fbpx

GERA ALLT TIL AÐ LÁTA DRAUMINN RÆTAST

ALBASMÁFÓLKIÐ

Takk fyrir okkur Morgunblaðið <3 Við Alba svöruðum viðtali við MBL saman og það var gaman. Eins og ég hef oft sagt á blogginu þá reyni ég að birta persónulegar færslur sem þessar til að eiga auðvelt með að finna þær í framtíðinni. Kardemommubærinn og ævintýrið hennar Ölbu er það stærsta sem er að gerast í okkar lífi þessa dagana … lesið lengra –


Mynd: Aldís Páls

Alba Gunn­ar­dótt­ir fer með hlut­verk í Kar­demommu­bæn­um í Þjóðleik­hús­inu. Hún kom lengra að en marg­ir aðrir krakk­ar sem skráðu sig í prufu fyr­ir leik­ritið en hún á heima í Dan­mörku með for­eldr­um sín­um, þeim Elísa­betu Gunn­ars­dótt­ur og Gunn­ari Steini Jóns­syni. Elísa­bet flaug heim til Íslands ásamt litla bróður Ölbu til þess að sjá sýn­ing­una. Að missa af frum­sýn­ing­unni kom ekki til greina þrátt fyr­ir að heim­kom­unni fylgdi sótt­kví.

„Alba hef­ur fengið að heim­sækja ömm­ur og afa á Íslandi í haust­frí­um síðustu árin. Það hitti þannig á að það voru ein­mitt pruf­ur þegar hún var á land­inu og að gamni sínu sló hún til. Okk­ur for­eldr­un­um fannst þetta skemmti­leg reynsla fyr­ir hana en bjugg­umst ekk­ert endi­lega við að hand­bolta­stelp­an og „út­lend­ing­ur­inn“ fengi hlut­verk – þar sem aðsókn­in var ótrú­lega mik­il,“ seg­ir Elísa­bet um það hvernig það at­vikaðist að Alba fór í pruf­ur fyr­ir leik­ritið. 

„Við hefðum þó mátt vita bet­ur því hún er svo mik­ill snill­ing­ur, hef­ur sýnt okk­ur margoft hvað hún er sterk­ur per­sónu­leiki. Ég viður­kenni að við for­eldr­arn­ir vor­um að sjálf­sögðu með hnút í mag­an­um þegar hún fór alltaf lengra og lengra áfram í pruf­un­um og að lok­um þegar sím­talið kom að hún hefði kom­ist alla leið. Hvað vor­um við búin að koma okk­ur út í? Bú­sett í Dan­mörku en vild­um alls ekki taka svona ein­stakt tæki­færi frá Ölbu – við slóg­um til og tók­um þetta klass­íska ís­lenska hug­ar­far „þetta redd­ast“. 

Elísa­bet seg­ir að það hafi alltaf verið mikl­ir til­b­urðir í dótt­ur sinni og áhug­inn jókst þegar hún fékk kenn­ara í danska skól­an­um sem lagði mikið upp úr tónlist, söng og dansi.

„Þar var Alba kom­in í aðal­hlut­verk í leik­verki áður en hún lærði tungu­málið. Mér sýn­ist á öllu að litli bróðir muni ekk­ert gefa syst­ur sinni eft­ir – enda alltaf með stjörn­ur í aug­un­um yfir henni,“ seg­ir Elísa­bet.

 

Skemmti­legt frá upp­hafi til enda

Alba sem leik­ur barn og dans­andi frosk í leik­rit­inu legg­ur mikið upp úr því að njóta þess að vera á sviðinu frá því að dregið er frá og þangað til dregið er fyr­ir aft­ur.

Ég á erfitt með að gera upp á milli atriða,“ seg­ir Alba þegar hún er spurð hvað sé skemmti­leg­ast í sýn­ing­unni. „En mig lang­ar að segja að upp­hafs­atriðið þegar við erum með kitl í mag­an­um yfir spenn­ingi að nú sé leik­ritið að hefjast – mér finnst allt skemmti­leg­ast við þessa frá­bæru sýn­ingu. Hraðaskipt­ing­arn­ar eru smá erfiðar, þegar við erum að skipta um bún­inga baksviðs á mettíma.“

Hvað fannst mömmu skemmti­leg­ast við sýn­ing­una?

„Sýn­ing­in er al­gjör gleðisprengja frá upp­hafi til enda. Eitt­hvað sem al­menn­ing­ur þarf á þess­um furðulegu Covid-tím­um. Ég fór á for­sýn­ing­una þar sem ég sá ekk­ert nema Ölbu og náði svo að njóta mín bet­ur á frum­sýn­ing­unni þar sem ég hló af Soffíu frænku og ræn­ingj­un­um á milli þess sem ég dáðist af leik­mynd, bún­ing­um og öll­um flottu börn­un­um. Ég elska líka bara þessa fal­legu bygg­ingu – Þjóðleik­húsið, maður fær ein­hvern góðan anda yfir sig þar.“

Varst þú alltaf ákveðin í að koma heim fyr­ir frum­sýn­ing­una? Jafn­vel þrátt fyr­ir að þurfa að fara í smá sótt­kví?

„Já! Ég hefði aldrei misst af svona stóru mó­menti þó að ég hefð þurft að vera í sótt­kví í mánuð. Það var þó brostið pabbahjarta sem missti af sýn­ing­unni þar sem hann er fast­ur í bolta­leik í Dan­mörku. Von­andi nær hann þó sýn­ingu áður en Kar­demommu­bæn­um lýk­ur, ég er al­veg viss um það.“

Staðráðin í að láta þetta ganga upp

Ertu búin að ganga með þenn­an draum í mag­an­um lengi að fá að taka þátt í leik­riti?

„Ég hef alltaf haft gam­an af því að leika, en þetta var nú samt kannski ekk­ert sem ég var beint að stefna að. Þetta var allt sam­an smá til­vilj­un – frá­bær til­vilj­un! Það var æðis­leg til­finn­ing að fá hlut­verkið, við mamma felld­um nokk­ur gleðitár sam­an á meðan pabbi hristi haus­inn bros­andi og spurði hvað við vær­um nú búin að koma okk­ur út í. Mamma fór með mér í gegn­um pruf­urn­ar á FaceTime, held að hún hafi verið miklu stressaðri en ég en hún sýndi mér það aldrei en sagði við mig um það bil 100 sinn­um: „Alba, mundu bara að vera þú sjálf.“ Það hef­ur greini­lega virkað vel.

Ég var með lít­inn grunn í leik og dansi þó svo að ég hafi alltaf haft áhuga á því. Það er því um að gera fyr­ir alla sem dreym­ir um að vera á sviði að láta reyna á það og skella sér í pruf­ur – ekk­ert víst að það klikki.“

Það hlýt­ur að hafa verið ánægju­legt að sjá barnið sitt ná þess­um ár­angri en fylgdi þessu ein­hver tregi eða kvíði vegna bú­setu ykk­ar?

„Þetta voru blendn­ar til­finn­ing­ar, við vor­um ótrú­lega stolt af Ölbu og á sama tíma var þetta erfið ákvörðun fyr­ir fjöl­skyld­una. Það sem réð ákvörðun var að við hugsuðum að ef við tækj­um þetta frá henni þá gæti þetta verið atriði sem hún kannski myndi enn sjá eft­ir á full­orðins­ár­um – því maður veit aldrei hvort og hvenær svona tæki­færi koma. Við vor­um því alltaf staðráðin í að láta þetta ganga upp.

Í venju­legu ár­ferði er ég mikið á ferðinni þar sem hluti af minni vinnu er á Íslandi  en skyndi­lega stækkaði heim­ur­inn svaka­lega með þessu Covid-ástandi og þess­ar aðstæður urðu all­ar mikið erfiðari. Pabb­inn sem er hand­boltamaður hef­ur til dæm­is ekki færi á að ná sýn­ingu eins og staðan er núna og þá hef­ur þetta tíma­bil lengst til muna hjá okk­ur fjöl­skyld­unni.“

Alba er í fyrsta skipti skráð í ís­lensk­an skóla en þegar hún var yngri fékk hún stund­um að fara í heim­sókn í ís­lensk­an leik­skóla og í heim­sókn í Mela­skóla þegar hún varð eldri.

Í dag er ég í Álfta­mýra­skóla og í fyrsta sinn skráð í ís­lensk­an bekk. Fynd­in til­vilj­un að um­sjóna­kenn­ar­inn minn er ein­mitt leik­ari, sem lék einu sinni í Þjóðleik­hús­inu. Ég get því ekki verið heppn­ari með skiln­ing þegar ég þarf að fá frí fyr­ir æf­ing­ar og slíkt. Það er mjög gam­an!“

Alba seg­ir að hún eigi góðar ömmu og afa sem passa hana þegar hún er á Íslandi en auðvitað sakn­ar hún for­eldra sinna og bróður síns sem eru oft­ast í Dan­mörku.

„Í vor þegar það voru eng­in flug þá var mjög erfitt að kom­ast ekki til þeirra en að lok­um gekk það upp og þá kláraði ég skóla­árið í danska skól­an­um mín­um. FaceTime er mjög mikið notað í okk­ar fjöl­skyldu. Mamma hring­ir í mig mörg­um sinn­um á dag.“

Hvað hafi þið lært á því ferli að búa ekki í sama landi?

„Það mik­il­væg­asta sem við höf­um kannski lært er að við vilj­um alls ekki búa hvert í sínu land­inu og við sökn­um þess að hafa alla fjöl­skyld­una sam­an. Við lát­um þetta virka í þetta skiptið, þó svo að ástandið sé að gera okk­ur erfitt fyr­ir. Í fram­hald­inu sam­ein­umst við öll og reyn­um eft­ir fremsta megni að halda því þannig. Það er síðan spurn­ing hvort við höld­um áfram að elta pabb­ann í bolta­leik eða byrj­um að elta Ölbuna í leik­list í staðinn.“

//

Lífið …

Ég mæli með að allir skelli sér í leikhús þegar það má <3 viðtalið hér að ofan var tekið rétt eftir frumsýningu, þegar það var ekki búið að herða reglurnar.

Viðtalið í heild sinni: HÉR

xx,-EG-.

@elgunnars á Instagram

DRESS: PEYSUVEÐUR

Skrifa Innlegg