fbpx

BRÚÐKAUPSFERÐ – FRÁ A TIL Ö

BRÚÐKAUPLÍFIÐTRAVEL

Brúðkaupsferðin var algjör draumur…

Þegar ég skoða myndir við gerð þessarar færslu þá fyllist ég þrá um að ferðast tilbaka í tímann og vakna upp í timburkofanum mínum á áhyggjulausu Gili Air. Það er því miður ekki að fara að gerast en minningarna lifa og ætla ég að festa þær enn betur í mína nútíma “dagbók” með þessari færslu.

Ég hef verið lengi með þessa færslu á to-do listanum og búin að lofa svo mörgum ykkar ýtarlegri færslu í einskaskilaboðum. Ég bloggaði vissulega í beinni frá Bali af og til en hér kemur brúðkaupsferðin frá A-Ö.

Við ákváðum snemma í okkar ferli að stinga af strax eftir brúðkaup í þessa ferð. Það er eitthvað svo heillandi, maður er enn á bleika skýinu og ef ég þekki okkur rétt þá hefði kannski ekkert orðið af ferðinni ef við hefðum frestað henni. Semsagt – við héldum í ferðina 2 dögum eftir brúðkaup og það var líklega besta ákvörðunin sem við tókum í öllu þessu skipulagsferli.

Fyrst var hugmyndin að skipuleggja þetta allt sjálf. Brúkaups undirbúningurinn tekur hins vegar mikinn tíma og orku og erfitt að hafa ferðina einnig á hliðarlínunni. Við tókum því ákvörðun að fá hjálp frá ferðaskrifstofu. Eftir smá gúggl þá höfðum við samband við Farvel sem sérhæfir sig í meiri ævintýraferðum. Eftir samtal við Alexöndru, starfsmann Farvel, og óskir mínar um hvítar strendur, sól, menningu og afþreyingu þá varð Bali fyrir valinu. Við gáfum þeim nokkuð frjálsar hendur með þessar óskir um ógleymanleg upplifun og slökun.

Alexandra var fljót að skila af sér ferðatilhögun þar sem við gátum haft áhrif á hótel og afþreyingu, ásamt því hversu lengi við værum á hverjum stað. Við skildum síðan eftir frídaga fyrir afslöppun eða eitthvað annað sem við myndum sjálf kjósa að gera.

Vegna minnar stöðu þá gáfu þau okkur afslátt af þjónustugjöldum en við borguðum (!) alla ferðina og gistingu og ég var ekki beðin um að blogga um hana svona ýtarlega, svo það sé tekið fram.

Ó hvað ferðin uppfyllti allar okkar vonir og þrár. Munið þið hvað ég var hjálparlaus, HÉR, þegar ég bað um ykkar hjálp hvert halda skyldi í ferð.

Loka niðurstaðan var eftirfarandi:

UBUD

Fyrsti áfangastaðurinn var Ubud sem liggur í um klukkutíma aksturs fjarlægð frá flugvellinum, inní landið. Ubud liggur því ekki við strönd en þar fengum við að upplifa mikið af menningu innfæddra – list, mat og lifnaðarháttum.

Við vorum á algjöru drauma boutique hóteli – Bisma Eight. Við byrjuðum dagana á Yoga á þakinu við sólarupprás og fórum beint þaðan í dásamlegan morgunmat (og besta kaffið). Útsýnið við sundlaugina var dásamlegt en því miður þá lentum við á nokkuð skýjuðum dögum.

Hjólatúrinn í Ubud var kannski áhugaverðasta ferðin okkar. Í honum kynntumst við lifnaðarháttum heimamanna sem voru vægast sagt áhugaverðir. Það er ótrúlegt að sjá muninn á aðstöðu fólksins og þeirri sem við búum við og tökum sem svo sjálfsögðum hlut.

Við tökum síðan annan túristadag í Ubud þar sem við heimsóttum hof, apaskóginn og fallegan foss í nágrenninu í fylgd með heimamanni og einkabílstjóra á vegum Farvel.

 

GILI AIR

Hvar á ég að byrja? Gili Air var án efa hápunktur ferðarinnar, við höfðum það svo gott að við framlengdum dvöl okkar þar um 2 daga því við bara gátum ekki hugsað okkur að yfirgefa eyjuna. Á eyjunni eru bílar bannaðir og einungis notast við hjól eða hestvagna. Við gistum á Vyanna Resort, sem er lítið hótel með nokkra trjákofa fyrir gesti. Við gistum því í einum slíkum með útisturtu. Það var ekkert sjónvarp í kofanum og lélegt net, í staðinn fengum við “bedtime” stories á rúmgaflinn á hverju kvöldi.

Kofinn var í 10 skrefa fjarlægt frá ströndinni, þegar við vöknuðum héldum við þangað í náttsloppnum þar sem morgunmaturinn var borinn á borð. Veðrið var frábært allan tímann og við enduðum gjarnan dagana á kvöldskokki við sólsetur – en hringurinn kringum eyjuna var ca. 5 km. Sólin settist um klukkan 18 og eftir það var kolniða myrkur og lítil sem engin lýsing eyjunni.

Við eyddum flestum dögunum í afslöppun en fórum einn dag að snorkla á eyjunum í kring. Fengum meðal annars að synda á eftir skjaldbökum sem var skemmtileg upplifun.

Það er ekki auðvelt að lýsa upplifuninni í orðum og ég læt því myndirnar tala – ég hef í raun aldrei komist í þennan gír en þessi eyja eiginlega neyddi mann í afslöppun.

Það er kannski vert að taka fram að það var alveg ca. 2 tíma bátsferð á eyjuna sem tekur alveg vel á ef sjórinn er ekki með manni í liði. Það var þannig á leiðinni heim og við vorum dágóða stund að ná okkur. Einnig eyddum við fyrstu kvöldunum á veitingastöðum við strandlínuna en komumst síðan að því síðustu kvöldin að bestu veitingastaðirnir voru fleiri inná miðri eyju.

SANUR & CANGGU

Síðasti áfangastaðurinn okkar á Bali var Sanur strönd. Þar vorum við á stóru hóteli sem heitir Puri Santrian. Við fengum frábæra þjónustu en ef ég á að vera hreinskilin þá var það án efa sísta upplifunin. Þetta var svona hótel með mörgum veitingastöðum og öllu innan hótelgarðsins. Auðvitað ekkert út á það að setja en ekki minn kaffibolli og ekki það sem ég var að leita af. Gunni varð einnig veikur sem kannski hefur áhrif á upplifunina.

Við ákváðum þó að taka einn dag á Canggu ströndinni og tókum leigubíl yfir. Til að lýsa fyrir ykkur þjónustustiginu þá keyrði bílstjórinn okkur um morguninn og beið síðan allan daginn eftir okkur til að keyra okkur aftur heim um kvöldið – fyrir smápening.

Þar borðuðum við frábæran brunch á The Slow, eyddum deginum á strand lounge-stað ásamt því að heimsækja nokkrar verslanir og markaði. Mjög góður dagur og skemmtileg stemning þar, meira svona young og surf stemning.

 

BANGKOK

Á leiðinni heim ákváðum við að stoppa í Bangkok og upplifa stórborgina. Það var mjög áhugavert og má segja að borgin hafi verið andstæðan við dvölina á til dæmis Gili Air. Loftið var þungt, troðið af fólki og hraðinn mikill. Þrátt fyrir það var fólkið kurteist, heiðarlegt og snyrtilegt um að litast. Kom okkur á óvart ..

Við fengum einn dag með honum Palla, fulltrúa frá Farvel. Hann var alveg frábær, tók okkur í túr um borgina og sagði okkur frá menningu og siðum. Hann fann ástina í Tælandi þegar hann flutti þangað í nám og er í dag búsettur þar með sinni fjölskyldu, hann er með masters gráðu í Asíufræðum og náði að koma frá sér þessum fræðum á einstaklega skemmtilegan og áhugaverðan máta. Erfitt að útskýra, en oft er maður bara að heimsækja þessa “must see” staði og bara vafrar um og tekur myndir. Hann tók okkur bara á áhugaverðustu staðina, stutt stopp, sagði okkur það mikilvægasta á mannamáli og síðan haldið áfram. Líklega mest effective skoðunarferð sem ég hef farið í. Palli fær því toppeinkunn – takk fyrir túrinn!

Í Bangkok vorum við á The Muse hótelinu. Skemmtileg upplifun, góður morgunmatur, rooftop sundlaug og sky bar.

Haldið heim…

Eftir Bangkok héldum við heim á leið. Við vorum meira en tilbúin í það og gátum ekki beðið eftir knúsi frá börnunum sem vorum búin að vera í góðum höndum á Íslandi á meðan.

Ég mæli með því að maður skoði möguleikann með ferðaskrifstofu þegar haldið er á svo framandi slóðir. Það eru auðvitað margir meistarar í að skipuleggja svona ferðir sjálfir og við erum það sjálf þegar kemur að nálægari löndum. Í þessu tilviki tókum við þó rétta ákvörðun því ferðaskrifstofan einfaldaði okkur lífið til muna. Það beið eftir okkur bílstjóri á flugvöllum og allir flutningar voru skipulagðir, allar bókanir borgaðar og klárar. Þá er maður alltaf með tengilið á hliðarlínunni til að hjálpa með stór sem smá atriði – hjá okkur var það yndisleg kona (heimamaður) sem hugsaði vel um okkur. Ferðaskrifstofur eru einnig með betri verð á hótelum og flugi og því vegur það oft upp á móti þjónustugjaldinu. Maður verður því að vega og meta kosti og galla og virðið í þjónustunni.

 

FÓLKIÐ

Besta við Bali var fólkið. Allskonar fólk hefur alltaf veitt mér mikinn innblástur, hvort sem það eru gamlir kallar eða lítil börn þá finnst mér ekkert meira heillandi en hvað við erum öll ólík og frábær, hver á sinn hátt. Á Bali hafa ekki allir mikið á milli handanna en eru samt svo ósköp hamingjusamir. Börnin leika sér með bros á vör og ég sýndi börnunum mínum myndir og myndbönd af gleðinni sem skein af þeim þó þau eigi ekki spjaldtölvu eða sjónvarp. Þroskandi fyrir íslensk börn að sjá og skilja. Fólkið í fjöllunum eldar sér hrísgrjón á morgnanna og borða það í mörg mál yfir daginn. Samvinna er það sem skiptir máli í hverju þorpi fyrir sig og ef allir hjálpast að á heiðarlegan hátt þá virkar lífið nokkuð vel.
Ég sá eftir því að hafa ekki tekið auka ferðatösku til að gefa frá mér föt sem ég var nýbúin að pakka í poka og hef ekki not fyrir en ég mun svo sannarlega gera það næst, og mæli með að þið gerið það líka, ætlið þið að leika svona ferðalag eftir.

 

Myndir eru minningar og ég hlakka til að sækja í þennan póst oft oft og hlýja mér við.

UBUD HIGHLIGHTS Á INSTAGRAM: HÉR

GILI AIR HIGHLIGHTS Á INSTAGRAM: HÉR
SANUR HIGHLIGTS Á INSTAGRAM: HÉR
CANGGU HIGHLIGTS Á INSTAGRAM: HÉR
BANGKOK HIGHLIGHTS Á INSTAGRAM: HÉR

GUNNI SETTI EINNIG SAMAN HIGHLIGHT – HÉR

 

xx,-EG-.

Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&

Trendnet á Facebook – HÉR

GUCCI Á ÍSLANDI

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

  1. Helgi Ómars

    22. October 2018

    Pörfekt!

  2. Fanney Ingvars

    22. October 2018

    Váá hvað þetta eru fallegar myndir <3