fbpx

VIÐTAL: MENNIRNIR Á BAKVIÐ MIKADO

INTERIORÍSLANDVIÐTAL

Á Hverfisgötu er hægt að finna eina fallegustu verslun landsins Mikado. Ég á það til að fara þangað inn mér til dægrastyttina eða bara þegar mig langar að góla af aðdáun. Búðin er falleg, andrúmsloftið róandi, ilmurinn unaðslegur og alltaf tekið á móti manni með hlýju og ‘ gooood vibes ‘. Aðilarnir á bakvið nákvæmlega það er Aron Freyr og Einar Guðmundsson. Báðir menntaðir grafískir hönnuðir og brjálaðir fagurkerar. Hver einasti fermeter er úthugsaður og hver einasta vara vandlega valin inní þessa fallegu búð. Nýlega kom kynntu þeir til leiks nýtt merki sem ég er mikill aðdáandi af, Le Labo. Í kjölfarið plataði ég þá í smá viðtal, til að gefa forvitninni minni smá útrás –

Nafn: Aron Freyr Heimisson og Einar Guðmundsson

Aldur: Aron er 30 ára og Einar 36 ára.

Stjörnumerki (rísandi og tungl ef þið vitið):
Aron er fæddur 3. desember 1990 og er því bogamaður, tungl í krabba, rísandi ljón — Einar 26. desember 1984 og er steingeit, tungl í vatnsbera, rísandi vog. (Skv. einhverju Googli)
Hverjir eru mennirnir á bakvið Mikado Reykjavik?

Mennirnir á bakvið Mikado eru þeir Aron Freyr Heimisson og Einar Guðmundsson. Þeir eru báðir menntaðir grafískir hönnuðir og starfa sem slíkir auk þess að reka verslunina Mikado og prentstofuna Brotið blað, sem sérhæfir sig í hönnun og prentun bréfsefnis fyrir viðburði og veislur.

Hvar fæddist hugmyndin og hvernig byrjaði þetta? / Hvernig hefur ferlið verið hingað til?

Hugmyndin hefur lengi blundað í okkur að við vildum opna rými þar sem við gætum samtvinnað verslun, grafíska hönnun og prent, en við erum einmitt með vinnustofuna okkar inn af versluninni. Til að byrja með sáum við þetta fyrir okkur sem litla og kósý vinnustofu þar sem verslun fengi að vera með en þegar við fórum að skipuleggja þetta betur og af alvöru sáum við fljótt að okkur langaði að taka hugmyndina lengra og opna stærri verslun.
Það leið í raun ótrúlega stuttur tími frá því að við ákváðum að taka af skarið og hrinda þessu í framkvæmd, áður en við svo opnuðum í desember 2021. Við bjuggum í nokkurn tíma í Portúgal en fluttum heim í byrjun október í fyrra og höfðum þá smá stund til að staldra við og átta okkur á hvað tæki við. Það var svo í lok október sem við ákváðum að fara á fullt með verslunina og fórum þá í að finna húsnæði, hafa samband við vörumerki sem okkur langaði að taka inn, vinna að vörumerkinu og setja upp heimasíðu. Það var eiginlega ótrúlegt að við náðum að opna fyrir jól, en þetta voru allt í allt 6 vikur sem það tók að standsetja rýmið og fá vörur inn.
Það sem hefur gagnast okkur gífurlega er að við séum báðir grafískir hönnuðir, bæði þegar kemur að hönnun merkisins, uppsetningu heimasíðu og uppsetningu markaðsefnis.
Varðandi hugmyndina og stefnu Mikado að þá langaði okkur strax að blanda saman fagurfræði frá Japan og Skandinavíu. Við flytjum inn vörur beint frá framleiðendum og reynum eftir fremsta megni að bjóða upp á vörur sem fást ekki annarsstaðar eða hafa ekki verið í boði hérlendis áður. Þar má einmitt nefna nýjasta vörumerki okkar, Le Labo, en við erum búnir að vera áðdáendur þess í fjöldamörg ár og í skýjunum með að geta loks boðið upp á vörur frá þeim á Íslandi.
En að opna búð í miðju Covid, hvernig lagðist það í ykkur?
Við sáum í raun líka tækifæri í því að opna í miðju Covid, bæði hvað varðar ýmis kjör og svo sáum við líka að innlend verslun jókst til muna á þessum tíma svo við vorum alveg til í að láta slag standa og láta reyna á þetta.
Búðin ykkar er svo innilega og áberandi falleg, voruði strax með hugmynd um hvernig búðin átti að líta út eða kom það hægt og bítandi?
Við erum báðir með nokkuð sterkar skoðanir þegar kemur að hönnun og fagurfræði en sem betur fer fara þær skoðanir í langflestum tilfellum vel saman. Við vorum með nokkuð fyrirfram ákveðnar hugmyndir varðandi litaval og þessháttar en í rauninni fæddist útlit búðarinnar hægt og bítandi. Þetta var svo stuttur tími sem við höfðum svo þetta varð til hratt. Við hönnuðum allar innréttingar og borð sjálfir og fengum svo góða hjálp fá fjölskyldu við að smíða og setja þær saman.
Við viljum að fólk finni fyrir ró þegar það kemur til okkar og vilji gefa sér tíma til að skoða vörurnar sem við bjóðum upp á. Það var svona útgangspunktur þegar kom að hönnun rýmisins og við teljum að vel hafi tekist til. Öllum vörum er stillt vandlega upp og við erum ekki mikið í því að setja of mikið fram í einu, viljum frekar gera hlutunum hátt undir höfði því oftar en ekki eru þetta vörur með mikla sögu sem nær áratugi, ef ekki hundruði ára, aftur í tímann.
Hvað hefur verið það skemmtilegasta við Mikado? Og hvað hefur verið það mest krefjandi?

Það sem hefur verið skemmtilegast er að finna fyrir allri velvildinni og jákvæðninni í okkar garð. Það að leggja allt sitt í eitthvað og finna fyrir því að fólk hefur áhuga og finnist það spennandi hefur gefið okkur mikið. Við segjum oft að uppáhalds hrósin okkar séu þegar fólk kemur inn og segir að það sé eins og það sé komið til útlanda, þá vitum við að við erum að koma með eitthvað fersk og spennandi í flóruna hér í Reykjavík.

Hvaðan kemur innblásturinn og hvernig veljið þið vörurnar í Mikado?

Eins og áður segir kemur innblástuinn mikið frá Japan og Skandinavíu. Japönsku hugmyndafræðirnar Wabi-sabi og Shibui sem fjalla um hefðbundna japanska fagurfræði er eitthvað sem er okkur hugleikið. Þær fjalla í grófum dráttum um að sönn fegurð felist ófullkomleika og er stundum lýst sem fegurð sem er ófullkomin og hverful í eðli sínu.
Það blandað við hreinleika skandinavískrar hönnunar skilar sér í einstöku vöruúrvali en við handveljum hverja einustu vöru inn af mikilli kostgæfni og gætum þess að allt falli að conceptinu á bakvið Mikado.
Japanskt handverk hefur lengi staðið fyrir gæði og það hefur skandinavísk hönnun sömuleiðis gert, svo það er sérstaklega gaman að blanda saman þessum heimum í einn.
Í raun veljum við inn allt milli himins og jarðar sem okkur þykir fallegt og passa inn. Við erum með allt frá ilmvötnum yfir í te, frá hjólabjöllum yfir í loftljós.
Tölum aðeins um Le Labo, hvernig kom það til?
Samtal við Le Labo hófst í raun um leið og við opnuðum í desember á síðasta ári. Við höfum verið persónulegir aðdáendur lengi svo það var ákveðinn draumur að reyna að fá merkið inn.
Þau hjá Le Labo hafa lengi viljað koma til Íslands en hafa verið að bíða eftir réttum tíma og réttum aðila til að vinna með hér heima svo við fundum að áhuginn var strax til staðar. Hlutirnir gerðust nokkuð hratt á þeirra mælikvarða, við tileinkuðum þeim hluta af Mikado sem er aðeins undir þeirra vörur og var sá partur innréttaður í þeirra stíl. Blessunarlega er hann ekki ólíkur okkar eigin stíl í Mikado svo í raun er dálítið eins og Le Labo hafi alltaf verið hjá okkur, það fellur svo vel inn.

Fyrst var ekki víst hversu mikið vöruúrval við fengjum til okkar, en við gerðum það ljóst í byrjun að við værum til í að fá allt sem við gætum. Það er því gaman að segja frá því að við erum með öll ilmvötnin í klassísku línunni þeirra ásamt baðvörulínunni og ilmkertum.

Hver er ykkar uppáhalds ilmur hjá Le Labo?

Einar hefur notað Vetiver 46 lengi og Aron hefur nýlega skipt yfir í Baie 19, einstaklega ferskan og skemmtilegan ilm. Svo er ákveðinn lúxus fólginn í því að geta prófað sig áfram á hverjum degi. Við erum báðir forfallnir patchouli aðdáendur svo Patchouli 24 hefur komið virkilega skemmtilega á óvart. Hann er frekar kryddaður, með tjöru og vanillu í grunninn.
Svo er líka afar skemmtilegt að prófa sig áfram með City Exclusive línuna þeirra, en það eru ilmir sem fást bara í ákveðnum borgum víðsvegar um heiminn. Gaiac 10 sem er Tokyo ilmurinn frá þeim situr hátt á lista þar.
Hvað er væntanlegt hjá Mikado?
Við erum í stöðugri þróun hvað varðar vöruúrval og erum alltaf að leita leiða til að stækka vörumerkið. Okkur langar að bjóða upp á meira af húsgögnum og sjáum fyrir okkur að gera það á næstu mánuðum. Eins erum við í viðræðum við handverksfólk í Japan sem vilja gjarnan selja vörur sínar á Íslandi.
En það sem er fyrst á döfinni væri nýji ilmurinn frá Le Labo, Thé Matcha. Hann kom út núna í byrjun október og er væntanlegur til okkar í vikunni (13.–14.okt). Ilmurinn hefur verið sérstaklega lengi í þróun og er byggður á japönsku matcha, eitthvað sem passar sérstaklega vel inn til okkar. Thé Matcha er lýst sem grænum og ferskum með nótum af fíkju og beiskri sítrónu og með vetiver og sedrus-við í grunninn.
Er eitthvað á ykkar persónulega óskalista?
Svo margt! Ég held að efst á lista sé Triangolo stóllinn frá Frama, ásamt fjölmörgu frá þeim. Eins erum við mikið fyrir stemningslýsingu og Alma veggljósið frá sænska merkinu Wästberg fullkomið til að ná henni fram, svo ætli það endi ekki hjá okkur fyrr en síðar!
Mæli svo innilega með því að heimsækja Mikado, sjón er sögu ríkari. Þangað til, þá mæli ég einnig með Instagramminu þeirra sem þið finnið HÉR – fyrir innblástur og fallegar myndir.
Takk fyrir spjallið boys!
@helgiomarsson

E35 - TÖKUM ÍBÚÐ Í HLÍÐUNUM Í GEGN

Skrifa Innlegg