fbpx

BRÚÐKAUP – UNDIRBÚNINGUR FRÁ A TIL Ö

BRÚÐKAUPLÍFIÐ

Brúðkaup okkar Gunna fyrr í sumar er einn af hápunktum lífs míns og minning sem lifir að eilífu. Það hefur verið svo gaman að fá að deila ástinni, gleðinni & hamingjunni með ykkur sem fylgið mér hér á blogginu og annarsstaðar. Þið eruð margar sem hafið haft samband út af ólíkum atriðum sem tengjast brúðkaupsundirbúningi og ég hef gefið þau loforð að allt slíkt efni verði aðgengilegt á Trendnet fyrr en síðar. Hér er komið að því að standa við stóru orðin.

Þessi póstur er ætlaður tilvonandi brúðhjónum til viðmiðunar við skipulagningu stóra dagsins. Við minn undirbúning var þetta einmitt pósturinn sem mig vantaði og því ætla ég að deila með ykkur hvaða leiðir ég valdi og vonandi getur fólk nýtt það til viðmiðunar og týnt atriði úr sem henta fyrir þeirra dag. Það er engin rétt leið í þessu og hér fáið þið mína leið.

Uppsetningin er einnig nokkurn veginn í þeirri röð sem ég gerði hlutina.

Við eyddum gríðalega miklum tíma í undirbúning og þetta er eitthvað sem fylgir manni frá því að dagurinn er ákveðinn. Ferlið er langt og mest gerist á síðustu mánuðunum þó maður þurfi að panta kirkju og prest tímanlega.

Eitt besta ráðið sem ég get gefið er að koma ábyrð á ákveðnum verkefnum á aðra aðila. Þannig er hægt að dreifa álaginu á fólk sem þið treystið. Ef færi gefst á þá er auðvitað frábært ef maður getur komið þessari ábyrgð á fagfólk og ef ekki þá nýtir maður sín tengsl og nánustu fjölskyldu og vini.

Við unnum hart að því að safna fyrir veislunni og lögðum lengi peninga á sér reikning fyrir þessum herlegheitum – þá fengum við góðan stuðning frá foreldrum. Við vorum sammála um að reyna að gera þetta mjög vel þar sem við ætlum jú bara að gera þetta einu sinni á ævinni. Brúðkaup geta verið allavega til þess að þau séu fullkomin. Við ákváðum að fara þessa leið, “útlendingarnir” sem vildu ná saman öllum vinum undir sama þakið til að fagna ástinni með okkur.

Ég mun einnig birta stutta þætti á Instagram úr einstaka atriðum hér að neðan til að gera nálgunina persónulegri – fylgist því endilega með því hjá mér (@elgunnars) þar sem ég mun hafa þættina aðgengilega í Highlights.

Strax í upphafi póstsins vil ég vera hreinskilin gagnvart lesendum mínum og tek það fram að vegna stöðu minnar þá fékk ég afslætti af einhverjum að atriðunum að neðan en ekkert var gefins og er reikningurinn ansi hár.

KIRKJA & PRESTUR

Fyrsta mál á dagskrá er að panta prest og kirkju. Þar sem ég er gift handboltamanni þá eru ekki margar helgar í boði og við pöntuðum kirkjuna með rúmlega árs fyrirvara. Ég var fyrir langa löngu búin að ákveða að ég ætlaði að gifta mig í Fríkirkjunni við Tjörnina og því var það í raun engin ákvörðun fyrir okkur. Kirkjan er einstaklega falleg og staðsetningin er algjör draumur. Útsýnið sem blasir við manni þegar út er gengið er svo heillandi og einkennandi fyrir Reykjavík.

Presturinn var Hjörtur Magni, sóknarprestur Fríkirkjunnar. Hann fékk mikið hrós fyrir athöfnina sem var eitthvað svo vel heppnuð og afslöppuð. Hlátur, gleði og ást einkenndu athöfnina og gestir klöppuðu dátt fyrir tónlistaratriðum (útlenskum gestum til mikillar undrunar). Kirkjan þarf að færast inní okkar nútíma samfélag og Hjörtur gerir sér fyllilega grein fyrir því og við hefðum ekki getað husgað okkur betri athöfn.

Semsagt – númer eitt á listanum er að ákveða dag, panta krikju og prest.


LOGO

Það er gott að huga að því hvernig útlit og þema þið viljið hafa á efni sem þið viljið gefa út og hanna fyrir brúðkaupið. Við vorum sammála um að reyna að hafa hlutina klassíska og látlausa og reyna að hafa mest allt sem við gerðum í kringum viðburðinn í sama stíl.

Við höfðum sambandi við Rakeli Tómasdóttur listamann og snilling og fengum hana til að gera einfalt en fallegt logo fyrir brúðkaupið. Hún er frábær í verkið þar sem hún sérhæfir sig meðal annars í leturgerð og hefur hannað sín eigin letur. Við fengum nokkrar uppástungur frá henni og vorum sammála um að hennar fyrsta tilraun var sú rétta, upphafstafirnir okkar – E&G.

GESTALISTI

Eins og flestir vita sem hafa gift sig þá er þetta mesti hausverkurinn. Við eigum marga að og höfum verið búsett erlendis lengi og því þetta kjörið tækifæri til að hitta og safna saman öllum okkar nánustu. Ég ætla að vera fáorð um þetta atriði en okkar regla var sú að bjóða því fólki sem við umgöngumst og erum í sambandi við óháð skyldleika. 

BOÐSKORT & ANNAÐ PRENTAÐ EFNI

Hún Ólöf snillingur hjá Reykjavík Letterpress aðstoðaði okkur við alla vinnu á prentuðu efni. Þau eru með ótrúlega skemmtilegar lausnir og persónulega þjónustu og síðan er þessi letterpress tækni einstaklega falleg.

Boðskortin voru falleg þar sem lagt var upp með einfaldleika, meira um þau í fyrri færslu – HÉR.

Annað sem við gerðum hjá þeim var stórt plakat með sætaskipan. Því var stillt upp fallega á málaratrönur þar sem gestir gengu inní salinn. Þá var að finna borðanúmer, matseðil og vínseðil (sjá neðar í pósti) á borðum ásamt kokteil servíettum. Við notuðumst síðan við tauservíettur frá Út í bláinn sem aðal servíettur. Þær fengum við lánaðar daginn áður til að binda á réttan hátt.

Allt efnið var í sama stíl og logo-ið í lykil hlutverki.

SALUR

Þegar gestalistinn er nokkurn veginn klár þá er hægt að velja hvar veislan verður haldin. Það er spurning hvort maður velji sal eða geri gestalista fyrst því það stjórnast svolítið af hvort öðru. Velji maður sal fyrst þá veit maður hversu stóran gestalista maður getur gert og ef maður byrjar á gestalista þá þarf maður að finna sal sem hentar. 

Við sáum fljótlega að salurinn þyrfti að vera nokkuð stór þar sem við vorum fljótt komin nálægt 200 gestum. Ef talan er yfir 150 þá eru ekki margir salir á Íslandi í boði. Að lokum stóð valið á milli Perlunnar og Listasafns Íslands. Perlan (Út í bláinn) var að lokum fyrir valinu þar sem okkur þótti salurinn bara svo einstaklega fallegur og hann sýnir það besta af landinu okkar fyrir útlendingana sem voru á listanum. Stór þáttur í ákvörðuninni var einnig að Listasafnið er leigt út tómt án þjónustu á meðan Perlan var með allt til alls fyrir okkur og minnkuðu þannig álag í undirbúningi. Veitingastaðurinn Út í Bláinn er einn af mínum uppáhalds stöðum á Íslandi og því var ég viss um að maturinn yrði góður. Við vorum þó smá hrædd við uppsetninguna þar sem plássið er hringur með stóru opi í miðjunni sem myndi kannski slíta sundur stemninguna og það var engin reynsla á brúðkaupum í salnum þar sem við riðum á vaðið. Við náðum að lokum að finna uppsetningu sem hentaði frábærlega og hentaði fyrir svo stóran gestafjölda. Perlan er orðinn uppáhalds staður undiritaðrar í kjölfarið og verður um ókomna tíð. Sjáumst þar!

MATUR

Maturinn var í höndunum á Atla Þór yfirveitingamanni á veitingastaði Perlunna – Út í bláinn. Atli, sem var matreiðslumaður ársins 2015, var mjög faglegur í sinni vinnu og eftir fyrsta fund með honum þá sendi hann okkur nokkrar uppástungur af réttum og við tókum ákvörðun eftir verði og hentugleika. 

Okkar veitingar voru Canapés með fordrykk, humarsúpa í forrétt og lamb í aðalrétt. Eftirrétturinn eða brúðartertan á síðan skilið að fá sér kafla því hann var sannkallað listaverk. Að lokum buðum við uppá mini hamborgara sem miðnætursnarl.

Fordrykkurinn var standandi á meðan við vorum í myndatöku og borinn fram af þjónum á bökkum. Borðhaldið var síðan sitjandi og allir réttir bornir á borð, þeir voru fallega fram settir á diskunum sem var atriði sem heillaði mig framyfir að hafa hlaðborð. Atli og hans menn fengu mikið lof frá gestum fyrir matinn, humarsúpan var guðdómleg og lambið alveg eins og það á að vera.

Að sjálfsögðu voru síðan í boði aðrir réttir fyrir þá sem höfðu ofnæmi, voru grænmetisætur eða borðuðu ekki kjöt. Ég fékk mér t.d. sjálf fisk þó ég borði alveg kjöt. Mér finnst bara fiskurinn hjá þeim svo frábær að ég ákvað það.



BRÚÐARTERTAN

Eftirrétturinn okkar var brúðartertan eða einhvers konar twist af henni. Það var súkkulaðimeistarinn Hafliði Ragnarsson sem á heiðurinn af henni en hann er fjölskylduvinur og hefðum við ekki getað hugsað okkur betri mann í verkið enda miklir aðdáendur af hans vörum.

Hann setti saman einhverja leyniuppskrift og þó að við hefðum kallað hana “Súkkulaðidraumur” þá fannst mér betra caption sem ég sá á Instgram – “Fullnæging á disk” haha.

Logo-ið sem var gegnumgangandi í öllu okkar efni var einnig í aðalhlutverki í eftirréttnum. Hafliði gerði síðan einnig showpiece af köku fyrir okkur til þess að eiga mómentið sem er víst algjört lykilatriði, þegar brúðhjónin skera fyrstu sneiðina. Við vorum alltaf svolítið á því að sleppa þessu mómenti en það voru svo margir sem tóku það ekki í mál að við slógum til. Einu fyrirmælin sem við fengum frá Hafliða var að sjá til þess að það yrði fallegur kökuhnífur notaður, ekki þessi grófi svarti eldhúshnífur. Það gleymdist því miður og þegar kökunni var stillt upp þá blasti við okkur stór svartur eldhúshnífur – sorrý Hafliði!

Lýsingin á kökunni var einhvern vegin svona: Karamellu súkkulaðimús með hnetucrunch-i á súkkulaðibotni toppað með hindberjasósu.

DRYKKIR

Að velja drykki fyrir svo mikið af fólki er ekki einföld ákvörðun og sérstaklega ekki þegar maður hefur ekki mikið vit á málefninu. Við töluðum við mikinn vínsérfræðing og reyndan vínþjón og fengum uppástungur af víni sem myndi virka á svo stóran hóp og á sanngjörnu verði miðað við gæði.

Í fordrykk var boðið uppá freyðivín (Cremant sem fær toppeinkunn), með humarsúpu buðu þjónarnir uppá hvítvín og með lambinu var rauðvín í boði. Við völdum hér sömu leið og með matinn og höfðu þjónar stjórn á flöskunum og helltu í glös gesta. Bjór var síðan að finna í kæli sem fólki var frjálst að ná sér í allt kvöldið. Síðar um kvöldið opnaði síðan fyrir kokteila þar sem við vorum búin að undirbúa þrjá valkosti og þar reyndum við að halfa einfaldleikann sem mestan og innihaldsefni sem fæst.

Auðvitað voru óáfengir kostir í boði og var vatn og sódavatn að finna á öllum borðum og boðið var uppá kaffi með eftirrétt.

Kannski besta ráðið þarna að halda einfaldleikanum eins miklum og kostur er.

FÖTIN

Þetta er atriði sem þarf að huga að tímanlega. Við fórum öll misjafnar leiðir og að lokum leið öllum vel í sínu á stóra daginn.

HÚN:

Kjóll: Sameiginleg hönnun af mér og Andreu

Slör: Að láni frá Ásu Regins

Eyrnalokkar: Söru Jewerly // Hlín Reykdal

Undirföt: Lindex // Ella M

Kjóllinn var algjört bíó og í rauninni efni í sér blogg færslu.

Kjóllinn var hannaður af mér og teiknaður upp af Andreu Magnúsdóttur. Planið mitt frá byrjun var alltaf að finna tilbúinn kjól og bara panta hann heim og hafa síðan ekki meiri áhyggjur af því atriði. Það var alls ekki raunin og hvet ég ykkur til að lesa um það ævintýri. Þar sem planið mitt með kjólinn virkaði ekki þá leyfði ég mér að kaupa draumaskóna í staðinn. Ég var svo auðvitað bara yfir mig ánægð með lokaútkomuna á brúðarkjólnum líka. Meira: HÉR

HANN:

Smoking: SUITUP REYKJAVIK (sérsaumaður)

Skyrta&Slaufa: SUITUP REYKJAVIK

Skór: Loake 1880

Úr & Ermahnappar: Gamalt gull frá föður

Dansskór: Dune (á útsölu á Asos)

Gunni var ákveðinn í því að vera alveg klassískur. Svartur smoking í Skandinavísku sniði með smá detailum sem hann mun eiga allt sitt líf, þar að segja ef hann heldur sér í fínu formi ;)

Pabbi hans Gunna átti klassískan smoking sem hann notaði og fór pabbi minn sömu leið og Gunni og heimsótti snillingana út á Granda í SUITUP REYKJAVÍK.

SMÁFÓLKIÐ

HÚN:

Kjóll: Jacadi

Skór: Steinar Waage

Pels: iglo+indi

Ég var fljót að finna kjólinn fyrir dóttur okkar, Ölbu. Kjólinn er einfaldur frá frönsku verslunninni Jacadi. Við völdum á milli þriggja ólíkra frá sömu verslun og pöntuðum hann í sameiningu á netinu, Alba fékk að taka lokaákvörðun um málið. Ég keypti skó nokkrum mánuðum fyrir stóra daginn, svona líka snemma í því og með allt á hreinu, þangað til tveimur vikum fyrir daginn að við föttuðum að þeir voru orðnir of litlir. Alba var með sérstaka ósk um að fá að vera á hælaskóm og ég var á báðum áttum með hvort ég ætti að leyfa 9 ára unglingnum það. Þetta endað þannig að daginn fyrir brúðkaup fundum við silfraða pallíettu hælaskó og eina einfalda til vara. Á brúðkaupsdaginn fékk Alba síðan að kaupa pels í iglo+indi fyrir innleggsnótu sem hún átti, íslenska veðrið var ekki að leyfa léttan sumarkjól og enga yfirhöfn. 

HANN:

Jakkaföt: Mango Kids

Skyrta: Franskt merki BiumBium store

Háir hvítir sokkar: Petit

Skór: Petit

Það er hægara sagt en gert að finna föt í fínu sniði á 2 ára töffara. Við fórum stóran netrúnt áður en við pöntuðum heim 3 mismunandi sett til að máta, eitt var fyrir valinu og hinum skilað. Ég vildi alltaf hafa hann í stuttbuxum og því fékk amman það hlutverk að stytta buxurnar á þeim jakkafötum sem pössuðu best.

ME TIME

Mér fannst algjört must í miðju “stressinu” að gefa mér tíma fyrir tíma í slökun. Ég bauð óléttri litlu systur minni í heilnudd í Laugum Spa og nýtti tækifærið og fór sjálf á sama tíma. Þar er lélegt netsamband og þú knúin til að slaka á án áreitis.

Einnig fór ég sjálf í andlitsbað og hand og fótsnyrtingu hjá Mekkin í Madison Ilmhús – ég get mælt heilshugar með slíku dekri en upplifun mín var sú að þarna fari fram besta mögulega dekur sem brúður getur óskað sér. Einu númeri betra en annað sem ég hef prufað á Íslandi. Gunni fékk að fylgja með í fótsnyrtingu, en það var nauðsynlegt fyrir íþróttamanninn.


Me time hjá mér varð það heilög stund að ég býð ykkur uppá lélegt myndefni með þessum parti plansins. En meira í væntanlegum myndböndum.

VEISLUSTJÓRAR

Val á veislustjórum er einnig mikilvægur þáttur. Við völdum tvo yndislega vini sem við treystum 100% í verkið. Þau stóðu sig frábærlega og tóku mikla ábyrgð fyrir brúðkaup sem létti á okkur. Það er rosalega mikilvægt í svona veislum að þær séu vel skipulagðar og sett sé upp nákvæmt tímaplan sem verður þó að vera nokkuð sveigjanlegt.

Takk elsku Rósa og Egill – þið eruð svo mikið best.

 

HRINGARNIR

Hringarnir eru auðvitað lykilatriði og ég verð hreinlega ekki þreytt á því að sjá minn mann með hring, ég veit að við erum ekki búin að vera gift lengi en ég alveg elska það.

Við vorum bæði ákveðin í því að fá einfalda gullhringa og þó það hljómi einfalt þá var alveg smá hausverkur að velja form og stærð á hringunum. Ég elska að versla íslenskt enda má þar finna færasta fólkið að mínu mati. Gott dæmi um það eru Sigga og Tímó í Hafnafirði búin að vera í bransanum í mörg ár og kunna svo sannarlega sitt fag.

Við fengum alveg frábæra hjálp frá Siggu sjáfri og myndi ég mæla með þvi fyrir brúðhjón að hringja í þau og mæla sér mót við hana því hún veitir frábæra þjónustu og hefur mikið vit á málinu. Eflaust er hitt starfsfólkið líka mjög hæft en þetta var leiðin sem ég fór. ;)

Við gerðum þetta með litlum fyrirvara og völdum hringana þegar við komum heim, rúmlega 2 vikum fyrir brúðkaup. 

Hringarnir voru semsagt einfaldir gullhringir með smá köntum, Gunna aðeins þykkari þar sem ég er með mun minni fingur og ber minn með mínum trúlofunarhring. Niðurstaðan var sú að Gunni tók 6mm og ég tóm 4mm sem verða 6mm með trúlofunarhringnum. Það var rætt hvort ég vildi hafa einhverja steina í mínum en við byrjuðum á hreinum hring og síðan sé ég til hvort ég bæti kannski á hann á brúðkaupsafmælum, eins og staðan er í dag þá langar mig ekki til þess. Áletrunin var síðan einföld með nöfnum hvors annars og Þinn&Þín á undan ásamt dagsetningunni svo Gunni gleymi sér ekki.

SKREYTINGAR

Skreytingarnar voru allar í höndunum á Elísu hjá 4 árstíðir. Ég hef átt gott samband við hana gegnum tíðina og skreytti hún til að mynda fermingarveisluna mína. Það sýnir hvað hún hefur mikla reynslu og var hún frábær í verkið. Við áttum fund þar sem við fórum sameiginlega yfir það hvernig ég við vildum nokkurn veginn hafa þetta. Hún sýndi okkur nokkra valkosti og síðan gáfum við henni í raun bara alveg frjálsar hendur uppí Perlu. Hún mætti samdægurs uppí Perlu og stráði sínum töfrum yfir salinn sem við sáum ekki fyrr en við mættum, alsæl og gift.

Ásamt því að skreyta salinn þá voru blómakrans, vöndur og barmblóm í hennar höndum. Ég var alsæl með vöndinn, hvítur og klassískur og algjörlega minn stíll.

DAGINN-EFTIR POKINN

Við fengum snemma þessa skemmtilegu hugmynd sem sló rækilega í gegn. Við létum prenta logo-ið á litla “skartgripa-poka” sem hægt er að loka með bandi. Þeir voru einstaklega fallegir og gerðu mikið fyrir borðskreytingarnar. Pokinn var hugsaður sem “The day-after” poki og átti að innihalda hluti sem gott væri að eiga ef maður væri lítill í sér á sunnudeginum.


Pokarnir voru prentaðir hjá Margt Smátt og innhéldu þynnkutöflur, frískandi maska frá Garnier, eitt Sjöstrand hylki (espresso), “Ég elska þig” miða frá Reykjavik Letterpress og gjafamiða á hamborgartilboð hjá Hamborgarbúllu Tómasar. Þetta var semsagt skotheldur poki og kannski hefði mátt vera einn sundmiði með til að gera hann fullkominn.

HLJÓÐ OG SVIÐ

Hljóð og svið var sett upp af Sonik, það eru þeir aðilar sem Perlan mælti með og þeir gerðu þetta allt mjög fagmannlega. Þetta var þó nokkuð óvæntur kostnaðarliður sem bættist við. Við semsagt vissum ekki að þessi kostnaður kæmi aukalega og hann er heldur hár þannig að gott að koma inná þennan punkt. 

Rosalega mikilvægt atriði og sérstaklega í Perlunni sem er frekar óvenjulegur brúðkaupssalur. Hljóðið þarf að berast til allra og það er líklega fátt leiðinlegra en að hljóðið klikki eitthvað í brúðkaupi og brúðhjón þurfi að hafa áhyggjur af því. Því mæli ég með því að láta fagmenn um þessi mál ef færi gefst á. Þar er alveg hægt að sníða þetta eitthvað eftir budgeti – við t.d. tókum atriði úr fyrsta tilboði frá Sonik til að reyna að halda þessu í lágmarki.

SKEMMTIATRIÐI

Skemmtiatriðin voru ótrúlega skemmtileg þó ég segi sjálf frá :) Enda er það tilgangurinn með þeim. Dísa Jakobs góðvinkona okkar var í smá aðalhlutverki á okkar degi, ásamt því að syngja með Stuðmönnum þá söng hún með föður sínum í kirkjunni og einnig okkar lag sem hún flutti undir fyrsta dansinum (róleg útgáfa af “The Wonder Of You”). Jóhanna Guðrún tók einnig lag í kirkjunni og hún er með ótrúlega rödd og ég held að gluggar Fríkirkjunnar hristist enn eftir hennar flutning.

Skemmtiatriðin eftir röð:

Kirkjan:

Organistinn Gunnar Gunnarsson spilaði brúðarvalsana – inn & út
Jóhanna Guðrún – Power of Love

Bryndís Jakobs & Jakob Frímann – The Wonder of You & Þessi fallegi dagur

Veislan:

Daníel (Danimal) – 2 frumsamin lög þegar setið var til borðs

Stuðmenn – Best of prógram

Alba (dóttir okkar) – Dansatriði

Jói&Króli – Nokkrir hittarar

DJ Snorri Ástráðsson – Tvítugur gutti sem spilaði magnaða blöndu af gömlu og nýju. Las dansgólfið svo vel og hélt öllum aldurshópum á dansgólfinu til lokunar. Síðasta lagið var “Í síðasta skipti” þar sem allir stóðu í hring og héldum um hvort annað og sungu í kór – frábær minning!

Við redduðum Dj daginn fyrir brúðkaup eftir gott hint frá einum slíkum. Við töldum vera nóg að vera með þessi atriði og vorum lítið búin að hugsa útí framhaldið en erum þakklát fyrir að hafa fengið hann Snorra til okkar því það var einhvern veginn allt önnur stemning. Það er því gott tips að vera búin að undirbúa þennan þátt allt til enda, hvort svo sá em það er þá plötusnúður eða tilbúinn lagalisti.

Óvænt atriði:

Frumsamið lag frá veislustjórum.

Dans battle á milli núverandi og fyrrverandi dansara ársins sem voru bæði gestir í brúðkaupinu. (langar svo að eiga myndir af því!)

2 lög frá Bjarka Má Elíssyni sem tryllti lýðinn með ótrúlegri sviðsframkomu. (Á ekki heldur mynd af því en nóg af myndböndum)

UNDIRBÚNINGUR BRÚÐAR – HÁR & FÖRÐUN

Í mínum verkefnum og starfi hef ég haft góð sambönd við rétta fólkið í þessum málum. Ég fékk því landsliðið uppá hótelherbergi en Theodóra Mjöll sá um hárið á mér og Harpa Kára sá um förðun. Theodóra er gamall bloggari á Trendnet og við Harpa vorum saman í bekk öll menntaskólaárin í MS. Ég treysti þeim 100% sem er svo mikilvægt á svona degi, þá var Saga Sig með okkur og smellti nokkrum myndum.


Þyri Huld vinkona mín sá síðan um að næra okkur, sem er líka svo mikilvægt. Hún kom með heimagert brauð og meðlæti auk konfekts sem er uppáhalds nammið mitt í heiminum.


Gunni var með börnin til að byrja með og baðaði þau. Þau komu síðan til mín síðasta klukkutímann og fóru í fötin og Alba fékk greiðslu frá Theodóru.

ATHÖFNIN

Athöfnin byjaði 16:00 í Fríkirkjunni. Hún var falleg og látlaus og eins og ég sagði ofar þá var hlegið, fagnað, grátið og klappað í kirkjunni. Presturinn kom með uppsetninguna og við æfðum hana létt daginn fyrir brúðkaup. Við vorum með 3 tónlistaratriði og presturinn las m.a. upp orð sem við höfðum skrifað hvort um annað og að sjálfsögðu fórum við með möntru okkar – Faðir vorið. Athöfnin var ca. 40 mínútur. Eftir athöfn fórum við hjón beint í myndatöku á meðan gestir fóru uppí Perlu í fordrykk og canapés.

BRÚÐKAUPSNÓTTIN

Eins og þið kannski vitið þá erum við ekki búsett á Íslandi. Við vorum með íbúð á láni en misstum hana á föstudeginum fyrir brúðkaup. Við gistum því 2 nætur á Hilton Canopy á Hverfisgötu. Nóttina fyrir brúðkaup gistum við saman með börnum (brutum þar eina hefð) og áttum rólega og góða stund þegar við borðuðum dýrindis morgunmat öll saman áður en haldið var í undirbúning.

Undirbúningur minn var síðan á sama herbergi ásamt því að við eyddum okkar brúðkaupsnóttinni þar. Eitt tips sem ég get gefið hér er að biðja hótelið um að þrífa/laga til í herberginu þegar undirbúningi er lokið. Það er eitthvað sem gleymdist hjá okkur, það eyðilegði ekkert en hefði þó verið betra að hafa þessa hluti á hreinu.

VEISLAN

Veislan var með nokkuð hefðbundnu sniði. Fólki var raðað í sæti (það er einnig svakalegur hausverkur) og borðhaldið var sitjandi þar sem matur var borinn á borð. Yfir borðhaldinu voru síðan ræður og eitt skemmtiatriði.

Eftir það safnaðist fólk saman við dansgólfið þar sem við stigum fyrsta dansinn og í framhaldi af því byrjaði ballið. Perlan lokaði síðan rúmlega 2 og þó einhverjir hafi haldið lengra þá vorum við sátt við langan og frábæran dag.


Fyrir ykkur sem hafið komið á Út í bláinn á þá get ég sagt ykkur stuttlega frá uppsetningunni.

Sviðið fyrir veislustjóra var fyrir framan lyftuhúsið og gróðurvegginn. Borðhaldið var síðan í hálfhring fyrir framan sviðið með blöndu af langborðum og hringborðum. Við Gunni gengum einnig upp stigann þegar við mættum þar sem gestir höfðu safnast saman við glerveggina á þessum sama hálfhring til að taka á móti okkur. Það var síðan búið að koma nokkrum skjáum fyrir útí sal svo að allir hefðu einn sem þeir gátu fylgst með þegar sýnd voru myndbönd eða myndir með ræðum.

Stóra sviðið var síðan í raun í felum bakvið Kaffitár á meðan borðhaldið fór fram og þegar ballið byrjaði þá færðu gestir sig þangað. Það myndaðist einstaklega góð stemning þar sem dansgólfið var aflangt og þröngt og því var hópnum þjappað vel saman.

BÍLLINN

Það má segja að við höfum fundið hinn eina rétta í bílamálum, ást við fyrstu sýn! Sagan af bílnum er skemmtileg en 5 dögum fyrir brúðkaup var það stærsta atriðið sem var ógert á to-do listanum. Við vildum helst keyra gamlan bíl og draumurinn var að Gunni myndi keyra og við stinga af saman tvö.

Við semsagt vorum á leið heim úr bænum á blautum 17. júní. Stuttu áður en við komum heim þá stoppum við á ljósum og upp að hlið okkar kemur þessi fullkomni Jaguar blæjubíll. Ég missti kúlið um leið og skrúfaði níður gluggan og hrópaði – “Ertu eitthvað að lána eða leigja þennan bíl? Við erum að fara að gifta okkur um helgina!”. Maðurinn hlær bara að okkur og grínast eitthvað á móti. Við keyrum síðan að næstu ljósum og stoppum aftur hlið við hlið. Gunni hvetur mig til að skrúfa aftur niður, ég er ekki alveg á því en geri það samt – “Nei, svona án gríns. Megum við fá hann lánaðan”. Hann segir okkur að lokum að elta sig á bílastæði þar sem við spjöllum við hann og náum að sannfæra hann um að lána bílinn. Gallinn var þó sá að ekki var hægt að nýta hann í rigningu og það var því mikið stress hvort þetta myndi virka þar sem það líður ekki dagur í Reykjavík þetta sumarið án rigningar. Þetta gekk þó allt að lokum og bíllinn stal athyglinni og heillaði marga, punkturinn yfir i-ið var Louis Vuitton taskan sem er áföst á skottið á bílnum – perfect!

MYNDAVEGGUR

Ég á snillingunum sem sáu um myndavegginn svo mikið að þakka. Ég hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig ég vildi hafa hann eftir innblæstri af Glamour viðburði í Londonferð Rósu minnar.
Við leigðum Photobooth frá Instamyndum sem prentaði út myndir til að líma í gestabókina. Við þáðum þó ekki bakrunn frá þeim heldur gerðum okkar eigin. Hann var heldur betur geggjaður – fullur af blöðrum (takk Hlín Reykdal) og gleði. Þið getið lesið meira um vegginn hjá vinkonu minni Svönu á Svart á Hvítu – HÉR. 

Þær eru ótrúlega margar skemmtilegar myndirnar sem komu úr boxinu og á Alba dóttir mín t.d. örugglega 20 myndir heima með sínu uppáhalds fólki. Við sjálf gleymdum þó að stoppa við og taka þátt – gáfum okkur ekki tíma í það.

VEÐRIÐ

Ég varð að hafa þennan þátt með. Við (ég) vorum með veðrið á heilanum fyrir brúðkaup. Þó svo að það sé ekki aðal atriðið þá vill maður ekki hafa 8 gráður, rigningu og rok – eins og stefndi í. Það var þó ótrúlegt að það var bara nokkuð bjart og hékk þurrt fyrir athöfn og eftir hana, við náðum nokkrum myndum í Alþingisgarðinum og síðan þegar við löbbuðum í átt að bílnum þá byrjaði að rigna. Mögnuð tímasetning.
En ástæðan fyrir þessum kafla hjá mér var að gefa ykkur það ráð að hafa ekki áhyggjur eða eyða orku í hluti sem ekki er hægt að stjórna. Veðrið er aukaatriði enda bara nokkrar mínútur þegar maður labbar útúr kirkju sem eru utanhúss og þar vorum við með plan b ef það myndi hellirigna. Aðal áhyggjurnar hjá mér var að útlendingarnir sem komu til Íslands myndu ekki sjá landið okkar í sinni fallegustu mynd á meðan dvöl þeirra stæði en margir minntu mig á að þeir væru auðvitað ekki að heimsækja Ísland útaf veðrinu, sem er auðvitað hárrétt staðreynd!

LJÓSMYNDIR

Þið sem eruð reglulegir lesendur á blogginu vitið hversu heilluð ég er að verkum Sögu Sig. Hún er með eitthvað ótrúlegt auga fyrir fegurð í myndum og ég hef oft skrifað um verkin hennar. Ég var því yfir mig ánægð þegar hún samþykkti þetta verkefni þar sem hún tekur ekki mörg brúðkaup að sér sökum anna. Ég hef einnig setið fyrir hjá henni áður og hún er svo góð í að gera andrúmslofið afslappað og þægilegt, sem er mjög mikilvægt fyrir mig. Og sérstaklega á þessum degi, ég var í vægu spennufalli í myndatökunni. Gerði til dæmis þau mistök að biðja ekki vinkonu að koma með sem aðstoðarmann, bara rétt til að passa að lúkkið væri í lagi. Ég var ekki með neitt auka makeup með mér og var búin að gráta helling í athöfninni (tips fyrir ykkur að klikka ekki á).

Aldís Páls góðvinkona mín var síðan gestur í brúðkaupinu og hafði einnig það hlutverk að taka myndir í veislunni. Hún er svo frábær að fanga frábær augnablik og því kjörin í verkið – ég vona að hún hafi náð að skemmta sér og njóta þó hún væri líka í “vinnunni”. Myndirnar sem ég birti hér með eru næstum því ekki hæfar á blogginu … en hér skemmtu sér allir VEL. Ég reyni að birta fleiri myndir í sér pósti við gott tækifæri.

UPPTAKA

Við vildum halda í þessa minningu um ókomna tíð og getað sýnt okkar barnabörnum og þeirra barnabörnum þennan dag. Þess vegna létum við taka upp allt ferlið. Við spurðumst aðeins fyrir um hver væri réttur í það og enduðum alltaf á sama stað – hjá Eiríki Hafdal. Hann tekur þetta að sér og gerir þetta með miklum metnaði og af fagmennsku.

BRÚÐARGJAFIR

Brúðargjafirnar eru atriði sem ég átti smá erfitt með. Ég kunni illa við að setja saman svona gjafalista og fannst það vera eitthvað hálf frekjulegt að velja sína eigin gjafir. Gestir kunna þó að meta þetta og við enduðum á að setja saman lista úr nokkrum íslenskum verslunum – Epal, Snúrunni, Kúnígúnd (Royal Copenhagen), Hrím, HAF Store og Norr11.

Við fengum það ráð að setja sem mest á listann og hafa verðbilið breitt svo fólk hefði úr hlutum að velja eða geti raðað saman í góða gjöf. Á okkar lista var því t.d. ostaskeri og hægindastóll og ýmislegt þar á milli.

Ég setti saman minn brúðkaups óskalista á blogginu – HÉR.

BRÚÐKAUPSFERÐIN

Brúðkaupsferðin var mikilvægt atriði fyrir okkur og ákváðum við snemma í ferlinu að við myndum stinga af eins fljótt og við gætum. Það er eitthvað svo heillandi við það, maður er enn á skýinu og ef ég þekki okkur rétt þá hefði kannski ekkert orðið af henni ef við hefðum frestað henni. Við vildum einnig fara á einhverjar framandi slóðir – eitthvað sem við hefðum aldrei prufað. Við treystum okkur ekki til að skipuleggja þessa ferð sjálf og eftir mikla leit af réttum aðilum fundum við Farvel ferðaskrifstofuna sem hjálpaði okkur að skipuleggja. Það var einnig frábært að geta ýtt því aðeins af to-do listanum og láta frekar sérfræðinga um málið, þó maður taki auðvitað þátt í ákvörðunum.

Ég hafði áhuga á sól, strönd, upplifun og líka einhverri líkamlegri afþreyingu eins og Yoga eða slíku. Ég og Alexandra hjá Farvel komumst að því að Bali væri málið og þó að það sé orðið nokkuð algengt að fólk ferðist þangað þá er það framandi og mun lengra en ég hef nokkurn tíman farið.

Ég sit hér í 10 tíma flugi til Bangkok frá Stokkhólmi og skrifa þessar línur og drep tímann. Ferðin okkar er þannig skipulögð að við byrjum í Ubud, förum þaðan til Gili eyja og eyðum síðan síðustu dögunum á strandhóteli við Sanur. Við nýtum síðan heimleiðina til að gista tvær nætur í Bankok og fá smá sýnishorn af þeirri borg. Samanlagt 16 dagar, blanda af smá flakki, upplifun og slökun. Við fórum bara tvö og skildum börnin eftir í öruggum höndum hjá ömmum og öfum á Íslandi.

Ef þið hafið meiri áhuga á ferðinni þá ætla ég að reyna að safna í gott Highlight úr henni á Instagram (@elgunnars). En ég mun svo að sjálfsögðu líka setja inn ýtarlegt blogg um ferðina. Dýrmætt fyrir mig að eiga seinna og fyrir ykkur að geta fengið hugmyndir.

ANNAÐ

Það er eflaust eitthvað sem ég er að gleyma hér og mun ég bæta póstin um leið og einhver atriði koma upp í hugann. Við nýttum daginn eftir brúðkaup vel. Byrjuðum á morgunmat á Canopy, þaðan lá leiðin í að opna gjafir með nánustu. Við eyddum síðan restinni af deginum með útlenskum gestum brúðkaupsins, byrjuðum á Flatey og fórum síðan með þau í Bláa Lónið. Daginn eftir héldum við síðan beint í búðkaupsferð til Bali.

ÞAKKLÆTI

Munið að sýna þakklæti – öllum þeim sem koma að brúðkaupinu með einum eða öðrum hætti. Ég er ennþá að þakka fyrir okkur en það er ekki gert á einum degi, vikum eða mánuðum heldur mun ég þakka fyrir að eilífu, amen. Þessi póstur verður mér alla tíð dýrmætur og vonandi getur hann hjálpað fleiri brúðhjónum með einum eða öðrum hætti. TAKK. #elisabetxgunnarsteinn

Ég vona innilega að þessi póstur muni gagnast einhverjum af mínum lesendum í komandi brúðkaupsundirbúningi. Aðrir hafa svo vonandi bara gleði og gaman af því að fletta niður lengsta bloggpóst sem undirituð hefur birt, megi hann lifa lengi. Ef ykkur líkar lesturinn megið þið gjarnan smella á “líkar þetta” hér fyrir neðan eða skilja eftir comment – ég kann alltaf að meta það <3

Þakklát. Besti dagur í heimi!

xx,-EG-

Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&

Trendnet á Facebook – HÉR

VILTU VINNA RAY BAN?

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

7 Skilaboð

  1. Fanney Ingvars

    24. August 2018

    Ólýsanlega fallegar myndir og virkilega gaman að lesa! Þessi dagur hefur verið meiriháttar <3

  2. Andrea

    24. August 2018

    Dásamleg, falleg og fræðandi færsla. Handbók brúhjóna :)
    Þetta brúðkaup var eitt það skemmtilegasta sem ég hef farið í <3

    Til hamingju með ástina og lífið elsku snillingar
    LoveLove
    Andrea

  3. Sigrún Einars.

    25. August 2018

    Svo gaman að lesa! Þetta hefur verið algjört æði <3
    Ætla klárlega að nýta punktinn með hótelherbergið ;-)
    Takk fyrir að deila þessu öllu og til hamingju með ástina <3

  4. Helgi Omars

    26. August 2018

    Thessi færsla!!!! <3

  5. ES

    27. August 2018

    Takk fyrir þessa færslu! Unun að lesa <3

  6. Harpa Baldursdóttir

    6. November 2018

    Váá hvað það er gaman að lesa þetta og skoða myndirnar. Þið eruð glæsileg! Takk fyrir að deila þessu svona ítarlega – mun klárlega styðjast við þetta ef/þegar ég gifti mig einn daginn!

    • Elísabet Gunnars

      6. November 2018

      Æ takk.
      Og mjög gaman að heyra <3 þá er markmiðinu náð.