fbpx

FYRIR & EFTIR HJÁ BLOGGARANUM JÓNU MARÍU

BaðherbergiÍslensk heimili
Það er fátt skemmtilegra en að skoða vel heppnaðar fyrir og eftir myndum frá fallegum heimilum og hér er eitt slíkt á ferð. Jóna María Ólafsdóttir er fagurkeri mikill, hún er verkefnastjóri og förðunarfræðingur og er einnig bloggari hjá vefsíðunni Platonic. Hún tók nýlega baðherbergið á heimilinu alveg í gegn og breytingarnar eru svo æðislegar að ég mátti til með að fá að deila myndunum með ykkur.
Byrjum á því að skoða hvernig rýmið leit út fyrir breytingar en þar var áður svefnherbergi!
Segðu okkur aðeins frá framkvæmdunum?
Þegar við fengum afhent var baðherbergið í 5 fm herbergi, staðsett milli hjónaherbergis og annars svefnherbergis. Svefnherbergið er samkvæmt upprunalegum teikningum eldhús en fyrri eigendur höfðu fært eldhúsið í alrýmið til að fjölga svefnherbergjum, eins og er algengt í gamla vesturbænum og víðar.
Við ákváðum að draga lagnir úr gamla baðherberginu yfir í þetta 9 fm svefnherbergi og útbúa þar baðherbergi, með sturtu, vaskainnréttingu, salerni og stórri þvottaaðstöðu. Ég hannaði allt skipulagið á baðherberginu, í samráði við pípara og vini sem höfðu farið í svipaðar framkvæmdir. Það var mjög lærdómsríkt og kveikti í mér áhuga á innanhúshönnun.
Við gerðum herbergið nánast fokhelt og þurftum eðlilega að brjóta okkur leið að lögnum. Ásamt því að draga inn lagnir og niðurfall, settum við gólfhita og falskan vegg fyrir innfelld blöndunartæki. Í framhaldinu flísalögðum við alla veggi nema einn, hengdum upp innréttingar, steyptum sturtubotn og fleira.
Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum? 
Hlýlegum og ljósum með dass af glamúr. Ég heillast af stílhreinum og praktískum lausnum en með dass af gylltum áherslum, plöntum og öðru skrauti.
Ég lýsi því stundum sem svo að innra með mér berjist tveir persónuleikar um athyglina, önnur er yfirveguð miðaldra kona í svartri dragt og hin er sjö ára stelpa sem vill helst ganga um í bleikum glimmer göllum.
Svo þykir mér gaman að endurnýta og gefa gömlum hlutum því nýtt líf. Við erum um þessar mundir að lakka og gera upp gamla TON stóla, sem ég keypti notaða.
Gátuð þið gert mikið sjálf eða fenguð þið aðstoð fagfólks?
Við búum vel að því að pabbi minn er ótrúlega laghentur og getur gengið í flest verk. Pabbi, maðurinn minn og frændi parketlögðu t.a.m alla íbúðina með eikar parketi í fiskibeinamunstri. Ég er ekki viss um að ég leggi aftur í það á næstunni, það var svo tímafrekt og flókið að leggja! :) Þeir flísalögðu sömuleiðis sjálfir baðherbergið. Við gengum í flest verk tengd niðurrifi og uppbyggingu en fengum pípara í alla lagnavinnu tengda baðherberginu, enda nauðsynlegt að það sé vel gert með aðkomu fagmanna. Þá fengum við rafvirkja í tilfallandi verkefni.
Hvaðan eru innréttingarnar og tæki?
Blöndunartækin eru frá Lusso Stone, spegill og sturtugler frá Íspan, innréttingarnar frá IKEA, borðplatan á baðinnréttingunni frá Rein og frontarnir á hana frá HAF store.
Þegar þú lítur til baka, er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi? 
Já, eflaust mjög margt. Þetta var í fyrsta skipti sem við réðumst í svona miklar framkvæmdir og við lærðum ótal margt á ferlinu.  Það sem mér dettur fyrst í hug er eflaust mjög klassískt, að reikna með meira fjármagni og tíma. Svo eru ýmis minni atriði sem við vitum af og myndum hugsanlega gera með öðrum hætti, en flestir eru það hlutir sem aðrir taka ekki eftir.
Eru fleiri framkvæmdir á dagskrá?
Öllum stórum framkvæmdum innan íbúðarinnar er lokið í bili. Ásamt baðherberginu tókum við niður heilt herbergi og nokkra veggstubba, lokuðum hurðagati, pússuðum og lökkuðum allar innihurðir, ásamt áðurnefndri parketlögn. Eftir nokkur ár er stefnan að gera upp eldhúsið, endurskipuleggja það og setja upp eldhúseyju. Við byrjuðum strax og hugsa uppsetninguna og komum m.a. fyrir raflögnum undir parketinu, til að eiga möguleika á að setja rafmagn í eyjuna og tengja þar helluborð.
Núna er ýmislegt smálegt á döfinni, eins og að velja gólflista og gereft. Ég er sömuleiðis með háfleygar hugmyndir um sérsniðinn geymslubekk, með hillum og skúffum, inn í holið hjá okkur og að búa til rattan borðstofuskenk úr IKEA skápum. Það er semsagt ýmislegt skemmtilegt framundan :)

Stórkostlegar breytingar á þessu gullfallega baðherbergi. Fyrir áhugasama þá er hægt er að fylgjast með Jónu Maríu á Instragram hér @jonamaria.

Eigið góða helgi!

4 ÁRA AFMÆLI DIMM & 20% AFMÆLISAFSLÁTTUR

Skrifa Innlegg