fbpx

VIKAN: FORSÍÐUVIÐTAL

LÍFIÐMAGAZINE

Byrjum þessa nýju vinnuviku á því að deila loksins Viku viðtalinu sem tekið var við mig fyrr í haust, eitthvað sem ég hef skuldað ykkur að birta hér á blogginu eftir að ég fékk leyfi fyrir því frá Birting, útgefanda Vikunnar. Það voru einhverjar sem misstu af blaðinu í sölu og hafa því verið að rukka mig um færslu sem þessa. Viðtalið var tekið í lok sumars og því eitthvað sem kemur fram búið að eiga sér stað, þið horfið fram hjá því ;)

Við fjölskyldan lifum flökku lífi sem við teljum vera forréttindi framar öðru. Hér að neðan er farið yfir lífið frá a til ö. Takk fyrir spjallið Íris Hauksdóttir og takk fyrir þessar dásamlegu myndir Aldís Páls, takk fyrir mig VIKAN.

„Konur eru konum bestar er lítil breyting á gamalli setningu en risabreyting á hugarfari“

Elísabet Gunnarsdóttir er tískuáhugafólki vel kunn en hún stofnaði fyrstu íslensku blogg- og vefverslunina þar sem fjölbreyttur hópur bloggara kom saman undir einum hatti.
Níu árum síðar hefur Elísabet skapað sér heimili víðs vegar um Evrópu en flakkið skrifast á atvinnu æskuástarinnar sem Elísabet giftist nú fyrr í sumar. Þrátt fyrir fjölbreytta búsetu er Elísabet óhrædd við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd, enda segir hún tækifærin ótæmandi.

Texti: Íris Hauksdóttir
Myndir: Aldís Pálsdóttir
Förðun: Björg Alfreðs
Fatnaður: Style Mafia, Yeoman, Blanche CPH, Húrra Reykjavík, AndreA og Bianco

Elísabet hafði lokið einu ári í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík þegar fyrstu flutningarnir áttu sér stað. Ferðinni var heitið til Halmstad í Svíþjóð en frumburðurinn Alba Mist var þá nýfædd. „Fyrstu árin dvöldum við í strandbænum Halmstad sem er alveg frábær á sumrin með hvítri fallegri sandströnd sem er ein sú besta í Svíþjóð en hún heitir Tylösand. Alba var þriggja mánaða og við áttum margt ólært í lífinu.“
Frá Svíþjóð fluttist fjölskyldan til Nantes í Frakklandi. Þrátt fyrir að hafa liðið vel þar segir Elísabet franska lífernið hafa reynst meira framandi en það sænska. „Tungumálið er áskorun og erfitt að notast við ensku, því urðu einföldustu hlutir allt í einu flóknir. Við elskuðum matar – og vínmenninguna og tókum með okkur marga af þeirra háttum. Borgin er meiriháttar
og Nantes oft líkt við litlu París með öllu því yndislega sem sú borg hefur fram að færa að túristunum undanskildum. Nantes nýtur sívaxandi vinsælda og ég mæli heilshugar með heimsókn þangað en ég fékk aldrei þessa „heima” tilfinningu. Tvö ár voru því mátulegur tími.“
Næsti viðkomustaður var smábærinn Gummersbach sem staðsettur er í Þýskalandi. „Þetta er lítill bær með enn færri afþreyingarmöguleikum en hann er í hálftíma akstursfjarlægð frá Köln. Okkur leið vel og börnin nutu sín. Við lögðum leið okkar til Kölnar í hverri viku, en það er ein af skemmtilegri borgum Þýskalands. Það er einhver skandinavískur bragur yfir henni og þar áttum við ljúfar stundir. Eftir fjögur ár á flakki lá leiðin aftur „heim“ til Svíþjóðar þar sem okkur hefur liðið frábærlega. Svíar setja fjölskylduna í fyrsta sætið og það hentar okkur vel.“

VANDIST ÞVÍ AÐ ÞURFA EKKI SVEFN

Þrátt fyrir fjölbreyttar vistarverur segir Elísabet forgangsatriðið alltaf að skapa fjölskyldunni heimili þar sem öllum líði
vel. „Herbergi barnanna gerum við tilbúin áður en krakkarnir koma svo þeim líði strax eins og heima hjá sér. Við njótum þeirra forréttinda að verja miklum tíma saman sem fjölskylda og vanmetum það ekki því það er það fyrsta sem við tökum eftir í stressinu á Íslandi. Alba hefur nú búið í bráðum fimm löndum sem er eflaust ekki ákjósanlegt fyrir börn en hún tæklar það vel og slær í gegn á öllum stöðum. Hún er þroskuð, sjálfstæð, opin og ótrúlega frjó. Við erum þess fullviss að þessar uppeldisaðstæður hafi eflt hana.“
Alba var ekki eitt þeirra barna sem var plönuð frá upphafi enda voru foreldrarnir kornungir. „Við vorum smá sjokkeruð þegar við komumst að því að ég væri ólétt sumarið 2008, nýkomin í háskóla og barneignir ekki á plani. Ég kláraði fyrsta árið frá HR og tók vorprófin með þriggja vikna barn á handleggnum. Svo breyttist stefnan og við fluttum út með þriggja mánaða gamalt barn í boltaleik til Svíþjóðar. Ég kláraði námið samhliða annarri vinnu í fjarnámi frá Bifröst og hef aldrei fengið betri einkunnir en eftir að ég varð mamma. Alba hefur alltaf verið eins og draumur og veitir mér innblástur á hverjum degi. Ég þekki engan sem er með eins mikla aðlögunarhæfni og hún en hún hefur lært sænsku, frönsku og þýsku og talar eins og innfædd auk þess að tala íslenskuna mjög vel. Börn eru ótrúleg þegar kemur að tungumálum og ég mæli með að foreldrar nýti sér þennan hæfileika barna þegar þau eru ung.“
Í janúar 2016 kom svo sonurinn Gunnar Manuel í heiminn en fjölskyldan var þá búsett í Þýskalandi. „Þá fyrst vorum við tilbúin í annað barn. Alba hafði verið einkabarn í átta ár og systkinin virtust gerólík. Fyrsta árið svaf Gunnar Manuel lítið sem ekkert og þótt ég væri úrvinda vandist ég því að þurfa ekki svefn. Í heilt ár svaf ég ekki heila nótt en loksins þegar ég fékk að sofa fann ég hversu langþreytt ég var. Vinnan mín er þannig að ég fer aldrei í frí og því var krefjandi að finna stöðugleika, ósofin og þurfa að halda dampi. Gunnar Manuel braggaðist vel, er skemmtilegur karakter og farinn að líkjast opnu systur sinni þegar hún var lítil.“
Litla fjölskyldan lærði snemma að standa á eigin fótum og láta hlutina ganga upp þar sem stórfjölskyldan var sjaldnast í gripfæri. „Miðað við mörg pör erum við óeðlilega mikið saman og mjög dugleg að rækta sambandið. Við nýtum hvert tækifæri fyrir lítið ferðalag, kaffihús, veitingastað eða bara í lautarferð. Ég dreg Gunna út um allt og elska að fara í bíltúr og finna spennandi staði, með eða án barna. Við drekkum alltaf morgunbollann saman og komum svo krökkunum á sína staði. Vinnan er okkar áhugamál sem við sinnum af metnaði og ástríðu. Gunni er þó mikið í burtu vegna handboltans en við fylgjumst alveg jafnspennt með honum í sjónvarpinu í útileikjum. Gæðastundirnar eru svo mun fleiri þegar hann er heima. Það líður varla mánuður án þess að við fáum gesti í heimsókn sem er frábært. Börnin elska heimsóknir enda yndislegt að hafa fjölskylduna hjá sér. Við erum dugleg að kynna nýja áfangastaði fyrir þeim með flutningum okkar en gestirnir fá oftast að vera barnapíur minnst eitt kvöld.
Verandi ekki í vinnu sem krefst ákveðins vinnutíma getur reynst erfitt að gera gestum grein fyrir mínum skyldum en ég tek mér oftast helgarfrí. Þá tímastilli ég pósta og sleppi því að svara tölvupóstum en það krefst aga. Við reynum því oftast að fara úr húsi og erum líklega óþolandi kúnnar á mörgum kaffihúsum þar sem við sitjum löngum stundum en kaupum kannski ekki nógu mikið. Ég tek svo alltaf pásu seinnipartinn og fram yfir svefntíma barnanna. Mörg kvöld fara svo í vinnu, en þá með kaffi og súkkulaði til að gera þetta huggulegt.“

ÓLÍKIR EINSTAKLINGAR, ALLIR MEÐ SITT SÉRSVIÐ

Fljótlega eftir fyrstu flutningana til Svíþjóðar byrjaði Elísabet að blogga en í upphafi snerist síðan að miklum hluta um að aðstoða Íslendinga við kaup á ódýrum fatnaði frá Skandinavíu. Fljótlega spruttu upp fleiri samhliða síður og þróaðist bloggið því á persónulegra svið. Skandinavískir bloggarar voru komnir lengra en þeir íslensku og sá Elísabet tækifæri í aðferðum þeirra sem nýttu vefsíður sínar í viðskiptaformi. „Erlendis var orðið algengt að vinsælustu bloggin væru fleiri en eitt á síðu, eins konar bloggveröld þar sem lesandinn þyrfti ekki að flakka á milli mismunandi síðna.
Ég lagði hugmyndina fyrir Álfrúnu Pálsdóttur, vinkonu mína, en hún er menntuð í fjölmiðlafræði og ég í viðskiptafræði. Hugmyndin var að að búa til vettvang á Íslandi fyrir íslenska bloggara og skapa mikla umferð á einni síðu sem gæfi möguleika á auglýsingasölu. Við hóuðum saman bloggurunum sem þá voru virkir og fengum með okkur undir þennan ágæta hatt sem enn heldur höfði.“
Þann 9. ágúst árið 2012 opnuðum við trendnet.is en þarna var ég nýflutt til Frakklands, enn í boltaleik með uppáhaldshandboltamanninum mínum. Strax í upphafi höfðum við þá sýn að undir Trendnet hattinum yrðu ólíkir einstaklingar, allir með sitt sérsvið. Þannig er staðan enn í dag.
Trendnet er miðill sem hefur góða eiginleika en svoleiðis miðlar verða að vera til að mínu mati. Fólk á að geta leitað í jákvæðar og léttar fréttir samhliða öðru. Það dásamlegasta við Trendnet er það hversu góðir vinir bloggararnir eru. Það halda allir með öllum og við erum í góðu sambandi við núverandi og fyrrverandi bloggara.“
Nafn Elísabetar varð fljótt að vörumerki en hún segir tilfinninguna hafa verið skrítna í fyrstu. „Sú hugsun flaug auðvitað í gegn hvaða skoðun fólk myndi hafa á mér en það vandist fljótt. Ef maður tileinkar sér að skrifa heiðarlega og vera ekkert að þykjast vera annar en maður er gengur allt vel. Ég tel að það hafi verið lykillinn að mínum árangri. Ég held mínu striki óháð því hvað öðrum finnst. Ég hef að sjálfsögðu fengið gagnrýni sem fer fyrir brjóstið á manni, sérstaklega þegar fólk skrifar eitthvað á Netið en getur síðan ekki staðið á bak við skrif sín í persónu. Það er alltaf lítt heillandi. En ég finn fyrir miklum meðbyr sem er margfalt meira jákvætt en neikvætt og það hvetur mig áfram.“

SAMSKIPTAMIÐLAR MISSA SJARMANN EF ÞEIR STÆKKA OF MIKIÐ

Umræðan um áhrifavalda hefur sífellt orðið háværari hér á landi og lýsir Elísabet þróuninni sem algjörri sprengju. „Það eru ekki mörg ár síðan ég reyndi að sannfæra markaðsstjóra íslenskra fyrirtækja um að þetta nýja Trendnet væri gott markaðstæki og árangursríkara en margt annað. Fáir trúðu mér, en ég þarf ekki að sannfæra marga í dag.
Þetta er þó orðinn svakalegur frumskógur sem ég tel að byggist að einhverju leyti á misskilningi því á Íslandi er markaðurinn einfaldlega svo lítill að það eru ekki til neinir áhrifavaldar sem verða ríkir á sinni vinnu. Í dag þarf ég að taka fram að ég fái ekki allt frítt. Að mínu mati þurfa að vera skýrar reglur og fólk sé vel upplýst. Þetta þarf að sýna á einfaldan og myndrænan hátt svo auðvelt sé að fara eftir þessu fyrir alla.
Ég lít á samstarf sem hluta af launum, en það er ekki alltaf auðvelt að fá greittí peningum. Þannig fæ ég kannski föt á börnin mín sem hluta af greiðslu fyrir eitthvað verkefni sem aðrir eyða hluta af launum í. Launin berast á annan máta til mín í sumum tilvikum. En það er erfitt að sjá framtíðina fyrir sér í þessum málum. Margir telja að samskiptamiðlar muni færast yfir í minni hópa og miðla. Þannig verðir þú kannski á einum miðli einungis með fólki sem þú þekkir eða átt eitthvað sameiginlegt með. Þá minnkar aðeins þetta áreiti sem nú er á miðlunum í formi auglýsinga og pósta frá fyrirtækjum. Það er mikið talað um hópa (e. tribals) í þessum efnum, að fólk fari að skiptast meira niður í svona flokka og hangi meira með sínum líkum inni á samskiptamiðlum. Það er ein kenning sem mér finnst hljóma nokkuð líkleg þar sem samskiptamiðlar tapa sjarma sínum að einhverju leyti þegar þeir stækka of mikið.
Á vissan hátt er ég heppin að búa erlendis í mínu starfi. Ég á mér einkalíf og pæli lítið í því hvernig ég fer út úr húsi. Eflaust væri ég ekki jafnfrjálsleg ef ég byggi á Íslandi. Í sjálfu sér er ég ekki viss um að ég hefði haldið svona lengi út sem bloggari ef ég byggi á Íslandi því ég hleypi fólki nálægt mér á samfélagsmiðlum. Það hafa ekki allir sömu skoðun á því, sérstaklega þegar börnin fylgja með. Þau eru bara svo stór hluti af mínu lífi að ég myndi ekki geta útilokað þau frá bloggi og samskiptamiðlum. Eftir að Instagram story kom hef ég gefið fylgjendum mun persónulegri nálgun og ég held að fólk kunni vel að meta það. Þetta er viss kafli í mínu lífi, honum mun ljúka einhvern daginn og ég mun bara njóta á meðan á honum stendur. Ég elska að geta veitt einhverjum innblástur og það drífur mig áfram í mínu.“

NÁI ÉG EINUM Í GANG ER TAKMARKINU NÁÐ

Það er óhætt að segja að Elísabet sé fyrirmynd, einkum þegar kemur að heilbrigðu hugarfari. „Margir fylgjenda minna tengja við mig hvað varðar hreyfingu. Ég er nefnilega ekki þessi dæmigerða líkamsræktartýpa heldur venjuleg mamma sem þarf að ná að áorka miklu á stuttum tíma. Vonandi upplifir fólk það þannig, ef ég get hreyft mig reglulega getur það gert það líka. Hreyfing er svo mikilvæg fyrir líkamann, en líka fyrir sálina. Ég reyni að æfa á hverjum degi, hvort sem ég fer á crossfit æfingu eða hleyp í hálftíma áður en ég sæki börnin. Þetta er það sem gefur mér mest og heldur mér ferskri gegnum daginn.“
Tíu ár eru nú síðan Elísabet hljóp í fyrsta sinn en hún hafði aldrei fundið sig í íþróttum. „Í fyrsta skipti sem ég fór út að hlaupa náði ég varla 500 metrum en þarna kviknaði metnaðurinn og þarna fann ég mig í einhverri hreyfingu. Ég prófaði svo crossfit nýverið og hef gaman að því, með hlaupum. Þarna tek ég þyngdir sem ég ræð við og reyni að gera allt rétt. Mataræðið helst svo í hendur við hreyfinguna þar sem ég hef hollustuna í fyrirrúmi en óhollustuna í hófi. Það er eflaust ein af ástæðum reglulegrar hreyfingar hjá mér, ég vil geta fengið mér föstudagspítsu og rauðvín með.
Ég er líka komin yfir þrítugt og eflaust betri fyrirmynd í dag en ég var fyrir tíu árum. Þroskaðri á svo margan hátt og er byrjuð að þekkja sjálfa mig vel. Ég hef fengið svo mörg skilaboð um að ég hafi ýtt fólki út að hlaupa að mér finnst ég orðin nánast skyldug að setja inn þegar ég hreyfi mig. Ef ég næ einum í gang þá er takmarkinu náð.
Eitt af því sem ég er hvað stoltust af frá síðasta ári er einmitt verkefni okkar Andreu Magnúsdóttur, Konur eru konum bestar, en þar hönnuðum við og seldum boli með þessari áletrun en ágóðinn rann til Kvennaathvarfsins. Boðskapurinn er mikilvægur og því verður verkefninu haldið lifandi. Þessa dagana erum við einmitt að hanna bol sem fer í sölu í haust. Þá munum við velja nýtt málefni til að styrkja. Konur eru konum bestar er lítil breyting á gamalli setningu en risabreyting á hugarfari.
Neikvæðni og slæmt umtal virðist vera orðið daglegt brauð í nútímasamfélagi og á netinu virðist fólk hafa leyfi til að ráðast á hvern sem er með orðum. Orð geta verið álög og þetta er eitthvað sem þarf að bæta og breyta. Við erum fyrirmyndir komandi kynslóða og þurfum að sýna meiri kærleik og virðingu gagnvart náunganum. Það er miklu skemmtilegra ef við erum allar í sama liði í staðinn fyrir að kunna ekki að samgleðjast. Þessi óþolandi öfund og neikvæðni er svo niðurdrepandi og þreytandi, við þurfum að breyta þessu.“

ÞUNGUM BAKPOKA LÉTT AF EFTIR BRÚÐKAUPSVEISLUNA

Leiðir þeirra Elísabetar og Gunnars Steins lágu fyrst saman í Húsaskóla, þá tólf ára gömlum. Þrátt fyrir að hafa verið óaðskiljanleg nánast frá fyrstu kynnum var skrefið frá því að vera bara vinir langt. „Við höfum þroskast vel saman, fyrst í menntaskóla og svo í þessum ólíku löndum.“
Bónorðið var borið upp í París eftir rómantíska ferð til Feneyja, hún segir staðsetninguna vel við hæfi enda borgin í miklu eftirlæti. „Ég vissi að ég fengi hring í þessari ferð en þarna vorum við að kveðja Frakkland eftir tveggja ára dvöl. Planið var
að giftast ári síðar en óvart urðu árin fjögur þangað til við tókum skrefið. Við vildum halda stórt brúðkaup þar sem fjölskylda og vinir gætu safnast saman á Íslandi þar sem við höfum búið svo lengi erlendis.
Við byrjuðum á því að bóka kirkju og prest og síðan liðu mánuðir. Salur fyrir svona marga reyndist hausverkur en að lokum varð Perlan fyrir valinu og gætum við ekki verið ánægðari með staðsetninguna. Hún sýndi útlensku gestunum okkar það besta af Íslandi.
Ég veit ekki hversu margir tímar fóru í undirbúninginn enda eru þetta óteljandi atriði sem þarf að huga að. Þungum bakpoka var létt af eftir veisluna þó að það hafi verið allt þess virði.“
Undirbúningurinn gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig enda nær ómögulegt að skipuleggja brúðkaup án þess að mæta nokkrum hindrunum á leiðinni. Margir lesendur Trendnets tóku til að mynda eftir stóískri ró Elísabetar þegar kom að því að finna brúðarkjól, en brúðarbíllinn var síðasta atriði á lista og óttaðist parið að hann kæmi ekki í leitirnar í tæka tíð. „Við vorum á leið heim út bænum eftir blautan 17. júní þegar upp að hlið okkar keyrði hinn fullkomni bíll, ég hef bara aldrei séð neinn honum líkan á Íslandi. Ég spenntist öll upp og skrúfaði niður gluggann og kallaði, hvort hann væri eitthvað að lána bílinn, við værum að fara að gifta okkur. Bílstjórinn hló og skaut einhverju gríni til baka. Við lentum síðan á rauðu ljósi og aftur keyrði hann upp að hlið okkar, Gunni biður mig að tala betur við hann en ég kunni ekki við að skrúfa aftur niður. Ég píndi mig þó í það og sagði: „Án gríns, við erum að fara að gifta okkur og þetta væri draumabílinn.“ Hann bað okkur að elta sig á bílastæði og þar náðum við að sannfæra hann um að lána bílinn. Þannig reddaðist bíllinn fimm dögum fyrir brúðkaup. Algjör lukka og við keyrðum saman úr kirkjunni með blæjuna niðri á Jagúar með áfasta Louis Vuitton tösku á skottinu.“

DVÖLIN Á BALÍ DRAUMI LÍKUST

Elísabet segist aldrei hafa fundið fyrir pressu þrátt fyrir að hafa gift sig undir vökulum augum fylgjenda sinna sem
sýndu ferlinu mikinn áhuga. „Ég var dugleg að sýna frá undirbúningnum og fann að lesendur mínir virkuðu stressaðri en ég með margt, til dæmis kjólinn. Alltaf að reyna að aðstoða mig og ég var rosalega þakklát fyrir alla hjálpina.
Ég var sallaróleg í öllu ferlinu, alveg þangað til ég kom inn í kirkjuna og átti að ganga inn kirkjugólfið. Þá helltist yfir mig einhver spenna og ég kiknaði í hnjánum. Ég var þó með yndislega föður minn mér við hlið og þetta gekk eins og í sögu.
Með brúðkaupið, eins og annað, var ég bara að gifta mig fyrir mig sjálfa og lét áreiti ekki slá mig út af laginu heldur hélt mig á beinni braut með hluti sem ég vildi og vildi ekki. Það er mikilvægt að hver og einn plani brúðkaup eftir sínu höfði. Eitthvað sem hentar okkur hentar ekki endilega öðrum.
Það varð þó eitthvað spennufall hjá mér og ég var svolítið ólík mér eftir kirkju og í byrjun veislu. Þetta kom einhvern veginn allt í einu og fínt að deila því hér til að undirbúa aðra fyrir svipað. Mín ráð eru fyrst og fremst að njóta og þiggja aðstoð frá sínum, en líka frá fagfólki. Ég held að það hafi spilað stóran þátt í því hvað ég var róleg fyrir deginum að ég var með dásamlega aðstoð. Allt frá litlum hlutum eins og að fá mat inn á hótelherbergi í undirbúninginn, hollt og gott frá Þyrí vinkonu minni og matreiðslusnillingi, yfir í skreytingar, hár og förðun, pössun fyrir börnin, bílstjóra sem náði í gjafirnar í veisluna svo fátt sé nefnt.
Ég kom flestum verkefnum og ábyrgð yfir á aðra en svo fer alltaf eitthvað úrskeiðis sem fæstir taka eftir nema þú og þá þýðir ekkert að vera pæla í því. Við vorum með veðrið á heilanum því við vildum alls ekki rigningu og rok en undir lokin hættum við að stressa okkur og það blessaðist nokkuð vel.“
Hjónin voru jafnframt samstiga þegar kom að því að velja brúðkaupsferð en bæði þráðu þau hvítan sand og sól. Balí varð fyrir valinu og segir Elísabet upplifunina hafa verið draumi líkasta. „Við ferðuðumst um og fórum á nokkra staði sem toppuðu hver annan. Það er sniðugt að skipta um hótel því þau minna mann á að þetta er brúðkaupsferð.
Við stungum af strax eftir brúðkaupið því annars er aldrei að vita hvenær við hefðum farið. Í upphafi ætluðum við að skipuleggja ferðina sjálf og höfðum sambandi við nokkrar ferðaskrifstofur. Farvel svöruðu okkur hratt og vel ásamt því að koma með góðar uppástungur svo að endingu skipulögðu þau ferðina fyrir okkur. Því beið okkar bílstjóri á öllum flugvöllum sem auðveldaði okkur að njóta. Fyrst vorum við í Ubud á drauma-boutique- hóteli og fengum að sjá hvernig fólk bjó í litlu þorpunum. Það var sterk upplifun sem ég tek með mér. Eftir það héldum við á draumeyjuna Gili Air sem er pínulítil eyja með engum bílum, bara hestvögnum. Í hótelkofanum okkar var ekkert Internet og því neyddumst við til að njóta og slaka á. Við vorum svo ánægð að við framlengdum þar og mun ég líklega halda þangað aftur í lengri ferð. Síðustu dagana dvöldum við á Balí, á Sanur og Canggu, en stemningin þar líkist öðrum sólarlöndum. Á heimleiðinni stoppuðum við í Bangkok sem var frábær upplifun. Við fengum Íslending sem er búsettur þar til að fara með okkur á áhugaverða staði en hann Palli er með gráðu í Asíufræðum og náði að koma þessu frá sér á mjög skemmtilegan og persónulegan máta, eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður í svona fararstjórn. Bangkok var andstæðan við Gili Air, fólk út um allt, mengun og þungt loft, samt sem áður fannst mér borgin örugg og veitingastaðir snyrtilegir, meira að segja götusalarnir.“

Og fram undan eru fleiri ævintýri því í haust mun fjölskyldan flytja til Danmerkur. „Þrátt fyrir að sjá eftir sænsku sælunni erum við spennt fyrir þessum breytingum. Við verðum ennþá nálægt Kaupmannahöfn og því held ég mínu striki á blogginu og heimsæki áhugaverð „showroom“ fyrir íslensk fyrirtæki ásamt því að koma reglulega heim í spennandi verkefni. Ég er með fullt af hugmyndum í kollinum sem ég á eftir að framkvæma og vonandi komast þær á teikniborðið í vetur. Ég framkvæma nefnilega þær hugmyndir sem ég hef trú á. Sjöstrand kaffi er ein þeirra en það er 100% lífrænt kaffi í umhverfisvænum kaffihylkjum sem passa bæði í Nespresso vélar ásamt fallegu Sjöstrand kaffivélunum sem fást á heimasíðunni sjostrand.is hjá HAF og í Norr11. Fyrir jólin verða nýjungar væntanlegar í búðarhillunum sem þarf að kynna og fylgja eftir. Ég tek þátt í því. Svo verð ég auðvitað í stúkunni hjá Ribe Esbjerg að hvetja minn mann áfram í dönsku deildinni. Það er stór partur af mínu lífi sem ég elska. Framtíðarsýnin er að vinna við það sem veitir mér gleði. Ég mun gera það áfram og um ókomna tíð. Heimurinn er alltaf að minnka og Netið er framtíðin á svo marga vegu. Maður getur búið hvar sem er en samt unnið á Íslandi, sem dæmi. Einu sinni var draumurinn að vinna hjá stórfyrirtæki í Stokkhólmi en í dag sé ég fyrir mér að vinna með Gunna í því sem við höfum ástríðu fyrir. Ég elska að vinna með ólíkum einstaklingum og fá innblástur úr ólíkum áttum, horfa út fyrir boxið og veita innblástur. En ég er ekki endilega viss um að við munum flytja heim til Íslands þótt við séum alltaf þar með annan fótinn. Það hentar okkur einkar vel að eiga rólegt fjölskyldulíf erlendis og koma síðan heim í vinnuferðir þar sem maður hittir auðvitað vini og fjölskyldu í leiðinni. Við verðum í einhver ár í viðbót í handboltagír en munum alltaf gera eitthvað annað samhliða. Tækifærin eru á Trendnet og þar má gera betur, ég er líka með ástríðu fyrir Sjöstrand sem er nýtt á Íslandi og við höfum mikla trú á. Síðan sjáum við hvað framtíðin ber í skauti sér. Tækifærin svo mörg, nýtum þau. Áfram þú!“

xx,-EG-.

Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&

Trendnet á Facebook – HÉR

FATASALA DAGSINS

Skrifa Innlegg

3 Skilaboð

  1. Fanney Ingvars

    6. November 2018

    Fyrirmynd <3

    • Elísabet Gunnars

      6. November 2018

      Takk þú :*

  2. Guðrún Sørtveit

    6. November 2018

    Flottust og fyrirmynd <3