fbpx

HEIMSINS FALLEGASTA PARKETIÐ

HeimiliPersónulegtSamstarf

Heimsins fallegasta parketið! Það eru stór orð en ég er fullviss um að ég hafi fundið eitt fallegasta harðparket sem til er. Síðastliðið haust þegar við vorum á fullu í framkvæmdum byrjaði ég á því að fara í allsherjarparket rannsóknarleiðangur, ég heimsótti flestar verslanirnar sem selja parket og fékk prufur, ég las marga þræði um kosti og galla harðparkets og viðarparkets, hlustaði á ráðleggingar arkitekta, fagaðila og skoðaði einnig aðrar lausnir eins og vínilparket. Já gólfefni áttu hug minn allan og á meðan leiðangri mínum stóð var ég algjörlega á mínum eigin vegum og ekki í nokkru samstarfi við neinn. Ég get nefnilega verið með mjög sterkar skoðanir þegar kemur að heimilinu og ef ég er ekki 100% hrifin þá er ekki möguleiki að hluturinn rati inná heimilið mitt. Ásamt mínum skoðunum þá er maðurinn minn smiður og vinnur mikið við að parketleggja heimili svo til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu þá voru kröfurnar okkar þær að:

Parketið þurfti að vera einstaklega fallegt, mikil gæði, virkilega sterkt og geta þolað mikið, hafa löng borð og mörg prent til að sjá ekki oft endurtekningar sem getur verið algengt með ódýrari harðparket. Að auki var efst á listanum okkar að fá besta undirlagið með góðu hljóðísogi – þar sem við þekkjum það alltof vel að hafa heyrt of mikið á milli hæða þar sem við höfum búið áður. Með þessar kröfur fékk ég sérfræðinga í verslunum til að sýna mér hvað í boði væri og endaði ég með alltof margar prufur.

// Samstarf í formi afsláttar. 

Vá ég get varla lýst því hversu ánægð ég er með lokavalið en á hverjum degi þegar ég horfi á gólfið mitt hugsa ég “mikið rosalega er þetta fallegt parket”… og ég er ekki einu sinni að ýkja. 

Eftir tveggja mánaða parketpælingar haldið þið ekki að fyrsta parketið sem ég fékk prufu af hafi orðið fyrir valinu! Það er Light Cracked Oak harðparket frá Parka í Kópavogi, það er svo æðislega fallegt að ég hálfpartinn trúi því varla að þetta sé harðparket! Ég hafði tekið með prufu heim af Light Cracked Oak og á prufunni var lítið brot af dökkri rák sem finna má á öllum parketborðunum og með tímanum (já ég var í tvo mánuði að hugsa) gleymdi ég hvernig heildarmyndin hafði verið í versluninni. Það var því ekki fyrr en ég fór í aðra heimsókn í Parka og það rifjaðist upp fyrir mér að þetta var fallegasta harðparket sem ég hef séð! Ég vil þó einnig taka fram fyrir áhugasama að samskonar útlit er til í ekta viðarparketi hjá Parka sem ég hefði svo sannarlega valið hefðum við verið að leita að viðarparketi.

Ég gerði þó nokkuð stóra skoðanakönnun hjá mér á Instagram @svana.svartahvitu þar sem ég bað fylgjendur að kjósa hvort væri betra “Harðparket” eða “Viðarparket” þar sem um 4 þúsund manns kusu og fékk ég einnig sent til mín nokkuð hundruð skilaboð varðandi persónulegar skoðanir og upplifanir fólks á þessu “stóra” máli. Niðurstaðan var mjög jöfn eða um helmingur mælti með harðparketi sem segir okkur það að það er mjög persónulegt val hvort henti betur.

Nokkrir af helstu arkitektum landsins sendu mér skilaboð og mæltu eindregið með að velja ekta viðarparket, fyrir betri upplifun, náttúlegt útlit, umhverfisvænt, eldist fallega, hægt að pússa upp eftir áralanga notkun og mörg önnur frábær rök. Á móti komu rök þeirra sem höfðu jafnvel prufað bæði, sumir töluðu um að svona miklar hitabreytingar eins og hér á Íslandi hefðu áhrif á ekta gólfefni, það þolir illa vatnsskemmdir og sést á gólfinu eftir mikla umgengni, för eftir hælaskó og blettir eftir mat og föndurtilraunir barnanna fékk ég m.a. að heyra. Mér þótti þetta hinsvegar virkilega áhugaverðar umræður sem ég lenti í og er orðin töluvert fróðari og er hreinlega í báðum liðum: harðparket á móti viðarparketi.

Okkar ástæður fyrir vali á harðparketi eru þær að við erum með barn á heimilinu og líka gæludýr sem kemur inn með blautar loppur alla daga – oft á dag, budget-ið sem átti að fara í gólfefni var ekki ótæmandi (harðparket er ódýrara), og Andrés minn sem er með vatnstjón á heilanum vildi gólf sem mun þola smá vatn. Eftir tvo mánuði og verandi í nánast beinni á stories á Instagram þá fyrst nálgaðist ég Parka varðandi kaup á drauma parketinu mínu.

Ég fékk framúrskarandi þjónustu hjá Parka allt frá fyrstu heimsókn, en ástæða þess að ég hef ekki samband við fyrirtæki áður en af heimsókn verður er sú að ég vil ekki að þjónustan litist af því að um samstarf sé að ræða, enda þræddi ég allar verslanir til að hafa raunverulegan samanburð.

Núna hafa liðið um tveir mánuðir síðan parketið var lagt á og ég gjörsamlega elska nýja gólfið mitt. Einhverjir héldu að ég yrði þreytt á dökku rákunum á gólfinu en það eru þær sem gefa gólfinu líf og gera það svona fallegt og einstakt. Þrátt fyrir að vera harðparket þá er það hlýlegt og raunverulegt, parketið er einnig virkilega sterkt – við prufuðum að rispa það mjög fast með hníf og það kom ekkert far (áður en við lögðum gólfið haha), og það besta er að ég þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af skemmdum og viðhaldi. Einnig er mjög ljúft að upplifa það að vera með gæða undirlag og raunverulega kosti þess sem er sá að það heyrist ekki á milli hæða – DRAUMUR minn hefur ræst. Halelúja!

Og svo eru það myndirnar – allar þakkir fara til elsku Andrésar míns sem er svo mikill fagmaður og fræddi mig einnig um hvernig ætti “ekki” að leggja parket til að heildarmyndin verði sem fallegust, það þarf nefnilega að vanda til verka til að fá góða útkomu. Það mikilvægasta að okkar mati þegar lagt er parket er að það myndist ekki “tröppugangur” með samskeytin, og best er að ná að hafa 40 cm á milli samskeyta.

Kveðja, parket nördið.

      Harðparket : Light Cracked Oak  // Verslun : Parki í Kópavogi

Ég gæti ekki verið ánægðari með útkomuna og er svo alsæl með þessi kaup okkar ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu en á morgun fer ég erlendis á spennandi hönnunarsýningu sem ég kem til með að sýna frá. 

INSTAGRAM VIKUNNAR @ELLEDECORATIONSE

Skrifa Innlegg