fbpx

TOPP FÆRSLURNAR MÍNAR 2021

Umfjöllun

Það er viðeigandi að hefja nýtt bloggár að renna yfir liðið ár og skoða hvaða bloggfærslur hittu í mark … og hverjar ekki. En fyrst vil ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og vona svo sannarlega að árið verði okkur öllum ljúft og gott.

Ég tók mér óvænt frí frá samfélagsmiðlum á milli jóla og nýárs og dusta hér með rykið af lyklaborðinu og er spennt að hefja enn eitt bloggárið mitt sem er það þrettánda ef ég er að telja rétt!

Það er gaman að sjá að gamlar færslur frá árunum 2018-2019 detta enn eitt árið á topp listann sem sannar það að bloggmiðillinn stendur enn fyrir sínu. Mér þykir mikilvægt að halda virkni á blogginu mínu og leggja ekki allan minn tíma t.d. í Instagram þar sem lítið stendur eftir þegar árin líða og erfitt er að leita að gömlu efni sem höfum séð á þeim síðum sem við fylgjum þar. Blogg og fréttamiðlar hafa það fram yfir Instagram, Snapchat og Tik Tok að þegar kemur að því að okkur vantar að finna upplýsingar, hvort sem þú ert í leit að meðmælum um fallegt parket, góða súkkulaðiköku eða besta farðann – þá eru allar leitarvélar á netinu með okkur í liði ♡

Mikil fjölbreytni einkennir topp listann að þessu sinni sem er skemmtilegt, persónulegar færslur um sykurleysið mitt, kökuuppskriftir, meðmæli um parket og gardínur, falleg íslensk heimili og tips og trikk fyrir heimilið sitja í efstu sætunum ásamt að ógleymdum gjafahugmyndalistum sem slá alltaf í gegn.

2021 Topp listinn

Heimsins fallegustu gardínur er færsla frá 2018 þegar við bjuggum inná foreldrum mínum að safna fyrir fyrstu íbúðarkaupum og er enn mikið lesin í hverri viku. Gardínurnar eru enn hér og prýða nú barnaherbergin en við fengum okkur aftur sömu gardínur frá Z brautum í stofugluggana og ég get svo sannarlega mælt með. Þyrfti núna að gera sambærilega færslu um fínu gardínurnar í svefnherberginu.

Sjá hér einnig færslu frá 2019 um gardínurnar á núverandi heimili okkar. 

Fallegasta parketið okkar er færsla frá árinu 2019 sem enn nýtur mikilla vinsæld og veit ég um aðila sem hafa fjárfest í þessu parketi án þess að skoða eftir lestur á færslunni. Ansi skemmtileg áminning til mín um að vanda vel til verka þegar kemur að meðmælum. Í dag er ég í öðru spennandi samstarfi við Parka sem ég hlakka til að sýna ykkur meira frá, það er þá t.d. forstofan og svo er verið að græja borðstofuborð með risa marmaraflís. Stay tuned!

4 mánuðir sykurlaus og hvernig við tókum út allan sykur – það kom svo sannarlega ekki á óvart að þessi færsla var svona mikið lesin enda mikill áhugi sem ég fæ í hvert sinn sem ég nefni að ég sé sykurlaus. Sem er góð hugmynd að koma með uppfærslu svona korter eftir jól!

Sykurlausar uppskriftir slógu í gegn á árinu og þar sérstaklega sykurlausa súkkulaðikakan og sykurlausa döðlukakan sem ég hef bakað oft á árinu. Þetta er nýtt fyrir mér að deila áfram uppskriftum en virkilega ánægjulegt að sjá að það sé svona vel tekið í þennan nýja lið hér á blogginu. Matur & bakstur.

Gjafahugmyndir eru klassískt bloggefni sérstaklega fyrir jólahátíðirnar og margir í leit að góðum gjafahugmyndum. Því skal ekki undra að  jólagjafahugmyndir 2021 rötuðu á topp 10 listann.  Ég hef einnig ótrúlega gaman að gerð svona efnis og því gleðilegt að vinnan sem ég legg í þessar gjafahugmyndir skili sér vel.

Íslenskt – já takk

Íslenskt efni er alltaf vel metið sem er gleðilegt, íslensk heimili og smekklegir íslendingar í heimilisbreytingum var að sjálfsögðu á topp listanum. Má þar nefna innanhússhönnuðinn Sólveigu Andreu sem gerði stórkostlegar breytingar á íbúð í Sjálandi. 

Alma Ösp Arnórsdóttir innanhússráðgjafi og annar stofnanda StudioVOLT setti snemma árs 2021 fallegt heimili sitt á Búlandi á sölu. Eitt mest lesna íslenska innlitið á árinu og skal ekki undra enda ótrúlega glæsilegt heimili.

Bloggarinn Jóna María sagði okkur frá baðherbergis framkvæmdum og sýndi flottar fyrir og eftir myndir sem veittu góðar hugmyndir. Það er fátt skemmtilegra en að deila áfram svona vel heppnuðum fyrir og eftir myndum og ég er alltaf opin fyrir því að deila ykkar myndum áfram:)

Tvær vinkonur mínar seldu íbúðirnar sínar snemma árs 2021 og fasteignamyndirnar slógu í gegn og báðar bloggfærslurnar tróna á topp listanum.

Hulda vinkona mín seldi bjarta og fallega íbúð í Urriðaholti, og Fatou seldi einnig fallega heimilið sitt í Urriðaholti.

Litríkur pastelheimur á Langholtsvegi var sem sælgæti fyrir augun.

Erlend innlit eru líka alltaf vinsæl og þessi færsla var mest lesin af þeim erlendu og einnig í miklu uppáhaldi hjá mér. Geggjað eldhús með list og danskri hönnun.

Og að lokum var það Gerðu svefnherbergið þitt jafn kósý og á hótelum sem hitti einnig í mark.

Ætli þetta sé ekki ágætis samantekt af þeirri fjölbreytni sem ég reyni að bjóða uppá hér á blogginu. Og stefni ég ótrauð áfram á enn betra bloggár, með betra og metnaðarfyllra efni, fleiri nýjum liðum og viðtölum svo fátt eitt sé nefnt ♡ Takk fyrir samfylgdina á liðnum árum – ég væri ekki hér án ykkar.

Takk fyrir mig,

Kveðja, Svana 

LEGGÐU FALLEGA Á HÁTÍÐARBORÐIÐ // 25 HUGMYNDIR

Skrifa Innlegg