ARNA & SIGVALDI: BAÐHERBERGIÐ TILBÚIÐ!

Baðherbergi

Það er aldeilis baðherbergjaþema í gangi hér á blogginu mætti segja og er því alveg tilvalið að sýna ykkur núna lokaútkomuna hjá þeim Örnu og Sigvalda sem við höfum fylgst með taka í gegn þeirra fyrstu íbúð. Stóra baðherbergjafærslan sem ég birti í gær -sjá hér- er að slá öll met og lítur út fyrir að okkur vanti bara smá loka spark í rassinn til að hefjast handa. Þó leggja ekki allir í svona miklar framkvæmdir eins og þau Arna og Sigvaldi en það er alltaf gott að fá innblástur!

1-400x627

Segðu okkur Arna hvað er að frétta frá því síðast? Núna erum við Sigvaldi loksins búin að taka í gegn alla íbúðina, eða það sem við ætluðum okkur að gera frá því við fluttum inn. Fyrir um ári síðan gerðum við smá bráðabirgða breytingar á baðherberginu en planið var alltaf að fara svo seinna í stærri breytingar sem nú hafa loksins átt sér stað. // Sjá færsluna hér.

Hvað er það helsta sem þið breyttuð núna? Við tókum út baðkarið og settum sturtu og skiptum einnig um vask og blöndunartæki ásamt því að flísaleggja.

17409464_10154461371071238_785654280_n

Hvaðan fenguð þið hugmyndir um útlit á baðherberginu? Þegar við byrjuðum á að fara yfir hugmyndir og útfærslur um hvernig við vildum hafa baðherbergið kom Pinterest og Instagram að góðu gagni. Sem betur fer erum við Sigvaldi oftast á sama máli með stílinn á heimilinu og því ekki erfitt fyrir okkur að vera sammála um hvað við viljum og hvað ekki.

Hvaðan völduð þið innréttingar og gólfefni? Við enduðum á að kaupa allt í BYKO, við byrjuðum á að kíkja á tilboðsdaga sem þá voru í gangi og skoðuðum úrvalið. Áður en við vissum af vorum við búin að finna allt sem okkur langaði í á baðherbergið og þökk sé Ástu snillingi hjá þeim að þá var þetta fljótt að smella saman, okkar sýn var komin á pappír og allt í takt við fjármagnið sem við vorum tilbúin að eyða í baðherbergið.

Eftir að við vorum búin að taka allar ákvarðanir með útlitið á baðinu fórum við aftur í Byko og fengum lokatilboð í allan pakkann, frá leigu á búnaði sem við þurftum í framkvæmdirnar yfir í blöndunartækin og flísar … og vá þvílíkur lúxuuuus að fá þetta allt bara á sama staðnum!

Er einhver sérstök hugsun á bakvið litaval og annað? Baðherbergið hjá okkur er ekki stórt auk þess sem það er gluggalaust, svo dökkir litir voru strax teknir út af borðinu til að minnka ekki rýmið og til halda einhverri birtu þarna inni. Við vildum hafa kósý inná baði og hafa þetta stað sem væri hlýr og notalegur.

1

Liturinn sem þau völdu á flísarnar var grár sem passar einnig vel við litinn á parketinu í íbúðinni.

4

Hvernig gengu svo framkvæmdirnar fyrir sig? Sigvaldi byrjaði á að strípa niður allt baðherbergið og vá hvað það kemur mikið ryk! Við mælum með fyrir alla sem ætla að fara í svona framkvæmdir að hafa mjög góða iðnaðarryksugu og plasta allt vel því það kemur ryk á staði sem þú vissir að væru ekki til. Við byrjuðum fyrsta daginn á að nota heimilisryksuguna og komumst fljótt að því að það væri ekki málið útaf fína rykinu sem kom og fórum því og leigðum góða iðnaðarryksugu í Byko sem létti okkur lífið talsvert.

Allavega… eftir að búið var að taka dúkinn, pússa allt niður og taka eins mikið ryk í burtu og hægt var að þá var byrjað að grunna veggina og gólfið með rakavörn. Eftir það hófst múrvinnan og gerð á sturtubotninum. Við vorum svo heppin að fá Alla (Alexander Óðinsson) vin hans Sigvalda sem starfar sem múrari til að koma og sýna okkur réttu handtökin við múrverkið en það er mjög mikilvægt að fá leiðbeiningar frá einhverjum sem er með þekkingu í að múra til að aðstoða við múrverkið því það er grunnurinn að þessu öllu saman og skiptir gríðalega miklu máli að það sé vel gert. Eftir góða kennslustund og múrinn kominn á þá var næst sett vatnsþéttifilma í allar kverkar eftir að Sigvaldi var búinn að setja upp falskan vegg meðfram lögnunum. Þar á eftir setti hann tvær umferðir af vatnsþéttifilmu á veggina og það látið þorna. Undirbúningsvinnan var mun tímafrekari en við bjuggumst bæði við en hún er mjög mikilvæg uppá að það komi ekki lekaskemmdir/rakaskemmdir undir flísarnar svo þessi vinna var vonandi öll þess virði.

Flísavinnan kom síðan mun betur út en við þorðum að vona enda algjört tilraunaverkefni hjá okkur. Lykilatriðið er að vera rosalega þolinmóður því þetta var mikil vandvirknisvinna og ég get ekki verið stoltari af Sigvalda að hafa náð að gera þetta sjálfur!

2-copy

Flísarnar sem við völdum heita Sintesi Eliementi Grigo og eru með mjög litla vatnsdrægni. Fúgan sem okkur var ráðlagt að nota er svo með vörn gegn bakteríum, sveppum og myglu og hentar því vel á baðherbergi, hún fékkst einnig í Byko.

Hvers vegna sturtu í stað baðkars? Ég er mikill aðdáandi að stílhreinum og stórum opnum sturtum og hafði áður leigt hús sem var með tvöfaldri risastórri walk in sturtu sem mig langaði svo mikið í. En þar sem við vorum með ákveðið budget í þetta verkefni þá þarf maður að minnka kröfurnar á sumum stöðum. Þar sem við vorum að nýta lagnir sem voru fyrir og vildum sleppa við að færa þær þá komumst við að samkomulagi um að hafa opna einfalda sturtu með stórum sturtuhaus. Við vildum bæði hafa sturtuna opna og með gleri en ekki hengi til að rýmið væri nýtt sem best og væri sem stílhreinast.

3-copy

Blöndunartækin sem þau völdu eru öll frá merkinu Grohe.

Hvernig gekk að koma öllu vel fyrir á þessu litla baðherbergi? Vaskurinn og innréttingin var smá höfuðverkur fyrir okkur í byrjun þar sem við erum með lítið pláss til að leika með en það voru til svo margar fallegar og stærri innréttingar sem okkur langaði í sem einfaldlega pössuðu ekki inná baðherbergið. Við vildum þó halda rýminu stílhreinu og skoðuðum mikið af vöskum og litum á innréttingu en enduðum alltaf í hvítu. Við fundum í Byko ferðinni þegar við vorum að velja flísarnar þennan vask og innréttingu sem hentaði mjög vel í rýmið og var á fínu verði svo við vorum ekki að velta þessu mikið meira fyrir okkur og erum við bara mjög sátt með hvernig þetta kom út.

Hvernig er svo tilfinningin að vera loksins búin? Í heildina litið erum við hrikalega sátt með útkomuna, við náðum þeim markmiðum sem við lögðum upp með, þ.e. að stækka rýmið, gera baðherbergið notarlegt og halda okkur innan budgets. Þeir þættir sem hjálpuðu okkur mest eru líklegast aðstoð Alla múrara við grunninn á baðherberginu, Youtube myndbönd og öll þessi ráðgjöf sem við fengum frá snilldar starfsfólki í Byko. Við Sigvaldi erum nefnilega ekki iðnmenntuð en erum að reyna að krafsa okkur í gegnum það að gera upp íbúð sjálf og það að geta gengið inn í verslun og fengið svör við því sem þér vantar er ómetanlegt og því vert að taka fram, því það eru svo sannarlega ekki allar verslanir sem eru með þá þjónustu eins og við vitum líklegast flest.

// Ég samgleðst þeim alveg innilega að vera loksins búin í framkvæmdunum og íbúðin orðin svona glæsileg, en eins og áður hefur komið fram þá voru allar breytingarnar gerðar í skrefum en ekki allt í einu svo verkin og kostnaðurinn voru yfirstíganlegri. Þeim tókst líka að klára allt í tæka tíð en það eru ekki nema örfáar vikur í að þau eignist sitt fyrsta barn og geta því verið róleg í hreiðurgerð. Takk elsku Arna og Sigvaldi fyrir að leyfa okkur að fylgjast með ♡

Næstu framkvæmdarfærslur verða svo af fjölskyldubústaðnum sem við erum á fullu að taka í gegn og einhver ykkar hafa þegar fengið að sjá smá af á Svartahvitu snappinu.

svartahvitu-snapp2-1

Fullorðins…

Lífið Mitt

Í dag er mikil ástæða til að fagna vel og lengi – í dag eignuðumst við Aðalsteinn okkar fyrstu íbúð – eða alla vega erum við búin að skrifa undir ógrynni af pappírum og ég nú þegar komin með sinaskeiðabólgu…

Ég hef nú gert ýmislegt um ævina en nú er þetta orðið formlegt – ég er fullorðin :)

10537874_10203634229570586_261840992286363047_nVið uppgötvuðum allt í einu um daginn hvað við erum orðin gömul… Já ég veit ég er 24 ára ég er alls ekki gömul en þegar maður er að pæla í húsnæðiskaupum þá er ég gömul. Ef við skoðum þetta praktískt – ef ég vil vera búin að borga upp 40 ára fasteignalán áður en ég fer á eftirlaun þá þurfa þessi kaup bara að fara fram asap! En þetta tókst og ég og minn maður getum vonandi verið einmitt búin að borga öll þessi lán þegar við verðum gömul, lúin og allt í einu með miklu lægri tekjur.

Ég veit ekki með ykkur en ég er svona týpa sem meika ekki að ræða peninga og fjármál og er eiginlega bara hrædd við svona hluti eins og lán og annað. En ég hef sem betur fer þroskast á síðustu árum og lært að fara með peninga – ég kunni það ekki áður ég var ein af þeim sem tók laun út í fötum og átti því ekki pening til að gera neitt annað. En hins vegar átti ég alltaf ný föt. Svo fattar maður allt í einu að forgangsröðunin þarf að vera önnur það gerist eiginlega um leið og maður fer að standa á eigin fótum – flytur að heiman og þarf að borga reikninga sem maður þurfti ekki áður. Ég varð skíthrædd þegar Aðalsteinn fór því að tala um að kaupa fasteign og hummaði þetta bara alltaf frá mér þar til hann settist niður með mér og fór yfir staðreyndir málsins. Ég er mjög ánægð með það og ég er ótrúlega ánægð með ákvörðun okkar og hrikalega spennt fyrir framtíðinni og litlu íbúðinni okkar.

Þegar við hófum leit sáum við fyrir okkur að eignast bjarta þriggja herbergja íbúð í helst póstnúmeri 104 eða 105 – það tókst og við erum í skýjunum og sérstaklega sonurinn sem fær í fyrsta sinn sitt eigið herbergi ásamt risastórum garði og leikfélaga sem á heima í húsinu.

Screen Shot 2014-07-14 at 9.32.05 PM

En eins og eflaust hjá mörgum öðrum þá var leitin löng og erfið. Ég horfði á eftir tveimur draumaíbúðum með tárin í augunum. Það var mjög erfitt að koma alveg ný inná fasteignamarkaðinn og vita lítið sem ekkert um það hvernig hlutirnir gengu fyrir sig. Við vissum ekkert hverju við ættum að líta eftir þegar kæmi að íbúðinni sjálfri – hvar eru skemmdir, leka gluggarnir, hvernig er staðan á dreninu – allt er þetta eitthvað sem ég lærði að ég ætti að spurja að eftir ógrynni af opnum húsum. Við erum búin að sjá það allt, íbúðir sem anga af reykingarlykt, íbúðir þar sem möguleikarnir voru endalausir og verst með förnu sameign sem ég hef á ævinni séð. Allt varð þetta til þess að þegar fasteignasala sem við höfðum nokkrum sinnum skoðað íbúð hjá bauð okkur aðstoð af fyrra bragði. Þau Andrea og Friðþjófur hjá Miðborg fasteignasölu komu okkur svo sannarlega til bjargar og Andrea mætti með okkur á hvert opna húsið af fætur öðru, leitaði af kostum og göllum sem okkur datt ekki í hug að forvitnast um og var okkur innan handar þegar við gerðum tilboð. Það er nefninlega annað að ég veit ekki hvað í ósköpunum er raunhæft tilboð – en ég er svona nokkurn vegin komin með það á hreint núna :)

Ef þið eruð í fasteignakaupahugleiðingum þá mæli ég eindregið með því að þið sækist eftir hjálp frá fasteignasölum. Alla vega munum við Aðalsteinn eindregið mæla með þeim hjá Miðborg og þau fá fullt hús stiga frá okkur fyrir frábæra þjónustu – það skipti ekki einu sinni máli hvað klukkan var alltaf var Andrea tilbúin til að hjálpa og svara pælingum frá okkur.

Framundan er þó eftir smá ferli og ég satt að segja hlakka bara ótrúlega mikið til. Ég held þetta sé spennandi verkefni sem er framundan hjá okkur en ég held ég verði líka að vera þolinmóð því þetta mun ábyggilega taka sinn tíma – það að gera íbúðina okkar. Ég mun að sjálfsögðu leyfa ykkur að fylgjast með framgangi mála hér á blogginu.

EH