fbpx

DRESS: SVARTUR FÖSTUDAGUR

DRESSSHOP

Svokallaður Svartur föstudagur var í loftinu þegar ég vaknaði í Kaupmannahöfn á síðasta vinnudegi nóvembermánaðar. Eins og flestir vita þá er dagurinn amerísk hefð sem við Skandínavar höfum leikið svona grimmt eftir síðustu ár – það var allt vitlaust hér í Danmörku og sömu sögu má segja um Íslendinga.

Eina hefðin sem ég hef skapað mér í gegnum árin á þessum degi er að klæðast svörtu frá toppi til táar, hef gert það viljandi og bara að gamni. Einhverjir vilja kannski meina að það sé gert í mótmælaskyni? Ég lagði ekki upp með það en mögulega er smá dass af mótmælum sem fylgir með. Ég er allavega með blendnar tilfinningar fyrir svona dögum og sérstaklega þessum tiltekna sem mér finnst vera að fara smá úr böndunum. Dagurinn færir okkur fjær þessum sjálfbæru gildum sem margir eru farnir að tileinka sér og svo stingur hann í stúf við heilbrigt samband verslana og viðskiptavina, enda finn ég það hér úti í Danmörku t.d. að mörg virt vörumerki hunsa daginn og lýsa yfir óánægju sinni með hann. Ég ætla ekkert að taka svo sterkt til orða en hef kannski mestar áhyggjur að dagurinn virðist taka meira og meira pláss með ári hverju.


Buxurnar, skórnir og kjóllinn sem ég klæðist innan undir eru allt flíkur sem ég hef notað mjög mikið og mjög lengi. Kápan er væntanleg til Andreu og ég er í proto-týpunni og er smá að tryllast – sem vissulega  gefur ykkur tækifæri á að dæma mig fyrir að tala um neysluhegðun hér að ofan á sama tíma og ég hef áhuga á tísku og hönnun.

Ekki kaupa afþvíbara ..

Með þessu vil ég kannski helst bara hvetja fólk til að íhuga vel kaupin og vanda valið – ekki kaupa afþvíbara þegar hlutir eru á útsölu. Síðan er auðvitað um að gera að nýta sér tilboð þegar þið eruð með einhver kaup í huga eða viljið klára jólagjafirnar á góðum tíma.

Á morgun er svokallaður Cyber Monday .. ég bið ykkur að hafa þessa pælingu mína í huga við kaup á afslætti þann daginn.

Myndir: Ísabella María

 

Sjáið þessa hamingjusömu konu, þetta er rétt eftir að ég sá fyrstu snjókornin falla í dejliga danska landinu þennan veturinn.

Ahhh – svindlaði smá, rauðir skór til að setja punktinn yfir i-ið.

Kápa: AndreA, Eyrnalokkar: H&M, Buxur: Weekday, Skór: Kalda

Góðar stundir.

xx,-EG-.

@elgunnars á Instagram 

 

FJÖGUR FALLEG VETRARPÖR Á MÍNUM ÓSKALISTA

Skrifa Innlegg