEA landi eru allir til sóma.

Danmörk næst, jæja faðir góður.
Hvernig elur þú mig upp, ertu alveg óður?
Eftir þrjá mánuði lék leikrit á dönsku.
Til hvers var ég að læra þessa frönsku?

Nýjir vinir, nýtt tungumál, nýr skóli.
Þetta er komið gott, nú steypi ég pabba af stóli.
Alba tók stjórnina og til Íslands hélt ein.
Í Þjóðleikhúsinu skærasta stjarnan skein.

Alba fékk alla til Íslands að flytja.
Látum við þar við sitja?
Fermingarbarnið stýrir för.
Skutla – sækja – sör yes sör.

Valsari í húð og hár.
Yfir töpum verður hún extra sár.
Fræknir sigrar og háir sokkar.
Alba – þú ert uppáhaldið okkar!

 

xx,-EG-.

@elgunnars á Instagram

Kylie Minogue klæðist íslenskri hönnun Hildar Yeoman

Skrifa Innlegg