fbpx

4 MÁNUÐIR SYKURLAUS & HVERNIG VIÐ TÓKUM ÚT ALLAN SYKUR

Matur & baksturPersónulegt

Ég er búin að ætla að skrifa þessa margumbeðnu bloggfærslu mjög lengi skal ég segja ykkur. En veit oft varla hvernig ég eigi að byrja ♡ Í dag eru komnir um rúmir 4 mánuðir síðan ég (og Andrés) hættum að borða sykur. Ég hafði áður hætt að borða sykur og tókst vel til en byrjaði óvænt að borða aftur sykur á síðustu meðgöngu þegar ég fór að fá óstjórnlega löngun í nokkur sykruð matvæli – sem ég augljóslega stóðst ekki. Þegar dóttir mín var að nálgast eins árs afmælið og eftir marga mánuði af því að vakna allar nætur með grátandi barn var ég komin með bauga niður á hné og ákvað að núna yrði ég aftur að taka út sykur. Þetta er því ekki ákvörðun sem ég tók til að missa einhver kíló, alls ekki og mér leiðist í hreinskilni orðið slíkt tal. Ég tók þessa ákvörðun eingöngu til að ná aftur orku og að sjálfsögðu heilsunnar vegna, því við vitum flest að sykur er ekki góður fyrir neinn.

Þetta er svo auðvelt að þið trúið því varla. Fyrst og fremst þá þarf bara að hætta. Á mjög einfaldan hátt sé ég þetta svona: Sykur kallar á meiri sykur, sem veldur þreytu svo þú sækir enn aftur í sykur.

Lykilatriðið er að hafa þetta auðvelt og sem eðlilegast. Ég er alls ekki að hanga yfir einhverjum krúsídúllu uppskriftum með hráefnum sem enginn skilur hvað eru, borðandi bara heimagerðan mat og bakandi allt brauð sjálf. Alls alls ekki haha. Það hentar kannski einhverjum að fara á matarkúr og sumir sleppa öllu brauði og jafnvel ávöxtum. Ég persónulega vil ekki fara þá leið sem endar líklega bara á einn veg… því hver fer í gegnum lífið án þess að fá sér aftur nýbakað brauð með smjöri eða pizzu mmmmm,… nei ég bara spyr:)

Ég hef í gegnum tíðina verið voðalega holl inná milli og leyft mér um helgar þá bragðaref, snúð og álíka og svo mánudeginum eftir helgi átt erfitt með að “rétta mig af” því líkaminn sækir ennþá í sykruð matvæli og blóðsykurinn í ójafnvægi með tilheyrandi þreytu. Það hentar mér því langbest hef ég fundið út að borða einfaldlega það sem ég vil (án sykurs), þegar ég vil. En les á umbúðir og kaupi ekkert með viðbættum sykri í, þannig helst orkan jöfn allan daginn og ég finn ekki fyrir þreytu á daginn eins og gat komið fyrir áður, þá t.d. eftir máltíðir eins og margir kannast líklega við. Það einfaldlega gerist ekki þegar þú tekur sykurinn burt.

Það sem helst kemur á óvart er að það er viðbættur sykur í ótrúlega mörgum matvælum og tekur nokkur skipti í búðinni að lesa á bakvið allar flatkökur, sósur, múslí, jógúrt og slíkt til að finna út hvað á að kaupa. En útkoman er mjög skemmtileg vegferð sem verður auðveldari með hverjum deginum. Í rauninni er þetta bara erfitt í 3 daga. Þegar ég nefni að ég lesi á umbúðir þá á ég við að lesa þar sem talið er upp innihaldsefnin (hveiti, salt, krydd…) og á ég því ekki við næringarinnihaldslistann / orka, fita, kolvetni – þar sem mjólkur og ávaxtasykur er talinn með undir sykurtegundir.) Tek aftur fram að svona geri ég þetta – þið þurfið ekki að gera þetta eins;)

Lykilatriðið hjá mér var að eiga til sykurlaust súkkulaði og nýbakað súrdeigsbrauð fyrstu dagana (þau eru flest án sykurs). Það má vel vera að það flokkist ekki undir hollustu en þegar þú ert að ná sykrinum úr líkamanum og ert sælkeri eins og ég þá mæli ég með að eiga eitthvað gott til að narta í. Þessi færsla hljómar kannski ekki eins og það hollasta á plánetunni, en minn raunveruleiki var sá að ég var algjör sykurfíkill og því var eina leiðin fyrir mig að finna að það væri líka hægt að borða gott og sætt þó það væri sykurlaust. Svo jafnast það út því þörfin fyrir sætindi minnkar ósjálfrátt.

Ég myndi mæla með að byrja um helgi, eiga t.d. til gott brauð og gúrme álegg í hádeginu og jafnvel skella í pönnukökur (mínus sykur) með rjóma og sykurlausri sultu (ég kaupi þessar hreinu í háu krukkunum) eða sykurlausa súkkulaðiköku (uppskriftir hér). Ef þú drekkur ekki kaffi þá eru margir safar hreinir og án viðbætts sykurs, og ég mæli hvort sem er með að kaupa slíkt ef það eru börn á heimilinu því þau hafa ekkert að gera við safa með viðbættum sykri í (Svali, Capri sun og allt það.). Þá er betra að velja t.d. Floridana og the Berry Company sem eru án viðbætts sykurs og án efa margir aðrir kostir í boði.

Í sumar reyndi stundum á í grillveislum því það er sykur í flestum hamborgarabrauðum, pulsubrauðum, nánast öllum tilbúnum sósum og jafnvel í klassískum pulsum úff! En þið eruð líklega sloppin við mesta grilltímabilið haha! Auðvitað er auðveldast að grilla bara kjöt en það er ekki alltaf þemað og þá er lykilatriði að vera útsjónasamur:) Til eru t.d. kjúklingapulsur (sem eru auk þess með hærra % af kjöti og því hollari), hægt að vefja þeim í venjulegt brauð eða súrdeigsbrauð, nota tómatsósu með steviu, steiktan lauk og bernaise;) eða nota hugmyndaflugið einfaldlega! Varðandi hamborgarana þá eru svosem til sykurlaus brún ketóhamborgarabrauð í búðinni en ég hef einnig fundið mjúk hvít rúnstykki sem innihalda ekki sykur, gott að nota bara annan helminginn í einu og hlaða á nóg af grænmeti og ostum. Varðandi sósur þá eru heimagerðar alltaf bestar en við kaupum oft bernaise (mjög góð t.d. til í Nettó án sykurs).

Helsti munurinn sem ég hef fundið er meiri orka og það sama má segja um Andrés, hann hjólaði í kringum landið þegar við vorum nýlega búin að taka út sykur og fann hann mikinn mun á þoli og krafti – ég hef svosem engin slík afrek að monta mig af en hlakka til að bæta við meiri hreyfingu þegar dóttir okkar byrjar í daggæslu í haust. Ég vil alls alls ekki að þessi bloggfærsla snúist um kíló svo ég ætla ekki að fjalla um þann þátt hjá okkur hjúum en get einfaldlega lofað því að þér mun líða betur. Og að heimsins mestu sælkerar geta þetta ef ég get þetta ♡

Það sem ég á alltaf til á heimilinu (sem þýðir alls ekki að ég borði það alla daga), en þegar mig langar í eitthvað gott eða smá sætt. Það er sykurlausa Valor súkkulaðið, í dag á ég alltaf til m.a. Dark sem minnir mikið á Suðusúkkulaði frá Nóa og mjólkursúkkulaðið með möndlum. Ég fór í gegnum margar súkkulaðiplötur þegar ég tók fyrst út sykurinn fyrir 2 árum og svo líka núna í sumar og valdi alltaf Valor því það er minnsta gervisætubragðið af því, einfaldlega virkilega gott súkkulaði og hjálpaði mér mikið. Í dag er ég í samstarfi við Valor – en var það ekki í upphafi þegar ég smakkaði alla sykurlausu deildina og féll fyrir þessu vörumerki og keypti í tugatali haha. Valor fæst í flestum verslunum, en öll vörulínan er t.d. í Fjarðakaup og Bónus, og í Krónunni eru nokkrar tegundir (mættu þó bæta úrvalið;). Ég kaupi líka oft döðlur sem eru æðislegar frystar með hnetu/möndlusmjöri og einnig til tilbúnar í búð með lakkrísdufti t.d. Mmmm.

Ég borða oft m.a. hafragraut (spari með rjóma, chia, hampfræum og döðlusýrópi), og stundum morgunkorn (til frá Bear í t.d. Nettó og Fjarðarkaup sem er eina morgunkornið sem ég hef fundið sem er sykurlaust), ávexti, egg, avakadó, flatkökur með góðu áleggi, eða ristað heimilisbrauð (þetta klassíska), stundum boozt með allskyns gúrmi í og með hreinu skyri eða grískri jógúrt, gríska jógúrt með hnetusmjöri + rúsínum + múslí + döðlusýrópi mmm. Allt kjöt og allan fisk (margir tilbúnir réttir þó með sykri í). Hakk, spagettí og hvítlauksbrauð (grófkorna eru oft án sykurs í frystinum). Ef það er grjónagrautur á óskalistanum hjá syni mínum þá fæ ég mér með honum en nota hreinan kanil og jafnvel smá döðlusýróp ofan á fyrir sætuna. Ef ég kaupi tilbúið salat þá sleppi ég sósunni (nánast allar sykraðar) og bið um ólívuolíu í staðinn. Um helgar og oftar… þá eigum við alltaf til súrdeigsbrauð, eða stundum rúnstykki úr bakarí (þau eru sum án sykurs það þarf bara að spurja). Eins og þið sjáið þá er hægt að borða allan venjulegan mat eins og áður, bara mínus sykurinn.

Á meðan ég skrifaði þessa færslu þá lagði ég þetta undir Andrés hvað honum þætti erfiðast við að vera sykurlaus, svarið var að honum þykir þetta mjög auðvelt og hefur gaman af því að lesa á bakvið umbúðir og læra alltaf eitthvað nýtt. Einu skiptin sem væru erfið eru í matarboðum og afmælum ef ekkert sykurlaust er í boði (gerist mjög sjaldan) á meðan aðrir gestir borða kökur eða annan eftirrétt. Að þá væri mikilvægt að vera búin að undirbúa sig, jafnvel bjóðast til að koma með eitthvað á borðið og mætti það vera t.d. döðlukakan góða, ostabakki (nokkrar kextegundir til án sykurs þarf að rifja upp tegundina), bananar til að grilla með smá súkkulaði og rjóma (líka til sykurlaus ís í boxi og á pinna (með ljóni framan á), eða jafnvel snakk og dýfu því þrátt fyrir að vera alls ekki hollt þá eru margar snakktegundir án sykurs – sem eru gleðifréttir fyrir minn mann haha.

Hér má sjá nokkrar sykurlausar uppskriftir sem ég hef verið að prófa mig áfram með en ég elska að geta bakað eitthvað gott um helgar eða fyrir skemmtileg tilefni. Kíktu endilega á flokkinn “Matur og bakstur” sem ég ætla að reyna að bæta við sem fyrst fleiri sykurlausu gúrmi.

Þið getið fundið ótal greinar á vefnum um það að verða sykurlaus, en mér hefur þótt þær allar ganga útfrá því að það sé bara ekkert mál að fara úr því að vera sælkeri yfir í einhvern sem vill narta í sellerí með hummus á kvöldin og baka hveitilaust brauð úr allskyns dúlleríi – smá ýkjur kannski:) Þannig er þó ekki raunveruleiki allra, og þau okkar sem erum sykursæt í gegn þurfum að sjá að það er líka hægt að borða allt þetta góða, það þarf bara að fara smá krókaleiðir að því stundum. Eins og t.d. þegar við Andrés föttuðum eitt föstudagskvöld að við gætum pantað pizzu með sykurlausum (laufléttum) botni, sleppt sósunni (sykur í henni á flestum pizzastöðum) og sett á hvítlauksolíu í staðinn mmmm.. það kalla ég sko life hack haha ♡

Ég gæti þó skrifað enn lengri færslu um þetta og mun án efa koma aftur inná þetta sykurleysi með fleiri tipsum og trixum sem ég læri á leiðinni og deili kannski helstu matvælunum sem ég á alltaf til. Rauði þráðurinn í þessu öllu er sá að ef þú leyfir þér þessar kræsingar sem ég nefni þá vaknar þú ekki daginn eftir ennþá með löngun í enn meira sætt því það er enginn sykur til staðar sem kveikir í þeirri “fíkn”. En ég tek aftur fram að þetta er sú leið sem ég kýs, og þó þú hafir aðrar skoðanir á hvernig eigi að borða eða hafir lesið eitthvað um að hveiti breytist í sykur eða um ávaxtasykur og neyslu á honum þá er það bara líka frábært og ég segi bara GANGI ÞÉR VEL ♡

Endilega skildu eftir athugasemd ef þú ert með einhverjar spurningar eða fleiri tips eða trix varðandi sykurleysi! Þú getur einnig fylgst með mér á Instagram @svana.svartahvitu

BLÁIR LITIR & FLOTTAR MYNDIR Á ÖLLUM VEGGJUM

Skrifa Innlegg

3 Skilaboð

 1. Sigrún Víkings

  6. August 2021

  Vel gert Svana! Gaman að lesa hvað sykurleysið gengur vel og er lítið mál. Líka fyrir sælkera😀

 2. Bjorg

  9. August 2021

  Sæl Svana og takk kærlega fyrir þennan pistil – ég er einmitt að reyna að taka út sykurinn og var svo glöð að sjá að það eru fleiri en ég sem fara ekki alveg yfir í sellerýið og hummusinn.
  Ég hrökk aðeins við þegar þú talaðir um að hefðbundna pylsan væri með sykri (ég elska pylsur) og því googlaði ég og skv þessari slóð hjá ss – þá er hún sykurlaus.
  https://www.ss.is/vorur/ss-pylsan/
  Vildi bara láta þig vita ef þig langar að bæta henni inn aftur.
  kv Björg

 3. Helgi

  13. August 2021

  Ég er núna að verða búinn í þriðja “sykurlausa” árinu. 22 kíló farin. Mikið meiri orka. Liðagigtin i fingrunum er mikið betri. Hnéin eru betri, enda minna álag. En ég er ekki alveg sykurlaus, ef það er kaka í boði fæ ég mér litla sneið. Ég geri sjálfur sultur og pönnsur, ég helminga sykurinn í uppskriftinni og læt það duga. Ég kaupi vörur með sykri, á meðan hann er ekki í fyrsta 4 sætunum á innihaldslýsingunni.
  Psv. Tómatsósa getur innihaldið töluverðan sykur.