fbpx

LÍFIÐ MITT MEÐ ADHD – LÍFIÐ NÚNA (LYFJALAUS) ..

Það eru rúmlega fjögur ár síðan ég skrifaði þessa grein – sem vakti heilmikla athygli heima og ég man að ég eyddi næstu mánuðum að svara skilaboðum við fólk sem tengdi við þessi skrif og mér fannst í rauninni allt í kjölfarið mjög jákvætt. Mér leið eins og ég hafi skrifað eitthvað sem gat hjálpað einhverjum. Það hefur mikið vatn runnið til sjávars síðan og mér datt í hug að skrifa smá niður, frá hvernig þetta var þá og hvernig lífið með ADHD er í dag.

Ég var semsagt á lyfjunum rítalín sem í byrjun voru algjörlega frábær og ég er þakklátur að hafa fengið að upplifa hvað það er að vera með fókus og að geta lesið bók án þess að detta út á hverri setningu. Það sem þó gerðist í áframhaldinu var að ég fékk magabólgur útaf lyfinu, sem var ömurlegt og sársaukafullt. Svo ég ræddi aftur við lækni um að prófa önnur lyf sem við náðum samt ekki. Lyfin hjálpuðu mikið en ég hef aldrei nokkurntíman viljað vera maðurinn sem er háður einhverjum lyfjum til að lifa. Svo í staðinn fyrir að prófa ný lyf ákvað ég að taka þann lærdóm sem rítalín hafi kennt mér og reyna að gera mitt allra besta til að vinna með það. Ég vildi ekki vera “fórnalamb” adhd heldur ákvað ég að reyna að dansa við það. Dance with the devil sjáið til. Á þessum tíma var Heiðar Logi, brimbretta legend og almennur snillingur farinn að miðla í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum hvernig hann tókst á við sínar raskanir og þá talaði hann til dæmis um hreint fæði, hann stundaði og stundar jóga og syndir um í ísköldum sjó á brimbretti. Ég gat ekki hætt að hugsa um þetta og það voru allskonar hlutir í kringum mig sem hafði þessi áhrif á mig. Að ég mundi gera allt sem ég gat til að náttúrulega dansa við adhd röskunina mína, vinna með og á móti henni, en ekki gefa henni stjórn. Mér finnst persónulega hugtakið “fórnarlamb” algjörlega glatað, og ég vil ekki vera fórnarlamb eins eða neins í lífinu. Vil bara vera nemandi lífsins, í léttum og erfiðum verkefnum.

Í lok 2015 og byrjun 2016, undir ári eftir að ég var greindur, þá var ég hættur að taka lyfin. Ég hugsa tilbaka með allskonar tilfinningar, ég man að ég var týpan sem nýtti adhd sem allskonar afsakanir, til að gera ekki eitthvað, eða whatever whatever. Ég get ekki munað ákveðin atvik, en ég man að þetta var svolítið orðinn partur af rútínu.

Að mínu mati geturu þjálfað heilann alveg ótrúlega. Þú getur sigrast á allskonar ef maður ræktar hausinn eins vel og maður getur. Eins og að gleyma, í dag gleymi ég bara svona öllu sem gerðist í gær, eða er mjög gleyminn almennt. En hvernig tókst mér að muna eftir lyklum? Símanum? Veskinu? Allskonar sem gerðist nánast daglega, einhvernveginn gleymdi ég einhverju eða símann inní ísskáp eða name it. Ég hreinlega þjálfaði hausinn á mér. Ég labbaði ekki útúr húsi án þess að double tékka – “Sími, veski, lyklar” tildæmis. Ég gleymdi því svo sannarlega oft, en því oftar sem ég gleymdi því meira mundi ég að gera það næst.

ADHD er jú röskun, en ég tel, af eigin reynslu, að hægt að lifa með henni án þess að vera taka lyf. Heiðar Logi veitti mér svo mikinn innblástur til að gera slíkt hið sama. Þegar ég eldaði mér hreinan og góðan mat leið mér eins og ég væri að gera eitthvað rétt fyrir sjálfan mig, fyrir líkamann og hausinn. Þetta hefur verið mitt síðan. Geri mitt besta til að elda og borða hreint. Ég sé adhd ekki sem neinn einasta erfiðleika í mínu lífi lengur, ég kynntist adhd dýrinu í hausnum á mér, veit hvenær það virkar, finn fyrir því þegar ég er í lélegri eða góðri stjórn og stilli mig inn af bestu getu til að rúlla upp deginum mínum. Sem ég geri yfirleitt.

Að vera fórnarlamb athyglisbrest er það versta sem maður gerir. Að vingast við hann, taka stjórn, læra og þjálfa hugann gerir undraverk. Einnig að nýta lærdóminn sem kemur frá því að vera tildæmis á athyglisbrestslyfjum. Ég gerði það allavega.

Svo það sem ég gerði og það sem virkar best fyrir mig:

  • Ég borða eins hreint og ég get –
  • Ég borða eins lítinn sykur og ég get (en missi mig svo sannarlega oft) –
  • Ég tek stærstu vesenin sem þessi röskun getur valið og skrifa niður hvað ég gæti gert til að laga þau. Eins og að vera með tékklista í hausnum. Tékklista í símanum mínum osv.
  • Ég hugleiði, tengi mig við hausinn á mér. Það hentar mér best að gera það í sturtu, vatnið og hljóðin hjálpa mér að ná fókus. Áður gat ég enganveginn hugleitt.
  • Þegar ég hjóla í vinnuna þá fer ég fljótlega yfir hvort það sé eitthvað sem ég þarf að muna á næstu dögum
  • Ef ég á að fókusera, vinna myndir, klára verkefni, þá þarf ég tónlist eða podcöst. Myndvinnsla þýðir að það er podcast í gangi eða tónlist. Það hentar mér ótrúlega vel.
  • Ég hætti að kenna adhd-inu um. Reyni að taka ábyrgð á öllu sjálfur og þá gera betur næst. Því það er mannlegt og ekki bara adhd að kenna.
  • Ég hætti að svona “acknowladge” athyglisbrestinn. Gaf honum smá kalda öxl, það hjálpar mér að einbeita mér að því sem málið snýst um.

Ég er ekki að alhæfa neitt hérna, ég er aðeins að deila með minni upplifun og reynslu.

Ég mæli þó hiklaust með því að prufa, því ég mundi aldrei vilja hafa hlutina öðruvísi.

@helgiomarsson á Instagram

ÉG HELD AÐ ÉG SÉ HÆTTUR AÐ BORÐA KJÖT ..

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Halla

    4. July 2019

    Sæll Helgi. Fróðlegt að lesa pistilinn um líðan þína með ADHD.
    Gangi þér og þínum vel.
    Kveðja til Kaupmannahafnar.
    Halla