fbpx

KVIKNAR

LÍFIÐSHOP

Ég hef fylgst spennt með dásamlegu íslensku verkefni, Kviknar, í lengri tíma. Kviknar er bók sem verður skyldukaup í jólapakkann til verðandi eða verandi mæðra. Stelpurnar á bakvið bókina eru þær Andrea Sóleyjar og Björgvinsdóttir, Aldís Pálsdóttir og Hafdís Rúnarsdóttir. 

Hugmyndin kviknaði fyrir 12 árum síðan (!) þegar Andrea gekk með sitt fyrsta barn. Hún hafði þá sjálf lesið margar bækur, sem flest allar voru þýddar og fannst vanta efni sem væri beint frá íslenskum konum, við íslenskar aðstæður.

Andrea biður þá Hafdísi ljósmóður að vera sér innan handar með alla þá mikilvægu fræðilegu þætti sem kæmu fram í bókinni og mögulega leggja til fleiri áherslur sem henni fyndist vanta.

Næst lá leiðin til Aldísar Páls ljósmyndara sem sá um að myndskreyta bókina. Ég fékk Aldísi til að segja mér aðeins frá bókinni og verkefninu og hér fær hún orðið á persónulegu nótunum:

Ég man svo vel eftir því augnabliki….

Við sátum heima hjá Andreu, bjuggum báðar út í Kaupmannahöfn. Hún segir mér frá öllum sínum vangaveltum varðandi þessa hugmynd að mögulegri bók, við erum þá báðar búnar að fara í gegnum okkar fyrstu meðgöngu. 

Við förum að deila alls konar fyndnum og asnalegum atriðum sem komu upp og vorum sannfærðar um að það þyrfti að velta öllum þessum feimnismálum fyrir sér í bókinn og fá fagleg svör frá ljósmóður – eða fleiri álíka sögusagnir. Við vildum koma í veg fyrir að manni líði ekki eins og maður sé að missa vitið, af því að maður er að hafa áhyggjur af einhverju asnalegu.. eins og kynlífsleysi, eða hvort píkan sé eitthvað öðruvísi eftir barnsburð, eða hvort maður verði alltaf bara með gyllinæð.

Eftir þetta fór Andrea á fullt að safna sögum frá íslenskum konum.

Fyrst söfnuðust inn sögur og spurningar um meðgönguna og fæðinguna.

Þá kom ábending frá Hafdísi, að kafli um sængurlegu væri jafnvel eitt mikilvægasta tímabilið að ræða um opinskátt, svo við fórum að safna slíkum sögum inn í bókina.

Þá vildum við loka hringnum með því að safna líka sögum um getnaðinn.

Eins fannst okkur mikilvægt að gleyma ekki upplifun verðandi feðra. Þeir gleymast stundum í þessu ferli, en þeirra upplifun, undirbúningur og þátttaka er ekki síður mikilvæg.

Smám saman safnaðist efni í bókina, bæði sögur og ljósmyndir.

Við höfum allar verið að vinna í þessu verkefni meðfram öðrum verkefnum. Það er líklega ein besta ástæðan fyrir því hversu lengi þessi bók hefur verið í vinnslu. Margt hefur komið upp á, fluttningar og fleiri börn, en tíminn hefur að okkar mati gert bókina enn betri. Við höfum fengið betri yfirsýn yfir verkefnið og rýnt aftur og aftur í gegnum textann.

Við höfum stundum verið að missa kjarkinn, en blessunarlega höfum við náð að vera mjög misstíga með það. Svo við höfum hvatt hvor aðra, þegar slík aðstæða hefur komið upp. Það sem gaf okkur aukinn kjark, og er ástæða þess að við náum að klára loksins þetta verkefni er söfnunin okkar á Karolina Fund! Án þess átaks, og ykkar allra sem styrktuð verkefnið á sínum tíma, hefðum við aldrei náð að loka þessu verkefni. Erum við ykkur ævinlega þakklát fyrir þann styrk og traust sem þið veittuð okkur! Takk Takk Takk til ykkar!!

Þorleifur Kamban, grafískur hönnuður, hjálpaði okkur að loka loksins þessu verkefni. Erum við svo heppnar að hafa fengið hann í fjölskylduna. Hann er svakalega fær á sínu sviði, og svo miklu meira en það! Hann setti upp bókina, og bjó til fyrir okkur heimasíðuna. Hefur haft fulla trú á okkur, og hvatt okkur áfram.

Kviknar kemur sem áður segir í búðir um mánaðarmótin en er þessa stundina á bókamessu sem haldin er í Hörpunni. (fyrir ykkur sem lesið póstinn í dag sunnudaginn 19.nóvember). 

Einnig er hægt er að kaupa eintak á forsöluverði út nóvember hér: www.kviknar.is

 

 

Ég hef sjálf gengið í gegnum tvær fæðingar og hver um sig er sko aldeilis saga að segja frá – margt sem gekk á. Það er kannski efni í nýjar bloggfærslur eða jafnvel bækur ;)

Úgáfuhóf KVIKNAR verður á Kaffi Laugalæk þann 1.desember klukkan 17:00. Sjáumst þar! Meira: HÉR

 

xx,-EG-.

Elísabet Gunnars á Facebook – HÉR
&

Trendnet á Facebook – HÉR

LOVE LEE

Skrifa Innlegg