fbpx

BURT MEÐ HÁRIÐ FYRIR NÝJA ÁRIÐ – ÁRAMÓTAUPPGJÖR

PERSONALTHOUGHTS

Áramótakveðja, smá hausverkur í ár. Ég er búinn að skrifa örugglega 12 mismunandi færslur varðandi árið mitt, hvernig ég við skilja við það og hvað gerðist og engin af þeim fæ ég mig til að pósta.

Ég vaknaði í morgun eins og það lægi ofan á mér steinn, ég var og er búinn að kvíða þessum degi því ég vissi að hann yrði erfiður. Síðasti dagur erfiðasta árs sem ég hef nokkurntíman gengið í gegnum. Árið sem ég knúsaði Hörpu vinkonu mína, hló með henni, knúsaði hana, kyssti hana og fékk að finna fyrir allri ástinni sem hún bjó yfir. Einnig árið sem ég þurfti að kveðja hana, sem hefur verið erfiðari reynsla en ég gæti útskýrt. 2015 er árið sem ég sat einn og hjálparlaus og varnarlaus í Kaupmannahöfn, á meðan allir vinir mínir sem ég elska svo heitt, voru vængbrotnir og gjörsamlega eyðinlagðir yfir þeim hræðilega atburð sem gerðist hér á Seyðisfirði í sumar. Einnig á meðan fjölskyldan mín gekk í gegnum erfiðan dauða afa míns, þá sat ég einn, langt í burtu og gat ekkert gert. Það er ein sú ömurlegasta tilfinning sem ég hef fundið fyrir. Þessir atburðir hafa haft áhrif á sálarlífið, sambandið mitt, vinnuna og svosem hverdaginn eins og hann leggur sig. Ég hef verið bensínlaus síðustu tvo mánuði og er ég búinn að vinna hart að því að vinna úr þeim málum og tilfinningum sem hafa verið eins og óstöðvandi óveður í hausnum á mér.

Ég er ótrúlega tilbúinn að takast á við nýtt ár. Ég ákvað í dag að raka af mér hárið, láta það ekki fylgja mér inní nýja árið, heldur bara byrja uppá nýtt. Engar áhyggjur, ekkert “new year new me” dæmi. Ég hef gert þetta áður, þar sem ég setti erfið sambandsslit bakvið mig og sleppti svolítið takinu með því að raka af mér hárið. Ég fann mig strax verða léttari í dag eftir að ég rakaði það af og var örlítið meira tilbúinn í nýja árið. Með ekkert hár og hausnum og steinninn í maganum hægt og rólega að hverfa. Ég hef einnig ákveðið að segja upp vinnunni og byrja nýtt ævintýri – professionally sem er ótrúlega spennandi. Ég ætla mér að byrja að hlakka til þegar ég vakna á morgun, hlakka til óvissunnar sem nýja árið bíður uppá. Ég vil helst ekkert vita, ég vil bara byrja uppá nýtt í þetta skipti.

Það sem ég tek með mér frá árinu 2015, er það að við verðum að passa uppá sjálf okkur. Það hefur aldrei verið mér skýrara. Gefum okkur rétt á öllum þeim tilfinningum sem koma upp en hundsum þær ekki. Leitum okkur aðstoðar ef þess þarf, það er enginn skömm í því. Höfum alltaf eitthvað á dagatalinu til að hlakka til. Ræktum okkar eigið sjálfstraust, og hin allra stærsta klisja (en sú sannasta), eltum draumana okkar. Hættum að sætta okkur við eitthvað sem gerir okkur sátt og stefnum á draumana okkar. Við eigum það fokking skilið.

Vonandi hefur árið ykkar verið gott, og komandi árið muni verða ennþá betra.

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur!

hairoff2

JÓLIN Á SEYÐISFIRÐI

Skrifa Innlegg

3 Skilaboð

  1. Eva

    6. January 2016

    ***lots of love***

  2. Pattra S.

    7. January 2016

    <3

  3. Halla

    7. January 2016

    Gleðilegt ár. Njóttu lífsins.